Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 36
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Vélaverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30, nýjar pústþjöppur (túrbó) af algengustu gerðum auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.

Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld:


Áður en þú kaupir varahlut í sjálfskiptingu eða amerískan bíl skaltu kanna verðið hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (482 2858)) Það gætir sparað þér 50% af verði hlutarins hjá umboði eða öðrum varahlutasölum.

219
Biluð CVT-skipting í Nissan Murana
Spurt: Ég á 2007 árg. af Nissan Murana jepplingi sem er fluttur inn notaður frá U.S.A. Vélin er 3,5 lítra Hann er með þrepalausa CVT-sjálfskiptingu. Þegar ekið er á 20-50 km hraða heyrist hringl-hljóð sem hverfur með auknum hraða. Hljóðið breytist ekki þótt fært sé úr D í N á ferð. Hjá umboðinu hér hef ég fengið staðfest að þetta hljóð komi frá skiptingunni. Þeir segjast aldrei hafa fengið bíl með þessi einkenni áður og segja að eina ráðið sé að endurnýja skiptinguna. Kostnað áætla þeir á bilinu 600 þús. og upp í eina milljón kr. eftir því hvort keypt er notuð, endurbyggð eða ný skipting. Telur þú að eitthvað annað en skiptingin geti orsakað þetta aukahljóð?

Svar: Þar sem bíllinn er fluttur inn notaður getur verið álitamál varðandi verksmiðjuábyrg. En mér kemur spanskt fyrir sjónir hafi þeir hjá umboðinu ekki kynnst svona bilun áður. Það vill svo til að frá og með árgerð 2006 neyddist Nissan til að framlengja ábyrgð á þessum CVT-skiptingum úr 3 í 5 ár vegna látlausra kvartana. Í Bandaríkjunum selt varla handskiptur bíll og gallarnir í CVT-skiptingum voru í nánast öllum Nissan-bílum sem þar voru seldir. Nissan hefur notað vökvaknúna CVT-skiptingu síðan 2001 (en hún svipuð þeirri sem er í vélsleðum). Helsti kostur hennar átti að vera aukin sparneytni. Hún hefur verið til stöðugra vandræða frá upphafi og þurft að endurnýja hana í tugþúsundum bíla á ábyrgðartíma, sumar oftar en einu sinni. Gera mætti langan lista yfir þær bilanir sem hafa einkennt þennan vandræðagrip. En ég bendi áhugasömum á á ,,gúggla" (Nissan CVT problems). En sértu sérlega heppinn getur þetta aukahljóð komið frá hitahlíf sem er á milli vélar og púströrs eða frá lausri stýrisvél. Annars blasir við himinhár viðhaldskostnaður eins og hjá öðrum Nissan-eigendum með þessa misheppnuðu CVT-skiptingu.

Þvermál dekkja reiknað út
Spurt: Getur maður reiknað út þvermál hjóls, t.d. hvort það sé 30 eða 31 tomma út frá stærðarmerkingu dekks, t.d. 225 65 R17?

Svar: Ef til vill ekki upp á millimetra en - já - það má fara nálægt því. Þegar þú horfir á hjólið sérðu að þvermálið er hæðin á dekkinu frá jörðu upp á felgubrún að viðlögðu þvermáli felgunnar og hæð dekksins frá felgubrún og upp á sóla. Sem, sagt: Þvermál felgunnar + tvisvar sinnum hæðin er þvermál hjólsins. 225 65 R17 þýðir að breidd sólans er 225 mm. 65 þýðir að hæð dekksins er 65% af breidd sólans og R17 þýðir að þetta sé radíaldekk fyrir 17tommu felgu. Hæðin er 225 x 0,65 = 146,25 mm. Felgan er 17 x 25,4 = 431,8 mm. Þvermál hjólsins er því summan af 432,8 og tveimur hæðum (146,25 x 2 = 292,5 mm) = 432,8+292,5 = 725,3 mm. Í hverri tommu eru 25,4 mm. 725,3/25,4 = 28,5. Það þýðir að þetta er 28,5 tommu dekk. Hver sem stærðarmerkingin er (upp að ákveðnum mörkum) er formúlan alltaf sú sama; þú margfaldar breidd sólans, með prófíl dekksins í prósentustigum/100 til að fá hæðina, margfaldar hana með tveimur og bætir við þvermáli felgunnar í mm.

ÁBENDING:
Nýir bílar eru með 3ja ára verksmiðjuábyrgð eða 100 þús. km. eftir því hvort kemur fyrr. Undantekning eru m.a. Toyota-bílar sem eru með 5 ára ábyrgð. Lög nr. 48/2003 um neytendavernd segja (27. gr.): ,,Sé hlut ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti skal kaupandi hafa 5 ára frest (frá afhendingardegi) til að tilkynna um galla. Hafi bíll verið í þjónustueftirliti á ábyrgðartíma og bili gírkassi, drif eða vél að útrunninni 3ja ára ábyrgð má ætla að 5 ára ábyrgðin gildi um þessa hluti. Neytendastofa gefur frekari upplýsingar.

Benz 280E 1994: Óútreiknanlegar gangtruflanir
Spurt:
Ég hef verið í vandræðum með Benz-bílinn minn s.l.einn mánuð.Þetta byrjaði reyndar fyrir sunnan þegar dóttir mín hafði bílinn á meðan ég var erlendis í byrun sept. Fæ svo skilaboð frá henni um að einhverjar gangtruflanir eigi sér stað í bílnum.Hún var að keyra í Keflavík og allt í einu byrjuðu þessar gangtruflanir og á endanum drapst á vélinni á ferð en hún kom honum aftur í gang og inná bensínstöð, sennilega haldi að bensínið væri að klárast sem var nú ekki en dældi samt á hann meira og lét athuga olíuna. Allt í fína með það dæmi. En á leiðinni aftur heim til sín í Garðinn þá skeður þetta aftur,gangtruflanir, drapst á vélinni en hún kom honum aftur í gang. Kærastinn hennar sem er nú reyndar mikið í því að gera við alskonar vélar og er nú mikill áhugamaður um vélar og BMW-maður tók að sér að athuga hvað væri að. Komst að því að kertin voru orðin léleg, athugaði ýmislegt annað þar á meðal hvort einhver sogleki væri, úðaði með startúða yfir allt en fann ekkert eða sá ekki neitt athugavert við það dæmi. Ég bað hann þá um að koma bílnum til Rvk. og á verkstæði. Þar fór bíllinn í bilanagreiningu og komust þeir að því að kertin voru orðin léleg, settu ný kerti og einnig komust þeir að því að loftflæðiskynjarinn var ónýtur. Annað sáu þeir ekkert athugavert. Nú og dóttir mín náði svo í bílinn til þeirra og greiddi talsvert fyrir viðgerðina en á leiðinn suður í Garð byrjaði bílinn að haga sér undarlega þegar hún hægði á sér, þegar þurfti að stöðva við umferðarljós, með vélina í lausagangi þá byrjaði vélin að hökta. Ég tók svo eftir þessu þegar ég kom til landsins 19. sept, vélin gekk svona upp og niður í lausagangi, snúningsmælirinn fór upp í 1100-1200 á meðan og líka þegar ég lagði bílnum en þetta stóð skamman tíma þar til vélin gekk eðlilega á ný.
Bílvirki sem ég fékk til að skoða vélina heyrði óeðlileg hljóð og ójafnan gang og að vélin hökti þegar bílnum var bakkað.
Nú og ég settist uppí bílinn og byrjaði á því að láta hann ganga í smátíma og eftir ca. 2 mín þá byrjaði vélinn hreinlega að ganga hraðar af sjálfri sér, rauk uppí 4500 og datt svo niður í núllið og svona gekk þetta í 2-3 skipti en hætti svo. Ég ákvað þá að taka rúnt á bílnum,vélin átti það líka til áður en ég fór með bílinn á verkstæði að drepa á sér á hægri ferð eða þegar ég hægði á og tók beygju. Hún rauk reyndar alltaf strax í gang aftur. Nú virðist enginn vita hvað þetta geti verið. Hvert er þitt álit?

Svar: Að öllum líkindum er mænustrengurinn (vélar-lúmmið) ónýtur. þ.e. raflagnakerfi sem flytur rafeindaboð í báðar áttir og er fjölvirk og gagnvirk umferðarmiðlun fyrir rafeindaboð til og frá hinum ýmsu einingum í stjórnkerfum bílsins. Lítur oftast út sem breiður borði myndaður af samanfestum einangruðum leiðslum. Þetta er nokkuð algengur veikur punktur í þessum (galla-árgerðum) af Benz-fólksbílum. Mænustrengurinn kostar (2011) um 280 þús. kr. í umboðinu.

218
Cherokee: Mismunandi Diesel-vélar
Spurt: Ég er að velta fyrir mér kaupum á eldri eða nýrri gerð af Cherokee með Diesel-vél. Eldri bíllinn er með 4ra sílindra vél en sá yngri með V6-Diesel-vél. Ég hef verið varaður við þessum vélum, var m.a. sagt að 4ra sílindra Diesel-vélin væri framleidd af Fiat. Þekkir þú reynsluna af þessum vélum og þjónustu? Veistu hvað eyðsla Cherokee hefur verið með Diesel-vél?

Svar: Elstu Cherokee eru með Diesel-vélar framleiddar af VM Motori á Ítalíu (án afskipta Fiat). Fyrir 4 árum keypti GM þetta fyrirtæki og innlimaði í Detroit-Diesel. VM-Motori-vélarnar hafa reynst vel, þær eyða 7-9 lítrum eftir bíl/og akstursmáta/notkun. VM-Diesel-vélar eru t.d. í eldri Hyundai-jepplingum, breskum Ford Sierra og Scorpio, breskum leigubílum, Jeep Cherokee og öðrum Jeep frá 1995. Vélaverkstæðið Kistufell á Tangarhöfða hefur átt varahluti í þessar vélar auk umboðsins. Öðru máli gegnir um V6 Benz-Diesel-vélarnar af fyrstu kynslóð (sama vél og í Benz/Dodge Sprinter sendibílnum). Þær hafa reynst illa. Einungis fáir Cherokee voru seldir hérlendis með henni. Frá og með árgerð 2008 hafa Jeep Cherokee, Commander og Liberty verið fáanlegir með nýrri 3ja lítra V6 turbo-Diesel-vél frá Benz sem reynst hefur allt annað og betra ,,tóbak." Aflið er 218 hö og togið rúmlega 500 Nm við 1600 sn/mín. Sjálfskipting er 5 eða 6 gíra. Þar sem þessi vél er jafnframt í Benz-fólksbílum má fá aflaukandi aukabúnað við hana. (Til samanburðar má hafa að Toyota LandCruiser 3,0 Diesel er 173 hö).

Mun koldíoxíðlosun hækka verð jeppa?
Spurt: Nú er að vænta verulegrar hækkunar á verði nýrra jeppa og bifreiðagjalda. Hvaða jeppa, þ.e. fjórhjóladrifsbíl af meðalstærð með háu og lágu drifi og Diesel-vél, myndir þú mæla með?

Svar: Lága drifið skilur að jeppa og jeppling. Fyrr en seinna verða bifreiðagjöld miðuð við magn koldíoxíðs í útblæstri og því tek ég það með í reikninginn. Ég er á því að slík skattlagning sé svo arfavitlaus að hún verði örugglega tekin upp hérlendis. Stærstu mengunarvaldar veraldar, Bandaríkin, Kína og Indland ætla ekki að aðhafast neitt í þessa veru. Skattlagnin þessara losunarefna hérlendis mun, að mínu áliti, hafa álíka áhrif á loftslag eins og ein hundsmiga í Atlantshafið! En af því hún er nógu fráleit passar hún inn í íslenska pólitík, sem er, eins og allir vita nú, ein samfelld samkeppni um heimsku. Miðað við þær forsendur sem þú gefur þér bendi ég á 4 jeppa: Kia Sorento sem nú er grindarlaus og þægilegri jeppi í þéttbýli með tæknilega þróaða Diesel-vél (2,2 - 6,6 lítrar -175 g/km) . Nissan Pathfinder hentar þeim sem þurfa jeppa, t.d. vegna vetrarfærðar (2,5 - 8,7 lítrar - 228 g/km). SsangYong Kyron er álíka sterkbyggður og Pathfinder og með Benz-Diesel-vél (2,0 - 8,9 lítrar - 236 g/km). Suzuki Grand Vitara hefur lengi verið vinsæll (1,9 - 6,8 lítrar - 180 g/km). Svo er bara að skoða bílana og meta hvað þú færð fyrir peningana.


ÁBENDING
Vélartölvur bíla eru með dýrustu varahlutum. Ný getur kostað meira en gangverð notaðs bíls. Stundum er ekki hægt að flytja tölvur á milli bíla því gleymst hefur að læsa þeim fyrir aftengingu. Erlendis má oft fá gert við tölvu fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi (Gunnar Haraldsson GSM 699 3737) hefur um árabil sent vélartölvur til viðgerðar í Bretlandi. Sú þjónusta hefur sparað bíleigendum veruleg útgjöld.

Porche Cayenne 2006: Meiriháttar bíll
Hef fengið annað slagði ráð hjá þér og þakka það, finnst líka flott fréttapósturinn sem þú sendir út núna.
Langar að deila með bílamönnum reynslu minni af Porsche Cayenne S, árg. 2006 sem ég keypti í sumar. Var næstum búinn að kaupa Cruiser 120 2007 en eftir að hafa konan sagði nei við því tæki, þá féll hún fyrir Cayenna bílnum sem er algjör draumur og í raun vanmetinn bíll. Er með loftpúðafjöðrun og fleiru. Hann sameinar jeppa með stórt skott, sportbíl og lúxusbíl (aðgerðaskjár, hiti í stýri, beygjuljós, o.fl.o.fl.), meðan 120 LC var einfaldlega þægilegur stór jeppi, ekkert meir, ekkert þægilegt að keyra eða snöggur.Cayenna er einnig mjög lipur og léttur, manni finnst manni ekkert vera á 2,4 tonna tæki með stærra ummál en LC120.Krafturinn er rosalegur en eyðslan getur auðveldlega dottið niður í 16-17 í innanbæjar blönduðum akstri, fer allt eftir því hvernig maður ekur. Reynslan af verkstæðinu er einnig góð, snöggir að koma manni að og ekki lengi að laga það sem þarf að laga (tvennt sem féll undir ábyrgð, skottlæsing og vinnukona að aftan) og einn bakkskynjari sem er bilaður. Fín þjónusta og þægileg. Var alveg viðbúinn meiri bilunum á svona fullkomnum bíl.

Svar: Ég hef lengi haldið því fram að Porsche sé best smíðaði bíllinn á markaðnum og að Toyota LandCruiser sé gróflega ofmetinn. Ég vann að undirbúningi þjónustunnar hjá umboðinu, m.a. fyrir Porsche, um 2000 og þykir gaman að heyra að hún sé í góðu lagi. Varðandi ,,fréttapóstinn" þá er ég eiginlega hissa á að einungis einn á listanum hefur sagt áskriftinni upp. Sumir eru mjög viðkvæmir fyrir ,,ruslpósti" og stimpla allt ruslpóst sé t.d. gefið upp símanúmer (en ég hef aldrei séð ástæðu til að láta lesanda þurfa að hafa fyrir því að leita það uppi hafi ég það fyrir framan augun á mér). Aðrir gefa sér strax að þetta sé selt efni (auglýsingar) - sem það er ekki því ég er ekki í auglýsingasölu. Eina skilyrðið sem ég set fyrir svona ,,frétt" er að hún spari bíleiganda peninga eða auðveldi honum rekstur bílsins. Ég geri mér grein fyrir þeim trúnaði sem mér er sýndur með þessum lista sem er orðinn ótrúlega fjölmennur og fer því varlega.

217
Jeep Cherokee: Þrenns konar Diesel-vélar

Spurt: Ég er að velta fyrir mér kaupum á eldri eða nýrri gerða af Cherokee með Diesel-vél. Eldri bíllinn er með 4ra sílindra vél en sá yngri með V6-Diesel-vél. Ég hef verið varaður við þessum vélum, var m.a. sagt að 4ra sílindra Diesel-vélin væri framleidd af Fiat. Þekkir þú reynsluna af þessum vélum og hvernig gengur að afla varahluta? Mig hefur lengi langað í svona bíl en legg ekki í bensínbíl af skiljanlegum ástæðum. Veistu hvað eyðsla Cherokee hefur verið með Diesel-vél?
Hvar væri helst að útvega sér varahluti og annað slíkt í þessar vélar.

Svar: Elstu Cherokee eru með Diesel-vélar upphaflega hannaðar og framleiddar af VM Motori á Ítalíu (án afskipta Fiat). Fyrir 4 árum keypti GM þetta fyrirtæki og innlimaði í Detroit-Diesel. VM-Motori-vélarnar hafa reynst vel, þær eyða í góðu lagi 7-9 lítrum eftir bíl/og akstursmáta/notkun. VM-Diesel-vélar eru t.d. í eldri Hyundai-jepplingunum, breskum Ford Sierra og Scorpio, breskum leigubílum ásamt í Cherokee og Jeep frá því 1995. Mér fyndist líklegast að Vélaverkstæðið Kistufell á Tangarhöfða ætti varahluti í þessar vélar auk umboðsins. Hef ekki heyrt neitt neikvætt um þessar Diesel-vélar sem mark er á takandi. Öðru máli gegnir um Benz-Diesel-vélarnar. Fyrsta kynslóðin af V6-vélinni (sama og í Benz/Dodge Sprinter sendibílnum) reyndist vægast sagt illa (makalaust drasl) og sem betur fer voru fáir Cherokee seldir með henni. Frá og með árgerð 2008 hafa Jeep Cherokee, Commander og Liberty verið fáanlegir með nýrri 3ja lítra V6 turbo-Diesel-vél frá Benz sem reynst hefur mjög vel. Aflið er 218 hö og togið rúmlega 500 Nm við 1600 sn/mín. Sjálfskipting er 5 eða 6 gíra. Þar sem þessi vél er jafnframt í Benz-fólksbílum má fá aukabúnað við hana sem eykur aflið verulega (Til samanburðar má hafa að Toyota LandCruiser 3,0 Diesel er 173 hö).

Kia Sorento: Truflun í hraðastilli
Spurt: Hjá Kia Sorento árg. 2007 með hraðastilli þarf ég að ýta mörgum sinnum á ON/OFF-takkann áður en ljósið kviknar og kerfið virkar. En þegar það virkar þá er það eðlilegt þar til ég ætla að slökkva á kerfinu þá endurtekur sig sama sagan - takkinn virkar ekki nema eftir margar tilraunir. Er hægt að endurstilla (reset ) svona kerfi ? Einhver sagði mér að taka rafgeyminn úr sambandi yfir nótt og þá myndi kerfið endurstillast?

Svar: Ég á von á að kerfið fari af þegar þú stígur á bremsuna. Það er til vitnis um að hraðastillirinn sjálfur er í lagi. Ekkert gagn er af því að aftengja rafgeyminn í þessu tilfelli. Algengasta orsök svona hnökra eru óhreinindi sem setjast í rofana á stýrinu. Að neðanverðu eru skrúfur sem halda rofunum. Losaðu þær og rofana úr stýrinu. Úðaðu í þá ,,ContactCleaner" sem fæst á næstu bensínstöð og blástu þá svo hreina. Þvoðu stýrið og gírhnúðinn með volgu sápuvatni. Þú munt verða hissa á óhreinindunum! Dugi þessi aðgerð ekki er næst algengasta orsökin sambandsleysi í fjöður eða kolapinnum sem leiða straum á milli stýrishjóls og stýrishólks þegar stýrinu er snúið. Til að lagfæra það þarf að taka stýrishjólið af og til þess þarf sérstaka þekkingu og áhöld vegna öryggisloftpúðanna (hættulegt). Ráðlegg þér að fela verkstæði það verk, t.d. Nesradíó. Þessi fjöður eða kransinn allur nefnist á ensku ,,clock spring og clock spring assy."

ÁBENDING
Aukaljós, felld neðst inn í framstuðara bíla, auka öryggi með því að lýsa upp vegkant til hliðar og stikur. Brennipunktur (lína) dreifiljósa er einungis 3-4 m fyrir framan bíl eftir hæð stuðara frá jörðu. Dreifiljós eru ekki hæðarstillanleg eins og ökuljós. Sé jeppi hækkaður þarf að beina dreifiljósum neðar með breytingu á festingu. Séu dreifiljós í lagi og með réttum perum blinda þau ekki þá sem á móti koma. Dreifiljós notast með lága og háa geisla ökuljósa. Dreifiljós eru ekki ljóskastarar eins og stundum er ranglega sagt í pistlum Umferðarstofu í útvarpi. Munurinn á dreifiljósi og ljóskastara er að þeir síðarnefndu eru hafðir hærra á bíl, lýsa langt með ljóskeilu og eiga ekki að notast nema nema með háum geisla ökuljósa.

216
Volvo XC70: Bilunarljós lýsir stundum

Spurt: Bíllinn er Volvo XC70 af árgerð 2004 ekinn einungis 65 þús. km. Fyrir skömmu tók bilunarljósið að lýsa í tíma og ótíma án þess að hægt væri að merkja gangtruflun eða bilun í bílnum. Kóðalestur á verkstæði gaf til kynna sogleka. Vandinn er bara sá að þótt leitað hafi verið dyrum og dyngjum finnst enginn sogleki í vélarrúminu. Er þetta eitthvað sem er þekkt í þessum bílum?

Svar: Eldsneytiskerfið í nýlegri bílum á að vera algjörlega þétt. Til að útiloka sogleka þarf einnig að sogprófa eldsneytislögnina aftur í bensíngeymi. Þekkt orsök sogleka í þessu kerfi er óþétt bensínlok. Skoðaðu þéttinguna innan á lokinu. Séu sjáanlegar sprungur í henni er lokið óþétt og orsök þess að ,,Check engine-ljósið" lýsir. Nýtt lok færðu í umboðinu. Í nýlegri Ford, Lincoln og Volvo kviknar bilunarljósið sé dælt eldsneyti á geyminn með vélina í gangi (sem á að sjálfsögðu aldrei að gera - hver sem bíllinn er)!

Ford Explorer 2005: V6-vélin er gallagripur
Spurt:
Ég er að velta fyrir mér kaupum á Ford Explorer V6 árg. 2005-2006, ek. 58 þús. km. Er þetta eitthvað sem þú myndir skoða? Er þetta góður bíll? Eyðir þessi meira en Pajero Sportarinn minn? Stærri vél í þessum en hjá mér sem líklega myndi kalla á meiri eyðslu að ég held. Annað. Myndir þú ryðverja undirvagn 2003 árgerð af Pajero Sport ek. 97 þús. km? Það er aðeins að byrja ryð undir stigbrettum á honum. Ég hef einnig skoðað Ford F-250 með 6 lítra Dieselvél. Eru þær, eins og mér hefur verið sagt, bilanagjarnar og dýrar í rekstri?

Svar: Explorer eyðir í þéttbýli um 17-20 lítrum. V6-vélarnar í Explorer 2005 og yngri eru gallagripir (4 tímakeðjur) sem fyrr eða síðar rasa niður með skelfilegum kostnaði. 6 lítra Ford V8 Diesel-vélin (í Ford-pallbílunum) hefur reynst bilanagjörn óheillakráka en nú virðist komið í ljós að uppspretta allra vandræða í þeim vélum eru lélegir heddboltar. Við álag umfram vanalegt halda þeir heddpakkningum ekki þéttum. Þá byrjar pústþjappan að fyllast af sóti, síðan EGR-hringrásin og fyrr en síðar hrynur vélin. Með sterkari heddboltum frá ARP (IB á Selfossi) hefur reynst unnt að laga þetta þannig að vélin verði til friðs (sjá grein í Brotajárni 35 á Vefsíðu Leós). Ég myndi engan undirvagn ryðverja með kvoðu - hún eyðileggur jeppagrindur á 10 árum. Rífðu þetta upp og hreinsaðu með vírbursta eða rokk og úðaðu yfir með keðjufeiti (ysta lag hennar storknar).

Ath. Meinleg villa slæddist inn í myndtexta hjá starfsmönnum Mbl. Þar stendur að vandamálið með V6-vélina í Ford Explorer séu of slappir heddboltar. Það er að sjálfsögðu ekki rétt, eins og kemur greinilega fram í aðaltexta; heddboltarnir í nýju 6.0 lítra PowerStroke-Dieselvélinni í Ford F SuperDuty-pallbílunum eru þeir sem sérfræðingar vilja meina að valdi öllum vandamálunum. Bandarískt fyrirtæki, ARP, hefur sérhæft sig í framleiðslu vélabolta úr hágæða þolstáli. IB á Selfossi og fleiri hafa útvegað þá, m.a. hedd- og höfuðleguklossabolta (pinnbolta) sem þola átökin.

Pajero ´98: Hvinur í bakkgír
Spurt:
Ég er með Pajero '98, ekinn 198 þús. þegar honum hefur verið bakkað smáspöl í R eða látinn renna heyrist ,,glussavæl" eða hvinur og er stöðugt þar til stöðvað er. Hljóðið heyrist ekki þegar ekið er áfram. Hvað getur þetta verið?

Svar: Bilunum sem lýst er með hljóði er oft erfiðast að átta sig á. Tillaga: Mældu vökvastöðuna á skiptingunni með heita vél í lausagangi, stöðubremsu á og skiptingu í N. Það gæti vantað vökva á skiptinguna. Sé langt síðan vökvi og sía voru endurnýjuð kann að vera kominn tími til. Þú færð það gert hjá Smurstöðinni Klöpp.

215
Ford F-150: Hraðastillir lætur ekki að stjórn
Spurt: Ég á beinskiptan Ford F-150 pikköpp af árgerð 1998. Þótt hann sé beinskiptur er hann samt með sjálfvirkum hraðastilli (Cruisecontrol) sem mér skilst að sé ekki algengt. Hraðastjórnunin virkar að öðru leyti en því að fyrir skömmu tók kerfið upp á því að aftengjast ekki þegar stigið er á bremsuna. Þetta getur verið afar óþægilegt - jafnvel hættulegt. Búið er að tengja sérstakan bilanagreini við kerfið en enginn bilanakóði reyndist verða skráður. Hvað gæti hugsanlega valdið þessu?

Svar: Kóðalesari greinir ekki bilun í hraðastilli á þetta gömlum Ford. Af lýsingu þinni að dæma tel ég mestar líkur vera á því að þessi bilun stafi af utanaðkomandi orsökum og hafi eitthvað með bremsuljósabúnaðinn að gera frekar en hraðastillinn. Byrjaðu á því að athuga hvort bremsuljósin á bílnum séu virk. Séu þau óvirk aftengist hraðastillirinn ekki þegar stigið er á bremsuna. Líklegasta orsökin er að öryggi fyrir bremsuljósin sé brunnið - en algeng orsök þess á Ford-bílum er að rangt tengdur kerrutengill (karl) hefur verið tengdur bílnum - t.d. á kerru sem fengin hefur verið að láni. Önnur orsök þess að bremsuljósin lýsa ekki og hraðastillirinn aftengist ekki sjálfkrafa er vegna bilunar í dagljósabúnaði - annað hvort í straumloku, tengingum á straumloku eða vegna öryggis að straumlokunni.

Musso: Ekkert framdrif
Spurt: Musso með 2ja lítra bensínvél og sjálfskiptingu getur verið erfitt að setja í framdrif auk þess sem lága drifið virkar ekki alltaf, millikassinn getur átt það til að festast í lága drifinu um tíma. Sjálfvirku driflokunum hefur verið skipt fyrir handvirkar. Gaumljósin fyrir drifbúnaðinn, sem eru neðst hægra megin í mælaborðinu lýsa stöðugt, sama hvernig drifvalstakkanum er snúið. Tvisvar er búið að reyna viðgerð á verkstæði en hvorug tilraunin hefur heppnast. Hvað getur verið að og hvert ætti maður að snúa sér?

Svar: Í Musso eru 5 algengustu ástæðurnar fyrir bilun í drifvalsbúnaði:. Takkinn í mælaborðinu stjórnar (1) rafsegulloka sem jafnframt er rofi efst á vinstra innra frambrettinu í vélarrýminu. Lokinn stjórnar soglögnum. Loftsogið stjórnar sjálfvirku framdrifslokunum, séu þær enn til staðar, en þeim lögnum hefur verið lokað með kítti þegar handvirku lokurnar voru settar á. Lokinn stjórnar jafnframt rafknúna millikassamótornum( í dísilbílnum stjórnar sogið jafnframt ádrepara vélarinnar). Soglagnirnar eru 3 mm plaströr sem yfirleitt endast bílinn. Í öðru lagi eru á þessum plaströrum (2) tengimúffur og hné úr gúmmíi sem er lélegt drasl og iðulega orsök sogleka. Oftast má búa þessar tengingar til með grannri sogslöngu . Sogleiðsla liggur frá vélinni (soggreininni) að rafsegullokanum og frá honum um fjöltengi í sjálfskiptingu (lek soglögn veldur því að engin niðurskipting á sér stað við botngjöf). Hins vegar getur takkinn í mælaborðinu verið ónýtur. Í þriðja lagi getur (3) rafsegullokinn verið óvirkur, t.d. vegna sambandsleysis. Í fjórða lagi getur verið sambandsleysi í (4) rafleiðslum sem liggja að millikassamótornum sem er sívalningur aftarlega á millikassanum vinstra megin og í fimmta lagi getur (5) millikassamótorinn verið ónýtur - oftast vegna þess að belgur hans hefur ryðgað og raki komist inn. Þetta eru þessi sígildu vandamál varandi drifbúnaðinn í Musso og tiltölulega auðveld viðfangs og hægt að halda þessu í góðu lagi með reglulegu eftirliti.

ÁBENDING
Zenon-ökuljós (HID = high-intensity-discharge), sem þekkjast á skærbláu ljósi, lýsa mun betur en ökuljós með halogen-perum. Í Zenon-perum er samnefnt gas sem spennir kveikir í með 28 þús. voltum. Í Zenon perum er enginn glóðarvír eins og í halógen-perum. Zenon-ljósin mynda því lítinn sem engan varma (þola reyndar illa hita) og bræða því ekki snjó af ljóskerjum. Það getur komið sér illa í skafbyl. (
Í V-Þýsklandi, Svíþjóð og víðar er þess krafist að á zenon-ökuljósum sé sprauta fyrir sérstakan vökva sem bræðir ís auk þurrku/sköfu. Þetta þýðir að mæti maður vígalegum breyttum jeppa á 38" dekkjum með blá zenon-ljós á leiðinni upp á Kaldadal má gera ráð fyrir að þar sé viðvaningur í sinni fyrstu ferð á Langjökul (nái hann svo langt).

Felgur: Viðgerð getur margborgað sig
Eigandi lúxusjeppa af dýrustu gerð varð fyrir því óhappi að lenda í ómerktri djúpri holu í malbiki. Höggið var nægilega mikið til að höggva sundur hlið dekksins og beygla léttmálmsfelguna. (þessi hola mun hafa verið að stækka í rúma viku án þess að Vegagerðin gerði ráðstafanir, t.d. með viðvörun - það var ekki fyrr en eftir þetta óhapp sem viðgerðarliðið mætti á staðinn). Dekkið kostaði tæp 50 þúsund og þótti vel sloppið. Verra var að felguna var ekki hægt að nota þar sem hún var ekki hringlaga lengur en svona felga (1 stk.) kostar um 100 þús. kr. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Bíleigandinn leitaði til Vefsíðu Leós með vandræði sín. Honum var sagt að væri felgan einungis aflöguð en hvorki sprunga í henni né hún brotin væri, að öllum líkindum, hægt að rétta hana með til þess gerðri tækni og tækjum. Til að gera langa sögu stutta var gert við felguna, sem varð eins og ný, hjá sérhæfðu fyrirtæki sem nefnist felgur.is og er á Axarhöfða 6. (sími 567 3322). Kostnaðurinn varð um 15 þús. krónur og sparnaður bíleigandans í þessu tilfelli því 85 þúsund krónur. Við þetta má bæta að felgur.is gerir við allar gerðir felga, úr léttmálmi og/eða stáli undan öllum gerðum farartækja, mótorhjóla og véla sé á annað borð hægt að gera við þær. Undantekningarlaust kostar viðgerðin mun minna en ný felga (sem oft er ekki fáanleg nema sérpöntuð).

214
Ford Escape: Eyðslufrekur
Spurt: Minn Ford Escape V6 sjálfskiptur af árgerð 2008 er ákaflega þægilegur jepplingur og skemmtilegur í akstri. Ekki get ég kvartað undan bilunum eftir tæplega 40 þús. km notkun. Hins vegar finnst mér bensíneyðslan óhóflega mikil hjá ekki stærri bíl en hún hefur frá upphafi verið 17-19 lítrar í borgarakstri. Tvisvar hef ég látið yfirfara vélbúnaðinn í von um að eitthvað óeðlilegt fyndist og lagfæring myndi minnka eyðsluna. En það hefur reynst árangurslaust. Þegar ég hef kvartað undan eyðslunni við starfsmenn þjónustuverkstæðisins hefur orðið fátt um svör. Hvers vegna er þessi jepplingur svona eyðslufrekur?

Svar: Þú getur minnkað eyðsluna með því að beita sérstöku aksturslagi: Samkvæmt EC-mælingu er meðaleyðsla Ford Escape með 3ja lítra V6-vél 11,8 lítrar. Gera má ráð fyrir að sú tala eigi við bíl með 5 gíra handskiptingu og án fjórhjóladrifs (Ford Escape, Mercury Mariner og Mazda Tribute eru í aðalatriðum sami bíllinn og stór hluti þeirra á bandaríska markaðnum eru einungis með drif á framhjólum). Hérlendis eru flestir Ford Escape með fjórhjóladrif og líklega flestir með sjálfskiptir. Eyðslan er yfirleitt 17-19 lítrar í borgarakstri hjá flestum eigendum. Sameiginlegt með eyðslufreku bílunum er að þeir eru með V6-vél, sjálfskiptir og með sjálfvirku fjórhjóladrifi sem Ford nefnir ,,AdvanceTrac stability and traction control with Roll Stability (RSC). Það þýðir að við bestu aðstæður er drifið einungis á framhjólum en á öllum fjórum með breytilegu átaki milli fram- og afturhjóla, t.d. við snögga inngjöf, í beygjum og þegar framhjól spólar. Millidrifi má læsa með takka og er þá jafnt átak á fram- og afturhjólum (50/50). Sjálfskiptingin er af gerðinni CD4E (4ra gíra plús yfirgír sem má útiloka með takka t.d. við drátt). Afturdrifskaftið er tvískipt og aftast á aftari hlutanum er rafstýrð diskakúpling sem tengir afturdrifið samkvæmt boðum frá stöðugleikakerfinu (Advance trac + RSC sem er svipað kerfi og ESP í fólksbílum). Sjálfskiptingarnar hafa reynst misjafnlega og þetta sjálfvirka fjórhjóladrifskerfi virðist valda hlutfallslega mikilli bensíneyðslu í þessum 1500 kg jepplingi með 200 ha vél. Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar til að minnka eyðsluna, t.d. að taka öryggið fyrir stöðugleikakerfið (RSC) úr eða fjarlægja bæði afturdrifsköftin og hafa bílinn bara framdrifinn. Ég veit til þess að það hefur verið gert og eyðslan minnkað. Varðandi stöðugleikakerfið sem tengir fjórhjóladrifið sjálfvirkt, en það er m.a. tengt bensíngjöfinni sem er þrepalaus rofi (ekki vír í barka eins og áður tíðkaðist) - þá getur skipt verulegu máli að forðast snöggar inngjafir - því mýkri sem hreyfing inngjafarinnar er því sjaldnar tengist fjórhjóladrifið. Mér er sagt að komast megi niður í 14 lítra í þéttbýlisakstri með því að þjálfa sig í að beita öklaliðnum gætilega! En ástæða er til að nefna, Ford Escape til varnar, að það er einmitt þessu næma stöðugleikakerfi að þakka hve bíllinn hefur fengið góða dóma fyrir aksturseiginleika - en, eins og oft gerist, fylgir böggull skammrifi.

Subaru: Erfið gangsetning
Spurt: Ég á Subaru Legacy '98. 2.0 bensín, ekinn 212.þús. Hann varð skyndilega erfiður í gang, þarf að starta í rúmar 5 sek. Hann er kraftlaus og vill ekki fara á hærri snúning en ca. 2000 en ofar fer hann að hiksta. Er kraftmeiri þegar hann hitnar, en engan veginn í lagi. Bilunarljósið lýsir ekki.

Svar: Ákveðnar bilanir kveikja ekki bilunarljósið. Ein þeirra er bilun í loftflæðiskynjara. Í honum er grannur glóðarvír sem oft má hreinsa með spritti eða bensíni sé varlega að því farið. Breyti það engu skaltu taka eitt kertið úr og skoða. Sé skautið svart og sótugt er neistinn veikur. Ástæðan getur verið sogleki (einhver grönn sogslanga lek, laus eða ótengd), óvirkt kaldstart (hitanemi í vatnsgangi), léleg kerti, ónýtir kertaþræðir, fúið kveikjulok (sé því til að dreifa) eða ónýtt háspennukefli. Sé skautið ljósbrúnt eða ljósgráleitt - næstum hvítt, getur bensínið verið vatnsmengað (ísvari lagar það) eða af of skornum skammti. Ástæður geta verið stífluð bensínsía, léleg bensíndæla eða ónýt straumloka bensíndælu (fuel pump relay). Þetta er, að sjálfsögðu, einungis ágiskun. Reyndu að fá lánaðan loftflæðiskynjara úr bíl í lagi til að prófa - það getur sparað þér talsverða fyrirhöfn.

ÁBENDING
Nú hefur fjármálaráðherra sett nýjar reglur sem eiga að útiloka ,,misnotkun" á litaðri Diesel-olíu og fæst hún ekki afgreidd nema hún sé greidd með sérstöku korti. Þeir sem hafa notað lituðu olíuna á Master-blásara til upphitunar (og eru ekki með vinnuvél) eru skildir eftir í lausu lofti og óvíst að þeir fái rétta kortið. Á Master-blásara má nota steinolíu sé passað upp á að tæma geyminn fullkomlega (og þá er átt við tæmingu í bókstaflegum skilningi) þannig að tryggt sé að hún steinolían blandist ekki dropa af Diesel-olíu - því þá byrjar spíssinn að freta. Það leysir þó ekki vanda allra því steinolía, t.d. á stærri brúsa frá dælu, fæst ekki nema á fáum bensínstöðvum. Olíufélögin selja hins vegar (ennþá) steinolíu á 5 lítra brúsum á tvöföldu verði og svo á 200 lítra tunnum sem ætti að vera hægt að fá a.m.k. á sama verði og frá dælu.

213
Þjófnaðarvörn í Benz
Spurt: Ég er með Benz 200 '94 og fjarstýringin virkar ekki þannig að ekki er hægt að starta en þjófnaðarvörnin virkar þannig að sé ekki opnað með fjarstýringunni þá er bara hægt að svissa á en ekki gangsetja vélina. Ég er búinn að láta skoða fjarstýringuna sjálfa á verkstæði og virðist hún vera í lagi. Hvað er hægt að gera?

Svar: Líklegasta orsökin er bilun í þjófnaðarvarnarkerfinu eða leiðslum til eða frá læsingarrofa í einhverri hurðinni. Nesradíó (Síðumúla 19) er sérhæft í viðgerðum á rafeindabúnaði, m.a. þjófnaðarvörnum.

Veldu rétta loftpressu
Spurt: Ég ætla að fjárfesta í loftpressu og tilheyrandi græjum til að nota í bílskúrnum. En það virðist ekki vera einfalt mál að sjá hvaða loftpressa hentar. Hvaða atriði skipta mestu máli varðandi bílskúrspressu og hvernig get ég fundið út raunveruleg afköst, t.d. hvort pressa dugi í sandblástur?

Svar: Valið ræðst af því til hvers þú ætlar að nota pressuna. Í þessari grein http://www.leoemm.com/loftpressur.htm finnur þú flest sem máli skiptir til að forðast algengustu mistökin. Stærstu seljendur; N1, Sindri og fl. eru með sérhæfða sölumenn sem veita frekari tæknilegar upplýsingar. Mesta úrval loftverkfæra er hins vegar hjá Poulsen.

Hikandi HiLux
Spurt: Er í vandræðum með Toyota Hilux 2,4 með 22RE-bensínvél. Vélin gengur eðlilegan lausagang og eðlilega sé tekið rólega af stað. En sé inngjöf aukin eða botnuð fer vélin að freta og verður kraftlaus. Er búinn að endurnýja kveikjulok, kveikjuhamar, kertaþræði, háspennukefli og þráð.

Svar: Oftast veldur svona bilun veikur neisti eða ófullnægjandi eldsneyti. Ísvari eyðir raka sem gæti verið í bensíninu. Sé bensínsían gömul myndi maður endurnýja hana. ,,Lækni" hvorugt berast böndin að loftflæðiskynjaranum sem er í barkanum á milli lofthreinsara og inngjafarkverkar. Þú gætir sparað þér talsverða fyrirhöfn og fé fengirðu annan loftflæðiskynjara til að prófa.

ÁBENDING
Á hringveginum munu enn vera um 40 einbreiðar brýr. Hámarkshraði á malbiki er 90 km/klst. Vissir þú að undantekning eru rútur, vöruflutningabílar og bílar, sem vega með farmi/eftirdragi, meira en 3500 kg, en þeir mega ekki aka hraðar en 80 km/klst. (meirapróf)? Veist þú að bíll sem dregur kerru, tjaldvagn eða hjólhýsi, má ekki aka hraðar en 80 km/klst? Sumum kemur á óvart að hámarkshraði allra fartækja á malarvegi er 80 km/klst og 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé sérstaklega gefið til kynna. Vanþekking á mismunandi leyfðum hámarkshraða stuðlar að framúrakstri sem eykur hættu á slysum. Hraði og lausamöl veldur flestum bílveltum á malarvegum. Varðandi öryggi í umferðinni eru furðulegar þverstæður: Táningur, með vikugamalt bílpróf, má keyra óbreyttan 300 hestafla Subaru Impreza WRX STi, sem getur náð 250 km hraða á 15 sekúndum. Á sama tíma neitar Skráningarstofa að forskrá nýjan vinnubíl af tegundinni Ford F-250 með 6 lítra Diesel-vél nema áður sé settur í hann búnaður, samþykktur af EBE, (EC-merktur) sem takmarkar hámarkshraða hans samkvæmt reglugerð Efnahagsbandalagsins - sem við erum ekki aðilar að. Ekki verður séð að þessi krafa hafi neitt með öryggi í umferðinni að gera! Spyrja má í framhaldi: Vita starfsmenn Skráningarstofu ekki hvernig innflutningi bíla er háttað; - hvernig á að koma ákveðnum búnaði í bíl, sem er lokaður inni í gámi á geymslusvæði skipafélags, fáist hann ekki forskráður?
Einnig má spyrja í framhaldi: Hve vitlausar mega reglur EBE (með þýðingarvillum) um skráningu bíla við allt aðrar aðstæður en eru á Íslandi vera, án þess að einhver yfirmaður/stofnun taki í taumana?

Varahlutir í VW Touareq
Ábending: Eigendum Touareq-jeppans frá Volkswagen blöskrar verð á varahlutum í umboðinu (Dæmi: Framljósker á rúmlega 300 þús. kr. Fjöðrunarpúði á 500 þús. kr. o.s.frv.). Margir hlutir eru þeir sömu í bandarísku gerðinni og þeirri evrópsku. Spurt hefur verið um partasölur í USA sem sérhæfi sig í VW Touareg-varahlutum. sem dæmi má nefna www.thepartsbin.com/guides/vw.html Þeir sem ekki treysta sér til að panta og flytja varahluti inn sjálfir geta fengið þá þjónustu hjá IB á Selfossi (480 8080), ShopUSA og fleirum.

212
Daewoo Nubira 1600: Dularfullt skrölt í vél
Spurt: Ég er með 10 ára Daewoo Nubira með 1600-vél. Tímareimin, ásamt stýrihjólum, var endurnýjuð fyrir rúmlega 30 þús. km. Fyrir nokkru fór ég að heyra skrölthljóð fyrst eftir gangsetningu að morgni og fannst það minnka eftir að vélin hafði hitnað. Nú er skröltið stöðugt. Það virðist vera í vélinni nálægt alternatornum. Vélin gengur eðlilega, lekur ekki og vinnur vel. Getur ónýt lega í alternatornum valdið þessu?

Svar: Áreiðanlega ekki. Lýsing þín virðist eiga við ónýta vatnsdælu en hún er fremst í blokkinni farþegamegin næst alternatornum og knúin af tímareiminni. Í þessum Daewoo (og Opel-vélum) er hjámiðja á vatnsdælunni notuð til að strekkja tímareimina; henni snúið með sérstökum lykli eða vatnspíputöng sé O-hringurinn, sem þéttir milli blokkar og dælu, smurður með vaselíni. Skröltið sem þú heyrir er viðvörun því framhaldið er oftast að dælan brotnar og slítur tímareimina en af því getur hlotist mikill og dýr skaði. Því skaltu ekki fresta aðgerðum. Bílvirki, sem þekkir þetta kerfi, er sennilega 6-8 tíma að vinna verkið. Þú þarft ekki að láta endurnýja tímareimina (það eru 50-70 þús. km eftir af endingu hennar).

Drif: Tannviðgerð með rafsuðu
Spurt: Hjá mér brotnaði afturdrif, Dana 44 , hlutfall 5,38 (Musso). Ég hef heyrt að gera megi við kamb og pinjón með sérstakri rafsuðu. Er það rétt eða þarf ég að kaupa nýtt en sett í eina hásingu kostar 70-80 þús. kr.

Svar: Dana 44 með hlutfallið 5.375 (5.38) er með 43ja tanna kamb og 8 tanna pinjón. Þetta sett, kambur og pinjón, passar úr mörgum amerískum jeppum með Dana/Spicer 44 svo sem Jeep Wrangler, Cherokee o.fl. Byrjaðu að kanna hvort partasölur gætu átt þetta. Með suðuefni frá Castolin-Eutectic og sérþekkingu má oft gera við átakshluti úr þolstáli. Sýndu Árna Brynjólfssyni rennismiði brotin (Skútahrauni 5, Hf.). Telji hann fært að gera við þetta með minni kostnaði geturðu treyst því.


Burðardekk: Jeppadekkin spænast upp
Spurt: Ég er með Dodge Ram Diesel á 35" BFGoodrich AT dekkjum sem hann slítur hratt enda er bíllinn oft mikið hlaðinn. Einhver nefndi það að bíllinn væri of þungur og einhver ein tegund dekkja hentaði betur. Er eitthvað til í því?

Svar: Allir stærstu dekkjaframleiðendur hafa á boðstólum burðardekk fyrir mismunandi stóra flutningabíla. Undir vinnubíl sem ber hleðslu eða dregur þungan vagn henta ekki venjuleg jeppadekk þótt þau geti verið fín á malbiki. Talaðu við sölumenn hjá N1, Sólningu, Barðanum, Dekkjalagernum o.fl. Þeir bjóða sérstök vinnubíladekk gerð fyrir burð og drátt á möl og malbiki. Slík dekk getur þurft að sérpanta og þau geta verið talsverð fjárfesting. Í þínu dæmi munu þau reynast ódýrasti kosturinn þegar endingin er reiknuð í krónum á ekinn km.

211
Öryggismál
Spurt: Ég hef verið að velta fyrir mér hinum ýmsu gerðum bíla sem bílaleigur í Evrópu bjóða. Sumar þeirra gefa upplýsingar um einkunn viðkomandi bíls (stjörnur) á árekstrarprófum aðrar ekki. Svo sé ég að þessum stjörnum ber ekki saman fyrir sömu tegund bíla hjá 2 stórum alþjóðlegum bílaleigum. Og þá kemur spurningin: Er eitthvað að marka þessar upplýsingar? Og eitt í viðbót hvað er átt við með ,,Whiplash protection"?

Svar: Eigi að auka og bæta öryggi fólks sem ferðast í bílum og minnka hættu gangandi fólks og annarra vegfarenda af bílaumferð er samstarf á milli bílaframleiðenda og fleiri líklegast til árangurs. Um þetta er ekki deilt. Að frumkvæði samtaka breskra bíleigenda hafði rannsóknastofnun breska samgöngumálaráðuneytisins á sviði flutninga (TRL) frumkvæði að stofnun ,,European New Car Assessment Programme," skammstafað Euro NCAP. Það var 1987. Öllum bílaframleiðendum í Vestur-Evrópu var boðin aðild. Flestir þeirra standa nú að Euro NCAP (á meðal fárra undantekninga er Porsche sem framkvæmir sín eigin öryggispróf). Með Euro NCAP og skipulagðri og staðlaðri árekstrarprófunum hennar hefur skapast samanburðargrundvöllur sem, þrátt fyrir ýmsa gagnrýni, hefur stuðlað að auknu öryggi fólks í umferðinni. Þótt mest beri á niðurstöðum árekstrarprófana þar sem hæsta einkunn er 5 stjörnur fyrir minnstu samanlagða áverka fólks í framsætum (mest öryggi) þegar bíl er ekið á 65 km hraða á fyrirstöðu er mikilvægt að það komi fram að um er að ræða lágmarkskröfur (það kann að skýra mismun á milli bílaleiga). Það þýðir einfaldlega að á markaðnum geta verið bílar, sem eru öruggari þótt þeir skarti ekki 5 Euro NCAP-stjörnum, og eins getur vantað einhvern búnað í bíla sem gerir það að verkum að þeir fá lægri einkunn en bíll sömu tegundar sem er betur búinn. Einkunnagjöf er fyrir vörn við akstur á fyrirstöðu, vörn gegn hliðarárekstri (40 km/klst), vörn gegn stangarákeyrslu (30 km/klst) og mat á lágmarks-skaða sem gangandi vegfarandi gæti hlotið af árekstri við bílinn á 40 km hraða. Frá 2003 hefur Euro NCAP rannsakað og prófað öryggi barna í bílstólum, annars vegar festingar stólanna og hins vegar þá vörn sem stólarnir sjálfir veita þar sem þeir eru í bílnum. Ekki er deilt um að öryggi barna í bílum hefur aukist síðari ár. Fólk er í auknum mæli farið að nýta sér upplýsingar Euro NCAP til samanburðar þegar það velur nýjan eða notaðan bíl. Annað atriði sem vert er að benda á í þessu samhengi er að sambærileg stofnun í Bandaríkjunum ,,National Highway Traffic Safety Administration," skammstafað NHTSA stundar umfangsmikla rannsóknarstarfsemi á sviði slysavarna og öryggismála. Þar þurfa bílar að standast árekstrarpróf með hærri lágmarkskröfum en tíðkast í Evrópu. Svonefnd ,,stöðugleika-kerfi" eru m.a. árangur samstarfs NHTSA við stærstu bílaframleiðendur. Rannsóknir Euro NCAP og NHTSA hafa m.a. gert það að verkum að breyting hefur orðið á hönnun bíls sem burðarbúrs, t.d. fer grindarbílum ört fækkandi. Greinilegast má sjá árangur þeirrar breyttu burðarvirkishönnunar á vefsíðu sænska tryggingafélagsins Folksam (www.folksam.se) þar sem sýnt er hvernig þessi nýja hönnun hefur aukið öryggi fólks í smábílum. Euro NCAP heldur úti vefsíðu þar sem finna má skrár yfir einkunnagjöf bíla. Þegar skráin er skoðuð skýrir hún sig sjálf og svarar spurningu þinni. Slóðin er www.euroncap.com
Þegar skoðaðar eru skrár yfir umferðarslys, t.d. á vefsíðu sænska Folksam, kemur í ljós að alvarlegustu, dýrustu og erfiðustu afleiðingar þeirra eru hálsáverkar, oft samfara mismunandi alvarlegum mænuskaða sem gerir fólk óvinnufært í lengri tíma. Oftast er ástæðan aftanáakstur með tilheyrandi höfuðhnykk sem hnakkapúði hefur ekki megnað að dempa, annað hvort vegna þess að hann var rangt stilltur fram/aftur eða í rangri hæð miðað við líkamshæð þess sem sat í stólnum. ,,Whiplash" þýðir hnykkur og með ,,whiplash protection" er átt við vörn gegn hálshnykk. Margir bílar eru nú búnir hnakkapúðum sem bregðast stilla sig sjálfvirkt við aftan-á-höggi til að draga úr skaðsemi hálshnykkja. Um þessi öryggiskerfi má lesa í BÍLAPRÓFUN (Toyota Avensis 2009) á Vefsíðu Leós (www.leoemm.com). Við styttingu þessarar greinar í Morgunblaðinu urðu þau mistök að orðaskiptingar rugluðust.

ÁBENDING
Umferðarslys verða ekki umflúin en með varkárni og upplýsingum má fækka þeim og hugsanlega draga úr skaðsemi þeirra. Hefurðu tekið eftir mismuninum sem er á öryggisloftpúðunum fyrir framan bílstjóra og farþega í framsæti bíls? Bílstjóramegnin springur púðinn beint á bringuna og höfuðið. Vörn hans er fólgin í því að hann hefur sterkan stýrishólkinn að bakhjarli. En farþegamegin fer ekkert á milli mála að púðinn springur lóðrétt upp! Það þýðir að bakhjarl hans er framrúðan. Allar framrúður eru núorðið límdar í falsið. Séu þær ekki nákvæmlega formaðar fyrir viðkomandi bíl þannig að þær falli nákvæmlega slétt í falsið, er með höppum og glöppum að þær séu tryggilega límdar í bílinn. Gefi límingin sig er ekkert gagn af öryggispúðanum og farþeginn slasast verr en bílstjórinn. Þegar þú ert með framrúðubeiðni frá tryggingafélagi og þarft að láta endurnýja framrúðu skaltu skipta við verkstæði, sem er sérhæft í rúðuviðgerðum og notar einungis framrúður af viðurkenndum gæðum. Misvel passandi rúður frá Kína, sem sumir geta grætt á geta valdið þér miklum skaða og tryggingafélaginu auknum kostnaði, þegar upp er staðið.

210
Betri glóðarkerti í Ford PowerStroke 6.0?
Spurt: Við feðgar eigum Ford F-250 með 6 lítra Diesel-vélinni. Í fyrra eyðilagðist sílindri vegna þess að oddur brann af glóðakerti. Nú gerðist þetta aftur fyrir skömmu. Manni er hætt að lítast á blikuna því hver um sig kostaði viðgerðin um milljón kr.). Getur maður hindrað að þetta haldi áfram?

Svar: Flest, sem átti að vera til bóta, í þessari 6 lítra PowerStroke-vél hefur reynst illa hannað og illa smíðað hjá Navistar (International) enda hefur Ford loksins yfirtekið hönnun og framleiðslu á PowerStroke-vélunum). Þessi glóðarkerti, sem nú voru utan við ventlalokin, áttu að vera mikil framför. Ég hef heyrt að endurbætt glóðarkerti fyrir þessa vél hafi komið í árgerð 2007 - með sterkari þéttihring úr Teflon. Hann einangrar betur, kertin hitna minna og eiga ekki að bráðna/brotna (tek ekki ábyrgð á því). IB ehf. á Selfossi og Bílabúðin hf. í Kópavogi ættu að geta útvegað þessi endurbættu ,,2007-glóðarkerti." Miðað við þína reynslu ættu þau að vera fljót að borga sig. Hins vegar finnst mér ástæða til að taka fram að ég hef ekki heyrt af nema þessu eina dæmi og þeir sem ég hef spurt og eru kunnugir viðgerðum á þessum vélum, muna heldur ekki eftir þvi að hafa lent í svona bilun. En málinu er ekki lokið - ég mun halda áfram að kanna það og læt vita strax og einhver botn fæst í það.

VIÐBÓT: Eftir að hafa kannað þetta mál er ég sannfærður um að þetta með endurbætt glóðarkerti er ekki lausn á þessu máli - sé um einhverjar endurbætur að ræða. Brotin glóðarkerti eru örugglega afleiðing en ekki orsök í þessu dæmi. Miklu líklegra er að það séu heddboltarnir sem hafi gefið sig, sérstaklega hafi þeir verið notaðir aftur eftir fyrri viðgerðina (en þeir eru einnota TTY-boltar). Eins og fram kemur á eftirfarandi vefsíðu eru teygju-heddboltar í 6.0 lítra vélinni. Upprunalegu boltarnir hafa ekki reynst vera nógu sterkir, sérstaklega ekki í vélum sem hafa verið ,,tjúnaðar upp", sem kallað er, eða í bílum sem mikið er lagt á. Boltarnir gefa sig og heddpakkningar fara að leka milli sílindra og vatnsgangs (hvítur reykur). Það er þá ekki í fyrsta sinn sem Kaninn tekur áhættu með því að spara í heddboltum (GM Diesel féll fyrst og fremst á því). Pinnboltar frá ARP munu leysa þetta mál. En það er ýmislegt fleira sem hrjáir þessar 6.0 lítra Navistar Diesel-vélar og birti ég enska textann af áðurnefndri vefsíðu öðrum til glöggvunar. (Copyright: http://www.internationalpowerstroke.com)

http://www.internationalpowerstroke.com/6.0_problems.html

Common 6.0L Power Stroke Problems
6.0L Power Stroke Problems and Consequences

The 6.0 liter Power Stroke is a great diesel, despite a bundle of issues that plagued many of the early engines. The 6.0 is powerful, durable, & reliable. There are more than enough satisified 6.0L owners to back those statements up. However, some of the 6.0L components are prone to problems, especially when maintenance is neglected or the performance is increased by means of aftermarket components.
6.0L Power Stroke TTY Head Bolts

The 6.0L Power Stroke uses Torque to yield (TTY) head bolts to secure the cylinder heads. The stock TTY head bolts do a mediocre job of equalizing the clamping force of the had bolts. The head bolts are also much more prone to stretching than head studs, and under high cylinder pressures are prone to fail. For a 6.0L that remains completely stock, the TTY head bolts are suitable. However, for modified engines or engines that are under constant load, the stock head bolts are a weak link in the 6.0L. Additionally, the EGR system can cause high coolant temperatures or turbo overboost situations. High coolant temperatures may cause slight warping of the cylinder heads, which can lead to head bolt failures. Too much turbo boost can result in increased cylinder pressures and cause the TTY bolts to stretch. This causes blow head gaskets.
6.0L Power Stroke EGR (Exhaust Gas Recirculation)

The EGR coolers on the 6.0 liter Power Stroke are prone to clogging due to oil & soot build up, which can cause them fail. A failed EGR cooler may contribute to high coolant temperatures of coolant loss. EGR valves are also notorious for failing due to soot build up, which can lead to over-boosting of the turbocharger. To prevent this, the EGR valve should be cleaned routinely. Excessive idling and poor fuel quality can clog the EGR valve rapidly. The efficiency of a diesel engine is reduced at idle due to low combustion temperatures, resulting in increased particulate production. Ford recommends a minimum diesel fuel cetane level of 45 for maximum quality. Motorcraft manufactures a fuel additive for the Power Stroke which is recommended and verified safe by Ford Motor Company. EGR valve issues are not necessarily a design flaw, but rather due to the nature of a diesel engine. EGR cooler issues are related to inadequate design. 2004+ EGR coolers are more prone to failure. 2003 coolers are round, while 2004+ EGR coolers are square (and longer than the 2003 cooler).
6.0L Power Stroke Turbocharger

The 6.0L Power Stroke is equipped with a variable geometry turbocharger (VGT). The 6.0L turbocharger is very efficient & provides quick spooling with plenty of airflow through peak RPM. However, the vanes of the VGT that control the displacement of the turbo are prone to sticking from soot build up. If the vanes stick, performance will be sacrificed and the engine may experience a lot of turbo lag. The vanes can often by cleared by operating at WOT for a short period of time, spinning the turbine to a high enough RPM to free the vanes of soot. Additionally, the oil drain tube on early 6.0L Power Strokes is restrictive and can lead to turbocharger failure in some rare situations.
6.0L Oil Cooler Failure

Residual sand not removed during the casting process can clog the coolant side of the oil cooler. Old or sludgy oil can clog the oil side of the cooler. Failure can result in oil being introduced into the cooling system, or coolant overheating, which may result in serious engine damage. Aftermarket coolant filters may prevent particulate from clogging the coolant side of the cooler. Using proper engine oil and changing the oil at the recommended oil change intervals can also prevent failures. Aftermarket bypass oil filters may also prevent problems. Ford also recommends changing the engine coolant at the recommended intervals. Failure of the oil cooler has been related to head gasket failures.

 

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR