Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 31
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndatextar í Mbl. er samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án punkta, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

167
Blikkandi handbremsuljós
Spurt: Bremsan á jepplingi hoppar við ástig auk þess sem marrar og ískrar í bremsunum þegar þeim er beitt. Handbremsan virkar varla og rauða handbremsuljósið á það til að blikka í akstri. Hvað er á seyði?

Svar: Blikki handbremsuljós vantar vökva á bremsukerfið og komið að endurnýjun bremsuklossa. Eftir því sem klossar þynnast ganga stimplar lengra út úr dælum og vökvaborð lækkar í forðabúrinu. Tæring vegna saltraka/óhreininda í útgengnum stimplum getur valdið því að þeir skekkist í dælunum og festast. Stundum má rétta/losa stimplana, þar til eðlileg viðgerð fer fram, með því að beita bremsunum hart um leið og bíl er bakkað. Sama gildir um handbremsu; sé bakkað og rykkt í hana nokkrum sinnum um leið. Ath. Handbremsa slitnar ekki af notkun. Hún eyðileggst af notkunarleysi sem veldur dýrum viðgerðum.

Subaru Legacy, gangtruflun
Spurt: Ég er í basli með Subaru '99 station (sjálfskiptan). Dæmi: Ég keyri frá Rvk. til Leifsstöðvar. Bíllinn fer að nötra á 90 og hættir því ekki fyrr en í 60 km/klst. Snúningsmælirinn hagar sér undarlega. Ég eyk hraðann skömmu seinna og þá virðist allt í lagi um stund þar til þetta endurtekur sig. Svo þegar komið er á jafnsléttu verður bíllinn aftur eðlilegur. Þegar ég ætla aftur af stað eftir klst. töf fer vélin ekki í gang. Höktir bara. Ég reyni aftur skömmu seinna og þá fer vélin í gang. Þori ekki að nota bílinn svona. Hann titrar líka í stýri og leitar til vinstri við inngjöf. Hvað gæti þetta verið? Hvaða verkstæði er með hóflegt verð?

Svar: Gangtruflunin og aflleysið þyrfti ekki að stafa af öðru en stíflaðri bensínsíu ef ekki væru tiktúrur í snúningsmælinum sem benda til bilunar í neistakerfi (háspennukefli/kertaþræðir/kerti). Titringurinn er óskylt mál, líklegast vegna ójafnvægðra framhjóla og slits í stýrisenda. Slitið veldur því jafnframt að framhjólin eru of útskeif en þá leitar bíllinn till hliðar við inngjöf. Þrýstingur í dekkjum á að vera 30-32 psi. Bendi þér á Bílhaga ehf. á Ártúnshöfða.

Ford Mondeo, vélarolía
Spurt: Er með Ford Mondeo TDCi 2006 árg. Á blaði frá umboðinu segir að nota skuli 5w-40 smurolíu. Það virðist samt fara eftir smurstöðvum hvað sett er á hann. Tvisvar hefur verið sett á hann 5w-30 en núna síðast 5w-40. Skiptir þetta máli?
Svar: Á þessa 2,2 lítra 4 sílindra Ford túrbódísilvél á að nota syntetíska smurolíu með seigjusvið 5w-30. Magnið (með síu) er 6,23 lítrar. Með um 20 þús. km. millibili kveikir vélkerfið gaumljós til að minna á endurnýjun smurolíu Sé gæðaflokkun sú sama er munurinn á 5w-30 og 5w-40 sá að sú síðarnefnda hefur 10°C víðara seigjusvið, þ.e. hún er þykkari og þolir að hitna meira án þess að rennslishraði breytist; hún inniheldur meira af fjölþykktarefnum (seigjubætum) sem stytta virkan líftíma olíunnar. Með hliðsjón af hitafari hérlendis er 5w-30 betri kostur.

Ábending: Bíleigendur og bílvirkjar, sem hafa áhuga á nýjungum, ættu að skoða vefsíðuna www.car.is

Pajero 1997 (stuttur), snuðar í 4H
Spurt:
Ég er með Pajero sem hagar sér þannig að ef hann er í afturhjóladrifi heyrist hávaði í einhverju í framdrifinu en annars virkar bíllin vel. Ef hann er settur í framdrif þá snuðar hann í átaki, getur það verið í SuperSelect- búnaður millikassa sem veldur þessu? Hef skipt um millikassann án þess að það breytti neinu. Ef ég læsi millikassanum á milli fram og afturdrifs þá hverfur hávaðinn og ekki ber á neinu, sama er ef ég set hann í lágadrifið. Hvað er að?


Svar: Eins og þú lýsir þessu dettur manni fyrst í hug aflmilunin í millikassanum (diskakúplingin milli fram- og afturdrifs). En fjandakornið - ekki geturðu hafa verið svo óheppinn að hafa fengið annan millikassa með nákvæmlega sömu biluninni? Niðurstaða: Eftir talsverðar pælingar og kom í ljós að rillurnar á öðrum framöxlinum í hjólnöfinni voru ónýtar og öxullinn snuðaði í rillunum. Hvers vegna ekkert heyrðist í þessu við læsinguna eða lága drifið er mér enn hulin ráðgáta - en svona reyndist þetta nú samt vera.

Mercedes-Benz , ,,stundum vondur í gang"
Spurt: Er með Benz 260 '91 og vandamálið sem er að hrjá mig er að stundum kveiknar ABS ljósið og þá er hann vondur í gang og gengur ekki eðlilega en ef það svo fer eftir smá stund þá tekur snúningurinn við sér og allt er eðlileg. Kvikni ABS-ljósið ekki strax er allt eðlilegt. Ég hef ekki fundið meinið en mér hefur verið sagt að relay sem eru á bak við rafgeymi kunni að vera orsökin. Nú síðustu tvo daga var hann mjög erfiður í gang (kalt). Þessi bíll er ekinn rétt um 200 þ km og hefur verið eins og klukka í minni eigu. Þar sem ég veit að þú þekkir til í svona málum langar mig að biðja þig um hjálp.

Svar: Þetta eru erfiðustu bilanir að eiga við og getur tekið ótrúlegan tíma að finna þær, sérstaklega spili tvær eða fleiri saman.
Það eru margar straumlokur (relay) í þessum bílum. Ein þeirra, sem er jafnframt sjálfvirkur útsláttarrofi, nefnist OVP (Over Voltage Protection) og er aftan við rafgeyminn. Hún er þekkt fyrir að valda alls konar draugagangi, m.a. að kveikja ABS-ljósið og valda gangsetningarerfiðleikum (óreglulega - virðist stundum ráðast af hitastigi). Yfirleitt eru það lóðningar og díóður sem bila í henni og hafa rafeindavirkjar getað lóðað þetta upp og gert við. Slakar rafhlöður í fjarstýringunni geta valdið alls konar draugagangi (þjófavörnin). Benzarnir fyrir bandaríska markaðinn eru búnir tvenns konar bilanagreiningarkerfi frá því um 1985, annars vegar er vélarljós og tengill fyrir kóðalestur en hins vegar tengill fyrir lestur blikkljós-kóða.
Léleg geymasambönd, sérstaklega jarðtengingin frá geyminum í stellið getur gert menn gráhærða á skömmum tíma. Öryggjaboxin í þetta gömlum bílum eru sígild uppspretta dularfullra uppátækja. Sambandleysi getur verið á bensíndælunum - en þær eru, muni ég rétt, tvær og undir plasthlíf framan við hægra afturhjólið ( straumlokan fyrir bensíndæluna er innan við hliðarspjaldið undir mælaborðinu bílstjóramegin. Ég myndi byrja að skoða OVP-eininguna.

M-Benz 300 4Matic 1989, aldrif virkar ekki
Spurt: Á gamlan (1989) MB 4matic. Nú er svo komið að sjálfvirka aldrifið virkar ekki. Vandamálið hófst þannig, að drifmerkið fór að koma í tíma og ótíma sl. haust þó engin hálka væri. Prófaði að smella prófunar- sveifinni í vélarrúminu til og frá en það skipti engu máli. Síðan hætti hann alveg að fara í drifið (4Matic). Hvað er til ráða?
Svo er annað; lét skipta um samkvæmt ráði skoðunarmanns alla bremsuklossa. Eftir það kviknar alltaf fljótlega ljósið sem sýnir að eitthvað sé að bremsunum. Einnig virkar ABS-kerfið ekki eftir þessa klossaskiptingu. Á viðkomandi verkstæði er mér sagt vandamálið með drifið og klossaskipti tengist ekkert. Svo aftur; hvað er til ráða?

Svar: Sértu með handvirku sveifina er þetta 4Matic, þ.e. fyrsta kynslóðin (W124). Þetta fjórhjóladrifskerfi er miklu flóknara en þau sem komu upp úr 1991, m.a. er það með millidrifi (kassa) sem inniheldur m.a. 2 læsanlegar kúplingar, sem vinna óháð hver annarri, og mismunardrifslæsingu í afturdrifi. Þetta 4Matic-kerfi á alltaf að virka þegar tekið er af stað en er síðan í afturhjóladrifinu nema þegar ljósið blikkar, sem segir að það sé að virka. Sérstök tölva stýrir drifmátanum eftir 4 mismunandi forritum. Breyturnar (boðin), sem tölvan notar, koma frá ABS-hjólnemunum og stöðuskynjara við stýrisstöngina. Áður en því er slegið föstu að um bilun sé að ræða í aldrifskerfinu er ástæða til að yfirfara bremsurnar aftur. Af einhverjum ástæðum getur hafa komist loft inn í kerfið fyrir eða við klossaskiptin. Sérstaka þekkingu þarf til að lofta ABS-kerfi í Benz. Loftun tekst ekki fullkomlega nema ABS-sé látið virka, annað hvort með gangsetningu ABS-dælu með straumi beint frá geymi eða með því að fá það til að virka á malarvegi og lofta síðan hvert hjól nokkrum sinnum og fyrst þau hjól sem lengst eru frá höfuðdælunni. Bremsu-gaumljósið lýsir líklega vegna þess að enn er loft í ABS-lokunum og sé ABS-kerfið óvirkt er 4Matic-kerfið jafnframt óvirkt. (Athuga þarf ABS-nema, leiðslur og óhreinindi í tannhringjum). Ath. Einungis ABS-kerfið á framhjólunum hefur áhrif á 4Matic-kerfið.

166
Öxulpakkdós í Mazda Tribute
Spurt: Er með nýlegan Mazda Tribute sem er fluttur inn frá USA. Við 16 þús. km. þjónustu á smurstöð kom í ljós að öxulpakkdós á gírkassa fyrir hægra framhjólið smitar og það þarfnast endurnýjunar. Pakkdósin fæst ekki hér og virðist vera djúpt á henni í USA. Tribute mun vera sami bíll og Ford Escape og því spyr ég hvort nota mætti pakkdós fyrir Escape?

Svar: Þessi pakkdós (Drive Axle Seal) fæst hjá
http://www.autoanything.com/suv/mazda/tribute/95A4A26A428.aspx
Treystir þú þér ekki til að kaupa hana sjálf geturðu fengið IB ehf. á Selfossi (Gunnar) til að panta hana fyrir þig. Þú þarft að hafa til reiðu upplýsingar um vélarstærð og hvort bíllinn sé handskiptur eða sjálfskiptur. Pantirðu hlutinn sjálf er öruggast að gefa jafnframt upp framleiðslunúmer bílsins (VIN) - þú sérð það m.a. í skráningarskírteininu. Hjá IB nægir skráningarnúmer bílsins. Hjá Fálkanum er mest úrval pakkdósa. Þeir gætu átt þessa pakkdós í Ford Escape og séð í sínum listum hvort hún passar í Mazda Tribute með sama gírbúnaði.

Pajero sem ofhitnar undir álagi
Spurt: Pajero 2,8 tdi '99 til að yfirhitna undir álagi t.s. við drátt. Miðstöðin hitaði illa og skánaði ekkert þótt hreinsiefni væri sett á kerfið. Hins vegar lagaðist hún við að spúla hitaldið með heitu vatni (talsverð óhreinindi komu út). En nú er það ofhitnun. Nýr vatnslás breytti engu. Hvað getur valdið? Þá hættu drifljósin að virka. Hvar fær maður viðgerðarbók fyrir svona bíl? Hurðarofinn á annarri framhurðinni virkar ekki nema á rauða hurðarljósið í karminum en hvorki á hurðaljósið í mælaborðinu né inniljósið?

Svar: Af lýsingu þinni af ferlinu virðist nánast borðleggjandi að kælikerfið sé stíflað og að það séu tepptar pípur í vatnskassanum sem valda yfirhitnuninni. Það gildir um allar vélar með hedd úr áli, og alveg sérstaklega dísilvélar, að kælivökvann á að endurnýja reglulega með útskolun á 3ja ára fresti. Ástæðan er sú að glýkól oxast (súrnar) og tærir þá ál (heddið), m.a. með útfellingum. Afleiðingin er oftast sú að pakkningarflötur heddsins tærist og heddpakkningin byrjar að leka. Sé notaður kælivökvi án tæringarvarnar geta myndast efnisagnir sem falla út og stífla vatnskassa og hitald miðstöðvar. Þú þarft greinilega að endurnýja vatnskassann. Grettir á Vagnshöfða hefur átt vatnskassa í Pajero á hagstæðu verði. Drifljósin hafa horfið vegna þess að leiðsla frá stöðurofanum við valstöngina eða í millikassanum hefur rofnað, rofinn sjálfur ónýtur (gæti hafa brennt öryggi).
Bókabúð Steinars hefur átt viðgerðarhandbók á ensku frá HAYNES, m.a. yfir Pajero. Ein af rafleiðslunum frá rofanum í hurðarstafnum hefur rofnað .

,,Steindauður" Galant
Spurt: Ég er með MMC Galant 2.0 GLSi '93 sem ,,dó" á ferð og fer ekki í gang aftur. Vélin tekur ekki við sér í starti. Hún fær bensín.Er eitthvað sem þér dettur í hug sem gæti verið að ?

Svar: Úr því hann fær bensín ætti að athuga hvort neisti komi á kertin. Sé enginn neisti veldur því kveikjumódúll, háspennukefli eða kveikjulok/hamar. Sé neisti merkjanlegur getur hann verið á röngum tíma vegna ónýts toppstöðunema (Crank sensor). Skoðaðu kertin. Svört og sótug kerti benda til neistavandamáls.

ABS-misskilningur
Lýsi ABS-ljósið í mælaborðinu er það viðvörun um að læsivörn á bremsunum sé óvirk af einhverjum ástæðum. Margir virðast halda að bíll með stöðugt lýsandi ABS-ljós fái athugasemd við árlega skoðun, jafnvel grænan miða. En svo á ekki að vera. Ljósið er viðvörun um að ABS-kerfið sé óvirkt og það nægir. Ekki er skylda að hafa ABS-læsivörn í bílum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ABS er talinn mikilvægur öryggisbúnaður. Sumir hafa einfaldlega ekki efni á þessu öryggi og það er þeirra mál.
Sé ABS-búnaðurinn óvirkur þegar kemur að skoðun og bíllinn með skálabremsur að aftan getur verið vissara að prófa bremsurnar áður, t.d. á malarvegi. ABS-kerfið jafnar sjálfvirkt bremsuátak og sé það óvirkt geta skálabremsur að aftan tekið ójafnt. Þá þarf að stilla þær með útíherslu. (Lýsi handbremsuljósið stöðugt án þess að handbremsan sé virk er það merki um að vökva vanti á kerfið - oftast vegna slitinna klossa).

165
Háþrýstiþvottur er varasamur
Reynslan sýnir að hreinsun vélarrúms með háþrýstiþvotti getur valdið ótrúlega dýrum skemmdum á tölvubúnaði bíla. Sé nauðsynlegt að þrífa vélarrúm þarf sá sem vinnur verkið að hafa sérþekkingu á tæknibúnaði viðkomandi bíls og kunna að verja hann. Vélarþvottur með háþrýstitækjum er oftar spellvirki en þrifnaður.

Rafmagnsvandamál í VW Polo
Spurt: Ég er í vandræðum með VW Polo 1,4 árg. 2000 ekinn 130.000 km. Í akstri byrja ljósin í mælaborðinu fyrir ,,Airbag" og síðan ,,ABS" að lýsa (en ekki hleðsluljósið ). Skömmu seinna dregur niður í öllu sem gengur fyrir rafmagni svo sem ljósum, þurrkum, útvarpi og jafnvel hefur drepist á vélinni. Stundum gerist þetta í hvert sinn sem bíllinn er notaður en svo geta liðið nokkrar vikur sem allt er í lagi. Ekki skiptir máli þó rafgeymirinn sé nýhlaðinn. Eitt skiptið þegar drepist hafði á vélinni og ég kom seinna um daginn með annan bíl og ætlaði að starta með köplum þá fór vélin í gang eins og ekkert væri að. Ég er búinn að finna Það út að sé gefið nokkuð rösklega inn þegar gaumljósin kvikna getur allt hrokkið í lag um stund. Búið er að endurnýja geymi og svissbotn en án árangurs. Maður á verkstæði benti mér á að rafleiðslukerfið (lúmmið) gæti þurft að endurnýja en mér lýst ekki á það vegna gruns um óhóflegan kostnað.
Svar: Áður en þú kostar meiru til skaltu fara með bílinn í Rafstillingu (á horni Súðarvogs og Dugguvogs) og fá hleðslukerfið álagsmælt. Lýsingin getur átt við þekkta bilun í þessum bílum sem er útleiðsla í stýrileiðslum fyrir alternatorinn. Þær liggja í röri undir vélinni. Smurolía sem kemst inn í rörið getur leyst upp einangrunina og afleiðingin verður útleiðsla af og til. Þeir hjá Rafstillingu þekkja þessa bilun.

Stíf gírskipting í VW Golf
Spurt: Ég hef verið í vandræðum með VW Golf, árg. 1998 1.6 8v. Handskiptingin er mjög stíf og hefur verið að þyngjast. Þó fylgja engin aukahljóð gírskiptum. Kúplingin er farin að taka nokkuð ofarlega og gæti því átt einhvern hlut að máli. Er þetta vandamál sem þú kannast við í þessum bílum? Á hvaða verkstæði ætti ég að fara með svona vandamál?

Svar: Gírkassar hafa lengi verið veikur punktur í VW. En vonandi er þetta ekki svo alvarlegt. Ofan á gírkassanum er skiptibúnaður. Prófaðu að hreinsa hann með tjöruleysi og úða á hann VD-40 og síðan smurolíu samtímis því að aðstoðarmaður hreyfi gírstöngina. Sértu heppinn liðkast gírskiptingin. Stirðleikinn getur verið vegna þess að tengiliður frá gírstönginni í gírkassann hefur ekki verið smurður. Farðu með bílinn á betri smurstöð en þá hjá Heklu (t.d. Klöpp eða Olís í Sætúni 4) - þeir smyrja þessa liði fyrir þig þannig að skiptingin verður liðug á ný.
Settu ekki sleipiefni (Slick 50, Militec eða þ.u.l.) saman við gírolíuna - með því verða bremsuhjólin (synkronið) óvirk og gírskipti enn erfiðari. Bílvogur í Kópavogi er sérhæft í VW-viðgerðum. Kannaðu verð á kúplingarsetti hjá Stillingu, Poulsen, Fálkanum, AB-varahlutum og N1.

Öruggasta ryðvörnin
Vegna vandaðrar ryðvarnar á framleiðslustigi ryðga bílar ekki lengur innanfrá. Sé áberandi ryðgaður bíll skoðaður sést að oftast hefur ryðtæringin hafist með lakkskemmdum, þ.e. utanfrá. Jafnframt sést að lakkskemmdir byrja oftast á sílsum, neðst á brettaköntum og á láréttum hluta brettakanta, kringum framrúðu og á afturhlera á bílum með lóðréttan bakhluta. Öruggasta ryðvörnin er að halda lakki bíls hreinu og bóna sérstaklega vel þessa ákveðnu staði.
Margir hafa spurt hvar kanadísku Meguyar's-bílasnyrtivörurnar fáist (borið fram sem Meg-væers). Þær fást hjá Málningarvörum ehf. í Lágmúla.(www.malningarvorur.is)

164
20 tommu dekk fyrir USA-Ford

Þrátt fyrir eftirspurn hefur reynst erfitt að fá dekk fyrir 20" felgur - sérstaklega sams konar dekk og amerísku Ford-jepparnir og pallbílarnir koma á nýir. Nú hefur IB á Selfossi (s. 480 8080) leyst vandamálið og býður þessi dekk beint frá Bandaríkjunum. Verð er hagstætt.

Toyota LandCruiser 1988 sem hnökrar og höktir
Spurt: Ég ek 1988 árgerð af Toyota Landcruiser með 12-HT vélinni og breyttum fyrir 38"dekk. Það er að velflestu leyti fínasti bíll og sá hagkvæmasti jeppi sem ég hef átt, meðal eyðsla hjá mér er um 12 lítrar/100 á 38" dekkjum, eitt pirrar mig samt svolítið við hann og ég hef heyrt að minn bíll sé síður en svo einsdæmi. Málið er að mótorinn á það til að hökta á hægum snúning og stundum nokkuð mikið. Þetta hökt versnar bara ef maður gefur inn, best er að stíga á kúplinguna og sleppa henni rólega aftur og þá hættir þetta. Ef maður er í fyrsta gír þegar þetta gerist geta þá hreinlega heggur bíllinn sig áfram. Þetta er hálf leiðinlegt því vélin er lágsnúningsvél, túrbína kemur inn við 1000 - 1100 snúninga og vinnur best frá 1200 - 2200 snúninga. Í bílnum er ný kúpling og nýuppgerður gírkassi ásamt afturdrifi þannig að drifrásin ætti að vera í nokkuð góðu lagi. Á afturhásingunni er sk. 3-link svipað og í Range Rover og virðast allar fóðringar vera í góðu lagi. Þá er fyrsta hugdetta hjá mér lélegir mótorpúðar, en við skoðun og hreyfingu með kúbeini virðast þeir vera stífir og góðir. Gírkassapúðarnir voru endurnýjaðir þegar gírkassinn var tekinn upp. Fyrir nokkrum árum átti kunnungi minn svona bíl með sama vandamáli. Hann sagði mér eftir einhverjum sem hann þekkti að þetta hefði verið lagað í einhverjum bílum með því að skipta um olíugjöfina þe. pedalann og vírinn, og sett úr eldri árgerð af bíl. Ég held þetta samt einhverja draugasögu því ekki er annað að sjá en að þessir hlutir séu eins í eldri bílunum og mínum. Kannast þú eitthvað við þetta vesen úr þessum bílum eða kannt þú einhver ráð til að laga þetta. Ég hef reyndar komið mér upp þannig keyrslulagi að þetta er frekar sjaldgæft en kemur samt alltaf við og við.

Svar: Þessum hnökrum valda inngjafir. Í þínu tilfelli eru þær sennilegast af völdum spennu í bílnum. Bílar, ekki síst jeppar, þurfa að vera sveigjanlegir, vélin hreyfist á gúmmípúðum, grindin bregst við ýmsu álagi með því svigna og vindast. Þegar of mikil spenna er á sambandinu á milli inngjafarpedala og inngjafargaffalsins á olíuverkinu valda þessar eðlilegu hreyfingar vélar, yfir- og undirvagns, örlitlum inngjöfum. Sjálfvirku inngjafirnar eru ,,spastískar" og valda því hnökrum. Barki er á milli inngjafarpedals og olíuverks. Hann er stillanlegur. Lengdu í honum. Einungis 2 mm geta nægt því of mikill slaki getur valdið nýjum vandamálum.

EFTIRMÁL (frá bíleiganda): Ég lengdi í barkanum (varla einu sinni 2mm) og málið er leyst; höktið er hætt. Á þessum 5 árum sem ég hef átt bílinn hef ég farið með hann til ýmissa sérfræðinga, bæði menntaðra og sjálfsskipaðra og fleiri en eina ferð í umboðið en það eina sem komið hefur út úr því er að gera upp olíuverkið. Verðmiðinn á því hefur hinsvegar verið það hár að ég hef ekki gert það - sem betur fer! Eftir að hafa séð hvað þetta var einfalt set ég svolítið spurningamerki við tækniþjónustuna hjá Toyota, finnst að þeir ættu að vita þetta. Takk fyrir mig.

Misheppnuð bremsuviðgerð
Spurt: Ég var a skipta um bremsuklossa í Toyota Corolla Touring sem ég á. Ekki mikið mál í þessum bíl. Vandamálið er að öðru megin þá ofhitnar bremsudiskurinn eftir að ég skipti um klossana. Það kom neistflug frá hjólinu og þegar ég stoppaði var diskurinn rauðglóandi. Ég tók allt í sundur og skoðaði en gat ekki séð neitt athugavert. Setti allt saman aftur og áfram hélt neistaflugið þegar ég fór yfir 40 km/klst. Getur þetta lagast við akstur eða getur þú sagt mér hvað valdi þessu?

Svar: Á þessum Toyota er brjóst eða stallur á hjólnöfinni til að diskurinn sitji rétt. Þennan stall þarf að þrífa og einnig gatið á diskinum. Á þessum bíl eru felguboltar en ekki lausar rær. Sitji diskurinn ekki rétt á nöfinni og sé hertur þannig skýrir það væntanlega neistaflugið. Mikilvægt er að snúa hjóli samtímis herslu felgubolta sem jafnframt á að herða í áföngum, sikk-sakk og án þess að hjól festist.

Varahlutavandamál
Eftir ,,hrunið" hefur reynst erfiðara að fá varahluti í suma bíla. Nefni hér 2 varahlutasala í Bandaríkjunum: www.thepartsbin.com/guides/vw.html (VW og VW Touareg) og www.carcannibal.com/ (Land Rover, Range Rover og Discovery). IB á Selfossi á varahluti í Ford, GM og Chrysler jeppa- og pallbíla og sérpantar varahluti í alla ameríska bíla - afgreiðslutími sérpantana er innan við 7 dagar. Bílabúðin hf. í Kópavogi selur og sérpantar varahluti í alla AMC og Chrysler fólksbíla og jeppa.

Gætið að smurolíunni
Kuldi veldur því að margar bílvélar ná ekki eðlilegum vinnsluhita í styttri ferðum. Það getur aukið smurolíubrennslu. Því er ráðlegt að fylgjast betur með magni smurolíu á vélinni. Mörgum hefur brugðið þegar reynst hefur vanta 1,5-2,0 lítra á vélina (of lítið magn mettast fyrr af óhreinindum). Hjá öðrum hefur olíuljósið kviknað og vélin jafnvel skemmst.

MMC Pajero pústgrein
Spurt: Mér var sagt á verkstæði að sprunga væri í pústgreininni og að ákveðið vélaverkstæði gæti gert við hana með suðu og bökun væri hvarfakúturinn ekki tengdur pústgreininni. Hvert er þitt álit á þessu?.

Svar: Reikna með að þetta sé Pajero 2.8 dísill og finnst heldur ósennilegt að pústgreinin sé sprungin. Þær hafa átt það til að verpast (bogna). Pústgrein og pústþjappa er þá losaðar af, greinin plönuð og sett á með nýrri pakkningu. Verkstæði til að fást við þetta er t.d. Bílhagi (í Kjarnanum uppi á Ártúnshöfða). Vélsmiðjan sem sýður steypugóss er m.a. Arentsstál.

Ford V6 4.0 eða 3.8?
Spurt: Hvernig getur maður séð hvort Ford V6-vél af árgerð 1996 sé 4ra lítra eða 3,8? Hver er kveikjuröðin á þessum vélum - er hún tölurnar á háspennukeflunum? Hvar finnur maður vélarnúmerið?

Svar: Númerin á keflunum endurspegla ekki kveikjuröðina heldur á hvaða sílindrum keflið kveikir. Kveikjuröðin er sú sama á 3.8 og 4.0: 1-4-2-5-3-6. 1.2.3. eru farþegamegin en 4.5.6 bílstjóramegin Talið framan frá.
1996 eru báðar vélarnar með undirlyftum og sjálfstæðum inntaksskálmum í stað millihedds. Ventlalokin á 3.8 eru spegilmyndir en ventlalokið bílstjóramegin á 4.0 er breiðara að aftan og þar er gatið fyrir PCV-lokann. Eldri gerðir af 3.8 voru með súrefnisskynjara í pústgreinunum við flangsinn en í 4.0 voru þeir í pústklofinu. Vélarnúmerið er á stalli á samskeytum blokkar og hedds við fremsta sílindra bílstjóramegin. Vélarkóðinn er 8. stafurinn í framleiðslunúmeri bílsins (VIN).

Gangtruflun í Pajero Sport með V6-bensínvél
Spurt: Er með Pajero Sport V6 3.0 sjálfskiptan. Gangsetning er stundum erfið. Mér var ráðlagt að skipta um kerti. Hvar er bensínsían. Hvað getur orsakað lykt sem kemur af miðstöðinni?

Svar: Það er mikið verk að endurnýja kertin í þessari vél. Bensínsían er í lögninni í grindinni og undir henni varnarplata. Lyktin úr miðstöðinni getur verið vegna leka þar sem miðstöðvarslanga tengist stúti á hvalbaknum eða leks hitalds (vatnskassaþéttir stöðvar hann oftast). Þegar skipt er um bensínsíu er þrýstingi hleypt af með straumloku bensíndælunnar (straumlokan veldur stundum erfiðri gangsetningu), - hún er hólklaga stykki sem er í röð straumloka við rafgeyminn. Straumlokan er aftengd og svissað á og af. Algengt vandamál í þessum vélum og sem veldur gangtruflunum eru stíflaðar örsíur (2) sem eru í inntaksstútunum á bensíndælunni framan við spíssana (innan í kopartengjunum).

163
Loftpressur
Spurt: Að hverju þarf að gæta við val á bílskúrs-loftpressu eigi hún jafnframt að ráða við minniháttar sandblástur?

Svar: Á þessari slóð er grein með flestar upplýsingar sem skipta máli við val á loftpressu og fylgibúnaði. http://www.leoemm.com/loftpressur.htm

Pajero Sport V6
Spurt: Pajero Sport '03, 3.0 V6 sjálfskiptur, ekinn 95 þús. Er í lagi að draga 500 kg fellihýsi með skiptinguna í D sé sett í 3. í brekkum? Gangsetning að morgni er stundum erfið. Hvar fæ ég flækjur fyrir þessa vél? Er mikið verk að koma þeim fyrir? Verð ég að hafa hvarfakútinn með flækjunum?

Svar: Dráttargeta Pajero Sport bensín er yfir 2000 kg (sjá skráningarskírteini). Séu venjulegir kertaþræðir á vélinni gæti þurft að endurnýja þá. Endurnýjaðu bensínsíuna um leið. Helltu ísvara og spíssahreinsi í bensíngeyminn (Stilling og Poulsen). Lagist gangsetning ekki þarf kóðalestur. Flækjur færðu hjá IB á Selfossi. Það talsvert snúið að koma þeim í. Hvarfakút er skylda að hafa.

Pajero 2.5 Tdi
Spurt: Pajero dísiljeppi af eldri gerð (með ,,kústskaftinu" í gólfinu). Ekinn 200 þús. km. Hefur staðið úti óhreyfður um tíma. Eftir kaplastart loga smurljós, vélarljós og hleðsluljós stöðugt. Ýlfur myndast við ákveðinn snúningshraða. Geymirinn tekur hleðslu en heldur illa (nær 12,6 voltum). Hvað getur valdið þessu? Endurnýja þurfti bremsuklossa og rör á afturhásingu. Þrátt fyrir loftun virka bremsurnar ekki eðlilega.
Svar: Rafgeymirinn er ónýtur. Alternatorinn er fastur og/eða ónýtur. Loft situr enn í ABS-lokunum og því eru bremsurnar í ólagi. Bremsaðu á malarvegi nokkrum sinnum þannig að hjólin dragist og loftaðu svo allt kerfið nokkrum sinnum.

Honda HR-V sem titrar
Spurt: Lét setja ónegld vetrardekkin (á álfelgum) undir Honda HR-V, árg. '99 ekinn 177 þús. Titringur í framhjólum við 95 km hraða og meiri. Búið að jafnvægja hjólin þrisvar og víxla fram- og afturhjólum. Slitnir stýrisendar endurnýjaðir. Ekki hverfur titringurinn. Hvað getur valdið?

Svar: Séu öll hjól jafnvægð, titringurinn stöðugur og eykst ekki við að stigið sé á bremsuna er líklegasta orsökin slit í innri hjörulið á framöxli. Byrjaðu að skoða lengri öxulinn.

Heddpakkning
Spurt: Hver eru fyrstu einkenni þess að heddpakkning sé að byrja að gefa sig?

Svar: Álhedd eru á flestum bílvélum. Ál er góður leiðari og því eru brunahólfin fljótari að hitna en væri heddið úr stáli. Styttri upphitunartími með sterkari blöndu minnkar loftmengun og eykur sparneytni (styttri tími á innsogi). Gamall kælivökvi súrnar og tærir ál. Tæringin veldur leka með heddpakkningu.
Vísbendingar: Kælivökva vantar á kerfið án þess að leki sé merkjanlegur. Miðstöðin hættir stundum að hita. Olíubrák í yfirfallskúti. Gráleit smurolía vegna vatnsmengunar. Ferlið endar oftast með því að sýður á vélinni.
Áður en að því kemur eru stimplar farnir að þrýsta lofti út í vatnsganginn. Það sést sé yfirfallskúturinn opnaður (með varúð vegna hættu á gufugosi) . Séu loftbólur í vökvanum, vélin heit og í lausgangi er pakkningin byrjuð að gefa sig. Hækki vatnsborðið þegar vélinni er gefið inn er pakkningin ónýt. Engin þéttiefni duga á leka heddpakkningu. Verkstæði hafa tæki til að lekaprófa kælikerfi.

162
VW Touareg loftfjöðrun biluð
Spurt:
Ég er með VW TOUAREG V6 3,2 L árg 2003. Loftdælan var að fara í honum fyrir loftpúðafjöðruna. Í umboðinu kostar ný dæla 567.300 (fimmhundruðsextíuog sjö þúsund krónur) . Veist þú hvar er hægt að gera við þessar dælur eða kaupa einhverstaðar ódýrari.

Svar: Þessir tveir í USA eru bæði seigir og áreiðanlegir ef þú hefur tök á að versla við útlendinga. www.thepartsbin.com/guides/vw.html og www.carcannibal.com/ (sem reyndar er sérhæft í LandRover/Range Rover en þeir eru einnig með svona loftpúðafjöðrun). Eini maðurinn sem ég myndi treysta til að gera við svona dælu (en þetta er ítalskt drasl) er Árni Brynjólfsson rennismiður en hann er með verkstæði í Skútahrauni 5 Hf. Ef þú hittir á hann í góðu skapi og skilar kveðju frá mér eru líkur á að hann geti leyst þetta vandamál fyrir sanngjarna þóknun.

Mazda 6 viðhald
Spurt: Varðandi viðhald/skipti á tímareim/keðju, sjálfskiptingarvökva og olíusíu í sjálfskiptingu í Mazda 6. árgerð er 2004. 2.0 bensínvél. Ekinn 100 þús. km. Þarf ég að hafa áhyggjur af tímareiminni? Hjá umboðinu gat ég ekki fengið svar við því hvort sía væri í sjálfskiptingunni sem þyrfti að endurnýja. Í handbókinni er tekið fram að sjálfskiptivökvi skuli standast gæðastaðal M-V - hvar fær maður þann vökva? Hjá umboðinu var mér sagt að þeir notuðu Dexron III á þessar skiptingar. Telurðu það vera í lagi?

Svar: Í Mazda-vélinni er tímakeðja í stað tímareimar. Sé vélarolían endurnýjuð reglulega og litur hennar ljósbrúnn þarft ekki að hafa áhyggjur af tímakeðjunni fyrstu 300 þús. km. Þegar tímakeðja hefur slitnað að mörkum heyrist það greinilega í lausagangi. Mazda mælir með skoðun sjálfskiptivökva á 50 þús. km fresti (lykt og litur). Á skiptinguna á að nota Mercon V sem er sama og M-V (Ford Europe hlutanúmer E-M5 No. 8000045). Mercon er sérstakur Ford/Mazda-skiptingarvökvi. (Dexron er GM-vökvi). Mercon V stenst strangari staðalkröfur en Dexron III og undarlegt að umboðið skuli mæla með Dexron III. Þú færð Mercon V hjá IB á Selfossi og Max Live ATF KE hjá Poulsen í Rvk. en hann gerir meira en að uppfylla kröfur M-V. Við endurnýjun fara tæpir 8 lítrar á skiptinguna (8 quarts). Sía er endurnýjuð um leið. Ekki er nóg að taka pönnuna undan og endurnýja bara þann vökva sem kemur úr henni - hann er einungis 33% af heildarmagninu. Smurstöðin Klöpp í Rvk. , Skipting í Keflavík og fleiri endurnýja síu og mestallan vökvann í einni törn með sérstökum tækjum. Persónulega mæli ég ekki með endurnýjun sjálfskiptivökva meðan ástand hans er eðlilegt og skipting vinnur eðlilega. Vanur maður greinir ástand vökvans (litur og lykt) og metur hvort endurnýjunar sé þörf. Hnökrar í þessum skiptingum eru fátíðir nema ástand vökvans hafi verið óeðlilegt lengi (stundum hefur vökvinn ofhitnað (brunnið) vegna kerrudráttar í yfirgír). Í handbók með Mazda er jafnframt mælt með endurnýjun bremsuvökvans á 40 þús. km fresti/2 ár (DOT4) og kælivökvans á 3ja ára fresti. Kælivökvi, sem uppfyllir skilyrði Mazda, er t.d. GM Dexcool eða sambærilegur (Stilling, IB á Selfossi og Poulsen). Endurnýjun bremsuvökvans kemur í veg fyrir ótímabærar og dýrar viðgerðir á bremsudælum (pyttatæring vegna raka í bremsuvökva). Allur kælivökvi súrnar með aldri. Regluleg endurnýjun kælivökva kemur í veg fyrir súrnun og girðir fyrir tæringu í álheddi og dýra ótímabæra heddpakkningarviðgerð. Hagstætt verð á varahlutum í Mazda (fyrir bandaríska markaðinn) er hjá www.thefind.com

Toyota Touring 4x4 óvirkt aldrif
Spurt: Ég er með 1996 árgerð af fjórhjóladrifnum Toyota Station (1,8 Touring) sem er í góðu ástandi og mikið eftir af. Eini gallinn er sá að nú í haust tók ég eftir þvi að fjórhjóladrifið virkar ekki en það er sett á með takka. Hvað telur þú að geti valdið þessu?

Svar: Aftan á drifinu farþegamegin (undir soggreininni) er sogstýrður mótor, ekki ólíkur bremsukút en með minna þvermál. Hann virkjar fjórhjóladrifið. Annað hvort er soglögnin lek, sem ætti að finnast á óreglulegum gangi í vélinni, eða að sogmótorinn (kúturinn) er stirður eða ónýtur, en þeir geta ryðgað sundur. Auðveldast er að hafa bílinn á lyftu og fylgjast með því neðanfrá hvort kúturinn virkar. Það er ótrúlega erfitt að komast að þessu öðru vísi en að losa soggreinina af vélinni.

Daewoo Nubira sem rykkir
Spurt:
Eftir heddpakkningarskipti á 1600 Nubira árgerð 1999 gengur vélin fínt. Hins vegar hefur sú breyting orðið að þegar ekið er af stað eftir gangsetningu kaldrar vélar myndast miklir rykkir þegar gefið er í eftir gírskiptingar. Eftir að vélin hefur náð vinnsluhita ber minna á þessu en hverfur þó ekki alveg. Þótt þetta sé ef til vill ekki stórvægileg bilun er hún ansi hvimleið. Hvers vegna hefur þetta komið eftir þessa viðgerð og er einhver leið að lagfæra þetta (hjá umboðinu var mér sagt að hreinsa inngjafarspjaldið sem ég gerði en án árangurs).

Svar: Sá sem hefur tekið heddið af hefur breytt stillingu inngjafarbarkans. Rykkirnir myndast vegna þess að barkinn er of strekktur. Stillingin er í barkarfestingunni efst á vélinni fyrir miðju. Merktu stöðu barkans, losaðu splittið og færðu það aftar (til hægri) um 2-3 skorur. Prófaðu bílinn með kaldri vél. Hafi rykkirnir ekki horfið skaltu slaka barkanum um eina rauf til viðbótar og prófa aftur með kalda vél.

Benz 200 Station biluð fjarstýring
Spurt: Ég er með Benz '94 200 station. Fjarstýringin er biluð þannig að ég get svissað á en ekki startað (þjófavörnin). Ég er búinn að láta athuga rafhlöðuna í fjarstýringunni. Hún virðist vera í góðu lagi. Hvað get ég gert?

Svar: Prófaðu að opna og læsa skottlokinu með lyklinum og opna síðan með fjarstýringunni. Dugi það ekki skaltu tala við Lyklasmiðinn á Laugavegi 168 - hann gæti leyst málið og í versta falli útvegað þér nýja fjarstýringu og forritaða hana.

Octane Booster
Spurt: Hvar fæ ég efni til að blanda í bensín þannig að oktantala þess hækki umfram það hámark sem hér er boðið upp á (95 oktan)?

Svar: Stilling ehf. selur efni sem nefnist ,,Gum Octane Performance Booster" (vörunúmer GUM5112). Sé því blandað saman við bensínið hækka sjálfkveikimörk þess og hætta á miskveikjun (detonation) minnkar. GUM-efnið inniheldur ekki blýsambönd.

Chevrolet Frumstæð þjónusta fyrir Chevrolet frá S-Kóreu
Spurt: Um er að ræða Chervolet Tosca árg 2008 dísel með 6 gíra sjálfskiptingu. Bíllinn er hinn glæsilegasti og er oftast í lagi. En nú er hann tekinn upp á því að hrökkva í 1. gír t,d þegar er farið yfir hraðahindrun - neglir niður mjög óþægilega og einkennilega. Búið er að fara oft með bílinn í umboðið út af þessu, meira að segja hafa þeir skipt um sjálfskiptingu en ekkert hefur skilað árangri. Nú segja þeir að þetta eigi bara að vera svona! Eitthvað er samviskan að naga þá því þeir buðu skiptiá Tosca af sömu árgerð en með bensínvél - mun meira ekinn bíll og illa farinn eftir notkun sem bílaleigubíll á þeirra vegum. Vegna skrifa þinna sem ég hef lesið í mörg ár, þá spyr ég þig hvað á maður að gera í svona máli?

Svar: Tosca/Epica er dýrasta gerðin af þessum Chevrolet-fólksbílum sem framleiddir eru í Suður-Kóreu. Kvartað hefur verið undan óreglulegum og höstum gírskiptum í 6 gíra sjálfskiptingunni (t.d. í Bretlandi og Írlandi). Mér er ekki kunnugt um kvörtun undan því að skiptingin hrökkvi í 1. gír (Low) við að fara yfir hraðahindrun (það er kvartað undan fjölmörgu öðru í Kóreu-Chevrolet t.d. á breska vefnum Topgear.com)
. Bíll með sjálfskiptingu, sem virkar svona, er ekki í lagi og því veldur einhver bilun (ef til vill ekki í sjálfskiptingunni sjálfri). Umboðið er þekkt fyrir að tefja mál með alls konar röfli og útúrsnúningum - jafnvel þar til ábyrgðartíminn er liðinn. Þau svör að þetta eigi að vera svona (og að bjóða útjaskaðan bílaleigubíl) lýsa ósvífni, óliðlegheitum og vanhæfni. Væri eðlilega að málunum staðið væri búið að leysa þetta vandamál með sjálfskiptinguna. En vegna þess hve þjónustan er frumstæð er viðbúið að þessir Chevrolet-bílar falli mikið í verði og erfitt verði að losna við þá. Þar sem enn er talsvert eftir af ábyrgðartímanum ráðlegg ég þér að gerast félagi í FÍB og kæra síðan þessi viðskipti til kærunefndar FÍB og Bílagreinasambandsins. Það ferli tekur tíma svo ekki er eftir neinu að bíða. Kæran gæti orðið til þess að umboðið leitaði til fagmanna með þekkingu á sjálfskiptingum til að skoða þetta mál (sem það hefur greinilega ekki tímt að gera enn sem komið er).

161
Dekk - réttur þrýstingur er öryggisatriði
Spurt: Er með Land Rover Discovery 2.5 tdi árg. 1997 á 31" dekkjum. Hve mikinn þrýsting á ég að hafa í dekkjunum? Í handbók er gefið upp 1,8 bör að framan og 2,6 bör að aftan (miðað upprunaleg dekk, 235/70/16).

Svar: (1 bar er 14,5 psi). Frá því um 2000 eru öll radíaldekk fyrir fólksbíla (til þess flokks teljast einnig óbreyttir jeppar) hönnuð eftir breyttum forskriftum (belgur , bygging, sóli og munstur) þar sem tillit er tekið til sjálfvirks stöðugleikakerfis (ESP), sjálfvirks auka-átaks við neyðarbremsun, kerrudráttar o.fl. Yfirleitt er ekki gert ráð fyrir að loftþrýstingur sé lægri en 30 psi (2,1 bör) - mýkt er innbyggð í fjöðrun og dempara þannig að þú finnur minni mun á 26 og 32 psi í nýjum dekkjum nú en 1997. Breytt bygging dekkja og aukinn burðarþrýstingur eykur öryggi, m.a. lætur bíll betur að stjórn og sparneytni eykst (minna vegviðnám). Sé jeppinn notaður sem fólksbíll skaltu hafa 30-32 psi bæði að aftan og framan - þá er eyðslan minnst. (Framleiðandinn gerir ráð fyrir fullri hleðslu og tiltekur því meiri þrýsting í afturhjólum). Við vagndrátt þarf að auka þrýsting í afturdekkjum í 36 - 40 bör eftir tungufargi beislis og þyngd vagns.

Hyundai Terracan sem titrar
Spurt: Ég á Terracan 2005, sjálfskiptan 2,9 dísil ekinn 43 þús. km, sem ég keypti 2ja ára gamlan, enn í ábyrgð. Eftir ferð til Akureyrar tók ég eftir sjálfskiptingarvökva á planinu og fór beint í umboðið með bílinn. Þar var mér sagt að rör í olíukæli sjálfskiptingar hefði farið að leka vegna rangs frágangs og var það ábyrgðarviðgerð. Ég sagði þeim að ég hefði verið að koma að norðan svo ég vissi ekki hvenær á leiðinni þetta hefði gerst og þá ekki heldur hve mikið kynni að hafa lekið af skiptingunni og hafði því áhyggjur af að fleira kynni að hafa skemmst. Þeir fullvissuðu mig um að ekkert væri að. Nokkru seinna fór að bera á titringi þegar beðið var eftir að taka af stað t.d. við umferðarljós en sem hvarf væri valstöngin færð úr D í N. Ég fór með bílinn nokkrum sinnum í umboðið og lýsti biluninni. Engu var líkara en að hjá umboðinu væri ekkert mark tekið á því sem ég sagði. En loks tóku þeir bílinn og meðhöndluðu millikassann eftir einhverjum lýsingum frá Hyundai, m.a. með heitu bætiefni og nýrri gírolíu. Þegar það bar engan árangur skiptu þeir um vökvatúrbínu (converter). Skemmst er frá því að segja að sú viðgerð breytti heldur engu - þessi titringur er enn og mestur þegar vélin er köld.

Svar: Lekt rörið frá kæli skiptingarinnar hefur sennilega ekki haft neitt með þennan titring að gera. Þar sem titringurinn er einungis merkjanlegur þegar bíllinn stendur kyrr í D og hverfur þegar sett er í N, mætti ætla að hann hafi ekkert með sjálfskiptinguna að gera heldur stafi af gangtruflun í dísilvélinni. Breyti engu að endurnýja eldsneytissíu og bæta brúsa af spíssahreinsiefni (fæst hjá Stillingu) í eldsneytið myndi maður grandskoða eldsneytiskerfi vélarinnar og þjöppun (t.d. hvort blási upp með spíss).

Dodge Durango - hangir í 1. gír
Spurt: Er með Dodge Durango 2004 með 5,7 HEMI. Þegar hann er kaldur skiptir hann sér mjög seint en verður eðlilegur heitur. Ekkert viðvörunarljós lýsir.

Svar: Bilanagreining gæti skilaði kóðum. Endurforritun tölvu sjálfskiptingarinnar (TCM) gæti endurstillt skiptipunkta. Gagnist það ekki myndi maður skipta um vökva og síu og hreinsa og liðka um leið rafsegulloka sem eru í stjórnhúsinu (ventlaboxinu). Bendi á Skiptingu í Keflavík, Bifreiðastillingu í Kópavogi og Jeppasmiðjuna við Selfoss en þau eru öll sérhæfð í sjálfskiptingum.

160
Mercedes-Benz ML270 diesel Eldsneytisþrot ber að forðast
Spurt: Ég á Mercedes-Benz ML270 diesel árg. 2002 ekinn 98 þús. Fyrir nokkru varð bíllinn eldsneytislaus rétt áður en ég náði að áfyllingarstöð. Ég keypti 5 lítra af olíu og hellti á tankinn. Eftir að hafa startað 15-20 sek fór vélin í gang og gekk í hálfa mínútu en drap þá á sér og fæst ekki í gang aftur. Ég hef einu sinni áður orðið olíulaus á þessum bíl en þá gekk vélin eðlilega eftir að sett hafði verið á hann dísilolía. Getur verið loft á kerfinu eða olíudælan skemmst?

Svar: Tæmist eldsneytistankurinn þarf bíllinn ekki nema smá halla til að dælan í botni hans nái ekki upp hafi einungis 5 lítrum verið hellt á. Prófaðu að bæta tveimur 5 lítra skömmtum á hann, hafðu svissinn á aðeins lengur áður en þú startar. Leysist málið ekki þannig þarftu aðstoð verkstæðis.

Citroën Xara Picasso Einn í vandræðum ......
Spurt: Hjá mínum Citroën Xara Picasso '00 með bensínvél lekur olía af gírkassanum. Ég er búinn að finna hvar lekur en kemst ekki til að gera við hann alveg strax. En ég finn hvergi áfyllingarop til að bæta á gírkassann. Getur þú sagt mér hvernig í ósköpunum maður á að fara að?.

Svar: Snúðu stýrinu í botn til vinstri. Þegar þú horfir inn í hjólskálina sérðu boltahaus fyrir 19 mm lykil/topp á lokinu á enda gírkassans. Það er áfyllingin.

Volksvagen Polo Diesel Þekkt bilun í bremsum
Spurt: Ég er með VW Polo 2006 diesel. Ég þurfti að bremsa dálítið harkalega og eftir það hættu bremsurnar nánast að virka; - eru rosalega þungar, eins og þegar vélin er ekki í gangi. Enginn leki er merkjanlegur og forðabúrið er fullt. Tölvu-forgreining hjá umboðinu leiddi ekkert óeðlilegt í ljós en þeir sögðu mér að viðgerð myndi kosta 200-300 þús. kr. Hvað gæti verið að bílnum?

Svar: Þetta er ein af þekktum VW-bilunum. Sogkúturinn, sem veitir hjálparátakið er ónýtur. Talaðu við þá hjá Bílvogi (sérhæft VW-verkstæði í Kópavogi), þeir endurnýja kútinn fyrir þig. Kostnaður er 50-60 þús. kr.

TCS ljósið er ,,heilbrigðisvottorð"
Spurt: Ég er með Musso diesel árgerð 2000 sjálfskiptan. Stundum kemur ljós í mælaborðið og á því stendur TCS. Mig vantar upplýsingar um hvað þetta ljós táknar?

Svar: TCS = Traction Control System. Ég hef þýtt þetta sem spólvörn. Þetta er veggripsstýring sem notar ABS-læsivörnina með öfugu formerki, þ.e. kerfið flytur átak frá hjóli sem spólar yfir á hjól sem hefur veggrip. TCS-ljósið lýsir í 2 sek eftir gangsetningu og merkir að spólvörnin sé virk. Lýsi TCS-ljósið stöðugt er bilun í kerfinu.

Ford Transit 2.0 tdi 2003 kraftleysi
Spurt: Ford Transit 2.0 túrbodísill árg. '03 hefur gengið leiðinlegan lausagang um tíma en nú missti hann allt í einu afl eins og pústþjappan yrði óvirk. Verkstæði umboðsins er búið að skoða málið og þeir segja að pústþjappan taki út í húsið og sé ónýt. Mig grunar að viðgerðin geti orðið dýr. Getur verið að vélin hafi hoppað um tönn á tímareiminni?

Svar: Í 2ja lítra dísilvélinni er tímakeðja frá og með árgerð 2001 og hún hoppar ekki um tönn. Lekur EGR-loki veldur oft óreglulegum lausagangi. Prófaðu hann með því að loka rásinni undir honum með plötu. Pústþjappa tekur ekki útí húsið allt í einu. Miklu sennilegri skýring er að framhjáhlaupsgáttin (Waste gate) sé óvirk. Í framhjáhlaupslokanum er armur sem hefur viljað hrökkva sundur og við það verður forþjöppunin óvirk. Farðu með bílinn í Vélaland (þar eru enn menn sem kunna til verka þótt eigendaskipti hafi orðið á fyrirtækinu) eða Vélaverkstæðið Kistufell.

159
Vetrarundirbúningur

Framrúðan: Þegar ekið er í lest til og frá vinnu og ekki lokað fyrir ytra inntakið (takki) dregur miðstöðin inn sót frá næsta bíl á undan og blæs því upp á framrúðuna að innanverðu. Framrúður geta því orðið mjög óhreinar að innanverðu og af því getur skapast vandræði og slysahætta þegar sól er lágt á lofti. Auðveldast er að þrífa rúðuna með volgu sápuvatni.

Þurrkurnar: Léleg þurrkublöð geta gert gæfumuninn þegar ekið er í slæmu skyggni og jafnvel ráðið því hvort þú nærð á leiðarenda eða endar fastur utan vegar. Í verslunum Europris hefur mátt fá ódýrari þurrkublöð en annars staðar. Jafnvel þótt annað blaðið sé lengra en hitt á viðkomandi bíl getur borgað sig ríflega að kaupa tvö sett hjá Europris. Leiðbeiningar fylgja þannig að hver sem er getur endurnýjað þurrkublöð.

Rúðuvökvi: Rúðuvökvinn þarf að vera til staðar og hann þarf að þola frost. Þú getur blandað þinn eigin rúðuvökva (og tjöruleysir) og sparað þér þúsundir króna yfir veturinn. Leiðbeiningar eru á www.leoemm.com (Gagnabanki/Brotajárn nr. 27).

Kælivökvi: Fáðu frostþol kælivökvans mælt á næstu bensín-eða smurstöð og láttu bæta á ef þarf. Athugaðu að samkvæmt tilmælum flestra bílaframleiðenda á að endurnýja kælivökva á 3ja ára fresti til að girða fyrir tæringu áls (heddpakkning). Þú færð það gert á betri smurstöðvum.

Ljósin: Kannaðu ástand ljósanna og láttu endurnýja dauðar perur. Max 1 og flest viðkomandi bílaumboð skipta um perur á meðan beðið er.

Lásar: Flestir bílar eru með fjarstýrðar samlæsingar. Því er hætt við að lykillæsingar, sem aldrei eru notaðar, stirðni og geta frosið fastar. Berðu lásaolíu í allar læsingarnar þannig að þær verði fjarstýringunni ekki til trafala í frosti.

Dyraþéttingar: Raki að degi til og næturfrost geta valdið því að hurðir festist í körmum. Í bílabúðum og á bensínstöðvum fæst efni (sílikonfeiti) til að bera á þéttilistana á hurðunum og í dyrakörmunum. Efnið er vatnsfælið og kemur í veg fyrir þetta vandamál. Auk þess hlífir það þéttiköntum en þeir geta verið fokdýrir.

Framdrifið: Að festa jeppa eða jeppling í fyrsta skafli vetrarins getur verið nógu fúlt þótt ekki komi í ljós að fjórhjóladrifið sé óvirkt. Oft eru það sjálfvirkar framdrifslokur sem standa fastar í jeppum því fjórhjóladrifið hefur ekki verið tengt mánaðarlega eins og á að gera til að halda því virku. Þegar um jeppa er að ræða má oft ganga úr skugga um hvort framdrifið virki með því að tengja fjórhjóladrifið og taka rösklega af stað á malarvegi. Spóli jeppinn greinilega að aftan er það vísbending um að ekkert átak sé á framhjólum. Öruggari aðferð er að setja í 4WD, drepa á vélinni, setja í 1. gír og stöðubremsu á. Jeppinn er svo tjakkaður upp öðru megin að framan þar til hjólið er á lofti. Sé þá hægt að snúa hjólinu með handafli er framdrifið óvirkt. Flestir jepplingar eru með drifið á framhjólunum í venjulegum akstri. Sé fjórhjóladrifið valið eiga framhjólin ekki að spóla þegar tekið er rösklega af stað á malarvegi. Sama gildir um þá jepplinga sem tengja fjórhjóladrifið sjálfvirkt - það á að tengjast þegar tekið er rösklega af stað á malarvegi og koma í veg fyrir að framhjólin spóli.

158
Fastur í P
Spurt:
Ég er með Toyota Tacoma árg. '08 sem ég flutti sjálfur inn í fyrra. Nú stendur hann fyrir utan heima hjá mér og sjálfskiptingin föst í P. Kanntu einhver ráð?

Svar: Framan við valstöngina er svartur takki sem er handvirk losun á öryggislás gírvalsins, m.a. notuð þegar bíll verður rafmagnslaus. Öryggislásinn getur orðið óvirkur vegna þess að öryggi á straumleiðslum ABS- eða bremsuljósa hefur brunnið - oft vegna útleiðslu í kerrutengli sem þú skalt byrja á að athuga.

Mótorhjól Honda VTX 1300 Retro 2003
Spurt: Ég er með Honda-mótorhjól af gerðinni VTX 1300 Retro árg. '03. Eftir lengri keyrslu truflast lausagangurinn , t.d. þegar komið er að hraðatakmörkunum. Stöðvi ég hjólið drepur mótorinn á sér nema ég hreyfi stöðugt inngjöfina. Þegar hjólið hefur staðið 5-10 mín er allt eðlilegt á ný. Hvað getur þetta verið?

Svar: Á þessari gerð er blöndungur en ekki bein innsprautun . Á flotholtshólfi er loftun (grönn slanga) - teppist hún að hluta eða alveg vinnur blöndungurinn ekki eðlilega, t.d. getur lausagangur truflast. Óhreinindi í loftsíu/um eða bensínsíu geta valdið truflunum í lausagangi - einnig raki í bensíni (ísvari). Byrjaðu á að setja ísvara saman við bensínið. Leysi það ekki vandann skaltu skoða loftsíuna, athugaðu hvort óhreinindi séu á inngjafarspjpaldi, blástu úr örlitlu götunum sem eru í kverk blöndungsins hvor sínu megin við inngjafarspjaldið. Blástu úr flotholtslokanum og skoðaðu slöngur og klemmur.

Subaru Legacy vélin neitar að ganga Silikonkítti
Spurt: Subaru Legacy '92 (2ja lítra vél), ekinn 308 þús. hrekkur í gang í fyrstu lotu, gengur í nokkrar sek, drepur síðan á sér. Tekur nokkur slög við endurteknar tilraunir en svo ekki meir. Stöku sinnum sprengir upp í soggrein. Eftir nokkurt hlé hrekkur hann aftur í gang í nokkrar sek. Virðist fá nóg bensín. Frá nema, sem er skrúfaður er í pústklofið, liggja 3 leiðslur. Ein þeirra er slitin: Getur það verið orsökin?

Svar: Þessi nemi er súrefnisskynjari sem stýrir bensínblöndunni. Endurnýjaðu hann (3ja víra skynjari sem passar gæti fengist hjá Stillingu, Vöku eða N1). Þá ætti vélin að fara í gang en gæti þurft að athuga kerti og þræði (notaðu NGK-kerti) hafi það ekki þegar verið gert.
Ath: Því má bæta hér við að nokkuð algengt er að súrefnisskynjarar (sem eru einungis við bensínvélar) eyðileggist vegna notkunar venjulegs sílikonkíttis í eða nálægt vélarrými (það gefur frá sér klórgas við stirðnun). Í Bílum með bensínvél ætti einungis að nota sílikonkítti sem merkt er ,,Oxy-Sensor Safe" og fæst í bílavörubúðum."

Alternator fyrir 1/3 þess sem hann kostar í umboði
Spurt: Ég kíki alltaf á dálkana þína í Mbl. þótt ég sé engin bílamanneskja því oft er að finna þar góð almenn ráð. Nú langar mig til að spyrja þig einnar spurningar: Getur alternator sem er farinn að bila skemmt rafgeymi í bíl?

Svar: Já. Sé spennustillingin biluð getur of há spenna skemmt rafgeyminn. Sé einstefnuleiðari bilaður í alternator tæmir hann geyminn þegar vélin stöðvast og getur þannig eyðilagt hann. Nýja og endurbyggða alternatora og startara má oft fá hjá Rafstillingu, N1, Stillingu, Rafbæ o.fl. fyrir mun minna verð en þeir kosta hjá umboðum (jafnvel frá sama framleiðanda).

Enn og aftur: Illa staðið að jeppabreytingu
Spurt: Upphækkaður og breyttur Hyundai Terracan 2002 hefur verið að gera eigandann brjálaðan: Fjarstýrðar samlæsingar hafa ekki virkað, vélin fer stundum í gang og drepur strax á sér aftur. Kóðalestur virkar ekki (tölvan virðist dauð) auk þess sem alls konar draugagangur hefur verið í ljósakerfum og dauður rafgeymir af og til. Nú er nýr geymir og búið að mæla að hleðslan sé í lagi og
ný batterí í fjarstýringum en allt kemur fyrir ekki - þetta versnar frekar en hitt. Hefur þú einhverja skýringu á þessu háttalagi?

Svar: Eftir að hafa fengið upplýsingar um að bílnum hafi verið breytt nýjum hjá VDO á sínum tíma var farið yfir allt sem tengist upphækkuninni. Eftir skipulega leit á verkstæði fannst bilunin; þegar bíllinn var hækkaður fyrir 35" hjá VDO hafði ekki verið losað um eða lengt í aðalraflögninni á milli grindar og yfirvagns framan í húddinu. Frágangurinn var þannig að strekkst hefur á lögninni þar til einangrunin hefur gefið sig á leiðslununum hverri á fætur annarri, 3 leiðslur slitnar sundur og aðrar brunnar upp eftir öllum bíl. Raflögnin var endurnýjuð að miklu leyti og gengið eðlilega frá henni og bíllinn þar með kominn í fullkomið lag eftir langan, leiðinlegan og kostnaðarsaman bilanatíma. (Þeir sem eiga VDO-breytta bíla á 35" ættu að skoða þennan frágang til öryggis).

VIÐBÓT: Þessi eigandi fann upprunalega viðgerðarhandbók yfir Terracan sem hlaða má niður (76 Mb). Hún er á ensku á rússneskri vefsíðu hyundai-autoclub.ru/terracan/ (tengill).

156
Hvað gerir tölvukubbur?
Spurt: Hvað gerir "tölvukubbur" fyrir bandaríska bensínvél . t.d í Ford F150?
Er um mismundi gerðir að ræða/eða valkosti?

Svar: Kubburinn inniheldur stýriforrit sem tekur ,,völdin" af því forriti sem er í vélartölvu bílsins. Nýja forritið notar sömu breytur til að draga fram aðra eiginleika í meiri mæli en upphaflega forritið. Kubbur getur verið af ýmsum mismunandi gerðum: A er ætlaður til að auka viðbragð og afl. B er ætlaður til að auka afl og sparneytni. C er ætlaður til að auka tog og hæfni bíls til dráttar. D er ætlaður til að hámarka afl og snerpu með keflablásara (forþjöppun með ,,supercharger"). Kubbar geta verið mismunandi fyrir vélarstærð og gerð véla (dísil- eða bensínvél). Kubbar með mörgum forritum (valhnappur) hafa reynst illa. IB ehf. á Selfossi hefur 10 ára reynslu sölu og ísetningu kubba (ég er þeirra ráðgjafi, svo það sé á hreinu!). Stundum er ruglað saman tölvukubbi (forriti) og stýritölvu sem er talsvert annað mál. Hvort tveggja er eftirbúnaður. Þeir sem áhuga hafa geta kynnt sé þennan búnað og pantað m.a. á vefsíðu bandaríska fyrirtækisins Edge Products Inc. sem er á meðal þekktari framleiðenda á þessu sviði: www.edgeproducts.com/view_all products.php

Viðhald gamalla bíla
Spurt: Ég er með nokkrar spurningar varðandi Nissan Primera frá 1996 sem ég á. Þetta er góður bíll miðað við aldur. Hann er með 2ja lítra vél og sjálfskiptingu, ekinn tæplega 170 þús. km. Hve mikið get ég reiknað með að geta ekið þessum bíl meira með réttu viðhaldi og góðri meðferð ? Hver er meðaleyðsla svona bíls við eðlilegt aksturslag? Af og til virkar startið ekki í P en alltaf í N. Gæti ég lagað það sjálfur? Hvenær þarf að endurnýja síu og vökva á sjálfskiptingunni? Er hægt að fá það gert á smurstöð? Skiptingin virkar eðlilega. Nýlega fór að ískra og skrölta í fjöðruninni farþegamegin.

Svar: Primera hefur gengið 500 þús. km. í leiguakstri. Sé bíllinn í góðu lagi myndi ég reikna með 10-11 lítra eyðslu. Við gírvalsstöngina er búnaður sem á að koma í veg fyrir að hægt sé að starta nema staðið sé á bremsunni og valstöng í P eða N. Líklegasta skýringin er sú að sambandsleysi sé í rofanum við stöngina vegna óhreininda eða slits. Betri smurstöðvar hafa búnað til að dæla öllum vökva úr skiptingu um kælilagnir. Bæði Smurstöðin Klöpp í Rvk. og Skipting í Keflavík eru með slík tæki. Af lýsingu þinni að dæma virðist vera los á demparanum farþegamegin eða eitthvað tengt honum brotið (oft brotnar neðsti hringurinn á gormi eða neðri gormaskál. Demparinn gæti verið laus eða ónýtur. Taktu hjólið af og skoðaðu demparaturninn.

Millikælir í LandCruiser
Spurt: Ég hef verið að leita upplýsinga um ísetningu millikælis í LandCruiser 90 árg 2000 (125 ha vélin). Er nóg að setja kælinn í, tengja og skrúfa örlítið upp magnið á olíuverkinu eða þarf að setja aflaukandi kubb með þessu til að árangur verði viðunandi?

Svar: LandCruiser 90 kom með forðagrein (common rail) í árgerð 2000 og er þá D4D-merki á frambrettinu. árgerð 2000 er einnig til með hefðbundnu olíuverki. Tölvukubbar gera ekkert með olíuverki - þeir eru fyrir beinu tölvustýrðu innsprautunina (forðagreinina = common rail). Millikælar voru settir í LC90 hjá Artic trucks. Þar gæti millikælis-settið enn verið til. Óþarfi er að eiga við olíuverkið vegna millikælis en hann eykur afl og snerpu talsvert. (LC120 tók við af LC90; sams konar bíll með nýrra útliti, m.a. öðru vísi framljósum).

,,Íslensk ryðvörn" eyðileggur nýja bíla á 8-10 árum!
Bréf: Er reglulegur lesandi á þinni frábæru síðu og þú hefur jafnframt gefið mér góð ráð varðandi mínar eigin bifreiðar.
Mig langaði að senda þér eitt dæmi um ryðvörn sem eyðilagði fínan bíl, þar sem ég veit að þú hefur talað fyrir þessu. Kunningi minn einn fór nýverið með '97 árgerð af Pajero dísel bíl sínum í árlega skoðun. Bílinn hefur reynst honum með afbrigðum vel og ætlaði hann að keyra hann nokkur ár til viðbótar og taka á sig eðlilegt viðhald.Honum brá mjög þegar skoðunarmaðurinn sýndi honum grindina undir bílnum en hún var farin að ryðga mjög að aftan.Komin voru göt á grindina sökum ryðs og var ljóst að dýrar viðgerðir voru framundan. Hann fékk skoðun á bílinn með athugasemdum um grind væri farin að ryðga og grípa þyrfti til aðgerða. Hann fékk tilboð í viðgerð á grindinni sem hljóðaði uppá 300 þús kr.Fyrir svona gamlan bíl er ljóst að ekki var forsvaranlegt að ráðast í svo dýrar framkvæmdir og kunningi minn losaði sig við bílinn ódýrt með eftirsjá. Ástæðan fyrir þessari tæringu á grind var talin sú að þegar bílinn var ryðvarin árið 1997 var "ryðvarnarefni" borið yfir öndunargöt á grindinni sem orsakaði ryðtæringu innan frá. Þetta er með þvílíkum ólíkindum að maður er nánast orðlaus. Ryðvörnin eyðilagði fínan bíl sem átti nóg eftir og hafði reynst mjög vel.

Ford PowerStroke 6,0 : Eru þetta ónýtar vélar?
Spurt: Ég er með Ford F-250 pallbíl með 6,0 PowerStroke dísilvélinni og er búinn að lenda í alls konar bilunum á ábyrgðartímanum sem nú er liðinn. Nú stend ég uppi með þennan bíl. Hann er núna á verkstæði því vélin var farin að reykja óeðlilega mikið. Mér er sagt að vélin sé full af sóti, EGR-lokinn sé ónýtur og líklega einnig pústþjappan og að þetta sé viðgerð upp á 1-2 milj. kr. (sé ég heppinn!). Á verkstæðinu virðast menn vera vanir þessu og yppta bara öxlum og vilja greinilega segja sem minnst. Svo ég spyr þig: Eru þetta ónýtar vélar?

Svar: Einhver myndi svara spurningunni hiklaust játandi. En það er ekki vélin sjálf sem er vandamálið heldur búnaður sem hengdur hefur verið utan á hana til að útblásturinn stæðist kröfur sem bandarískir bílaframleiðendur hafa ekki mætt öðru vísi en með sýndarlausnum sem jafnframt takmarka endingu vélanna. Það er engin tilviljun að GM, Chrysler og Ford í Bandaríkjunum eru á rassgatinu - ýmist gjaldþrota eða á leið í gjaldþrot (meira að segja mun Fiat brátt taka að sér vélaframleiðsluna fyrir Chrysler - og þá er nú skörin farin að færast upp í bekkinn, svo ekki sé meira sagt!). Þessum fyrirtækjum hefur verið stjórnað af bókhöldurum og bröskurum í 3 áratugi. Tæknimenn og hönnuðir hafa engu fengið að ráða, hvað þá að hlustað hafi verið á þá. Árangurinn er kominn í ljós. Það er ekki einungis búið að eyðileggja PowerStroke-dísilvélina með snarreddingum sem áttu að leysa öll mengunarmál á einu bretti heldur er einnig búið að eyðileggja Cummins-dísilvélina með sama klúðrinu - einhverja bestu dísilvélina á markaðnum - í stað hennar (5,9) er nú komin 6,7 lítra Cummins sem er jafnvel verri en 6 lítra PowerStroke. Sameiginlegt með báðum er að hönnunin er frábær en smíði mengunarvarnarbúnaðarins afleit og prófanir algjörlega ófullnægjandi (sparnaður).
Í 6,0 lítra Ford-vélinni (PowerStroke sem er framleidd af Navistar sem er gamla International Harvester) er tvennt sem valdið hefur mestum vandræðum: Annars vegar er sérstakur vatnskælir fyrir EGR-púst-hringrásina og hins vegar sótagnasía sem bætt hefur verið í pústkerfið. Þessi EGR-vatnskælir, sem er aðkeyptur eins og flest núorðið, er illa smíðaður og byrjar iðulega að leka. Þar með kemst vatn út í pústið á undan þjöppunni. Vatnið byrjar að eyðileggja (festa) tölvustýrðu fingurna sem beina pústinu á blöð hverfilsins í samræmi við snúningshraða vélarinnar og eftir því sem lekinn eykst eykst sótmyndunin í EGR-kerfinu og pústþjöppunni þar til svartur strókurinn stendur aftur af bílnum og þessi búnaður, og iðulega fleira, er ónýtur.
Sótagnasían er svo illa úr garði gerð að þann tíma sem hún er að hreinsa sig sjálf stóreykur hún eyðslu vélarinnar auk þess sem stýribúnaðurinn ræður ekki við verkefnið. Ljós í mælaborði gefur til kynna að sótagnasían sé að hreinsa sig. Sé drepið á vélinni með þetta ljós lýsandi fæst vélin yfirleitt ekki í gang aftur fyrr en eftir endurforritun á verkstæði. Stýribúnaður sótagnasíunnar er auk þess svo illa hannaður að ,,Check Engine-ljósið" lýsir í tíma og ótíma og búnaðurinn ruglar um leið forritun EGR-lokans og stýringu inntaksbúnaðar pústþjöppunnar. Sé farið að fikta í þessum búnaði (EGR og sótagnasíunni) með aftengingu raf- eða boðleiðslna versnar ástandið og verður óviðráðanlegt. Þrautalending sumra hefur verið sú að hreinsa innan úr sótagnasíunni, án þess að aftengja hana, og hefur draslið þá verið til friðs hafa það ekki þegar skemmst. (Ég mæli að sjálfsögðu ekki með þeirri aðgerð frekar en öðrum sem breyta mengunarvarnarbúnaði).
Í nýju Cummins 6.7 (6 síl. línuvél) virðist vera sama uppi á teningnum. Mengunarvarnarbúnaður, þar með talin sótagnasían (DPF), sem átti að gera þessa dísilvél að þeirri ,,hreinustu" á markaðnum, hefur reynst aðaluppspretta alls konar ótímabærra og dýrra bilana, m.a. eyðilagt pústþjöppur. En nýja 6.7 lítra Cummins-dísilvélin er meira mál og verður henni ekki gerð frekari skil í bili - málið er í skoðun og mun verða fjallað meira um það seinna.

155
Sjálfskipting og sparakstur
Spurt: Ég las greinina á vefsíðunni þinni um sparakstur og spyr hvort sú aksturstækni gildi jafnframt um sjálfskipta bíla? Á maður t.d. að keyra í D innanbæjar eða í D3? Á maður að nota "Power"- eða ,,Sport- prógrammið". Á að lulla í D innanbæjar eða í D3 til að gefa í og auka hraða?. Hjá mér er yfirleitt um styttri ferðir að ræða, 2,5 km í vinnuna og svo snatt með börn í og frá skóla o.fl.

Svar: Nýrri sjálfskiptingar eru tölvustýrðar. Sé þeirri reglu fylgt að ná sem fyrst eðlilegum ferðarhraða - beita þær sjálfvirkt Sport- eða Power-forritinu, við meiri og hiklausari inngjöf, þótt valstöngin sé í D - og jafnvel þótt þær séu stilltar á Economy-forritið. D3 er valinn þegar taka þarf mjúkt af stað eða fara þarf varlega og láta vél halda við. (Í síðasta pistli féll niður orð sem gerði setningu illskiljanlega. Þar átti að standa að draga skyldi vagn með yfirgír sjálfskiptingar óvirkan (OD-ljós lýsandi) en það er gert með takka á valstönginni).

Volvo 960 gangtruflun
Spurt: Ég er í vandræðum með Volvo 960 3.0 lítra. '91 árg. Lausagangurinn er ójafn. Búið er að skipta um 2 háspennukefli. Veistu hvað gæti verið að?

Svar: Þar sem þú nefnir ekki að ,,Check Engine-ljósið" lýsi skaltu byrja á að útiloka rakamettað bensín. Settu 1/4 úr 250 ml brúsa af ísoprópanóli saman við hálfan bensíngeymi. Lýsi ,,Check Engine-ljósið" liggur beinast við að láta bilanagreina vélkerfið. Þú getur kannað sjálfur hvort fleiri háspennukefli séu biluð (þau eru 6). Þú sérð það á kertunum. Undir lélegum keflum eru dökk sótug kerti.

Honda Accord farinn að þreytast
Spurt: Ég er með Hondu Accord árg 1991 með 2.0 vél (blöndungur) og handskiptingu. Gangtruflanir eru að stríða mér. Keyri ég á 90km hraða og rétt tipla á bensíngjöfinni þá höktir hann rosalega. Eins sleppi ég gjöfinni og stíg svo snökt á hana kemur töluverður hnykkur. Stundum ber ekkert á þessu og engu breytir hvort vélin er heit eða köld. Gefi ég vel inn þegar þetta byrjar og held átaki vélarinnar hverfur höktið - það virðist bara vera þegar ég rétt snerti inngjöfina til að halda ferð.

Svar: Þessi gerð af Honda er fræg fyrir að ganga nánast endalaust og því er eðlilegt viðhald stundum dregið á langinn. Eftirfarandi listi gildir um marga bíla á þessum aldri:

- Settu ísvara (ísopropanól) út í bensínið, ca 60-80 ml. til að útiloka raka.
- Endurnýjaðu bensínsíuna. Sé hún teppt getur bensíndælan þurft að athuga bensíndæluna (hún er í botni bensíngeymisins) og geyminn (ryðgöt að ofanverðu).
- Endurnýjaðu loftsíuna sé hún ekki nýleg.
- Skoðaðu kertin: Séu skaut allra eins útlítandi, ljósbrún-grá og án útfellingar og skautin óslitin skaltu stilla bilið (0,8-0,9 mm). Sé liturinn í lagi en skautin slitin skaltu endurnýja kertin.
- Séu kertin dökk, svört eða sótug skaltu endurnýja þau, kertaþræðina, kveikjulokið og hamarinn.
- Tjékkaðu slönguna sem tengir kveikjuflýtinn við soggreinina (sogleki)
- Tjékkaðu slönguna sem tengir aflbremsukútinn soggreininni (sogleki) og aðrar loftslöngur sem kunna að vera t.d. milli lofthreinsara og soggreinar.
- Tjékkaðu geymasamböndin, tæring eða laus.
- Tjékkaðu boltana sem halda blöndungnum og að soggreinarboltarnir séu ekki lausir (séu þeir lausir getur pakkningin verið ónýt).
- Beri ekkert af þessu árangur eða reynist allt óaðfinnanlegt - skaltu fara á partasölu og kaupa kveikjumódúl (það er kubburinn í kveikjunni sem rafeindastýrir neistatímanum).

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu