Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 21

Jeppadekk: Hvað hefur reynslan kennt mér?

Fólksbíladekk: Atriði sem skipta máli (algengustu mistökin við val á dekkjum)

68
Óeðlilegt dekkjaslit
Spurt: Ég á Nissan Maxima 2002. Dekkin að frama slitna mjög ört en dekkin að aftan eru í góðu lagi. Ég vildi gjarnan vita hvert vandamálið gæti verið áður en æég fer með bílinn á verkstæði. Geta spindlarnir verið skakkir eða ónýtir, hjólalegur slitnar eða eitthvað annað?
Svar: Sennilegasta orsökin er slit í stýrisenda þannig að millibil framhjólanna sé rangt - þá skafast dekkin upp. Tjakkaðu bílinn upp að framan öðru megin í einu og taktu á hjólinu. Þú finnur strax hvort laust bil er merkjanlegt þegar þú tekur á hjólinu fram-aftur eða upp-niður. Sé millibilið of mikið (útskeifur) slitna dekkin meira á innri kantinum en á ytri kantinum séu framhjólin of innskeif. Í þessum bíl eru spindilkúlurnar að neðan og séu þær slitnar verður hjólhallinn rangur, bíllinn eltir rákir í malbikinu og dekkin slitna örar. Slitnar framhjólslegur í framdrifnum bílum valda urghljóði, sérstaklega þegar beygt er en yfirleitt ekki sliti á dekkjum.

Óvirk stefnuljós og smellir í framhjóli
Spurt: Ég á Jeep Grand Cherokee V8 1999. Í fyrsta lagi eiga stefnuljósin það til að hætta að virka í viku eða svo en verða síðan virk aftur í um vikutíma og gengur þannig í nokkra mánuði. (öryggi og perur eru í lagi). Í öðru lagi eru það bremsurnar: Þegar ég sleppi bremsupedalanum heyrist smá högg og ég finn höggið líka, aðallega hafi ég þurft að bremsa snögglega t.d. á ljósum. Ég er búinn að skipta um bremsuklossa, bremsudælur og diska að framan og bremsuklossa og endurnýja í dælunum að aftan.
Svar: Stefnuljósin: Byrjaðu á því að endurnýja blikkarann (ónýtur eða slæmt samband á tengi). En áður skaltu til öryggis yfirfara allar perur í stefnuljósum og bremsuljósum að aftan. Gáðu að útfellingum í perustæðum og tengjum, hvort perur líti út fyrir að hafa hitnað (svartar) - það gæti verið sambandleysi í perustæði sem veldur viðnámi og hitnun þannig að samband slitni. Amerískir bílar samnýta bremsu- og stefnuljós að aftan og geta fært ljós til ef perur eru ónýtar. Gakktu úr skugga um að bæði bremsuljósin séu virk báðu megin - séu perurnar í lagi skaltu endurnýja blikkarann - hann er annað hvort á öryggjatölflunni eða í sérstökum straumlokukassa (sýnt í handbókinni). Höggin við bremsun eru sennilega vegna slits í efri eða neðri spindilkúlu, balansstangarfóðringu eða öðru sem heldur klafa að framan föstum: Þegar bremsað er hnykkist klafinn aftur og fram þegar bremsunni er sleppt en við það kemur smellurinn.

Ventlaleggsþéttingar - er það mikið mál?
Spurt: Er mikið mál að endurnýja ventlahulsur/þéttingar í Corollu 1600. Bíllinn er árgerð 1993 ekinn 230 þús. Blár reykur sést í útblæstrinum.
Get ég fundið einhverstaðar myndir eða teikningar af verkefninu?
Svar: Sérstaka ventlaþvingu þarf sem virkar ofanfrá og búnað til að blása þrýtsilofti inn í sílindrann um kertagatið til að halda ventlinum uppi á meðan skipt er um hulsu auk. Auk þess þarf að losa kambásinn af heddinu og snúa vélinni þannig að stipill sé í efstu stöðu á þeim sílindra sem unnið er við. Eftir 230 þús. finnst mér ólíklegt að olíubruni sé einungis frá ónýtum hettum - olíuhringirnir á stimplunum gætu verið slitnir. Byrjaðu á að kaupa sírópskennt efni á lítilli dós frá STP (Engine Oil Treatment), hitaðu dósina vel á miðstöðvarofni og heltu svo saman við smurolíuna á heitri vélinni í lausagani (þú þarft trekt ef mikið blæs upp úr ventlalokinu - sem er dæmi um hringjaslit). Minnki smurolíubrennslan áberandi (blái reykurinn) næstu vikuna eru stimpilhringirnir slitnir og þú getur sparað þér ómakið. Síðast þegar ég vissi fékks viðgerðarbók yfir Corolla frá HAYNES hjá N1 (áður Bílanausti).

67
Höktandi sjálfskipting í Renault Megane Sport Tourer
Spurt: Mér finnst sjálfskiptingin vera eitthvað skrýtin, finnst vera smá hikst í henni og finn högg við niðurgírun þegar ég bremsa. Ég fór með hann í 2 ára skoðun og var hann prófaður og þá var sagt að þetta væri eðlilegt. Getur það verið?
Svar: Þetta er ekki eðlilegt - engin högg eða hnökrar eiga að vera í þessum ZF-skiptingum í Renault frekar en í öðrum. Sé bíllinn í ábyrgð skaltu krefjast þess að þjónustustjóri prófi bílinn með þig sem farþega - finni hann fyrir höggunum á annað hvort að gera við skiptinguna eða endurnýja hana (framleiðandinn greiðir þann kostnað en ekki umboðið). Sé einhver fyrirstaða skaltu leita til FÍB eða Bílagreinasambandsins. Sjálfskiptingar hafa verið til vandræða í mörgum Renault-bílum og eftir að ábyrgðartíminn er útrunninn kostar ný skipting ekki undir 500 þús að viðbættri vinnu.

Sparneytinn 7 manna bíll
Spurt: Ég er með stóra fjölskyldu og þarf 7-manna bíl. Hef verið að velta fyrir mér Ford Explorer en er dálítið hikandi vegna eyðslunnar. Umboðið gefur upp 13.7 lítra á 100 km hjá V6-bílnum en 14.7 hjá V8-bílnum. Hvað myndir þú telja að eyðslan sé í raunveruleikanum?
Svar: Uppgefin eyðsla umboðsins er rétt svo langt sem hún nær en þar er stuðst við svokallað EBE-meðaltal. Það er staðalmæling sem er meðaltal þrenns konar mælinga; á stöðugum 90 km hraða á þjóðvegi, stöðugum 120 km hraða á þjóðvegi og í þéttbýlisakstri eftir sérstökum reglum. Í raun segir þessi staðall lítið sem ekkert um eyðslu bíls við okkar aðstæður enda einungis nothæfur sem grundvöllur fyrir samanburð á eyðslu bíla. Þú mátt reikna með því að Explorer V6 eyði 15-20 lítrum í hefðbundnu höfuðborgarskaki (byggi það á eigin reynslu af Ford Ranger með sömu 4ra lítra vél). Það þýðir að bensínkostnaðurinn, sérstaklega hjá fjölskyldu sem þarf að skutla mörgum krökkum út og suður, verður mjög hár. Bendi á að Chevrolet Captiva er 7 manna sportjeppi með öflugri 2ja lítra dísilvél og eyðir innan við 10 lítrum í borgarakstri. Þú getur lesið um hann á www.leoemm.com (Bílaprófanir). Svo má nefna SsangYong Rexton með nýja sterkari grind og sparneytna Benz-dísilvél - dráttargetu 3500 kg og sæti fyrir 7.

Runó eða Renó ?
Spurt: Er það réttur framburður hjá formúlusérfræðingi RÚV þegar hann ber fram Renault sem "Renó'' ? (Íþróttafréttamenn RÚV bera Renault fram sem "Runó'').
Svar: Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli bendi aðeins á að Gunnlaugur Rögnvaldsson notar sama framburð og Frakkar gera (Renó) en það eru greinilega einhverjir hérlendis sem vilja hafa vit fyrir Frökkum í þessu efni!
Nefna má í þessu sambandi framburðinn á heitinu Porsche. Maður hefur séð burstirnar rísa á Þjóðverjum þegar það er borið fram án e-endingarinnar, þ.e. "Porch''. Frumkvöðullinn Ferdinand Porsche var frá þýskumælandi Bæheimi sem nú tilheyrir Tjékklandi. Þeir sem þekkja eitthvað til sportbíla bera nafnið fram eins og það er gert á þýsku, þ.e. sem P O R S C H E (með e-inu), meira að segja Bretar. Meira að segja reyndir amerískir bílablaðamenn bera heitið fram sem PORSCHE en ekki "PORCH''.

Er maður kominn út á hættulega braut ?

Spurt: Mig langar til að fá álit þitt á Toyota Landcruiser 100 VS diesel 2004 og uppúr. (bréf sent í framhaldi af sömu spurningu annars lesanda um Nissan Patrol en ekki birt í Mbl. þar sem ég hef ákveðið að svara spurningum um álit mitt á bílum einungis með netpósti - sé ekki hægt að vísa í grein um viðkomandi bíl í Bílaprófunum).

Svar: Þetta er tískufyrirbrigði - alíslenskt og efni í rannsókn (prófritgerðarefni). LandCruiser 100 er hvorki betri né verri en fjórhjóladrifsjeppar yfirleitt en dýrari - og hvað varðar aksturseiginleika, þægindi og "Look'' eru þeir minnst áratug eða svo á eftir t.d. nýja 5.7 lítra Cherokee/Wagoner, svo dæmi sé tekið af mörgum (ber ekki að rugla saman við stærri LanndCruiser 90 dísil með nýju forðagreinarkerfi (ekki olíuverki) sem er miklu betri bíll). Stöðugildi LandCruiser hérlendis er slíkt að eigendur nánast afhenda umboðinu veskið (með öllum kortum) - bilanatíðni LC 100 (samkvæmt Svensk bilprovning AB) mun vera yfir meðaltali (óstaðfest). Hérlendis er viðhaldið dýrt. Hins vegar má segja það umboðinu til hróss að það þarf meira en meðalhæfileika til að dáleiða fólk á þennan hátt (en það er kúnstin í bílasölu) - því það þarf meira en koparslegið hús úr marmara og gleri fullt af nördum. Fábært skipulag - sérstaklega hæft tæknilið (m.a. bestu bifvélavirkjana og þá best þjálfuðu með hæstu launin í bransanum) sem fyrirtækið lætur sér annt um - en allt þetta kallar á útsjónarsemi, skipulag, vinnu og markvissa stjórnun - sem fæstum öðrum íslenskum bílaumboðum hefur tekist eða getað tileinkað sér. Þetta hefur Toyota-umboðið gert betur en nokkurt annað bílaumboði hérlendis enda nýtur það ávaxtanna. Mig grunar að þeir hafi alla tíð haft danska Citroën sér til fyrirmyndar (vegna frábærrar þjónustu í Danmörku allar götur síðan 1946 er Citroën með hæst endursöluverð notaðra bíla í Danmörku en almennt talinn með druslum í Svíþjóð og Noregi). Til umhugsunar: - LandCruiser 80/90/100/120 (eða í hvaða röð þeir eru) sjást varla á Autóbönum í Þýskalandi - nema þá á hægri akreininni - þeir komast ekkert áfram miðað við Range Rover, BMW og amerísku lúxusjeppana. Þar eru Toyota-bílar ekki í tísku enda fordómar gagnvart japönskum bílum (Nissan Patrol selst betur í Þýskalandi) - og mér sýnast þeir fordómar litlu minni nú en fyrir 25 árum. Einnig til umhugsunar: Flestir virðast vera búnir að gleyma því að fyrir um 15 árum var íslenska Toyota-umboðið á barmi gjaldþrots - jafnvel norska umboðið vildi ekki fá það gefins með "heimamundi'', eftir því sem sagt var í blöðum. Miðað við stöðuna þegar eigendaskiptin urðu í fyrra, eftir að „Júniorinn’’ hafði komið aftur („nú get ég’’) og tekið við stjórninni af samstilltum hópi fagmanna sem hafði reist fyrirtækið við og var , eins og við var að búast, flæmdur eða sværldur út úr fyrirtækinu, hefur greinilega gleymst að útnefna einhverja "Menn ársins'' - að mínu mati.. En þetta sýnir bara að það er rétt sem segir í fræðunum; - góð þjónusta, jafnvel dýr, selur miklu fleiri dýra bíla og nær mun meiri kaupendatryggð en léleg þjónusta sem reynt er að fela með miklum auglýsingum: Þar skilur á milli fagmanna og fúskara í bílasölu.

66
Rúlluvippur
Spurt: Getur það verið að 600 dollara rúlluvippur í stað hefðbundinna í V8-vél með kambás í blokkinni auki afl vélarinnar um allt að 6% strax?

Svar: Nei - sú fullyrðing stenst tæplega. En ramleiðendum er vorkunn; flóknar tæknilegar útskýringar skila minni árangri en aflaukning á prenti. Gagnsemi rúlluvippa í vélum með neðaníliggjandi kambási er ótvíræð, ekki síst í dísilvélum þar sem ventilstýringar geta slitnað mjög fljótt með venjulegum vippum vegna hliðarskekkju. Rúllurnar hefja opnun ventils með því að þrýsta yst á brún leggsins og færa átakið innar á leggin og nær miðju þegar þrýstingurinn er mestur og ventillinn galopinn. Álag á ventilstýringar verður mun beinna sem þýðir að þær endast lengur. Ventillinn helst lengur fullvirkur (þéttur) og því er gagnsemin ekki dregin í efa.

Hverjir eru kostir hedda úr áli?
Spurt: Nú eru flestar vélar í fólksbílum með hedd úr áli þrátt fyrir að ál tærist af kælivökva með tilheyrandi heddpakkningarbilunum; þrátt fyrir að ál sé ekki eins sterkt og steypustál og þrátt fyrir að álhedd springi og valdi þannig aukakostnaði. Enn eru hedd úr steypustáli í sumum stórum dísilvélum. Hver er ástæðan fyrir þessari þróun og hefur hún ekki aukið bilanatíðni og reksturskostnað?

Svar: Í fyrsta lagi er ekkert hedd úr hreinu áli heldur blöndu áls og annarra léttmálma og efna sem langan tíma hefur tekið að þróa. Bilanatíðni vegna álhedda, jafnvel þótt þau verði sífellt flóknari, hefur minnkað verulega sl. 5 ár. Strangari kröfur um leyfilegt hámark mengandi efna í útblæstri eru ástæður þess að álhedd hafa tekið við af stálheddum. Ástæðan er einföld: Álblöndur leiða betur varma. Við gangsetningu kaldra bensín- og dísilvéla með álheddi þarf eldsneytisblandan (innsog) ekki að vera sterk nema skamman tíma þar til brunahólf hafa náð eðlilegum vinnsluhita en mun lengur væri brunahólfið úr stáli. Því lægra sem útihitastigið er því meiri er hlutfallsleg mengun við gagnsetningu vélar með stálheddi að öðru óbreyttu. Ásamt ýmsum öðrum tækninýjungum hefur tekist að auka sparneytni véla með álheddi og minnka loftmengun við gangsetningu að því marki að nýlegar vélar standast kröfur mengunarvarnastaðla, EU5 og nýjasta þreps EPA Tier 2 (sem er strangara en EU5), sem gilda frá 1. jan 2007- en það var talið óhugsandi fyrir 10 árum - enda kvörtuðu bílaframleiðendur sáran undan kröfunum, sem þeir töldu þá óraunsæar.
Varðandi stærri dísilvélar í vörubílum og vinnutækjum sem enn hafa hedd út steypustáli er skýringin sú að vegna stærðar vélanna og meiri slaglengdar (lengri stimplar) er brunahólfið ekki í heddinu heldur í bolla í kolli stimpilsins sem er úr álblöndu. Þannig nýtast kostir álsins einnig í þeim vélum til þess að draga úr loftmengun og auka sparnað.

"Hland-innsprautun''. Á síðustu 5 árum fram að 2007 hefur nituroxíðmengun (NOX) í afgasi bandarískra pallbíla minnkað um 98% (2007 var hætt að selja brennisteinsblandað eldsneyti, bæði bensín og dísil. Minni NOX-mengun dregur umtalsvert úr losun koldíoxíðs . Nú nýlega var farið að selja dísilbíla í Bandaríkjunum (Benz-fólksbíla) búna innsprautun þvagefnis (Harn/urea-inspritzung) í afgaskerfi sem með öragnasíum gera skaðlega útblástursmengun þeirra minni en hjá nokkrum bensínbíl af sömu stærð. "Hland-innsprautunin'' (harn-er þvag á þýsku) eykur jafnframt sparneytni bílanna þannig að kerfið, sem reyndar er ekki flókið en svínvirkar, borgar sig sjálft! Það kann því að vera skemmra í það en margur hyggur að það verði hagkvæmt að létta á sér í tankinn; - maður sér fyrir sér slíkar áfyllingarstöðvar leysa ákveðið vandamál í miðborginni ......

65
Dýr sætisbelti
Spurt: Uppgötvaði að 2 af 3 sætisbeltum í aftursætinu á bílnum mínum eru slitin! Furðulegt er að annað er í sundur og hitt er 80% í sundur á tveimur stöðum. Bílinn er Renault Scenic RX4 2001. B&L bjóða nýtt belti fyrir miðjuna á 24 þús og fyrir hægra sætið á 37 þús. = 61 þús!!! Fyrr má okra en.... Þetta er hátt í 10% af bílverðinu! Partasölur hér eiga þetta ekki. Veist þú um einhverjar leiðir til að kaupa þetta erlendis?

Svar: Prófaðu að skrifa þessu sænska fyrirtæki - þeir eru að rífa nokkra Renault - afturbeltin eru nú yfirleitt heil í þessum bílum.
http://www.hards.se/default.asp?sida=demoobjekt Viðbót: Þessi sænska partasala reyndist ekki eiga beltin. Hins vegar átti partasala í Bretlandi þau og seldi fyrir 75 pund. Heimkominn með flutningi, tolli og vsk. kostuðu beltin 14.000 (sparnaður 47 þús. kr.). Vanti þig varahluti í Renault eða aðra bíla sem algengir eru í Bretlandi og hægri-handar stýrisgangurinn skiptir ekki máli skaltu nota Google-leitarvélina og leitarstreng t.d. used autoparts .co.uk
Þú getur líka prófað þennan tengil: http://www.breakeryard.com/partfinder.aspx

Engin stilling á stöðubremsu
Spurt: Er með Chevrolet Trailblzer 2004 og ætla að skipta um bremsuklossa en mér finnst handbremsan ekki nógu góð. Er ekki hægt að stilla hana?

Svar: Þetta er "hattdiskur'' að aftan með þunnum borðum innan í hattkúfnum en klossum á barðinu; - lélegt drasl að evrópskri fyrirmynd. Þú losar dæluna, tekur diskinn af og skoðar borðana/kjálkana. Séu þeir slitnir færðu nýtt borða/kjálkasett og pinna/gormasett í Stillingu, N1 eða hjá IB á Selfossi. Nýja settið er endurbætt þannig að kjálkarnir miðja sig sjálfvirkt þegar handbremsan er losuð (þeir eldri gerðu það ekki og slitnuðu því ójafnt). Síðan þrífurðu útíhersluna og smyrð með CopperEase og notar hana til stillingar þar til diskurinn smellpassar uppá án þess að taka út í. Það er engin önnur stilling á stöðubremsunni í þessum bíl.

Mitt álit á Nissan Patrol!
Spurt: Mig langar að fá álit þitt á Nissan Patrol 2004 og uppúr með 3ja lítra dísilvél.

Svar: Breyttur Patrol 3ja lítra dísill er aðgangskort að vandamálum; mikil eyðsla, þungur bíll og ekki dugmikill í erfiðri færð: Skil ekki hvað menn sjá við þessa bíla nema það sé stærðin - Musso hentar t.d. mun betur til breytinga - hins vegar er Patrol mjög þægilegur og rúmgóður jeppi - óbreyttur.

Volvo Turbo vandamál
Spurt: Ég á Volvo 760 Turbo Intercooler '87, amerísku gerðina með B23 vél með beinni innsprautun, ekinn um 200.000 km. og hefur alltaf verið í skipulagðri þjónustu/eftirliti. Nú er staðan sú að hann fer stundum í gang og stundum ekki og þegar hann fer í gang er gangurinnfínn, gengur jafnvel heilan dag en næsta dag drepur hann á sér á öðru hverju götuhorni sem er ömurlegt.
Svona hefur þetta verið í allan vetur. Ég er búinn að leita til 4 verkstæða og öll hafa gefist upp, þ.á.m. Brimborg. Þetta er þegar búið að kosta 200 þús. án nokkurs árangurs. Hvað telur þú að geti valdið þessu?

Svar: Það eru tvær gerðir af Bosch-vélstýrikerfum í þessum bílum og hvorugt með bilanagreiningu (enginn kóðalestur mögulegur). Annað þeirra er með "cranksensor'' efst í kúplingshúsinu (skynjari sem nemur toppstöðu 1. sílindra). Hitt kerfið - og það er greinilega í þínum bíl, notar "hallsensor'' sem toppstöðuskynjara og er sá í kveikjunni. Hann bilar oftast svona þ.e. ýmist dauð vél eða í lagi - stundum eru leiðslurnar sem liggja inn í kveikjuna að þessum skynjara með trosnaða einangrun og snerti maður við þeim þegar startað er fer vélin í gang. Þennan "hallsensor'', sem er frá Bosch og passar úr ýmsum öðrum bílum, áttu að fá hjá www.bifreid.is eða í Vélalandi.

Viðbót: Af því rætt er um Volvo turbo má nefna einkennilegt vandamál í nýjum 230 ha Volvo með T5-turbo, þ.e.s. með þverstæðu 5 sílindra véelina með pústþjöppu. Eigandinn kvartaði undan því að þegar hann lenti í tjörnunum sem mynduðust í hjólgrópunum á Keflavíkurveginum í mikill úrkomu og vetnið fyllti brettaskálarnar kæmi rosalegt óhljóð frá vélarrúminu - ýskur og sarg og um leið yrði bíllinn mjög óstöðugur. Aldrei bæri á þessu í þurru veðri. Við skoðun á lyftu fannst fyrir tilviljun hringferilsrispa á öðrum framöxlinum eins og eftir einhvers konar núning. Framan á þessari túbóvél eru flækjur sem koma saman undir vélinni að aftan og aftan við drifsköftin. farþegamegin. Við skoðun á púströrunum kom í ljós núningsblettur á einni skálminni á móts við rispuna á drifskaftinu. Það fyrsta sem kom í hugann væri að vélin gæti hugsanlega snúið upp á sig í átaki þannig að þessi skálm næði að snerta drifskaftið. Sú tilgáta stóðst ekki þar sem það hefði einnig átt að gerast í þurru en ekki einungis í mikilli rigningu. Til að gera langt mál stutt var ástæðan þessi. Millibil á milli pústskálmar og drifskafts var of lítið. Þegar bílnum hefur verið ekið talverða vegalengd verða pústskálmarnar frá forþjöppunni nánast rauðglóandi. Þegar þær snöggkælast við vatnsaustur skrapp ein þeirra nægilega mikið saman til þess að hún snerti drifskaftið með þessu tilheyrandi ískri og óhljóðum. Nýjar endurbættar flækjur frá Volvo leystu málið. En þetta sýnir vel hve verkefni bifvélavirkjans getur oft verið erfitt, sérstaklega þegar greina þarf bilun í bíl, sem er alltaf er í fínu lagi þegar komið er með hann á verkstæði og sem viðkomandi umboði hafði ekki borist nein tilkynning um þennan galla, a.m.k. fannst hún ekki.

Láttu ekki „Navara’’ þig !
Áður en þú kaupir Nissan Navara (nýjan eða notaðan) en þetta er Pikköpp-úgáfa eða nýju gerðina af Pathfinder, sem er að grunni til sami bíll með sömu 2,5 lítra túrbódísilvélina ( en hún er sú eina sem boðin er í Navara á meðan Pathfinder er fáanlegur með V6-bensínvél) skaltu kynna þér vel viðgerðarsögu bílsins. Þessar 2,5 lítra túrbódísilvélar í Navara hafa verið að hrynja - jafnvel eru dæmi þess að stimplarnir hafi gengið út úr blokkinni miðri, svo eitt dæmi sé nefnt af nokkrum. Í framhaldi spurði ég sænskan kunningja minn sem hefur starfað sem bílablaðamaður í áratugi hvort hann kannaðist við þetta mál. Hann sagði að þetta vandamál væri þekkt í Svíþjóð, þar hefu verið seldir nokkuð margir Pathfinder með þessari sömu 2488 rsm dísilvél en hún er einungis notuð í Pathfinder og Navara. Um ástæðuna sagði hann að það vekti athygli að þetta væri ein af örfáum dísilvélum sem Nissan byði sem ekki væri frá Renault, um væri að ræða eldri 2488 rsm bensínvél sem hefði verið breytt í dísilvél sem m.a. sést á því að þjöppunarhlutfallið er óvenjulega lágt eða 16,5:1. Sú kenning væri uppi að það þýddi að ekkert mætti út af bregða í innsptautukerfinu til að bruninn yrði ófullkominn og vélin sótaði sig - sótið yki slit í legum og „kjallarinn’’ væri ekki nógu sterkbyggður til að þola höggin á sveifarásinn. Hann taldi að þeir eigendur sem fylgdust með nógu vel með ástandi vélarolíunnar og endurnýjuðu áður en hún yrði kolsvört hefðu sloppið enn sem komið er en þeir sem farið hefðu eftir tilmælum framleiðandans um olíuskipti hefðu margir lent í vondum málum!. Viðbót: Á árinu 2009 framlengdi umboðið ábyrgðina á þessum vélum/bílum um 2 ár og í 150 þús. km. vegna þessa galla).

Áður en þú kaupir WV Passat með dísilvél !
Nýlega var sagt frá því í fréttum að hæsta bilanatíðni hefðu nýlegir Volvo 50, Mercedes Benz, Pegeot 307, Volkswagen Passat o.fl. Há bilanatíðni VW-bíla kemur varla á óvart hún hefur verið yfir meðaltali í nokkur ár og virðist ekkert ætla að rofa til í þeim málum. Bilun í rafeindabúnaði er þar fyrirferðarmest. En það getur verið ágætt að vita af því áður en maður skellir sér á t.d. 2001 árgerðina af glæsilegum Passat með túrbódísilvél að einn spíss í þá vél kostar um 100 þúsund krónur í umboðinu (þetta er ekki prentvilla - það er ekki settið af spíssum sem kostar 100 þúsund heldur stykkið). Þannig að til viðbótar bilununum, vandræðunum og ergelsinu vegna þeirra (og vonlausri endursölu) er „ekta íslenskt verð’’ á varahlutunum.

Afturhjólalegur í Ford F150
Spurt: Ég er með gamlan Ford F150 pikköpp fjórhjóladrifinn og þarf að skipta um afturhjólslegurnar sem farið er að urga í. Á verkstæði er mér sagt að þetta sé 8,8" Ford-afturhásing og að það getir verið meiriháttar mál að endurnýja legurnar en þær eru til hjá N1 í Reykjavík og kosta ekki mikið. Hvað er það sem getur verið verið svona mikið verk eða sérstakt við þessa hásingu?
Svar: Ég þykist vita að á verkstæðinu hafi bíllinn verið keyrður á tjakki að aftan og að þeir hafi hlustað hásingarstútana. Þessi Ford-hásing er með hálffljótandi öxlum sem er haldið á sínum stað með c-splittum í mismunardrifshúsinu (boltað lok á drifhúsinu). Hjóllegurnar eru að því leyti sérstakar að þær eru ekki með kónískum keflum heldur sívölum - sem þýðir að legan snýst bæði á öxlinum og í ytra byrðinu og fær smurning frá drifinu. Það þýðir að skemmd lega (oftast vegna þess að vantað hefur olíu á drifið) getur slitið öxlinum og þegar svo er komið heyrist það á hljóðinu sem verður öðru vísi. Það er því ekki víst að dugi að endurnýja legurnar heldur þurfi að gera ráðstafanir vegna slitsins á öxlinum eða öxlunum. Það má gera með því að endurnýja öxlana sjálfa um leið en önnur mun ódýrari lausn hefur verið á þessu vandamáli. Hægt var að kaupa sérstakar legur og eins konar múffu sem fylgir þeim og er sett upp á öxulinn yfir slitna hlutann. Þannig viðgerðarsett fyrir Ford 8.8" voru til hjá Summit brothers og J.C.Whitney í Bandaríkjunum (www.summitracing.com) - a.m.k. einhvern tímann.

64
Slitinn lykill ruglar þjófavörn
Spurt: Ég á Dodge Ram 3500, 318 vél með beinni innspýtingu, árg. 1996.
Vélin gengur lausagang í 2 mín og drepur svo á sér. Hver getur orsökin verið?

Svar: Þjófavarnarkerfið er líklegasta orsökin (slitinn lykill) og þá lýsir jafnframt ljós í mælaborðinu. Ef þú átt annan svisslykil skaltu prófa hann eða panta nýjan hjá lásasmiðju. Breyti það engu þarf að kóðalesa kerfið.

Vatnsmengað bensín ?
Spurt: Er með Toyota Carina '97,1800cc, beinskiptur, ekinn 213.000 km. Fyrir 2-3 mánuðum síðan fóru gangtruflanir að gera vart við sig bæði aflleysi og hökt en einungis þegar vélin er heit. Hvað heldurðu að þetta gæti verið?

Svar: Vatansmengað bensín myndi maður útiloka fyrst með ísvara. Skáni vinnslan við það skaltu endurnýja bensínsíuna sem er á hvalbaknum bílstjóramegin. Sé háspennukeflið svo heitt þegar þessar truflanir eiga sér stað að þú getuir ekki haldið utan um það þarfnast það endurnýjunar. Kertaþræðir og kveikjulok er eðlilegt að endurnýja um leið.

"Veðurfræðilegur'' Colt
Spurt: Ég er með Mitsubishi Colt 99 ekinn 115þús. Í blautviðri myndast einhverskonar bank aftan í bílnum hægra megin t.d. þegar beygt er eða farið yfir hraðahindranir. Bankið heyrist minna í þurrviðri. Geta þetta verið einhverjar fóðringar? Er það mikið mál?

Svar: Dálítið skondin bilun. Þær fóðringar sem slitna í þessum bíl að aftan getur verið talsvert mál að endurnýja. Innan í brettaskálinni að aftan eru innri hlífar úr þykku plasti - í annarri skálinni eða báðum er líka loftræstingarflipi fyrir skottið. Taktu afturhjólið af og skoðaðu þessar hlífar, innra brettið og aurhlífina, t.d. hvort þær gætu verið lausar og slegist til þegar vatn safnast í einhvern jaðar eða kant.

Loftun ABS-kerfa er sérstakt þolinmæðisverk
Spurt: Er með Pajero '99 2,8 ekinn 190þús. Eftir að skipt var um diska (alla) fyrir ári eða svo hefur ABS-ljósið kviknað öðru hverju. Ekkert finnst á verkstæði því að þá hefur ljósið ekki logað. Búið er að hreinsa ABS-tannhringi og nema en án árangurs. Þetta virðist vera óháð flestu svo sem bleytu og veðri en kemur stundum eftir ræsingu eða á ferð og hverfur svo. Ekki hægt að kortleggja neitt. ABS hættir að virka þegar ljósið lýsir. Hvers konar bilun getur þetta verið?

Svar: Það getur verið mikið þolinmæðisverk að lofta ABS-bremsukerfi vegna ABS-ventlaboxins. Þegar ein eða fleiri dælur eru aftengdar þarf að lofta allar dælur og það getur þurft að marglofta áður en allt loft er af kerfinu. Byrjaðu á að láta lofta kerfið rækilega og margoft frá hverri dælu og fylla á jafnóðum. Leysi rækileg loftun ekki málið skaltu athuga hvort bremsuljósin virka eðlilega og eins hvort þau virka þegar kerra er dregin - ónýt pera, útfelling, útleiðsla eða sambandsleysi kunni að vera á leiðslunni (rauð) sem kemur í tengi nr. 54 á kerrutenglinum. Þriðji möguleikinn er sambandsleysi á einhverri tengingu leiðslu við ABS-nema einhvers hjólsins. Þótt búið sé að hreinsa tannhringina (teljarana) geta þeir verið ástæðan (misslitnir). Þá þarf að bilanagreina ABS-kerfið með til þess gerðu tæki - það sýnir hvaða tannhringur telur ekki rétt og þarfnast endurnýjunar.

63
Vil skipta um "jeppa-umhverfi''
Spurt: Ég er að velta fyrir mér jeppakaupum og er að spá í Jeep Liberty með 2,8 l.dísilvél. Veistu hvers konar vél það er og hvernig hún hefur reynst? Ég hef verið varaður við 5 cyl. 3,1 lítra Grand Cherokee sem er sennilega með vél frá sama framleiðanda. Ég á núna Musso bensín '98 og er farið að leiðast "Musso-umhverfið''; mér blöskrar t.d. hrikalegt verðfall á SsangYong-bílum. Frá því í haust hefur þurft að gera upp bremsur, endurnýja hjólalegur, bensíndælu, vatnsdælu, hljóðkút og dekk fyrir rúmlega 400 þús. kr. sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt eftir 150 þús, km, notkun. Umboðið bauð 250 þúsund fyrir Mussoinn upp í nýjan Kyron! Þótt Musso sé sparneytinn og hafi reynst ágætlega stendur endursöluverðið ekki undir eðlilegu viðhaldi. Eins og þú hefur bent á byggir illt umtal um Musso ekki á raunveruleikanum en svo virðist sem umboðið gangi á undan í að lækka gangverðið öfugt á við það sem Toyota umboðið gerir! Okkur langar sem sagt til að breyta til og forða okkur úr þessu Musso-umhverfi.

Svar: 2,8 lítra 4ra sílindra túrbódísilvélin í 2007 árgerðinni af Jeep Liberty (sem er sami bíll og Cherokee) er frá VM sem GM hefur nú keypt og innlimað í Detroit-Diesel. Þessi nýja VM-dísilvél þykir með þeim betri á bandaríska markaðnum. 4ra sílindra VM-dísilvélarnar í Cherokee hafa reynst vel þótt margir virðast hafa illan bifur á þeim vegna þess að þær eru ítalskar. Fari ég rétt með er 3ja lítra V6-dísilvél í nýja Grand Cherokee frá Mercedes-Benz. Sú vél er með tölvustýrðri forðagrein (common rail) og bilanatíðnin, a.m.k. í Bandaríkjunum hefur þótt yfir meðaltali. Varðandi Musso: Ég hef bent á að hægt sé að gera lygilega góð kaup í nýrri týpunni af Musso dísil vegna þess hve gangverðið er lágt! (Ég er á því að sjálfskiptur Musso af árgerð 2003 með 5 sílindra Benz-dísilvél og áströlsku BTRA-skiptingunni, leðurklæddur með öllu sé, ekki bara sparneytnasti og þægilegasti jeppinn, heldur jafnframt sá þægilegasti. Þessi rógur gegn Musso hófst þegar hann tók bókstaflega markaðinn af öðrum lúxusjeppum skömmu fyrir 1990 vegna hagstæðs verðs og mikils þægindabúnaðar - að ógleymdri frábærum vélum sem reynst hafa mjög vel). Ef þú villt skipta rækilega um umhverfi bendi ég á nýja 4ra dyra Chevrolet Pickup með nýrri 5,4 lítra V8-bensínvél sem IB á Selfossi selur (og veitir fulla þjónustu fyrir). Vegna þróaðs tæknibúnaðar kemur sparneytni þess bíls mörgum á óvart. Verðið er hagstætt (lágt dollaragengi) og bíllinn hreinn draumur að keyra. Endursöluverð á GM-pallbílunum er eðlilegt og bilanatíðni lág. Það sakar a.m.k. ekki að prófa!
Viðbót: VM Motori er stofnað 1947 í Cento á Ítalíu (og er þar enn með verksmiðkju sem framleiðir 80 þúsund dísilvélar á ári með 1000 starfsmönnum). Upphaflega framleiddi VM dísilvélar fyrir rafstöðvar og skip en fyrstu VM dísilvélarnar í bílum komu 1974 og þá fyrst í Alfa Romeo.. VM er frumkvöðull í litlum túrbódísilvélum og VM Tubonics kom á markaðinn um 1990 (voru í enskum Ford, Chrysler sem smíðaðir voru í Austurríki, breskum GM og Rover-bílum og í Alfa Romeo). 1995 keypti bandaríska Detroit Diesel VM-fyrirtækið og voru VM-dísilvélar notaðar í Chrysler Voager og Cherokee. 2003 varð Detroit Diesel of VM Motori hluti af DaimlerChrysler Group (VM-dísilvélar eru nú (2009) í Hyundai-jepplingunum). Þess má geta að þegar eru hafnar prófanir á mjög tækilega fullkominni V6-dísilvél hjá VM sem mun verða í Cadillac CTS af árgerð 2009.

Glóðarkertin í LandCruiser!
Spurt: Ég lét gamlan draum rætast og skellti mér á mjög gott eintak af LandCruiser 90 af árgerð 2000. Mig langaði að spyrja hvort það væri eitthvað sem ég þyrfti að gera eða ætti að gera til að minnka líkur á meiriháttar viðgerðum en bíllinn er ekinn 150 þús.?
Svar: LandCruiser er í tísku, enda ágætur bíll og þjónustan til fyrirmyndar, en það er misskilningur haldi fólk að hann bili ekki eins og aðrir bílar. Bilanatíðnin er hins vegar ekki há, svipuð og hjá nýrri gerðinni af Musso en lægri en á Nissan-jeppunum. Í LandCruiser hafa glóðarkertin átt það til að valda alvarlegum bilunum, en um og upp úr 100 þús. km. hafa skautin viljað brotna af kertunum, brotin hringlað í brunahólfunum þar til þau hafa eyðilagt vetntla, skemmt hedd og jafnvel brotið stimpla. Það gertur þýtt viðgerð upp á 150 - 300 þús. kr. Það er því skynsamleg ráðstofun fyrir þig að endurnýja glóðarkertin (sé ekki greinilega búið að því) - þú færð þau á hálfvirði hjá N1, Stillingu eða Framtaki. Nauðsynlegt er að skipta um öll glóðarkerti samtímis í dísilvélum, a.m.k. þeim nýlegri upp úr 2000, því hraðhitunarkerfið byggir á viðnámsútslætti og hætt við að mismunandi viðnám valdi því að kerti brenni yfir og eyðieggist fyrr en ella.

Spurt: Ég er með '66 árgerð af AMC-jeppa (Willys) í bílskúrnum hjá mér, hann er vélarlaus en ég fékk Wagoner 360-vél með en finnst hún of stór og þung. Ég er að spá í 4.0l Cherokee-vél með sjálfskiptingu. Er það góð hugmynd eða á ég að fara að leita að 350-Chevrolet V8? Jeppinn er á Dana 44 Scout-hásingum, 38" dekkjum og með gormum og loftpúðum.Er hægt að setja blöndung í stað innsprautukerfisins á 4 lítra vélinni?

Svar: 360 AMC er vonlaus eyðsluhákur. 4ra lítra 6 sílindra Jeep-vélin er ágætur kostur og auðvelt að fá allt sem þarf til að skipta yfir í blöndung t.d. hjá www.summitracing.com (350 Chevrolet stendur enn fyrir sínu þótt ekki verði sagt að hún sé sparneytin). Það er talsvert bras að breyta vélarfestingum og festingum fyrir sjálfskiptinguna og millikassann. Það verk má auðvelda verulega með sérhönnuðum festingum t.d. frá www.advanceadapters.com. Þú getur keypt þessa hluti sjálfur á netinu og flutt inn með hjálp www.shopusa.is en henti það ekki færðu þá pantaða hjá IB á Selfossi eða Vélalandi í Reykjavík.

62
Um kosti stöðugleikabúnaðar
Spurt: Undanfarið hef ég verið að kynna mér nýja bíla. Það sem hefur komið mér á óvart er hve mikill munur er á staðalbúnaði minni og meðalstórra bíla. Á meðal þess sem vekur athygli er að sjálfvirkur stöðugleikabúnaður (ESP) er oftast innifalinn í verði nýrra bíla af meðalstærð og stærri og hlýtur að hækka verð bíls enda flókinn búnaður. Myndir þú mæla með ESP ef valið stæði á milli tveggja bíla með eða án?

Svar: Öryggisloftpúðar eru ekki skyldubúnaður en ég efast um að nýr bíll án loftpúða myndi seljast; - öryggi loftpúðanna orkar ekki tvímælis og því er verð þeirra innifalið í verði flestra nýrra bíla. Verð á ESP-búnaði í meðalbíl mun vera nálægt 130 evrum (12 þús. kr.). Ég mæli hiklaust með þessum búnaði enda er talið að hann gæti fækkað dauðaslysum á evrópskum þjóðvegum umtalsvert ef hann væri í öllum bílum. Í örstuttu máli: Tölva beitir boðum frá flóttaaflsskynjurum til að stjórna inngjöf, beitingu stýris, bremsa, driflæsingum, fjöðrun o.fl. þegar hreyfingar bíls á ákveðnum hraða eru þannig að hætta er á að þyngdarmiðja hans fylgi ekki fyrirfram gefnum ferlum í láréttu og lóðréttu plani. Sem sagt: Hætta er á að bílstjórinn missi vald á bílnum, t.d. í beygju eða vegna ytri krafta. Aukið öryggi af ESP myndi ég meta jafnt og öryggi af loftpúðum. ESP-kerfin eru, eins og loftpúðakerfin, misjafnlega umfangsmikil. Benda má á að bíll búinn ESP er mun þægilegri í akstri, t.d. áberandi stöðugri í sterkum hliðarvindi. Efist einhver um þann kost ætti hann að prófa nýlegan sendibíl eða húsbíl af stærri gerðinni. Þeir bílar taka á sig verulegan vind og geta því verið mjög þreytandi að aka lengri leiðir. Sé slíkur bíll hins vegar búinn ESP finnst varla fyrir hliðarvindinum; bíllinn verður mun auðveldari og þægilegri í akstri - og það segir talsvert um öryggið sem þessi búnaður skapar!

JEEP Wrangler gírgnauð
Spurt: Ég á Wrangler Unlimited 2004 með 4 lítra vél og sjálfskiftingu. Vandamálið er að þegar bíllinn skiftir sér í overdrive fer að heyrast að því er mér virðist titringshljóð ( hvinur ) og það hækkar ef bíllinn tekur á t.d. sé ekið upp brekku. Þennan titring finn ég lítilega ef ég set fingurgóm á skiftistöngina eða mælaborðið. Ég er búinn að skifta um hjöruliði í afturskaftinu og láta "ballansera''' það, einnig hef ég prófað að keyra bílinn án framskaftsins, látið renna diska bæði að framan og aftan en það hefur ekki leyst vandamálið. 'Eg hef einnig látið sjálfskiptiþjónustu athuga bílinn og þeir segja að hann skifti sér eðlilega og vilja meina að vandamálið sé ekki í skiftingunni sjálfri. Það hefur engin breyting orðið á þessu hljóði þessar ca 10.000 mílur sen ég hef ekið . Þegar ég fékk bílinn skipti ég um olíu á vél og drifum enn ekki á skipringu og millikassa.

Svar: Þetta er þekkt vandamál í Jeep Wrangler og Cherokee frá því fyrir 2000. Titringnum veldur skökk afstaða aftara drifskafts gagvart millikassa. Til er sérstakt breytingasett ("Transfer case lowering kit'') til að lækka millikassann og hefur það nægt til að eyða þessum titringi. Fyrirtækið "Fjallabílar, stál og stansar'' gætu átt þetta breytingarsett. Ef ekki þá geturðu keypt það fyrir 30 dollara frá www.tellico4x4.com

Um vöruflutningabíla
Spurt: Mig langaði að fá þitt álit á vörubílum. Sú var tíðin að Volvo, Scania, Mercedes-Benz og jafnvel MAN voru nánast einráðir á íslenskum markaði, sérstaklega þeir 3 fyrstnefndu. En nú er öldin önnur - mun meira úrval og markaðshlutdeild Volvo og Scania greinilega ekki sú sama og áður. Hvað segir þú t.d. um Renault?
Svar: Ég er ekki sérfróður um vörubíla. Það hlýtur að vera haldið úti einhverri íslenskri vefsíðu um vörubíla þótt mér sé ekki kunnugt um hana. Hins vegar hef æég eins og allir aðrir tekið eftir þessari breytingu og þá ekki einungis með vörubíla heldur einnig rútur og strætisvagna - hefði ekki verið hlegið að þeim sem keypt hefðu Renault-rútu fyrir 15 árum?. Fyrrum skólafélagi minn frá Svíþjóðarárum erfði stórt flutningafyrirtæki eftir föður sinn (åkeri) sem gerir út stærstu langflutningabíla (lågtradare) sem eru í förum í Svíþjóð og á milli Svíjóðar og staða á meginlandi Evrópu. Hann notar núna einungis Scania og Renault, hefur reyndar alltaf notað Scania sem hann segir hafa meira vélartog og vera þægilegri 40 tonna bíla í akstri og meðförum en Volvo. Hann skipti út Volvo fyrir Renault fyrir nokkrum árum og segir útkomuna mun betri og bílstjórana ánægðari. Benz hefur hann ekki notað og segir að þeir séu ekki algengir í Svíþjóð af einhverjum ástæðum. MAN segist hann og fleiri hafa gefist upp á fyrir 3-4 árum vegna tíðra vélarbilana, vandræða með tölvukerfi, túrbínuvandamál o.fl. - sem ég sel ekki dýrar en ég keypti. Viti einhver um íslenska vefsíðu um vörubíla væri ábending vel þegin.

61
Stífar lamir á afturhurðum
Spurt: Hef verið í vandræðum með afturhurðirnar á Honda CR-V. Þær eru svo stífar að það þarf ,,talsvert" átak til að opna. Það er eins og sleðinn sé mjög stífur. Er búinn að smyrja þær með öllu sem mér dettur í hug en án árangurs. Er þetta þekkt vandamál hjá Honda jepplingum? Ætli maður þurfi að skipta um eitthvað, eða er þetta bara svona hjá öllum?

Svar: Mismunandi mikið fríspil er í lömunum afturhurða bíla og því hætt við að hurðirnar verði stífar vegna notkunarleysi - jafnvel svo að lamir brotna eða beygla hurðina. Nýtt efni frá Loctite sem nefnist Freeze & Release er ryðolía sem jafnframt kælir niður í 43° frost. Hún gæti leyst þetta mál. Þá úðarðu á lamirnar og togstagið drjúgri gusu og hreyfir hurðina fram og aftur um leið. Þetta getur þurft að endurtaka nokkrum sinnum en þolinmæðin er þess virði til að forða frá dýrum skemmdum. Þar sem Loctite-efnið er nýlega komið á markaðinn skaltu skrifa hjá þér vörunúmerið 571-40137 (hjá N1).

Dráttargeta
Spurt: Nú er lögreglan með átak til að koma í veg fyrir að vanbúnir aftanívagnar auki slysahættu. Hvar getur maður nálagst reglurnar sem farið er eftir?

Svar: Upplýsingar um eftirvagna eru í reglugerð nr. 2/308 um búnað ökutækja. Hana má nálgast á vefsíðu Umferðarstofu (www.us.is). Einnig eru upplýsingar um eftirvagna og dráttarbúnað á www.leoemm.com (TÆKNIMÁL). Rétt er að vekja athygli þeirra sem eru á bandarískum bílum á að 1000 lb eru ekki 500 kg eins og margir virðast halda heldur 453,6 kg. Sé dráttargeta bandarísks bíls gefin upp sem 7000 lb er hún ekki 3500 kg heldur 3175 kg sé nákvæmlega reiknað (ég hafði sett hér töluna 3402 kg - sem er sama og 7500 lbs. en glöggur lesandi benti mér á villuna sem hér með leiðréttist).

60
Truflun í Corollu
Spurt: Ég er með Toyotu Corollu station 1998, 5 gíra, 1600. Vandamálið við bílinn er gangtruflanir - vélin á það til að drepa á sér, sérstaklega þegar hann er kaldur (fyrstu 5-10 mín.) Mér finnst hann ganga frekar hægan lausagang og eyðir rúmlega 10 l á 100km. Hann drepur á sér þegar honum er startað og líka þegar stigið er á kúplinguna til að skipta um gír. Ég er búin að setja ísvara í eldsneytið, skipta um kerti og kertaþræði, og setja spíssahreinsi í bensinið. En gangurinn breytist ekki. Ég fór með bílinn í aflestur hjá Toyota en það kom ekkert út úr því (enda ekkert vélarljós). Getur þetta verið einhver skynjari sem er bilaður, myndi það ekki koma fram í aflestri? Þetta er búið að vera bilað frekar lengi, hvað get ég gert gert?

Svar: 1600-vélin er með kveikjulok. Skoðaðu það að innanverðu - sé mikil útfelling á töppunum veikir það neistann og kemur fram þegar hann þarf að vera sterkur (vélin köld) - séu tapparnir mjög ljótir borgar sig að endurnýja lokið. Með of hægan lausagang í huga gætu verið óhreinindi á jöðrum inngjafarspjaldsins og í inngjafarkverkinni (oft er ástæðan sú að loftsía hefur verið notuð of lengi). Sé loftbarkinn losaður af inngjafarkverkinni geturðu þrifið þetta með ísvara (ísóprópanól-spritti eða sérstöku efni sem fæst í umboðinu) og stinnum listmálarapensli. Þar sem þetta tilheyrir eðlilegu og þörfu viðhaldi tapast ekki sá tími sem fer í þetta jafnvel þótt það leysi ekki málið - en haldi vélin áfram að láta svona skaltu endurnýja súrefnisskynjarann, sem er í pústgreininni framan á vélinni, - þú færð hann fyrir hálfvirði í N1 (Bílanausti) eða Stillingu.

Stýrsivélarvandamál í Opel
Spurt: Mig langaði til að spyrja út í Opel Astra Caravan 2000 árg. sem ég á og lenti í vandræðum með. Ég keypti bílinn notaðan, ekinn 101 þús. km og er búinn að aka honum 2 þúsund km. Ég hafði stundum heyrt smelli í stýrinu í beygjum. Ég var að keyra upp brekku einn daginn þegar vélin missti afl í stuttan tíma; vélarljósið logaði en var farið eftir nokkrar sekúndur. Um kílómetra seinna varð stýrið allt í einu mjög þungt og hélst þannig þar til ég stöðvaði bílinn og drap á vélinni. Núna er stýrið laust og liðugt í ca. mínútu eftir gangsetningu en þyngist svo snögglega auk þess sem lágt ýl heyrist frá vélarrúminu strax eftir ræsingu og þar til stýrið hefur þyngst. Það þyngist eftir þessa mínútu hvort sem bíllinn stendur kyrr eða er keyrður af stað. Ég er búin að láta mæla rafgeyminn til öryggis og hann telst vera í lagi. Eftir að strekkt var á reim alternatorsins er hleðslan eðlileg. Engin bilanaljós loga og öll ljós, útvarp og samlæsing eru í lagi. Ég bætti við stýrisvökva í gær en ekkert breyttist við það.

Svar: Í þessum Opel Astra (og fleiri Opel síðan 1989) eru rafknúin glussastýri sem reynst hafa misjafnlega. Bilunin sem þú lýsir bendir til þess að stýrisvélin sé ónýt en það er nokkuð algengt í þessum bílum eftir um 100 þús. km. akstur. Ég veit ekki til þess að hægt sé að gera við rafstýrisvélarnar en síðast þegar ég vissi kostaði svona stýrisvél 214 þúsund krónur í umboðinu og reikna má með um 50 þús. kr. kostnaði við að skipta um hana.

Sjálfskipting í Explorer 2003
Spurt: Ég er með Explorer 2003 með 4ra lítra vél og sjálfskiptingu. Bílinn hefur verið mjög ljúfur og lítið verið um vandræði. En nú tek ég eftir því að það koma stundum högg í sjálfskiptinguna einungis þegar ég set hann í bakkgírinn. Mér var sagt að þetta gæti verið slitinn hjöruliður en finnst að þá ætti maður að finna fyrir því líka þegar sett er í Drive - en þá heyrist enginn smellur eða högg. Hvað getur þetta verið og hve alvarlegt heldurðu að þetta sé, þarf t.d. að taka skiptinguna úr?
Svar: Þetta er þekkt bilun í þessum skiptingum í Explorer - það þarf ekki að taka skiptinguna úr heldur einungis pönnuna undan til að skipta um einn rafstýriloka í rafmagnshluta ventlaboxsins (í versta falli þarf að endurnýja ventlaboxið með uppfærðu (updated) ventlaboxi frá Ford sem þú fælrð hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss). Ég álít þetta ekki vera allvarlegt mál (a.m.k. svo lengi sem þú ferð ekki með bílinn á verkstæði umboðsins) - og sé ekki dregið úr hömlu að endurnýja þennan rafstýrða loka (solenoid). Pantaðu tíma hjá Skiptingu í Keflavík - Eyjólfur Herbertsson, sem þar stýrir hlutunum, er færasti maðurinn á landinu í þessum skiptingum og ekki nokkrum vandræðum með að lagfæra þetta. Auk lokans þarftiu að greiða fyrir 2-3 tíma vinnu og nýjan vökva (þetta er kvarðalaus skipting).

59
Dauður rafgeymir
Spurt: Ég á 2001 Hondu Civic sem varð rafmagnslaus vegna þess að ljósin voru skilin eftir á. Eftir endurhleðslu hefur vélin tvisvar neitað að starta en farið í gang með hjálp startkapla. Hleðsluljósið slokknar þegar hann fer í gang og ljósin hafa ekki gleymst á aftur. Hvers vegna ætli hann láti svona?
Svar: Sértu sérlega heppinn gæti verið um sambandleysi að ræða á kapalklemmunum sem koma á póla geymisins. Þær gætu verið lausar (taktu á þeim) eða pólklemmurnar sambandlausar vegna tæringar (hvít hrúðurútfelling sem hverfur sé helst yfir þær volgu vatni sem sett hefur verið út í 2 teskeiðar af matarsóda). Oft þegar gamlir geymar tæmast alveg verður í þeim s.k. botnfall og þá geta þeir stundum verið í lagi en á milli steindauðir - sem sagt ónýtur rafgeymir. Þú getur prófað það næst þegar geymirinn snýr ekki startaranum nægilega: Settu þá aðalljósin á og dofni þau greinilega þegar reynt er að starta er rafgeymirinn líklegast ónýtur (botfallinn). Gerist það ekki berast böndin að startaranum sjálfum.
Startarar í þessum bílum eiga það til að bila svona - yfirleitt nægir að skipta um kolin í startaranum en vegna þess hve tíminn á verkstæðum er dýr getur eins borgað sig að kaupa nýjan startara (ódýrastir í N1 og hjá Bílarafi).
Sértu á Rvk.-svæðinu geturðu fengið rafgeyminn mældan ókeypis hjá Bílanausti/N1, Skorra eða Max, öll á Bíldshöfða og jafnframt nýjan rafgeymi ísettan. Ráðlegg þér að byrja á að fara á einhvern þessara staða og fá geyminn mældan.

4Runner-bras
Spurt: Ég er að brasa við Toyota 4Runne 1987 R22 4 cyl. vél. Þegar ég svissa á þá fer snúningshraðamælirinn að láta öllum illum látum og mikill neisti hleypur frá háspennufjöðrinni í kveikjulokinu út í einhvern tappann fyrir kertaþráð. Þegar þetta er allt samsett og lokið á sínum stað og svissað á þá hefur vélin snúist strax hálfan hring án þess að ég starti. Það var svissað á bílinn hjá mér talsverðan tíma og þá tók ég eftir því að háspennukeflið var orðið sjóðandi heitt og ekki hægt að snerta það. Getur þú eitthvað liðsinnt mér?

Svar: Greinilega er rangt tengt inn á háspennukeflið frá svissinum, startpungnum eða tölvunni (sé hún til staðar)- snúningshraðamælirinn er með sérleiðsu. Mér sýnist augljóst að einhverjum leiðslum hafa verið víxlað. Hreyfingin á vélinni bendir til að svissinn sé ekki rétt tengdur startpungnum. Þú getur prófað þessar leiðslur með prófunarlampa og séð með honum hvenær kraftur er á pólum startpungsins þegar svissnum er snúið - en þeir eru yfirleitt merktir, I=ignition, S=start. Sé plús og mínus öfugt tengt á startpunginn gæti afleiðingin orðið svipuð þessari hjá þér. Hitni háspennukefli svo mikið að ekki sé hægt að halda utan um það er það venjulega ónýtt. Neistahlaup í kveikjuloki gæti verið vegna víxlaðra tenginga eða sprungu í kveikjulokinu. Viðbót tengt þessu efni: Einhver spurði hver væri munurinn á venjulegu viðnámi og „ballastic resistor’’ í sambandi við kveikjukerfi. Svar: Með venjulegu viðnámi er líklega átt við viðnámsvír sem er í mörgum eldri bílum, m.a. þeim sem komu með fyrstu rafeindakveikjunum fram að 1980. Það er misskilningur að Ballastic hafi eitthvað með skotvopn að gera (ruglað saman við ballistic). Ballastic resitor er stykki úr keramiki með viðnámsspólu innan í og nefnist ballastic (álagsháð) vegna þess að á meðan vírvafningar spólunnar eru að hitna eftir að svissað hefur verið á er full spenna yfir viðnámið - eftir því sem viðnámsvírinn hitnar eykst viðnámið og spennan minnkar t.d. úr 12 voltum í 9. Ballastic-viðnám eru til fyrir mismunandi mikið viðnám (mælt í Ohm). Kosturinn við ballastic-viðnám er einfaldari raftengingar - þar sem ekki þarf framhjáhlaup til að fá 12 volt í kaldstarti. Þá vitum við það!
Áframhald 4runner vandamála (frá síðasta pistli)
Spurt: Ég fékk nýtt háspennukefli, kveikju og IGNITER á bílapartasölu. Vélin fór í gang en þolir ekki mikla inngjöf (4000 rpm) og gengur ekki hægagang. Ég fékk líka nýjan Igniter en það eru ekki sömu númer á honum og þeim sem var í. Á þeim gamla eru númerin í reitum (053) og (EX) en á þeim nýrri (147) og (EX eða KX) getur það skipt máli? Nú fæ ég bílinn aðeins í gang ef ég fjarlægi straumloku sem er út í hliðinni vinstra meginn við kúplinguna, og þá er ég með (147) og (KX) Igniter í. Ef ég set hinnIgniter í þá fer snúningshraðamælirinn að hoppa til og frá og bíllinn fer ekki í gang.

Svar: Farðu aftur á byrjunarreit: Ef þetta er V6-vél eru sílindrarnir svona þegar þú stendur fyrir framan bílinn: Næst þér vinstra megin eru 1-3-5 en næst þér hægra megin eru 2-4-6. Kveikjuröðin er 1-2-3-4-5-6. Opnaðu kveikjuna og startaðu til að vera viss um snúningsáttina og raðaðu í lokið og á kertin eftir snúningsáttinni með 1. í toppstöðu (láttu blása með kertinu lausu og háspennuþráð aftengdann)
(Sé vélin 4ra sílindra er kveikjuröðin: 1-3-4-2) . Næst skaltu ganga úr skugga um að rofinn/straumlokan, sem kemur í veg fyrir að hægt sé að starta nema staðið sé á kúplingunni, sé í lagi og tengingar við startpung/sviss séu réttar. Varðandi Igniter-númerið (annar gæti verið fyrir sjálfskiptan bíl en hinn fyrir beinskiptan) skaltu prófa www.f4x4.is en á spjallrásinni eru jeppamenn sem þekkja þennan kveikjubúnað vel og eru hjálplegir.

Eilífðarmál - eyðsla
Spurt: Ég er á Pajero '99 dísil sem eyðir 14-15 lítrum. Ég sá einhvern tíman auglýst tæki á 10 þús. kr. sem sett er í loftinntakið og minnkar eldsneytiseyðsluna. Veistu hvar maður getur nálgast svona tæki?

Svar: Tækið nefnist Hiclone. Það hafa ýmsir verið að selja þetta tæki - síðast þegar ég vissi var vefsíðan www.hiclone.is í gangi.

Hásingar undir Willys/AMC
Spurt: Ég er að endurbyggja og breyta AMC Jeep C7 af árgerð 1975 eða 76. Hann er með upphaflegum hásingum sem virðast vera í lagi (veit ekki hlutföllin). Ég ætla að setja í hann 350 Chevrolet en mér er sagt að einu hásingarnar sem eitthvert vit sé í að nota séu Dana 44 að aftan og framan og helst úr International Scout. Hvers vegna úr Scout - get ég ekki notað t.d. upphaflegu hásingarnar eða t.d. Dana hásingar úr Musso?.
Svar: Ástæðan er sú að Dana 44 úr Scout 1974 eru í fyrsta lagi með flansa að aftan en ekki kílnafir eins og eru í upphaflegu afturhásingunum frá Jeep og aldrei eru lengi til friðs - auk þess sem Dana 44 eykur sporvíddina. Þú gætir verið með Dana 30 framhásingu og getur notað hana áfram - gallinn er sá að snúningshringur jeppans verður mjög stór - og jeppinn því klossaður. Þú getur notað afturhásingu úr Musso án mikilla breytinga en framhásinguna ekki þar sem hún er stutt Dana 30 (gerð fyrir klafafjöðrun). Ástæðan fyrir því að Dana 44 framhásing úr Scout er eftirsóknarverð er að hún er gerð fyrir fjaðrir, breytingin á henni er ekki flókin fyrir Jeep, hún eykur sporvíddina, gerir kleift að leggja meira á framhjólin, er mun sterkari og síðast en ekki síst er hún með drifkúluna réttu megin (hægra megin/farþegamegin) og því smellpassa drifsköftin. Sértu með vélarfestingarsett fyrir V8-vélina (sem borgar sig að kaupa) muntu taka eftir því að vélin/gírkassi/millikassi er ekki í miðri grindinni heldur hliðrað til vinstri til að rýma fyrir framskaftinu - mörgum hefur sést yfir þetta atriði og lent í vandræðum fyrir bragðið.

Meira um Willys
Spurt: Ég á AMC C5 1978 árgerð með upphaflegri 258-vél. Hann er upphækkaður fyrir 38" og talsvert mikið breyttur en ég veit lítið um þær breytingar nema það sem maður sér enda áskotnaðist hann mér svona. Kunningi minn er að telja mér trú um að Dana 300 millikassi sé miklu betri en Dana 20 sem mun hafa verið í þessum jeppum upphaflega. Er það rétt og þá að hvaða leyti (hann á Dana 300 sem hann vill selja mér fyrir 5 þús. kr.). Ég hef ekki skoðað millikassan ennþá hjá honum en hvernig get ég séð hvort 20 eða 300 er æí mínum bíl?
Svar: Ég hélt reyndar að enginn væri lengur að pæla í þessum gömlu Willys/AMC-jeppum - en það virðist vera þveröfugt - þeir virðast meira að segja vera að komast í tísku - ef ég á að trúa því sem métr er sagt. Þú ert fljótur að sjá hvor millikassinn er í þínum jeppa því Dana 300 er með álstút að aftanverðu fyrir legu og pakkdós en Dana 20 er allur úr steypustáli. Dana 20 er það góður millikassi að hann þyrfti að vera skemmdur til að ég nennti að standa í því veseni að skipta honum út fyrir Dana 300. En það er rétt að það er ýmislegt sem vinnst með Dana 300. Sjálft kassahúsið er efnismeira og sterkara án þess að vera þyngra. En stærsti kosturinn er auðvitað gírunin í lága drifinu sem er 2,0 í Dana 20 en 2,61 í Dana 300. Til að þú áttir þig á því hvað þetta raunverulega þýðir geturm við tekið dæmi af mínum AMC-jeppa sem er með 1 gír 4,00 og drif sem er 4,56 og Dana 300. Mesta gírun í 1. gír og lága er þannig 47,6. Ef ég væri með Dana 20 væru mesta gírun í 1. og lága ekki nema 36,48. Og á þessu tvennu er munur sem getur skipt verulegu máli - ekki síst á 38 tommu.

Rúllu-rokker-armar
Spurt: Er það rétt sem segir í auglýsingu í amerísku tímariti um bíla að rúllurokker-armar auki afl 350 V8-vélar um 4-5% miðað við venjulega rokkerarma. Í hverju felst aflaukningin - getur verið að núningsviðnám í venjulegum rokkerörmum sé það mikið að aflið aukist við að minnka það?
Svar: Það er ómögulegt að segja hvort aflaukningin er ákveðin prósentustig. Satt að segja efast ég um að aflaukning við rúlluvippur sé mælanleg. En seljendum er vorkunn- þeir vita að aflaukning selur og þess vegna er það haft sem aðalatriðið en er í raun aukaatriði. Að vísu getur vogararmur rúlluvippunnar verið með annað hlutfall og þar með opnun ventlanna meiri - sem vissulega getur aukið afl. Málið er hins vegar að þegar um keppnisvélar er að ræða eða tjúnaðar vélar sem notaðar eru í spyrnur og gefið hressilega hafa rúlluvippur þann kost umfram venjulegar að þær ýta rúllunni niður á ventiltoppinn yst og færast innar á ventiltoppin við fulla opnun. Þegar þetta gerist með rúllu sem snýst myndast ekki hliðarátak á ventillegginn eins og þegar venjuleg rúllulaus vippa dregst eftir toppnum á leiðinni niður. Venjulegar vippur geta þannig eyðilagt ventilstýringar á stuttum tíma, sþerstaklega ef vél er undir miklu álagi. Rúlluvippur eru því fyrst og fremst aukin tækni sem minnkar þetta hliðarálag á vetilleggi og fyrir bragðið endast ventilstýringar eðlilega - jafnvel þótt um keppnisvél sé að ræða. Eins og þú sérð er miklu auðveldara að telja einhverjum trú um að hann eigi að kaupa rúlluvippur til að fá meira afl - en að fara út í flóknar skýringar á raunverulegu ástæðunni. Reyndar gildir að miklu leyti sama röksemdarfærsla fyrir gildi rúlluundirlyftna - þær geta með stífari gormi fylgt betur kambforminu á miklum snúningshraða án þess að slíta upp kambásnum eins og sléttbotna-undirlyftur myndu gera.(spurning og svar er stytt - meira er um þetta viðfangsefni í TÆKNIMÁLUM).

Meira brotajárn
Bílaprófanir
Aðalsíða