Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 34
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndir og myndatextar í Mbl. eru valdar og samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án greinarmerkja, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

laverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30 auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.


Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

203
Nýtt spíssahreinsiefni væntanlegt um miðjan október!
Séu gæði eldsneytis eðlileg (sem ég efast um) , eldsneytissía endurnýjuð, a.m.k. árlega, og ísvara, sem ekki er sömu gerðar fyrir bensín og Diesel-vél, bætt í geyminn öðru hverju (ein tappafylling nægir) eiga spíssar að virka vel og endast eðlilega, - komi ekki eitthvað fleira til svo sem bilanir og óhöpp. Þar til fyrir ári seldi N1 íblöndunarefnin ,,Diesel Magic" og ,,Petrol Magic" frá Comma. Ég hafði prófað þessi efni með merkjanlegum árangri og mælti hiklaust með þeim. Þau áttu það sameiginlegt, öfugt við flest önnur dýr íblöndunarefni, að þau virkuðu, þ.e. hreinsuðu spíssa. Meira að segja voru gamalreyndir bílvirkjar farnir að mæla með þessum efnum. Hjá N1 virðist virkni efnanna hafa farið framhjá tæknilegum sérfræðingum innkaupadeildar því fyrirtækið hætti að selja þau fyrir ári.
En nú hefur Poulsen bætt úr þessum vanda með því að bjóða bíleigendum ný og ódýrari efni til að losa kverkaskít úr spíssum á nokkrum dögum og fá þá til að úða/ýra eðlilega og auka þannig sparneytni á ný. Báðum efnum, sem ég hef prófað og get mælt með, er hellt í eldsneytisgeyminn. Annars vegar er Abro Diesel Injector Cleaner (vörunr. DI-502) og hins vegar Arbo Fuel Injector Cleaner fyrir bensínvélar (vörunr. IC-509). (Vörunúmerin auðvelda landsbyggðarfólki að panta efnin í póstkröfu).
Athugasemd: Vegna klaufaskapar fór það framhjá mér að efnin sem ég prófaði voru sýni. Ég gaf mér hiklaust að þau væru þegar til sölu hjá Poulsen. Hið rétta er að þau koma ekki fyrr en um miðjan október n.k. Biðst ég velvirðingar á þessu klúðri (öllum getur orðið á - sagði broddgölturinn þegar hann skreið ofan af strákústinum).

Hyundai Terracan. Glamur Spurt:
Ég er með Hyundai Terracan 2.9 CRDi 5 sílindra sjálfskiftan árg. 2004. Tikk eða glamur hefur verið í Diesel- vélinni í nokkra mánuði, ekki ólíkt hljóði frá föstum kambdempurum sem ég hef þegar endurnýjað án þess að hljóðið hyrfi. Einnig endurnýjaði ég loftflæðiskynjarann og hitanemann sem er í vatnsganginum en þetta glamur heyrist ekki fyrst eftir gangsetningu í frosti. Tikkið er mest áberandi þegar vélin hefur hitnað og kalt er í veðri en ber minnst á því þegar vélin hefur náð eðlilegum vinnsluhita og heitt er í veðri. Ég lét kóðalesa tölvukerfi vélarinnar en þar reyndust engir bilunarkóðar geymdir. Ég lét mæla smurolíuþrýsting. Hann reyndist eðlilegur. Fyrir tilviljun varð ég var við að mikil óhreinindi (klístrað sót) eru innan í soggreininni. Veit ekki hvort það gæti tengst þessu máli. Þetta fimbulfamb er þegar búið að kosta mig mikla peninga og nú er ég ráðþrota.

Svar:
Það er von að erfitt geti verið að finna svona bilun þegar enginn bilunarkóði er til staðar. Það sýnir ef til vill best að tölvutæknin kemur ekki í stað undirstöðuþekkingar. Þessi vél er með forðagrein í stað olíuverks (CRDi = Common Rail Diesel injection). En eftir talsverðar pælingar og bréfaskipti er þetta niðurstaðan: Óhreinindin í soggreininni benda til ófullkomins bruna. Þótt þú minnist ekki á aukna eyðslu hlýtur hún að vera merkjanleg. Oft má rekja svona glamur til baklekra spíssa. Ónýtir spíssar sem ekki halda þrýstingi hoppa í sætunum og gefa frá sér smelli svipuðu undirlyftuglamri (þekkt í Toyota og Nissan-Diesel-vélum). Í þessari vél eru 5 spíssar. Líklega eru 2-3 þeirra ónýtir og ástæða til að endurnýja þá alla. (Því má bæta hér við að þetta reyndist vera málið).

Chrysler Town & Country. Bakkgír týndist
Spurt: Ég er með fjórhjóladrifinn sjálfskiptan Chrysler Town & Country árg. 2003. Skiptingin var farin að snuða og nötra í bakkgír og allt í einu hætti hann að virka. Ég er úti á landi og mér var sagt að það myndi kosta um 800 þús. kr. að endurbyggja skiptinguna, fyrir utan kostnað við flutning bílsins til Rvk. Á ég einhverra annarra kosta völ?

Svar:
Já - þetta telst ekki alvarleg bilun í skiptingu. Fáðu bílvirkja til aðstoðar. Taktu skiptinguna úr og merktu allar slöngur og tengi sem henni tilheyra svo það fari allt aftur á sama stað við ísetningu. Sendu aflskiptinn (konverterinn) til Jeppasmiðjunnar á Ljónstöðum til endurbyggingar. Endurnýjaðu svo plánetugírinn, bremsubandið og fleira sem bílvirkinn kann skil á. Hlutina færðu hjá Bílabúðinni hf. í Kópavogi. Þannig áttu að geta sloppið með 400 þús. kr. heildarútgjöld.

202
Gaumljós eru ekki til skrauts - Ekki drepa á Diesel-vél .þegar ....
,,Töffari les ekki leiðbeiningar," enda í látlausu basli með bíla og fleira. Oft liggur handbók bíls, með öllum nauðsynlegum upplýsingum og í upprunalegum umbúðum í hanskahólfinu þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Stundum verður hún síðasta haldreipið þegar rafhlaða farsímans er tæmd án þess að náðst hafi í nokkurn til að upplýsa þýðingu blikkljóssins í mælaborðinu. Því ráðlegg ég bíleigendum að taka nú fram bókina og fara yfir myndina af gaumljósunum í mælaborðinu og lesa skýringar um merkingu þeirra. Það getur komið sér vel og jafnvel sparað manni umtalsverð útgjöld.

Nýrri bílar með Diesel-vél eru með ýmsan búnað sem ekki tíðkaðist fyrir fáeinum árum. Sem dæmi eru nýjar mengunarvarnir til að mæta skerptum kröfum um umhverfisvernd. Bílaframleiðendur treysta því ekki að notendur bílanna fletti handbókinni til að kynna sér helstu leiðbeiningar. Þeir koma því fyrir áberandi viðvörunum á sólskyggnum. Og sem enn frekari viðvörun (til að firra töffara og aðra streðara vandræðum) hafa sumir framleiðendur sérstaka glugga í mælaborði til að birta blikkandi boð til að tryggja að bílstjóri bregðist rétt við þegar gaumljós kviknar.

,,Sjálfhreinsandi" öragnasía (DPF = Dust Particle Filter) er nú í útblásturskerfi margra nýrra Diesel-bíla (undantekning er Dodge Ram 2010 með 5,9 lítra Cummins-vélinni því útblástur hennar er hreinni en nýjustu Diesel-véla frá Ford og GM - enda ,,Trukkur ársins 2010" hjá Motor Trend)). Til að hámarka hreinsun útblástursins og halda nituroxíðum í lágmarki fylgir öragnasíum búnaður sem sprautar rándýrri keytu (Ablue/urea) úr sérstökum geymi ýmist beint inn í brunahólf eða skammtar hana í eldsneytisgeyminn.

Hugtakið ,,sjálfhreinsandi!" gefur ekki alveg rétta mynd. Annars vegar brennir kerfið ekki úr síunni jafnóðum heldur í törnum og hins vegar fer talsverð orka í að hreinsa öragnasíuna. Þegar hreinsunin á sér stað en það gerist alltaf þegar vélin er í gangi birtist viðvörun í mælaborðinu, t.d. ,,Emission System Cleaning" (skilaboðin geta verið mismunandi orðuð eftir tegund bíls). Bílstjórinn finnur greinilega fyrir þessari hreinsun, ef ekki með því að eyðslumælirinn hoppar upp - þá með áberandi kraftleysi þar til ljósboðin slokkna.

Reglan er sú að ALDREI skuli drepa á vél Diesel-bíls fyrr en þessi skilaboð hafa slokknað. Sumir bílar eru þeirrar ónáttúru að sé drepið á vélinni án þess að þessari ,,garnahreinsun" sé lokið getur sú staða komið upp að Diesel-vélin verði ekki gangsett á ný fyrr en viðkomandi bíll hefur verið fluttur (á palli) á verkstæði með nauðsynlegan tölvubúnað. Það er því ekki út í bláinn sem ég hef sagt að þessi mengunarvörn sé einhver versta sending sem mögnuð hefur verið á bíleigendur í seinni tíð. Ég er sammála þeim sem hafa gagnrýnt að ofurkapp skuli lagt á alls konar mengunarvarnir í bílum, jafnvel búnað sem bílaframleiðendur geta ekki leyst á sómasamlegan hátt tæknilega (erfiðir tímar) en á sama tíma skuli nánast ekkert vera gert til að draga úr meiri og alvarlegri loftmengun frá flugsamgöngum í heiminum, mengun frá fiskveiðum og flutningum á sjó - að því virðist vegna þess að pólitíkusar vita að almennir kjósendur finna hvorki lykt af flugvélum í 10 km hæð né af skipum sem lagt hafa úr höfn.

201
Hyundai 2.7 Diesel - brotin vél vegna yfirsnúnings er viðurkenndur galli!

Spurt: Ég er með bilaðan Hyundai Santa Fe 2005 Diesel 2.7 lítra V6. Vélin fór á yfirsnúning og myndaðist grár mökkur í útblæstrinum. Bíllinn hefur beðið á verkstæði í tæpan mánuð. Vélin er sögð ónýt og mér hefur ekki tekist að finna aðra vél þrátt fyrir að hafa haft samband við partasölur um allt land. Mér er sagt að ekki borgi sig að opna vélina vegna dýrra varahluta og vinnu. Hjá umboðinu er mér sagt að líklegast hafi spíssar gefið sig með þessum afleiðingum. Umboðið firrar sig allri ábyrgð og vill ekkert fyrir mig gera. Hvar gæti ég fengið notaða vél í lagi? Hvernig geta ónýtir spíssar valdið svona eyðileggingu?

Svar: Þegar Diesel-vél fer á yfirsnúning veldur höggið, sem stimpillinn myndar við stefnubreytingu uppi og niðri, því að eitthvað lætur undan og brotnar. Talað er um tvær ástæður: Fæstar smærri Diesel-vélar hafa mótorbremsu, - spjaldloka sem þrengir pústgreinina. Öfugt við bensínvél er lítið sem ekkert sog í Diesel-vél og án mótorbremsu hentar hún ekki til að halda við með því að beita gírum í stað eða með bremsum, eins og tíðkast með bensínvél. Sé Diesel-vél skipt niður í brattri brekku, t.d. með eftirdrátt, getur það valdið yfirsnúningi og skemmdum. Því á að nota bremsur í meiri mæli með Diesel-vél. Hins vegar getur það gerst að eldsneyti Diesel-vélar blandist smurolíu. Nái borð smurolíu, sem inniheldur eldsneyti, að hækka nægilega til að ,,pilsfaldar" stimplanna ausi blöndunni upp með sér fær vélin ótakmarkað eldsneyti (botngjöf) og rýkur upp í snúningi þar til hún brotnar. Til þess þarf vélin að vera mjög heit. Mikil hætta getur skaðpast því hvorki ádrepari né inngjöf virkar (ég hef kæft vél inni á verkstæði með því að tæma kolsýru úr slökkvitæki í loftinntakið - en það er einungis hægt þegar inntakið er aðgengilegt, húddið opið og viðkomandi nógu vitlaus til að forða sér ekki út hið snarasta)
Spíssar geta verið baklekir eftir að drepið hefur verið á vél (eldsneytið sigið niður með stimplum). Spíssar geta verið lausir í heddum og uppblástur valdið of lágri þjöppun og uppsöfnun óbrunnins eldsneytis. Báðar tilgáturnar finnast mér ósennilegar nema í undantekningartilfellum.
Líklegri orsök tel ég vera óeðilega sótmyndun vegna bilunar í pústhringrás (EGR) eða vegna bilunar í hreiniskerfi öragnasíu (PDF) sem fylli pústþjöppuna af sóti. Þá slitnar smurða burðarlegan í þjöppunni. Bilun í EGR-rásinni getur myndað óeðlilegt sog sem dregur eldsneyti inn í millikælinn þar sem það safnast saman, kemst inn í brunahólfin og valdið yfirsnúningi eða sigið niður með stimplunum. Eldsneytið getur einnig komist í smurolíuna gegn um burðarrlegu pústþjöppunnar. Séu spíssar endurnýjaðir við þessar aðstæður getur það því reynst skammgóður vermir. Stundum gera þessar ,,hamfarir" boð á undan sér með vinnslukippum í vél í öðrum tilfellum gerast ,,skemmtilegheitin" allt í einu og vélin hrynur sé ekki unnt að stöðva hana - sem sjaldnast er hægt nema olíuborðið lækki hratt í pönnunni eða hentug fyrirstaða til staðar. Allra nýjustu Diesel-vélar og fáeinar eldri eru með sérstakan búnað sem kemur í veg fyrir yfirsnúning af þessu tagi. Flestar aðrar, sama hver tegundin er, geta lent í þessu. Draga má úr hættunni með því að beita bremsum í stað vélar til að hægja ferð niður brekkur og að fylgjast reglulega með því að smurolíustaðan í Diesel-vél sé eðlileg. Yfirsnúningur veldur oftast miklum skemmdum en þó er ástæða til að opna vélina og kanna málið. Þessar 2.7 lítra V6 Diesel-vélar í Hyundai eru ekki mjög algengar. Japanskar vélar ehf. í Hafnarfirði (sími 565 3400) hafa flutt inn nýlegar vélar úr tjónabílum. Sænsk partasala mun hafa átt ýmsar vélar og jafnvel selt hingað www.bildelsbasen.se

VIÐBÓT:
Annar eigandi Hyundai Santa Fe með 2.7 Diesel-vél hafði samband og fullyrti að þegar sams konar ,,hrun" átti sér stað í hans bíl, sem að vísu var enn í ábyrgð, átti ekkert að gera fyrir hann. En eftir talsvert þref, hafi komið í ljós að þetta væri viðurkenndur galli í þessum ákveðnu Hyundai-vélum sem framleiðandi bæti eftir ákveðnum reglum. Sem sagt: Umboðið getur ekki firrað sig ábyrgð á þessu tjóni og ætti viðkomandi eigandi hiklaust að fara með málið í lögfræðilegan farveg taki umboðið ekki þátt í þessu tjóni án múðurs. Því til viðbótar má ætla að svokölluð ,,5 ára regla" (um endingu meiri háttar hluta tækis) í lögum um neytendavernd eigi við í þessu tilfelli en Hildigunnur Hafsteinsdóttir lögfræðingur Neytendasamtakanna hefur vakið athygli á 5 ára reglunni, m.a. á vefsíðu Neytendasamtakanna.

200
,,Olíulindir" landbúnaðar og sveitarfélaga!

Enn um metangas (CH4) í stað bensíns og gasolíu
Spurt: Eru vörugjöld endurgreidd af tækjum til að breyta bílvélum til að brenna metangasi? Hefur þú heyrt af áætlunum olíufélaga um skipulagða dreifingu metangass?

Svar: Ríkið greiðir niður verð nýrra bíla sem nota metangas sem eldsneyti. Mér er ekki kunnungt um að vörugjöld séu gefin eftir af breytingarbúnaði. Nú má fá metangas á 3 stöðum á Suð-vesturhorninu. Hef ekki séð neitt frá olíufélagi um framhald. Hluta seinni spurningarinnar svara ég þannig: Mín skoðun er sú að dreifing metans, sem eldsneytis, muni ekki verða vandamál heldur skapa ný tækifæri og byggi hana á eftirfarandi rökum:

A. Dreifingarkerfi olíufélaga hefur breyst. Nú reka þau umfangsmikla verslun um allt land með rekstrar- og dagvöru auk þess að selja veitingar.

B. Olíufélögin hafa flutt inn, dreift og selt eldsneyti en ekki framleitt.

C. Eðlismunur er á vetni sem er raforkuafurð og metan sem er lífrænt eldsneyti. Mun minni hættu stafar af framleiðslu, flutningi dreifingu og notkun metans en vetnis.

D. Á skífuriti 2.6 á bls. 37 í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar (www.ust.is), sem er 234 bls. á ensku og má nálgast á Netinu á slóðinni: http://ust.is/media/fraedsluefni/ICELAND_NIR_2010.pdf
kemur fram að heildarlosun metans á tímabilinu 1990-2008 (reiknað í CO2-ígildum) reiknast vera 54% frá landbúnaði og 45% frá úrgangi/sorpi. Á vef Umhverfisstofnunar er að finna fróðlegar upplýsingar (einnig á íslensku) fyrir þá sem vilja kynna sér þá framtíðarmöguleika sem fólgnir kunna að vera í innlendri framleiðslu á metangasi sem eldsneytis fyrir farartæki í stað innflutts.

E. Metangas er gróðurhúsalofttegund (ghl). Metangas, sem myndast í urðuðu sorpi og er hvorki nýtt né brennt jafnóðum á staðnum, eykur losun ghl. Ísland er aðili að alþjóðlegu samstarfi með markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til að stemma stigu við meintum óæskilegum áhrifum á hita- og veðurfar jarðar. Tækju landbúnaður og sveitarfélög saman höndum um framleiðslu og dreifingu metans (eins og danskir kúabændur hafa gert um áratugaskeið) mætti mynda öruggt dreifikerfi um allt land; styrkja stoðir atvinnulífs með átaki í mengunarvörnum og bæta stöðu þjóðarinnar í loftslagsmálum samfara verðmætasköpun og gjaldeyrissparnaði.

F. Metan má framleiða nærri höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni með lífrænni gerjun mykju frá búum. Mest uppgufun metans er úr mykju frá mjólkurkúm, holdanautum og svínum og því næst úr úrgangi/sorpi, samkvæmt upplýsingum í áðurnefndri skýrslu Umhverfisstofnunar (Tafla 6.6, bls. 94).

G. Allar bensínvélar geta notað metan sem eldsneyti og unnið er að því að þróa einfaldari búnað til að breyta Diesel-vélum fyrir metan. Sem stendur er metan notað sem gas (CNG). Nú þegar er farið að selja einfaldan ódýran búnað sem gerir kleift að fylla metan á gaskúta t.d. á býlum og í heimahúsum þar sem gas er notað til upphitunar og eldunar. Í Hollandi og Bandaríkjunum hafa verið þróuð ný metankerfi fyrir bensín- og Diesel-vélar í bílum sem flytja með sér metan í fljótandi formi (LNG/LBG) og er þess skammt að bíða að farið verði að selja og dreifa fljótandi metan (fljótandi við -160 °C) en þá er skipt um geyma á þjónustustöðvum. Við það eykst drægni fólks- og vöruflutningabíla í um 1200 km á hverri fyllingu og fólksbíla í um 400 km.

199
Audi A4 Tdi Miðstöð í hitar ekki
Spurt: Ég er að glíma við Audi A4 tdi árg. 1998. Miðstöðin í honum vill ekki hitna nema vélin sé þanin um og yfir 3000 sn/mín. Ég er búinn að skola út kerfið, skifta um vatnslás, lofttæma með því að lyfta þrýstikútnum og tappa af kerfinu í gegnum þartilgert gat á vatnshosu til miðstöðvar Hefur þú heyrt um þetta vandamál í AUDI A4?

Svar: Vandamálið er þekkt (hef svarað svona fyrirspurn áður). Aðferðin sem þú lýsir er rétt, svo langt sem hún nær, sé vatnsdælan ekki ónýt. En þetta andskotans drasl er greinilega ekki hannað af pípulagningarmanni. Í fyrsta lagi þarf kerfið að vera þétt og undir fullum þrýstingi (fullheitt). Kælivökvi verður að vera nægur til að botnfylla yfirfallskútinn eftir að hann hefur verið losaður og lyft upp eins og hægt er. Vélin er látin ganga á 3000 sn/mín, losað upp á annarri miðstöðvarhosunni (undir hlíf á hvalbaknum) og hún dregin út á stútnum þar til loft hleypur út um lítið gat á slöngunni. Þetta getur þurft að endurtaka og er hættulegt verk. Hlífðarföt, andlitshlíf og skinnhanskar minnka hættu á slysi (brennheitur kælivökvi undir miklum þrýstingi er hættulegur).

Jeppakaup
Spurt: Þrátt fyrir kreppuvælið langar okkur hjónin að eiga stóran jeppa til að nota á fjöll. Hann má ekki kosta meira en eina milljón og helst vera á 33-35 tommu dekkjum. Nú berast böndin að Nissan Patrol, árg. 1999, 2,8 l. dísel, ekinn 165 þús.km. (á 35 tommu dekkjum). Það er búið að skipta um kúpplingu, stýrisenda o.fl. slithluti og bílinn virðist vera góður. Það er einn hængur á: Það syngur dálítið í gírkassanum (nema í 4. gír). Hann dettur ekki úr gírunum og ekkert slit virðist vera í kassanum að öðru leyti. Mín spurning er: Er þetta alvarlegt mál, þarf að gera við þetta strax?

Svar: Mér er nær að halda að um Patrol gildi það sama og um Rússajeppann forðum: Þegar búið var að skipta um allt sem máli skipti (vél, gírkassa stýrisvél og endurhanna drifin) voru þetta fínir bílar því fjöðrunin var svo frábær! Það getur sungið í gírkassa út af einni slitinni eða skemmdri legu eða vegna þess að hann lekur og/eða er hálftómur. ,,Söngurinn", sé hann í gírkassanum, gæti verið vegna þess að hann sé slitinn og líklegur til að gefa sig við fyrstu áraun. Ráðlegg þér að fá einhvern sérfróðann til að hlusta drifbúnaðinn; athuga endaslag o.s.frv. Mér dettur í hug Árni Brynjólfsson rennismiður í Hafnarfirði. Annars er breyttur Patrol líkur óutfylltri ávísun á stöðug útgjöld og vandræði. Af dísiljeppum er Land Cruiser 100 besti kosturinn (dýr). LandCruiser 90/120 með forðagrein (D4-D) eru sparneytnir en dýrir í rekstri. Musso með 2.9 tdi Benz-Dieselvélinni er sparneytnastur og líklega ódýrastur í rekstri.

BMW X5 er flottur jepplingur
Spurt: Við hjónin höfum verið að skoða notaða bíla og fundum BMW X5 jeppa, V6 árgerð 2001. Þetta er snyrtilegur og fallegur bíll og á að vera í toopstandi, 2 eigendur og verið í reglubundnu þjónustueftirliti hjá umboði alla tíð. Hann er keyrðu 117.000 km. Það sem vefst fyrir manni er að bíllinn er brátt 10 ára. Má maður þá eiga von á stórum, dýrum bilunum? Við munum láta ástandsskoða bílinn komist málið á kaupstig en mig langað að spyrja þig um þitt álit og hvort þú hafir vitneskju um hvernig þessir bílar hafi enst, t.d. sjálfskiptingar.

Svar: Eftir 117 þús. km. er engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af aldrinum miðað við lýsingu. Ástandsskoðun gef ég ekki mikið fyrir - hún virðist vera peningaplokk í mörgum tilfellum. Skiptingin hefur ekki verið vandamál en á móti kemur að sjálfskiptur BMW eyðir 10-15% meiru en beinskiptur. Nýr BMW X5 er dýr og notaður BMW er dýr í rekstri. Á móti kemur að þér býðst notaður bíll (vonandi í góðu standi), á miklu lægra verði og því er ákveðið borð fyrir báru hvað varðar viðhald.

198
Pajero: Ónóg forþjöppun
Spurt: Pústþjappan í mínum Pajero 2800 Diesel 1999 virðist ekki skila nema 25% af venjulegum afköstum. Hvað er til ráða? Búið er að hreinsa og laga spíssa o.fl.

Svar: Oftast veldur þessu óvirk framhjáhlaupsgátt (Wastegate)- stendur föst opin eða armur brotinn í lokanum. Láttu athuga málið og EGR-hringrásarlokann um leið, t.d. hjá hjá Framtaki í Hafnarfirði.

Terracan: Ómögulegur eftir tímareimarskipti
Spurt: Lét skipta um tímareim í Hyundai Terracan 2.9 CDRi (turbo-Diesel) fyrir skömmu. 2 vikum seinna fór að bera á gangtruflunum, glamri í vélinni (líkt ventlaglamri), bilunar-ljósið" lýsti og vélin missti afl. Lét endurnýja eldsneytissíuna. Það breytti engu nema nú fór vélin ekki í gang. Á verkstæði var skipt um spíssa og kambásskynjara. 2 vikum seinna byrjuðu gangtuflanir aftur ásamt glamri í vélinni, bilunar-ljósi og vélin aflvana. Þessi bíll hefur gengið 120 þús. km vandræðalaust en þetta hefur kostað mig rúma hálfa milljón! Hvað getur verið að hrjá vélina?

Svar: Mig grunar að þeim, sem endurnýjuðu tímareimina, hafi orðið á í messunni. Ekki hafi verið gengið rétt frá strekkjaranum og vélin sé því röng á tíma. Ráðlegg þér að leita til fagmanna og fá úr því skorið hvort tíminn sé réttur, strekkjarinn sé í lagi og hvort loftleki geti verið í eldsneytislögninni. Bendi á Sigurð Einarssonar hjá Bílhaga (893 3510) eða Vélaverkstæðið Kistufell á Tangarhöfða (Guðmundur Ingi Skúlason).

Dodge Caravan: Sýður á kerfinu
Spurt: Ég er með Dodge Caravan 2003. Vélin hitnar óeðlilega gangi hún lengi lausagang og þá flæðir upp úr yfirfallskútnum. Rafknúnu vifturnar virðast ekki fara í gang. Vélin kælir sig eðlilega í lengri akstri. Búið er að kóðalesa vélartölvuna án árangurs; öryggjaboxið hefur verið tekið úr og skoðað, jarðsambönd hreinsuð en allt án árangurs. Hvað gæti verið að?

Svar: Vélartölvan fær boð frá hitastigsnema (Coolant sensor), sem hún sendir áfram á blásarastýringu (Fanmodule) - stykki, sem er við vatnskassann og fest neðarlega á festigrindina. Blásarastýringin er bæði straumloka (relay) og hraðastýring fyrir kælivifturnar. Stýringin hefur verið að bila með afleiðingum eins og þú lýsir. Umboðið (Jöfur) gæti átt hana, Bílabúðin hf. í Kópavogi, AB-varahlutir, N1 eða IB á Selfossi. Athugaðu verðið á þessum stöðum.

Opel Zafira: Lítið stykki veldur meiriháttar bilun
Spurt: Ég er með Opel Zafira sem er að gera alla brjálaða sem nálægt honum koma: Ljósið fyrir "Exhaust Emisson" lýsir stöðugt. Við gangsetningu höktir vélin í mínútu, rýkur þá upp í 1500 snúninga og hægir svo á sér í 800 og gengur þá eðlilegan lausgang. Sé reynt að taka af stað áður en þetta gerist kviknar ,,hálku-ljósið" í mælaborðinu og vélin verður nánast afllaus við inngjöf. Stjórnkerfi vélarinnar virðist vera hægt að endurinnstilla með því að drepa á vélinni, taka 15A öryggi, sem er fyrir vegmæli og fleira, úr og setja í aftur eftir smátíma. Þá má komast af stað en vélin er grútmáttlaus. Á verkstæði var skipt um háspennukefli. Bíllinn var eðlilegur í nokkrar klst. Á verkstæðinu fundu þeir út að neista vantaði stundum á 1 og 3. Á öðru verkstæði skilaði kóðalestur "Problem with fuel trim" - en engri lausn. Hvað í fj.. getur þetta verið?

Svar: Þessi vandræði með Opel-kerfið eru þekkt (Ope- vélstýrikerfin frá Bosch eru vond hönnun): Öll gaumljós lýsa, vélin kraftlaus, gengur ekki á öllum, fer ekki í gang, höktir o.s.frv. Í 99% tilfella veldur þessum draugagangi ónýtur loftflæðiskynjari (Airflow sensor), - stykki sem er í barkanum milli lofthreinsara og soggreinar. Skynjarinn hefur fengist í umboðinu á 60 þús. kr. Auðvelt er að skipta um hann, - og bíllinn mun verða eðlilegur á ný.

197
VW-sjálfskipting til vandræða
Spurt: Ég á Passat station, sjálfskiptan með 2000 vél, árg 2001, ekinn 139.000. Hann hefur farið 5 sinnum á verkstæði umboðsins vegna þess að hann skiptir sér stundum ekki upp úr 1. gír, hvort sem valið er D2 eða D3. Hann er líka kraftlaus og skiptir niður í litlum halla. Það sem gert var hjá umboðinu:
1. skiptið - skiptingin endurstillt.
2. skiptið - endurnýjaður rofi sem mig minnir að nefnist enduræsirofi.
3. skiptið - var ekkert gert af því þeir fundu ekki neina bilun.
4. skiptið - höfðu bílinn í 2 vikur, endurnýjuðu olíu á vél og skiptingu og, að þeirra sögn, var allt annað að keyra bílinn… Þessi ,,viðgerð" dugði 4 daga!
5. skiptið - var bíllin dreginn til þeirra í gangi svo þeir gætu prófað hann bilaðann. En þeir drápu á honum, kóðalásu og ,,núlluðu út kerfisvillu" eins og það var orðað ...
Bíllinn hefur ekkert skánað. Hefur þú heyrt af svona bilun í VW Passat? Hver er lausnin?

Svar: ZF-sjálfskiptingar og búnað tengdum þeim í sumum Wolksvagen tel ég vera sérstaka vandræðagripi. Í þínu tilviki virðist þetta vera fleiri en ein bilun, önnur þeirra í álags-stýribúnaði skiptingarinnar. Fáir hafa næga tækniþekkingu til að eiga við þessar skiptingar og þær eru ekki eftirsótt verkefni. Ef einhver getur leyst þetta vandamál þá væri það Jeppasmiðjan við Selfoss.

Ónýtur Pajero-vatnskassi
Spurt: Ég er á Pajero '99 2.8 TDI, sjálfskiptum sem er á 33" dekkjum. Bíllinn hefur reynst mér vel og alltaf gengið eins og klukka. En eftir að ég fór að ferðast með 12-feta fellhýsi (800-850 kg) hefur vélin hitað seig upp að rauða strikinu í bröttum brekkum, jafnvel þótt ég taki yfirdrifið af. Þegar komið er á jafnsléttu dettur hitamælirinn niður í eðlilega stöðu. Ég hef einnig prófað að dóla upp brekkur í 2.gír í stað D en það breytir engu. Hvað getur þetta verið?

Svar: Láttu prófa hvort hitastýrði rofinn í kælirásinni gangsetji rafknúnu kæliviftuna og hvort viftan sjálf sé í lagi. Virki kæliviftan eðlilega tel ég líklegast miðað við aldur bílsins að vatnskassinn, sem er með innbyggðan kæli fyrir sjálfskiptinguna, sé stíflaður og ónýtur. Þú færð nýjan á hagstæðu verði m.a. hjá Gretti vatnskössum á Vagnhöfða.

Dagljós og hraðastillir
Spurt: Ég er með Dodge Ram 2500 HD. Er hægt að fá dagljósabúnað sem myndi virka í þessum bíl?

Svar: Nokkur fyrirtæki hafa selt eftirbúnað sem kveikir ökuljós sjálfvirkt og annast ísetningu hans. Sem dæmi má nefna VDO, Rótor, Nesradíó, Aukaraf, Arctic trucks o.fl. Þessi fyrirtæki hafa einnig boðið hraðastilla (Cruise control) sem passa í marga bíla og annast ísetningu þeirra.

Tölvukubbur sem eykur dráttargetu
Spurt: Ég þarf öflugan pallbíl með Diesel-vél. Hvort myndir þú mæla með Ford eða GM? Hvar fær maður tölvukubb til að auka hagkvæmni svona bíls með stóra hestakerru í eftirdragi?

Svar: Bilanatíðni Diesel-pallbíla frá Ford er miklu hærri en Diesel-pallbíla frá GM. Sjálfskiptingar í Ford pallbílum eru síbilandi. DuraMax-Diesel-vélin í GM hefur reynstt mjög vel og það heyrir til undantekninga klikki Allison-skiptingin sem er við þá vél. Tölvukubba fyrir Diesel-pallbíla færðu hjá IB á Selfossi. Þeir annast jafnframt ísetningu.

196
Óvirkt loftkælikerfi
Spurt: Frystikerfið í loftkælingu Mazda 6 hætti að kæla. Verkstæði bætti kælimiðli á kerfið. Sú aðgerð entist 2 daga. Hvað á ég að gera til að fá þetta í eðlilegt lag?

Svar: Frystikerfið lekur. Til að finna lekann, þétta kerfið og endurhlaða þarf sérstök áhöld, þekkingu og reynslu. Sértu á höfuðborgarsvæðinu færðu hana hjá Gísla Wium í Keflavík (893 4502). Sértu úti á landi skaltu leita til þeirra sem gera við frystitæki í fiskiskipum, frystihúsum, flutningabílum og/eða verslunum.

Afdrifaríkt steinkast (sem má verjast)
Spurt: Eftir sunnudagsbíltúr á VW Touareq-jeppanum blasti við sprunga með gati á öðru framljósinu. Mér er sagt að ekki sé hægt að skipta um gler og nýtt ljósker hafi kostað 280 þús. fyrir Hrun. Bíllinn er ekki í ábyrgð. Er þetta eðlilegt verð og getur verið að ekki sé hægt að skipta um gler á svona ljóskeri?

Svar: Skipta má um gler á svona ljóskeri (sjá Brotajárn nr. 23 í Gagnabanka á Vefsíðu Leós). Vandinn er að fá glerið. Framleiðandi bílsins hefur meira upp úr því að selja ljóskerið en glerið en fyrirhöfnin svipuð. Um eðli verðs get ég ekki dæmt en hef séð hærra verð. Ljósker eins og nú tíðkast eru með Zenon-spenna o.fl. sem kostar sitt (Zenon-perur hafa kostað 25-50 þús. kr/stk.). Hjá Poulsen, Stillingu, AB-varahlutum o.fl. hefur mátt fá plasthlífar sem ekki kosta mikið en verja ljósker bíla. Af þinni reynslu að dæma ætti að vera góð fjárfesting í slíkum hlífum.

Viðbót vegna ábendingar frá lesanda: Miklu ódýrari lausnir eru til: Það er illskiljanlegt að fólk skuli láta bílaumboð okra á sér eins og raun ber vitni. Bíleigendur eru að kaupa tölvur fyrir vélar og sjálfskiptingar á 500 þús. kr. þegar hægt er að fá gert við þær fyrir 30-50 þús. kr. (Varahlutalagerinn 699 3737), kaupa framljós á VW Touareq, sem nú kosta 340 þús. kr. stykkið hjá Heklu, þegar hægt er að fá notað en heilt slíkt ljósker á e-bay uppboðsmarkaðnum fyrir 75 þús. kr. með aðflutningsgjöldum og vsk. Einu tölvurnar sem ekki fæst gert við eru þær sem stjórna öryggisbúnaði (ABS og Air-Bag) og er það vegna hugsanlegrar ábyrgðar. En slíkar tölvur, t.d. ABS-tölvu í iSkoda Octavia, sem Hekla selur á 500 þús. kr, má kaupa beint frá sænskri partasölu www.bildelsbasen.se en frá þeim kostar hún, hingað komin, 60 þús. kr. Sú partasala hefur reynst áreiðanleg og á yfirleitt hluti í flesta nýrri bíla á sanngjörnu verði. Það sem mestu máli skiptir er að vera með rétt númer á viðkomandi hlut (númerið af gamla hlutnum fáist það ekki uppgefið hjá okrurunum í umboðunum). Þeir sem ekki treysta sér til að panta sjálfir geta nýtt sér pöntunarþjónustu IB á Selfossi, Bílabúðarinnar hf. í Kópavogi, www.varahlutir.is , www.bílhlutir.is , Poulsen og fleiri fyrirtækja (Ath. reynsla margra er sú að pöntun hjá Bílabúð Benna sé oftast dýrari en sambærileg þjónusta annars staðar. Því borgar sig að bera saman verð).

Frjóagna-síur: Mikill verðmunur
Ábending frá lesanda: Þú hefur öðru hvoru bent á að frjóagnir og önnur aðskotaefni í lofti geti valdið fólki óþægindum og því eigi að endurnýja loftsíuna í inntaki miðstöðvarinnar árlega. Ég er ánægður eigandi 5 ára gamals Nissan X-Trail. Á Netinu fann ég upplýsingar með myndum um hvernig eigi að endurnýja þessa inntakssíu. (,,Cabin Air Filter Replacement" á Google). Sían í bílnum reyndist, vægast sagt, ógeðsleg; kolsvört og mettuð óhreinindum sem maður hefur jafnvel verið að anda að sér! Ég hringdi í umboðið (IH) og var sagt að sían kostaði 8600 kr. Fannst það dýrt fyrir ekki meira stykki. Hringdi því í N1. Þar kostaði hún 1100 krónur (um 800 kr. með FÍB-afslætti). Ég setti nýju síuna sjálfur í og finnst það talsvert afrek því þumalfingurnir eru fleiri en tveir. Fleiri bíleigendur en ég geta því gert þetta sjálfir og sparað sér dágóðan pening. (Í handbókum margra bíla er sýnt hvar þessi sía er og hvernig á að bera sig að).

Hyundai Terracan, vandræði
Spurt: Er með Hyundai Terracan 2.9 CRDi Diesel árg. 03 ekinn um 120 þús. Lét skipta um tímareim nýlega. Skömmu seinna fór að bera á gangtruflunum, glamri í vélinni (líkt ventlaglamri). ,,Check ljósið" kviknaði og vélin missti afl. Var ráðlagt að láta endurnýja eldsneytissíuna. Gangurinn lagaðist ekki. Á verkstæði var mér sagt að endurnýja þyrfti kambás-skynjara og spíssa. Gangurinn breyttist en svo byrjaði ballið upp á nýtt með bilunarljósi og aflmissi. Bíllinn hefur aldrei verið til neinna vandræða fyrr en nú en þessar tilraunir hafa kostað mig rúmar 500 þúsund krónur. Hvað getur verið að hrjá vélina?

Svar: Mig grunar að sá sem endurnýjaði tímareimina hafi ekki kunnað sitt fag og strekkingin á reiminni sé ekki eðlileg. Áður en þú kostar meiru til ráðlegg ég þér að leita til fagmanna með reynslu og fá úr því skorið hvort tíminn á vélinni (reimin) sé réttur og strekkjarinn virki eðlilega. Sem dæmi bendi ég á Sigurð Einarsson hjá Bílhaga (893 3510) og/eða Guðmund Inga Skúlason hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli á Tangarhöfða.
Ábending frá lesanda: Lenti í svipuðu með sams konar Terracan. Það reyndist vera vatnsdælan sem var ónýt.

195
Suzuki Vitara þungur í stýri
Spurt: Getur þú gefið mer ráð til þess að létta stýrið í bílnum mínum sem er Suzuki Vitara Wagon 5d 1999. Hann er dálítið þungur þegar lagt er í stæði. Ég tók í Grand Vitara og Isuzu Trooper sem báðir reyndust vera léttari í stýri en minn. Er hægt að stilla þrýsting frá stýrisdælunni?

Svar: Suzuki Vitara á ekki að vera þungur í stýri. Reimin gæti slúðraði á trissu stýrisdælunnar eða vökva vantað á kerfið. Þótt hægt sé að auka þrýsting frá dælunni á þess ekki að þurfa. Algengt er að stirður hjöruliður, sem tengir stýrisstöng og stýrisvél og er neðan á stýrishólknum, þyngi stýri, - stundum með hnökrum og braki eða þannig að þyngra verður að beygja á aðra hliðina. Endurnýjun hans er ekki stór aðgerð. Ástand dekkja (slit og þrýstingur) getur haft áhrif á stýri (munstur þarf að vera 3 mm eða dýpra og þrýstingur á að vera um 2 bör = 36 psi).

Ford F-150, framhald
Svar varðandi þennan pallbíl í síðasta pistli mínum í Mbl. var stytt um of og því ófullnægjandi. Biðst velvirðingar á því og bendi á ítarlegri umfjöllun um þennan bíl hér neðar í Brotajárni 34.

Renault-mælaborð má laga
Spurt: Getur þú upplýst mig um mælaborð í Renault Grand Scenic II (7 sæta). Einhver bilun í stafræna mælaborðinu lýsir sér þannig að allir ljósstafir sýnast daufari og klukka og vegmælir heldur ekki stöðu í minni. Þetta kom upp í framhaldi af því að ég aftengdi rafgeymi og tengdi aftur. Er þetta eitthvað sem þú þekkir og er einhver leið að laga þetta án þess að rífa bílinn í spað?

Svar: Væri rafbúnaðurinn vandaðri væri Renault Scenic líklega með skárri bílum. Að þetta gerist við aftengingu rafgeymis er áreiðanlega tilviljun en þó skaltu prófa öryggi sem merkt eru ,,instrument panel" - eitt þeirra gæti hafa brunnið. En líklegasta orsökin er sambandsleysi í tengjum á prentrásum aftan á mælaborðsplötunni - stundum léleg jörð á borðinu. Þú losar svörtu tvískiptu plastkápuna sem umlykur skjáinn, spennir frá, smeygir áhaldi undir og dregur upp úr falsinu. Fjöltengin efst á skjánum eru aftengd. Losar tvær Torx 20-skrúfur hvor sínum megin og skjárinn er laus. (Þú getur ekið bílnum þótt skjárinn sé ekki í).
Rafeindafræðingur getur yfirleitt gert við skjáinn, t.d. þeir hjá Nesradíó. Veit ekki hvort hægt sé að rétta km-teljarann en innstilling klukkunnar er sýnd í handbók bílsins. Reynist skjáplatan ónýt skaltu leita til partasala.

Skoda Octavia með biluð stefnuljós
Spurt: Ég ek á Skoda Octavia 2002 og er í vandræðum með stefnuljósin hjá mér.
Þannig er að þau gefa ekki frá sér tilskilin merki nema í skamma stund og stundum bara alls ekki. Einhver benti mér á að þetta gæti verið stefnuljósablikkarinn og hann þyrfti að endurnýja. Hvar er hann í bílnum og gæti ég gert þetta sjálfur í bílskúrnum?

Svar: Virki hættu-blikkljósin óaðfinnanlega er blikkarinn fyrir stefnuljósin í lagi Ef ekki þá er hann á bak við hættuljósatakkann í mörgum árgerðum. Ónýt pera, slæmt samband í perustæði eða sambandsleysi í tengi blikkarans getur valdið svona draugagangi. Þú getur lagfært þetta sjálfur en gætir sparað þér tíma með því að leita til Rafstillingar í Súðarvogi eða Bílarafs í Hafnarfirði.

194
Kia Sorento CRDi drepur á sér við högg
Spurt: Kia Sorento 2.5 CRDi sjálfskiptur af árgerð 2003 á það til að steindrepa á sér á vondum malarvegi (Vestfirðir) komi högg á bæði framhjólin samtímis. Sé beðið smástund fer vélin aftur í gang og gengur eðlilega þar til næsta högg kemur. Eins og gefur að skilja eykst ekki öryggistilfinningin í akstri við þetta í þessum annars prýðilega jeppa. Hvað getur valdið þessu? Er sérstakt sem þú telur að hafa þurfi auga með í Kia Sorento?

Svar: CRDi er skammstöfun á Common Rail Direct injection, þ.e. vél með beinni innsprautun um rafspíssa frá forðagrein. Ástigsinngjöfin er ekki tengd soggrein með barka heldur er hún þrepalaus rofi sem stjórnar rafsegulmótor sem hreyfir spjaldið í inngjafarkverkinni (Drive by wire). Sé tæring í þessum rofa eða tenginu getur högg valdið sambandleysi sem drepur á vélinni. Á forðagreininni er ádrepari. Hann er rafsegulvirkur - stöðvar eldsneytisdælu og lokar fyrir eldsneytið þegar svissað er af. Samtímis opnast bakrás með öðrum segulvirkum rofa; þrýstingur að spíssum fellur og vélin stöðvast tafarlaust. Slæmt samband á þessum lokum getur valdið því að ákveðið högg drepur á vélinni.
Önnur atriði varðandi Sorento Diesel: Eldsneytissíu borgar sig að endurnýja reglulega (30 þús. km. millibil) og gæta þess að gúmþéttihringir á síuhylkinu sitji rétt. Nái plasthlífin ofan á vélinni að titra getur hún núið sundur leiðslur. Hana er auðvelt að losa af til að skoða rafleiðslur og eldsneytislagnir.
Útúrdúr: Varðandi rafvirka barkalausa inngjöf (Drive by wire) þá er hún ákveðin framför, ekki síst í jeppum. Gömlu jepparnir gátu hökt eða henst áfram í lága drifinu væri inngjöf beitt af óvönum. Með tölvuvæðingu hefur þetta breyst. Með þrepalausan rofa fyrir inngjöf, í stað barka, skiptir tölva um forrit fyrir inngjöfina þegar sett er í lága drifið; inngjöf verður ekki eins kvik heldur dýpri, mýkri og jafnari og er ágætt dæmi um hvernig tölvutæknin eykur torfærueiginleika jeppa.

Má laga upplitað lakk?
Spurt: Ég á rauðan Mazda 323 á ,,fermingaraldri" sem er í góðu lagi en lakkið, sem er að mestu leyti heilt, er orðið matt og farið að upplitast ,,grána." Ég er búinn að reyna flestar tegundir bóna með litlum eða engum árangri. Kannt þú einhver töfrabrögð sem kynnu að virka?

Svar: Sumir japanskir bílar af árgerðum upp úr 1991 voru málaðir með lakki sem átti að vera sérstaklega umhverfisvænt. Lakkið er án varnarhjúps (glæru) og hefur orðið matt og mislitt á tiltölulega stuttum tíma. Bónun virkar misjafnlega, jafnvel ekki til bóta. Í sumum tilfellum má skerpa litinn og gljáann með sérstökum efnum sem innihalda m.a. slípimassa og nefnast samheitinu color cutters á ensku. Á meðal þeirra eru "Quick Detailer'' frá Meguiar's (borið fram mag-væers) (Málningarvörur ehf.) og ,,Paint Cleaner" frá Sonax (N1). Þá hefur mér verið bent á að með efninu ,,Bumper Care" frá Auto Glym (N1), sem reyndar er ætlað til annars, megi fríska upp matt lakk með umtalsverðum árangri. Ég sel það síðastnefnda ekki dýrara en ég keypti þar sem ég hef ekki prófað það sjálfur.
Ábending frá lesanda: Sé lakkið ekki ónýtt, bara matt, á að vera hægt að massa það þannig að það gljái. Margar bónstöðvar taka að sér að massa bíla.

Ford F-150: Veikir punktar
Spurt: Ég er að velta fyrir mér kaupum á Ford F-150 pallbíl af árgerð 2005 með 5.4 lítra V8-bensínvél (Triton), m.a. til að draga fellihýsi. Er eitthvað sem ég þyrfti að skoða sérstaklega?

Svar frá eiganda í Florída:
Minn er að meðaltali í 17L/100 Km. Þetta er meðaleyðsla allan minn tíma, en hann var í 16,6 lítrum meðan ég hafði hann á 18" felgunum og bensínið var ekki selt með 10% Ethanol. (Um 12000 mílur af þessu) Er núna á 20" felgum. (Original undan 2007 FX4). Sáralítill dráttur þennan tíma og Floridaveðrátta, það mætti örugglega bæta 5-10% við þetta hér heima, og alltaf hefur blessaður hægri fóturinn mikið að segja. Ef sparneytinn fjölskyldubíll bíll þyrfti bensín fyrir um 400 Kr í bæjartúr myndi F-150 minn sennilega þurfa 850 Kr. Dráttur vagns eykur eyðsluna, en fólksbíllinn kemst sennilega ekki að heiman með vagninn sem spyrjandinn er með í huga. Ég er með Edge Evo tölvu, skemmtilegan grip, sem m.a. gerir manni kleyft að leiðrétta hraðamæli, lesa/eyða bilunarkóðum (DTC) og fleira og fleira.

Bilanir eru nánast óþekktar hjá mér. Veit samt að það hafa auðvitað verið ýmsir smákvillar, en þeir fylgja öllum bílum. Kertin eru gefin upp fyrir 100.000 mílur (160.000 Km), og mjög sjaldgæft að þau valdi vandræðum fyrr en skipta á um þau. Það eru samt engin vandræði með gengjur í þessum heddum, heldur verður neðri hluti kertisins eftir í heddinu. Þessi hönnun var alveg ný hjá Ford og hefur valdið mönnum miklu hugarangri og mikið verið bloggað um þetta mál. Það er auðvelt að finna allt um þetta á netinu. 'Eg er enn ekki búinn að skipta, en er auðvitað farinn að huga að því. Nú fást verkfæri sem gera mönnum kleyft að ná brotinu úr. http://www.f150online.com/forums/articles-how-tos/416976-spark-plug-change-2004-early-2008-5-4-3v.html

Verkfærin kosta 48 dollara hjá þessu fyrirtæki: http://www.tooldesk.com/automotive/subcategories/Spark-Plug.aspx

Pústgreinar hafa sprungið við íslenskar aðstæður en ég kannast ekki við pústgreinavandamál hjá mér eða öðrum hér á Florída-svæðinu. Framhjólalegur hafa oft verið til vandræða í svipuðum bílum, en hafa enst vel í þessum. 'Eg skipti í 105000 mílum, en þær voru ekki alveg búnar. Aftur á móti eru sogstýrðar driflokur sem hætta að aftengja fullkomlega en þá heyrist urr-hljóð frá hjólnöfunum sem mætti misskilja sem leguhljóð (ég lenti í því). Bíllinn minn var fyrstu 3 árin ,,fyrir norðan". Þar eru aðstæður líkari því sem er á Íslandi og höfðu handbremsuarmar (inn í skálum aftan) ryðgað fastir, þannig að vírinn aftengdist þegar tekið var úr handbremsu. Klukkutíma vinna hvoru megin, engir varahlutir.

Nauðynlegt er að endurbæta festingu stýrieiningar bensíndælunnar, (FPDM = Fuel Pump Driver Module), þrífa hana upp eða endurnýja um leið og festa aftur með lengri boltum og hulsum þannig að bil sé á milli stykkisins, sem er úr áli, og bitans sem það er fest á (fyrir framan varadekkið v.m). Sé þetta ekki gert myndast tæring á milli flatanna og bíllinn stöðvast fyrrr en seinna. Það sem gerist er að botn stykkisins tærist í snertingu við grindarbitann og brotnar, bensíndælan verður óvirk og bíllinn stopp. Þetta er að því leyti frábrugðið flestum öðrum að það er án bakrásar (Returnless fuel system).

Þegar ég keypti þennan bíl var það vegna innréttingarinnar. Árið 2007 stóðust aðrir (svipaðir) ekki samanburð að því leyti. Þótt ég hafi áður verið ,,GM-maður" tel ég að Ford hafi tekist einstaklega vel upp með þennan F-150-pallbíl og hafi menn not fyrir og ráð á því að kaupa/eiga/reka svona bíl, þá er betri bíll vandfundinn
!

193
Bilun í fjarstýrðum samlæsingum
Spurt: Ford Transit: Allt í einu taka fjarstýrðar samlæsingarnar upp á því að aflæsast jafnharðan af sjálfum sér og ekki um annað að gera en að skilja bílinn eftir ólæstan yfir nóttina. Hvað getur verið að og hvaða verkstæði er líklegast til að ráða fram úr þessu?

Svar: Svona bilun, eins og þú lýsir, orsakast oftast af því að einhver leiðsla í læsingakerfinu hefur farið í sundur milli stafs og hurðar. Það þarf sérstaka kunnáttu til að finna leiðsluna með útilokunaraðferð. Nesradíó í Síðumúla 19 rekur sérhæft verkstæði til að eiga við fjarstýrðan búnað af ýmsu tagi, svo sem læsingar, fjarstart, þjófavörn o.fl. - þeir fara létt með þetta.

Benz E200 - ónýt sjálfskipting?
Spurt: Ég er með Benz E200 árg. '98 ekinn 170þús. Ég tek eftir höggum eða kippum í sjálfskiptingunni og ler afhrædd um að sjá fram á mikið og dýrt verk. Gæti þetta verið eitthvað annað en ónýt sjálfskipting?

Svar: Þetta þarf ekki að þýða að sjálfskiptingin sé ónýt. Þetta er þekkt í Benz-skiptingum. Oft nægir að endurnýja vökvann og hreinsa svokallað ventlabox um leið. Sértu á suðvestur-horninu ráðlegg ég þér að leita til Jeppasmiðjunnar við Selfoss eða Bifreiðastillingar í Kópavogi - bæði verkstæðin hafa langa reynslu á sviði sjálfskiptinga og hafa öll tæki sem til þarf. Þeir geta sagt þér fyrirfram hver kostnaðurinn muni verða.

Grand Cherokee: Vélin erfið í gang heit
Spurt: Ég á Jeep Grand Cherokee með 4,7 lítra V8-bensínvél. Bíllinn er af árgerð 1999. Fyrir stuttu fór að bera á því að vélin þarf lengra og lengra start til að fara í gang eftir um tveggja tíma stopp. Með því að svissa á og bíða í 2 til 3 sek. með að starta ríkur vélin í gang. Bilunarljósið lýsir ekki eftir að vélin er komin í gang. Er þetta bensíndælan sem er farin að gefa sig eða eitthvað annað?

Svar: A.m.k. tveir hlutir geta orsakað þessa bilun án þess að skila kóða, þ.e. án þess að kveikja bilunarljósið. Annar er toppstöðuneminn (Crank sensor) en hinn er straumlokan fyrir bensíndæluna. Hún fæst að öllum líkindum hjá N1 og því ráð að byrja á að endurnýja hana. Breyti það engu myndi maður panta nýjan toppstöðunema hjá IB á Selfossi eða Bílabúðinni hf. í Kópavogi. Viðbót frá lesanda: Bilun sem passar vel við þessa lýsingu og mun vera nokkuð algeng í Grand Cherokee af þessum árgerðum orsakast af rifnum eða sprungnum O-hring í festiramma bensíndælunnar ofan á bensíngeyminum. Leki með þessum mhring veldur því að dælan nær ekki strax upp þrýstingi. En sé beðið með svissað á smátíma nær hún hinsvegar upp þrýstingi sem nægir til að vélin fer í igang og helst tí gangi. Tankinn þarf að losa niður til að endurnýja þennan þéttihring.

BMW Diesel sem fer ekki í gang hjálparlaust
Spurt: Ég er með BMW 520 með 4 sílindra Dieselvél árg. 2005. Vélin er smám saman orðin mjög erfið í gangsetningu jafnvel þótt forhitað sé tvisvar. Kóðalestur skilaði engri niðurstöðu en glóðarkertin voru endurnýjuð, skipt um eldsneytissíu og einhvern skynjara. það kostaði mikið en breytti engu. Nú kem ég vélinni ekki í gang nema fá aðstoð með startköplum. Verkstæðið leggur til endurnýjun spíssa og grunar mig að það verði himinhár reikningur og ef til vill enginn árangur. Hvað myndir þú ráðleggja mér að gera í stöðunni?

Svar: Af lýsingu þinni að dæma hefurðu lent í tröllahöndum því næsta víst er að ekkert hefur verið að vélinni og þú hefðir getað sparað þér þessi útgjöld. Láttu ekki endurnýja spíssana. Til að tryggja gangsetningu Diesel-véla yfirleitt þarf startarinn að ná ákveðnum snúningshraða. Það gerir hann greinilega ekki í þínu tilviki nema með aðstoð annars rafgeymis um kapla. Endurnýjaðu rafgeyminn og þetta vandamál mun, að öllum líkindum, verða úr sögunni.

Þiggur L.M.J. mútur frá Bílabúð Benna?
Spurt: Ég rakst á eftirfarandi klausu á Netinu (www.vidirth.blog.is): ,,Leo (sic) M. Jónsson virðist fá vel greitt frá Bílabúð Benna í skrifum sínum um bílinn hann hefur haldið uppi einhliða jákvæðum áróðri um Musso/Kyron jeppana gegnum árin". Vildi bara benda þér á þetta hafi ekki aðrir gert það. Tek það fram að ég hef ekki orðið var við neinar órökstuddar fullyrðingar frá þér um ágæti (og galla) Musso sem ég get ekki verið sammála eftir að hafa átt einn slíkan síðan 2003.

Svar: Þakka þér ábendinguna. Mér hafði reyndar verið bent á þessi skrif á vefsíðu, sem skráð væri á Víði Þór Magnússon en man ekki veffangið. Ég þekki ekki til mannsins, veit ekki til þess að hafa átt samskipti við hann og veit ekki af hvaða hvötum hann setti jafn ósmekklegar dylgjur og atvinnuróg á Netið. (lesendur geta verið ósammála flestu sem ég skrifa, en það geri ég alltaf undir fullu nafni og skiptist gjarnan á skoðunum leiði það til uppbyggjandi umræðu. En illmælgi og dylgjur af þessum toga sér maður þó sjaldan á Netinu núorðið. Ég vissi ekki betur en að þetta hafi verið kært til Microsoft í janúar 2009 (varðar við hegningarlög þegarbeint er gegn sjálfstætt starfandi einstaklingi með löggilt starfsheiti og starfsleyfi). Kemur mér á óvart hafi þetta ekki verið fjarlægt (gæti verið einhver gamall draugur á Netinu) en ég hef ekki tíma til að eltast við svona mál - þetta segir, ef til vill, meira um andlegt ástand skrifarans en mín vinnubrögð. Ég hef unnið fyrir Bílabúð Benna, eins og mörg önnur bílaumboð, samhliða skrifum um bíla og búnað í blöð og tímarit og fengið greitt fyrir þá þjónustu samkvæmt reikningi auk þess að halda úti minni eigin Vefsíðu um bíla. Ég þori að fullyrða að engum bílainnflytjanda dytti í hug að reyna að hafa áhrif á skrif mín (er reyndar hættur að reynsluaka nýjum bílum - eftir 30 ára törn, a.m.k. í bili). Til gamans get ég bætt þeirri fullyrðingu við, til að sýna hve forhertur og þrár ég er (og til marks um þá andlegu fötlun mína sem nefnist ,,skortur á snobbi") að stæði mér til boða tveir lúxusjeppar með Diesel-vél, í sambærilegu ástandi og af sömu árgerð; þ.e. Toyota LandCruiser 120 (D4-D) og Musso Grand Luxe (með Benz 5 síl. Tdi), báðir af árgerð 2003, veldi ég hiklaust Musso: Tel hann betri, skemmtilegri og hagkvæmari lúxusjeppa.

192
MPG breytt í lítra á 100 km.
Spurt: Í amerískum tímaritum og á Netinu er eyðsla bíla oft gefin upp sem drægni í mílum með hverju gallóni eldsneytis. Er einhver einföld aðferð til að umreikna MPG í lítra á 100 km?

Svar: Ameríska gallónið er 3,78 lítrar og ameríska mílan 1609 m. Sé MPG-tölunni deilt í 235,5 færðu eyðsluna í lítrum á 100 km. Tvö dæmi: 25 MPG. 235,5 deilt með 25 = 9,42 lítrar á hundraðið. 18 MPG. 235,5 deilt með 18 = 13,08 lítrar/100 km.

Hugtakið ,,Offset" í sambandi við felgur
Spurt: Ég er að spá í sportfelgur á Netinu. Hvað er átt við með ,,3" offset"?

Svar: Þetta er mælikvarði fyrir breytingu á sporvídd hjóla þegar mælt er á milli miðlínu sóla dekkja. Frávikin eru gefin upp sem ,,positive offset" eða ,,negative offset." Þriggja tommu jákvæð frávik þýðir að miðlína dekks er 3" utar en festiflötur á hjólnöf og sporvídd milli miðlínu sóla verður 6 tommum meiri en milli festiflatanna. Þriggja tommu neikvæð frávik þýðir að felgan nær innar um 3" og sporvídd milli miðlínu sóla dekkjanna er 6 tommum minni en á milli festiflatanna. Ath. Of mikil jákvæð frávik geta þýtt að dekk ná út fyrir brún brettis og þarf þá að mæta því með brettaköntum til að fá skoðun. Breytileg frávik felga gera kleift að setja breiðari dekk undir bíl, t.d. að aftan, án þess að þau skagi út fyrir bretti eða taki utan í að innanverðu. Ath. að upprunalegar felgur á bíl eru með ákveðnu fráviki, það getur verið mismunandi eftir bíltegundum og mismunandi eftir því hvort um fram- eða afturfelgur er að ræða.

Trjásafi til vandræða
Spurt: Við bílastæðið okkar eru tvær risastórar aspir. Frá þeim berst einhver ófögnuður sem leggst á lakkið á bílunum og festist. Mjög erfitt er að ná þessum blettum af. Veist þú hvað þetta er og kannt þú einhver ráð til að þrífa þetta af án þess að skemma lakkið á bílunum?

Svar: Þetta mun vera trjásafi (sap á ensku) og er algengt vandamál víða erlendis þar sem trjágróður er meiri en hér. Efnaframleiðandinn Meguiar's (borið fram sem Megvæ-ers) framleiðir efni;Meguiars bug and tar remover, til að fjarlægja trjásafann og einnig efni sem koma í veg fyrir að trjásafi nái að festast á lakkhjúpnum. Bílasnyrtivörur frá Meguiar's fást hjá Málningarvörum ehf. Lágmúla 5. (www.malningarvorur.is ). Starfsmenn Málningarvara leiðbeina þér varðandi val réttra efna.

Heddpakkning - forvarnir
Spurt: Hver eru helstu einkenni sem gefa venjulegum bíleiganda bendingu um að heddpakkning sé farin? Er eitthvað sem maður getur gert til að minnka líkur á stórútgjöldum vegna heddpakkningar?

Svar: Algengt er að fyrstu einkennin séu gufa sem myndast í húddinu við að kælivökvi flæðir út um yfirfallið. Oftast lekur heddpakkning milli brunahólfs og kælirásar. Við það eykst þrýstingur í kælikerfinu og yfirfallskútur fyllist. Þá muntu taka eftir því að vökvi hverfur smám saman af kerfinu. Mikilvægt er að koma bílnum í viðgerð áður en nær að sjóða á vélinni því við yfirhitnun getur ýmislegt fleira skemmst, t.d. getur myndast sprunga í heddinu sem margfaldar kostnaðinn. Önnur einkenni geta verið gangtruflanir og að miðstöðin hætti öðru hverju að hita. Í flestum tilfellum er trassaskapur ástæða þess að heddpakkning fer að leka. Í handbókum flestra bíla segir að endurnýja skuli kælivökva með 2-3ja ára millibili. Kælivökvi súrnar með aldri og tærir þá ál (flest hedd eru úr áli). Í handbókinni eru einnig leiðbeiningar um hvaða gerð af kælivökva, sem yfirleitt er blandaður til helminga með vatni, skuli nota á viðkomandi vél. Flestar betri smurstöðvar hafa tæki til að endurnýja kælivökva. Sú þjónusta er besta tryggingin gegn óvæntum útgjöldum af þessu tagi. Sama gildir um bremsuvökva, hann á að endurnýja reglulega til að koma í veg fyrir tæringu ú bremsudælum.

191
Ónýt bensíndæla?
Spurt: Dodge Ram Van 2500 árg. 94/95. Eftir áfyllingu á bensínstöð vildi hann ekki í gang þótt ekkert væri að startinu og neisti kæmi á a.m.k eitt kerti. Bensín virtist vanta. Fann í handbókinni öryggi "Auto shut down fuel pump." Það reyndist í lagi. Fann enga síu eða dæluna sjálfa. Er hún ofan í tanknum? Losaði bensínslönguna þar sem hún kemur frá tanknunum og startaði. Ekkert bensín. Fann í handbókinni að ef erfitt væri að fá vélina í gang þá væri ráð að athuga ,,fuel filter regulator" og skipta um ef nauðsyn krefði. Hvað er þetta, og hvar er þetta í bílnum? Er einhver ,,reset-takki" fyrir dæluna eða er hún bara farin? Hverjir selja varahluti í þessa bíla og hvaða verkstæði er best að láta gera við þennan bíl hér í Reykjavík sem gæti jafnframt bilanagreint bílinn?

Svar: Enginn ,,Reset-takki" er í þessu kerfi og ,,fuel filter regulator" er við Diesel-vél, muni ég rétt. Bensíndælan er í bensíngeyminum með síu neðst á dælunni og aðra síu efst (í þeim hluta dælunnar sem er ofan á geyminum). Þetta er allt endurnýjað í einu stykki og til þess þarf að losa geyminn. Bensínið kælir dæluna í Dodge Ram og fleiri bílum og því byrja gangtruflanir oft þegar lítið er eftir á geyminum og bensínið orðið heitt. Með svissað á - prófaðu að banka með gúmmíhamri í botninn á geyminum og hlusta eftir hljóði frá dælunni við áfyllinguna. Hrökkvi bíllinn þá í gang er bensíndælan ónýt. Gerist ekki neitt en virki flautan geturðu notað straumlokuna fyrir hana til að prófa straumlokuna fyrir bensíndæluna, báðar eru í svörtum kassa í húddinu framan við höfuðdæluna. Heyrist dælan fara í gang við skipti á straumlokunum er straumloka bensíndælunnar ónýt - hún fæst hjá N1. Gerist ekkert við að víxla straumlokunum er bensíngeymirinn losaður og dælan prófuð í honum til að útiloka bilun í leiðslum. Því næst er dælan losuð úr og athugað hvort sían á upptökurörinu sé teppt. Nýja bensíndælu færðu pantaða hjá IB á Selfossi eða Bílabúðinni hf. í Kópavogi. Þetta er dýrt stykki. Bíljöfur og Mótorstilling í Garðabæ hafa tæki til að bilanagreina bandaríska Chrysler-bíla. Mig grunar að bilanagreining með tölvu, í þessu ákveðna tilviki, sé einungis sóun á peningum.

Explorer sjálfskipting
Spurt: Ég er með Ford Explorer 1998 og ,,Overdrive-ljósið" byrjaði að blikka og sjálfskiptingin hagar sér undarlega. Bíllinn er kominn í 170 þús. km. Síðustu 70 þús. km. hefur vökvinn á skiptingunni verið endurnýjaður tvisvar og sían einu sinni. Ég er nýlega búinn að endurnýja rafalan og var að velta því fyrir mér hvort þessi bilun í sjálfskiptingunni gæti tengst því að rafallinn bilaði?

Svar: Líklega er það einungis tilviljun að sjálfskiptingin bilar á svipuðum tíma og alternatorinn. Blikki ,,OD-ljós" er það viðvörun um bilun í Ford-sjálfskiptingu; ljósið blikkar vegna þess að tölva skiptingarinnar (TCU) hefur skráð og geymir bilunarkóða í minni. Á verkstæði mun bilanagreining með tölvulesara skila kóða, einum eða fleiri, sem gefur til kynna hver bilunin sé.
Hvað lekur?

Dularfullur pollur undir bílnum
Spurt: Ég tek eftir því að öðru hverju myndast vatnspollur undir bílnum mínum sem er Cherokee-jeppi árg. '05. Samt vantar ekki á kælikerfið og enginn leki merkjanlegur frá rúðusprautunni. Á maður að hafa áhyggjur af þessu?

Svar: Nei. Ég geri ráð fyrir að bíllinn sé búinn loftkælingu (AC). Þetta er dögg sem myndast þegar frystikerfið vinnur; vatn sem er leitt út um slöngu neðarlega á hvalbaknum farþegamegin. Pollur myndast yfirleitt ekki nema eftir að bílnum hefur verið lagt, hlýtt úti og innanrými verið kælt mikið. Þetta er eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Sumir nýrri bílar eru með búnað sem kemur í veg fyrir að þessi vatnsgufa þéttist.

190
Sjálfskiptur bíll - dráttur?l
Spurt: Er óhætt / hægt að draga sjálfskiptan bíl í gang?

Svar: Þessi spurning berst oft. Svarið er Nei. Flestir bílar eru núorðið með tölvustýrðar sjálfskiptingar , jafnvel tengdar sjálfvirku fjórhjóladrifi og jafnvel þótt hægt væri að draga þá í gang með einhverjum fyrirgangi, er næsta víst að fyrirtækið leiddi til alvarlegra og dýrra skemmda á drifbúnaði. Það er ekki að ástæðulausu að varið er heilum kafla í handbókum flestra nýlegri bíla um drátt og flutning þegar einhver bilun veldur því að bíll verður ógangfær. Yfirleitt fylgir minnst áhætta flutningi á palli eða kaplastarti. Við afhleðslu myndast vetni í rafgeymi. Þótt hann eigi að heita lokaður getur það lekið út. Neisti getur því valdið sprengingu (og henni fylgja slettur af brennisteinssýru). Því ætti alltaf að tengja mínuspól startgjafans síðast og þá í stell en ekki geymispól. Sé startarinn bilaður skaltu athuga verðið á nýjum (endurbyggðum) hjá Rafstillingu, Bílarafi eða N1. Endurbyggður startari og/eða alternator er yfirleitt jafngóður og nýr en fæst fyrir þriðjungsverð eða minna.

Benz-eigandi - á hann annarra kosta völ?
Spurt: Eru einhverjir aðrir en Askja sem þú myndir geta mælt með varðandi viðgerð á Mercedes-Benz-sendibíl?

Svar: Ekki sé bíllinn í ábyrgð. Annars þarf tvennt til: Kunnáttu og lofthæð. Prófaðu að tala við Bílhaga ehf. á Ártúnshöfða.

Tímareim
Spurt: Ég er með VW Passat Station árg. '04, ekinn 67.000 km. Bæði Hekla (umboðið) og Bílvogur tala um að endurnýja þurfi tímareim annað hvort þegar bíllinn er 5 ára eða þegar hann er kominn í 90 þús. km akstur. Bíllinn minn er orðinn 5 ára. Er mér óhætt að bíða þar til hann er kominn í 90 þús. km.? Hvenær á að endurnýja tímareim í Volvo V70 2001 (nýja lagið). Hjá Brimborg er mér sagt að það skuli gera eftir 120 þús. km.?

Svar: Endurnýjaðu reimina í Passat eftir 90 þús. km. (Bílvogur í Kópavogi er með VW-þjónustu). Ekki veit ég hvaðan þeir hafa þetta hjá Brimborg en hjá Volvo í Gautaborg fást þær upplýsingar að ekki þurfi að endurnýja tímareimina í þessum V70 fyrr en eftir 160 þús. km. (Tímareimar innþorna með aldri og því skyldi endurnýja eftir notkun (km) eða aldri, hvort sem kemur fyrr).

Nýtt smurefni með rafvirkum ABS-skynjurum
Spurt: Fyrir skömmu fjallaðir þú um mismun á nýjum ABS-skynjurum (rafvirkum) og hefðbundnum (segulvirkum) og nefndir m.a. að þeir rafvirku væru mjög viðkvæmir fyrir stöðuspennu og þyrfti því aðgát við meðhöndlun þeirra. Er það ekki rétt að með rafvirkum ABS-nemum eigi ekki að nota smurefni (til að girða fyrir ískur) sem innihaldi leiðandi efni svo sem kopar eða ál?
Svar: Greinin er í fullri lengd á Vefsíðu Leós (Tæknimál). Þar er meðal annars lýst aðferðum til að prófa og mæla rafvirka (active) ABS-nema, en það hefur vafist fyrir mörgum enda allt annað mál en þeir hefðbundnu með segulkjarna (passive). Ekki skyldi nota leiðandi smurefni, t.d. á borð við Copper Ease frá Comma, við samsetningu bremsubúnaðar (bæði til að smyrja dælur/stimpla og aftan á klossa) með rafvirkum ABS-skynjurum. Nýtt smurefni, sem ekki leiðir straum nefnist CeraTec og fæst m.a. hjá Poulsen. Ég hef aldrei skilið tilganginn með því að nota leiðandi smurefni aftan á bremsuklossa - það myndar stöðuspennu en við það dregur það í sig málmagnir úr ryki og hættir því fljótt að virka. Copper Ease er hins vegar upplagt sem tæringarvörn, t.d. á milli málma og melmis (málmleysingjar á borð við kopar, ál og blöndur).

Xenon - öflugri ökuljós sem spara eldsneyti
Spurt: Að hvaða leyti eru Xenon-ökuljós frábrugðin halógen-ljósum? Hvers vegna eru perurnar svona dýrar? Hvers vegna endast Xenon-perur svo stuttan tíma?

Svar: Öfugt við halógen-peru er enginn glóðarþráður í xenon-peru . Geislinn myndast með gasboga (HID-ljós = High Intensity Discharge). Inni í hylkinu er xenongas og málmsölt. Frá Xenon-ljósi stafar miklu sterkari ljósgeisla með minni hita en frá halógen-ljósi. Xenon-ljós spara því orku. Xenon-pera myndar meiri ljósstyrk (birtu) en halógen-pera með sama straumstyrk (amper). Lýsing Xenon-ökuljósa fram fyrir bíl getur verið þreföld miðað við halógen-ljós án þess að blinda þá sem á móti koma. Til að lýsa mismuninum á HID-tækni og halógen á einfaldan hátt má hafa glampa frá öflugu vasaljósi og frá rafsuðu. Xenon-perum af algengustu gerð fylgir sérstakur rafspennir og kann það að skýra verðmuninn að hluta. Verð á Xenon-perum fer lækkandi á alþjóðlegum markaði þótt við verðum þess ekki vör hérlendis vegna gengisfalls krónunnar. Sá misskilningur er útbreiddur að einkenni Xenon-ökuljósa sé bláleitur geisli. Það er ekki. Styrkur ljósbogans blekkir. Hins vegar eru til bláar halógen-perur sem eru lítilsgildar, ódýrar eftirlíkingar. Um misjafna endingu Xenon-pera skortir mig gögn. ,,Dagljósadellan," sem ætti að afnema eða láta gilda á sama tíma árs og vetrardekk, að mínu mati, eykur útgjöld bíleigenda vegna eldsneytis og perukaupa. (Öryggispostular reyndu á sínum tíma að telja fólki trú um að dagljós krefðust engrar aukaorku. Hvernig þeir fundu það út veit ég ekki. Hins vegar er ég viss um að þeir eru kallaðir ,,ljótu andskotans bölvaðir hálfvitarnir" fyrir norðan). Grein sem skýrir málið: Um alternatorinn
Ókostir Xenon-ljósa: Vegna þess að enginn glóðarþráður er í Xenon-perum mynda þær mjög vægan varma þegar þær lýsa. Hér, eins og víðar í norðanverðri Evrópu hefur það skapað vandamál: Xenon-ökuljós bræða ekki af sér snjó. Þau eru t.d. vonlaus búnaður á jeppa sem nota á til jöklaferða. Af þessum ástæðum hefur komið til tals að banna Xenon-ljós í Þýskalandi en enn sem komið er er þess krafist að bíll búinn Xenon-ljósum sé jafnframt með skolun/sköfu á ökuljósunum.

Nissan Double Cab 2.5 Diesel Gangtruflun í 4. gír
Spurt: Ég er með frekar skrítið vandamál í Nissan Double Cab 2,5 Diesel Intercooler árg 2004. Bíllinn er ekinn 122.000 en vélin var upptekin í 116.000 hjá umboði vegna galla (ábyrgðarviðgerð). Þetta lýsir sér þannig að í akstri fer bíllinn að hiksta og hökta og
missir afl (svipað og þegar blöndungsbíll kokar) Það skrýtna er að þetta virðist helst gerast þegar ég skipti í 4. gír og einungis þegar
bíllinn er heitur. Ég verð aldrei var við þetta í 1, 2, eða 3ja gír og finn lítið fyrir þessu í 5. gír.
Að öðru leiti er gangurinn fínn og vinnsla eðlileg, engin óeðlileg aukahljóð og engin viðvörunarljós, og ég verð aldrei var við þetta
meðan bíllinn er kaldur, einungis eftir að ég hef ekið í ca 20-30 mín. Þetta byrjaði með einstaka smá hökti en hefur aukist og versnað. Hvernig gangur vélarinnar tengist gírunum skil ég ekki en ég er svo sem
ekki sérfróður.

Svar: Til að stýra forþjöppun og nýta sem best þarf tölubúnaðurinn að fá boð um snúningshraða. Á eldri vélunum með tölvustýrða olíuverkinu er snúningshraðaneminn á olíuverkinu. Á nýrri 2.5 lítra Diesel-vélunum með forðagrein (Common rail) fást þessi boð frá hraðaskynjaranum fyrir hraðamælinn. Hins vegar er sérstakur nemi á gírkassanum sem segir tölvunni hvenær kassinn er í hlutlausum (Nautral Safety Switch). Bili sá nemi fær tölvan röng boð (veit ekki hvort kassinn er í gír eða ekki) og afleiðingin getur orðið gangtruflun í öllum eða einhverjum gír. Það er að öllum líkindum hann sem er að stríða þér. Eigendum Nissan, Isuzu og Subaru á höfuðborgarsvæðinu er bent á að Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar í Kópavogi er með fullbúna þjónustu m.a. fyrir þessa bíla, m.a. tölvubúnað til að greina svona bilanir. Þessi rofi kostar hjá F.Ó. 22 þús. kr.

Samlæsingar, þjófavörn og fjarstart
Ford Transit-eigandi var að vandræðast með fjarstýrðu læsingarnar en dyr bílsins læstust en aflæstust janfharðan aftur. Eigandi Nissan Pathfinder lenti í því að þjófavarnarkerfið fór í gang með hálftíma millibili og var að gera all brjálaða í blokkinni. Hjá einum bilaði fjarstartið í Chevrolet Suburban. Allir sögðust hafa leitað til umboðsins án þess að fá þar nokkra lausn (í þessu tilviki er ástæða til að benda á að Bílabúð Benna hefur ekki umboð fyrir ameríska GM-bíla og engan sérbúnað til að þjónustta slíka bíla, - það hefur hins vegar IB á Selfossi). Ég benti þessum þremur, eins og mörgum öðrum, á Nesradíó í Síðumúla 19. Guðmundur í Nesradíói og hans menn eru sérfræðingar í öllum fjarstýrðum búnaði bílum auk þess að gera við hljómflutningstæki. Þeir leystu þessi mál. Í Transit-bílnum reyndist leiðsla í sundur í dyrastaf en talsverða kunnáttu þarf til að fikra sig að slíkri bilun með útilokunaraðferðinni. Í Terrano-jeppanum reyndist húddlásinn bilaður og þjófavörnin því bara að skila sínu hlutverki. Fjarstartið í Chevrolet-bílnum virkaði ekki vegna þess að rofi við valstöng sjálfskiptingarinnar reyndist bilaður. Sem sagt: Nesradíó er eitt þeirra verkstæða sem geta leyst svona mál.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR