Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 26
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda).

Ég bý til minn eigin tjöruleysi og rúðuvökva
Áður en þú notar þessar upplýsingar tek ég fram að þær eru byggðar á minni persónulegu reynslu. Þær eru birtar hér án þess að nokkur ábyrgð sé tekin á þeim efnum sem til verða við blöndun eða á áhrifum þeirra á lakk, blandaðra eða óblandaðra. Afleiðingar vegna mistaka við blöndun efnanna eru algjörlega á ábyrgð viðkomandi lesanda.
Um leið skal á það bent að alls konar spíri, svo sem etanól, metanól, ísóprópanól, óblandaður frostlögur o.fl. geta valdið skemmdum á lakki bíla, og þarf að meðhöndla með sérstakri varkárni. Einnig er rétt að taka fram að mikill munur er á virkni tjöruleysis eftir því hvernig hann er borinn á. Besta virknin fæst með því að úða honum á bílinn (ég nota rafsprautu) í stað þess að bera hann á með tusku eða svampi.
Annað, sem einnig er ástæða til að benda á, er að víðast hvar í N-V-Evrópu er bannað, samhvæmt umhverfisverndarlögum, að nota tjöruleysi annars staðar en á sérstökum þvottastöðvum sem hafa efnagildrur í frárennsliskerfi. Hér er þessari drullu allri hleypt niður í jarðveginn (grunnvatnið) í bílskúrum, við heimahús og í fyrirtækjum - án þess að hið opinbera (Umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit) geri nokkurn skapaðan hlut í málinu!

Tjöruleysir (rúmlega 100 kr. lítrinn)
Ég kaupi ódýrasta uppþvottalöginn í Bónus (500 ml á 160 kr. Set 300 300ml (96 kr. tóman 20 lítra plastbrúsa. Plastbrúsann fylli ég með tæpum 20 lítrum af steinolíu (frá dælu) hjá N1-bensínstöðinni (Esso) á Ártúnshöfða. Þegar heim er komið sný ég brúsanum nokkrum sinnum til að blanda sápuna steinolíunni. Auk þess að vera uppleysandi eykur uppþvottalögurinn (sápan) viðloðunarhæfni steinolíunnar þannig að hún fær lengri tíma til að leysa upp tjöruna. Þessu efni úða ég á bílinn og þvæ síðan af með kústi og vatni. Sé mikil tjara á bílnum endurtek ég úðunina. Þvottinum lýk ég svo með því að setja 2 tappafyllingar af Sonax bílasápu/bóni (vökva) út í 10 lítra fötu af vatni sem ég ber á bílinn með svampi og skola af með vatni. Kostnaður: Steinolían kostar 110 kr. lítrinn (7/2/09) og sápulögurinn 96 kr. Samtals 2296 kr. Tjöruleysirinn minn kostar því 115 kr. lítrinn.

Rúðuvökvi
Ég set einn lítra af venjulegum óblönduðum (bláum Comma) frostlegi (mono-etýlen-glýkol) út í 10 lítra plastbrúsa, bæti út í hann 2 matskeiðum af uppþvottalegi (sápu) og fylli síðan með hreinu köldu vatni. Þennan vökva, sem þolir allt að 10 stiga frost, nota ég á rúðusprautukerfi bílsins. Blár Comma frostlögur kostar hjá N1 (7/2/09) 3935 kr. 5 lítra brúsi eða 78,70 kr/lítrinn. Rúðuvökvinn kostar því innan við 80 kr. lítrinn (algengt verð í verslunum er 180 kr./l eða meira).

"Baunateljaranir" búnir að kála Nissan - hver verður næstur?
Nú berast fréttir af dúndrandi mettapi á rekstri Nissan í Japan. Þar er það sama að gerast núna og hjá VW upp úr 1998: Eftir að "baunateljurum" var gefinn laus taumurinn og allsherjar niðurtalning á gæðum hófst með tilheyrandi sparnaði (outsourcing) og glanshönnun hefur "bjúgverpillinn'' hitt þá í hausinn; - botnlaust tap vegna framleiðslugalla og fallandi sölu vegna bilanatíðni. Þróunin er nákvæmlega sú sama og hjá VW sem nú þarf að tjalda hverri dulu til að hleypa lífi í söluna eftir að hafa framið þetta klassiska "baunateljara-harakiri.'' Ssma er að gerast hjá Chrysler, Ford og General Motors. Allir vita að "baunateljarar,'' en svo eru hagræðingarráðunautar nefndir, sem fjármálastofnanir neyða upp á fyrirtæki sem komin eru í "gjörgæslu'' - en þessir sérfræðingar hafa undantekningarlaust enga tæknilega þekkingu né þekkingu á bílaframleiðslu eða bílamarkaði. Því fer sem fer.

Rafstýri - rafhandbremsa og önnur óáran (ljós í myrkrinu)
Margir nýir bílar eru nú búnir rafmagnsknúinni handbremsu. Hún fer sjálfvirkt á þegar bíll er stöðvaður, staðið á fótbremsu og settur í gír, N eða P, sé hann sjálfskiptur. Þegar taka á af stað er stutt á hnapp og losnar þá handbremsan eða (stöðubremsan) sjálfvirkt við að stigið er á inngjöfina. Það er að segja hún á að geta það. Vandamálið er að í sumum bílum er þetta svo mikið andskotans drasl að stundum er engin leið að losa stöðubremsuna og, í fljótu bragði, ekki um annað að gera en að flytja bílinn á verkstæði með bílaflutningabíl. Eins og við er að búast er þetta einn af mörgum göllum sem plaga nýlega Volkswagen-bíla alveg sérstaklega.
Þetta getur komið upp á við ólíklegustu aðstæður, t.d. þegar halda skal á brott frá Kringlunni. En VW-eigandinn er ekki alveg jafn hjálparlaus og ætla mætti í fyrstu. Það er til ráð við þessu. Maður hefur einfaldlega 12 mm lykil í hanskahólfinu. Með því að aftengja jarðsamband rafgeymisins, bíða 5 mínútur og tengja svo geyminn á nýjan leik, hrekkur draslið aftur í lag og verður virkt.
Maður spyr sig hvers vegna í fjandanum er verið að setja svona búnað í bíla, búnað sem gerir þá flóknari og eykur viðhaldskostnað? Í sumum bílum er þessi rafknúni búnaður vandaðri en í VW og Citroën, sem eru sér á parti, og getur verið til mikils hagræðis, t.d. fyrir fatlað fólk, sem ekki hefur fullan mátt í útlimum.

Önnur uppfinning, sýnu verri og afdrifaríkari (fyrir budduna), er rafknúna stýrið sem fyrst kom á markaðinn upp úr 1990. Sem dæmi má nefna Opel Corsa og Astra. Þetta dót leit vel út á pappírnum og rökin sem færð voru fyrir og áttu að sanna kosti rafstýrisins (í stað glussastýris) virtust sannfærandi. En eins og með margt annað - væntanlega vegna áhrifa "baunateljara'' - var framleiðsla rafstýrisins boðin út(átsorsað, á vondu máli). Hagræðingin tók völdin á kostnað gæðanna. Búnaðurinn var þannig hannaður, m.a. til að framleiðslan yrði sem ódýrust og gróðinn mestur, að þegar hann bilar er ekki hægt að gera við hann heldur einungis hægt að skipta um hann í heilu lagi! Fyrir bragðið eru notaðir bílar með rafstýri, t.d. Opel Astra, vonlausir í endursölu - jafnvel þótt tækist að ljúga slíkum bíl inn á einfeldning - kæmi það fyrir lítið því þegar rafstýrið klikkar og 400 þúsund króna kostnaður vofir yfir (eða meira) fer kaupandinn til Neytendastofu og í framhaldi er kaupunum rift (dulinn galli).

126
Bilaður startari?
Bifvélavirki sagði mér að tvisvar í sömu vikunni hefði bíleigandi komið með nýlegan bíl til sín á verkstæðið og beðið um að litið yrði á startarann því hann virkaði ekki nema stundum. Í fyrra skiptið var startarinn tekinn úr og grandskoðaður. Ekkert fannst að honum og hann virkaði eðlilega við prófun og eftir að hann hafði verið settur aftur í. Þegar eigandinn kom í seinna skiptið og kvartaði undan startaranum grunaði bifvélavirkjann að ekki væri allt með felldu. Eftir samtal við bíleigandann kom eftirfarandi í ljós: Bílinn, sem sjálfskiptur, hafði hann nýlega keypt. Hann hafði átt nokkra bíla áður en þessi var sá fyrsti með sjálfskiptingu. Í ljós kom að startarinn var í fínu lagi. Eigandinn gerði sér ekki grein fyrir því að startarinn virkar (af öryggisástæðum) einungis þegar valstöng sjálfskiptingarinnar er í stöðu P eða N. Sé bílnum lagt með skiptinguna stillta á D og í handbremsu er ekki hægt að gangsetja hann nema færa valstöngina fyrst í P eða N. Reglan er sú að ganga frá sjálfskiptum bíl í P og í handbremsu.

Bilun í inniljósum
Spurt: Ég er með Pajero. Þegar ég opna framdyrnar kemur ekkert ljós hvorki loftljósið, ljósin neðan á hurðunum né rauða bílhurðaljósið í mælaborðinu. Hinsvegar er allt í lagi með afturdyrnar og afturhlerann. Hvernig getur staðið á þessu? Frosnir rofar eða brunnið öryggi?

Svar: Frost er ekki líklegt til að valda þessu og öryggið er heilt úr því ljósin kvikna þegar afturdyr eru opnaðar. Orsökin er sú að rofarnir í framkörmunum eru ónýtir. Plokkaðu annan rofann úr framdyrastafnum, aftengdu og gakktu þannig frá rafleiðslunni að hún geti ekki leitt út í jörð og að þú missir hana ekki inn í stafinn og týnir. Farðu með rofann í N1 og keyptu 2 dyrarofa sem passa í gatið. Endurnýjaðu báða rofana í framstöfunum og ljósin munu verða eðlileg á ný.

Frosnar hurðir og læsingar
Spurt: Ég hef átt í brasi við að opna bílinn minn í frostinu að undanförnu. Þótt fjarstýringin heyrist virka hef ég ekki getað opnað bílinn - engar dyr. Læsingin fyrir lykilinn frýs líka föst. Þetta getur komið sér afar illa þegar maður á að vera mættur í vinnu og þetta kemur upp á. Hvað er annað hægt að gera í svona máli en að geyma bílinn í upphituðu rými yfir nótt?

Svar: Þegar loftraki er mikill og hitastig fer snögglega niður fyrir frostmark, t.d. yfir nótt, frjósa læsingar bíla oft fastar - jafnvel "fínni'' bíla. Neyðarúrræðið sem sjaldan klikkar er að sækja fulla skúringafötu af heitu vatni og hella á hurðina umhverfis læsinguna. Þá kemstu a.m.k. inn í bílinn, a.m.k. eftir 2 fötur. Ekki skal þó mælt með þessu sem lausn. Sé unnt að koma því við er ráðlegra að reyna að hita hurðina umhverfis læsinguna t.d. með hitapoka, heitu vatni í plastpoka, með hárþurrku o.s.frv. Vandamálið er raki sem situr í læsingunni innan í hurðinni og frýs. Á verkstæði er hurðarspjaldið tekið úr, læsingin úðuð með hreinsiefni (blöndungs- eða bremsuhreinsi á úðabrúsa), blásið af henni og úr lykilsílindranum með þrýstilofti. Læsingin innan í hurðinni er þvínæst úðuð með holrýmisvaxi og lásaolíu (eða sérstaklega blönduðu grafítdufti) sprautað inn í lykilopið.
En hurðirnar geta líka frosið fastar í dyrunum vegna raka í þéttingum sem frýs. Þá dugar varla annað en skúringarfatan og að koma bílnum í upphitaða geymslu. Koma má í veg fyrir þetta með því að smyrja þéttingar á hurðum og í dyrakörmum með sílikon-efni sem fæst á bensínstöðvum, annars vegar er sílikon-stifti (betra) en hins vegar á úðabrúsa (Sílikonúði).

125
Stirt vökvastýri
Spurt: Toyota Corolla 2004 er með fínlegt skrölt sem virðist koma frá stýrishólknum þegar farið er í holur. Hvað getur þetta verið?

Svar: Ónýtur hjöruliður á stýrisstöng. Stundum veldur hann braki og brestum og getur gert stýrið þyngra til annarrar hliðar eða beggja. Gildir um flestar tegundir bíla.

Dodge vondur í gang í kulda
Spurt: Dodge 2500 Club Cab árg. 1997 með 5,9 dísilvélinni. Vélin er erfið í gang köld og verður að snúast um 2000 sn/mín þar til hún hefur náð vinnsluhita. Eftir það gengur hún nokkuð eðlilega. Vélarljósið lýsir ekki. P.S. Hvers vegna er kóðalestur svona dýr?

Svar: Í vatnsganginum er hitanæmur rofi (pungur) sem stýrir kaldstartinu. Hann er líklega óvirkur. Þú færð hann í N1. Gefðu upp skráningarnúmer bílsins eða framleiðslunúmer (VIN). Varðandi kóðalesturinn þá þarf dýran búnað (jafnvel 3-4 kóðalesara á um 500 þús. kr.stykkið ) til að geta lesið kerfi örfárra bíla. Kóðalestur er ekki dýr hérlendis - það er markaðurinn sem er of lítill.

Musso sem sprengir og kokar
Spurt: 1997 Musso (2300 bensínvél). Nú hikstar vélin við inngjöf, kokar, höktir og/eða sprengir. Eftir sprenginguna er hann síðan fínn þar til tekið er af stað aftur. Lausagangurinn er ójafn.

Svar: Settu slurk af ísvara í bensínið. Keyptu nýja kertaþræði í umboðinu og endurnýjaðu þá ásamt kertunum. Notaðu ódýrustu NGK-kerti (N1) og endurnýjaðu þau á 10 þús. km. fresti.

Á ég að kaupa Pajero Sport?
Spurt: Ég er að velta fyrir mér kupum á Pajero Sport GLS túrbódísil árg.1999. Ég er áhugamaður um skotveiði og þarf jeppa. Vinir mínir segja mér að ég komist ekkert á Pajero Sport en það er ekki eins og ég ætli upp á jökla heldur einungis slóðir að veiðisvæðum til að ganga svo til veiða. Getur þú sagt mér eitthvað um þessa gerð jeppa og myndir þú mæla með þessum?

Svar: Pajero Sport er, að mínu áliti, dæmigerð þúfnapúta. Hönnunin er allt of gömul, byggð að miklu leyti á gamla 200-pallbílnum (en þó með gorma að aftan). Grindin er mjög klossuð og þung, stýrisgangur frumstæður sem gerir það að verkum að stýrið leggur mjög lítið á. Jeppinn er því afar stirður í öllu snatti og lítið spennandi í torfærum. Gírkassarnir hafa verið til stöðugra vandræða (þessi MMC-helvíti með boltuðu pönnunni) og varahlutaverð upp í skýjunum. Ég mæli því ekki með honum. Ég tel að þú værir betur settur með Suzuki Grand Vitara eða Sidekick sem er liprari, sparneytnari og þægilegri í borgarakstri; sennilega duglegri í torfærum og bilar sjaldnar.

Stuldur og rógur - margt er sér til gamans gert!
Spurt:
Veist þú af því að verið er að birta efni af vefsíðunni þinni án þess að getið sé heimildar (ákveðið veffang sem ég sleppi hér) - ekki nóg með það heldur er á sömu vefsíðu verið að bera það á þig að þú skrifir alltaf jákvætt um vörur þeirra sem þú ert að vinna fyrir þá og þá stundina? (stytt bréf).

Svar: Þakka fyrir ábendinguna. Ég þekki ekki þetta ákveðna dæmi - en það kemur mér ekkert óvart í þessu efni. Grófari ritstuld, sem mér hefur verið bent á, höfum ég og fleiri, sem orðið hafa fyrir slíku
, kært til forráðamanna viðkomandi vefsseturs - stundum með árangri. Hins vegar hef ég ekki tíma til að eltast við skúrka sem skreyta sig með stolnum fjöðrum - efnið virðist a.m.k. vera einhvers metið hjá einhverjum svo lengi sem það þykir ómaksins vert að nota það án leyfis. Stundum hefur verið beðið sérstaklega um leyfi til að nota eða vísa í efni af vefsíðunni minni. Sjálfsagt er að veita slíkt leyfi, sé um það beðið og almennar reglum um tilvísun virt.
Ég hef skrifað um bíla og bílatengt efni í brátt 30 ár. Fyrstu 10 árin kvörtuðu mörg bílaumboð undan mínum skrifum vegna þess að þeim fannst viðkomandi bíl (sem að sjálfsögðu var sá besti í heimi og gallalaus) ekki hælt nógu mikið. Ég hef aldrei tekið tillit til þeirrar gagnrýni (jafnvel þótt auglýsingastjórar viðkomandi prentmiðils hafi bölvað mér í sand og ösku fyrir að fæla bílaumboð frá því að auglýsa) enda dæmigerð íslensk nesjamennska. Og hér má bæta því við að ég hef unnið ráðgjafarstörf fyrir flest bílaumboð sl. 3 áratugi (að undanskildum Ræsi, Bernharð og Toyota). Gagnrýni virði ég, sé hún málefnaleg og/eða réttmæt (mér getur orðið á eins og öðrum) en ég læt ekki gagnrýni, sem slíka, stjórna því hvernig ég skrifa um bíla og annað. Svo má ekki gleyma því að enginn upplifir sama bílinn eins - og öllum er heimilt að skrifa um bíla; öllum er heimilt að stofna vefsíður til að birta slíkt efni- ef þeir nenna og tíma. Ég kosta mína vefsíðu sjálfur, birti ekki auglýsingar né sel eitt eða neitt.Ég hef ekki reynt að telja fólki trú um að ég sé hlutlaus - þvert á móti kemur fram í haus vefsíðunnar að allt, sem birtist á þessari vefsíðu, séu mínar persónulegu skoðanir (byggðar á minni reynslu, þekkingu eða fordómum) og á mína ábyrgð. Segja má að þetta sé frekar lýsing á bíl en prófun og/eða gæðamat.
Engin skilyrði eru fyrir því að lesa upplýsingar á vefsíðunni minni, hvorki aðgangsgjöld né krafa um skráningu af neinu tagi. Rógburður er ekki erfiðsvinna og er, því miður, óaðskiljanlegur hluti af íslensku samfélagi því Ísland er föðurland öfundarinnar. Hugsjónarstarf af þessu tagi kallar á nafnlaust skítkast - þeir sem verst eru haldnir af peningagræðgi (sem oftar en ekki eru jafnframt þeir heimskustu) botna ekkert í því hvernig nokkur nennir að reyna að aðstoða annað fólk - án þess að fá greitt fyrir það í peningum eða fríðu - það er þeirra vandamál. Aðalatriðið finnst mér að þeir eru miklu fleiri sem nota vefsíðuna og telja sig hafa af henni gagn heldur en þeir sem gagnrýna hana með nafnlausu baknagi og nöldri. Mér er því slétt sama um þessi grey sem stunda róginn - enda yfirleitt skræfur sem eiga bágt!

124
Ökuljós: Peruskipti (losaðu ljóskerið og losnaðu við baslið)
Nú í skammdeginu veitir maður því athygli að við mætingu virðast ljós margra bíla vera ill eða rangt stillt - fyrir utan alla þá "eineygðu.'' Í sumum tilvikum blinda þessi skökku ljós þótt þau séu stillt á lága geislann.
Þegar vantar peru leita margir til bensínstöðva sem auk þess að selja perurnar bjóða jafnframt þá þjónustu að setja þær í fyrir fólk. En starfsmenn bensínstöðva eru oft ekki öfundsverðir af þessu hlutverki. Oftar en ekki getur verið mjög erfitt að komast að bakhlið ljóskers til að koma peru fyrir í réttri í stöðu og festa henni með spennu. Afleiðingin verður oft sú að verkið tekur langan tíma. Verra er að perurnar snúa jafnvel ekki rétt, eru skakkar, jafnvel lausar. Það skýrir þennan "rangt stillta geisla'' sem nú er algengur.
Ljósker flestra bíla núorðið eru þannig hönnuð að stilling geislans er innan í ljóskerinu og breytist ekki þótt ljóskerið sé tekið úr bílnum og sett í sama bíl aftur, sé ekki átt við stillingarnar. Flestum ljóskerjum er fest í framstykki bíls með tveimur, þremur eða fjórum 6 mm boltum með haus fyrir 10 mm topp eða lykil/stjörnuskrúfjárn. Í stað þess að baksa við að koma perunni réttri í perustæðið og spenna hana fasta, t.d. á milli rafgeymis og ljóskers og sjá ekki handa skil, er mun auðveldara og vænlegra til árangurs að losa ljóskerið. Oftast nægir að losa það, taka boltana úr og hnika því til. Þá er auðveldara að skipta um peru á öruggan og fljótlegan hátt. Þótt ljóskerið sé losað breytist stilling geislans ekki sé því rétt fest aftur.

Fúleggjafnykur af útblæstri
Stundum nær vatn að safnast fyrir í hvarfakútum í útblæstri bensín- og dísilvéla og fúlna. Lyktin af útblæstrinum eins og af kasúldnum eggjum; - súr, fúl og andstyggileg. Besta efnið, sem ég hef notað sjálfur, til að eyða þessari lykt nefnist BELLADD og fæst hjá Tæknimiðstöð bílgreina í Grafarvogi, hjá varahlutadeild Toyota og víðar.Það er til fyrir bensín eða dísilvélar. Bætt út í eldsneytið og úðað í loftinntakið.

Munurinn á spólvörn og seiglæsingu
Lesandi spyr um muninn á spólvörn (ASR = Automatic Spin Reduction) og mismunardrifslæsingu (LSD = Limited Slip Differential) og hvort sé betri búnaður?

Svar: Þótt tilgangur beggja kerfanna sé að tryggja veggrip drifhjóla í hálku eru þau í grundvallaratriðum frábrugðin. ABS-nemar við hvert hjól telja hve marga hringi viðkomandi hjól snýst á sekúndu og sendir þær breytur til sérstakrar tölvu sem notar þær til að girða fyrir að hjól læsist fast við bremsun og skauti, einnig til að tryggja stöðugleika í beygjum (upp að vissu marki) og til að auka veggrip. Hjól sem snögglega snýst hraðar en önnur hefur misst veggrip og spólar. Spólvörnin (ASR) hægir snúninghraða t.d. vinstra hjóls snúist það hraðar en hægra hjól á sömu hásingu (eða öfugt) og gerir það með því að tölvan stýrir bremsun hjólsins. Kerfið miðlar vélarátaki til þess hjóls sem hefur betra veggrip (meiri spyrnu). Spólvörnin notar ABS-bremsukerfið í þessum tilgangi á sjálfvirkan hátt en með öfugu formerki miðað við ABS-læsivörnina - sem tryggir að hjól hætti ekki að snúast (á meðan hjól snýst er hægt að stýra því en ekki hjóli sem skautar).
Seiglæsing (Limited Slip Differential = LSD) er annars konar búnaður, diskakúpling sem komið er fyrir í innan í mismunardrifi og leitast við að tryggja jafnt átak á bæði drifhjól þegar stefna bíls er beint af augum. Sjálfvirk seiglæsingin, sem er traustari og dýrari búnaður, eykur veggrip í torfærum og rásfestu í akstri á beinni braut. Ókostur er að henni fylgir viðnám þegar beygt er (jafnvel með smellum) og getur gert bíl stirðbusalegan. Sjálfvirkar mismunardrifslæsingar eru núorðið mest notaðar í jeppum. Spólvörn hentar mun betur fyrir fólksbíla en með henni er verið að nýta ABS-kerfið betur.

DEC-COOL kælivökvi og ódýrari varahlutir í Ford pallbíla
Spurt: Ég er með GM-jeppa sem á að endurnýja kælivökva á á 5 ára fresti. Hvar fær ég DEC-COOL-frostlöginn sem á að vera á þessu kerfi? Annað: Ég þarf að kaupa 2 framhjólslegur í Ford F-150. Þær kosta um 50 þúsund krónur stykkið í umboðinu. Fæ ég þær einhvers staðar á sanngjarnara verði?

Svar: Þú færð bæði frostlöginn og legurnar hjá IB ehf. á Selfossi. Legurnar kosta mun minna hjá IB og gildir um einnig um aðra varahluti í ameríska pallbíla frá Ford, GM og AMC/Chrysler. (Þeir sem hafa fengið hafa andarteppu-áfall í Heklu þegar þeim hefur verið sagt að einn ABS-hjólnemi í MMC Pajero kosti 49 þúsund krónur (nú í janúar 2009, og þetta er ekki brandari!) geta leyst málið á mun hagkvæmari hátt með því að fá nemann pantaðann hjá Bílahaga ehf. en þeir kaupa inn varahluti og sérpantanir frá Bretlandi á 10 daga fresti í flest alla bíla sem seldir eru í Evrópu. Ath. að til þess að hægt sé að panta hluti þarf að gefa upp verksmiðjunúmer bíls (VIN) og varðandi ABS-hjólnema þarf að taka fram hvort neminn sé fyrir hægra eða vinstra hjól að framan eða aftan).

123
Smurolía í Skoda og varasamur búnaður í Explorer

Smurolíuskipti: Skoda Octavia 1.9 tdi dísill + eftirmáli + greinargerð frá Þjónustudeild Heklu (pdf-skrá).
Spurt: Hvenær á að endurnýja smurolíu á nýlegum Octavia dísil? Getur maður gert það sjálfur ? Er eðlilegt að nýleg vél í Octaviu brenni smurolíu? Hvaða smurolíu mælir þú með á þessa dísilvél?

Svar: Vek athygli á að þessi dísilvél er einnig í mörgum gerðum VW-bíla, í Audi A4 og sumum evrópskum Ford. Varðandi Octavia 1.9 tdi á að endurnýja smurolíu og smursíu þegar gaumljós í mælaborði gefur það til kynna eða eftir 30 - 32 þús. km. akstur. Í pönnunni er nemi sem mælir borðhæð smurolíunnar og kveikir gaumljósið þegar þörf er á endurnýjun. Plasthlífin er tekin ofan af vélinni - fremst á henni er áskrúfað upprétt hylki úr plasti. Smursían (pappahólkur) er í hylkinu. Til að losa hylkið er notaður 14 kanta 76 mm skálarlykill (fæst hjá N1). Áður en ný sía er sett í (fæst hjá umboði, Kistufelli, N1 o.fl.) þarf að þurrka upp olíuna úr botninum. Ný sía ásamt nýjum o-þéttihring er sett í og hylkið hert í 25 Nm. Bílnum er lyft og slakað á stultur. Botntappinn skrúfaður úr og smurolían tæmd í trog. Tappinn settur í og ný smurolía á vélina (magnið er gefið upp í handbókinni). Á þessa vél á einungis að nota syntitíska smurolíu með seigjusvið samkvæmt upplýsingum í handbók (15w-40 hentar vel íslenskum aðstæðum allan ársins hring hvar sem er á landinu). Tegund smurolíu skiptir ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að tekið sé fram á umbúðum að smurolían standist gæðastaðal VW. Fyrir 30 þús. km. notkun er staðallinn VW 507.00 en vW505.01 fyrir 15 þúsund km. Ekki er mælt með ódýrari smurolíu og tíðari endurnýjun frekar en á nýrri bensín- og dísilvélum yfirleitt. Eftir endurnýjun síu og smurolíu slekkur neminn í pönnunni gaumljósið sjálfkrafa (tengt húddlæsingunni - kviknar aftur eftir 100 km hafi ekki verið bætt á vélina). Smurolíubrennsla, allt að 0,5 lítrum á hverja 1000 km, er eðlileg hjá Octavia 1.9 tdi og mörgum öðrum nýlegum dísilvélum, ekki einungis VW/Skoda heldur einnig t.d. Toyota (þá eyðslu vantar oftast í útreikning framleiðanda á sparneytni bílanna). Mikilvægt er að fylgjast reglulega með olíustöðunni og bæta á eftir þörfum. Sérstakur búnaður kemur í veg fyrir afgasmengun vegna smurolíubruna. Notaðri smurolíu og síu á að farga hjá spilliefnamóttöku viðkomandi sveitarfélags.
EFTIRMÁLI: Þetta svar, en það er fengið frá SKoda og ber saman við upplýsingar í viðhaldshandbókum, og sem mér hefur alla tíð fundist glannalegt en vildi fá staðfest, vakti sterk viðbrögð á meðal lesenda, fyrst og fremst fagmanna.
Bifvélavirki, sem þekkir vel þessar vélar, fullyrðir að ekkert vit sé í að nota smurolíuna lengur en sem nemi 15 þús. km. og/eða einu ári á þessar dísilvélar (Skoda og VW) og nefnir dæmi um vélar sem hafa "sprungið" áður en 30 þús. km. mörkum hafi verið náð.
Starfsmaður bílaleigu sem notar Octavia 1.9 tdi. segir mér að fljótlega eftir að þeir byrjuðu með bílana hafi komið í ljós að við fyrstu olíuskipti í 25 - 30þ km hafi sían reynst alveg samanskroppin og full af sóti. Þeir hafi því breytt smurolíuskiptatímanum í 15 þús. km.
Annar bifvélavirki nefndi að varhugavert væri að treysta nemanum í pönnubotninum - sagðist vita dæmi þess að hann hafi ekki kveikt gaumljósið. Sá sagðist vita um a.m.k. 2 dæmi þar sem þessar vélar hefðu „hrunið’’ á ábyrgðartímanum áður en 30 þús. km akstri var náð. Þriðji bifvélavirkinn hjá umboðsþjónustuverkstæði fyrir VW og Skoda sagði alla á verkstæðinu sammála um að óðs manns æði væri að draga olíuskipti á þessum dísilvélum umfram 15 þús. km. Hann sagði jafnframt að þjónustudeild Heklu vissi af þessu vandamáli. Ég hafði því samband við þjónustustjóra Heklu og á alveg eins von á að Skoda-eigendur muni heyra frá þeim um þetta mál innan tíðar.
En hvers vegna gefur bílaframleiðandi út jafn hæpin fyrirmæli og Skoda/VW virðast gera varðandi þessar dísilvélar. EFtir því sem ég kemst næst er kann þar að eiga hlut að máli viðmið sem fyrirtæki, sem kaupa árlega fjölda bíla sem þau leigja út sem flota (Fleet leasing), en það nefnist „förgunargildi’’ (á ensku disposal index) og segir til um magn og kostnað við förgun rekstrarefna á hvern ekinn km. Því lægra sem förgunargildið er því hagkvæmari telst bíllinn vera í rekstri. Það gæti skýrt þessar hæpnu reglur (30 þú. km) sem kunna að geta gengið við einhverjar ákveðnar aðstæður en greinilega ekki hérlendis. Berist mér upplýsingar frá Heklu um þetta mál mun ég birta þær hér.

122
Avensis, ruglaðar samlæsingar og vélarljós
Spurt: Bílinn minn er Toyota Avensis árgerð 1999, beinskiptur með 1800-vél. Fyrir nokkrum mánuðum fóru samlæsingarnar að gera mér gramt í geði: Stundum virkaði fjarstýringin ekki og aflæsa varð með lyklinum. Læsingarkerfið tók upp á því öðru hverju að aflæsa af sjálfsdáðum og bíllinn því ólæstur þegar hann átti að vera læstur. Kerfið getur tekið upp á því að læsa og aflæsa af sjálfsdáðum í keyrslu. Nú er svo komið að fjarstýringin er steinhætt að virka þótt ég hafi fengið nýja rafhlöðu setta í hana hjá Toyota. Þegar ég opna skrána í bílstjórahurðinni núna með lyklinum aflæsast ekki skrárnar í hinum eins og áður var og ég þarf að svissa á og nota samlæsingartakkann til að aflæsa þeim og skottlæsingunni. En ég get læst öllu samtímis með lyklinum frá bílstjórahurðinni. Þetta er fjandi óþægilegt.
Annað vandamál hefur nú bæst við því "Check Engine-ljósið'' kviknaði og lýsir nú stöðugt án þess að ég verði var við gagntruflun í vélinni eða aukna eyðslu. Mér var sagt að líklegasta ástæðan væri bilaður súrefnisskynjari. Getur verið eitthvað samband á milli þessara tveggja bilana (rafkerfi) eða hvað myndir þú telja að væru orsakir?

Svar: Toyota Avensis (1600 og 1800) af þessari kynslóð (1998-2003) eru með gangöruggustu bílum og bilanir því fátíðar en að sama skapi þekktar.
Varðandi þessa undarlegu hegðum samlæsinganna er orsökin, í langflestum tilfellum, bilaður rofi áfastur læsingunni í bílstjórahurðinni og/eða skemmdar leiðslur í þeirri hurð . Ráðlegg þér að endurnýja rofann og leiðslukerfið í bílstjórahurðinni. Hvort tveggja færðu hjá umboðinu.
Þegar vélarljósið lýsir eru það skilaboð um að vélartölva bílsins hafi greint frávik frá eðlilegu ástandi, þ.e. geymi bilanakóða í minni. Eðlilegast er að fá kerfið bilanagreint á Toyota-verkstæði með kóðalestri. En vegna þess hve lýsing þín á ástandinu er góð þ.e. hvorki gangtruflun né aukin eyðsla (bilaður súrefnisskynjari myndi valda öðru hverju eða báðu og ónýtur Hall-effect-nemi í kveikjunni þýddi að vélin færi ekki í gang) tel ég næsta víst að þú getir sparað þér kostnað við kóðalestur því mestar líkur eru á að neminn (pick-up) í kveikjunni sé að gefa sig. Neminn (pikköppið) kostar svipað og kóðalestur hjá N1 (um 11 þús. kr. nú í jan. 09). Þegar skipt er um þennan nema í kveikjunni þarf að gæta þess að svissinn sé EKKI á og að rafgeymir sé EKKI tengdur. Ekki þarf að slökkva ljósið með tölvu (núllun) eftir þessa viðgerð - það slokknar sjálkrafa þegar vélin er gangsett.

Staðreynd um handbremsuna
Þeir sem spara handbremsuna, þ.e. nota hana ekki í hvert skipti sem þeir stöðva bílinn og drepa á vélinni, greiða þann "sparnað'' (misskilning) dýru verði - oft með árlegri viðgerð fyrir skoðun. Það sem eyðileggur handbremsu er notkunarleysi (stirðnun í búnaði og börkum). Það sem tryggir lengsta endingu handbremsu og hagkvæmari útgerð bíls er regluleg notkun hennar. SPARAÐU EKKI HANDBREMSUNA ÞVÍ ÞAÐ ER UNDANTEKNINGARLAUST VONDUR BISNESS!

Lélegur aukabúnaður í Ford Explorer
Spurt: Ég er í vandræðum með Explorer LTD 2004. Startarinn virkar ekki, virðist vera "dauður'' þótt nóg rafmagn sé fyrir ljós og allan annan rafknúinn búnað. Getur ástæðan verið sú að ég drap óvart á vélinni með skiptinguna í D en ekki P? Gæti þetta lagast við að af- og endurtengja rafgeyminn? Mér var sagt að prófa að setjast inn í bílinn og læsa honum með fjarstýringunni og setja síðan í gang. Það virkaði í eitt skipti. En þá tók ekki betra við því inniljósin slokknuðu ekki sjálfkrafa en lýsa stöðugt og nú er engin leið að koma vélinni í gang hvernig sem fjarstýringarnar eru notaðar, en þær eru 3 sem fylgja bílnum, og heldur ekki þótt notaður væri kóðinn sem er utan á dyrastafnum. Ég varð að fá bíl frá Vöku til að flytja bílinn heim. Hvað gerir maður í svona stöðu?

Svar: Þetta eru 2 ótengd atriði. Inniljósin lýsa stöðugt af því að stillinum fyrir mælaborðsljósin hefur óvart verið snúið á fullan styrk. Slakaðu rofahjólinu niður um 2 þrep og inniljósin munu haga sér eðlilega. Startvandamálið er vegna þess að ein fjarstýringin er aukabúnaður fyrir fjarstart. Sá aukabúnaður er tengdur inn á tölvukerfið með þjófatengjum og þau valda þessari bilun. Þótt þessi búnaður sé framleiddur fyrir Ford er hann lélegur og tengingarnar alltaf til vandræða. Ráðlegg þér að láta aftengja fjarstartið hjá næsta Ford-verkstæði sem mun lagfæra skemmdir á leiðslum um leið. Fjastartinu ásamt viðkomandi fjarstýringu skaltu fleygja.

Hnökrar í stýri
Spurt: Jeppinn minn er orðinn leiðinlegur í stýrinu - þegar ég legg á til vinstri koma hnökrar í stýrið og hljóð frá vökvastýrisdælunni og það er þyngra að leggja á til vinstri en til hægri, eða það finnst mér a.m.k. Hver getur ástæðan verið?

Svar: Flestir bílar, þar með taldir lúxusjeppar, eru núorðið með tannstangarstýri með vökvaaðstoð. Stýrisstöngin frá stýrishjólinu er tengd stýrisvélinni um hjörulið á neðri endanum, þ.e. við stýrisvélina. Hjöruliðurinn er yfirleitt ekki með smurkopp. Með tímanum slitna þéttingar í björgunum sem innihalda nálarnar sem mynda 4 legur krossins; raki kemst inn í þær og legan stirðnar. Sé ein björgin stirðari en hinar getur verið þyngra að leggja á til annarrar hliðarinnar. Þegar fleiri eru stirðar eða jafnvel fastar þyngist stýrið og högg og hnökrar geta fylgt. Stundum er hægt að laga þetta til bráðabirðga með því að úða WD-40 eða sambærilegri ryðolíu á hjöruliðinn samtímis því sem aðstoðarmaður snýr stýrinu á bæði borð. Eðlilegast er að endurnýja hjöruliðinn.

Eitthvað að dísilolíunni eða ?
Spurt: Ég er á Land Rover Defender 300TDI ...og er búnað vera taka olíu núna hjá Atlantsolíu í um ár og hef ekki verið ánægður með torkið í vélinni. Mig var farið að gruna ýmislegt og prófaði að hreinsa síur og
skoða tíma á olíuverki, grandskoða millikælinn o.fl. Svo vill til að ég tek næstum fullan geymi af dísilolíu hjá N1 í Staðarskála á leið norður um daginn. Breytingin á bílnum varð ótrúleg - það var engu líkara en að vélin hefði fengið 100 Nm aukatork. Síðan set ég Atlantsolíu aftur á geyminn og það er eins og við manninn mælt að hann verður aftur leiðinlegur, lélegt tork í 5. gír. Nú í vikunni tók ég síðan aftur olíu hjá N1 og bíllinn er aftur hinn sprækasti - rýkur upp Ártúnsbrekkuna í 5. gír. Ég á bágt með að trúa þessu - getur verið að gæðamunurinn sé svona mikill á dísilolíunni?

Svar: Ég get einungis svarað fyrir mig persónulega. Ég prófaði dísilolíu frá Atlantsolíu í Njarðvík á minn dísilbíl fyrir um 2 árum. Ég hafði þá ekið bílnum um 400 þús. km. án gangtruflana enda skipt reglulega um síu. Fram að því hafði ég skipt við Skeljung og ekki orðið var við vatn né sora í dísilolíunni í um áratug. Nú brá svo við að vélin fór að ganga óreglulega og það voru óhreinindi og vatn í eldsneytissíunni. Eftir að hafa skipt um síu og flutt innkaupin yfir til Orkunnar hefur bíllinn gengið eins og klukka. Hins vegar hef ég ekki orðið var við nein vandamál vegna bensíns frá Atlantsolíu sem ég hef keypt við og við sl. 2 ár. Ég hafði samband við stjórnanda hjá Atlantsolíu og benti honum á þessa reynslu mína af dísilolíunni. Viðbrögðin voru undarleg og greinilegt að viðkomandi hafði engar áhyggjur af þessu eða hélt greinilega að ég færi með fleipur. Síðan þá hef ég fengið fyrirspurnir vegna gangtruflana í dísilvélum og í sumum tilvika hefur viðkomandi keypt dísilolíu hjá Atlantsolíu. Ég hef bent viðkomandi á að endurnýja síur og skipta yfir á annað olíufélag til prufu. Hef ekki fengið upplýsingar um árangur nema í einu tilviki (og nú í þínu) þar sem reynslan varð sú sama og hjá mér. Síðan hefur mér verið sagt að atvinnubílstjórar séu ekki ánægðir með dísilolíuna hjá Atlantsolíu - en sel það ekki dýrar en ég keypti því mér er jafnframt kunnugt um að hópur leigubílstjóra er í föstum viðskiptum við Atlantsolíu - og þeir myndu örugglega láta í sér heyra ef einhver væri athugavert við gæði olíunnar. Það er hörð samkeppni á þessum markaði og því þarf að gæta sín á því að fullyrða ekki neitt nema það sem maður hefur séð með eigin augum eða sannfærst um af eigin raun. Með því er ég ekki að bera brigður á það sem fyrirspyrjandi segir, bendi einungis á að í þessu efni geta verið ýmis huglæg atriði sem villa manni sýn (ágætt dæmi eru pillurnar sem fólk keypti og setti út í bensínið til að auka sparneytni. Sumir töldu sig mæla minni eyðslu þótt ljóst hafi verið frá upphafi að pillurnar vöru algjörlega gagnslausar nema sem svikabragð til að hafa af fólki fé). Mér finnst mjög ósennilegt að olíufélag, sem á allt sitt undir sölu eldsneytis, væri að selja lélegri dísilolíu en önnur félög í lengri tíma án þess að gæðaeftirlit hringi til þess gerðum bjöllum. En óhöpp geta alltaf gerst og hjá öllum fyrirtækjum. Hins vegar er það staðreynd að ekkert opinbert gæðaeftirlit er með eldsneyti hérlendis - þrátt fyrir skattlagningu ríkisins. Ég hef látið núverandi markaðsstjóra Atlantsolíu vita af þessu og veit að þar er í gangi skipulagt og reglulegt gæðaeftirlit og hafi eitthvað verið athugavert við dísilolíuna munu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Jeep Laredo: Inniljós lýsir stöðugt
Spurt: Jeep Laredo 2004. Hann tók allt í einu upp á því að hafa logandi á inniljósum stöðugt. Hægt er að slökkva á þeim á rofanum við stýrið en þá slekkur maður mælaborðsljósin og það er ekki vinsælt í skammdeginu. Ég hélt nú reyndar að þetta hafi eitthvað með mælaborðið að gera þar sem maður getur valið alls konar stillingar - en þótt ég hrærði í því varð það árangurslaust. Frúin renndi við á verkstæði og þar var henni sagt af ábúðarfullum „sérfræðingi’’ að þetta þurfi nú að skoða eitthvað nánar sem þýði 2 tíma í bilanaleit. Er eitthvað sem þér dettur í hug að geti valdið þessu.

Svar. Þetta er þekkt truflun sem kemur upp í fyrstu frostum og umhleypingi, ekki bara í þessum bíl heldur bílum af mörgum öðrum tegundum. Þegar dyr eru opnaðar eða aflæst með fjarstýringu gefur stöðurofi við læsinguna inni í hurðinni straum á inniljósin í gegn um tímalið með þétti. Ljósið lýsir í um 40-50 sek eða þar til þéttirinn er tæmdur og slokknar þá sjálfkrafa séu dyr ekki opnaðar. Eftir að dyrnar hafa verið opnaðar gefur rofi í dyrastaf straum á inniljósin. Lásrofinn í bílstjórahurðinni stendur á sér eða einhver stafrofanna er bilaður. Það þarf enga bilanagreiningu til að leysa þetta mál. Hins vegar þarf sérstaka þekkingu á amerískum bílum til þess að brjóta ekki festingar á hurðaspjaldinu innan á bílstjórahurðinni og því myndi ég ráðleggja þér að kanna það mál áður en þú velur verkstæði. Stundum hefur dugað að þurrka lásrofann varlega með hitabyssu eða hárþurrku og pakka honum inn í plast.

121
VIRKAR FJÓRHJÓLADRIFIÐ ?
Í vetrarfærð treysta jeppaeigendur á fjórhjóladrifið. En margir hafa uppgötva sér til hrellingar að öryggið, sem þeir stóluðu á, hefur reynst ímyndun ein þegar á hólminn er komið því fjórhjóladrifið virkar ekki! Algengasta orsök bilunar í tengingu fjórhjóladrifs er notkunarleysi (stirðnun) vegna skorts á eftirliti og forvörnum.
Jeppar, sem eru í ábyrgð og fara reglulega í þjónustuskoðun, eiga að vera með yfirfarið fjórhjóladrif og því meiri líkur á að það sé virkt þegar til á að taka. En þjónustuskoðun kostar sitt. Því fer einungis hluti jeppa í slíka skoðun. Og eins og að líkum lætur geta driftengingar bilað hvenær sem er - og af öðrum ástæðum en notkunarleysi.
Bílstjóri þarf að kunna að virkja fjórhjóla- og lágt drif og kunna jafnframt að taka það af. Bílstjóri þarf að vita hvort viðkomandi jeppi sé búinn sítengdu fjórhjóladrifi með læsingu á milli hásinga (Range Rover, Discovery, LandCruiser o.fl.) og hvenær og hvernig setja skuli í lága drifið og hvenær og hvernig skuli nota millidrifslæsinguna. Bílstjóri þarf að vita hvort viðkomandi jeppi sé búinn sjálfvirku fjórhjóladrifi (TOD) og hvernig því sé beitt í ófærð, t.d. lága drifinu og millilæsingunni. Bílstjóri þarf að vita hvort viðkomandi jeppi sé búinn hlutadrifi með handvirkum- eða sjálfvirkum framdrifslokum og hvernig kerfið virkar best í ófærð og í venjulegum akstri.
Algengustu bilanir
Algengasta orsök þess að fjórhjóladrif klikkar er bilun í sjálfvirkum framdrifslokum (rillugrip á nöfum framhjólanna, sem rennt er fram eða aftur með sogi frá dælu eða vél, til að tengja/aftengja hjólið öxlinum. Þá snýst hjólið á nöfinni án þess að snúa framöxlum og mismunardrifi = minna viðnám og minni eyðsla þegar ekið er í afturhjóladrifi). Bili framdrifslokur getur lága drifið einnig orðið óvirkt (öryggisatriði). Rafknúnar tengimúffur virkja framdrif á sumum bílum. Bili sumar gerðir sjálfvirkra loka er lítið mál að lagfæra þær - aðrar gerðir eru einfaldlega ónýtar. Handvirkar framdrifslokur eru oft settar í stað sjálfvirkra á hjólnöfum. Þótt þær séu öruggari búnaður geta þær bilað; þær gleymast ólæstar (bílstjórinn áttar sig ekki á því að auk þess að snúa takka í mælaborði eða beita valstöng þarf hann að fara út úr bílnum og snúa takkanum á framhjólsnöfunum til að fjórhjóladrifið verði virkt). Séu handvirkar framdrifslokur ólæstar en millikassinn stilltur á fjórhjóladrif snuða öxulnafirnar í lokunum, fjórhjóladrifið virkar ekki (falskt öryggi), en framhjólsnafirnar geta rauðhitnað í lengri akstri og eyðilagst.Þá geta handvirkar framdrifslokur gleymst í læstri stöðu í lengri tíma og stirðnað eða eyðilagst. Mikilvægt er að þessi búnaður, af hvaða gerð sem hann kann að vera, sé virkjaður með reglulegu millibili til að varna því að hann stirðni. Rafknúinn mótor (millikassamótor), sem skiptir á milli háa og lága drifsins, sé takka snúið í mælaborði, getur bilað og þannig að hvorki lága drifið né fjórhjóladrifið virki.
Útúrdúr sem þó er rétt að nefna í þessu samhengi: Margir Ford-pallbílar eru með þannig öryggisbúnað að sé drepið á vélinni í 4H fer millikassinn sjálfvirkt í 4L (lága) þegar vélin er gangsett á ný. Sumum bregður við þetta og halda að um bilun sé að ræða: En til að ná millikassanum úr lága drifinu þarf að standa samtímis á bremsunni þegar gírkassi/ sjálfskipting er í hlutlausum (N). Upplýsingar á sólskyggni eru oftast á ensku.
Staðfesting og/eða viðgerð
Eftirtalin sérhæfð verkstæði bjóða jeppaeigendum m.a. skipulagða þjónustu í 3 liðum: Bílvirki á Akureyri (462 3213). Bílhagi í Reykjavík (893 3510), IB ehf. á Selfossi (480 8080), Renniverkstæði Árna Brynjólfssonar í Hafnarfirði (565 1225) og Skipting ehf. í Keflavík (421 3773).
Þessi ákveðnu verkstæði bjóða eftirfarandi þjónustu eigendum og umráðamönnum jeppa af öllum tegundum:

o Prófað hvort fjórhjóla- og lágt drif sé virkt og notkun viðkomandi drifkerfis lýst (fast verð).
o Reynist fjórhjóla- og/eða lágt drif bilað: Gerðar tillögur um úrbætur og áætlaður kostnaður.
o Viðgerð. Raf- og soglagnir og tengibúnaður drifkerfis varinn/smurður og kerfið prófað.

(Aths. Þessi ákveðnu verkstæði hafa skipulagt og undirbúið þessa þjónustu í samvinnu við L.M.J. Hún er sérhönnuð þjónusta við lesendur Vefsíðu Leós. Viðkomandi verkstæði eru viðbúin að veita hana með stuttum fyrirvara. Öll verkstæði bílaumboða, þjónustumboð og almenn verkstæði veita sambærilega þjónustu og af sambærilegum gæðum þótt þar kunni biðtími að vera mismunandi langur og verð mismunandi).

Einn sparneytnasti 6 manna fólksbíllinn
Spurt: Ég hef verið að íhuga að festa kaup á Cadillac Deville CTS árgerð 2002 en er ennþá að reyna að átta mig á kostnaði við kaupin. Ég þykist vita að eyðslan sé þónokkur en hefurðu einhverja hugmynd um bilanatíðnina og verð á varahlutum? Svo sá ég grein á netinu þar sem kom fram að framleiðandi mælti með því að 87 oktan bensín væri notað á bílinn. Er það fáanlegt hér á landi og myndi það borga sig? Og hversu lengi er skynsamlegt(ef það yfir höfuð er) að nota slíkt eldsneyti því mér skilst að vélar krefjist hærri oktantölu-eldsneytis eftir því sem þær eldast. Ef þú hefur eitthverjar ráðleggingar varðandi þessi kaup væru þau vel þegin.

Svar: Hér er einhver smá-miskilningur: Þú átt sjálfsagt við sígilda stóra blöðrulaga 4ra dyra framhjóladrifna De Ville sem er af tveimur gerðum; annars vegar Base og hins vegar DHS/DTS sem er lúxusgerðin og um 5 þús. dollurum dýrari í innkaupi nýr. Vélin er 32ja ventla 4.6 lítra V8 með 4 ofanáliggjandi kambásum, 275 hö við 5600 sn/mín í Base en 300 hö við 4000 sn/mín í DHS/DTS (DHS er Hardtop). Sjálfskiptingin er 4ra gíra HydraMatic með yfirgír. Bíllinn vegur 1750 - 1800 kg, dráttargetan er 2000 kg. Bensíngeymirinn rúmar 70 lítra. Í eðlilegu lagi er eyðsla bílsins um 13 lítrar í borgarakstri en innan við 9 lítrar á þjóðvegi (fer eitthvað eftir aksturslagi - en ekki tíðkast að aka þessum bílum öðru vísi en með mjúkum inngjöfum). Miðað við þyngd og rými er þetta sennilega sparneytnasti 6 manna fólksbíll í heimi.
Í Bandaríkjunum er 87 oktan staðlað bensín. Hjá okkur er þetta hærra vegna þess að verið er að pína út úr of litlum evrópskum vélum afl sem þær ráða ekki við (bilanatíðnin eftir því). Vélkerfið í amerísku bílunum lagar sig sjálfkrafa að þeirri oktantölu sem eldsneytið hefur og vinnur því eðlilega. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því.
Þessir bílar eru þeir vönduðustu á markaðnum enn þann dag í dag - betur smíðaðir, sterkari og betur frá þeim gengið en nokkrum öðrum. Í Bandaríkjunum, þar sem nánast allir bifvélavirkjar sem ætla að standa undir nafni kunna á þessa bíla og geta haldið þeim í toppstandi með reglulegu eftirliti, bila þeir yfirleitt ekki og endast allra fólksbíla lengst.
Útlitið og aksturseiginleikarnir eru sér-amerískt fyrirbrigði. Ef þú ert sáttur við það (og gefur skít í fordóma þeirra sem allt þykjast kunna og vita), ert heppinn með bíl og kaupir þér Chilton-handbók og lærir viðhaldið sjálfur - en það er einfaldara en virðist í fljótu bragði, geturðu gert bestu bílakaup æfinnar í svona eðalvagni.

Bílabúð Benna, IB á Selfossi og Bílabúðin H. Jónsson & Co útvega alla varahluti í ameríska bíla. Verð á varahlutum í ameríska bíla (keypt í Bandaríkjunum) er um 50% af verði varahluta í evrópska bíla.

119
Hvorki "ABS'' né "Airbag'' er skyldubúnaður!

Ábending af gefnum tilefnum: Viðgerðir á ABS-bremsukerfum og loftpúðakerfum (Airbag) eru oft dýrar, ekki síst þurfi að endurnýja tölvubúnað. Mörgum eigendum eldri bíla vaxa slíkar viðgerðir í augum, ekki síst þegar þær kosta jafnvel meira en sem nemur verðmæti bílsins. Því er ástæða til að benda á að hvorugt þessara kerfa er skylda að hafa í bílum - þótt fólk sé sjaldan upplýst um það á verkstæðum. Full skoðun fæst þótt ABS-læsivörn sé óvirk. Eina sem þarf að gera er að taka peruna úr ABS-gaumljósinu í mælaborðinu. Full skoðun fæst einnig þótt loftpúðakerfið sé óvirkt. En með tvennum skilyrðum: Annars vegar þarf að taka peruna úr "Airbag'' gaumljósinu og hins vegar að hylja, t.d. með breiðu límbandi, "Airbag'' merkin sem kunna að vera sjáanleg í stýrismiðju og á mælaborði þannig að þau veiti ekki ókunnugum falskt öryggi. Sé bíllinn seldur þarf að taka sérstaklega fram í afsali sé annað eða bæði kerfin óvirk (ekki dulinn galli). Þessi staðreynd rýrir ekki notagildi bíls og með þessu er ég ekki að bera brigður á öryggisgildi þessa búnaðar (brögð munu hafa verið að því að loftpúðar hafi ekki virkað við árekstur, t.d. í frönskum bílum, þótt ekkert hafi varaði við að þeir væru óvirkir). Óvirk öryggiskerfi geta hins vegar rýrt endursöluvirði bíls og er ekkert óeðlilegt við það. Aðalatriðið er að bíleigandi getur metið þetta sjálfur kjósi hann að spara sér útgjöld.

Steinolía á dísilvél?
Spurt: Hvert er álit þitt á notkun steinolíu í t.d. nýjum Toyota-jeppum ?

Svar: Ég myndi ekki nota hana á bíl, hvorki Toyota eða aðra tegund dísilbíls sem er í ábyrgð og mæli ekki með því að hún sé notuð í dísilvélum með forðagrein (Common rail). Mér hefur ekki tekist að afla óyggjandi upplýsinga um efnasamsetningu steinolíu en tel að margt bendi til að um sé að ræða þotueldsneyti (nefnist "fotogen'' í Skandinavíu) . Það er þynnra en dísilolía (eðlisþyngd 0,77-0,83 á móti 0,855), hámarks rennslishraði (seigja) þotueldsneytis er 8 cSt við -20°C en dísilolíu 3 cSt við 50 °C, blossamark 38 °C en 62 °C hjá dísilolíu. Þá er brennisteinsinnhald þotueldsneytis líklega er meira o.s.frv. Sé steinolían það sama og þotueldsneyti er um aðra tegund eldsneytis að ræða sem ekki er gert fyrir brunavélar með stimplum. Það gæti gengið á eldri dísilvélum með olíuverki og gormaspíssum án íblöndunar feitari olíu (brennisteinninn smyr olíuverk og spíssa) en gera má ráð fyrir brennisteinsoxíði í útblæstri og því meiri loftmengun (dísilbíll á steinolíu kæmist t.d. ekki í gegn um stikkprufur þýsku umferðarlögreglunnar). Í nýrri dísil-kerfum með háþrýstings forðagrein í stað olíuverks (Common rail) eru breytur frá skynjurum notaðar til að stýra því magni sem rafspíssar úða jafnvel í mismunandi mörgum þrepum til að halda útblástursmengun í lágmarki. Í þeim dísilkerfum, sem menga minna en bensínkerfi, hafa hinir ýmsu tæknilegu eiginleikar eldsneytisins afgerandi áhrif og steinolía, óblönduð eða blönduð dísilolíu, myndi líklega orsaka gangtruflanir og/eða skemmdir. Ég fullyrði að enginn fagmaður myndi mæla með því að steinolían sé notuð í stað dísilolíu á dísilvél með forðagrein (Common rail).

Útsláttarrofi í Citroën
Spurt: Ég er með tjónaðan Citroën C4. Öryggisrofinn fyrir bensíndæluna hefur slegið út við höggið. Hvar finnur maður þennan rofa?
Svar: Útsláttarrofinn (inertia switch) er á eða við hvalbakinn öðru hvoru megin við bremsukútinn. Sé hlustað við opna bensínáfyllingu heyrist dælan, sem er í geyminum, fara í gang þegar svissað er á.

Pajero 3.3 DID: Olía saman við kælivökva og hoppandi hitamælir!

Spurt: Er að vandræðast með kælikerfið á Pajero 2001 með 3.2 lítra dísilvélinni. Það kemst einhvern veginn smurolía út í vatnsganginn sem sést m.a. á olíufroðu sem litar kælivökvann. Vélin er eðlileg, fín í gang og hitnar eðlilega, kælivökvinn hverfur ekki af kerfinu, blæs ekki út í vatnsganginn (miðstöðin hitar eðlilega). Þessu fylgir undarleg hegðun hitamælisins, hann á það til að hoppa upp á rautt nokkrar sek. eftir að vélin hefur verið gangsett heit en fer síðan í eðlilega stöðu og tollir þarr þar til drepið er á.

Savr: (Eftirfarandi varð niðurstaðan eftir að við höfðum skipst á upplýsingum): Það er ekkert samband á milli olíunnar í vatnsganginum og hegðunar hitamælisins. Smurolían í vatnsganginum er smit frá ónýtri pakkningu á olíukælinum. Það er hins vegar einungis tilviljun að útfelling á prentrásunum aftan á mælabroðinu veldur, á sama tíma, þessum dyntum í hitamælinum. Eftir að ný pakkning var komin á olíukælinn hvarf olíusmitið úr vatnskassanum og eftir að bakhlið mælaborðsins (prentrásirnar) höfðu verið þrifnar með "Contact Cleaner-úða'' virkaði hitamælirinn eðlilega.

Algeng mistök við stillingu handbremsu

Ábending: Öfugt við það sem margir virðast halda er viðhaldskostnaður vegna handbremsu oftast vegna notkunarleysis og gildir einu hvers konar handbremsu er um að ræða. Besta ráðið til að sleppa við 50 þúsund króna viðgerð vegna óvirkrar handbremsu (kostar jafnvel meira) er að nota hana að staðaldri - nota handbremsuna í hvert einasta skipti sem bíll er stöðvaður og drepið á vél.

Endurnýi bíleigandi sjálfur óvirka handbremsu (vegna notkunarleysis), t.d. barka, borða og tilheyrandi, skiptir miklu máli að stilling (útíhersla) sé rétt framkvæmd. Byrjað er á því að slaka á strekkingu handbremsuvírsins sem tengist handfanginu eða ástiginu. Þegar borðar hafa verið endurnýjaðir er hert út í hjólskálum þar til þeim verður ekki snúið með handafli og síðan losað upp á útíherslunni nákvæmlega þar til skálin snýst án þess að heyrast snerta borðana. Þá er handfangið eða ástigið stillt á 5-7 tönn (fer eftir bílgerðum) og vírinn strekktur í þeirri stöðu þar til allur slaki er af honum og borðarnir heyrast snerta skálar beggja hjóla þegar þeim er snúið með handafli. Þegar handfangi eða ástigi er beitt til fulls eiga hjólin að vera föst. Séu þau ekki föst er stillt á einni tönn ofar og vírinn strekktur betur þar til hjólin festast án þess að handbremsan sé toguð eða stigin í botn. Jafnframt eiga hjólin að snúast án þess að skálarnar snerti borðana þegar handbremsan er ekki í notkun (handfang niðri eða ástig uppi).

Óþétt, dýr ljósker (sem þú þarft ekki að kaupa)
Spurt: Ég er keypti fyrir 3 árum amerískan jeppa af einu af bílaumboðunum. Ég er ekki búinn að losa mig við jeppann, sem reynst hefur ágætlega og ætla því ekki að nafnagreina fyrirtækið. En þar ætla ég aldrei að kaupa bíl aftur vegna hrikalegs verðs á varahlutum og lélegri þjónustu. Fyrir skömmu tók ég eftir því að raki mettaðist innan í gleri annars ökuljóssins sem er eitt af þessum stóru og glæsilegu; - greinilegur verksmiðjugalli, að ég taldi. En eftir að hafa rætt við þjónustustjórann hjá viðkomandi umboði taldist þetta ekki galli vegna þess að liðnir voru 4 mánuðir umfram 3 ár frá skráningu og ökumælir stóð í 107 þúsund km. Hann sagði að ekki væri hægt að gera við þennan leka, framleiðandinn mæli ekki með því og því væri ekki annað en að kaupa nýtt ljósker - en fyrir verð þess má fá ágætan kreppubíl með skoðun.
Mín spurning er þessi: Er þetta ásættanleg þjónusta? Er það rétt að ekki sé hægt að gera við (þétta) svona ljósker?

Svar: Þetta er sú þjónusta sem umboð komast upp með að veita eða veita ekki samkvæmt skilmálum framleiðsluábyrgðar. Það gæti verið fyrirhafnarinnar virði að leita til Neytendastofu og fá úr því skorið hvort aðalljósker bíla eigi ekki að endast lengur en 3 ár samkvæmt lögum um neytendakaup, þ.e. að hvort ekki gildi um þau svokölluð 5 ára regla (5 ára ábyrgð)?
Hins vegar er það rangt hjá viðkomandi þjónustustjóra að ekki sé hægt að gera við svona ljósker í jeppum, jepplingum og fólksbílum - hann veit greinilega ekki betur því þessu er haldið að umboðum af bílaframleiðendum. Það er auðvelt að þétta svona ljósker. Þú losar það úr, skilur perustæðin eftir í bílnum, ferð með það inn og geymir í góðum hita, t.d. nálægt mælgrind hitaveitu, þar til öll móða er horfin af gleri og speglum. Þá fjarlægirðu spennurnar sem halda glerinu, séu þær til staðar. Setur upp hlífðarhanska úr latexi eða neopreni og hlífðargleraugu og þrífur samskeyti glers og ljóskers með iðnaðarspíra (Spiritus Denaturatus) eða Acetoni. Það er best að gera með listmálarapensli. Um 10 mm breitt svæði þarf að vera alveg hreint með samskeytin í miðjunni. Síðan berðu á samskeytin efni sem fæst hjá N1 og nefnist "Permatex, Black Silicone Adhesive Sealant 16B.'' Ein túpa nægir á stórt ljósker. Efninu er dreift á samskeytin með stífum lismálarapensli eða mjóum spaða þannig að það hylji þau jafnt allan hringinn. Spennurnar eru settar á strax á eftir. Ljóskerið þarf að vera í góðum hita yfir nótt. Þegar það er aftir komið í bílinn hefur þetta vandamál verið leyst fyrir brotabrot af því sem kostar rað kaupa nýtt.

Annarri aðferð sem nota má til að spara sér kaup á 40-50 þús, króna aðalljóskeri í Toyota LandCruiser, jafnvel með brotnu gleri, er lýst í Brotajárni nr. 13 (87).

Pontiac Grand Am
Spurt: Ég er í smá vandræðum með Pontiac Grand am ´96 árg. það er 2400 vél í honum. Málið er að hraðamælir hætti að virka, í byrjun stundum núna alveg en km. mælirinn telur þó að hraðamælir virki ekki. Svo vantar mig sleða í rúður þeir eru ryðgaðir það veit enginn neitt um svona ameríska bíla og ég veit ekki hvert ég á að snúa mér til að reyna fá ódýra viðgerð. Mér finnst þetta svo skrítið með hraðamælinn var að spá hvort eitthvað öryggi væri farið. Ef þú hefur einhverjar ábendingar væru þær vel þegnar.

Svar: Þessi Pontiac Grand Am (en ekki Grand Prix eða Trans Am ) var framleiddur hjá Daewoo í Suður-Kóreu. Annað hvort er í honum 4ra sílindra 2,3 lítra Quad-vél eða 3,1 lítra V6 - þú ert væntanlega með 2,3ja lítra vélina. Þessir bílar eru orðnir gamlir svo varla er við því að búast að mörg verkstæði hafi gögn eða kunnáttu til að eiga við þá. En varðandi vélbúnaðinn er Motorstilling í Garðabæ og Skipting í Keflavík líklega einu verkstæðin sem eiga tæki fyrir þessa bíla. Sennilegasta skýringin á biluninni í hraðamælinum getur verið sambandsleysi á háspennukefli eða í fjöltengli eða prentrásum aftan á mælaeiningunni. Mælaeininguna - borðið þarftu að taka úr og þrífa alla snerti/leiðnifleti og tengi með Contact Cleaner (úðabrúsi).
Varahlutaverslanir í Bandaríkjunum eru yfirleitt ekki með hluti (sleða) í eldri bíla en 10 ára. Talaðu við þá sem annast varahlutapantanir í versluninni hjá Bílabúð Benna (benni(hjá)benni.is) og athugaðu þeir geta útvegað þér sleðana - þeir hafa verið seigir að útvega notaða heila hluti í eldri ameríska bíla frá partasölum í USA. En þú mátt reikna með að þeir geti kostað talsvert. Sleðana færðu setta í hjá Bílahaga (verkstæði Sigurðar Einarssonar sem er í Kjarnanum uppi á Höfða, rétt hjá Ísaga).

Eldsneytissparnaður
Spurt: Hefur þú ekki gefið ráð um hvernig svara megi eldsneyti á bíla (án þess að leggja þeim).
Ég er með Grand Cherokee með 4,7 l bensin vél. Nú eru allir (eða flestir) bílar með beina innspýtingu.
Er möguleiki á að slilla þessa bíla þannig að þeir eyði minna.Á ég einhverja raunverulega möguleika á að spara bensín?
Lækkun hámarkshraða á þjóðvegum td úr 95 í 85 (stilla krúsið þannig) mundi það skila einhverju?

Svar: Því miður eru engin kraftaverk eða töfratæki sem breyta eðlisfræðilegum lögmálum eða þeirri staðreynd að þessi Grand Cherokee bíll vegur óhlaðinn 2250 kg og er með tæplega 5 lítra vél. Í fullkomnu lagi eyðir svona bíll ekki undir 14-16 lítrum á þjóðvegi (en myndi eyða 30 lítrum ef hann væri með 20 árum eldra eldsneytiskerfi). Auðvitað væri skynsamlegast að lækka hámarkshraða í landinu niður í 80 km/klst - með því móti mætti spara umtalsvert eldsneyti og jafnvel fækka slysum. En tvennt þarf til að það mætti takast; skynsamlega stjórn og stóraukna umferðarlöggæslu. Reynslan sýnir að hvorugt er líklegt (Ríkissjóður hagnast á dýru eldsneyti og loftmengun). Vandinn við að einstaklingar taki upp sjá sjálfum sér að aka hægar er slysahættan sem það veldur (aukinn framúrakstur).
Í þínu tilviki spararðu mest á því að hafa bílinn í sem bestu ásigkomulagi. Ástandsgreining með mælingu á útblæstri segir hvernig vélin nýtir eldsneytið, platínukerti endurnýjuð við 50-60 þús. km. mörkin, regluleg endurnýjun loftsíu o.s.frv.Óslitin dekk með minnst 30 psi þrýstingi halda eyðslu sem næst lágmarki. Akstursmátinn - að forðast of snögga inngjöf skiptir máli, t.d. að taka krúsið af þegar hraði er aukinn aftur eftir bremsun (hröðun með krúsi þýðir meiri inngjöf en maður myndi gera sjálfur). Hins vegar sparar krúsið eldsneyti á jafnsléttu t.d. stillt á 90.
Aksturslag ræður miklu meiru um eyðslu en margir gera sér grein fyrir. Sparaksturstækni er raunhæf aðferð til að minnka eyðslu. Ég ætla ekki að eyða rými í að lýsa þeirri tækni (til þess eru betri vefsíður en mín) en prófaðu að aka einn dag með það að markmiði að nota bremsurnar sem minnst til að draga úr hraða: Þú munt geta mælt minni eldsneytisnotkun vegna hagkvæmara aksturslags!

Annað:
Hvaða bíll er eyðslufrekur og hver sparneytinn þegar þyngd (öryggi) er tekið með í reikninginn? Er þessi ameríski kraftmikli, strekbyggði, sjálfskipti og lipri 2250 kg (verðlausi) Grand Cherokee, sem eyðir 18-20 lítrum í borgarakstri, eyðslufrekari en 1300 kg japanskur (dýr) Toyota RAV4-jepplingur af 2. kynslóðinni, með sítengt aldrif, (fram að árgerð 2006) með 4ra sílindra vél sem eyðir 16-20 lítrum í borgarsnatti?
Og hvers vegna skyldi sjálfskiptur RAV4, fram að árgerð 2006, vera jafn eyðslufrekur bíll og raun ber vitni? Líklegasta svarið við því er að hann var hannaður fyrir bandaríska markaðinn þar sem sítengt fjórhjóladrif (sem troðið var í í Corolla-undirvagn) átti að koma í stað þess öryggis sem stærð og þyngd er í augum bandarískra fjölskyldna - eyðslan skiptir þar minna máli en öryggi (raunverulegt eða falskt) enda verð á bensíni þar um fjórðungur af því sem það kostar í Evrópu.

Bilað mælaborð í Nissan, útvarpstenging
Spurt: Er með Nissan Frontier '98 með 2,4 lítra bensínvél. Mælaborðið er hætt að virka eðlilega; hita- og bensínmælir fara í botn, hraðamælir og snúningsmælir flökta eða virka ekki og vegmælirinn sýnir bara 9999999. Fyrst eftir að þessar truflanir byrjuðu hrökk mælaborðið í lag þegar drepið var á vélinni og hún gangsett aftur. Nú er þetta varanlegt ólag. Á Nissan-þjónustuverkstæði var mér sagt að þetta væri vegna sambandsleysis í prentrásum aftan á mælaborðinu. Ég er búinn að fara yfir það allt en ekkert fundið athugavert. Hvað get ég gert?

Svar: Í Nissan Frontier (sem er framleiddur í Smyrna í Tennessee) og fleiri gerðum Nissan-bíla, getur mælaborðið orðið óvirkt sé víxlað tveimur leiðslum við tengingu á útvarpstæki sem ekki er upprunalegur búnaður. Hafir þú skipt um viðtæki í bílnum skaltu fá útvarpsvirkja til að skoða tenginguna. Hjá útvarpsvirkjum fæst sérstakt tengisett fyrir Nissan sem girðir fyrir að þessum leiðslum sé víxlað. Lýsing þín getur einnig átt við ófullnægjandi jarðsamband mælaborðsins. Þar sem þú hefur yfirfarið bakhlið mælaborðsins og hreinsað getur það bent til þess að mælaborðið sé ónýtt (prentplatan) en það er þekktur galli í Nissan, Benz-jeppum o.fl. (t.d. þurfti að endurnýja öll mælaborð á ábyrgðartíma í a.m.k. tveim árgerðum af Terrano II). En áður en þú ákveður að endurnýja mælaborðið skaltu prófa eftirfarandi: Aftengdu mínuspól rafgeymisins í 10 mín. Breytist eitthvað í hegðum mælaborðsins við tengingu geymisins á ný og eftir að svissað hefur verið, á án þess að gangsetja vélina, skaltu fá bifvélavirkja til að mæla hvort alternatorinn virki eðlilega. Röng spenna frá alternator getur truflað mælaborðið. Viðbót; Patrol: Lesandi benti á að brögð hefðu verið að truflunum í mælaborðinu á Nissan Patrol. Í hans tilfrelli reyndist það vera lélegu jarðsambandi að kenna en það jarðsamband kemur á soggreinina. Eftir hreinsun og smurningu með leiðandi feiti (Dielectric Compound sem fæst í N1 og hjá Wurth) ætti það vandamál að vera úr sögunni.

Ólöglegt að fjarlægja hvarfa!
Spurt: Er eitthvað fengið með því að taka hvarfakútinn úr Jeep Wrangler Sahara 2008 (3.8 lítra V6) með tilliti til eyðslu og/eða vinnslu? Ég spyr vegna þess að útblásturinn er varla merkjanlegur þegar maður setur hendi fyrir enda púströrsins.

Svar: Ólöglegt er að fjarlægja hvarfa úr útblásturskerfi bíla frá og með árgerð 1995. Sé eyðslan eðlileg er engin ástæða til að hafa áhyggjur af hvarfanum. Stíflist hvarfi (leirkakan í honum getur molnað við það að eitthvað rekst upp
undir bílinn) rýkur eyðslan strax upp og vélin missir merkjanlega afl. Breytist ekkert við að loka stútnum er ástæða til að kanna ástand útblásturskerfsins (gæti lekið). Þótt hvarfinn eyði mengunarefnum með eftirbruna eru eldsneytiskerfi nýrri bíla þannig hönnuð að hvarfi hefur nánast engin áhrif á eyðslu eða afl. Þú færð kerfið yfirfarið hjá BJB-pústþjónustunni í Hafnarfirði.

Hentugra smurefni fyrir plastlæsingar o.fl.
Spurt: Eru til einhver sérstök smurefni fyrir plast svo sem læsingar/skrár á felli- og hjólhýsum eða á maður bara að nota WD40 eða sambærilegt?

Svar: WD40 er ágætt til síns brúks en betri árangur næst með sérstöku Silikon-úðaefni sem fæst hjá Wurth. Það hentar fyrir flestar tegundir plastefna, liðkar rafknúnar rúður í fölsum o.fl. og áhrifin vara lengur en með WD40. Sams konar efni fæst sem stifti hjá N1 en með því má gera kraftaverk á stirðum rafknúnum rúðum. Rúðunni er rennt niður (hjálpað sé hún stirð), notaður grannur flöskubursti til að losa ryk og óhreinindi úr falsinu, blásið úr því og sílikonefninu smurt (stiftið) eða úðað í falsið og niður í það. Eftir smávegis skak virkar rafknúna rúðan eins og þegar bíllinn var nýr.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu