Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 23

Jeppadekk: Hvað hefur reynslan kennt mér?

Fólksbíladekk: Atriði sem skipta máli (algengustu mistökin við val á dekkjum)

(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda).

91
Uppátektir í Skoda Octavia
Spurt: Tvisvar á undanförnum mánuðum hef ég komið að nýja Skodanum mínum með alla hliðargluggana opna. Þeir voru lokaðir þegar ég fór frá bílnum læstum (hef verið heppin í bæði skiptin því ekki var rigning). Getur fjarstýringin verið biluð?
Svar: Fjarstýringar bila. Mér finnst það þó ólíklegt en líklegra að þú hafir ekki kynnt þér hvernig fjarstýringin virkar - ekki flett handbók bílsins. Prófaðu, í stað þess að styðja á takka fjarstýringarinnar, að halda honum föstum niðri. Þá muntu sjá að rúðurnar renna niður og svo upp sé hinum takkanum haldið niðri. Vegna þess að Skoda-lykillinn er felldur inni í fjarstýringuna eins og sjálfskeiðingur er hætt við því að einhverjum, sem læsir bílnum og fer síðan frá honum klyfjaður innkaupapokum með fjarstýringuna í lófanum, verði óvart á að þrýsta á takkana. Fólk ætti að kynna sér hvort fjarstýring viðkomandi bíls virkar svona - það getur verið óskemmtilegt að koma að nýlegum bíl sem rignt hefur inn í yfir nótt!

Síbilandi pústþjöppur í Ford 6.0
Spurt: Ég á Ford F-250 2004 með 6 lítra dísilvélinni ekinn 61 þús. km.
Við 35 þús. km. komu einhver högg í pústþjöppuna (túrbínuna). Umboðið skipti um pústþjöppu enda bíllin í ábyrgð. Nú er aftur komið sama hljóð í þjöppuna. Ég hringdi í umboðið og sagði farir mínar ekki sléttar; búið að aka um 25 þús. á seinni pústþjöppunni og taldi þetta laka endingu. Svörin sem ég fékk núna voru þau að ég keyrði bílinn ekki nógu mikið og beitti gjöfinni ekki nógu hressilega. Nú er bíllinn fallinn úr ábyrgð og þarf ég því að bera kostnaðinn af viðgerðinni sjálfur. Viðgerðin verður dýr. Er þetta eðlileg ending á pústþjöppu? Getur maður gert eitthvað til að koma í veg fyrir þessa viðgerð á 25 þús. km. fresti?

Svar: Þrátt fyrir ýmsar tæknilega áhugaverðar lausnir í þessari 6.0 lítra PowerStroke-dísilvél hefur hún reynst illa. Ástæðan er, að mínu áliti, hve vélin er illa smíðuð. Pústþjöppukerfið hefur verið gallað frá upphafi (bilanakóði P029) og stafar af því að framhjáhlaupsgáttin við túrbínuna (VGT-lokinn), sem á að stýra þjöppuþrýstingnum og koma í veg fyrir yfirþrýsting/yfirsnúning með framhjáhlaupi, festist vegna sótútfellinga - röng stýring eyðileggur þjöppuna. þetta lagast ekki með nýrri þjöppu nema takmarkaðan tíma því spíssarnir í þessari vél eru ófullkomnir (úða ekki jafn vel og rafeindaspíssar í öðrum nýjum dísilvélum) og sótmyndun í pústþjöppunni er því meiri en gengur og gerist í öðrum túrbódísilvélum. En það er tvennt sem eigandi getur gert sjálfur til að koma í veg fyrir þetta: Með því að taka framhjáhlaupslokann sundur og þrífa hann reglulega má koma í veg fyrir að nálin í honum festist vegna sótútfellingar. Jafnframt þarf að þrífa sót úr EGR-lokanum (pústhringrásar-lokinn) en í honum er einnig stimpilleggur sem vill festast vegna sótútfellingar. Hálf-fastur EGR-loki veldur gangtruflunum sem auka sótmyndun í þjöppunni. Þetta er ekki vandamál sem einskorðast við árgerð 2004 - þetta er enn að gerast í nýjustu bílunum með þessari 6 lítra dísilvél - og engu líkara en að Ford ætli ekkert að gera í málinu og því eru þessar 6.0 PowerStroke-dísilvélar síbilandi vandræðagripir. Þetta vandamál verður ekki rakið til dísilolíunnar því þetta er þekktur galli einnig í USA. Íblöndun tvígengisolíu eða steinolíu bætir ekki ástandið heldur flýtir fyrir eyðileggingunni. Hressileg inngjöf öðru hverju getur hreinsað sót - en þessi galli er í vélinni eftir sem áður. Reglulegt eftirlit með eldsneytissíu (vatnsskilju) og regluleg hreinsun VGT- og EGR-lokanna geta hjálpað. Áður en þú leggur í viðgerð á pústþjöppunni skaltu kynna þér hvað hún kæmi til með að kosta hjá öðrum svo sem IB ehf. á Selfossi og Jeppasmiðjunni á Ljónsstöðum. (IB hefur verið að kynna nýja endurbætta EGR- og VGT-loka).

90
Pirrandi gangtruflun í Daewoo
Spurt: Ég á Nubira Station sem ég keypti nýjan 1998 og er búinn að aka 165 þús. km. Bíllinn, sem er með 1600-vélinni og beinskiptur, hefur reynst mér vel og er í góðu lagi að undanskilinni gangtruflun sem hefur verið að gera mér lífið leitt síðustu mánuði. Eftir gangsetningu og um leið og vélin fer að hitna hættir hún að ganga á öllum; sleppir úr, reykir og er kraftlaus. Smurolíubrennsla er um 1 lítri á viku, stundum meira. Ég er búinn að skipta um kerti, kertaþræði og fleira og það er búið að lesa vélartölvuna án þess að þar séu nokkrir bilanakóðar skráðir í minni. Bifvélavirki kom með þá tilgátu að þéttihettur á ventlum gætu verið ónýtar og yllu smurolíubrennslunni - annar taldi að tímareimin væri rangt stillt. Eru það líklegar orsakir?

Svar: Nei. Þetta er þekkt bilun eftir þessa notkun í þessum 1600 2ja kambása-vélum sem eru þær sömu í Opel og Daewoo. Þessi vél er ein fárra sem er með vatnsdæluhúsið steypt í blokkina. Þegar vatnslásinn opnar myndast hringrás kælds vökva frá neðri hosu vatnskassans og í gegn um vatnsdæluna sem knúin er af tímareiminni fremst á vélinni. Af því leiðir að 1. sílindri (farþegamegin) gengur kaldari en hinir sem veldur því að fyrr en seinna brotnar neðri þjöppuhringurinn á stimplinum og skemmir oft olíuhringinn um leið. Þetta er auðvelt að staðfesta með þjöppumælingu; þjappan mælist lítil eða enginn á nr. 1. Sértu heppinn, og veggur 1. sílindra lítið rifinn eða óskemmdur, gætirðu sloppið með 150 þús. kr. reikning fyrir hónun sílindra og endurnýjun hringja af upprunalegri stærð. Notuð vél á partasölu er að öllum líkindum eins farin nema hún sé nýuppgerð og er því ekki pottþétt lausn. Förgun er hinn kosturinn (15 þús. kr. í þinn vasa). Því miður hefur tekist að "kjafta'' gangverð Daewoo-fólksbíla niður. Þeir eru, þrátt fyrir þennan galla (sem er einungis í 1600-vélunum), sterkbyggðir bílar með betri aksturseiginleika en sumir dýrari station-bílar og með betri aksturseiginleika en flestir station-bílar af svipaðri stærð. Fordómar gegn S-Kóreu-bílum virðast þó vera á undanhaldi - enda mælast gæði þeirra nú jöfn eða meiri en japanskra bíla.

Patrol: Kippir í stýrinu
Spurt: Ég keypti notaðan Nissan Patrol af Toyota-umboðinu fyrir skömmu. Bíllinn er ágætur að öðru leyti en því að smákippir eru í stýrinu. Ég lét jafnvægja dekkin að framan en hann lagaðist lítið við það. Ég fór aftur á dekkjaverkstæðið og þeir tóku öll dekkin í gegn en bíllinn skánaði lítið og ekki hurfu kippirnir sem koma yfirleitt á 70-90 km hraða. Ég fór á annað dekkjaverkstæði til að afla upplýsinga. Þeir skildu ekkert í þessu en datt helst í hug að eitt dekkjanna hoppaði; sögðu það algengt með stærri dekk. Bíllinn er á ársgömlum 315x75x16 Chaparral AP (35") og er nýskoðaður án athugasemda. Þeir á dekkjaverkstæðinu athuguðu hjóllegur og stýrisbúnað sem þeir sögðu vera í góðu lagi. Hvað getur valdið þessum kippum? Veistu hvað mikið er eftir á eldsneytistanki eftir að ljósið kviknar? Eyðslan mælist 15,2 lítrar á 100km. Er það ekki ásættanlegt? Hvernig er best að mæla nákvæmni hraðamælisins?

Svar: Kippirnir hafa áreiðanlega ekkert með dekkin að gera heldur veldur þeim hjöruliður á stýrisstöng við stýrisvél sem er ónýtur (er að festast vegna ónýtra þéttinga). Úðaðu rækilega á hann WD-40 á meðan aðstoðarmaður snýr stýrinu. Hverfi kippirnir er hjöruliðurinn ónýtur. Hann er innifalinn í 3ja mánaða ábyrgð Toyota á notuðum bílum. Fáðu hjöruliðinn endurnýjaðann. Varaforði, eftir að tankljós kviknar, er yfirleitt ekki gefinn upp í lítrum (mismunandi aksturslag/mismunandi eyðsla) en er yfirleitt 5-8 lítrar og á að nægja til að komast um 30-50 km á næstu áfyllingarstöð. Sé eyðslan rétt mæld og útreiknuð (15 lítrar á 35" dekkjum) er bíllinn í góðu lagi. Með einföldu GPS-tæki er auðvelt að sjá hve réttur hraðamælir er: Ekið er á jöfnum hraða samkvæmt hraðamæli ákveðna vegalengd (á milli tveggja GPS-punkta). GPS-tækið sýnir réttan hraða og þá frávik hraðamælisins. Flest jeppaverkstæði eiga tölvur til að stilla hraðamæla.

Breyttur og rásar
Spurt: Ég keypti árgerð 1999 af breyttum Cherokee upphækkuðum á 35" dekkjum. Fyrri eigandi hafði keypt hann breyttan og vildi selja hann á hagstæðu verði vegna þess að honum líkaði ekki hve bíllinn væri óstöðugur í akstri. Hann rásar á malbiki og „eltir" og á malarvegi er hann mjög þreytandi, bæði slær upp í stýri og liggur í þar sem vegur hallar. Mér skilst að búið sé að reyna margt og með miklum kostnaði en án mikils árangurs. Mér datt í hug að leita ráða hjá þér.

Svar: Mig grunar að þetta sé einn þeirra jeppa sem fúskari hefur breytt. Ég fjallaði um fúsk í jeppabreytingum í grein, sem er hér á vefsíðunni (skrunaðu niður forsíðuna), en þar var ég ekki að gagnrýna jeppabreytingar sem slíkar heldur hættulega breytta jeppa, þ.e. fúsk. Áhrifin voru m.a. skæðadrífa af fúkyrðum frá orðhákum á spjallvef ferðaklúbbsins 4x4, sem höfðu ekki einu sinni haft fryrir því að lesa greinina eða botnuðu ekkert í henni ogt fer ég ekki nánar út í það. Ég hélt einu sinni fyrir löngu nokkur námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækis sem stundaði jeppabreytingar af metnaði. Hluti af námsefninu er á þessari vefsíðu og nefnist Stýrisgeómetría. Þar geturðu ef til vill fengið einhverja hugmynd um hvað kann að valda þessu rási. Algeng mistök byrjenda eða fúskara við upphækkun á jeppa er að gleyma þeirri afstöðubreytingu sem verður á stýrisveli (lóðrétti burðarstafurinn á milli efri og neðri spindilkúlu við upphækkun. Fyrst og fremst er það hjólhallinn (camber) sem verður rangur, jafnvel einnig stýrisvalarhallinn (caster) í sumum tilfellum. Það sem veldur rásinu er að rangur hjólhalli vegna breytingar myndar ekki stefnufestandi kraft (á ensku, camber thrust). Hjólastillingin er höfð þannig að þegar bíllinn leggst á annað framhjólið myndar hjólhallinn sérstakan kraft sem eykur stefnufestu. Þegar keypt er breytingasett fyrir framvagn og fjöðrun (t.d. upphækkunarsett) frá þekktum framleiðendum á borð við TrailMaster eða Ranco er búið að gera ráðstafanir til þess að þessi hallastefnukraftur sé virkur.
Án þess að fara út í langt mál þá er það gert með því að færa innri lið neðri hjólarmsins neðar (t.d. með hjámiðjuarmi eða undirlagsstykki) og hækka um leið innri lið efri hjólarmsins eða klafans. Þessi afstöðubreyting gerir það að verkum að þegar hjólið fer yfir bungu á vegi leitar það út að ofanverðu við höggið í stað þess að leita inn á við. Með því að leita út á við myndar það mótverkandi kraft þannig að yfirborð vegarins hefur minni áhrif á stýrið/stefnu bílsins. Um leið má nefna önnur mistök við upphækkun en þá breytist hjólhallinn of mikið við krappa beygju þannig að hjólið hefur tilhenigingu til að leggjast undir og stýra sjálft bílnum inn í beygjuna (bílar hafa oltið um hjólið, dekk hafa affelgast í beygju o.s.frv. Í sumum tilvikum, t.d. við 33-35" breytingu á bíl með klafafjöðrun hefur mátt laga þetta með því að færa efri spindilkúluna upp á klafann og stilla hæð hennar með skinnum.

89
Hver eru gæði eldsneytisins?
Spurt: Ég hef verið að velta fyrir mér hver séu gæði þeirrar dísilolíu sem okkur er seld hérlendis og hef skoðað vefsíður olíufélaganna. Þar er hvergi minnst á gæðastaðla eldsneytis, brennisteinsinnihald, cetantölu eða fleira sem hægt er að lesa um á síðum erlendra olíufélaga. (Er samt miklu fróðari um grill og fleira sem þessi félög selja). Skeljungur segist selja Shell Formula dísil frá árinu 2000 (http://www.skeljungur.is/category.aspx?catID=136) en ekkert minnst á það í verðlistum. Bílaframleiðendur gera ákveðnar kröfur um eldsneyti og skiptir þetta væntanlega meira máli eftir því sem mengunarbúnaður og vélarstýringar verða flóknari. Á bandarískum vefsíðum sem ég hef verið að skoða er fullyrt að misjöfn gæði dísilolíu hafi valdið bilunum í dísilvélum bíla og aukinni olíueyðslu. Mér finnst furðulegt að hér sé lítil sem engin umræða um gæði olíunnar, sérstaklega þegar haft er í huga dísilbílum er að fjölga. Getur verið að þessi ört stækkandi bílfloti verði fyrir ótímabærum bilunum og óþarfa eldsneytiseyðslu vegna lakra gæða dísilolíunnar?

Svar: Ekkert opinbert óháð eftirlit er með gæðum þess eldsneytis sem okkur er selt (jafnvel þótt þetta sé ein helsta tekjulind ríkissjóðs). Ýmislegt bendir til þess að gæðin séu mismunandi á mismunandi tíma (eftir innkaupum og förmum) en enginn munur sé á því eldsneyti sem olíufélögin kaupa þótt dreifikerfi kunni að vera mismunandi. Kvartað hefur verið undan vatns- og soramengaðri dísilolíu og vatnsmenguðu bensíni frá einu olíufélaganna við mig - og gangtruflanir hafa horfið eftir ákveðnar aðgerðir og eftir að hætt var viðskiptum þar - ég hef látið stjórnendur þess félags vita af þessu. Þeir virtust ekki hafa áhyggjur af þessu (buðu mér í heimsókn til að ræða málið - sem ég veit ekki hvaða tilgangi átti að þjóna - enda hafði ég ekki tíma til þess). Sérstök ástæða fyndist mér til að sérstakt opinbert og reglulegt eftirlit væri haft með eldsneyti (mætti t.d. fela FÍB) - en norska bensínið (krack-bensín) mun vera það fyrsta sem selt er hérlendis sem þolir ekki geymslu nema takmarkaðan tíma og brennur jafnvel ekki ársgamalt! Það eina sem maður getur gert er að nota ísóprópanól raka- og ísvara út í bensín og sérstakan rakavara fyrir dísilolíu auk þess að endurnýja eldsneytissíur oftar (en þessi efni eru seld á allt að 10-földu verði bensínlítra).

Bitaboxið: Gangtruflanir
Spurt: Er i vandræðum með Subaru E12 (domingo) 96 Þegar hann er buin að ná normal vinnsluhita fellur vélin i hægagang og fær ekki eldsneyti (bara loft ef gefið er inn) og check engine ljósið kviknar. Ef eg læt hann malla i 2 til 3 min fellur hitanálin um svona breidd sína ljósið fer og bíllinn er aftur eðlilegur.
en um leið og nálin á hitaamælinum fer aftur upp í normal hita byrjar hann aftur og ljósið kviknar. ef ég set miðstöðina á fullt þá virkar hann eðlilega eftir nokkrar sek og er aðeins lengur að falla út aftur. Þetta virðist eithvað tengt hitanum en hann hitnar ekkert óeðlilega ekki sýður á honum.
Fór með hann á Subaru verkstæði og þeir skiftu um MAP nema en hann lætur enn eins og þeir finna ekki hvað er að, búnir að tengja hann við tölvu og allt..

Svar: Láttu þjöppumæla vélina, (kóðalestur kemur ekki í stað þjöppumælingar). Sé útventill brunninn og ónýtur kemur það fram við þjöppumælingu.

88
2.8 Patrol dísill sem reykir óreglulega
Spurt: Nissan Patrol ´98. ( 2,8 dísill) ekinn 212 þús. km. Vandamálið er að vélin reykir stundum og er reykurinn mikill og dökkur. Ég er búinn að skipta um allar síur og einnig spíssana. Við gangsetningu að morgni og þegar tekið er af stað er nokkur reykur í fyrstu sem svo hverfur við 1800-2500 sn/mín. En á bilinu 2500-2800 sn/mín eykst reykurinn aftur. Mér var bent á að skoða skynjarann sem er á eftir lofthreinsaranum (flæðiskynjarinn) Það virðist ekki breyta neinu þótt hann sé aftengdur og tengdur á ný. Ýmsir sérfræðingar eru búnir að gefa mér ýmis ráð en ekkert hefur dugað. Vélin hreyfir ekki smurolíu. Hvað ráðleggur þú mér að gera?

Svar: Þrennt þarf að vera í lagi til að bruni sé eðlilegur í dísilvél. Þjappan verður að vera nægileg og enginn þjöppuleki (spíssaþéttingar, stimpilhringir, heddpakkning og ventlar). Stöðugur þrýstingur þarf að vera á eldsneytislögninni (fæðidæla í lagi, spíssarör og tengi þétt, enginn loftleki með soggrein (laus grein eða skemmd pakkning) eða falskt loft með síuhylkjum eða í lagnartengjum. Í þriðja lagi þarf forhitunin að virka eðlilega. Byrjað er að kanna þessi atriði kerfisbundið. Bili loftflæðisskynjari missir vélin afl og nær ekki upp snúningi. Óreglan á reyknum ætti að útiloka of seinan tíma á olíuverki. Sé það sem áður er upptalið í lagi, myndi maður kanna tvennt sérstaklega: Annars vegar er stjórnbúnaður pústþjöppunnar. Mæling á þjöppuþrýstingi og opnunarþrýstingi framhjáhlaupsloka sýnir hvort þjappan virkar eðlilega. Þegar þjappan hefur náð ákveðnum þrýstingi eykur sjálfvirkur stýribúnaður magnið sem olíuverkið gefur í hlutfalli við forþjöppunina. Aukist innsprautunin án tilheyrandi aukins þjöppuþrýstings (ónýt pústþjappa eða bilaður yfirþrýstingsloki) leiðir það til ófullkomins bruna og reyks. Hinn þátturinn er ónýtur EGR-loki (pústhringrás) á milli hedds og soggreinar. Prófaðu að blinda hann með stálplötu og pakkningum á milli lokaflansins og soggreinar án þess að aftengja rafleiðslurnar. Hverfi reykurinn við það skaltu endurnýja EGR-lokann en hann dregur úr mengun með því að hleypa súrefnissnauðu afgasi inn í brunahólf, við það lækkar brunahitinn (veikari blanda) og minna nituroxíð myndast í útblæstrinum.

Hvað er "ballastic'' viðnám?
Spurt: Ég ætla að nota 12 volta háspennukefli við gamla AMC-vél með platínukveikju og þurfti viðnámsvír frá sviss til að lækka spennuna eftir gangsetningu til að hlífa platínunum en fékk hvergi slíkan vír. Mér var selt viðnám hjá N1 sem er stykki úr keramiki með spólu innan í og tveimur tengjum og sagt að ég gæti notað það í staðinn. Á því stendur "Ballastic resitor'' og einhverjar tölur. Á milli spaðanna mælist ekkert viðnám. Get ég notað þetta stykki í stað viðnáms?

Svar: Til þess að losna við 12 volta framhjátengingu inn á keflið beint frá startstöðu svissins, eins og þyrfti með viðnámsvír (til að auðvelda gangsetningu í kulda) er "ballastic resistor'' einfaldari og betri lausn. Eins og heitið bendir til er viðnámið afstætt álagi. Við gangsetningu er spólan innan í keramikstykkinu köld og ekkert viðnám á milli spaðanna; - keflið fær 12 volta straum frá sviss. Eftir að vélin er komin í gang hitnar spólan vegna álags og við það eykst smám saman viðnámið þar til því hámarki er náð sem skilar um 9 voltum til keflisins. Álagsviðnám er heilt þegar um 9 volta spenna mælist á milli +póls keflis og jarðar eftir að viðnámið hefur hitnað. Mikilvægt er að festa viðnáminu tryggilega á flatan stálflöt (hvalbak) til að glóandi spólan nái ekki jörð eða kveiki í einhverju. Í þeim kerfum þar sem viðnámsvír hefur bilað (en viðnámið (ohm) ræðst af lengd vírsins) er ekki ráðlagt að fjarlægja hann heldur aftengja við kefli og einangra endann því hann getur jafnframt stýrt ákveðnum gaumljósum/mælum.

87
Brotið framljós: LandCruiser-eigandi sparar 26 þús. kr. með 2ja tíma vinnu (2007/08).
Ábending : LandCruiser-eigandi með brotið (gatað) framljósagler en heilan spegil (eftir steinkast) á Landcruiser 80 árgerð 1995. Ljóskerið kostaði 31 þús. hjá Toyota (mars 2008). Jamal í Mosfellsbæ (Bílapartar ehf, Grænumýri 3. sími 587 7659 - en Jamal selur einungis varahluti í Toyota) gat selt honum ljósker með brotnum festingum en heilu gleri fyrir 5 þús.kr. Síðan kenndi Jamal eigandanum eftirfarandi aðferð við að skipta um gler : Aðferðin er sú að setja ljósið í heitt vatn (hitaveituvatn + 3 hraðsuðukatlar) en þá mýkist kíttið upp og hægt að ná glerinu frá plastinu. Þegar glerið er losað úr plastfalsinu þarf að passa að kíttið sitji sem mest eftir í plastfalsinu en ekki á brotna glerinu. Síðan er aðferðinni snúið við: - Glerið sett í þannig að það sitji þétt í kíttinu, spennt fast í falsið með klemmunum og látið liggja aftur í jafn heitu vatni í 10-15 mín. Svo er það tekið upp úr og leyft að kólna í rólegheitum. .Til öryggis má þétta betur með sílikónkítti. Ath. Notið einungis sílikóni fyrir bíla, þ.e. efni sem ekki eyðileggur súrefnisskynjara bensínvéla (Á túpunni á að standa "Oxy-Sensor-Safe").

Loftun bremsukerfis með ABS
Spurt: Ég er með Daewoo fólksbíl og þurfti að skipta um bremsudælur í afturhjólunum. Síðan loftaði ég kerfið sem er með ABS en þótt ég nái upp þrýstingi er pedallinn alltof langt niðri og um leið og vélin er gangsett dettur hann alveg niður. Einhver sagði mér að ég yrði að setja straum inn á ABS-straumlokuna og fá ABS-dæluna til að dæla, en við það opnuðust einhverjir lokar og þá væri hægt að ná loftinu af kerfinu. Hvernig gerir maður það og hvar finnur maður þessa ABS-straumloku.

Svar: Það er engin ABS-straumloka fyrir dælu í Daewoo - það er sérstök ABS-tölva og sérstök greiningartölva m.a. fyrir ABS-kerfið sem verkstæðin nota til að virkja læsivörnina þannig að hægt sé að lofta kerfið en á ABS-lokaeiningunni fyrir neðan höfuðdæluna eru sérstakir loftaftöppunar-nipplar fyrir ABS-lokana.. Þú (og þeir sem eiga aðra bíla eins og t.d. Ford, Opel, o.fl.) getur bjargað þér með því að fara á malarveg, pumpa bremsupedalann og stöðva bílinn með bremsunni án þess að létta ástiginu. Ef þú færð ABS-kerfið til að virka (en þú heyrir þegar það kemur inn) þá leysist málið af sjálfu sér. Eftir það geturðu loftað kerfið á eðlilegan hátt, byrjar á þeirri dælu sem er lengst frá höfuðdælunni og endar á þeirri sem er næst henni - og passar upp á að forðabúrið tæmist ekki.

Músagangur í Impreza?
Spurt: 3ja mánaða gamall Impreza startaði ekki og alls konar ljós lýstu í mælaborðinu. Bíllinn var sóttur af umboðinu og gert við bilunina mér að kostnaðarlausa (bíll í ábyrgð) en þeir sögðu samt að þetta félli ekki undir verksmiðjuábyrgðina vegna þess að mýs hefðu nagað sundur einangrun á rafleiðslum! Getur þetta staðist?
Svar: Þetta algengt og ekki einskorðað við Subaru. Mýs sækja í sérstaka tegund plasteinangrunar (Neophren). Oftast kemur þetta fyrir í bílskúrum sem ekki eru músaheldir og bíll lítið notaður. Þetta telst ekki galli (nema ef til vill á músunum) samkvæmt smáa letrinu í ábyrgðarskilmálum. Mýs geta valdið stórskaða á dýrum búnaði bíla í geymslu. Hér áður notaði fólk í torfbæjum og sumarbústöðum beitilyng (Calluna vulgaris) til að fæla burt mýs og rottur með góðum árangri en nú eru til raftæki sem gefa frá sér hátíðnihljóð sem halda músum fjarri. Skoðaðu þessa vefsíðu:
http://www.varnir.is

Undarleg bensíngjöf
Spurt: Ég á nýlegan sjálfskiptan jeppling með bensínvél. Það eina sem ég er ekki sáttur við er bensíngjöfin - þegar tekið er af stað á ljósum þarf að stíga hana næstum til hálfs til að bíllinn sé nægilega fljótur að ná eðlilegum hraða. Hjá umboðinu var vélkerfið kóðalesið og engin bilun eða athugasemd kom fram. Ég fékk engar frekari skýringar á þessu og því spyr ég þig.

Svar: Prakkari, sem ég vann með á verkstæði fyrir löngu, hefði sagt þér að láta lækni líta á löppina á þér! En án gamans; þetta er fullkomlega eðlilegt. Sjálfskiptingar í nýrri bílum eru tölvustýrðar og yfirleitt með 3 forritum sem skipt err á milli með takka og rækilega útskýrt með myndum í handbók bílis; N eða E fyrir eðlilegan akstur og mesta spaneytni, S eða P fyrir fyrir sportlegri akstur/ meira afl og W fyrir vetrarakstur). Bensíngjöfin er ekki tengd innsprautukerfinu með barka og vír eins og áður tíðkaðist. Þess í stað stýrir ástigið þrepalausum rofa sem eykur eða minnkar tíðni boða sem rafmótor á loftspjaldi innsogsgreinarinnar nemur um leiðslu og í nýjustu bílum þráðlaust. (þessi tækni nefnist á ensku "drive by wire'' og „wireless drive’’ ). Þegar þú ekur með sjálfskiptinguna stillta á N(ormal) eða E(conomy) breytir forritið tíðni boðanna frá inngjöfinni þannig að inngjöfin minnkar magn innsprautaðs eldsneytis og eykur þannig sparneytni bílsins hvernig sem inngjöfinni er beitt þegar tekið er af stað (enginn gusugangur). Prófaðu að stilla sjálfskiptinguna á P(ower) eða S(port) og þú munt finna hvernig viðbrögð við inngjöfinni breytast, snerpan eykst (og eyðslan). W(inther)-forritið er Normal-forritið með þeirri viðbót að sjálfskiptingin tekur af stað í 2. gír (og er því með 2 bakkgíra) auk þess sem sérstök driflæsing verður virk, sé henni til að dreifa (spólvörn). Bensíngjöfin er því eins og hún á að vera og er eitt af mörgum dæmum um hvernig tölvutæknin dregur úr eldsneytisnotkun bíla.


Bönnum nagladekk (alls staðar) !
Í fréttum hefur verið sagt frá svifryksmengun yfir hættumörkum í miðbæ Akureyrar og Reykjavíkur. Sú mengun er ekki vegna útblásturs bíla heldur stafar henni af nagladekkjum, lélegu malbiki og skorti á þrifnaði gatna. Undanfarna 2 vetur hef ég prófað tvenns konar vetrardekk sem, að mínu mati, geta komið í stað nagladekkja við allar aðstæður. Annars vegar eru harðkornadekk, þ.e. dekk sóluð með erfni sem inniheldur m.a. kvarts og er sú endurvinnsla því jafnframt liður í umhverfisvernd. Hins vegar eru japönsk harðskeljadekk (ný dekk) en sóli þeirra inniheldur mulda valhnotuskel sem hefur sambærilegt grip á svelli og ný nagladekk og meira en hálfslitin nagladekk. Stjórnendur Akureyrar og Borgarinnar ættu að láta sérfræðinga (t.d. atvinnubílstjóra) prófa þessi dekk (það má gera á skautasvelli að sumri til) og í framhaldi að mæla svifryksmengun af völdum þeirra á auðu malbiki. Reynist niðurstaðan sú sama og mín mætti að banna nagladekk hérlendis, eins og gert er víða erlendis, sem þátt í umhverfisvernd án þess að rýra umferðaröryggi.

(Mbl. Vinnuvélablað, 3. apríl 2008).
Eiga "stórir amerískir palljeppar'' tilverurétt?

Íslenska þjóðvegakerfið með eina akrein í hvora átt, einbreiðar brýr og bratta fjallvegi, víða án vegriða, er hættulegt, t.d. hættulegra en margir erlendir ferðamenn eiga að venjast í sínum heimalöndum. Alvarleg slys undanfarin ár eru til marks um það. Íslenskt veðurfar með stormi og sviftivindum eykur hættu í akstri á þjóðvegum. Með hverju árinu ferðast fleira fólk um landið með tjaldvagna, fellihýsi, kerrur eða jafnvel hjólhýsi í eftirdragi. Af fyrrnefndum ástæðum eru íslenskir þjóðvegir sérstaklega hættulegir því fólki og hafa alvarleg slys, m.a. dauðaslys, hlotist af því að vagn, t.d. fellihýsi hefur tekist á loft í stormhviðu og kippt bíl með sér út af vegi. Jafnvel þótt ekki sé um fjallveg að ræða geta afleiðingarnar orðið hörmulegar.

Þá hefur fólki fjölgað jafnt og þétt sem hefur hestamennsku að tómstundaiðju, áhugamáli og/eða keppnisgrein. Hestamennsku fylgir aukinn flutningur hrossa í mismunandi stórum vögnum um landið þvert og endilangt. Á þjóðvegunum stafar sérstakri hættu af bílum með þunga hestaflutningavagna sé eigin þyngd bíls um og innan við 2 tonn. Sú hætta er fólgin í þeim áhrifum sem þungur vagn hefur á stöðugleika bíls og öryggi og varla þarf að taka það fram að því þyngri og öflugri sem dráttarbíllinn er því minni hættu stafar af honum. Öryggi í drætti má auka með réttum tengibúnaði og jöfnun fargs á beislistengingu, hjól vagns og bíls (ítarlegar upplýsingar um dráttarbúnað er að finna á http://www.leoemm.com/vagnar.htm).

Uppgefnar eyðslutölur
Þær tölur sem framleiðendur bíla gefa upp um eyðslu (EPA-tölur í Bandaríkjunum og EEC-tölur í Evrópu) ber að taka með ákveðnum fyrirvara. Þær mæla ekki eyðslu bílanna í eðlilegri notkun heldur við ákveðnar aðstæður sem tilteknar eru í opinberum stöðlum og öllum bílaframleiðendum gert að fara eftir til að skapa samanburðargrundvöll fyrir kaupendur. Dæmi: Sé uppgefin meðaleyðsla, mæld samkvæmt EEC-staðli, 11 lítrar fyrir bíl A en 9 lítrar fyrir bíl B þýðir það ekki að bíll B eyði 2 lítrum minna að meðaltali á hverja hundrað km í venjulegri notkun. Hins vegar er þetta vísbending um að bíll B sé sparneytnari en bíll A.

Eftirfarandi dæmi skýrir ef til vill betur hvers vegna ekki ætti að taka uppgefnar staðaltölur um eyðslu of bókstaflega heldur sem viðmiðun. Tveir bílar af mismunandi tegund eyða jafn miklu samkvæmt EPA-mælingu. Annar þeirra gæti eytt talsvert meiru vegna þess að hann tekur á sig meiri vind en hinn - staðalmælingin fer nefnilega fram í logni. Önnur atriði sem geta haft mismunandi mikil áhrif á meðaleyðslu bíls eru mismunandi lofthiti, mismunandi hæð yfir sjávarmáli, mismunandi hleðsla bíls, mismunandi aksturshraði, mismundandi aksturslag bílstjóra o.fl. Hafa ber í huga að aðstæður, meðferð, ástand og beiting bíls (jafnvel tveggja sams konar bílar) hafa áhrif á eyðslu í notkun.

Notkun palljeppa
Ef dæma má af jeppaeign landsmanna sem hefur vaxið árlega um skeið eru jeppar (jafnvel af stærri gerð) vinsælasta gerð bíla hérlendis. Engu að síður er þessi mikla jeppaeign gagnrýnd og oftar en einu sinni hefur verið skorað á stjórnvöld að grípa í taumana. Af jeppaeign landsmanna að dæma mætti ætla að um forsjárhyggju umhverfisverndarsinna sé að ræða frekar en almenna skoðun meirihluta. Í umræðu um umhverfismál er farið að tala um koldíoxíð (CO2) sem mengun og blandað saman við hættuleg eiturefni í útblæstri véla. Í umræðu um loftmengun er gjarnan vísað til svifryksmengunar í miðborg Reykjavíkur sem mælist yfir hættumörkum og látið í það skína að útblæstri bíla sé um að kenna. Svifryksmengun stafar fyrst og fremst vegna nagladekkja, lélegs malbiks og alvarlegum skorti á þrifnaði gatna. (Minni loftmengun stafar frá bílaflota landsmanna en frá fiskiskipum og landbúnaði).

Svo virðist sem það sé algeng skoðun að jeppar eyði miklu eldsneyti miðað við fólksbíla, jafnvel þótt eigin þyngd sé svipuð. Stór hluti fullvaxinna jeppa og jepplinga eru með fjórhjóladrif aftengt í venjulegum akstri. Musso mætti nefna sem dæmi um eyðslu fullvaxins jeppa (4x4 + hátt/lágt drif) sem margir eigendur geta staðfest. Musso með 2,9 lítra 129 ha Benz-túrbódísilvél eyðir í blönduðum akstri 10,5 - 11,5 lítrum á 100 km (Musso er með sparneytnustu dísiljeppum enda margfaldur sigurvegari í sparaksturskeppnum FÍB). Er þá miðað við óbreyttan bíl á 31" dekkjum, um 1850 kg að eigin þyngd og með dráttargetu 2300 kg.

Hverjir þurfa "stóra ameríska palljeppa''?
Það þrep mengunarvarnarstaðals sem tók gildi í gildi í Bandaríkjunum um síðustu áramót (síðasta þrep Tier 2 staðalsins mun taka gildi um næstu áramót og í framhaldi mun fyrsta þrep Tier 3 taka við) gerir sömu kröfur um mengunarvarnir í útblæstri allra bíla, af öllum stærðum, án tillits til slagrýmis vélar og án tillits til hvort um bensín, gas eða dísilvél er að ræða. Þær kröfur eru því strangari en evrópski staðallinn EU 4 gerir, bæði varðandi mælt magn í g/km og vegna undanþága sem eru í EU 4.1) En af einhverjum ástæðum tókst bandarískum bílaframleiðendum að koma því til leiðar að allra stærstu og eyðslufrekustu fjórhjóladrifsbílar þeirra voru undanþegnir þessum reglum um mengunarvarnir. Undanþágan gildir ekki fyrir þá ½ og ¾ tonna* amerísku palljeppa sem hér eru algengastir heldur fyrir enn stærri palljeppa auk jeppa á borð við Ford F350-650, Ford Expedition/Lincoln Navigator/Range Rover, Chevrolet Tahoe og Suburban/Cadillac Escalade og Hummer H2. Annað atriði sem vert er að minna á er að því fer víðs fjarri að "Bandaríkjamenn gerir ekki neitt í loftslagsmálum,'' eins og heyra hefur mátt í fjölmiðlum. Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur hins vegar lítið gert af því að kynna loftslagsbúskap sinn á alþjóðlegum vettvangi. Umhverfisverndarsinnar í Bandaríkjunum leggja höfuðáherslu á að minnka nituroxíðmengun frá bílum, einkum dísilbílum, fremur en losun koldíoxíðs og ástæðan fyrir þeim áherlsumun er m.a. hætta sem bandarískum skógum stafar af súru regni.

Þeir sem þurfa "stóra ameríska palljeppa'' (með 5-7 manna húsi) hérlendis eru þjónustufyrirtæki, verktakar, bændur, iðnaðarmenn, hestafólk, akstursíþróttafólk sem ver tómstundum til að aka torfæruhjólum, fjórhjólum eða vélsleðum, fólk sem stendur í húsbyggingum og fyrirtæki í ferðaþjónustu sem bjóða, auk gistingar, hestaferðir, flúðasiglingar, hálendisferðir, jöklaferðir m.m. svo nokkrir aðilar séu nefndir.

Dráttargeta er lóðið
Af málflutningi þeirra sem hafa t.d. krafist þess að vörugjöld verði innheimt af þessum "stóru amerísku palljeppum,'' sem kann að vera réttlætanlegt, mætti ætla að þeir telji að einhverjir aðrir bílar geti tekið við hlutverki palljeppanna. En svo er ekki. Hvorki í Evrópu né Japan eru framleiddir 5-7 manna palljeppar með þá dráttargetu sem þessi sérstöku amerísku fyrirbrigði hafa (nema LandRover Defender CrewCab), þ.e. um og yfir 3500 kg - sem er nauðsynlegt t.d. fyrir þá sem draga hestaflutningavagna af stærri gerð og aðra í þessum hópi af öryggisástæðum.

Hvers vegna dísilvél?
Eðlismunur á dísilvél og bensínvél er m.a. sá að í dísilvélinni brennur eldsneytið við stöðugan þrýsting en stöðugt rúmtak í bensínvél. Það gerir það m.a. að verkum að kveikjubúnaður dísilvélar er einfaldari og öruggari. Mestu máli skiptir þó að í dísilvélinni getur bruninn haldið áfram í þrepum (allt að 5 í nýjustu vélum) á leið stimpilsins niður í aflslagi. Stimpillinn beitir því meiru átaki til að snúa sveifarásnum. Átaksarmur (vogarstöng) sveifarássins getur því verið lengri en í bensínvél með sama slagrými - af því leiðir meiri slaglengd og minni snúningshraði en mun meira tog en í bensínvél. Eðlis síns vegna getur dísilvél nýtt um 35-36% brunaorku eldsneytisins sem hreyfiafl en fullkomnasta bensínvél nær ekki 24%.
Þetta skýrir jafnframt hvers vegna dísilvél er um 30% sparneytnari að jafnaði en bensínvél með sama slagrými við sömu aðstæður og skýrir jafnframt hvers vegna hlutfallsleg eyðsluaukning bensínvélar er miklu meira en dísilvélar við að draga þungan vagn. t.d. upp brekku.
Þetta tog sem dísilvél hefur umfram bensínvél er lykilinn að dráttargetu "stóru amerísku palljeppanna'' en bandarískar dísilvélar með 6-8 lítra slagrými eiga sér enga hliðstæðu, þær eru sparneytnastar, og með minnstu mengun í útblæstri. Sem dæmi þá hefur nituroxíðsmengun í útblæstri amerísku dísilvélanna minnkað um 99,5% frá ársbyrjun 1998 til ársloka 20051). Á sama tíma hefur sparneytni vélanna aukist um 8-10% og til 2008 um 25% (Dodge/Cummins 5,9 dísill).

Hve miklu eyða "stóru amerísku palljepparnir?''
Hér er fjallað um eyðslu óbreyttra palljeppa í fullkomnu lagi en þó með aflaukandi forriti (kubbi) í sumum tilvika. Stuðst er við upplýsingar sem greinarhöfundur hefur sannreynt með mælingum sl. 3-4 ár. Með einni undantekningu er um dísilbíla að ræða. Í öllum tilvikum er um meðaleyðslu að ræða í blönduðum akstri.

" Ford F-150 4ra dyra með sætum fyrir 5 og styttri gerð af palli, eigin þyngd 2200 kg. Árgerð 2004. Vél 4,6 lítra V8-bensínvél með aflaukandi tölvuforriti (kubbur). Dráttargeta 2948 kg. Eyðsla 16 lítrar. Snerpa innan við 7 sek. 0-100.

" Ford F-250 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli, eigin þyngd 3280 kg, 235 ha 6 lítra PowerStroke V8-dísilvél (en þær vélar eru, því miður, sjaldan í fullkomnu lagi), árgerð 2006. Dráttargeta 2268 kg (Super Duty er með mun meiri dráttargetu). Eyðsla 15-16 lítrar.

" Chevrolet Silverado 2500 HD 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli, eigin þyngd 2800 kg, 6,6 lítra Duramax V8-dísilvél, 365 ha, árgerð 2008. Dráttargeta 4358 kg. Eyðsla 13-14 lítrar. (Þægilegasti palljeppinn í akstri).

" Dodge Ram 2500 HD 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli. Eigin þyngd 2475 kg, 5,9 lítra 325 ha Cummins 6 sílindra dísilvél (lína), árgerð 2007. Dráttargeta 5834 kg. Eyðsla 14-15 lítrar. (Dodge Ram með Cummins-dísilvélinni er sparneytnasti palljeppinn, Ram 2500 af stystu gerð (ranglega sagt 1500 í Mbl. sem leiðréttis hér með) eyðir um 13 lítrum með þessari vél).

1) Skýrsla: Varnir gegn mengunarefnum í afgasi farartækja í Bandaríkjunum og Evrópu (ES). Leó M. Jónsson iðnaðar- og vélatæknifræðingur, Reykjanesbæ. 2003 (www.leoemm.com/mengunarskyrsla.htp)

" Flokkun pallbíla í Bandaríkjunum fer eftir burðargetu grunngerðar, 1500 (F-150)/500 kg, 2500 (F-250)/750 kg, 3500 (F-350)/1000 kg o.s.frv. Hafa ber í huga að frávik geta verið talsverð enda er ameríska pundið ekki 0,5 kg, eins og algengt er að fólk gefi sér, heldur 0,454 g.

86
Nýja Ford PowerStroke 6.4 dísilvélin
Spurt: Mig langar að forvitnast um hvort nýju 6,4 lítra dísilvélarnar í Ford F-250/350 væru einhver framför frá 6,0 L vélinni?
Annað mál: Mælir þú með því að ryðverja nýja bíla sem fluttir eru inn frá Ameríku?

Svar: Mín reynsla er sú að það sé eyðilegging á nýlegum bílum að þekja þá að neðan með þeim efnum sem nefnist "íslensk ryðvörn'' - þeir bílar endast lengst sem hafa einungis verksmiðjuryðvörnina og undirvagni haldið hreinum. Bendi á að flest bílaumboð eru hætt að láta ryðverja bíla hérlendis - enda álitamál hvort það ógildir ekki 6-8 ára ryðvarnarábyrgð framleiðandans. Einungis gamla endurbyggða bíla er ástæða til að ryðverja sérstaklega og það myndi ég gera sjálfur.
Nýja 6,4 lítra PowerStroke dísilvélin frá Ford er 350 hö við 3000 sn/mín og með 910 Nm tog við 2000 sn/mín (sem er gríðarlegt). Þrýstingur í innsprautukerfi hefur verið aukinn í 26 þús. pund. Auk þess að vera hljóðlátari er hún sögð 15% sparneytnari en 6,0 lítra vélin og með minni mengunarefni í útblæstri. Vatnskassinn er 33% stærri, vatnsdælan öflugri o.s.frv. Sjálfskiptingin (2ja túrbína) hefur verið styrkt þannig að dráttargetan er um og yfir 4 tonn hjá staðalgerð af 250/350-bílunum. Nýja vélin, sem fullnægir strangari kröfum mengunarstaðla 2008, er búin hvarfakúti og öragnasíu og gerð fyrir dísilolíu sem inniheldur minna en 0,05% af brennisteini en slík dísilolía er nú seld alls staðar í Bandaríkjunum. Reynslan á eftir að sýna hvort þessi nýja Ford dísilvél er framför. Satt best að segja hefur 6 lítra PowerStroke dísilvélin, þrátt fyrir áhugaverða hönnun og tækni, reynst vond smíði og allur frágangur borið þess merki að sparnaðarsérfræðingar (baunateljarar) hafa tekið ráðin af tæknimönnum (enda Ford búið að vera á saggatinu fjárhagslega í um áratug). Því er bilanatíðni Ford-dísilvélanna meiri en góðu hófi gegnir, ef ekki ávísun á stöðug vandamál. GM 6.6 DuraMax er, frá og með smíðaári (ekki árgerð) 1999, eftir ýmsar endurbætur á síðari árum, sú túrbódísilvél sem gengur best og sá pikköpp sem mér finnst bera af öðrum í venjulegumn akstri. Nýjasta Dodge/Cummins 5,9 lítra dísilvélin er skrefi á undan öðrum í tæknilegu tilliti, er m.a. þýðgengari en áður og sparneytnust af þessum amerísku dísilvélum, þótt bíllinn sé áfram frekar grófur, reyndar mun vélin vera sparneytnasta dísilvél í heimi, hvort sem reiknað er fyrir hvern lítra slagrýmis eða á hvert hestafl. Eldri Cummins-vélarnar hafa reynst traustar.

Um nýja SsangYong Rexton
Spurt: Hvert er álit þitt á nýja Rexton bílnum frá S-Kóreu? Af tækniupplýsingum á Netinu virðist hann að mörgu leyti spennandi sem alhliða ferðabíll með mikla dráttargetu, 6 gíra sjálfskiptingu og tölvustýrt fjórhjóladrif. Að hvaða leyti er þessi nýi frábrugðinn þeim Rexton sem tók við af Musso?
Svar: Eldri gerðin af Rexton var jeppi með hátt og lágt drif. Grindin var þynnri og veikbyggðari en í Musso. Bíllinn var mjög þægilegur í akstri en undirvagninn ekki nógu sterkbyggður fyrir fjallaferðir, átök og slark. Sá nýi er endurhannaður sem jepplingur (án lágs drifs) og er liprari og jafnvel þægilegri en eldri gerðin. (Kyron tók hins vegar við hlutverki Musso sem jeppi). Nýi Rexton þolir samanburð við nýja Volvo XC 90 jepplinginn (sem kostar 2 millj. kr. meira). Rexton mun vera rúmbesti lúxus-jepplingurinn á markaðnum; sjálfvirkt fjórhjóladrif þegar þess gerist þörf, 7 manna bíll með sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli, stöðugleikakerfi (EPS) og 2,7 lítra Benz-dísilvél (186 hö í XVT-gerðinni). Dráttargetan er 3200 kg (dráttargeta Volvo XC 90 er 2250 kg). Ég tel að nýi Rexton-bíllinn sé áhugaverður fyrir þá sem þurfa meira rými og gera kröfur um sparneytni. Rexton 2,7 Xdi (163 hö) eyðir um 10 lítrum í blönduðum akstri samkvæmt mælingu hérlendis (8,6 l/100 km samkv. ECE-staðli). Dýrasta gerðin af Rexton með 186 ha dísilvél er sérstaklega vel búinn bíll með auka- og lúxusbúnað sambærilegan við það sem gerist í talsvert dýrari bílum. Hins vegar finnst mér ekki rétt að bera Rexton saman við alvöru grindarjeppa með hátt og lágt drif, eins og t.d. Kyron og Sorrento.

Tölvubúnaður
Spurt: Eiga minni verkstæði t.d. úti á landi einhverja möguleika á að þjónusta tölvukerfi nýjustu dísilvélanna í amerískum jeppum án þess að það kosti milljónir - umboðin eru að bjóða okkur búnað til kaups eða leigu sem er fokdýr þegar tekið er tillit til þess að 10-15 bílar eru á svæðinu?
Svar: Blástu á þessa okrara hjá umboðunum. Skoðaðu það sem bandaríska fyrirtækið Bully Dog (www.bullydog.com) framleiðir tölvubúnað sem má nota til að kóðalesa nýjustu dísilkerfin (GM, Ford, Dodge) inni á verkstæði eða í keyrslu, eyða kóðum eftir lagfæringu, breyta foritum þeirra, afli og sparneytni. Eitt slíkra tækja má skoða hjá www.jegs.com. Það er númer 159-40300 og kostar $ 1081.99. Sé Notuð reiknivélin hjá ShopUSA (tölvutæki) kostar þetta tæki rúmar 137 þús. kr (31. mars 08). Flest þessara tækja eru þannig gerð að forrit þeirra má uppfæra fyrir lágt árgjald á Netinu. Tími stóru dýru bilanagreiningartölvanna er einfaldlega liðinn auk þess sem ekki er nauðsynlegt að fara á sérstakt námskeið til að bilanagreina þessi kerfi lengur: Sem sagt; ég er líka að verað úreltur!.

85
2ja lítra Opel dísill-vandræði
Spurt: Ég á Opel Astra-G-Caravan árgerð 2001 með 2ja lítra dísilvél sem hefur verið að gera mér lífið leitt. Er búinn að fara með hann á verkstæði umboðsins og 2 önnur verkstæði en enginn hefur fundið orsök bilunarinnar. Hún lýsir sér þannig að við gangsetningu kviknar ekki forhitunarljósið í mælaborðinu nema vélin sé köld eða kuldi úti. Til að koma vélinni í gang þarf að aftengja skynjara framarlega á vélinni miðri. Þegar vélin nær eðlilegum vinnsluhita kviknar vélarljós (safe mode) og viftuljós og vélin missir afl. Búið er að skipta 3svar um þennan skynjara auk þess alternator, rafgeymi og einhverja straumloku. En ekkert hefur lagfært bilunina. Mér er sagt að þessar vélar séu vandræðagripir. Getur þú aðstoðað?
Svar: Þótt einhverjir hafi lent í vandræðum með þessar 2ja lítra Opel-dísilvélar er ekki þar með sagt að þær séu gallagripir. Þær eru einfaldlega öðru vísi en þær sem voru á undan. T.d. er sá munur að forhituninni er stýrt af vélartölvunni (ECU) en ekki sérstakri stýrieiningu. Það þýðir m.a. að forhitun er ekki notuð nema þegar hitastig vélar er undir 5 °C - þess í stað eykur tölvan innsprautað magn eldsneytis í gangsetningu sem eykur þjöppun. Eins og með allar aðrar dísilvélar er þrennt sem ræður því hvort gangsetning kaldrar vélar takist: Þjöppun verður að vera eðlileg, forhitun eða kaldstart verður að virka og réttur þrýstingur þarf að vera á eldsneytislögn að spíssum. Á meðal þess sem er öðru vísi í þessum 2ja lítra Opel-dísilvélum er að spíssarnir eru efst í miðju brunahólfinu, - þeir eru í miðju heddinu undir kambásnum. Spíssunum er haldið föstum með armi (sem jafnframt leiðir eldsneytið frá dælu að spíss). Festiarmurinn er undir og á milli kamba kambássins. Armurinn stingst undir brún öðru megin í heddinu en skrúfast niður með bolta hinum megin. Á milli armsins og spíssins eru kragahringur úr gúmi sem heldur spíssunum niðri auk þess að þétta milli hans og armsins (nefnast Traversendictringe á þýsku). Þessir þéttihringir reyndust endast illa í sumum árgerðum. Þegar fór að leka með þeim, jafnvel mjög lítill leki, varð gangsetning erfiðari, sérstaklega í kulda vegna þess að þjöppunin minnkaði (blés upp með spíssunum). Smám saman má merkja aukinn leka á því að dísilolía blandast smurolíunni á vélinni en þá hefur þrýstingur eldsneytis að spíssunum einnig minnkað og gagnsetning verður enn erfiðari - vélarljósið lýsir. Það er mun minna mál en margur hyggur að endurnýja þessa þéttihringi, að vísu þarf að taka ventlalokið af en ekki þarf að hreyfa við kambásnum. Þetta tel ég vera ástæðu erfiðrar gangsetningar hjá þér (þegar skynjarinn er aftengdur fær vélin kaldstartblöndu og fer í gang en þegar hún hitnar fær hún ekki eldsneyti vegna þrýstingsfalls í lögninni að spíssunum). Bakrennslislögnin (slefrörið) á þessum vélum hefur einnig viljað leka vegna titrings en það má lagfæra með því að færa tengingu sleflagnarinnar aftar.

Enn meiri Opel-vandræði
Spurt: Ég er með Opel Vectra bensín. Veistu hvað ljósið sem sýnir mynd af bíl með skrúflykli yfir þýðir? Það hefur verið að birtast af og til undanfarið en lifir ekki stöðugt. ef bensíngjöfinni er sleppt þá helst snúningur oft hár einhverjar sekúndur áður en hann lækkar. Einnig hef ég tekið eftir skúmi í áfyllingunni á ventlalokinu. Það er búið að kóðalesa kerfið á 2 verkstæðum án árangurs.
Svar: Keyptu "Carburator Cleaner-úðabrúsa'' á næstu bensínstöð. Losaðu barka loftinntaksins af við inngjafarkverkina og notaðu stífan listmálarapensil og efnið til að þrífa óhreinindin af inngjafarspjaldinu báðu megin og úr kverkinni. Smurðu inngjafarásinn með WD 40 og liðkaðu þar til spjaldið sest eðlilega. Skúm í ventlalokinu er vegna þess að öndunin (PCV-lokinn og lögnin, (L-laga slanga) er stífluð og skúmið mun fyrr en seinna eyðileggja kambásinn. Taktu ventlalokið af, þrífðu það og kambásinn, skolaðu og blástu úr lokanum og lögninni. Settu lokið á með nýrri pakkningu og hertu boltana í 8 Nm.

84
Um dekk
Spurt: Er það rétt að hægt sé að sjá hvað dekk eru gömul, t.d. þegar keypt eru notuð dekk? Annað: Á dekkjum er merkingin "Maximum inflation pressure'' í psi. Er það mesti þrýstingur sem dekkið þolir án þess að rifna sundur? Er það rétt að sé þrýstingur aukinn í dekkjum, t.d. úr 30 psi í 35, minnki hætta á að hvassar brúnir á holum í malbiki, eins og nú eru koma í ljós, skemmi þau?

Svar: Samkvæmt alþjóðlegum staðli eru öll dekk merkt á hliðinni með s.k. DOT-kóða. Úr honum er hægt að lesa framleiðslutíma dekks. Flest hjólbarðaverkstæði hafa töflur sem notaðar eru til að breyta þessum kóða í tíma.
Sá hámarksþrýstingur sem gefinn er upp á dekkjum hefur ekkert með þrýstingsþol að gera - dekk þolir miklu meiri þrýsting á heilli felgu. Sé þrýstingur í dekki 10 psi ber það ákveðinn þunga án þess að leggjast saman, sé þrýstingurinn aukinn í 20 psi ber dekkið meiri þunga, og enn meiri sé þrýstingurinn aukinn í 30 pund. Hámarksþrýstingurinn, sem þú nefnir, eru þau mörk þar sem burðarþol hættir að aukast með auknum þrýstingi.
Svarið við síðustu spurningunni er nei. Öfugt við það sem margir virðast halda er hart dekk, t.d. með 35 psi líklegra til að skemmast af höggi frá holubrún en linara dekk, t.d. með 28 psi. (Hér er ekki rými til að svara ýmsum öðrum spurningum varðandi dekk. Vísa til frekari upplýsinga í "Brotajárni'' 22 og 23 á www.leoemm.com/gagnabanki.htm

Stíflaður hvarfakútur
Spurt: Ég er með sjálfskiptan Peugeot 406 árg. 2000 sem er ekinn 53 þús. km. Vélin er áberandi kraftlaus og þegar ég skipti niður með botngjöf í brekku nær vélin ekki nema 4500 sn/mín. Vélin snýst heldur ekki hraðar en 4500 sn/mín við botngjöf í hlutlausum. Vélin höktir og kokar á 4500 sn/mín í akstri. Ég er búinn að fara með bílinn í bilanagreiningu á verkstæði en út úr því kom ekkert.

Svar: Svona bilanir eru sérstaklega erfiðar viðfangs því orsakir geta verið margar. Oft getur ástand kerta gefið vísbendingu um hvar bilunarinnar kann að vera að leita. Séu kertin t.d. áberandi dökk og sótug er blandan of sterk sem getur verið vegna ónýts hitaskynjara í kælivatnsrás, mettaðrar loftsíu, stíflaðs pústkerfis eða of veiks neista (ónýt kerti, ónýtt kveikjulok/hamar, ónýtir kertaþræðir). Séu kertin hins vegar ljósbrún eða ljósgrá bendir það til of veikrar blöndu sem getur stafað af stíflaðri bensínsíu, bilun í bensíndælu. Stíflað púst og stífluð bensínsía eru tvö atriði sem sjaldan skila bilanakóða við greiningu. Eftir ýmsar tilraunir datt einhverjum í hug að losa púströrið frá greininni og þá reyndist vélin vinna eðlilega. Stíflaður hvarfakútur reyndist vera orsökin.
Í Peugeot-umboðinu var hvarfakúturinn ekki til en þær upplýsingar fengust að væri hann pantaður myndi hann kosta um 100 þúsund kr. fluttur sjóleiðis en 130 þús. kr. í flugi. Þótt 406 sé nokkuð algengur bíll var ekki til hvarfakútur fyrir hann hjá N1. Hvarfakúturinn reyndist hins vegar vera til hjá BJB-pústþjónustunni í Hafnarfirði (Hjallahrauni) og kostaði þar kr. 15.200.-.

Einkenni rakamettunar í bensíni
Af gefnu tilefni skal lýst helstu einkennum rakamettunar í bensíni. Vélin drepur á sér af og til heit og fer ekki gang hvernig sem látið er. Eftir 5 mín. dettur hún í gang og gengur t.d. hálfan dag eðlilega þar til þetta gerist aftur - fer eftir því hve mikil rakamettunin er. Ástæðan er sú að vatnsdropi eða dropar myndast smám saman á botni soggreinar eftir að v´lin hefur hitnað. Sé beðið í 5 mín. ná þeir að gufa upp og vélin fer aftur í gang. Til að girða fyrir þetta vandamál er notað ísóprópanól (spíri sem ísvari) og blandað saman við bensínið. Ein tappafylling nægir í fullan geymi sem forvörn en til að losna við vatn úr kerfinu þarf hálfan um 60 ml.

83
Audi A6: Óeðlilegur olíureykur
Spurt: Er í vandræðum með Audi A6 árg. 2000. Eitthvað virðist gerast í öndunarkerfi vélarinnar/sveifarhússins þegar frost er úti þannig að vélin virðist gusa smurolíu inn í útblásturskerfið með tilheyrandi reyk. Mér er sagt að þetta sé þekkt vandamál í Audi A6 með 2,7 túrbóvél eins og í mínum bíl. Ég hef prófað að losa áfyllingarlokið fyrir smurolíuna og beðið þar til vélin er orðin sæmilega volg. Þá gerist þetta ekki en um leið og ég festi lokinu byrjar ballið. Ekki veit hvar á að leita í þessu slöngukraðaki að meininu. Geturðu bjargað mér?.

Svar: Það fer nú hálfgerður hrollur um mann þegar minnst er á A6 - því þegar "felihlífarnar'' hafa verið fjarlægðar af vélinni lítur þetta út eins og kassi fullur með ánamaðka (eins og HKL myndi orða það) (en prófarkalesari Mbl. náði þessu ekki og breytti setningunni þannig að hún varð óskiljanleg!). En að öllum líkindum er orsakarinnar að leita í loftdælu sem á að minnka mengunina (Air pump) en hún er smurð og getur raki mettast í henni. Þegar staðið er framan við bílinn er dælan á festiplötu sem er aftarlega vélinni hægra megin. Hún tengist lokum sem eru aftan á hvoru heddi en þeir eyðileggjast og festast þegar raki kemst í þá frá dælunni og þá dregst smurolía inn í soggreinina og vélin reykir - eins og þú lýsir. Þú þarft að endurnýja þessa loka og ef til vill dæluna líka. Handbók yfir Audi A6 hef ég séð hjá N1 eða Bókabúð Steinars (frá Haynes). Það er vissara fyrir þig að hafa hlutarnúmerið á dælunni því þær eru af fjölmörgum gerðum í Audi. Á meðal þeirra sem selja þessar dælur og væntanlega lokana líka, á Netinu er m.a. www.autopartswarehouse.com og www.discountautoparts.com en einnig hafa IB á Selfossi og H. Jónsson & Co. í Kópavogi sérpantað þessa hluti.

Forhitun biluð í Musso
Spurt: Ég á í vandræðum með Musso dísil af árg. 2000. Forhitunin hætti allt í einu að virka nemar þegar henni sýnist; forhitunarljósið í mælaborðinu lýsir eitt augnablik og slokknar jafnharðan eða lýsir alls ekki og vélin neitar að fara í gang. Ég opnaði straumlokuboxið og fann að straumur er að því en virðist rofna strax. Þegar ég aftengdi glóðarkertin hékk straumlokan inni. Prófaði að aftengja eitt og eitt kerti, sem öll virðast vera í lagi, en það virtist ekki breyta neinu. þetta gerist ekki alltaf en er þó til mikilla leiðinda. Glóðarkertin voru endurnýjuð fyrir um 10.000 km. Getur þessi truflun í forhituninni tengst því að stundum er erfitt að drepa á vélinni með lyklinum en þá er ekki um annað að gera en að standa á bremsunni og drepa á vélinni í 3. gír. (Eins gott að hann er ekki sjálfskiptur). Hvað er til bragðs að taka?

Svar: Í minna boxinu sem er aftan við rafgeyminn, vélarmegin, er m.a. öryggið fyrir forhitunina og straumlokan undir því. Bilunin er yfirleitt í öryggjatenginu sjálfu, þ.e. s - útfelling. Það sem blekkir mann er að öryggið sjálft er heilt. Sé "þjóftengt'' milli leiðslna yfir öryggið virkar allt eðlilega. Þessi tengi þarf að taka sundur, bræða upp lóðningar, þrífa rækilega og endurlóða. Eftir það virkar forhitunin. (Þeir sem átt hafa Benz dísil lengi kannast við þetta vandamál). Þetta hefur ekkert að gera með bilunina í ádreparanum. Það er bara tilviljun (kuldinn?). Í Musso dísil er ádreparinn sogvirkur loki á eldsneytisinntaki olíuverksins og er hluti af sogdælukerfi sem jafnframt virkjaði sjálfvirku framdrifslokurnar sem flestir hafa losað sig við. Ádreparinn virkar ekki vegna leka í sogleiðslukerfinu. Rafvirkur rofi, ferhyrnt stykki uppi við hvalbakinn bílstjóramegin sem sogleiðslur tengjast í, stýrir m.a. ádreparanum og oftast er lekinn vegna ónýtrar gúmmímúffu sem tengir saman grannar plastlagnirnar. Yfirleitt er auðvelt að finna lekann með því að rekja lögnina frá ádrepara að raflokanum og síðan áfram frá honum. Þú færð múffurnar í umboðinu (Bílabúð Benna) eða í Ræsi.

Nissan Micra sjálfskipting ónýt?
Spurt: Ég er búin að eiga Nissan Micra af árgerð 2000 síðan hann var nýr og hef verið mjög ánægð með hann. Einhverjir hafa verið að hræða mig með því að sjálfskiptingin, sem er þessi þrepalausa, sé handónýtt drasl en hún hefur nú samt aldrei bilað - fyrr en um daginn þegar ég ætlaði að bakka út úr stæði þá bara gerist ekki neitt - enginn gír hvorki áfram né afturábak. Mér tókst að koma bílnum á verkstæði og þar sagði ungur maður mér eftir að hafa litið yfir bílinn og prófað gírstöngina að skiptingin væri örugglega ónýt og ekki borgaði sig að gera við hana heldur skyldi ég fara með bílinn í förgun og fá 15 þúsund kr. En bíllinn er stríheill að öllu öðru leyti og meira að segja nýskoðaður!. Getur þetta staðist?

Svar: Þetta stenst örugglega ekki. Þú hefur verið ljónheppinn að tvennu leyti: Í fyrsta lagi að enginn gír skuli virka og í öðru lagi að trúa ekki þessum unga manni á verkstæðinu því hann hefur ekki vitað baun í bala um hvað hann var að tala. Það er örugglega ekkert annað að skiptingunni en að lítil kúla sem er á enda skiptibarkans hefur smokrast upp úr gripkló á armi á sjálfskiptingunni. Með því að slá kúluna aðeins til og smella henni aftur í plaststykkið tollir hún þar og skiptingin virkar eðlilega á ný. Það er ekkert að þessum þrepalausu skiptingum í Nissan nema léleg og dýr þjónusta umboðsins. Sé eðlilega með þær farið og hugað að því sem þarf að gera reglulega - endast þær bílinn.

Vél í Toyota Avensis gengur illa köld
Spurt: Ég á Toyota Avensis '98, keyrða 150.000 km. Vélin gengur mjög illa fyrst eftir gangsetningu í kulda; hún snýst ekki nógu hratt til að haldast í gangi eða bara drepur á sér. Til að halda vélinni í gangi þarf maður að gefa svolítið í þangað til hún hitnar aðeins en þá gengur hún eðlilega?

Svar: Margir samverkandi þættir geta valdið svona vandamáli og kóðalestur á verkstæði myndi útiloka nokkra þeirra strax. En þar sem hann kostar 7-10 þúsund er tilraunarinnar virði að prófa eftirfarandi: Hafirðu aldrei skipt um kertaþræði er kominn tími til þess (þeir geta valdið veikum neista, sérstaklega ef kerti eru einnig léleg.) Muni ég rétt er 1600-vélin með kveikjulok og hafirðu ekki skipt um það og hamarinn skaltu gera það um leið og kertaþræðina því lokin fúna með aldrinum og útfelling sest innan á leiðnitappana; - neistinn verður veikur - sem kemur fyrst áþreifanlega í ljós þegar kólnar í veðri. Jafnvel þótt gangurinn batni ekki þegar vélin er köld er þetta góð fjárfesting sem eykur sparneytni umtalsvert. Í vatnsganginum er hitanemi sem gefur tölvu bílsins til kynna þegar vélin er köld en þá styrkir hún bensínblönduna (gegnir sama hlutverki og innsog gerði á vélum með blöndungi). Eftir því sem vélin hitnar þar til eðlilegum vinnsluhita er náð breytist leiðni eða spenna þess skynjara og þá breytu notar tölvan til að draga úr styrk blöndunnar þar til súrefnisskynjarinn í pústgreininni tekur við sem blöndustýring. Þessi nemi getur verið ónýtur eða sambandsllaus þannig að blandan sé of veik þegar vélin er gangsett köld. Til öryggis skalltu setja lítinn slurk (ca 1/3 úr brúsa) af ísvara út í bensínið.

Segulvélar?
Spurt: Mér finnst skrítið að ekkert sé fjallað um segulvélar. Það virðist vera búið að finna ýmislegt upp, t.d. svokallaða "magnetic motors.'' Það er bara talað um tvinnvélar, vetnisvélar og hvað þetta heitir allt saman. Vona að þú skoðir þetta.

Svar: Takk! - en er ekki komið nóg af framtíðarbollaleggingum? Hvers vegna einbeita menn sér ekki frekar að því, t.d. hérlendis, sem sparar almenningi mest í reksturskostnaði núna strax - á meðan það er hægt, - þ.e. með fleiri bílum með nýjustu gerðir dísilvéla en með nýjustu tækni og öragnasíum spara þær 30-45% eldsneyti miðað við jafn stóra bensínvél auk þess að menga minna? Öfugt við nágrannaþjóðir er dísiolía dýrari hér en bensín og reyndar hvergi dýrari í V-Evrópu. Jafnvel stórspekingar á borð við forstjóra Brimborgar og fleiri gera sér ekki grein fyrir að loftmengun sem stafar af bílvélum og eldsneyti þeirra er ekki tæknilegt vandamáæ heldur pólitískt (hérlendis) og viðskiptapólitísks eðlis á veraldarvísu (hvað þarf t.d. olíuverð að haldast lengi stöðugt þrátt fyrir að stöðugt sé kynt undir átökum milli Ísraels og Palestínumanna (m.a. af hagsmunaðilum í Bandaríkjunum) , til að Bandaríkjamenn ráðist á Íran? Málið er reifað í eftirfarandi grein sem birtist í Bændablaðinu í fyrra Umhverfisvernd kostar peninga.

Benz pælingar
Spurt: Ég er með Benz E300 '90 ekinn um 330.000km. Hvaða vélarolíu myndir þú nota og eða mæla með? Ég hef hingað til notað hálfsyntetíska olíu frá N1 (Bílanausti) og skipti um á ca. 5.000 km fresti ásamt síu.
Þrýstingurinn í keyrslu er efst á mæli og í lausgangi rúmlega 1 bar þegar vél er vel heit. Vélin brennir ekki olíu en hins vegar smitar svolítið með heddpakkningu aftarlega hægra megin.

Svar: Lekinn: Athugaðu loftunarslönguna á milli ventlaloks/soggreinar/lofthreinsara - sé hún hálfstífluð þrýstist olía út á ýmsum stöðum á Benz-vél. Heddpakkningar í Benz fara oft þannig að leki byrjar frá olíurás. Gætir prófað að taka á heddboltum.
Þér er óhætt að nota ódýrari Comma-smurolíu (t.d.Mineral eða Motorway) ef þú skiptir á 5000 km. fresti. 15W/40 hentar best okkar loftslagi og notkun.

81
Ónýtir gírkassar í VW?
Spurt: Ég er með VW Golf '95 sem er hættur að tolla í 5gír. Er eitthvað vit í að láta gera við þetta?

Svar: Ég efast um það. Svo undarlegt sem það er eru gírkassar í VW, 1995 til og með 1998 og ef til vill í yngri bílum, nánast aldrei til friðs. Ef það er ekki 5. gírinn sem er til vandræða þá er það bakkgírinn. Og séu þeir til friðs losnar kamburinn, sem er hnoðaður með álhnoðum á mismunardrifshúsið, étur sig í gegn um gírhúsið; olían lekur af og kassinn er ónýtur! VW Golf af þessum árgerðum eru með dýrustu notuðum bílum í rekstri. Ráðlegg þér að farga bílnum því gírkassinn er ekki það eina (dýra) sem bilar - áður en þú veist af ertu kominn við viðgerðarreikninga upp á hálfa milljón eða meira.

Miðstöðvarlaus Matiz
Spurt: Ég er með Dawoo Matiz árg. 2000 og miðstöðin hitnar ekki. Hún hitnar reyndar gefi ég vel innen um leið og ég slæ af kólnar hún strax aftur. Ég er búinn að skipta um vatnslás. Það breytti engu. Nógur kælivökvi er á kerfinu og þetta er ekki heddpakkningin. Hvað getur þetta verið?

Svar: Gangi rafknúna kæiliviftan ekki stanslaust á vatnskassanum (ónýtur hitarofi) getur vatnsdælan verið ónýt miðað við þessa lýsingu þína. Staðfesting á því er lítill munur á hitastigi inn- og útslöngu miðstöðvarinnar þar sem þær liggja inn í farþegarýmið. Séu þær áberandi misheitar er bilunin í miðstöðinni sjálfri; spjald laust (barki/rofi) eða önnur bilun sem veitir heitu lofti beint út og framhjá hitaldinu.

Loftun afturdælna á Benz með ABS
Spurt: Hvernig getur maður náð lofti af ABS-kerfi? Er strand með M-Benz 230 '90 eftir viðgerð erum þó vanur að ráða við gömlu kerfin en næ ekki að dæla bremsuvökva í aftari bremsurörin. ABS-kubburinn virðist stoppa flæðið.

Svar: Þú þarft að tengja með aukaleiðslu á milli spaðanna á ABS-straumlokunni þannig að ABS-dælan fari í gang. Við það opna ABS-lokarnir kerfið fyrir afturhjólin sem þá er hægt að lofta. Þetta gildir um margar fleiri tegundir en Benz.

Spurt: Dodge Ram 5,9 dísil 2003 á 35" án stýristjakks er mjög þungur í stýri kyrr en mun betri á ferð. Ég fór með hann verkstæði, sem auglýsir sig sem sérhæft í þessum bílum, og var sagt að stýrisvélin væri biluð og var ráðlagt að kaupa nýja sem ég gerði og þeir settu í. Við þessa 100 þúsund króna viðgerð breyttist stýrið ekkert og enga skýringu var að fá á því. Hvað getur orsakað þetta?

Svar: Orsakanna er að leita í stýrisdælunni sem heldur ekki nægum þrýstingi af einhverjum ástæðum. Ég myndi ráðleggja þér að fá tíma hjá bílaverkstæðinu Skiptingu í Keflavík þar eru menn sem hafa bæði þekkingu og reynslu til að leita að biluninni í stað þess að giska á hver hún kunni að vera. (Eftirfarandi sleppt í Mbl. vegna rýmis): Aftan á stýrisdælunni í Dodge Ram er rafstýrinemi. Hann er hluti af búnaði sem nefnist "Progressive steering'' og virkar þannig að hann léttir stýrið þegar t.d. er lagt í stæði en þyngir það með auknum hraða til að viðhalda rásfestu (stefnutregðu). Þessi rofi hefur bilað þannig að stýrið verður níðþungt þegar bíllinn stendur kyrr. Mig grunar að þessir sérfræðingar hjá Bíljöfri kunni ekki að prófa þennan búnað og það sé hann sem sé að valda þessum vandræðum. Skipting í Keflavík hefur tæki til að mæla virkni þessa búnaðar.

80
Hvers vegna eru öryggispúðar í framstólum?
"Airbag-tölva'' í Opel
Spurt: Get ég notað "Airbag-tölvu'' úr Opel Astra 1999 í Opel Vectra 1996? Er hægt að fá gert við svona tölvu? Ég spyr vegna þess að verð á nýrri "Airbag-tölvu'' er ótrúlega hátt, - ekki bara í Opel heldur flestar bíltegundir.

Svar: Þú getur ekki notað tölvu úr Opel Astra vegna þess að frá og með 1998 árgerð komu Opel-bílar með loftpúða einnig í framstólum. Það er því annað kerfi. Líklegra er að þú getir notað "Airbag-tölvu'' úr öðrum gerðum Opel fyrir árgerð 1998 svo fremi að tengill sé sá sami.
Þeir sem gera við vélartölvur (ECM) og drifstýritölvur (TCM) - en Varahlutalagerinn (sími 699 3737) í Kópavogi veitir þá þjónustu, gera ekki við tölvur sem stjórna öryggisbúnaði og mun það algilt (vegna ábyrgðar sem kann að myndast). Tölvubúnaður í evrópska bíla er yfirleitt miklu dýrari en í ameríska bíla. IB á Selfossi, Bílabúðin H. Jónsson & Co, Bílabúð Benna o.fl. sérpanta tölvur í ameríska bíla. Við þetta svar vil ég bæta eftirfarandi 3 atriðum af gefnu tilefni:
A. Tilgangurinn með því að hafa öryggispúða í framstólum virðist ekki öllum ljós: Eins og aðrir öryggispúðar spretta þeir upp við ákveðið högg. Megintilgangurinn með stólapúðum er að koma í veg fyrir að sá sem er í bílbelti í stólnum geti runnið niður eða fram úr lendabeltinu og þannig orðið fyrir meiri áverka en ella við höggið.
B. Það er ekki skylda að hafa virka öryggispúða í bíl við skoðun þótt flestir nýir bílar séu með þá sem staðalbúnað. Lýsi "Airbag-ljósið'' og ekki talið borga sig að gera við búnaðinn má aftengja ljósið. Skilyrði er þó að jafnframt séu fjarlægð "Airbag-merki'' í mælaborði og stýrismiðju (með yfirlímingu, fylliefni eða á annan hátt) sem annars gæfu til kynna öryggi sem ekki er fyrir hendi. Það er því óþarfi að farga gömlum bíl af þessari ástæðu ákveði eigandinn að vera án þess öryggis sem púðarnir veita.
C. Einungis bifvélavirkjar eða þeir sem hafa réttar upplýsingar skyldu fást við "Airbag-kerfi'' því þau geta valdið slysum sé fiktað við búnaðinn.

Fjölskyldubíll með rými fyrir 3 barnastóla +
Spurt: Við hjónin erum að leita að bíl með pláss fyrir 3 barnabílstóla.
Við höfum skoðað 7 sæta bíla en í flestum er of þröngt fyrir 3 stóla. Við prófuðum t.d. Toyota Verso en erfitt reyndist að koma öllum stólum og krökkum fyrir í honum. Hvaða 7 manna bíll er með nóg rými, á hóflegu verði, viðunandi að gæðum og ekki of eyðslufrekur - þ.e. hvaða bílum myndir þú mæla með?

Svar: Chrysler Town & Country (Voyager Minivan í Evrópu, einnig Dodge Caravan) er ekta fjölskyldubíll enda einn vinsælasti bíllinn í Bandaríkjunum sl. áratugi vegna rýmis og sparneytni (4ra eða 6 sílindra vélar) - en hann er jafnframt einstaklega þægilegur bíll í akstri. IB ehf. á Selfossi og fleiri hafa flutt þá inn bæði nýja og notaða en IB veitir bæði varahluta- og viðgerðarþjónustu. Einn af stórum kostum við Voyager, sem er framdrifinn og líklega með sparneytnustu bílum miðað við innra rými, er að ekki þarf að fara út úr bílnum til að huga að barni aftur í. Annar góður "barnabíll'' er Hyundai Starex 4x4 (sá tvíhjóladrifni (H1) er með afturhjóladrifi sem er ókostur). Þú getur lesið umsögn um Starex á vefsíðunni www.leoemm.com ( Bílaprófanir;(jeppar, sendibílar, Starex 4x4). Síðan sá var prófaður er komin ný útgáfa.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu