Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 32
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndatextar í Mbl. er samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án punkta, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

Góðar fréttir fyrir eigendur Nissan Double Cab 2,5 TDI
Nissan-umboðið IH hefur framlengt verksmiðjuábyrgð á 2.5 tdi-dísilvélunum í 5 ár og/eða 150 þúsund km. Stimpilstangir hafa reynst gallaðar í þessum vélum. Þær hafa brotnað og brotið blokkina. Nú er skipt um alla skemmda hluti eiganda að kostnaðarlausu sé þessum skilyrðum ábyrgðar fullnægt. (Það er ekki á hverjum degi sem bílaumboð tekur svona myndarlega á vandamáli. Vefsíða Leós tekur ofan fyrir IH).

Því miður virðist ofangreind frétt um ,,bætta þjónustu" fyrirtækisins IH (sem einu sinni nefndist Ingvar Helgason hf.) hafa verið of góð til að hún stæðist. Eigendur þessara Nissan-gallagripa, sem koma við sögu, hafa fengið mismunandi viðtökur, einn fékk allt bætt en nú kannast þjónustustjóri IH ekki lengur við þessa framlengdu ábyrgð þótt skilyrðum sé fullnægt. Svo virðist sem yfirstjórnandi IH (gæti verið banki eða skilanefnd?) hafi séð sig um hönd og tími ekki lengur að veita þessa þjónustu! Vonandi kannar Umboðsmaður neytenda hvort svona vinnubrögð fái staðist. Hins vegar mun Vélaverkstæðið Kistufell eig a samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30.


Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.

180
Ford F-150 h
nökrar, rafmagnsleysi, eyðsla o.fl.
Spurt: Ég keypti nýlega Ford F150, árgerð 2003. Hann er með 5,4 lítra V8-bensínvél og sjálfskiptingu. Frá fyrsta degi í minni eigu hefur hann hoggið og nötrað allur fyrst eftir að sett er í bakkgír en jafnar sig þegar hann er kominn á hreyfingu. Fyrri eigandi segist ekki kannast við þetta. Get ég gert kröfu á hann að laga þetta? Svo er annað; hann á það til að afhlaða rafgeyminn þegar búið er að drepa á vélinni; geymirinn virðist vera i lagi og hann hleður hann. Stundum gerist þetta á 5 mín. rétt á meðan skroppið er frá. Hraðastillirinn (cruise control) virkar ekki. Hvað getur valdið því og hvernig get ég minnkað svakalega eyðslu bílsins?

Svar: Lýsingin bendir til bilunar í ventlaboxi eða öftustu kúplingu (bakkgír). Láttu athuga þetta hjá Jeppasmiðjunni (Ljónsstöðum við Selfoss). Samkvæmt reglugerð (www.us.is) um sölu notaðra bíla sýnist mér að fyrri eigandi sé ekki laus við málið.
Rafmagnsleysið: A. Botnfallinn, ónýtur rafgeymir. Álagmælingu (ókeypis hjá rafgeymasal) þarf til að staðfesta það. B. Bilaður stefnuliður í spennustilli alternators afhleður geymi með beinni útleiðslu. Hraðastillirinn: Biluð leiðslufjöður (clock spring) undir stýrishjólinu er algeng orsök þess að hraðastýring virkar ekki. Varúð: Vegna öryggispúða þarf rafgeymir að hafa verið aftengdur í 5 mínútur áður en átt er við stýrishjólið og á meðan á viðgerð stendur. Eyðsla: Tölvukubbur getur minnkað eyðslu um 15-25%. Talaðu við IB á Selfossi (480 8080).

Kóðalesari - er það dýrt tæki?
Spurt: Bilunarljós sem kviknar í mælaborðinu eru vond skilaboð um væntanleg útgjöld. Sögur ganga um dýran kóðalestur hjá verkstæðum, jafnvel gagnslausan. Get ég keypt kóðalesara og notað án þess að vera ,,sérfræðingur" - jafnvel tæki sem borgar sig eftir nokkra kóðalestra?

Svar: Tölvubúnaður verkstæða er meira en kóðalesari. Þau fjárfesta ekki milljónir í tækjum nema af nauðsyn. Kóðalestur með bilunargreiningu á verkstæði hérlendis kostar um og innan við 10 þús. kr. Það er ekki dýr þjónusta miðað við vinnusparnað og/eða forvarnargildi. Hins vegar fást einfaldari tæki, sem lesa og jafnvel skýra bilunarkóða flestra tegunda bíla, m.a. hjá Poulsen í Reykjavík. Þau kosta 18-63 þús. kr. Hægt er að fá bækling (Verkfæratilboð) sendan í pósti með tæknilýsingu (s. 530 5900). Forsenda þess að geta notað slíkt tæki er enskukunnátta. OBC-kóðalesari, en hann er ódýrasta útgáfan, les einungis þá kóða sem tilheyra neista- og innsprautukerfi en það er einungis brot af öllum þeim kóðum sem tölvukerfi nýjustu bíla geyma í minni.

,,Vélarstilling fylgir með"
Spurt: Verkstæði Nikolai í Reykjavík auglýsir tímareimarskipti í hljóðvarpi og segir ókeypis vélarstillingu fylgja með. Finnst þér ekki einkennilegt að keppinautar skuli ekki hafa gert athugasemdir við þennan viðskiptahátt?

Svar: Mér finnst að Neytendasamtökin ættu frekar að svara spurningum um viðskiptahætti. En tæknilega hliðin er þessi: Með vélarstillingu er yfirleitt átt við aðgerð sem bætir bruna, jafnar og/eða mýkir gang vélar, eykur afl og sparneytni. Að frátöldum mjög gömlum bílum er ekkert sem á, þarf eða má stilla í bensínvél. Ventlabil getur aukist vegna olíuleysis og/eða skemmda en lagfæring á því er meira mál en endurnýjun tímareimar. Bilanagreining er ekki vélarstilling. Því er hæpið að það tvennt eða annað hvort geti verið þessi ,,ókeypis vélarstilling." Sú ókeypis þjónusta sem auglýst er að fylgi endurnýjun tímareimar hjá Nikolai er a.m.k. ekki vélarstilling eins og flest fólk skilur það hugtak. Því ætti fyrirtækið að nefna þjónustuna réttu nafni til að vekja ekki falsvonir hjá bíleigendum.

179
Kia Sorrento titringur í drifkerfi
Spurt: Ég á Kia Sorrento árg. 2006, ekinn 42.000 km. Eftir að ég lét setja vetrardekkin undir mynduðust skruðningar í akstri ekki ósvipaðir því að bílinn væri á keðjum. Ég lét því jafnvægja öll hjólin og stilla þrýsting í dekkjunum. Þá fór ég á verkstæði þar sem mér var sagt að ,,kúpling" í millikassanum væri ónýt og var hún endurnýjuð. EN óhljóðin héldu áfram - eins og ekið væri á riffluðu malbiki og leiðir titringurinn upp í stýrið. Hvað heldur þú að þetta geti verið ?

Svar: Kúplingin í millidrifinu tengir fjórhjóladrifið sjálfvirkt (TOD). Séu dekk misslitin eða ekki sömu gerðar að framan og að aftan getur það myndað spennu í sjálfvirka fjórhjóladrifinu sem lýsir sér svona. Á bílum með sjálfvirkt fjórhjóladrif á alltaf að endurnýja 4 dekk samtímis. Jafna má slit, auka endingu dekkja og draga úr áhrifum slits á drifkerfi með því að víxla dekkjum eftir hverja 10 þús. km. Jafnframt skyldi merkja stöðu dekkja með krít þegar þau eru tekin undan að vori og hausti þannig að vinstra og hægra dekk séu alltaf á móti hverju öðru, þ.e. á sama öxli.

Hyundai SantaFe tímabundið aflleysi
Spurt: Bíllinn er Hyundai SantaFe Diesel, sjálfskiptur, árgerð 2005. Á leiðinni upp úr Hvalfjarðargöngunum missti bíllinn afl. Ég komst upp brekkuna í göngunum á 40 km hraða. Þegar komið var upp úr göngunum jafnaði þetta sig og hefur ekki borið á síðan. Hvað getur hafa valdið þessu?

Svar: Gæti verið að þú hafir fyllt á eldsneytisgeyminn á leiðinni út úr borginni, jafnvel 10-15 lítrum? Mig grunar að það hafi verið bensín en ekki gasolía sem fór á geyminn og það sé ástæðan - 75 lítra geymir = 14-20% blöndun.

Rafgeymir hvenær er hann ónýtur?
Spurt: Er með amerískan Chevrolet árg. 2006, keyrðan um 40 þús. km. Bíllinn var ekki notaður í 2 vikur og þegar átti að gangsetja snéri startarinn ekki vélinni. Gangsett með köplum og vélin látin ganga 15 mínútur. Þá var drepið á henni. Hún fór strax í gang aftur. En 3 klst. seinna snéri startarinn ekki vélinni. Geymirinn virðist ekki halda hleðslu nema stutta stund. Veistu hvað gæti hugsanlega verið að?

Svar: Það er yfirleitt þrennt sem veldur svona rafmagnsleysi:
" Styrkstillir mælaborðsljósa stilltur í botn þannig að inniljós slokkna ekki.
" Ónýtur rafgeymir. Hafi rafgeymirinn tæmst af einhverjum orsökum, t.d. vegna inniljósanna, endurhleðst hann ekki nægilega á 15 mínútum með alternator bílsins. Geyminn þarf að hlaða yfir nótt með hleðslutæki. Auðvelt er að ganga úr skugga um hvort rafgeymir sé ónýtur með því að aftengja mínuspól hans og hlaða yfir nótt með hleðslutæki. Hafi hann ekki næga hleðslu eftir endurtengingu mínuspólsins til að starta bílnum næsta dag eru líkur á að hann sé ónýtur. Mælist pólspenna geymis lægri en 10,8 volt er hann oftast ónýtur. Rafgeymasalar prófa geyma, endurgjaldslaust, með álagsmælingu með til þess gerðu tæki. (Tæmist amerískur rafgeymir getur þurft að hlaða hann um viðnám, jafnvel í 2 sólarhringa, áður en hann fer að taka við hleðslu á ný, því skyldi ekki farga honum of fljótt).
Bilun í alternator getur valdið því að bein útleiðsla sé í gegn um hann en þá tæmist fullhlaðinn rafgeymir á 2 klst. Bílvirki er fljótur að ganga úr skugga um það með mælingu.

Suzuki Vitara þungur í stýri
Spurt: Stýrið í bílnum mínum, Suzuki Vitara árg. '99, er orðið óeðlilega þungt. Sérstaklega finnur maður fyrir því þegar leggja á í stæði. Ég prófaði Grand Vitara sem var miklu léttari. Hvað getur maður gert í málinu?

Svar: Einn af kostum Vitara er að hann er fremur léttur í stýri. Ég myndi byrja á að athuga hjöruliðinn á stýrisstönginni. Úðaðu á hann WD-40 á meðan stýrinu er snúið. Léttist það við þá aðgerð er hjöruliðurinn ónýtur. Það er ekki mikið verk að endurnýja hann. Dekk , mismunandi mikið slitin, og of lin, geta þyngt stýri umtalsvert.

178
Hvernig má auka geymsluþol bensíns?
Spurt: Hvernig má geyma eldsneyti á hálendinu (t.d. fyrir björgunarsveitir og vélsleðamenn) án þess að vandræði verði vegna ónýts eldsneytis (takmarkaðs geymsluþols)?

Svar: Geymsluþol Diesel-olíu má auka með 50% blöndun steinolíu auk 10 ml af ísvara (fyrir gasolíu) í hverja 20 lítra. Bensínið sem við notum núna er annað en var fyrir 5-6 árum, hvað þá 10-15 árum. Auknar kröfur um nýtingu hafa breytt eimingartækni þannig að bensínið er nú líkara alkahóli og geymsluþol þess minna. Sérstök íblöndunarefni sem auka geymsluþol bensíns, nefnast á ensku ,,Fuel stabilizers". Stilling ehf. á eða pantar slíkt efni sem kemur í veg fyrir hlaupmyndun, botnfall og ryð. Efnið nefnist ,,Gunk, Fuel stabilizer " (vörunúmer M5808) en það, ásamt ísvara, skal setja í geyma á undan bensíni. Séu bensínbrúsar grafnir í snjó þarf að hafa í huga að stálbrúsar ,,gráta" að innanverðu séu þeir ekki fullir. Plastbrúsar eiga að vera úr þykku dökku plasti, varðir með svörtum sorppoka og/eða í þéttum kössum þannig að sólarljós nái ekki að þeim í gegn um snjó.

Amerísku kerrutengi breytt í ISO
Spurt: Getur það verið að breyting á amerískum raftengibúnaði Benz ML350-jeppa fyrir evrópskan kerrutengil kosti um og yfir 70 þús. kr.?

Svar: Já - ekkert kemur manni á óvart lengur. Benz-jeppar eru með tölvustýrt rafkerfi fyrir ljós. Sé bætt á þetta kerfi útgöngum eykst viðnám/álag sem getur ruglað tölvukerfið. Hluti af þessum kostnaði mun vera vegna sérstaks leiðslukerfis sem kemur í veg fyrir truflun tölvukerfis vegna aukaljósa. Áður en lengra er haldið skaltu hafa samband við IB ehf. á Selfossi. Þeir hafa selt millistykki sem kunna að gera þessa breytingu óþarfa.

Mengun í útblæstri
Spurt: Ég á VW Vento '93 með 1800-vél. Á skoðunarstöð var mér sagt að hann mengi allt of mikið, þ.e. CO- innihald er næstum 10% útblásturs. Samt eyðir bíllinn ekki miklu. Mér var hleypt í gegn en verða að láta gera við þetta fyrir næstu skoðun. Hvað dettur í hug að gæti verið að?

Svar: Lélegir kertaþræðir,léleg kerti, óhrein smurolía og smursía, óhrein eldsneytissía, óhrein loftsía, lélegur súrefnisskynjari (fæst hjá Stillingu). Sé súrefnisskynjarinn lélegur ætti þó vélarljósið að lýsa. Lýsi það þegar svissað er á og slokknar þegar vélin fer í gang er peran a.m.k. í lagi og vonandi skynjarinn líka. Benda má á að náist óvirkur súrefnisskynjari úr án þess að skemmast og sé hann forhitaður (5 leiðslur) má oft laga hann með því að stinga honum á kaf í sítrónu, tengja hitunina (réttu 2 leiðslurnar) við 12 volta rafgeymi og láta hann vera hitaðan í sítrónunni yfir nótt. Síðan er hann skolaður með volgu vatni og settur aftur í. Stundum verða þeir eins og nýir við þessa meðhöndlun.

Metangas breyting fyrir metangas
Spurt: Ég er með Grand Cherokee Ltd '99 með 4,7 bensínvél, ekinn um 65 þús. km. Ég er að velta fyrir mér hvort að það væri hagkvæmt að láta breyta honum fyrir metangas, hvort það sé hægt og hvað það gæti kostað? Til hverra ætti ég að snúa mér?

Svar: Það er hægt. En af einhverjum ástæðum, sem fólk getur velt fyrir sé, virðist það vera ráðandi stefna að verðleggja skuli metangas (sem eldsneyti og sem eldunargas) út af markaðnum. Sama gildir um breytingar á bílum - kostnaðurinn er yfirgengilegur þannig að einungis örfáum bílum hefur verið breytt. Ég vísa á Metan ehf. (www.metan.is)

177
Atugasemd vegna umsagnar um steinolíu í fyrri þætti í Mbl: N1 birtir upplýsingar um tæknilega eiginleika og gæðanorm eldsneytis á vefsíðu sinni www.n1.is/fyrirtaekjathjonusta undir Fróðleikur um eldsneyti og smurolíur. N1 er fyrst olíufélaga til að veita þessa sjálfsögðu vörulýsingu!

Kia Sorrento inngjöf hrekkur úr sambandi

Spurt: Ég er með nýlegan Kia Sorrento Diesel 2,4. Þegar bæði framhjólin fá samtímis töluvert högg frá ójöfnu er eins og eldneytisgjöfin fari úr sambandi. Sé stöðvað og drepið á vélinni fer hún strax í gang aftur og gengur eðlilega. Merkilegt er að þetta gerist ekki á mjög holóttum malarvegi - einungis þegar högg kemur á bæði framhjólin samtímis. Geturðu sagt mér hvað kunni að valda þessu?

Svar: Kia Sorrento er með rafræna inngjöf (ekki barka); stiglausan rofa tengdan vélartölvunni með rafleiðslum (,,Drive by wire"). Af lýsingu þinni að dæma verður einhvers staðar sambandsleysi, samsláttur eða ófullnægjandi tenging við ákveðið högg. Þetta getur einnig verið vegna bilunar í inngjafar-rofanum sjálfum (pedalanum). Til þess að yfirfara leiðslurnar þarf viðkomandi að hafa teikningu af rafkerfinu og einhverja kunnáttu og reynslu í bilanagreiningu. Kóðalestur og endurforritun mun ekki skila neinum árangri í þessu dæmi. Til þess þarf "Check Engine-ljósið'' að lýsa. Í sumum tilfellum hefur þetta gerst vegna slöngu á spíssagreininni sem klemmist saman við svona högg.

,,Galdralausn" vetni framleitt á staðnum
Spurt: Á Netinu sá ég auglýstan búnað til þess að setja í bíla (http://www.hhokits.com/hho-kits/platinum-xl-hho-kit.php). Tækið framleiðir vetni sem leitt er inn í soggrein og blandast eldsneytinu. Fullyrt er að með þessu minnki eyðsla, minna sót myndist, viðbragð vélar verði betra o.s.frv. Búnaðurinn kostar talsvert og því væri áhugavert að fá þitt álit.

Svar: Ég trúi ekki á svona ,,galdralausnir" - tel þær ekki gera neitt sem góð umhirða, svo sem regluleg smurolíuskipti, árleg endurnýjun loftsíu og eldsneytissíu, nægur þrýstingu í dekkjum (+30 psi) o.fl, gera ekki með betri árangri og minni útgjöldum. Þetta er, að sjálfsögðu, mín persónulega skoðun. Margt af þessum ,,galdralausnum" hef ég prófað án nokkurs árangurs. Yfirleitt hefur mér hvorki tekist að mæla endurbót eða áhrif af svona búnaði né bætiefnum - vetni meðtalið.

Musso góð varahlutaþjónusta
Spurt: Velti fyrir mér kaupum á Musso '96 handskiptum með 2,3 lítra bensínvél. Er eitthvað sérstakt sem maður ætti að athuga. Bíllinn er ekinn 190 þús. km. Hann er með fulla skoðun en einhver truflun virðist vera í eldsneytiskerfinu. Hvað eyðir svona jeppi og hvernig er varahlutaþjónustan?

Svar: 1996 og 1997 árgerð er með 4ra sílindra 2,4 lítra E-23 Benz-vél. Handskiptu kassarnir eru yfirleitt í lagi ef þeir halda bakkgírnum inni - smella ekki úr við álag. Gangtruflun getur verið vegna stíflaðrar eldsneytissíu. Hluti 96/97-bílanna var fluttur inn framhjá umboðinu, fengu ekki þá forvörn sem þar var beitt fyrir sölu og því reyndist bilanatíðni þeirra meiri og gangverð lægra. (Bílasalar geta flett þessu upp í ferilskrá). Í lagi eyðir handskiptur Musso með E-23-bensínvél 10 -12 lítrum í blönduðum akstri. Varahlutaþjónusta fyrir Musso hefur verið góð.

Jeep Wrangler Sahara getur þessi eyðsla staðist?
Spurt: Minn Jeep Wrangler Sahara er með 3,8 lítra vél og sjálfskiptur. Eina breytingin á honum eru 34" dekk. Eyðslumælirinn sýnir 24-36 lítra á hundraðið sem mér finnst mikið fyrir 200 hö. Tveir eigendur sams konar bíla á upprunalegum dekkjum segja mér að eyðslan hjá þeim sé um 11 lítrar á þjóðvegi en 14-16 í borgarakstri samkvæmt eyðslumælinum. Búið er að kóðalesa vélkerfið en enginn bilunarkóði reyndist skráður. Hvað er til ráða?

Svar: Hafi hraðamælirinn ekki verið stilltur fyrir 34" dekk er það fyrsta skrefið. Talaðu við þá hjá Arctic Truck um málið. Sé hraðamælirinn ekki réttur af, valda stærri dekk því að vegmælirinn telur færri km en hann á að gera: Hvorki hraða- né eyðslumælir geta þá mælt rétt. Að auki er eyðslumælir vafasamur mælikvarði nema hann hafi verið innstilltur (forritaður). Í handbók bílsins er sýnt hvernig það er gert (innsetning fyrir ,,average"). Að því loknu þarf ákveðinn akstur þar til mælirinn fer að sýna rétta meðaleyðslu.

176
Enn um steinolíu
Spurt: Ég á M.Benz G-300 kassajeppa. Er í lagi, eins og svo margir gera, að nota steinolíu og blanda í hana sjálfskiptivökva eða blanda steinolíu til hálfs við gasolíuna án þess að það komi niður á endingu eða eiginleika vélarinnar?

Svar: Ég get ekki svarað því - upplýsingar um efnisinnihald og gæði eldsneytis hafa ekki fengist hjá hérlendum olíufélögum.
(Skylt er að geta þess og benda á að síðan ég kannaði málið síðast, en þá var engar upplýsingar að hafa á vefsíðum olíufélaga varðandi staðalgæði eða gæðaeftirlit með eldsneyti, hefur N1 nú (febrúar 2010) sérstöðu og sker sig úr að þessu leyti. Á vefsíðu þess www.n1.is eru birtar upplýsingar um efnasamsetningu og tæknilega eiginleika mismunandi eldsneytistegunda. Vefslóðin er: www.n1.is/fyrirtaekjathjonusta og undirliður Fróðleikur um eldsneyti og smurolíur).
Svo virðist sem margir rugli saman litaðri gasolíu og steinolíu sem eru á svipuðu verði þrátt fyrir að skattlagning steinolíunnar sé mun minni. Bannað er að nota litaða olíu á venjulega einkabíla. Hins vegar er öllum heimilt að nota steinolíu á Dieselbíla á eigin ábyrgð. Ég hef notað steinolíu eingöngu um tíma á gamlan Opel með túrbó-Dieselvél með stjörnu-olíuverki og gormaspíssum. Hef engan mun fundið. Steinolían er frá N1. Til öryggis mun ég endurnýja eldsneytissíuna oftar. Sé þessi ,,Kassa-Benz" með olíuverki skaltu blanda steinolíu til helminga við gasolíuna en sleppa annarri íblöndun sem er gagnslaus að mínu mati (sjálfskiptiolía og/eða tvígengisolía eykur bara mengun og kostnað). Það sem gæti gerst ef of lítill brennisteinn væri í gas- eða steinolíu er að þéttingar í stjörnu-olíuverkum gætu gefið sig vegna skorts á smurningi en brennisteinninn gegnir hlutverki smurefnis í þeim kerfum. Til er sérstakt íblöndunarefni fyrir þessi eldsneytiskerfi.

Steinolían er þotueldsneyti (Jet Fuel A-1)
Síðan N1 reið á vaðið og birtir tæknilegar upplýsingar um eldsneyti á vefsíðu sinni vitum við að það sem selt er sem steinolía frá dælum, a.m.k. hjá N1, er sama efni og nefnist Jet Fuel A-1 - þ.e. þotueldsneyti. Það þýðir að steinolían inniheldur meira af brennisteini en gasolía (Diesel-olía). Brennisteinninn er blandaður í burðarefnið áltríoxíð (Al2O3) og virkar sem smurefni og er sérstaklega mikilvægt fyrir stjörnu-olíuverk (gúmmíþéttingar) og raðdælur (element og einstreymislokar). Upplýsingar N1 þýða að þeir sem eiga Diesel-bíla með olíuverki ættu að vera öruggari með óblandaða steinolíu sem eldsneyti heldur en gasolíu. Engin frekari íblöndun er nauðsynleg né til bóta (eins og ég hef lengi haldið fram).

Diesel-olía er lituð erlendis en vélaolía hérlendis
Í NV-Evrópu er eldsneyti fyrir fólksbíla með Diesel-vél litað öfugt við það sem gildir hérlendis. Þeir sem fara með bíla sína til útlanda í sumar með Norrænu ættu að hafa þetta í huga og geyma kvittanir fyrir kaupum á Diesel-eldsneyti erlendis til að lenda ekki í því að verða sektaðir um 200 þúsund krónur á leiðinni frá Seyðisfirði eftir heimkomu!

Loftkælikerfi (Air Condition)
Spurt: Getur loftkælingin í bílnum mínum, sem er Terrano II 2001, verið orðin slöpp miðað við hvernig hún virkaði ný? Þarf svona kerfi viðhald til að kæla með fullum afköstum? Ég hef spurt um þetta á verkstæði sem ég skipti við reglulega en þeir hafa gert lítið úr áhyggjum mínum?

Svar: Á loftkælikerfum er sérstakur kælimiðill. Hann er vökvi undir ákveðnum þrýstingi. Algengt er að 800g séu í kerfi fólksbíls. Vanti t.d. 200g á kerfið getur það hætt að virka. Auk bílaumboða og betri bílaverkstæða sem fylla á kælikerfi gera mörg fyrirtæki við frystikerfi í flutningabílum, bátum, fólksbílum, loftkælikerfi í húsum auk þess að gera við kæli- og frystitæki. Mörg þeirra fylla á kerfi fólksbíla og hafa sérstök tæki til finna leka.

Hlutfall bensín- og Dieselbíla í Evrópu
Spurt: Þekkir þú hlutfallið milli fólksbíla með bensín- og Dieselvélum sem nú eru í notkun í Evrópu?

Svar: Áreiðanlegar upplýsingar um þetta hlutfall liggja ekki á lausu enda er ekki litið á Evrópu sem eitt markaðssvæði (Austur-Evrópa, Suður-Evrópa og Norð-vestur-Evrópa eru ólík). Samkvæmt vefritinu just-auto-com um sölu nýrra fólksbíla í Norð-vestur-Evrópu voru Dieselfólksbílar 2,5% af seldum nýjum bílum 1973, 22,7% árið 1994, 34% árið 2000 og 53,1% 2008. Þrátt fyrir nýlegar verðhækkanir á eldsneyti Dieselbíla er spáð áframhaldandi söluaukningu. Með nýjum eldsneytiskerfum um 1998, með forðagrein í stað olíuverks (common rail) og rafspíssa, stórjókst salan á kostnað bensínbíla.

Diesel-vél skal hún heita
Ath.
Lesendur þessa dálks hafa gert athugasemdir við orðið dísilvél. Í framhaldi leitaði ég upplýsinga um meðferð heitisins erlendis. Samkvæmt tímaritinu Journal of Transport Economics and Policy (36. árg. 2008) er Rudolf Diesel höfundur umræddrar vélar og upphaflegur einkaleyfishafi. Skal hún því bera nafn hans sem Dieselvél. Jafnframt segir í tímaritinu að ekki sé tilhlýðilegt að þýða heitið Diesel né aðlaga að tungumálum. Ég mun virða þennan úrskurð héðan í frá.

Endurskráning eftir viðgerð á burðarvirki
Spurt: Ég á nýlegan dýran bíl sem lenti í umferðaróhappi í 100% rétti samkvæmt úrskurði beggja tryggingafélaga. Bíllinn krumpaðist á vinstra framhorni og hjólabúnaður þeim megin skemmdist mikið og skekktist. Bíllinn var því afskráður úr notkun af lögreglu á vettvangi. Viðkomandi tryggingafélag vill bæta mér tjónið með viðgerð á bílnum. Ég vil ekki eiga þennan bíl eftir svo alvarlega viðgerð á burðarvirki og öryggisbúnaði. Þarf ég að sæta þessum úrskurði?

Svar: Nei. Þessi bíll verður endurskráður að lokinni viðgerð, samkvæmt reglum Skráningarstofu sem ,,Viðgerður tjónbíll." Það rýrir verðgildi hans verulega (endursöluvirði), fæst bílaumboð taka bíl með þá skráningarstöðu upp í nýjan og sé viðgerðin ekki framkvæmd af eða í samráði við viðkomandi bílaumboð fellur verksmiðjuábyrgð bílsins úr gildi við endurskráningu. Þessar staðreyndir eru TJÓN í sjálfum sér. Því ætti tryggingafélagið, þegar um bíl í ábyrgð er að ræða, að leysa hann til sín. Eðlilegt er að miðað sé við uppítökuverð eða að notkun sé metin til fjár á móti notkunarmissi. Það nefnast samkomulagsbætur, þ.e. sem báðir aðilar geta sætt sig við. Kvartaðu við hærra settan starfsmann viðkomandi tryggingafélags. Beri það ekki árangur geturðu áfrýjað málinu til Matsnefndar tryggingafrélaga eða fengið lögmann til að stefna tryggingafélaginu fyrir þína hönd. Oftast er það óþarfi sé ekki viðkomandi starfsmaður viðkomandi tryggingafélags einhver vandræðagemlingur.

175
Skoda Octavia framhjólslega
Spurt: Er mikið mál að endurnýja framhjólslegu í Skoda Octavia 2005 - er það t.d. jafn flókið og í Renault? Hvar fær maður svona legu á hagstæðasta verði?

Svar: Nei - það vill til að þetta er mun einfaldara, Maður þarf t.d. ekki að hafa aðgang að 10 tonna vökvapressu eins og þegar um Renault er að ræða. Á Skoda er hjólnöfin og legan eitt stykki sem fest er með 4 boltum og því á færi hvers meðal-bileiganda að skipta um hana. Bremsudælan er losuð frá og hengd upp til hliðar og diskurinn fjarlægður. Boltarnir, sem halda bremsudælunni og hjólnöfinni/legunni (torx-haus) geta verið mjög fastir og því krefst verkefnið góðra verkfæra (ódýrt drasl dugar ekki), þ.e. toppasetts, framlenginga og sterkra átaksskafta sem má lengja. Stilling, AB-varahlutir, Fálkinn og N1 hafa selt þessar legur. Það er vel nokkurra símtala virði að kanna verð.

Ford Explorer vindgnauð
Spurt: Minn Ford Explorer '94 er orðinn gamall en samt í ágætu lagi. Undanfarið ár eða svo hefur vindhljóð verið að aukast - það hvæsir leiðinlega í honum þegar ekið er á 90 km hraða. Getur verið að þetta sé vegna þess að loftinntak miðstöðvarinnar í hvalbaknum sé óþétt?

Svar: Það er ekki hægt að útiloka það þótt ég muni ekki eftir slíku tilfelli. Með aldur bílsins í huga og hafi framrúðan ekki verið endurnýjuð tel ég sennilegra að falsið, sem framrúðan situr í, sé ryðgað sundur undir plastlistanum sem hylur samskeytin. Keyptu túpu af svörtu rúðukítti, skerðu stútinn þannig að hann myndi grannan taum og legðu báðu megin við plastlistann. Sléttu tauminn svo með nettum spaða. Hverfi hvæsið eða minnki veistu hvað er að.

Nissan Micra startar bara stundum
Spurt: Nissan Micra 2003 á það til að neita að fara í gang. Þá gerist ekkert þegar lyklinum er snúið. Við ítrekaðar tilraunir getur hann allt í einu hrokkið í gang og stundum er eins og meiri líkur séu á að hann starti sé lykillinn tekinn úr svissnum og byrjað upp á nýtt. Búið er að endurnýja svissbotninn en það breytti engu. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Þetta er dæmigerð lýsing á startara sem fær ekki straum vegna slitinna kola. Þú færð kolasett eða nýjan startara hjá Rafstillingu - þeir eða eitthvert annað verkstæði skipta um þetta fyrir þig. Þetta er lítið verk.

Isuzu D-Max stirður sviss
Spurt: Við erum með Isuzu D-Max árg. 04, það er oft mjög erfitt að snúa lyklinum í svissnum því hann er bara fastur en svo tekst að snúa honum með lempni. Hvað getur verið að?

Svar: Að öllum líkindum er það lásinn sjálfur eða lykillinn (slit). Lyklasmiðir eru yfirleitt ekki í vandræðum með að laga svona lása. Sértu á Rvk-svæðinu er lyklasmíðastofa í Síðumúlanum skammt frá horni Fellsmúla og önnur á horni Laugavegs og Nóatúns (Lyklasmiðurinn í gamla Heklu-húsinu). Sértu úti á landi er hægt að kippa svissnum úr á verkstæði og senda hann með lyklunum til lyklasmiðs til viðgerðar. Ath. Mikilvægt er að bíða ekki þar til lásinn festist alveg því þá næst hann ekki úr nema ónýtur og viðgerð óframkvæmanleg.

174
Ný 6 sílindra Cummins
Spurt: Ég er með nýlegan Dodge Ram með nýju 6,7 lítra Cummins-dísilvélinni sem mér finnst ekki byrja nógu vel miðað við eldri 5,9 lítra dísilvélina sem ég hef góða reynslu af. Í upplýsingum sem fylgja bílnum er tekið fram að eldsneytið skuli vera ,,ULSCF Diesel Fuel." Hvað þýðir þessi skammstöfun og get ég treyst því að eldsneytið sem hér er selt henti þessari vél?

Svar: A.m.k. 2 mismunandi gerðir dísilolíu eru á bandaríska markaðnum: ULSCF er skammstöfun fyrir ,,Ultra Low Sulphur Content Fuel". Sú dísilolía inniheldur minna en 15 ppm (milljónustu hluta) af brennisteini. Hin tegundin er LSCF sem er skammstöfun fyrir ,,Low Sulphur Content Fuel" en hún inniheldur meiri brennistein, innan við 50 ppm, en brennisteinn virkar sem smurefni í eldri gerðum dísilkerfa með mekanískum olíuverkum og spíssum. Brennisteinssnauðara ULSCF-eldsneytið er m.a. ætlað dísilvélum sem búnar eru forðagrein (common rail) í stað olíuverks, þriggja efna hvarfakúti og sérstakri sótagnasíu (DPF). Brennisteinssnauð dísilolía á að vera fáanleg á EBE-svæðinu síðan í ársbyrjun 2007. Engar upplýsingar fást um gæðastaðla eða efnainnihald eldsneytis hjá olíufélögum hérlendis og ekkert eftirlit er með gæðum þess af hálfu hins opinbera. Nýja Cummins 6,7 virðist ekki vera án ,,barnasjúkdóma."

Benz festist í bremsum
Spurt: Bíllinn minn er ár 2006 af Benz-fólksbíl. Að undanförnu hef ég lent í því nokkrum sinnum að bremsurnar að framan hitna þar til þær verða rauðglóandi og festast. Búið er að skipta um klossa, diska og stimpla í dælum (1 í hvorri), lofta kerfið margoft en allt kemur fyrir ekki. Stundum festist annað framhjólið fyrst en síðan bæði og einnig hafa bremsurnar orðið óvirkar. Nú síðast var sett ný höfuðdæla en það breytti engu. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Þú nefnir að vísu ekki dælurnar sjálfar en miðað við lýsingarnar hljóta þéttingar í þeim að vera orðnar ónýtar auk þess sem vökvinn hefur soðið og þarf því að endurnýjast. Mig grunar að upphafleg orsök hafi ekkert með bremsukerfið að gera heldur hafi vegna mistaka verið settur rúðu- eða kælivökvi í forðabúr höfuðdælunnar. Vatns- eða rakamengaður bremsuvökvi getur valdið svona viðbrögðum nái hann að hitna í hjóldælum (bremsuvökva á að endurnýja með 2-3 ára millibili). Við þetta má bæta að sumir Benz og Jeep/Chrysler eru með framdælur sem hafa einn stimpil úr áli. Stimplarnir slitna fyrr en þyngri stimplar úr stáli. Þegar slitnir álstimplar ganga út úr dælunum, við að bremsuklossar slitna (þynnast), vilja þeir festast. Þá hitnar allt draslið þar til það verður rauðglóandi og gikkfast. Einkenni á þessari bilun er að bremsurnar eru til friðs fyrst eftir að nýir klossar hafa verið settir í að framan - en þegar þeir eru meira en hálfslitnir (stundum einungis annar þeirra) byrjar ballið.

Viðbót: Í framhaldi af þessu er ástæða til að hvetja til sérstakrar varkárni varðandi áfyllingu hinna ýmsu vökva sem fylgir þjónustu við bíla. Hluti jeppa er t.d. búinn vökvafjöðrun (t.d. nýrri LandCruiser). Sé fyrir misgáning settur rúðuvökvi á fjöðrunarkerfið eyðileggst það á skömmum tíma og viðgerð getur orðið verk upp á 400-500 þús. kr.

Mitsubishi Carisma biluð hraðastilling á miðstöð
Spurt: Ég er í vandræðum með miðstöðina í bílnum mínum. Blásturinn virkar ekki á 1, 2 eða 3. Einungis hæsta stillingin virkar (4). Getur þú sagt mér hver hugsanleg orsök kunni að vera. Þetta er Mitsubishi Carisma ´99.

Svar: Þessi bilun er sígild, lýsir sér eins og er af sama toga í nánast öllum miðstöðvarkerfum bíla: Hraðastýringin fyrir blásaramótorinn - viðnámið - er ónýtt. Þetta er sérstakt stykki sem er í stokknum næst blásaranum (leiðslur). Þú færð það hugsanlega hjá Stillingu eða N1 eða á partasölu (sama viðnámið er í flestum Mitsubishi-bílum og þetta viðnám passar einnig úr Volvo S40).

173
Miðstöð í Audi A4 Tdi hitar ekki
Spurt: Ég er að glíma við Audi A4 tdi árg. 1998. Miðstöðin í honum vill ekki hitna nema vélin sé þanin um og yfir 3000 sn/mín. Ég er búinn að skola út kerfið, skipta um vatnslás, lofttæma með því að lyfta þrýstikútnum og tappa af kerfinu í gegnum þar til gert gat á vatnshosu til miðstöðvar Hefur þú heyrt um þetta vandamál í Audi A4?

Svar: Vandamálið er þekkt. Oftast er það vegna þess að ekki hefur tekist að lofttæma kerfið með þessari aðferð sem þú lýsir, sem þó er rétt. Kerfið verður að vera þétt og undir fullum þrýstingi. Á kerfinu þarf að vera nægur kælivökvi til að yfirfallskúturinn sé a.m.k. botnfullur eftir að honum hefur verið lyft upp. Við þessar aðstæður, með vélina fullheita í gangi á um 2500 sn/mín, er losað upp á annarri miðstöðvarhosunni (undir hlíf á hvalbaknum) og hún dregin út á stútnum þar til hleypur út um lítið gat á slöngunni. Þetta er hættulegt verk. Hlífðarföt, andlitshlíf og skinnhanskar minnka hættu á slysi (brennheitur kælivökvi undir miklum þrýstingi). Annað sem gæti valdið þessu ,,hitaleysi" - en er þó ólíklegra er að einn sílindri eða fleiri pústi út í vatnsgang með' lekri heddpakkningu. Þú getur gengið úr skugga um það á eftirfarandi hátt. Með vélina fullheita opnarðu yfirfallskútinn (með gát) og bætir í hann ef þarf. Freyði vökvinn eða myndast í honum loftbólur pústar út í vatnsganginn og stöðugt loft er á miðstöðvarkerfinu sem er hæsti hluti kælikerfisins.

Própangas sem brunahvati fyrir dísilvél
Spurt: Hvert er þitt álit á innsprautun própangass í dísilvél, t.d. eins og bandaríska fyrirtækið PowerShot er að bjóða til að auka aflið? Própangasinu er veitt inn í inntak pústþjöppunnar og magninu stýrt með þjöppuþrýstingnum.
Þetta á að vera til bóta og jafnvel spara ögn af eldsneyti.

Svar: það er hægt að fæða própangasið inn í brunahólfin á mismunandi hátt en virknin er sú sama - það bætir brunann og eykur þannig afl. En própangas er um 5-falt dýrara hérlendis en víða erlendis svo hætt er við að lítið fari fyrir sparnaðinum. Fjallað er um þetta og fleira í yfirlitsgrein um dísilvélina á vefsíðunni minni http://www.leoemm.com/disilvelin.htm

Stöðugt lélegri sjálfskiptingar?
Spurt: Ég átti Volvo S40 árg. 2003. Það fór í honum sjálfskiptingin eftir rúmlega 120 þús. km. Viðgerðin var svakalega dýr. Ég endurnýjaði með Volvo S80, ekki síst vegna þess að í honum á að vera ný og betri 6 gíra sjálfskipting. Eftir 19 þús. km. er skiptingin byrjuð að haga sér undarlega. Þegar ég bíð á ljósum og stend á bremsunni koma stundum slíkir rykkir að ætla mætti að ekið hefði verið aftan á bílinn. Kunningi minn á Volvo V70. Sjálfskiptingin í honum er farin að sleppa úr við skipti úr 2. í 3. gír eftir 80 þús. km notkun. Sumir fullyrða að sjálfskiptingar í Volvo séu bilanagjarnar. Er það svo? Hvað getur valdið þessum rykkjum og get ég gert eitthvað til að koma í veg fyrir dýrar bilanir í skiptingunni?

Svar: Sjálfskiptingar í evrópskum bílum hafa reynst misjafnlega, m.a. í Volvo. Ég tel þó ekki að Volvo skeri sig úr hvað þetta varðar, efast t.d. um að franskir bílar kæmu betur út úr nákvæmum samanburði. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram. Af þeim sem mér finnast sennilegastar eru þær að Evrópskir bíleigendur (og bílaframleiðendur), sem hafa 50 árum skemmri reynslu af sjálfskiptingum en bandarískir, hafi ekki náð tökum á þessari tækni, m.a. hafi evrópskir framleiðendur gengið of langt í sparnaði, látið um of eftir kröfum um sparneytni og að þeir hafi komist upp með að þróa sínar sjálfskiptingar, að hluta til, með tilraunum á bíleigendum sem jafnframt hafa (of lengi) verið látnir borga brúsanna. Volvo hefur fylgt þessu ferli og það hefur reynst afdrifaríkt, svo ekki sé fastar að orði kveðið: Fyrir hálfu ári eða svo voru birtar stöðutölur yfir bilanatíðni bíla í Svíþjóð. Volvo, sem vant er að vera neðarlega á lista yfir þá bíla sem bila oftast var allt í einu komið efst á blað!).

Ófullnægjandi forritun stjórnbúnaðar
Þar til fyrir skömmu voru skiptingar í S4/S40 frá ZF í Þýskalandi en með tölvubúnaði samkvæmt forskrift Volvo. Dýrustu gerðir Volvo voru með skiptingar frá AisinWarner í Japan en sem Volvo lét forrita sérstaklega fyrir sig (þær sömu og reynst hafa ódrepandi í stórum GM-bílum svo sem Cadillac). AisinWarner hefur gefið yfirlýsingu um að bilanir hjá Volvo séu vegna klúðurs í hugbúnaði (stýrikerfi) og því algjörlega á ábyrgð þess.

Lágt tæknistig íslenskra bílaumboða
Fæst íslensk bílaumboð reka sérstaka sjálfskiptingaþjónustu. Sérfræðileg þekking á sjálfskiptingum er jafnvel ekki fyrir hendi hjá sumum umboðunum. Á þessu eru þó undantekningar, sem skylt er að nefna: A.m.k. Toyota-umboðið hefur séraðstöðu, séráhöld og sérþjálfaðan mann til viðgerða á sjálfskiptingum. Önnur umboð framkvæma jafnvel ekki einfaldar lagfæringar á sjálfskiptingum en bjóða þess í stað endurbyggða sjálfskiptingu með tilheyrandi kostnaði og/eða í besta falli að skipta út ákveðnum hlutum með endurbyggðum svo sem ventlaboxi, vökvakúplingu, gangráð, hraðamælisdrif o.fl.). Sérhæfð þjónustufyrirtæki í sjálfskiptingum, sem mér er kunnugt um, eru Jeppasmiðjan við Selfoss, Bifreiðastillingin Smiðjuv. 40 í Kópavogi og Skipting ehf. í Keflavík.

Öllu eru takmörk sett
Sá sem hyggst kaupa nýjan bíl og leggur sérstaka áherslu á sparneytni hefur, þar til fyrir skömmu, gert betri kaup í handskiptum en sjálfskiptum bíl auk þess sem sá handskipti er ódýrari. Með því að fjölga gírum úr 5 í 6-7, þ.e. með þéttari stikun, og með tvær sjálfvirkar vökvakúplingar í stað einnar og tilheyrandi tölvustjórnbúnaði (með mörgum mismunandi val-forritum) hefur tekist að gera skiptingar þannig að sjálfvirkt gírval fylgir betur hámarkstogsviði vélarinnar auk þess sem bílstjórinn getur sjálfur valið hvort hann ekur með sjálfskiptingu eða handskiptingu, að einhverju eða öllu leyti, án þess að þurfa að stíga á kúplingu. Porsche, svo dæmi sé tekið nefnir slíka skiptingu (Tiptronics) en á meðal kosta hennar er að hún eykur ekki eyðslu umfram hefðbundna handskiptingu. Langstærstur hluti Porsche-bíla sem seldir hafa verið í Bandaríkjunum eru með Tiptronics-sjálfskiptingu og engum sögum fer af óeðlilegri bilanatíðni enda þarf búnaðurinn að vera sterkur enda bíllinn vandaður og ekki ódýr.
Langstærstur hluti BMW-bíla sem seldir hafa verið í Bandaríkjunum og og nú síðustu 2 áratugina í Evrópu eru sjálfskiptir. Flestir sem pæla í bílum vita að sjálfskiptur BMW með bensínvél eyðir um 15% meiru en sami bíll handskiptur. Engin meiriháttar vandamál hafa fylgt sjálfskiptum BMW. Audi hefur boðið tveggja kúplinga sjálfskiptingu (sambærilega við Tiptronics) síðan 2002 og nefnir DSG. Eyðsla er svipuð með henni og hefðbundinni handskiptingu. Bilanatíðni Audi er langt yfir meðaltali og hefur þurft að innkalla þúsundir A4/A6 í Bandaríkjunum vegna DSG-skiptingarinnar og bilana í rafkerfi. VW hefur nýlega sett á markaðinn nýjar tveggja kúplinga sjálfskiptingar, 7 gíra sem á að gera bílinn sparneytnari en með hefðbundinni sjálfskiptingu og 6 gíra (Passat) sem á ekki að auka eyðslu. Ef marka má bilanatíðni nýrra VW-bíla kæmi mér ekki á óvart þótt ýmsar óvæntar uppákomur bíði eigenda nýrra sjálfskiptra VW.
Nú bregður svo við að farið er að kvarta undan sjálfskiptingum í fjórhjóladrifsbílum frá Ford í Bandaríkjunum, bæði smærri og stærri. Öðru vísi mér áður brá! Við athugun kemur í ljós að í sumum, t.d. stóra fjórhjóladrifna Lincoln Navigator, er sjálfskipting frá ZF í Þýskalandi! Skyldi það vera tilviljun að eigendur amerískra jeppa (Navigator er reyndar ofvaxinn jepplingur) eru farnir að lenda í sjálfskiptingarvandamálum?

,,Bakkabræður endurbæta"
Öðru hverju vakna einhverjir besserwisserar upp í tæknilegri freðmýri og kynna ,,nýjung" - einhvers konar ,,evrópska sjálfskiptingu." Engu er líkara en að þessir ,,uppvakningar" séu úr öllum tengslum við það sem fyrir hefur verið á markaðnum í áratugi. Varla þarf að bæta því við að þessi búnaður hefur reynst herfilega illa ef frá eru taldar hálfsjálfskiptingar í Citroën DS fram að 1975 sem var vandaður búnaður. Eldri bílvirkjar muna eftir rafvirku kúplingunni sem boðið var upp á í VW og fleiri evrópskum bílum upp úr miðjum 7. áratugnum og nefndist ,,Saxomat." Sá andskoti var aldrei í lagi og notaðir bílar með þeim búnaði urðu gjörsamlega óseljanlegir . Fleiri muna sjálfsagt eftir ,,VarioMatic-skiptinguna sem DAF í Hollandi varð þekkt fyrir og virkaði án stóráfalla í Daf-tíkunum eða þar til þetta reimadrif birtist fyrst í Volvo 343 árið 1976. Leitun mun vera að jafn misheppnuðu drasli og voru 343- bílarnir jafnvel fljótari á haugana en Fiat.
Og enn virðast uppvakningar á ferð, nú hjá Toyota. Það fyrirbrigði, sem Toyota býður í smánbílum sem 5 þrepa MM-(sjálf)skiptingu, er þegar orðið til stórvandræða. MM er ekki sjálfskipting heldur venjulegur gírkassi með venjulega kúplingu sem ,,Gerorg Gírlausi" hefur búið rafmótorum sem sjá um að kúpla og leggja gíra í og úr og er tölva látin stýra gumsinu eftir ýmsum boðum. Bílarnir eru varla keyrandi með þessu drasli, það er síbilandi og ég spái því að notaðan Toyota með MM-skiptingu verði álíka auðvelt að losna við og alnæmi.

Volvo-sjálfskiptingarnar
Óvenjulegt er að sem framleiðandi gefur Volvo ekki upp þjónustumörk t.d. varðandi endurnýjun vökvans, jafnvel þótt sömu skiptingar séu notaðar í S40 fyrir 100 ha vél og 220 ha túrbóvél og/eða fyrir bíla sem draga vagna. Einu fyrirmælin gilda fyrir leigu- og lögreglubíla en þau mörk eru 60 þús. km. Minnka má líkur á dýrum viðgerðum vegna sjálfskiptinga með því að endurnýja vökvann eftir 60 þús. km eða 4. hvert ár - jafnvel þótt framleiðandi bíls fullyrði að aldrei þurfi að endurnýja vökvann. Það fær sjaldan staðist og áhættan er alltaf bíleigandans. Athyglisvert er að í Svíþjóð er þess krafist að sjálfskiptur Volvo S40 sé búinn viðbótarkæli fyrir skiptinguna sé sett á hann dráttarbeisli! Í Bandaríkjunum hafa skiptingarnar í S40/V40 hrunið unnvörpum og valdið Volvo álitshnekki.

Rykkir í nýja S80
Varðandi rykkina: Í nýja 6 gíra S80 fer skiptingin, sem er sænsk Getrag/Volvo, sjálfvirkt í hlutlausan (N) þegar beðið er á ljósum (eldsneytissparnaður). Rykkirnir eru vegna galla í forriti stjórnbúnaðarins sem tengir D-gír án þess að bremsunni hafi verið sleppt. Með endurforritun má laga þetta. Búnaðinn má forrita þannig að sjálfvirka úr- og ílagið sé óvirkt. Í nýrri skiptingum í Volvo er vökvasían innbyggð í skiptingarhúsið og ekki hægt að endurnýja hana nema skiptingin sé tekin sundur. Í eldri S80 er þetta ekki svona heldur er sían neðst í pönnunni. Þær skiptingar hafa reynst óaðfinnanlega sé vökvinn endurnýjaður reglulega (60 þús. km.).

Volvo V70 sem ,,sleppir"
Í Volvo-skiptingum (t.d. V70) verður stundum vart við þrýstingsfall (snuð) þegar skiptir úr 2. gír í 3. Vélin ,,flögrar" upp við skiptipunktinn. Sé brugðist nógu skjótt við má laga þetta og koma í veg fyrir að það endi með eyðileggingu. Öruggast er að láta gera það með endurforritun skiptingarinnar (TCM) sem eykur þrýsting í kúplingum um leið. Einnig er til sérstakt efni hjá þeim sem annast sjálfskiptiþjónustu sem sett er saman við vökvann við endurnýjun og getur stöðvað þessa þróun. Sé snuðið komið á ákveðið stig þarf að gera við skiptinguna en sérstakt varahlutasett á að vera til hjá umboði og sjálfskiptingarþjónustum til þess.

172
Innri hreinsun vélar?
Spurt: Sem lið í sértilboði á smurþjónustu er mér boðin innvortis-hreinsun vélar með sérstöku efni. Efnið á að losa uppsöfnuð óhreinindi innan úr vélinni og skila þeim út með gömlu smurolíunni og síunni. Er þetta alvöru-hreinsun eða sölubrella?

Svar: Sé brunavél í lagi, smurolía endurnýjuð reglulega og hringrásaröndun (PCV) haldið virkri er engin þörf fyrir sérstaka innri hreinsun. Trassaskapur (smurolía, sía, PCV-kerfi) getur valdið því að óhreinindi safnist upp í vél. Einkum á það við þegar notuð er smurolía unnin úr jarðolíu (ekki syntetísk). Eðlilegast er að skipta þá yfir í syntetíska smurolíu og láta hreinsiefnin í henni um að losa óhreinindin sem tekur vissulega tíma og fylgir olíubrennsla (reykur). Sölumenn hafa því fundið út að með því að bjóða sérstakt hreinsiefni og blanda í smurolíuna megi losa allt gumsið í einu. Hraðvirkustu hreinsiefnin eru að mestu leyti steinolía (kerosene) blönduð sterkum leysiefnum; ódýr efni sem gefa margfalda álagningu. En þau þynna smurolíuna verulega og geta valdið skemmdum á vélarhlutum (m.a. stíflum í smurrásum). Þurfi að hreinsa vél á þennan hátt skyldi nota hreinsiefni sem inniheldur EKKI ,,kerosene" en um það eiga að vera upplýsingar á umbúðum.

Kóðalestur og önnur greining
Allir nýir bílar seldir á ES-svæðinu frá og með 1996 hafa tölvubúnað til að halda mengun í útblæstri innan lögbundinna marka. Bílar fyrir bandaríska markaðinn, svo sem Mercedes-Benz, Volvo, Saab, BMW, Porsche o.fl. voru komnir með tölvubúnað til mengunarvarna fyrir 1990 þótt hann kæmi ekki í sömu bíla fyrir Evrópumarkaðinn fyrr en seinna. (Fyrsta mengunarþrep bandarísku EPA CAA-laganna tók gildi 1990 en EC-lögin eru frá 1995). Leyfileg mengunarmörk hafa verið lækkuð í áföngum til dagsins í dag og kröfum verið mætt með aukinni tækni og tölvubúnaði. Nú eru flestir bílar búnir vélarstýringu með forvörn auk bilanagreiningar. Bilunarljós (,,Check Engine") getur því kviknað án þess að bilun sé merkjanleg og er þá skilaboð um að vélartölva (OBC eða ECU) hafi skráð bilunar- eða aðgerðarkóða (forvörn). Verkstæði getur bilanagreint kerfið með sérstakri tölvu/lesara. Bilunarljós þýðir að kóðalestur skuli ekki draga. Hann getur girt fyrir dýrar viðgerðir. Í Bandaríkjunum er bannað að fylla á eldsneytisgeyma með vél í gangi. Sé það gert eða gleymist að loka geymi getur bilunarljósið kviknað.

Einungis ákveðnar vélarbilanir/gangtruflanir kveikja bilunarljós. Aðrar, jafnvel áberandi og alvarlegar, gera það ekki og verða ekki greindar með kóðalestri. Sem dæmi um nokkrar má nefna eftirfarandi: Stífluð eldsneytissía. Biluð eldsneytisdæla eða straumloka dælu. Rakamettað eldsneyti (ísvara fyrir bensínvél á ekki á nota fyrir dísilvél). Ónýtur toppstöðunemi (crank sensor) en einkenni geta verið tilviljanakennd erfið gangsetning heitrar bensínvélar. Bilaður kambásnemi sem veldur aflleysi og aukinni bensíneyðslu. Lélegir kertaþræðir. Léleg kerti. Stíflaður eða ónýtur hvarfakútur sem veldur óeðlilegri eyðslu, aflleysi og ólykt. Ábending: Það getur borgað sig ríflega að kanna verð hvarfakúts hjá BJB-pústþjónustunni í Hafnarfirði. Erfið gangsetning kaldrar dísilvélar í bíl með tvo rafgeyma getur verið vegna þess að annar þeirra sé ónýtur, jafnvel ársgamall. (Margir seljendur rafgeyma bjóða ókeypis álagsprófun). Skyndileg aukning bensíneyðslu getur stafað af ónýtum hitaskynjara fyrir kaldstart, föstum stimplum í bremsudælum eða of litlum þrýstingi í dekkjum. En eins og áður var sagt eiga upptalin tilfelli sameiginlegt að kveikja ekki bilunarljós.

Pajero Sport eldsneytissía
Spurt: Ég er með MMC Pajero Sport 2,5 dísil, 2000 árgerð. Fyrir ekki svo löngu fór hitunar ljósið að slokkna nánast strax og vélin þurfti inngjöf í starti til að ná að fara í gang. 'Eg ákvað að láta skipta um glóðarkertin. Strax og ég fékk bílinn aftur tók ég eftir að klikkið kom löngu eftir að ljósið sloknaði í mælaborðinu. 'I sama skipti fannst lítið gat á eldsneytislögn ofan á geyminum sem var gert við. En nú þarf ég að bíða lengi eftir að heyra klikkið koma áður en ég starta óg vélin er dálítið treg í gang en stundum drepur hún strax á sér aftur (jafnvel í 3-5 gráðu hita) og þarf þá mun meiri inngjöf til að fara í gang. Mér var sagt eldsneytisleiðslurnar gætu verið orðnar slappar og gætu dregið falst loft sem einkaði gangsetningu. Hvað myndir þú gera í þessri stöðu? Myndi kóðalestur greina svona bilun?

Svar: Ég myndi ekki spandera kóðalestri á þetta vandamál. Gefum okkur að viðgerðin á gatinu á hráolíulögninni hafi tekist óaðfinnanlega. Þá ætti a.m.k. minna falskt loft að vera í eldsneytiskerfinu en áður og þá hefður þú átt að finna mun, t.d. auðveldari gangsetningu. Gatið á lögninni gæti hafa dregið inn talsvert magn af ryki og því full ástæða til að endurnýja eldsneytissíuna. Sértu með 2 rafgeyma er auðveldast að aftengja báða og taka þann sem er nær hvalbaknum úr. Þá kemstu að til að skipta um hylkið neðan á síuhaldaranum, eftir að hafa aftengt vatnsnemann neðst á síunni. Þegar ný sía er komin í losaru lofttappann og notar handdæluna til að fylla síuna og losa loftið. Það sem eftir kann að vera af lofti í leiðslunni að spíssagreininni losar kerfið sjálft. Önnur eldsneytissía er á upptökuröri dælunnar í eldsneytisgeyminum. Hægt er að komast að henni um stórt lok sem er undir aftursætinu. Láttu það samt bíða og sjáðu hver áhrifin verða af síuskiptunum. Breyti þau engu eða hafirðu þegar skipt um síu, geta þessi smellir sem þú talar um verið vegna bilunar í straumloku (fuel pump relay) fæðidælunnar en hún tengist forhituninni þannig að straumur til kertanna rofnar eftir ákveðinn tíma sé ekki nægur þrýstingur frá dælunni í spíssagreininni. Erfið gangsetning getur einnig verið vegna þess að annar geymanna eða báðir eru lélegir (álagsprófun).

Á myndinnit. v. sést síuhaldarinn eftir að millikælirinn hefur verið tekinn úr. Með beltislykli á að vera auðvelt að losa síuhylkið og festa því nýja. Með því að fjarlægja aftari geyminn verður auðveldara að komast að. Loftaftöppunar-nippillinn er sá sem snýr fram (vinstra megin við örina). Á myndinni til hægri vísar örin á neðri gúmmíhringinn sem þú þarft að endurnýja, en hann er á vatns-nemanum sem er neðan á hylkinu. Hann, ásamt nýjum efri hring (stærri) á að fylgja með nýju síuhylki (þetta svarta). Það fæst hjá N1, Framtaki eða Stillingu. Hjá Stillingu færðu spíssahreinsiefni sem þú skalt setja út í eldsneytið, allan brúaann í minna en hálfan geymi. Spíssarnir hreinsast á 2-3- dögum í venjulegum akstri. Myndir: www.pajero.org.uk

Audi A4 miðstöðin hitar ekki
Spurt:
Ég er að glíma við Audi A4 tdi árg. 1998. Miðstöðin í honum vill ekki hitna nema ef vélin sé þanin yfir 3000 sn.
Ég er búinn að skola út kerfið, skifta um vatnslás, lofttæma með því að lyfta þrýstikútnum og tappa af kerfinu í gegnum þartilgert gat á vatnshosu til miðstöðvar.
Hefur þú heyrt um þetta vandamál í AUDI A4?

Svar: Þetta er þekkt vandamál í Audi og oftast er það vegna þess að loft er á kerfinu - jafnvel þótt reynt hafi verið að lofttæma það. Þegar yfirfallskútnum er lyft upp þarf kerfið að vera fullt (kúturinn a.m.k. botnfullur), vélin fullheit og fullur þrýstingur á kerfinu. Sé smáleki einhvers staðar er eins víst að þú nærð ekki að lofttæma kerfið með því að losa aðra miðstöðvarslönguna (þær eru á hvalbaknum undir hlíf sem þú tekur af) og draga hana út á stútnum þar til hleypur út um litla gatið á slöngunni. Ekki veit ég hvers vegna þetta þarf að vera svona - en þetta er ekki eina sérviskan í Audi sem gert hefur margan bílvirkjan gráhærðan. En gefum okkur að vatnslásinn snúi rétt (gormurinn snýr þá frá vatnskassanum) og að lásinn standi ekki fastur opinn (þá væri vélin óeðlilega lengi að ná vinnsluhita) og að vatnsdælan sé í lagi (vélin yfirhitni ekki við álag) og að þér hafi í raun og veru tekist að lofttæma kerfið. Þá er staðan þessi: Í þessari miðstöð streymir kælimiðillinn stöðugt í gegn um hitald miðstöðvarinnar. Þegar þú stillir á heitan blástur færir rafmótor spjald sem beinir inntakslofti í gegn um hitaldið og inn í miðstöðvarstokkana eftir því á hvernig blástur er valinn. Þegar stillt er á kaldan blástur beinir spjaldið inntaksloftinu framhjá hitaldinu.
Prófaðu eftirfarandi:
Losaðu báðar slöngurnar af miðstöðvarstútunum á hvalbaknum í húddinu og klemmdu þær aftur með krafttöngum. Prófaðu með vatnsslöngu hvort eðlilegt rennsli sé í gegn um hitaldið. Sé það tregt skaltu kaupa vatnskassahreinsi á bensínstöð og hella honum inn í hitaldið þar til rennur út um hinn stútinn. Troddu einhverju í stútana og láttu þetta eiga sig yfir nótt. Spúlaðu síðan hitaldið út þar til rennur almennilega í gegn um það og tengdu slöngurnar á ný.
Reynist hitaldið stíflað (en það er það oftast á þessari árgerð vegna þess að vökvinn á kerfinu hefur of sjaldan verið endurnýjaður) skaltu jafnframt kanna rennslið í gegn um vatnskassann. Mun erfiðara er að hreinsa hann að einhverju gagni með efnum og gæti því þurft að endurnýja hann.
En reynist hitaldið óteppt og rennsli í gegn um það eðlilegt þá berast böndin að rafmótornum sem færir spjaldið: Þar getur verið sambandsleysi frá takka að mótor, mótorinn ónýtur, hafi krækst frá spjaldinu eða spjaldið hrokkið upp úr stýringum. Hagstæðasta verð á vatnskössum og hitöldum hefur verið hjá Gretti vatnskassaþjónustunni á Vagnhöfða, Rvk.

171
Smellir í sjálfvirku fjórhjóladrif (A4WD)
Jeppar frá frá Ford, Hyundai, SsangYong, Toyota o.fl. geta verið með sjálfvirku sítengdu fjórhjóladrifi, með eða án læsanlegrar mismunarkúplingar í millidrifi. Eitt af einkennum þess er að drifháttur er valinn með tökkum - einn þeirra er oft merktur A4WD (Automatic 4WD eða TOD (Traction on Demand). Sjálfvirka fjórhjóladrifið, sem er tölvustýrt, byggir á boðum frá skynjurum sem telja snúning hvers hjóls. ABS-nemar geta t.d. gegnt þessu hlutverki að hluta eða öllu leyti. Þegar stjórntölvan fær boð um mismunandi snúningshraða hjóla, t.d. í beygju, við spólun, eða boð um álagsbreytu (t.d. snögga inngjöf), virkjar hún mismunarkúplinguna í millidrifinu, þ.e. tengir fjórhjóladrifið sjálfvirkt.
Í sumum þessara kerfa er átakshlutfall milli fram- og afturhásingar fastákveðið, t.d. 38/62%) en í öðrum getur það breyst sjálfvirkt eftir aðstæðum. Í sumum kerfanna má læsa millidrifskúplingunni handvirkt þannig að átakið verið jafnt á fram- og afturhjólum, t.d. þegar hætta er á að bíll festist í torfæru. Stundum myndast torkennileg högg og hnökrar í þessum drifbúnaði þegar ekið er við venjulegar aðstæður. Dæmi eru um að millikassar hafi verið losaðir úr á verkstæðum og teknir sundur, drifsköft verið endurnýjuð, rétt og/eða jafnvægð - allt með umtalsverðum kostnaði en árangurslaust.
Stundum hefur komið í ljós að aukahljóðin má tengja endurnýjun dekkja eða breytingum á dekkjum. Séu slitin framdekk endurnýjuð en minna slitin afturdekk notuð áfram (nýju dekkin jafnvel af annarri tegund) getur það valdið uppsafnaðri spennu í drifbúnaði vegna mismunandi snúningshraða hjóla (mismunandi þvermáls). Þá spennu leysir millidrifskúplingin með yfirálagsvörn (kúlu-palli) sem myndar högg eða hnökra yfirhlaup eða slúður. Þótt jeppadekk af mismunandi tegund hafi sömu stærðarmerkingu getur samt munað nokkru á þvermáli þeirra. Sá mismunur til viðbótar sliti getur numið meiru en 10% frávikum. Til þess að girða fyrir þetta vandamál þarf að víxla dekkjum reglulega samkvæmt leiðbeiningum í handbók framleiðanda bílsins. Hafi það ekki verið gert er mælt með því að endurnýja öll 4 dekk samtímis á jeppum með þessum drifbúnaði.

,,Sprengihreyfill" er ónothæft orð
Þeir sem aðhyllast ,,hreintungustefnu" gleyma því stundum að orðið háskóli er danska! Þó er engin ástæða til að amast við því. Þýðing enskra orða getur verið ólík í mismunandi samhengi. ,,Combustion engine" þekki ég sem enskt heiti á vél eins og notuð er í farartækjum og nefni brunavél. ,,Explosion engine" - en bein þýðing á því væri sprengivél, veit ég ekki hvað er. Orðið,,sprengihreyfill" virtist mér vera á undanhaldi, sem betur fer, en er þó ekki aflagt (er t.d. í ágætri nýrri bók, Kafbátasögu). Sprenging á sér stað með hvelli. Deila má um hvar mörkin liggja á milli smells, hvells og sprengingar. Í brunavél er komið í veg fyrir sprengingu/hvell með því að breyta ástandi með stimpli sem hreyfist og knýr sveifarás. Þannig breytir brunavél orku í hreyfiafl. Brunavél er því eðlilegt heiti á fyrirbærinu.

Eðlismunur á bensín- og dísilvél
Auk hærri þjöppunar sem leiðir af sér sjálfskveikjun er eðlisfræðilegur munur á hönnun og byggingu bensín- og dísilvélar: Í bensínvél er bruni við óbreytt rúmtak sem eykur þrýsting (isokor) en við stöðugan þrýsting með auknu rúmtaki í dísilvél (isobar). Í báðum vélum fara stimpill og sveifarás með aðalhlutverkin og koma m.a. í veg fyrir að vélin springi. Stundum er sagt að dísilvél henti betur til átaka því hún sé slaglengri; togi betur og hafi seigari vinnslu. Þetta er misskilningur: Dísilvélin nær um 67% meiri varmaorku úr eldsneyti til að mynda hreyfiafl (miðað við 21% og 35% brunavirkni) heldur en bensínvél. Bruni við stöðugan þrýsting fylgir stimplinum lengra niður á aflslagi. Því má hafa lengri átaksarm á sveifarási dísilvélarinnar en bensínvélar. Þess vegna togar hún meira! Stimpilstöngin fylgir ummáli stærri hrings á sveifarási. Aukna slaglengdin er því afleiðing en ekki orsök. Fullkomnari bruni í dísilvél þýðir meira tog, nýting eldsneytis er betri þrátt fyrir breytilegt álag og loftmengun því minni en af bensínvél.

Renault Scenic 4x4 spindilkúlur (sparnaður 100 þúsund krónur)
Spurt: Ég á Scenic RX4 2001 (fjórhjóladrifinn) ekinn 123 þús. km. Ég fékk grænan miða vegna spindilkúlna báðum megin. Umboðið býður ekki aðra lausn en hjólarminn með spindikúlu, eins og hann leggur sig, fyrir um 70 þús. kr. hvorn.
Ég er búinn að spyrjast fyrir um spindilkúlu/arm hjá N1, Stillingu, AB varahlutum, Fálkanum og partasölum. Enginn á þetta til í Renault Megane/Scenic. Ég er ekki tilbúinn að borga 130 þús. kr. einungis fyrir þessa varahluti. Því spyr ég er hægt að leysa málið á ódýrari hátt?

Svar: Í Renault Scenic er spindilkúlunum þrykkt í A-arminn. Í Megane er á þeim leggur með götum til að festa þeim í A-arminn með tveimur 12 mm sérhertum stálboltum með lásró (Ísól). Þú þarft ekki að kaupa armana fyrir 130 þús. kr. Spindilkúlur fyrir Renault Megane Classic (Renault hl.nr. 5581) færðu hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli fyrir kr. 3104.- stk.Þær eru eins báðu megin. (Fóðringarnar á A-arminn eru nr. 805622 og eru 4 stk í bílnum - þær færðu hjá N1. Kýldu gömlu kúlurnar niður úr eftir hitun á kraganum sem heldur kúlunni í arminum. Gatið á arminum þarf að víkka svolítið með öflugri kúptri þjöl þannig að nýrri kúlu megi þrýsta í það alla leið að brjósti. Merkir síðan, kjörnar og borar 2 göt á hvorn arm fyrir boltana. Festileggurinn á að vera neðan á A-arminum. Sá munur er að þolinmóður nýju spindilkúlunnar er 2-3 mm styttri fyrir ofan raufina fyrir lárétta festiboltann í hjólstoðinni. Þessi aðferð sparar rúmlega 100 þús. kr.

Toyota Yaris spindilkúlur (sparnaður um 80 þús. kr.)
Sama gildir um Toyota Yaris. Umboðið selur einungis armana með kúlunum í og kosta þeir (nú í jan. 2010) 44 þús. kr. stykkið. Þú getur leyft þeim að eiga armana - kaupir bara spindilkúlurnar hjá Kistufelli á Tangarhöfðanum á 4.122.- kr. stykkið og sparar þér tæpar 80 þús. kr. (Notar sömu aðsferð og við Renault Scenic).

Innri stýrisendi í LandCruiser (Sparnaður um 25 þús. kr.)
Innri stýrisendar slitna meir aí Toyota LandCruiser en þeir ytri. Hjá umboðinu kostar innri endinn kr. 30.455.- nú í jan. 2010. Þú færða þennan stýrisenda hjá Kistufelli á Tangarhöfðanum á kr. 4.824.- og sparar þér 25 þús. kr.

Framgormar í Peugeot 306 (Sparnaður um 115 þús. kr.)
Framgormar í Peugeot 306 hrökkva unnvörpum. Umboðið er það dýrasta á landinu samkvæmt öllum verðkönnunum sem tímaritið Bíllinn (og FÍB) gerðu á sínum tíma - það er helst að Brimborg gæti slegið Bernharð út. Bernharð selur gormana í Peugeot á 60 þús. kr. stykkið. Þú getur fengið betri gorma hjá Kistufelli á Tangarhöfða á kr. um 12.500 kr. stykkið.

Nú munar um hvern þúsundkall
Rúðuþurrkublöð, sem passa á margar gerðir bíla, hafa verið seld á 699 kr. settið hjá Heildsölulagernum í Njarðvík (á fyrstu hæð Netagerðarinnar gegnt Samkaupum). Þar færðu einnig H4-perur í aðalljós (Zenon) sem lýsa 50% meira, tvær í pakka á 990 krónur og alls konar dót á fínu verði. Ferðin í Njarðvík getur því gert meira en að borga sig með krakkana (KFC-kjúklingastaðurinn er handan götunnar - og alltaf nóg pláss í leiktækjunum). Ath. Heildsölulagerinn er einungis opinn nokkrar vikur á ári og er núna lokaður (15. apríl). Þessar sömu vörur hafa fengist í Europris.

Smurolía sem ekki brennur
Spurt: Mér er sagt að þegar vél er farin að brenna smurolíu vegna slits megi draga úr brennslunni með sérstakri smurolíu. Að hvaða leyti er sú smurolía frábrugðin - hvaða tæknilegir eiginleikar einkenna svoleiðis smurolíu?

Svar: Engin smurolía getur eytt sliti í stimpilhringjum/sílindrum eða þéttingum á leggjum sogventla. Hins vegar eru sumar vélar þannig úr garði gerðar að þær geta brennt smurolíu, sé hún ekki af réttri gerð, þótt vélarnar séu í fullkomnu lagi. Vélar eiga það sameiginlegt að ganga heitari nú en fyrir t.d. 20 árum. Smurolía, sem unnin er úr jarðolíu, inniheldur sameindir (mólekúl) af mismunandi stærð. Hún þolir takmarkaðan hita því minnstu sameindirnar gufa fyrst upp auk þess sem ýmis eiginleikaefni byrja að strax að eyðast. Hitinn veldur því að efnaeimur af olíunni gufar upp, brennur og mynda reyk; olían missir eiginleika (þykknar) og magnið mælist minna. Sé notuð smurolía unnin úr jarðolíu á nýlegri vélar þarf að endurnýja hana oft. Uppgufun og brennsla við hitun er því meiri sem blossamark (flash point) olíunnar (mælt í gráðum) er lægra. Hafi vél tilhneigingu til að brenna smurolíu skal nota á hana smurolíu með háu blossamarki, helst ekki lægra en 200 °C (um 400 °F). Syntetísk smurolía er unnin úr fjöleindum (eins og plast). Grundvallarmunur er sá að sameindir olíunnar eru af sömu stærð. Hún þolir því betur hita án þess að uppgufun og niðurbrot hefjist. Syntetísk smurolía með hátt blossamark brennur síður en jarðefna-smurolía (mineral) með sama blossamark. NOACK-uppgufun er algengur mælikvarði á smurolíu fyrir dísilvélar en þá er uppgufunin mæld við ákveðnar aðstæður í %. Yfirleitt er ekki mælt með meiri uppgufun en 17% NOACK.

Eyðsla nýrra bíla
Ábending: Mörgum hefur gengið erfiðlega að ná þeirri sparneytni sem framleiðandi nýs bíls gefur upp sem ES-meðaltal. Ástæðan getur verið sú að framleiðendur beita alls konar brögðum við mælingar á eyðslu samkvæmt ES-reglunum sem þykja heldur götóttar. Öll raftæki bíls eru aftengd, jafnvel alternatorinn. þrýstingur í dekkjum er hafður 50 psi og þess eru dæmi að útispeglar hafi verið skrúfaðir af bílunum til að ná hagstæðari mælingu!

169
Meira um vélarhitara: Í síðasta pistli fjallaði ég um vélarhitara. Þess skal getið að Bílsmiðurinn ehf. (bilasmidurinn.is) í Reykjavík hefur um áratugaskeið selt Webasko-olíumiðstöðvar og Defa-hitara auk þess að annast þjónustu fyrir þessi tæki.

,,g-krafturinn"
Spurt: Ég var að lesa niðurstöður prófunar á BMW í erlendu tímariti. Þar eru gefnar upp tölur yfir ,,g-force", bæði jákvæðar og neikvæðar. Hvaða mæling er það þegar bíll á í hlut?

Svar: ,,g-force" er málvenja í ensku sem getur verið villandi. Ekki er um kraft að ræða heldur hröðun (í m/s2 en g samsvarar meðalþyngdarafli jarðar sem er 9,8 m/s2.) Sumir prófarar skreyta sig með þessu en flestir mæla hröðun, þ.e. viðbragð, í fjölda sekúndna sem tekur bíl að ná 100 km/klst. Með neikvæðri tölu fyrir ,,g-force" í sömu stefnu og lengdarás bíls er þá átt við hemlun. Flestir nota einfaldlega þá vegalengd í metrum sem þarf til að stöðva bíl á ákveðnum hraða. Flóttaafl, sem verkar á bíl til hliðar í beygju, má mæla með rafeindapendúl og er þá neikvæð g-tala í vinstri beygju en jákvæð í hægri. N/kg (fyrir þyngdarstuðul í stað hröðunar) er hentugri mælikvarði. Þegar talað er um neikvæða g-tölu flugvélar er átt við hröðun upp á við; 9,8 m/s2 þegar hún stendur á jörðunni, 0 þegar hún flýgur lárétt og minnkar þegar hún klifrar.

Amerískt kerrutengi
Spurt: Getur þú sagt mér hvernig ég á að tengja þokuljós í kerrutengi á Grand Cherokee til að geta kveikt svokallað þokuljós á kerru/húsvagni?

Svar: Sértu með staðlaðan 7 pinna kerrutengil á þokuljósið að fá straum um bláu leiðsluna - tengi 54g. (IB á Selfossi hefur selt millistykki fyrir amerísk kerrutengi).

Bón er ekki sama og ,,bón"
Spurt: Á að nota tjöruleysi í hvert skipti sem bíll er þveginn að vetri til?

Svar: (Í grófum dráttum). Sé lakkið óskemmt, þrifið og bónað/varið á réttan hátt á ekki að þurfa sérstakan tjöruþvott nema einu sinni á ári. Gæði tjöruleysiefna eru mismunandi. Jafnvel þótt þau lélegustu losi ekki alla tjöruna eyða þau varnarhjúpi af lakkinu sem þarf að endurnýja. Annars byrjar tjara strax að festast aftur á lakkinu. Eftir tjöruþvott, og áður en bíll er bónaður, þarf að fjarlægja aðskotaefni sem tjöruleysir ræður ekki við, - örður sem standa fastar í lakkinu og finna má fyrir sé strokið yfir flöt með fingri. Til þess er notaður sérstakur leirkubbur (nefnist ,,Quick clay" hjá Málningarvörum, ,,Ice Clay kit" hjá verslunum N1 og á mörgum bensínstöðvum). Sé lakkflötur stækkaður í smásjá sést að hann er ekki sléttur. Bón veldur sömu áhrifum og ísing á malbiki; fyllir upp hrufur og gerir lakkið hált og gljáandi þannig að óhreinindi og vatn tolla ekki á því. Nauðsynlegt er að þekkja mismun ólíkra gerða bóns: Hreinsi- og slípibón gefa slitnu (möttu) lakki gljáa. Tveir styrkleikar eru algengastir eftir því hve öflugt slípi-og leysiefnið er: Lakkhreinsir (,,Top cut") og hreinsi- og slípibón (,,Cleaning wax" eða ,,Car polish"). Allt bón með ,,Polish" í vöruheitinu inniheldur slípiefni og ætti ekki að nota á nýlegt lakk nema sérstök ástæða sé til (algengt er að ekki sé gerður greinarmunur á ,,Polish wax" og ,,Hard wax", þ.e. á slípibóni og gljábóni). Sérstakt skerpiefni (,,Detailer"), er notað á eftir tjöruþvotti/leirhreinsun eða hreinsibónun, ýmist á undan eða eftir gljábónun (leiðarvísir), til að skerpa lit eða dýpka gljáa glæru. Glábónun myndar nauðsynlegu varnarhúðina. Sem dæmi um gljábón er ,,Hard Wax" frá Sonax, ,,Super Hard Shell" frá Turtle Wax, ,,Tech Wax 2.0" frá Meguiar's o.fl. (Meguiar's er borið fram sem MAGVÆERS sjá malningarvorur.is)

168
Vísbendingar um ástand smurolíu
Spurt: Er einhver einföld leið til að kanna hvort smurolía sé rakamettuð, t.d. af frostlegi, sjáist það ekki á gráum lit olíunnar?

Svar: Það er hægt að fá það mælt á rannsóknastofu (Fjölver ehf. annast t.d. greiningu á olíu og glussa fyrir skip og vinnutæki). Einföld aðferð sem ég hef notað er að ,,steikja" smurolíuna á pönnu. Hitni hún að suðumarki án þess að krauma með smellum og frussi er hún laus við vatn.
Í framhaldi af þessu nefni ég nokkrar einfaldar aðferðir sem gefa vísbendingu um ástand smurolíu: Sé sæmilegur dropi af heitri smurolíu látinn falla á matt pappaspjald og það látið liggja lárétt í um 10 mín gefur útlit blettsins eftirfarandi vísbendingar:
- Sé bletturinn jafnlitur, með eða án guls jaðars, má ætla að smurolían sé í góðu standi og ekki ástæða til að endurnýja hana.
- Sé bletturinn hins vegar áberandi dekkri næst miðjunni er það vísbending um að endurnýjunar sé þörf.
- Sé áberandi dökkur klístraður hringur í blettinum gæti frostlögur verið saman við olíuna og ástæða til að endurnýja hana sem fyrst.
- Sé bletturinn áberandi jafn dökkur með skörpum jaðri bendir það til alvarlegrar súrnunar, þ.e. ónýt olía sem ætti að endurnýja sem fyrst.
- Sé miðja blettsins dökk og ljósari hringir út frá henni er það vísbending um að smurolían sé blönduð eldsneyti að einhverju leyti. Það þarf ekki að vera alvarlegt mál nema kvarðinn sýni jafnframt að magn hafi aukist - þá er vissara að láta kanna málið strax.
Um vélarhitara
Spurt: Ég er með stóran dísiljeppa. Hvort er hagkvæmara að nota rafhitald í vatnshosu eða í vélarblokk (frosttappagat) eða aukamiðstöð knúna dísilolíu til að geta gangsett vélina heita að vetri til?

Svar: Báðar lausnirnar eru hagkvæmar en svo ólíkar að þær verða ekki bornar saman að neinu viti. Sem dæmi má nefna að erfitt er að meta hagkvæmni þæginda á borð við upphitaðan bíl að morgni. Sem dæmi er talið að hluta alvarlegrar bakveiki megi rekja til kaldra bílstóla. Annars vegar er rafhitald, tengt húslögn, sem heldur kælivatni vélar heitu yfir nótt og er með sjálfvirkan rofa sem slær út og inn við ákveðið hitastig. Rafhitald, t.d. Defa-hosuhitari, sem N1 hefur selt og sett í bíla, er ódýr lausn en háð því að 220V raforka sé til staðar.
Hins vegar er sjálfstæð miðstöð sem hitar kælivökva og innra rými bíls eða báts með brennslu dísilolíu eða steinolíu. Uppkveikju hennar og hitun má forrita og/eða fjarstýra. Olíumiðstöðin, t.d. þýska Eberspächer, sem Ásafl ehf selur og setur upp í bíla, báta, sumarhús o.fl. (www.asafl.is) er dýrari lausn enda flóknara og fullkomnara tæki sem virkar hvar sem er. Sama gildir um olíumiðstöðvar af öðrum tegundum (Bílasmiðurinn (Webasto), Bílabúð Benna o.fl.).
Báðir hitararnir gera kleift að gangsetja vél heita í kulda. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 80% slits á líftíma dísilvélar verður vegna gangsetningar við lágt hitastig (-5°C og lægra). Vélar eyða hlutfallslega mestu og menga mest þegar þær eru gangsettar kaldar og á upphitunartíma. Sé bensín- eða dísilvél haldið heitri í kulda sparast eldsneyti auk þess sem loftmengun minnkar mælanlega.

Ábending: Rúmtak lofts minnkar við kólnun. Í frosti mælist því lægri þrýstingur í dekkjum en þegar hlýtt er í veðri. Ekki er ástæða til að auka þrýstinginn af þessum sökum mælist hann jafn í báðum dekkjum á sama burðarási.

 Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu