Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 38
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Vélaverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30, nýjar pústþjöppur (túrbó) af algengustu gerðum auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.

Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

Mælaborð, byggð á rafeindatækni, eiga það til að bila. Þess eru dæmi að mælaeiningin kosti 150-200 þús. kr. hjá viðkomandi bílaumboði. Næstum undantekningarlaust er hægt að fá gert við mælaborð fyrir brot af því sem nýtt kostar. Vaka í Súðarvogi tekur að sér milligöngu um viðgerð á mælaborðum. Vaka annast einnig milligöngu um viðgerð á ABS-tölvum og tölvum fyrir ,,AirBag".


Áður en þú kaupir varahlut í sjálfskiptingu eða í amerískan bíl skaltu kanna verðið hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (482 2858)) Það gætir sparað þér 50% af því verði sem bílaumboð setur upp.

241
Nissan DoubleCab titrar
Spurt: Er í vandræðum með 35" breyttan (hækkaður 3" á grind) Nissan Diesel DoubleCab árg.'04 vegna titrunar í stýri sem lagast ekkert þótt hjól séu jafnvægð eða víxlað á milli fram- og afturhásinga. Á einu verkstæði var mér sagt að þessir bílar þyldu bara ekki að vera hækkaðir upp; grindin gliðnaði bara og stanslaust þyrfti að bæta við skinnum í stýrisendana til að lágmarka misslit á framdekkum. Er þetta rétt?

Svar: Áður en því er slegið föstu að bíllinn þoli ekki upphækkun, en alls konar kjaftagangur og slúður er alltaf í gangi um jeppabreytingar, væri ráð að kanna hvort stimpill í bremsudælu að framan kunni að vera fastur - það er algeng ástæða titrunar eins og þú lýsir. Það er ekki sama hvernig fjórhjóladrifsbílum er breytt. Upphækkun getur þýtt að sérstakra styrkinga sé þörf til að varna því að undirvagn aflagist við álag. Það gildir um margar tegundir pallbíla og jeppa (m.a. Hilux) en hefur lítið með upphaflegan styrk þeirra að gera. Því á að fela fagmönnum, sem hafa tæknilega þekkingu og tæki til að vinna verkið sómasamlega, jeppabreytingar sem innifela inngrip í burðarvirki.

Rav4: Xenon ökuljós
Spurt: Er með Rav4 '06 árgerð sjálfskiptan. Hef verið að velta fyrir mér skipta út perunum í bílnum fyrir Philips BlueVision. Hafði þá hugsað mér að setja þær í þokuljósin líka. Hvernig fer ég að þegar ég skipti um peru í þokuljósunum, er það mikið vesen ? Má nota sömu perur í þokuljósin og í aðalljósin. Hvernig er best að þrífa blöðin á rúðuþurrkinum?

Svar: Þú færð Xenon-sett (spenna og perur) hjá Poulsen, Stillingu o.fl. Það á ekki að vera mikið mál að skipta um perur í þokuljósunum en þau þarf að losa úr stuðaranum aftanfrá. Þú getur ekki notað sömu perur í þokuljósin og í aðalljósin - þokuljósin eru dreifiljós sem lýsa stutt framfyrir en því meira til hliðanna. Í þeim eiga að vera sérstakar perur til að þau verði ekki of skær. Margir rugla saman dreifiljósum, sem sitja neðarlega, og kösturum sem eru í sömu hæð og ökuljós eða ofar og tengdir þannig að þeir lýsa einungis með háa geisla ökuljósanna. Þurrkublöð má þrífa með ísóprópanóli eða kveikjarabensíni. Nota má yngingarefni (Son of a Gun eða sambærilegt) á blöðin eftir þrif til að gera þau léttari/hálli.

Toyota Avensis: Biluð inngjöf
Spurt: Ég er með Avensis-vandamál sem umboðið hefur ekki getað leyst. Um er að ræða Avensis 2000 árg. '98. Þegar bílnum hefur verið ekið í um 30 mín eða svo á bensíngjöfin það til að festast uppi. Þá er það til ráða að svissa af bílnum og á hann aftur og þá losnar inngjöfin. Ég tek eftir því að ef bíllinn er ekki í gangi( þ.e ekki svissað á hann), er bensíngjöfin hjólliðug, en um leið og svissað er á virðist hún vera aðeins stíf þ.e ekki alveg stiglaus. Hvað er til ráða?

Svar: Þessi bensíngjöf er rafvirk. Það þýðir að ekki er barki frá pedala í inngjafarspjald. Pedallinn er þrepalaus rofi tengdur með rafleiðslum rafsegulmótor sem knýr inngjafarspjaldið. Stundum bilar rofinn vegna óhreininda. Reynandi er að taka rofann/pedalan úr og hreinsa hann með blæstri. Dugi það ekki þarf að endurnýja hann. Um leið ætti að þrífa inngjafarspjaldið. Eftir að loftbarkinn hefur verið losaður frá er auðveldast að þrífa spjaldið og kverkina með isoprópanóli (ísvara) og tannbursta.

ÁBENDING: Auðveldari gangsetning dieselvélar
Ýmsar ástæður geta gert gangsetningu kaldrar dieselvélar erfiða: Rafgeymir nær ekki að snúa vélinni nógu hratt, forhitun getur verið biluð eða óvirk að hluta, spíssar lélegir, þjöppun ófullnægjandi o.fl. Stundum má auðvelda gangsetningu, þar til viðgerð hefur farið fram, með því að forhita oftar, t.d. þrisvar í röð, áður en startað er.

240
Isuzu D-Max fastur í gír

Spurt: Leita til þín vegna Isuzu D-Max, pallbíls af ágerð 2006. Þetta er sjálfskiptur bíll með Diesel-vél. Nú þegar honum hefur verið ekið tæplega 110 þús. k. festist sjálfskiptingin í 4 H. Eftir viðgerð á umboðsverkstæði var skiptingin í lagi í viku en festist þá í hlutlausum. Á verkstæðinu var sagt að panta þyrfti stykki sem hefði brunnið ásamt einhverju fleiru. Eftir að þeir varahlutir komu hefur bíllinn verið hjá verkstæðinu í hálfan mánuð, kostnaður kominn í 200 þús. kr. og ekkert bólar á lausn vandamálsins. Hvað telur þú vera til ráða?

Svar: Viðbrögð verkstæðisins benda til skorts á þekkingu til að leysa málið. Nú veit ég ekki hvar þú ert á landinu en ég myndi ráðleggja þér að leita til Jeppasmiðjunnar á Ljónstöðum við Selfoss. Þeir eru sérfræðingar í sjálfskiptingum.

Terracan: Ójafn lausagangur
Spurt: Ég á Hyundai Terracan árg. '06 Diesel. Þegar ég stöðva bílinn og læt hann ganga lausagang þá verður gangurinn ójafn, eins og hann flökti upp og niður. Á verkstæði var mér sagt að hugsanlega gæti verið um stíflaðan spíss að ræða. Ég hef sett sérstakt efni í eldsneytið sem á að hreinsa en án árangurs. Þetta kemur einungis fram í lausagangi en ekki í akstri. Verð ég að láta endurnýja spíssana eða er ef til vill einhver önnur lausn vænlegri?

Svar: Hugsanleg orsök er bilaður þrýstingsjafnari á bakrennsli forðagreinarinnar (RPCV = Rail Pressure Control Valve) en í þessum loka er kúla sem á það til að festast en þá dregur niður í vélinni - kúlan losnar aftur þegar þú eykur inngjöfina. Það er yfirleitt hægt að hreinsa þennan loka þannig að kúlan leiki laus. Þetta getur líka verið vegna lélegra rafspíssa. Framtak/Blossi í Garðabæ gæti átt þá til en þú mátt gera ráð fyrir að þeir séu ekki gefnir. Prófaðu að láta athuga þennan loka fyrst. Á þessari 4ra sílindra dieselvél er innsprautun frá forðagrein (Common rail) en ekki olíuverk.

Chevrolet Blazer: Sjálfskipting biluð
Spurt: Erum í vandræðum með Blazer-jeppa S-10 af árg. '95. Hraðamælirinn hagar sér undarlega og skiptingin tekur ekki 1. gír nema þegar mælirinn ,,dettur" inn. Eftir það er skiptingin eðlileg þar til næstu dyntir hefjast. Veist þú hvað gæti valdið þessu og gæti þetta verið ávísun á mikla og dýra viðgerð?

Svar: Hraðamælirinn er rafeindabúnaður sem fær boð frá sérstökum sendi á aftarlega á sjálfskiptingunni. Sendirinn stýrir hraðamælingunni og um leið hraðaastigum í sjálfskiptingunni. Að öllum líkindum er þessi sendir sambandslaus eða bilaður. Sendinn færðu sennilega hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (eða þeir panta hann fyrir þig) og færð hann settan í hjá Bifreiðastillingu á Smiðjuvegi í Kópavogi (Pétur Oddgeirsson). Þetta á ekki að vera neitt stórmál en gefur samt tilefni til að láta athuga vökvann á skiptingunni.

Nissan Patrol: Ljósafestingar og olíusmit
Spurt: Veistu hvar ég fæ festingar fyrir aukaljós á Patrol? Ég er að leita að einföldum festingum en ekki þessum stóru grindum sem þekja hálfan bílinn og kosta upp undir 160 þús. kr. Ennfremur leita ég að ökuljósum fyrir H3-perur (halogen) og eru meðalstór, líkt og Hella 1000 var? Mér virðist sem allt sé orðið svo tröllvaxið í dag. Bláar eða hvítar perur? Í síðustu viku sá ég olíuleka út frá vinstra liðhúsi. Daginn eftir fór ég með bílinn á smurstöð og var sagt að þarna væri farin pakkning fyrir innan liðhúsið og hana þyrfti að endurnýja en ég þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur þar sem margir lítrar af smurolíu væru á drifinu. Engu að síður er ég búinn panta tíma hjá bílvirkja. Sá telur að endurnýja þurfi spindillegur sem fáist einungis hjá umboðinu. Bíllinn minn er árg. '07, ekinn 70 þ. km og að öðru leyti í mjög góðu lagi. Ég hef fylgst með skrifum þínum um kælivökvaskipti. Hvar fæst kælivökvi á Patrol, annarstaðar en í umboðinu?

Svar: Þú gætir ef til vill notað festingar fyrir vinnuljós. Mig minnir að ég hafi séð þau hjá Poulsen. Þeir eiga jafnframt flestar gerðir af ljósastæðum og perum. Poulsen getur átt eða pantað fyrir þig spindillegurnar, einnig er Kistufell á Tangarhöfðanum að færa sig upp á skaftið í slithlutum á hagstæðu verði, m.a. í Patrol. Poulsen eiga mismunandi gerðir af kælivökva (og Halvoline-smurolíu, sem er í sama gæðaflokki og Mobile One ) en á verði sem þolir dagsljós. Það er góð pólitík að bregðast tafarlaust við olíuleka, margar alvarlegar bilanir byrja með olíusmiti.

ÁBENDING: Blá ljós/hvít ljós: Kosturinn við bláu ljósin (xenon) er að þau lýsa miklu betur en hvít (halogen). Ókosturinn er að xenon-perur innihalda einungis gas en ekki glóðarvír. Halogen-ökuljós hitna og bræða af sér snjó. Það gera Xenon-ökuljós ekki því í þeim er einungis xenon-gas en ekki glóðarvír.

239
Trassaskapur sem reynst hefur íslenskum bíleigendum dýr

Spurt: Þú hefur sagt að skipta eigi reglulega um kælivökva og bremsuvökva. Af hverju er þetta yfirleitt ekki gert á smurstöðvum og bílaverkstæðum nema þegar eitthvað bilar? Er þekking til staðar á smurstöðvum til að gera þetta rétt og til að endurnýja hráolíusíu í Diesel-bíl?

Svar: Fram að 2005 ráðlagði ég bíleigendum að ganga eftir því að kæli- og bremsuvökvi væri endurnýjaður reglulega á 3-5 ára fresti (eins og næstum undantekningarlaust var tekið fram í handbókum bíla). Síðan 2005 hef ég bent bíleigendum á að kynna sér fyrirmæli um endurnýjun þessarrar vökva í handbók viðkomandi bíls vegna þess að sumir bílaframleiðendur hafa, með tímanum, farið að nota og mæla með sérstökum vökvum sem eiga að endast lengur (ég hef ákveðna fyrirvara gagnvart endingunni enda eiga þeir það sameiginlegt að vera dýrir).

Ástæður þess að þetta viðhald var (örugglega) trassað, en kostnaður við vökvana var innifalinn í greiðslum fyrir þjónustuskoðun hjá flestum umboðum (og jafnvel greiddur fyrirfram af bílaframleiðanda), eru að mínu mati eftirfarandi:
Takmörkuð tækniþekking stjórnenda hjá bílaumboðum. Fæst þeirra áttu tæki til að framkvæma þessa endurnýjun vökva (sjálfskiptingarvökvi meðtalinn).
Almennur trassaskapur og skortur á verkstjórn á bílaverkstæðum (ABS-kerfi er t.d. tímafrekara og flóknara að lofttæma en kerfi án ABS).
Óheiðarleiki; - auðvelt að rukka fyrir vökva sem ekki voru látnir í té.
Aðhaldsleysi: Ekkert opinbert eftirlit með verklagi bílaverkstæða.

Ég átti þess kost 1998 að fylgjast með viðhaldsþjónustu Suzuki-bíla í Svíþjóð og Noregi. Eftir viðtöl við bílvirkja hérlendis kom í ljós að hér voru heddpakkningar farnar eftir rúmlega 100 þús. km. (óþekkt í Svíþjóð/Noregi) og bremsubúnaður yfirleitt ónýtur í afturhjólum eftir 5 ár (óþekkt í Svíþjóð/Noregi). Einu skýringarnar sem ég gat fundið, en þetta átti við fleiri tegundir en Suzuki, var að þessi reglulega endurnýjun vökva væri ekki framkvæmd hérlendis. Með tímanum hef ég orðið sannfærður um að sú var ástæðan - en þetta er erfitt að sanna. Hins vegar er það þekkt staðreynd að kælivökvi súrnar með aldri og tærir þá hluti úr áli (hedd) og að bremsuvökvi rakamettast með tíma sem veldur m.a. pyttatæringu sem byrjar í dælum lengst frá höfuðdælu/forðabúri. Auk þess er rakamettun hættuleg (bremsur geta ,,dottið" af bíl við að hitna) og því öryggismál sem skoðunarstöðvar hefðu átt að sinna!

Varðandi smurstöðvar þá hefur hlutverk þeirra verið að breytast með því að hætt er að smyrja slithluti nema í jeppum og vörubílum. Sumar eru reknar af réttindamönnum. Flestar framkvæma ákveðið forvarnarviðhald með eftirliti. Þær eru misjafnlega búnar tækjum, m.a. tækjum til endurnýjunar vökva. Fjölgun Diesel-bíla krefst þess að á smurstöð sé þekking til að endurnýja eldsneytissíur. Á sumum smurstöðvum starfa ófaglærðir (án þess að það sé mælistika á færni þeirra) og sumir starfsmenn eru jafnvel á verkamannalaunum (sem er mat á færni þeirra)! Mat á þjónustu þessarra fyrirtækja er eitt af því sem bíleigandi þarf að kynna sér sjálfur, m.a. af orðspori. Ég tel að þjónusta vel rekinna smurstöðva (oftast þær sem lengst hafa verið í sömu eigu) sé jafnvel á hærra plani tæknilega en þjónusta margra verkstæða bílaumboða og giska á að ein af ástæðunum þess sé sú að eigendur smurstöðva stjórna þeim en stjórnendur bílaumboða hérlendis eru yfirleitt ekki tæknimenntaðir.

VIÐBÓT: Tekið skal fram að sl. ár hafa fengist mjög þægileg og einföld tæki til að lofta bremsur (með og án ABS). Þeim er komið fyrir ofan á forðabúrinu þrýstingur valinn og hvert hjól loftað. Með þessum búnaði getur einn bílvirki loftað allar hjóldælur án aðstoðar. Þessi tæki og annan sérhæfðan búnað fyrir bílaverkstæði hefur Poulsen ýmist átt eða pantað.

ÁBENDING: Óblandaður kælivökvi frá þekktum framleiðendum er yfirleitt af þrenns konar gæðum, miðað við hve tæringarvörn gagnvart áli er mikil, þ.e. innan við 3 ár, 3-5 ár og meiri en 5 ár. Litur vökvans er ekki öruggur mælikvarði á tæringarvörn heldur upplýsingar á umbúðum. Mest frostþol næst yfirleitt með 33% blöndun með vatni. Bremsuvökvi samkvæmt staðli DOT4 hentar á öll bremsukerfi. (DOT 5.1 er sami og DOT4 en dýrari og á að þola meiri hitnun. DOT5 er fokdýr sílikonvökvi og oftast óþarfur sé viðhald fullnægjandi.

238
Ford 6,7, - nýtt og betra?
Spurt: Komin er ný og breytt 6,7 lítra Diesel-vél í amerísku Ford pallbílana. Hverjir eru helstu tæknilegir eiginleikar nýju vélarinnar í samanburði við þá 6, 4ra lítra PowerStroke sem hún leysir af hólmi?

Svar: Ég hef skoðað málið og m.a. reynsluekið nýjum Ford F-250 SuperDuty af árgerð 2011 með þessari nýju vél. Grein um hann mun væntanleg birtast á www.ib.is strax og tími gefst til að raða henni saman en 2010/2011-árgerðin er fyrsti Ford-pallbíllinn sem ég tel vera meiri fólksbíl en trukk. Samt sem áður hefur hann alla bestu eiginleika trukks í meiri mæli - og er það afrek út af fyrir sig! Sparneytnin mun einnig koma mörgum verulega á óvart. Greinin um helstu tækniatriði nýju Ford Diesel-vélarinnar er of löng til að birta hér. En hana má nálgast á Vefsíðu Leós (efst á aðalsíðu). Til að undirstrika að um Ford-hönnun og framleiðslu sé að ræða nefnist nýja 6,7 lítra vélin Scorpion Diesel en ekki PowerStroke.

Get ég notað steinolíu?
Spurt: Hver er munurinn á gasolíu og steinolíu? Sé leyfilegt að nota steinolíu sem eldsneyti fyrir Diesel-vél er óhætt að nota hana sem eldsneyti fyrir Diesel-vél með innsprautun frá forðagrein (Common rail)?

Svar: Mesti munurinn á gasolíu og steinolíu, samkvæmt gæðastöðlum, er brennisteinsinnihald. Steinolía inniheldur meiri brennistein og þess vegna stafar svo gríðarlegri loftmengun af flugi. Sú steinolía, sem t.d. N1 selur hérlendis, er þotueldsneyti (Jet Fuel Class A) eins og sjá má á vefsíðu þess. Á meðan brennisteinsafleiður eru ekki mældar í útblæstri Diesel-bíla fæ ég ekki séð að neitt banni bíleiganda að nota steinolíu sem eldsneyti frekar en á hitablásara. Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum á eldsneyti fyrir farartæki að flokkast sem brennisteinslaust frá 1. janúar 2005. Tilgangurinn er sá að draga úr loftmengun því nota má 3ja efna hvarfa í útblæstri Diesel-véla sé brennisteinn innan við 0,05% í eldsneytinu. Mismunandi eiginleikar gasolíu eða steinolíu hafa því ekkert með innsprautukerfið að gera heldur hvarfa. Brennisteinsrík steinolían hentar ekki fyrir hvarfa. Frá og með 2007 eru hvarfar í útblásturskerfum Diesel-véla og því verður að nota gasolíu sem eldsneyti fyrir þær. Færa má rök fyrir því að steinolía henti betur sem eldsneyti á eldri Diesel-bíla án hvarfa því brennisteinninn sér um að smyrja innsprautukerfið hvort sem það er olíuverk eða innsprautun frá forðagrein. (3 efni hverfast í hvarfanum með hjálp hvata, sem oft er platína; kolmónoxíð, kolvatnsefni og niturefnasambönd).

ÁBENDING: Nú hækkar sól á lofti og hiti inni í bíl getur orðið óþægilegur fyrir börn og málleysingja. Nú skyldi kanna ástand sólhlífa og festa þeim á aftari hliðarrúður til að draga úr geislahitun. Hafa ber í huga að sjálfvirk loftkælikerfi eins og nú eru algeng í nýrri bílum (kerfi með frystiþjöppu), auka eldsneytiseyðslu um 15-25%. Eyðsla bensínbíls, sem eyðir 9,5 lítrum, getur því aukist í 12 lítra sé loftkælingin notuð í stað sólhlífa.

Ábending: Stykki sem oft gleymist að þrífa
Við vorhreingerningu bílsins virðast margir gleyma stýrishjólinu og gírhnúðnum. Sé dregið yfir þessa snertifleti með volgri tusku bleyttri í sápuvatni rekur marga í rogastans. Óhreinindin, sem geta safnast fyrir á þessum hlutum, geta verið með hreinum ólíkindum, jafnvel hjá þrifnasta fólki. Það gleymir að fleiri koma við sögu en það sjálft og þetta er kjörin gróðrarstía fyrir ýmislegt sem viðkomandi vill helst ekki vita af (frekar en það sem leynist á lyklaborði tölvunnar sem þrifið var fyrir 6 mánuðum).

237
Réttur vökvi á rafstýrisdælu
Spurt: Veist þú hvaða vökva á að nota á stýrisdælu í Opel Astra 2000 árg? Ég held að stýrisdælan sé rafknúin.

Svar: Notaður er sérstakur grænn glussi, staðalnúmer 90544 116. Þú átt að fá hann hjá Poulsen, N1 eða umboðinu. Þegar þú spyrð um þennan vökva skaltu taka fram að hann sé fyrir rafknúna stýrisdælu (rafstýri) eins og í VW Polo og Skoda Fabia en ekki venjulegt vökvastýri.

Toyota Auris/Yaris: MM-skipting, handskipting og Nissan CVT-skipting
Spurt: Myndir þú ráðleggja mér að kaupa Toyota Yaris/Auris með sjálfskiptingu sem þeir nefna MMT en ég er að velta fyrir mér kaupum á 3-4 ára bíl? Tek ég meiri áhættu með þá sjálfskiptingu heldur en handskiptingu í bíl sem væri jafn mikið ekinn? Ég hef slæma reynslu af CVT-skiptingu í Toyota Prius - eru þær skiptingar (CVT) öruggari í Nissan?

Svar: Ég tel að bílvirkjar, sem þekki til sjálfskiptinga, séu mér sammála um að það sé villandi, ef ekki rangt, að telja MM-gírskiptingu í Toyota-fólksbíl vera sjálfskiptingu. Að mínu mati væri réttara að nefna hana gírkassa með sjálfvirkri, tölvustýrðri kúplingu. Ég myndi ekki ráðleggja nokkrum að velja MMT-gírskiptingu í stað hefðbundinnar handskiptingar. Eftir að hafa skoðað þennan búnað tel ég MMT-gírskiptingu lítt traustvekjandi og yrði ekki hissa þótt hún ætti eftir að verða uppspretta margra bilana og vandræða. Varðandi þrepalausu CVT-sjálfskiptinguna í Prius mun það vandamál hafa tengst galla í rafkerfi í eldri árgerðum sem ráðin hefur verið bót á fyrir mörgum árum. Ástæða er til að benda á að allir nýir Toyota-bílar eru seldir með 5 ára ábyrgð.
Ég hef ekki séð tæknilegan samanburð á þrepalausu CVT-skiptingunum í Toyota og Nissan. Nissan hefur lengst allra bílaframleiðenda lagt áherslu á að þróa CVT enda eykur sú tækni sparneytni bíls um 10% miðað við 6 gíra sjálfskiptingar af fullkomnustu gerð; - atriði sem vegur stöðugt þyngra með strangari reglum um mengunarvarnir og mætir auknum kröfum um sparneytni. Eftir endurbætur mun bilanatíðni CVT-skiptinga í Nissan-bílum, af árgerð 2006 og yngri (samkvæmt upplýsingum Consumer Report í Bandaríkjunum), hafa minnkað umtalsvert og munu þær nú þola samanburð í því efni við það sem best gerist hjá hefðbundnum sjálfskiptingum.

,,Air-bag-tölvan" biluð: Gjaldþrot?
Spurt: Tölvan fyrir öryggispúðana (Air-bags) er biluð í Opelnum mínum. Ég hef heyrt að hún kosti meira en gangverð bílsins hjá umboðinu! Ég hafði samband við Varahlutalagerinn í Kópavogi (696 3737), en þeir senda vélartölvur út til viðgerðar, en var sagt að þeir tækju ekki að sér viðgerðir á tölvum sem stýrðu öryggisbúnaði og að það hefði eitthvað með ábyrgð (hugsanlega skaðabótaskyldu) að gera. Eru einhverjir aðrir sem taka að sér milligöngu um viðgerðir á svona búnaði?

Svar: Vaka hf. í Súðarvogi hefur sent tölvubúnað fyrir vélar, skiptingar, ABS og öryggispúða(Air-bags) utan til viðgerðar (þeir hafa einnig haft milligöngu um viðgerðir á mælaborðum og sparað fólki með því stórfé). Eftir að nýir eigendur tóku við IH/BL hefur verið boðið upp á ódýrari rafeindabúnað (skynjara, tölvur o.fl.) frá eftirframleiðendum og jafnframt viðgerðarþjónustu á tölvum. Ég ráðlegg þér að kynna þér þjónustuna hjá þessum tveimur fyrirtækjum. Enn og aftur sé ég ástæðu til að minna á að hvorki ABS-læsivörn né Airbag-öryggispúðar eru skyldubúnaður í bílum. Skoðun án athugasemda fæst því möglunarlaust að því tilskildu að viðeigandi viðvörunarljós lýsi sstöðugt svo lengi sem búnaðurinn er óvirkur.

Viðbót frá lesanda:
Sæll Leó! Ég var að lesa nýjustu skrif þín og þar á meðal varðandi bilaða airbag tölvu (Airbag ECU) í Opel Vectra. Í fyrra var ég með bilaða airbag tölvu í Peugeot 307 2002 og átti hún að kosta vel á annað hundrað þúsund í umboðinu. Ég leitaði vítt og breitt á Netinu og fann aðila, sem gerði við tölvuna og kostnaðurinn var sára lítill. Vil ég því deila þessum upplýsingum: airbagsforsale.com.
(Upplýsingar um banka og bankareikning seljanda): Sort code 60-11-06 Account type CBFM SME
Number 16158873 Bank name National Westminster Bank
Currency GBP Branch name HINCKLEY
Alias AIRBAGSFORSALE.COM L Paper statement produced 14/11/2008
Short name AIRBAGSFORSALE.COM L BIC NWBKGB2L
IBAN GB21NWBK60110616158873

ÁBENDING: Þegar þú fyllir á bensíngeymi bíls skiptir máli að fara sér að engu óðslega. Bensín er rokgjarn vökvi. Sé dælt með hámarksafköstum (gikkurinn spenntur til fulls) frussar vökvinn og hvirflast; uppgufun verður meiri en sé hægar dælt. Dæmi valið af handahófi: Sé 50 lítrum dælt á bíl og 5% magnsins rýkur út í loftið greiðir þú fyrir 50 lítra en einungis 47,5 lítrar bætast á geyminn (þú tapar um 600 kr. miðað við verðlag í apríl/maí 2011)!

236
Kostir ,,Boxarans"
Spurt: Ég á Subaru Outback Wagon 2.5 sjálfskiptan af árgerð 2005. Hvers vegna er Subaru með flata vél og hverjir eru helstu kostir og gallar svona vélar? Gæti ég minnkað eyðslu bílsins með einhverju móti?

Svar: Boxara-vél er með láréttum gagnstæðum sílindrum. Bílar með flata vél hafa skarað fram úr. Nefna má Tucker Torpedo, VW-bjölluna, Porsche 356 og 911, Panhard, Chevrolet Corvair, Subaru o.fl. Flatar vélar hafa verið í rútum til að auka rými og stöðugleika og í mótorhjólum (BMW). Framleiðendur flugvélamótora, svo sem Lycoming, hafa náð ótrúlegum árangri með þróun boxarans. Að öðru jöfnu er flata vélin um helmingi lægri en upprétt vél eða hallandi (V). Þyngdarpunktur þessa þyngsta stykkis bíls/mótorhjóls/rútu er því neðar þannig að flóttaafl hefur minni áhrif á stöðugleika: Þetta er eðlisfræðin sem Sir. Isaac Newton setti fram sem undirstöðulögmál aflfræðinnar - í þessu samhengi snýst það um veggrip; því lægri sem þyngdarpunktur bíls er yfir jörðu, því minna hallar hann í beygjum þannig að auka má veggrip, viðspyrnu og stöðugleika.
Sigurganga fjórhjóladrifins Subaru Impreza í rallakstri er ekki tilviljun: Með flatri vélinni er þyngdarpunktur bílsins rétt ofar hjólnöfum og stöðugleikinn eftir því. Flugvél með eina flata vél hefur þyngdarmiðju nálægt láréttu plani, bæði langsum og þversum, sem gefur henni einstaka eiginleika.
Sé um einhverja galla að ræða, sem fylgja boxaranum sérstaklega, væri það hætta á skemmdum sé sett of mikil smurolía á vélina.
Þú getur tryggt hámarkssparneytni með því að nota kerti sem eru einu númeri heitari en þau sem framleiðandinn gefur upp og með því að hafa 32 psi í dekkjunum. Að öðru leyti gildir umhirða og reglulegt eftirlit.

Sígild gangtruflun í Toyota
Spurt: Toyota 4Runner með 4ra sílindra bensínvél er að stríða mér: Hann hefur gengið ágætlega þar til fyrir nokkrum mánuðum að vélin tók upp á því ganga óreglulega heit. Þetta hefur verið að aukast smám saman og jafnframt hefur eyðslan verið að aukast. Ég endurnýjaði kerti, kertaþræði og bensínsíu en gangurinn batnaði ekki við það. Hvað ætti að gera næst í stöðunni?

Svar: Áður en þú ferð út í dýrari aðgerðir svo sem að láta kóðalesa vélkerfið skaltu athuga kælikerfið. Í vatnsganginum er hitaskynjari sem stýrir bensínblöndunni. Vanti kælivökva á kerfið, t.d. 1,5 - 2,0 lítra, hættir þessi skynjari að virka eins og hann á að gera (gengur þurr) og blandan verður of sterk eftir að vélin hefur hitnað; gangurinn versnar og eyðslan eykst. Farðu yfir kælikerfið og lagfærðu leka sem kann að vera fyrir hendi.

Pajero 2,8: Nýjar dísur leysa málið
Spurt: Ég á Pajero 2,8 Diesel árg.1997 ekinn 177 þús. Vélin gengur ekki á öllum fyrst eftir gangsetningu að morgni. Ég endurnýjaði glóðakertin og eldsneytissíuna en það leysti ekki vandamálið. Ég er búinn að setja alls konar bæti- og hreinsiefni saman við smurolíu og eldsneytið en án árangurs. Sé útihitastig 15°C eða vélin volg dettur hún í gang og virkar eðlilega. Eyðslan hefur þó aukist. Hún er 18-20 lítrar en var áður 12-14 lítrar. Nú er ég ráðalaus og þarf á aðstoð að halda.

Svar: Úr því þú gast endurnýjað glóðarkertin geturðu endurnýjað dísurnar í spíssunum. Þú færð þær fyrir 4000 kr. stk. hjá Framtaki/Blossa. Eftir að nýjar dísur og nýjar spíssaþéttingar eru komnar í ætti gangsetning og eyðsla að verða eðlileg. Oft þarf ekki að stilla opnunarþrýsting spíssanna. En bendi eitthvað til þess þá er lítið mál að kippa þeim úr og fá þá stillta.

ÁBENDING:
Flestir nýrri bílar eru með ökuljós sem hafa glæra plasthlíf í stað glers. (Þetta er m.a. öryggisatriði því gler getur slasað fólk). Gallinn við plasthlífina er að hún verður smám saman mött vegna áreitis og algengt að við það minnki lýsing (mæld í lx) um 30% en þá fær viðkomandi bíll athugasemd við skylduskoðun. Hjá Poulsen fæst efni sem gerir plasthlífar ökuljósa glærar á ný. Þetta getur sparað kaup á fokdýrum ljóskerjum, - ekki óalgengt að þau kosti 50-200 þús. kr.

235
Viðvörunarljós í Hilux

Spurt: Ég er á 2007 árg. af Toyota Hilux, með TurboDiesel-vél og sjálfskiptingu. Bíllinn er lítið breyttur (33"), ekinn 120 þús. km. Búið er að endurnýja spíssa. Ég var að aka í sandi í lága drifinu án sérstakra átaka þegar viðvörunarljós kviknaði í mælaborðinu (,,A/T-oil-temp") og slokknaði svo eftir 10 sek. eða svo. Ekkert óeðlilegt var merkjanlegt við bílinn. Viku seinna kviknaði og slokknaði þetta sama ljós nokkrum sinnum í venjulegum akstri á jafnsléttu á þjóðvegi. Í handbókinni er sagt að þetta ljós vari við ofhitnun sjálfskiptingarinnar. Hvað er þetta alvarlegt mál og er mér óhætt að nota bílinn svona?

Svar: Reglan er sú að taka enga áhættu þegar viðvörunarljós lýsir. Pantaðu tíma hjá Toyota-verkstæði sem fyrst. Hins vegar er ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessu ljósi svo lengi sem það slokknar í akstri og ekki sjást merki um olíuleka undir bílnum. Í sjálfskiptingunni er hitaskynjari sem stjórnar þessu ljósi. Oftast er það skynjarinn sjálfur sem er bilaður. Hann kostaði um 10 þús. kr. síðast þegar ég vissi og fljótlegt að skipta um hann og vökvann um leið. Þá ætti þetta vandamál að vera úr sögunni. Séu einhver merki um leka, sem er sjaldgæft, er ástæða til að láta athuga það sérstaklega.

Ný kerti í gamlan risa
Spurt: Ég er með Chevy Van af ágerð 1975, sjálfskiptur með 350 V8-bensínvél. Nú er hann farinn að ganga leiðinlega. Mér var bent á að líklega væri komið að því að endurnýja kertin. Þeir hjá N1 segjast eiga kerti í þetta gamlan bíl og virðast vera á nokkuð sanngjörnu verði, rúmar 700 kr. stykkið. Og þá er það spurningin: Verð ég ekki að stilla bilið á nýju kertunum og hvað á það að vera mikið? Hvað annað ætti ég að huga að í þessu sambandi?

Svar: Þessi kerti hjá N1 eru af tegundinni Autolite. Bilið á þeim á að vera 1,5 - 1,6 mm. Ef við gefum okkur að kertaþræðirnir séu í lagi þarftu ekki að gera annað en að þrífa útfellingar af töppunum innan í kveikjulokinu. Sé mikil útfelling á töppunum bendir það til þess að þræðirnir séu lélegir. Hjá N1 eiga að vera til amerískir kertaþræðir frá STANDARD á skikkanlegu verði.

Eðalvagn en eyðslufrekur
Spurt: Ég er að velta fyrir mér kaupum á Porsche Cayenne S af árgerð 2004. Veistu hvernig þeir hafa reynst hérlendis varðandi bilanir og viðhald? Verð á svona bíl er 3,5-4,2 mkr. Þar sem ég bý fyrir norðan er ég að velta fyrir mér hvort ég muni lenda í einhverjum vandræðum með þjónustuna. Er þetta ef til vill vonlaust dæmi?

Svar: Þetta eru mjög vandaðir en eyðslufrekir bílar (sem endursöluvirðið endurspeglar), enda efnismiklir og hlaðnir þægindabúnaði. Bensínbílarnir hafa komið mjög vel út með lága bilanatíðni. Aksturseiginleikar og torfærugeta Porsche Cayenne eru í sérflokki. Ég á ekki von á öðru en að þjónustan sé ekki lakari fyrir norðan en hér á höfuðborgarsvæðinu. Porsche Cayenne með V6-TurboDiesel-vél er hins vegar með sparneytnustu lúxusjeppum. Af þeirri ástæðu og að hann kom ekki á markaðinn fyrr en 2009 árgerð er endursöluverð hans miklu hærra.

ÁBENDING
Sumarið er komið og framundan eru bílferðir um landið. Nú er ráð að huga að þrýstingi í varadekkinu og að öll áhöld séu í bílnum til að skipta megi um hjól. Í bílabúðum og bensínstöðvum eru til útdraganlegir felgulyklar fyrir algengustu stærðir. Með þeim má losa rær/bolta sem venjulegir lyklar ráða ekki við. Margir nýir bílar, t.d. BMW, eru án varahjóls (er þinn einn þeirra?). Innan í felgunum er sérstakur meiður eða rim sem gerir kleift að aka á loftlausu dekki á takmörkuðum hraða. Í handbókinni er sagt hve langt má komast á þeim búnaði.

234
Biluð Mazda
Spurt: Ég er með Mözdu 323F, 1500 sjálfskipta, ekinn 116 þús. Árg. 2001. Hann stóð ónotaður nokkuð lengi fyrir nokkrum árum en hefur gengið vel nema 1. gírinn hefur verið lengi að taka við sér og stundum hefur komið svona yfirsnúningur áður en hann grípur. Nú hefur bæst við að vélin er kraftlaus sé hægt á og vill drepa á sér. Við inngjöf tekur hún við sér en þá gýs upp hitalykt. Standi vélin í 10 mín. fer hún í gang eðlilega. Ný kerti breyttu engu.

Svar: Varðandi sjálfskiptinguna: Láttu endurnýja vökva og síu í skiptingunni. Um leið þarf að kanna stirða loka í ventlaboxinu. Talaðu við þá hjá Smurstöðinni Klöpp. Varðandi vélina: Lýsing þín bendir til þess að fleira en eitt atriði gæti valdið þessu (hluti af dæminu getur verið vegna sjálfskiptingarinnar). Í fyrsta lagi skaltu útiloka rakamettun í eldsneyti með því að setja góðan slurk af ísvara (isopropanól) í bensíngeyminn og endurnýja bensínsíuna. Lagist ástandið ekki við ísvarann berast böndin að toppstöðunemanum (Crank sensor) sem er í haldara við neðri trissuna framan á vélinni. Sennilega færðu hann hvergi nema í umboðinu (prófaðu samt að tala við Samúel hjá Vöku). ,,Hitalykt" er ráðgáta. Hverfi kælivökvi af kerfinu getur ástæðan verið lek heddpakkning - ef ekki getur hvarfakúturinn verið stíflaður(hann færðu fyrir þriðjung hjá BJB í Hafnarfirði). Þeir á Klöpp geta fundið út úr því fyrir þig (væri súrefnisskynjari bilaður eða háspennukefli myndi bilunarljósið lýsa).

Um dekkjaval
Spurt: Langar að spyrja hvort þú haldir að muni í eyðslu á Cherokee jeppa við skipti á dekkjastærð 245/65 yfir í 275/65?

Svar: Tæplega. Eyðslan ræðst ekki af breidd sólans nema að litlu leyti. Breiðari dekk (275 mm) auka stöðugleika á þurru undirlagi en hafa meiri tilhneigingu til að fljóta í vatnsveðri sé munstur ekki því mun betra. Í þessu tilfelli mun þvermál dekksins aukast um 39 mm. Þetta er kraaftmikill jeppi þannig að hærra drifhlutfall gæti minnkað eyðslu. Þó er ekki á vísan að róa með það því tegund dekkja, bygging belgs og munstur sóla ræður miklu og því mjög erfitt að svara svona spurningu af einhverju viti: Örskorin heilsársdekk frá BFGoodrich, Toyo, (Benni) Michelin (N1), Bridgestone (Betra grip), Mastercraft (Sólning) hafa minnst vegviðnám og þannig mest áhrif á sparneytni. Verðið er misjafnt. Síðast þegar ég kannaði verð reyndust bestu kaupin, að mínu mati, í Toyo.

HiLux-bremsur
Spurt: 91 árg. af HiLux á 38". Bremsurnar að aftan fá ekki nógan þrýsting. Prófaði að fjarlægja hleðslujafnarann en ekkert breyttist. Handbremsan virkar einnig illa. Bremsurnar taka eðlilega en ná ekki að læsa, heldur ekki handbremsan. Allir stimplar í dælum eru í lagi og enginn leki, nýir borðar að aftan og fullloftað og hert út í. Ég er ráðþrota.

Svar: Hleðslujafnarinn á að minnka þrýsting í framdælum og flytja hann á afturdælur til að diskabremsurnar að framan læsist ekki við neyðarstöðvun. Hleðslujafnarinn hefur ekki verið í lagi, án jafnarans minnkar þrýstingur í afturdælum - settu nýjan hleðslujafnara og sjáðu hvort það lagar ekki ástandið. Undarlegt þetta með handbremsuna - ertu viss um að vírarnir séu ekki fastir í börkunum, fastir kjálkar og togbúnaðurinn fyrir handbremsuna rangt saman settur - (þetta er draslbúnaður í Toyota) geta skálarnar verið gatslitnar (rifnar)?

Hvaða vökvi á að fara á kúplingu?
Spurt: Gamall MMC Lancer. Kúplingin tekur of ofarlega. Hvaða vökvi er notaður á hana og hvernig er hún lofttæmd?

Svar: Bremsuvökvi (DOT3). Loftnippill er á þrælnum ofan á kúplingshúsinu. Loftað eins og bremsur (með aðstoðarmanni).

233
Þurrkur á BMW
Spurt:
BMW 318 '03 stöðvar þurrkurnar efst uppi - þær setjast ekki lengur. Hvað veldur þessu?

Svar:
Jarðsamband hefur rofnað á fjaðurrofa á þurrkumótornum.

Range Rover Diesel
Spurt: Ég er með Range Rover DSE árg. '98 sem búið er að aka rúmlega 200 þús. km. Hann hefur fengið góða umhirðu og reynst ágætlega. Diesel-vélin er 2,5 lítra. Getur þú sagt mér hvaða Diesel-vél þetta er?

Svar:
Á þessum tíma voru ólíkar 2,5 lítra Diesel-vélar í Land Rover og Range Rover. Land Rover er með sína eigin vél (4ra sílindra) en Range Rover með 6 síl. vél frá BMW; 150 hö sem þykir frekar slöppp en sparneytin. Í henni er tímareim sem vissara er að passa vel upp á.

Benz-lyklavandræði
Spurt: Er í vandræðum með fjarstýringuna í Benz E220 árg. '94. Ég get hvorki opnað né lokað með fjarstýringunni. Þetta byrjaði þannig að rauða ljósið á fjarstýringunni fór að lýsa stöðugt þar til rafhlaðan tæmdist. Ég get fengið nýjan lykil með flögu hjá Öskju en finnst hann svakalega dýr. Veistu um einhverja hagkvæmari leið út úr þessum ógöngum?

Svar: Guðmundur í Nesradíó (Síðumúla 19) bjargar þessu fyrir þig.

MMC Galant: Sjálfskipting óvirk
Spurt: Ég á Mitsubishi Galant árg.'99 með V6-vél og sjálfskiptingu með ,,SportMode" en henni má jafnframt handskipta. Á leið upp brekku á þjóðvegi heyrðist hár smellur og eftir það virkar skiptingin ekki í neinum gír. Þegar bíllinn var dreginn á milli staða prófaði ég að setja í D og sá þá af ljósunum í mælaborðinu að hún skiptir sér milli gíra þegar ákveðnum hraða er náð og skiptir sér niður þegar bremsum er beitt. Olían á kvarðanum er eðlileg á litinn og engin brunalykt af henni. Hvað getur hafa komið fyrir og hvert leitar maður með svona viðgerð?

Svar: Af lýsingunni að dæma giska ég á að eitthvað hafi brotnað milli aflskiptis (túrbínu) og skiptingar, t.d. öxull sem knýr megindæluna. Sé það raunin er ekki um dýra viðgerð að ræða, þegar sjálfskipting á í hlut, og hafandi í huga að ástand vökvans bendir ekki til slits. Bifreiðastilling í Kópavogi og Jeppasmiðjan við Selfoss eru sérhæfð í viðgerðum á sjálfskiptingum.

Vatnsleki í VW Turan
Frá lesanda: Ég er búinn að vera að leita að leka á VW Turan sem ég á. Vatn lak farþegameginn á gólfið þannig að bleyta safnaðist undir mottuna. Ég lét verða af því að opna hlíf í hvalbaknum aftan við vélina og gat þá smeygt hendinni inn í rýmið og hreinsaði út lauf og óhreinindi og leitað um leið að niðurföllum sem ég fann loks framan við gormaturnana og hreinsaði laufblöð þar líka. Ég var ekki sáttur við að þetta væri orsökin, og þegar ég setti hlífina í aftur ásamt þéttilista og plasthlíf sem liggur upp að frammrúðunni sá ég orsökina. Plasthlífin var laus frá frammrúðunni þannig að allt vatn sem kom á rúðuna og jafnvel toppinn lak undir hlífina og hluti af því beint ofan í loftopið fyrir miðstöðina og niður í gólf í gegnum hana. Á plasthlífinni er 2 niðurföll sem eru beint yfir niðurföllunum framan við gormaturnana. Þessa plasthlíf þarf að kítta fasta með límkítti.

Veistu hvað það kostar slitni tímareimin?

Sparaðu með eigin rúðuvökva
Algengt er að 5-10 lítrar af rúðuvökva fylgi akstri í þéttbýli þegar salt er borið á. Kostnaðurinn getur því orðið umtalsverður þótt fæstir hugsi út í það. En draga má verulega úr þessum kostnaði með lítilli fyrirhöfn: Keyptu 1 lítra af ódýrasta frostlegi sem fæst á bensínstöð. Blandaðu helmingnum af frostleginum, 0,5 l, (hálfslítra-kókflaska) út í 5 lítra hreinan brúsa. Bættu út í hann 5 matskeiðum af uppþvottalegi og fylltu svo brúsann með köldu vatni og hristu vel. Þá hefurðu 5 lítra af jafn góðum, ef ekki betri, rúðusprautuvökva en þú færð á næstu bensínstöð fyrir margfalt hærra verð.
Frostþolið er um 10 °C.

231
Fastir ventlar - algeng orsök gangtruflana
(Þessi pistill var sendur öllum sem eru á póstlistanum. Sjá skráningu efst til hægri á aðalsíðu).
Á höfuðborgarsvæðinu, eðlis síns vegna, er mörgum bílum ekið köldum, til og frá vinnu, jafnvel í lestum. Vegna þess hve hægt er ekið og jafnvel stutt í einu, nær vélin oft ekki að hitna eðlilega. Þetta á einkum illa við bensínvélar. Þrátt fyrir alla tæknina valda þessar sérstöku aðstæður því að bensínvélin er lengur að hitna en ef ekið væri við betri aðstæður og á eðlilegum hraða - vélin er lengri hluta aksturstímans á sterkari blöndu (innsogi) en æskilegt væri. Meira sót myndast í brunahólfum og hætt við að sót nái að setjast á hausa og leggi útblástursventla, jafnvel í þeim mæli að þeir festist opnir eða haldi ekki þéttu. Oft eru fyrstu merki um að útventlar séu að festast mismunandi mikið ventla-tikk-hljóð fyrst eftir að bensínvél er gangsett köld. Smám saman þróast gangtruflun sem versnar; vélin verður afllaus og eyðslan eykst mælanlega. Það sem gerir þessa algengu gangtruflun erfiðari viðfangs er að fastir ventlar skila ekki bilunarkóða nema í einstaka tilfellum þegar fleira kemur til (Misfiring). Í verstu tilfellum getur þjappan horfið af vélinni - og hún snýst þá í starti eins og tímareim væri slitin.

Þegar fastir ventlar orsaka gangtruflun er hætt við að staðið sé rangt að bilanagreiningu: Í stað þess að byrja bilanagreiningu á að þjöppumæla vélina kalda að morgni (en þá leynir sér ekki séu ventlar fastir) er oftar byrjað á að endurnýja kerti, kertaþræði, síur, hreinsa inngjafarkverk, jafnvel skipta um dýra skynjara. Árangurinn er stigvaxandi viðgerðarkostnaður, án árangurs, þar til búið er að útiloka allt nema fasta ventla. Sú viðgerð, en oft verður ekki hjá því komist að losa heddið af vélinni, verður langdýrust - en þá er heildarkostnaður jafnvel kominn í hundruð þúsundir króna vegna þess að byrjað hefur verið á öfugum enda!

Ákveðin vörn gegn föstum ventlum er fólgin í notkun full-syntetískrar vélarolíu (5w-30).Hún er vissulega dýrari en t.d. hálfsyntetísk, en hefur ýmsa efnatæknilega kosti umfram. Full-syntetíska smurolíu má nota 15 þúsund km. eða eitt ár. Einn af mörgum kostum full-syntetískarar smurolíu er að hún getur girt fyrir uppsöfnun sóts. Hjá helstu seljendum smurolíu eru til alls konar bætiefni til að blanda í smurolíu til að losa (þegar) fasta ventla - losunin getur tekið 7-10 daga. Nefni sem dæmi ,,Prolong Engine Oil Stabilizer", sem ég hef prófað með árangri, en það fæst m.a. hjá Vöku í Súðarvogi. Bætiefni, sem ætluð eru til blöndunar í bensín, geta hreinsað spíssa. Þau eiga það hins vegar sameiginlegt að brenna með eldsneytinu í brunahólfunum og ná því aldrei til útblástursventlanna og duga því ekki til að losa þá. Að vísu má nota sérstakt efni sem úðað er inn í inngjafarkverk á vélum sem eru með einn eða tvo spíssa í soggrein eða kverk.

ESP = Skrikvörn
Spurt: Ég á Suzuki Grand Vitara Lux. V6. Í mælaborðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað komist að því hvað þetta sé. Til hvers er þessi takki?

Svar: ESP = Electronic Stability Program er sjálfvirkt tölvustýrt stöðugleikakerfi sem notar breytur frá flóttaaflsnema, hallanema, hraðanema, inngjafarstöðunema, stefnunema og ABS-hjólnemum (en þeir mæla snúningshraða hvers hjóls) til að tryggja öryggi bíls með því að taka í taumana, t.d. þegar bíllinn byrjar að skrika til hliðar vegna hálku eða þegar bíl er ekið of hratt í beygju. Kerfið beitir ABS-bremsunum, inngjöf og rafstýri (sé það fyrir hendi) til að rétta kúrsinn. Með takkanum geturðu aftengt þetta kerfi, t.d. vegna spólvarnar en hún getur verið til óþurftar við ákveðnar aðstæður, t.d. sitji bíll fastur.

Eyðslumæli þarf að forrita
Spurt: Ég var að lesa grein á www.leoemm.com þar sem þú lýsir 3ja ára reynslu af Chevrolet Captiva. Þar talar þú um meðaleyðslu um 10 l. og undir 9 l. á þjóðvegi. Mín reynsla er sú að meðaleyðslan sé um 13,5 l. og á þjóðvegi fer hún ekki undir 10,3 lítra. Þessar mælingar eru gerðar frá fyllingu til fyllingu á tank. Eyðslumælir bílsins sýnir alltaf 12-13,5 lítra eyðslu. Eru einhverjar breytingar sem ég get gert til að draga úr eyðslunni?

Svar: Um er að ræða bíl kunningja míns sem reynst hefur mjög vel. Eyðslumælinn þarf að forrita fyrir rauneyðslu eða meðaleyðslu. Forritunin er sýnd og skýrð í handbókinni á sama stað og sýnt er hvernig áttavitinn er réttur af. Þegar mælirinn er stilltur á meðaleyðslu sýnir hann um 10 lítra í Captiva Diesel. Ég hef veitt því athygli að dekkjagerð og þrýstingur í dekkjum hefur mælanleg áhrif á eyðslu þessa jepplings. Með 36 pund (um 2 bör) í öllum dekkjum nærðu mestri sparneytni. Smurolían hefur einnig áhrif á eyðslu. Bestur árangur næst með syntetískri Valvoline 5w30 (Poulsen).

Loftflæðiskynjari eða raki í bensíni
Spurt: Ég er í vandræðum með Opel Corsa árg.´99 Málið er að þegar vélin er köld höktir hann mjög mikið eins og hann fái ekki nóg bensín. Ég þarf að stoppa í nokkrar mín. til að komast af stað. Þetta er bara þegar hann er kaldur.
Vélarljósið lýsti öðru hverju svo ég fékk verkstæði Friðriks Ólafssonar til að lesa bilunarkóðana. Kóði var fyrir súrefnisskynjarann og endurnýjaði ég hann og kertin um leið. En bilunin er enn til staðar. Geturðu aðstoðað mig í þessu máli?

Svar: Muni ég rétt er lofmagnsskynjari við báðar vélargerðirnar í Corsa. Til öryggis skaltu setja ísvara í bensínið, einn 125 ml brúsa af isoprópanóli áður en þú ferð í aðrar framkvæmdir. Bilunin lýsir sér eins ónýtir kertaþræðir eða bilaður loftmagnsskynjari. Þessi skynjari gefur stundum kóða og stundum ekki - ekkert er á hann að treysta við kóðalestur. Loftmagnsskynjari er frekar dýrt stykki sem frumbúnaður en umboðið, IH/BL, hefur selt loftmagnsskynjara frá öðrum framleiðanda fyrir mun lægra verð.

Vantar gorma í Toyota
Spurt: Ég er með Toyota Corolla 1.8 4WD árg. 1997 og vantar í hann gorma að aftan. Hefur þú einhverja hugmynd um hvar ég fæ þá?

Svar: Þeir hafa verið til í umboðinu og kostuðu engin ósköp. Þú getur einnig fengið þá notaða hjá partasalanum (Jamal) í Flugumýri í Mosfellsbæ en hann sérhæfir sig eingöngu í Toyota og er yfirleitt með hagstæðasta verðið.

Óeðlilegt slit í framhjólslegum?
Spurt: Ég er með 1999 árgerð af Ford Explorer með 4.0 V6-vél. Driflokur eru handvirkar og dekk af upprunalegri stærð. Vandinn er sá að los myndast alltaf í nafarlegunum að framan báðu megin, þó meira bílstjóramegin. Sé hert upp á legunum er komið los í þær eftir 7-8 þús. km. Ég endurnýjaði legurnar bílstjóramegin og herti þær samkvæmt bókinni en los var komið í þær tæpu ári seinna. Er þetta eitthvað þekkt og algengt í þessum bílum? Hvað getur valdið þessu?

Svar: Þetta er þekkt í fjórhjóladrifnum bílum með Dana-liðhásingu að framan. Í þínu tilfelli er hásingin af gerðinni Dana/Spicer 35-IFS. Vegna þess að hún er samsett um lið fjaðrar hvort hjóla sjálfstætt. Til að mæta inn og út hreyfingu sem sveifla hjólanna myndar er dragliður á öxlinum farþegamegin. Óeðlilegt slit í framhjólslegum er vegna lakrar hönnunar, stundum vegna ofherslu, stundum vegna ónýtra hjöruliðskrossa eða rangrar hjólastillingar (millibil á þessum bíl að vera jafnt, þ.e.s á núllinu). Dragliðurinn hægra megin (farþegamegin) á það til að festast en við það geta hjóllegur slitnað. Oft má sjá á dekkjum hvort vísun þeirra sé rétt eða röng. Slitni framdekk meira á innri jaðrinum er bíllinn of útskeifur. Slitni þau meira á ytri jaðrinum hann of innskeifur (sú hlið dekks, sem bíllinn ryður á undan sér, slitnar meira).

Range Rover: Úr 17 lítrum í 12,5
Spurt: Eyðsla Range Rover SE 1997 með 4.0 V8-bensínvél hefur verið að aukast smám saman úr 12,5-13 í 17 lítra á sl. 6 mánuðum og fylgdi leiðinlegur gangur í vélinni sem breyttist ekkert með ísvara. Fyrir skömmu kviknaði ,,Check Engine-ljósið." Kóðalestur skilaði ,,Misfiring." Eitt af 4 háspennukeflum reyndist ónýtt. Ég skipti sjálfur um keflið og kertin um leið. Gangurinn varð eðlilegur og eyðslan stórminnkaði. En bilunarljósið lýsir áfram. Mér var sagt að það myndi slokkna væri rafgeymirinn aftengdur í 2-3 mín en það breytir engu! Hvað veldur?

Svar: Ný 4ra lítra V8-vél tók við af eldri 3,9 lítra í Land Rover (Discovery og Range Rover) frá og með árgerð 1996. 4ra lítra vélin er með annað vélstýrikerfi sem er frábrugðið því eldra, m.a. á þann hátt að bilunarkóðar verða ekki afmáðir úr minni né bilunarljós slökkt nema með OBD-lesara eða greiningartölvu.

Toyota Corolla: Bensíneyðsla aftur eðlileg
Spurt: Ég er með gamlan sjálfskiptan Toyota Corolla með 1800vél. Bíllinn hefur fengið reglulegt þjónustueftirlit og aldrei bilað þótt 150 þús. km séu að baki - þ.e. fyrr en nú að mér finnst eyðslan hafa aukist verulega og jafnframt er komin gangtruflun sem lýsir sér þannig að þegar inngjöf er sleppt og hægt á, t.d. farið inn á afrein af Vesturlandsvegi, hikstar vélin og drepur á sér. Hún fer strax í gang aftur og gengur eðlilega þar til aftur er hægt á. Þetta gerist aldrei þegar vélin er köld. Bilunarljós lýsir ekki og engin aukahljóð fylgja þessu.

Svar: Lýsing þín bendir ákveðið til að bilun sé í svokölluðum ,,hringrásar-loka" (EGR) sem veitir hluta af súrefnissnauðum útblæstri aftur inn í brunahólfin til að lækka brunahitann (veikir blönduna) og minnka mengun í útblæstri vélarinnar. Oft er þessi loki (leggur hans) stirður af sóti eða sótúfellingar á keilu koma í veg fyrir að hún setjist þétt - lokinn lekur - blandan verður of veik fyrir heita vélina þegar inngjöf er sleppt. Oft dugar að losa EGR-lokann, sem þekkist af því að hann er í laginu eins og hattsveppur, af og þrífa þar til hann er laus og liðugur og helst þéttur. Framtakið er nokkurs virði því nýr EGR-loki kostar sitt. Þetta er einföld aðgerð sem flest lagtækt fólk getur leyst sjálft af hendi. Öll verkstæði geta leyst þetta mál á 2 klst.

Ábending: Mismunandi eldsneyti - mismunandi eyðsla?

Að undanförnu hef ég verið að prófa bensín. Bíllinn er handskiptur station-bíll með 1600-vél. Bílnum, sem er í topplagi, er ekið 5 daga vikunnar frá Suðurnesjum á ákveðinn stað í Rvk. og til baka. Hleðsla bílsins er alltaf sú sama og veður hefur verið svipað. 25 ml af ísvara er blandað í hverja tankfylli. Eftirfarandi er niðurstaða minna mælinga (dagsetning á við enduráfyllingu):
A. 24/2/11: N1, 98 oktan, 40 lítrar. 434 km. Eyðsla 9,21 l/100 km.
B. 2/3/11: Skeljungur, 95 oktan, V-Power, 43 lítrar. 491 km. Eyðsla 8,75 l/100 km.
C. 8/3/11: Orkan, 95 oktan, 47 lítrar. 461 km. Eyðsla 10,2 l/100 km.
Mestur munur er 14% á þessum 3 mælingum - minnsta eyðslan mælist með V-Power. Mælingum verður haldið áfram.

Skoda Fabia: Vatnsleki: 2 möguleikar
Það eru talsverð brögð að því að farþegar í Skoda Fabia verði að vera í stígvélum eigi þeir að komast á leiðarenda án þess að vökna í fæturna. Bílarnir leka vatni inn í farþegarýmið og hefur gengið misjafnlega að finna orsök lekans. Algengt er að leki inn í bílinn að framanverðu þannig að pollur myndist á gólfinu framan við farþegastólinn. Ástæðan er sú að niðurföll sem eru undir inntaksristinni á hvalbaknum stíflast af laufi og óhreinindum þannig að vatn nær að leki inn í inntak miðstöðvarinnar og á þnnig greiða leið inn í farþegarýmið. Nokkuð er algengt að pollur myndist á gólfinu fyrir framan aftursætið. Ástæða þess leka er að þéttingu vantar í afturhurðirnar á milli neðri hluta stálhlífar og hurðarrammans á bak við hurðarspjaldið. Þetta er sýnt á meðfylgjandi myndböndum: http://www.fabia-vrs.com/technical-info/door-carrier-repair/ Ath: Þegar hurðaspjaldið er losað af þarf að losa skrúfur sem eru á 4 stöðum á bak við plastlok, sem þarf að pilla varlega laus með skrúfjárni, efst og við armhvíluna. Armhvílunni er rennt aftur í falsi til að losa hana - eins gott að gera þetta varlega og í réttri röð til að brjóta ekki hurðarspjaldið. Notið svart boddíkítti, t.d. TigerSeal sem fæst hjá N1.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR