Brotajárn nr. 20
Spurningar og svör
Fyrirspurnir (leoemm@simnet.is) sem Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað og birst hefur í Mbl. Bílar á föstudögum (Ath. einnig í fleiri Brotajárnsköflum)

Ath. Sumar spurningar/svör eru ekki birt í Mbl. Bílar en hefur verið svarað með netpósti. Vegna takmarkaðs rýmis í Mbl. getur þurft að stytta pistlana en þeir birtast óstyttir hér. Þá getur efni veruð of langt, of tæknilegt eða of sérhæft og þess vegna látið næga að svara með netpósti.

(Ath. Nota má innbyggða leitarvél (Ctrl-F) til að finna lykilorð).

---------------------------------------------

58
Musso sem missir afl við álag
Spurt: Þegar ég dreg þunga kerru upp brekku með mínum 98' Musso sjálfskiptum 2,9 túrbódísil á vélin það til að missa afl, sérstaklega taki kerran á sig vind. Í venjulegum akstri kemur þetta ekki fyrir. Hvað getur valdið þessari bilun?
Svar: Eðlilegt væri að kóðalesa tölvu vélarinnar því mjög líklegt er að í minni hennar sé bilanakóði vegna þessa aflmissis. Í þessum Musso er sogkerfi sem stýrir samstillingu inngjafarauka olíuverks eftir því sem pústþjöppuþrýstingur eykst. Sogkerfið stýrir jafnframt upphaflegum framdrifslokum (sem flestir hafa skipt út fyrir handvirkar), ádrepara o.fl. Loftsogið er leitt frá dælu með grönnum svörtum plastlögnum sem tengdar eru saman með múffum, hnjám og t-tengjum úr gúmmí. Þessi tengi hafa gefið sig og kerfið byrjað að leka. Oft eru fyrstu merkin um leka í þessu kerfi þau að stundum er erfitt að drepa á vélinni með svisslyklinum. Kerfið er auðvelt að prófa með til þess gerðri handvirkri sogdælu.

Aukahljóð í Freelander
Spurt: Ég á Land Rover Freelander 2003 með V6-vélinni. Komið var leiðindahljóð í vélina eins og eitthvað hringlaði laust og bensíneyðslan var orðin meiri en mér fannst eðlileg. Komið var að tímareimarskiptum og var mér sagt að þetta gæti tengst strekkjarabúnaði hennar. Skipt var um tímareimina sem var dýrt verk. En aukahljóðið er áfram í vélinni og eyðslan jafn mikil. Mér var sagt að bilanakóðinn P1437 væri í minni tölvunnar hvað sem það nú þýðir?
Svar: Á þessari vél er soggrein úr plasti og í henni eru spjöld sem breyta lofthraða í skálmunum; færast til eftir boðum frá tölvu með tilliti til álags og snúningshraða vélarinnar. Þessar soggreinar hafa verið til vandræða, og ekki bara í Freelander. Spjöldin hafa viljað losna úr stýringunum vegna ótímabærs slits og eru ýmist föst eða skrölta laus innan í soggreininni. Einnig hafa pakkningarnar á soggreininni gefið sig - lekið með tilheyrandi gangtruflunum. Til þess að losna við skröltið og minnka bensíneyðsluna er ekki um annað að gera en að endurnýja soggreinina. Hún mun kosta rúmlega 100 þúsund krónur og a.m.k. dagsvinna á verkstæði að skipta um hana.

Ábending til yngri bílstjóra
Útvarpsvirki sem þekkir vel til hljóðkerfa í bílum segir að margir yngri bíleigendur kaupi mjög öflug og góð hljómflutningstæki - sem sé hið besta mál. Sumir sem setja þessi tæki í sjálfir eða skipta um hátalara hafi gjarnan þá stærstu lausa í afturglugganum í stað þess að bora fyrir festingum og ganga tryggilega frá þeim. Með tilliti til þess að hátalarar geta vegið nokkur kg geta þeir (lausir) reynst hættulegir slysavaldar t.d. þurfi að bremsa skyndilega og munu meiðsli þegar hafa orðið af þeim orökum. Útvarpsvirkinn benti á að hljóðstyrkur og virkni þessara dýru hátalara (bassinn) sé allt að 30% minni sé þeim ekki fest tryggilega í burðarhluta innréttingar og því sé árangurinn af því að festa þeim meiri en slysavörnin ein. Hann mælir með því að foreldrar veki athygli barna sinna á þessu atriði.

57
Ónýt tölva: Hvað er þá til ráða?
Spurt: Hyundai Elantra 1999-2000. Bilanalýsing:Eftir að vélin er gangsett og farið af stað er allt í lagi þar til sjálfskiptingin er komin í 4. gír. Þá gírar hún niður í þriðja og skiptir síðan ekki upp. Þetta endurtekur sig í hvert skipti sem bílnum er ekið. Reynt var að greina bilunina á verkstæði en ekkert samband náðist við tölvu skiptingarinnar. Öll öryggi eru í lagi. Niðurstaða verkstæðisins var sú að tölva skiptingarinnar væri ónýt - hefði líklega eyðilagst við kaplastart. Hvað þarf ég að hafa í huga við leit að nýrri (notaðri) tölvu? Er munur á tölvum frá USA og Evrópu? Er óhætt að panta tölvu frá USA, t.d. á ebay ef nr. stemma?
Svar: Enginn munur er á USA/Evrópu-tölvum ef hlutarnúmerið er það sama. Áður en þú ferð að leita á e-bay, eða kaupa dýra tölvu nýja eða notaða, skaltu tala við Gunnar Haraldsson hjá Varahlutalagernum (Smiðjuv. 4a, Kóp - það er ekki fyrir hvern sem er að finna þetta fyrirtæki - í fyrsta lagi er það á versta stað á höfuðborgarsvæðinu uppá að rata - öll húsnúmer á Smiðjuvegi virðast einn grautur fyrir óvana - en Varahlutalagerinn er í sama húsi og N1-búðin - ef það hjálpar einhverjum - gengið inn vinstra megin á gafli hússins). Hann hefur sent vélar- og skiptingartölvur út til Bretlands þar sem gert er við þær og þær endurforritaðar fyrir hagstætt verð. Komi í ljós að tölvan sé ónýt greiðir þú einungis sendingarkostnaðinn. Jafnframt mun koma í ljós hvort bilunin sé raunverulega í tölvunni og þá jafnframt hvað kunni að hafa orsakað hana. Ástæða er til að nefna að skiptingar geta verið viðkvæmar gagnvart vökvastöðu og truflanir orðið bæði vegna of lítils vökva og of mikils. (1/2 lítri til eða frá getur valdið alls konar truflunum). Sé kvarði á skiptingu á að mæla vökvastöðuna þannig: Vélin heit. Handbremsan sett á og fært rólega á milli gíra frá P og niður og aftur í P. Síðan er vökvastaðan mæld á skiptingunni með heita vél í gangi og í P.

Sérhæfð smurolía fyrir pallbíla
Spurt: Ég las pistil þinn um smurolíur á vefsíðunni þinni og hef einmitt verið að leita að 5W-20 fyrir Ford Econoline F150 2004 - en án árangurs. Veistu hvar ég fæ 5W-20?
Svar: IB ehf. á Selfossi selur sérhæfðu smurolíurnar fyrir bandaríska pallbíla og jeppa frá Ford, GM, Chrysler og Toyota með bensín eða dísilvél. Þeir eiga m.a. 5W-20.

Hvað fór í tankinn?
Spurt: Ég er í vandræðum með 2ja ára gamlan Honda CR-V dísil ekinn u.þ.b. 28 þús. Fyrir nokkrum mánuðum missti vélin afl og drap á sér. Bíllinn var dreginn á umboðsverkstæði sem skipti um olíu- og loftsíu. Mánuði seinna gerðist hið sama aftur. Kom þá ljós reykur aftur úr bílnum áður en vélin stöðvaðist. Aftur var bíllinn dreginn á verkstæðið og aftur skipt um olíusíu! Ég keypti bílinn nýjan og hef alltaf skipt við sama olíusala - Atlanstolíu. Getur verið að dísilolían sé menguð vatni eða að óhreinindi hafi komist í tankinn? Ég dæli alltaf sjálfur og tel mig ávallt hafa lokað vel. Hvað gæti valdið þessu?
Svar: Þegar bíllinn var dreginn á verkstæðið og nýleg eldsneytissía reyndist stífluð öðru sinni - hefði verið eðlilegt verklag að saga síuna sundur og skoða hvað hún hefði að geyma. Þá hefði t.d. komið í ljós hvort um vatn var að ræða eða hvort óhreinindi væru í dísilolíunni frá seljanda eða af völdum skemmdarvarga eða óvita. Settu saman við dísilolíuna sérstakt efni sem eyðir vatni úr dísilolíu - ekki má nota sama raka/ísvara á dísilvél og notað er í bensín, þ.e. ekki venjulegan ísóprópanól-ísvara (sumir starfsmenn bensínstöðva virðast ekki vita þetta). Þú færð rakaeyðiefni fyrir dísilolíu í N1 (Bílanausti). Annað mál er að ljós reykur sem fylgir svona truflun gæti bent til þess að fyrir mistök hafi verið bensín saman við dísilolíuna. Íblöndunarefnið gæti eytt því líka. Ef þú getur ættirðu að prófa að kaupa dísilolíuna á annarri stöð Atlantsolíu - hætti vandræðin er eitthvað að dísilolíugeymi stöðvarinnar. Mér finnst þetta sérkennileg truflun og skrítið að hafa ekki fengið fleiri spurningar á borð við þína - sé eitthvað að dísilolíunni.

56
Felgur á Highlander
Spurt: Ég var að kaupa Toyota Highlander 2004 og er að leita að sportfelgum.
Framleiðandinn segir frávik (offset = ET) eiga að vera 18-28 sm.
Nánast ekkert er til af 16-18" sportfelgum hér sem uppfylla þessi skilyrði, flestar eru með meira frávik. T.d. var prófuð felga með 40 sm frávik en hún rakst í demparann. Spurningin er hversu mikilvægt er að fara eftir þessum tölum? (18-28) - t.d. getur það haft áhrif á skrikvörn eða eitthvað annað?
Svar: Mér sýnist sem einhver misskilningur eða ruglingur sé hér gagnvart frávikinu. Með fráviki (offset) er átt við afstöðu festiflatar felgu til miðju dekksólans. (ET er reyndar þýsk skammstöfun fyrir "Einpresstiefe'' og sjaldan notuð í þessu samhengi). Falli lóðrétt miðlína dekks og festiflatar felgu saman er ekkert frávik. Talað er um að frávik sé jákvætt (útvik) þegar það eykur sporbreidd bíls (festiflötur fyrir innan miðjan dekksóla) en neikvætt (innvik) þegar það minkar hana miðað við dekk af sömu sólabreidd. Yfirleitt er frávik gefið upp í tommum. Einungis þvermál hjóls hefur áhrif á stöðugleikabúnað þar sem hann byggir á púlstíðni frá ABS-nemum og í sumum bílum virkar skrikvörnin þótt þvermál hjóla sé aukið innan vissra marka. Sé útvik felgu of mikið reynir það meira á hjóllegur auk þess sem dekk mega ekki ná út fyrir brettakant. Aðalatriðið er að dekkin taki ekki út í eða rekist í þegar hjól fjaðrar eða lagt er á auk þess sem ABS-læsivörn getur takmarkað úrval felgna. Því er mikilvægt að virða tilmæli framleiðenda (bíls og/eða felgna). Toyota Highlander er stór jepplingur gerður fyrir bandaríska markaðinn og ekki margir slíkir til hérlendis. IB á Selfossi og Kliptrom á Akureyri selja og útvega vara- og aukahluti í bandaríska bíla. Þeir geta án efa pantað fyrir þig sportfelgur sem passa fyrir Highlander.

Spurt: Sendi þér póst fyrr á árinu varðandi kaup á palljeppa. Þú mæltir með Musso Sports. Nú er hins vegar hætt að selja þann bíl og Actyon Sports kominn í staðinn. Sá er með 2000 dísilvél í stað 2900 Benz-dísilvélar og er 141 hestöfl. Ég spurði þá í umboðinu hvers vegna 2900 vél væri ekki lengur fáanleg en þeir vildu meina að þessi nýja væri ekki síðri og vísuðu í einhver fræði sem ég ekki skildi. Er það rétt hjá þeim? Er þetta nægt afl fyrir alvöru torfærutæki? Ég sé að Toyota Hilux er með 3000 vél og 170 hestöfl. Eru þetta kannski óþarfar áhyggjur hjá mér?
Svar: Ástæðan er sú að þeir Musso Sports sem voru fluttir inn á árinu 2006 eru uppseldir og 2,9 lítra Benz-dísilvélin frá SsangYong í Musso Sports stenst ekki mengunarmörkin sem gengu í gildi 1. jan. 2007. Í SsangYong Action Sports er hins vegar ný 2ja lítra túrbódísilvél með nýrri kynslóð eldsneytiskerfis (Common rail) sem ég nefni forðagrein. Spíssar eru rafvirkir og forþjöppun tölvustýrð sem eykur viðbragð. Þessi Action Sports 4ra dyra pallbíll með 2ja lítra túrbódísilvél er talsvert sprækari en t.d. Toyota Hilux með 2,5 turbódísilvél, sem er á svipuðu verði en með venjulegt olíuverk og spíssa af gamla skólanum. Hins vegar er 3ja lítra 170 ha túrbodísilvélin í Hilux með nýjustu tækni (forðagrein) og skemmtilega srækur og hljóðlátur. Hann kostar (SR 4ra dyra Doble Cab) 3.190 þús. sjálfskiptur eða 500 þús. kr. meira en Action Sports. Með tilliti til þess hve 3ja lítra Hilux er þægilegur bíll í akstri og endursöluverð Toyota hátt finnst mér SsangYong Action Sports ekki sterkur keppinautur þótt hann sé hálfri milljón ódýrari.

55
Matarolía á dísilvélar?
Spurt: Ég hef frétt að nota megi matarolíu í bland við hráolíu t.d. 50/50 hlutföll á dísilvélar. Getur díselvél gengið á matarolíu einni saman án þess að vélinni sé breytt, eða þarfa ð breyta vélinni? Ef þarf að breyta vélinni, er það mikið og dýrt? Hvernig þarf að meðhöndla olíuna svo þetta virki? Fer svona olía verr með vélina en dísilolían?
Svar: Þetta er ekkert nýtt - var prófað um 1975 t.d. að keyra vörubíl á lýsi og það er enn hægt sé dísilbíllin nógu gamall, þ.e. með olíuverk og venjulega spíssa en það þarf að forhita hvaða feiti sem er og jafnvel sía hana líka sérstaklega. Það er einfaldlega ekki hægt að keyra þessar nýjustu dísilvélar á neins konar úrgangsolíu - nema hún sé hreinsuð á efnatæknilegan hátt áður með eimun og þá er hætt við að hún sé orðin nánast jafndýr og venjuleg - auk þess þarf alls konar tilfæringar sem ekkert venjulegt fólk getur staðið í. Tæknilega er þetta ekki flókið mál - kúnstin er að gera úrgangsolíuna markaðshæfa þannig að venjulegt fólk geti hana eins og venjulegt eldsneyti og þá kemur til heilmikill kostnaður eigi útblásturinn að standast mengunarstaðla og vélarafl að vera viðunandi.Mér finnst það nánast broslegt þegar einhver mixari hefur varið 20 tímum í að aka dísilbíl á 1 lítra af útþynntri matarolíu - fyrir blaðamenn sem halda að það sé efni í rokufrétt!

Tímareimaskipti í Mazda
Spurt: Ég er með Mazda 323f '97 með 1,5l vél. Ég held það þurfi að skipta um tímareim. Ég er með nýja tímareim frá umboðinu og ljósrit af öllu því dæmi. Hvað ætli það muni kosta að láta skipta um tímareimina annars staðar en hjá umboðinu? Ætli það þurfi að láta skipta um vatnsdælu líka? Þar sem þetta er ekkert sérstakur bíll og talsvert ekinn þá ætla ég að reyna að borga sem minnst, en auðvitað innan skynsamra marka.

Svar:Þeir auglýsa grimmt hjá Bílaverkstæði Nikolai að þeir skipti um tímareimar (og vélarstilling innifalin - þótt fæstar vélar sé hægt að stilla núorðið!). Þeir ættu að geta sagt þér hvað það kostar - en muni ég rétt þá skipti maður um strekkjara í Mazda eða legu í strekkjara um leið. Vatnsdæluna skaltu ekkert eiga við nema hún sé sjáanlega farin að leka.

Viðgerðarhandbók á Netinu
Spurt: Fyrir nokkru keypti ég nýlegan Dodge Durango frá USA. Engin handbók fylgdi með bílnum þannig að ég sakna þess að hafa ekki upplýsingar um magn vökva á drifum, skiptingu, vél, teikningu af öryggjum, jafnvel rafkerfi auk upplýsinga um minniháttar viðgerðir o.s.frv. Getur þú vísað mér á hvar sé hægt að fá þessar upplýsingar á Netinu og hvað það kosti?
Svar: Á vefsíðunni www.alldata.com er boðið upp á þessa þjónustu fyrir alla bíla á bandaríska markaðnum. Þjónustan (viðgerðar- og upplýsingahandbók með varahlutanúmerum, verklýsingu og leiðbeiningum, sem má prenta, og meðal-verktíma) er tvenns konar; annars vegar fyrir verkstæði (For the professionals) og hins vegar fyrir bíleigendur (For the consumer) en það síðastnefnda nægir fyrir þá sem lesa ensku og ráða við einfaldara viðhald. Mig minnir að kostnaðurinn sé frá 25 dollurum á ári. Þú greiðir með krítarkorti og færð lykilorð og aðgang að þeim bíltegundum sem þú velur en veittur er afsláttur ef keyptur er aðgangur fyrir fleiri en eina bílgerð.

54
Ónýt vél?
Spurt: Ég hef miklar áhyggjur af Toyotunni minni, Corollu '96. Hún lekur olíu og í dag var komið olíuljós og fóru að heyrast ískyggileg hljóð - glamrandi smellir þegar gefið var inn. Ég setti á hana olíu og það dró eitthvað úr smellunum. En samt ...
Er óhætt að svo mikið sem keyra hana á verkstæðið? Hvað myndi vera að?

Svar: Olíuleki er alltaf ávísun á meiriháttar vandræði sé ekkert að gert. Ég reikna með því að ein eða fleiri stangarlegur séu úrbræddar (of víðar vegna yfirhitnunar/bráðnunar). Þar með er ekki sagt að ekki megi keyra bílinn sé olíulekinn lagfærður og notuð olía með breiðara seigjusvið, svo sem 15w 40, og smurljósið slokknar. Þetta er tilefni til að benda bíleigendum á að ekki þarf olíuleka til. Í borgarakstri, sérstaklega þegar ekið er í biðröðum kvölds og morgna, brenna margar nýlegar bílvélar smurolíu og þegar olíuljósið kviknar einn daginn og lýsir stöðugt er skaðinn oft skeður - og það virðist furðu algengt! Því er einföld og fljótleg mæling á magni smurolíunnar á vélinni - með vissu millibili, góð pólitík. Upplýsingar um hvernig það er gert og hve miklu skuli bæta á eru í handbókinni í hanskahólfinu.

Bank í Galloper
Spurt: Ég fór með bílinn í smurningu og þar var sett of mikil olía á vélina. Mikill blár reykur kom eftir nokkrar mínútur og skrítinn gangur. Ég hélt að þetta tengdist því að skipt var um hráolíusíu þennan dag og var því ákveðið að bíða og sjá hvað gerðist. Þegar þetta hætti ekki kom í ljós að of mikil smurolía hafði verið sett á vélina, töluvert yfir strik á kvarðanum (alveg helmingur af bili á milli strika) sem var svo dælt af bílnum á smurstöðinni. Svo núna 5000 þús km seinna er allt í einu komið bank í vélina sem er ekki enn ljóst hvað veldur en vélin var opnuð og heddið er komið af inn í skúr til að leita af vandanum. Getur verið samhengi þarna á milli?
Þetta er Galloper 2001 með 2.5 TDI ekin 140.000. Alltaf verið smurður á tíma.

Svar: Það skiptir vissulega máli að rétt magn smurolíu sé á vél. Þegar vél er með lóðrétta stimpla eins og Galloper veldur yfirfylling, nema hún sé yfir 2-3- lítrum, tæplega skemmdum á vél nema við sérstakar aðstæður, t.d. mikinn halla. Öðru máli gegnir um vélar með lárétta stimpla, t.d. Subaru og Porsche 911 og Boxster, þar getur lítil yfirfylling, t.d. 0,5-1,0 lítri, valdið miklum skemmdum. Sé of mikil smurolía sett á vél á smurstöð á eigani bílsins að krefjast þess að fá skriflega yfirlýsingu um hve miklu þurfti að dæla af vélinni. Skemmdir kunna að koma í ljós síðar og smurstöðvar eru með tryggingu gagnvart slíku. Þegar hráolíusía er endurnýjuð og ekki nægilega vel frá henni gengið getur lögnin dregið loft og valdið gangtruflunum og reykmyndun. Lýsingin (bréfið er stytt) gæti bent til þess að vegna mistaka hafi verið sett bensín saman við dísilolíuna. Þótt mismunandi sverir stútar á tönkum dísil- og bensínbíla eigi að koma í veg fyrir þessi mistök virðast þau eiga sér stað engu að síður. Hins vegar þarf talsvert mikið af bensíni, allt að 40%, saman við dísilolíu á nýlegri dísilbílum til þess að vélin gangi ekki en svo mikil bensínblöndunin veldur þó gangtruflunum og skemmdum sé ekki brugðist við í tíma. Meiri blöndun dísilolíu með bensíni veldur því að vélin fer í gang, gengur stuttan tíma eðlilega, fer síðan að hiksta og reykja og í flestum tilvikum, sé ekki stöðvað strax, valda þau mistök meiri háttar skemmdum.

53
Lumar einhver á GM/AMC/Kaiser V6-vél í Jeep?
Trausti Traustason á vélarlausan CJ5 Tuxedo Park 1967 og er að leita að einhverjum sem kynni að vita um 225 kúbika V6-vél, sem væri til sölu, eins og var upphaflega í þessum bílum. Síminn hans er 822 81111. Vanti einhvern 3,8 lítra Ford V6-vél (ekki með ofanáliggjandi kambásum) í fullkomnu lagi þá má reyna að hafa samband við leoemm(hjá)simnet.is

Athugasemdir við grein um dísilbíla og umhverfisvernd
Vegna greinar þinnar "Umhverfisvernd með dísil" sem birtist í Fréttablaðinu 15.7.2007 er ekki úr vegi að rifja upp grein í Fréttablaðinu undir heitinu "DÍSILBÍLAR OG LOFTMENGUN", sem birtist Fréttablaðið, 26. feb. 2007, þar sem Sigríður Droplaug Jónsdóttir, B.Sc. nemi í umhverfisfræði, gerir að umtalsefni villandi umfjöllun fjölmiðla um loftmengun af völdum dísli- og bensínbíla. Sigríður segir m.a.: "Þegar fullkominn hreinsibúnaður verður komin í allar framleiddar dísilbifreiðar, þá má hugsanlega kasta fram þessari fullyrðingu ("Minni mengun með dísilbílum"). Á meðan væri réttast að orða fyrirsögnina "Dísilbílar menga minna af gróðurhúsalofttegundum".

Í þessu sambandi bendi ég einnig á grein úr Morgunblaðinu, fimmtudaginn 13. október 2005, undir yfirskriftinni "HVORT MENGA DÍSIL- EÐA BENSÍNBÍLAR MEIRA?". Í greininni er rætt við Þór Tómasson efnaverkfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem segir m.a.: "Þór segir að bensínbílar eyði meira eldsneyti og því séu þeir verri fyrir gróðurhúsaáhrifin en þeir séu betri með tilliti til sóts og köfnunarefnisoxíð. "Þannig að það er ekki hægt að segja að annar hvor bíllinn mengi minna eða meira, þeir menga báðir en á sitt hvorn mátann. Umhverfisvænustu bílarnir eru rafmagns- og metangasbílar."

Skýrt kemur fram í báðum greinunum að fullyrðingin um meinta "umhverfisvernd með dísil" stenst ekki nema að hluta og er í raun röng og villandi séu ekki gerðir stórir fyrirvarar. Ef upplýsa á bílakaupendur um það hvernig þeir geta með vali á bílum haft áhrif til að minnka skaðlega umhverfismengum hlýtur að þurfa að upplýsa einnig um þá mengunarþætti í útblæstri bíla sem skaða heilsu almennings með beinum hætti.

Til að setja framangreinda umræðu í samhengi við það sem ofarlega er á baugi erlendis má benda á að þýska þingið hefur nýverið verðið samþykkt hert aðhald með útbælstri bíla á svifryki þar sem m.a. allir bílar verða aukenndir eftir svifryksmengunarstuðli og beinlínis gert ráð fyrir að bílum sem blása út miklu svifryki verði bannað að aka í borgum þegar svifryksmengun fer yfir tiltekin mörk (sbr. fréttir á SPIEGEL-ONLINE, t.d. 4. Januar 2007, FEINSTAUB-FAHRVERBOTE - Welches Auto bekommt welche Plakette?).

Svar: Fyrst vil ég geta þess að fyrirsögn greinar minnar í Fréttablaðinu er ekki mín heldur starfsmanna blaðsins og var henni breytt án samráðs við mig. Eins og fram kom í grein minni í Fréttablaðinu sparaði ég 14 þúsund lítra af bensíni á 10 árum með því að nota frekar dísilbíl en bensínbíl. Sé það ekki umhverfisvernd þá er umræðan á einhverjum villigötum. Með fullri virðingu fyrir fræðilegri menntun fólks og skrifum þess bendi ég á að ég hef fengist við dísilvélaviðgerðir, dísilvélastillingar og ráðgjöf í þeim fræðum auk þess að eiga og aka dísilbílum í nærri 30 ár. Mér vitandi hefur enginn þeirra fræðimanna sem lagt hafa orð í belg skrifað jafn mikið um dísilvélar og mengunarvarnir frá dísil- og bensínbílum og ég hef gert og þau skrif hafa verið lengi inni á vefsíðunni minni - opin fyrir allri gagnrýni - sem þó hefur engin birst enn sem komið er. Hins vegar er víða vitnað í þessar greinar, m.a. hjá Iðntæknistofnun, HÍ og víðar. Mér finnst það horfa til bóta ef fólk með þekkingu á þessum málum skiptist á skoðunum um þau opinberlega en þá þarf það að vera á faglegum grunni frekar en tilvísanir í greinar eftir erlenda blaðamenn og efnaverkfræðinga sem ekki hafa sérþekkingu á bílum/vélum. Bendi á tvær greinar eftir mig þar sem reynt er að skýra þessi mál á sem aðgengilegastan hátt, án óskiljanlegra nýyrða: www.disilvelin.htm og www.mengunarskyrsla.htm (Til gamans get ég þess að ég sendi háskólaprófessor í Bandaríkjunum línu, sem hafði skrifað bréf til USA ToDay þar sem hann bar saman tölur úr Tier III mengunarstaðlinum bandaríska og Euro 4/5 þeim evrópska og benti hróðugur á hve Evrópumenn væru alls staðar með lægri lágmörk og taldi sig sanna með því hve illa Busch-stjórnin stæði að mengunarmálum, - ég benti prófessornum á að hann væri að bera saman grömm á ekinn km og grömm á ekna mílu (1,608 km) - þannig að samanburðurinn væri löndum hans í hag en ekki öfugt (sama hvaða álit maður kynni að hafa á Busch-yngra forseta). Ég vildi ekki vera svo dónalegur að senda USA ToDay þetta bréf en aldrei heyrði ég frá þessum „vísindamanni’’ og ekki varð ég var við að hann eða annar leiðrétti þetta í USA ToDay (enda vafasamt hvort sú leiðrétting hefði fengist birt)!

Fagmenn fáist við öryggisbúnað
Spurt: Vegna óhapps þarf ég að taka annan framstólinn úr nýlegum Hyundai-jepplingi og fara með hann til bólstrara til viðgerðar. Mér var sagt að það mætti ekki taka framstóla úr þessum bílum vegna þess að það hefði áhrif á loftpúðakerfið (Air bag) sem gæti sprungið út við það og eyðilagt innréttingu
na. Er þetta rétt? Ef svo er hvað þarf ég að gera til að geta tekið stólinn úr á öruggan hátt?

Svar: Ég hef það fyrir reglu að benda fólki á að leita til fagmanna þegar nauðsynlegt er að eiga við öryggisbúnað bíls, öruggast er að láta verkstæði taka stólinn úr. En séu einhverjir meinbaugir á því þá er það rétt sem þér hefur verið sagt um tengslin á milli framstólanna og loftpúðanna því í bílbeltunum eru skotstrekkjarar sem virka með sprengipatrónum um leið og púðarnir spretta út. Því er ekki sama hvernig rafleiðslur að beltalásunum eru aftengdir. Skotstrekking og loftpúðar eru virkur búnaður mismunandi langan tíma eftir að rafgeymir hefur verið aftengdur eða hefur eyðilagst og fá þá straum frá þéttum. Yfirleitt tæmast þéttarnir á innan við mínútu. Rafgeymir er aftengdur og beðið 5 mínútur (til öryggis) . Þá er beltið losað frá stólnum, festiboltar niður í gólf losaðir og rafleiðslur aftengdar. Á betri verkstæðum tíðkast að skrifa niður stillingar (stöðvarval) útvarps, áður en rafgeymir er aftengdur, þannig að endursetja megi stöðvarval útvarps og klukku að viðgerð lokinni.

Sjálfvirk tenging fjórhjóladrifs
Spurt: Hvað er það sem tengir og aftengir fjórhjóladrifið sjálfvirkt í akstri í jepplingum eins og Honda CRV og öðrum sem eru með þetta TOD-kerfi sem mér skilst að sé ekki sítengt aldrif t.d. eins og var í Range Rover og Lada Sport? Mér skilst að minn Honda-jepplingur sé yfirleitt í bara með drifið á framhjólunum í venjulegum akstri.

Svar: Mitsubishi Outlander, Honda CRV, Hyundai SantaFe, Nissan X-Trail o.fl. eiga það sameiginlegt að vera með sjálfvirka kúplingu sem breytir framdrifi í fjórhjóladrif með tengingu afturhjólanna. Það sem stýrir tengingunni ("TOD-kerfið=Traction on demand'' er eitt af tengikerfunum) er tölvukerfi og rafvirk kúpling. Kerfið notar boð frá ABS-nemum hjólanna til að ákveða hvenær þörf er á fjórhjóladrifi. ABS-nemarnir "lesa'' snúningshraða hvers hjóls, t.d. 50 sinnum á sekúndu. Þegar beygt er snýst hjólið sem er utar í beygjunni færri hringi en það sem er innar (þetta er að sjálfsögðu öfugt einss og það stóð í Mbl. - hjólið sem er utar í beygjunni þarf að fara lengri leið og snýst því fleiri hringi , þ.e. hraðar - þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta snýst við í höfðinu á mér - en aðalatriðið er auðvitað mismunandi snúningshraði hjólanna). Tölvan nemur mismuninn strax og tengir fjórhjóladrifið. Sama gerist sé stigið snöggt á inngjöfina. Þessi búnaður er fyrst og fremst til að auka akstursöryggi með auknum stöðugleika. Þegar ekið er í snjó eða torfæru og annað framhjólið spólar - mælir ABS-neminn mismunandi snúningshraða framhjóla og sjálfvirka tengikerfið (tölvan/rafkúplingin) bregst samstundis við þeim boðum með því að tengja fjórhjóladrifið. Af þessu leiðir að réttur og jafn þrýstingur í dekkjum skiptir miklu máli - því dekk með lægri þrýstingi hefur minna þvermál og snýst fleiri hringi á mínútu (skyldi ekki vera minni en 30 psi). Of lítill eða mismunandi þrýstingur, sérstaklega séu dekk belgmikil og stór, ásamt TOD-kerfi og sjálfskiptingu (amerískir jeppar) getur valdið ýmsum truflunum og jafnvel skemmdum, t.d. valdið því að sjálfskipting sé stöðugt að skipta á milli gíra þegar dreginn er vagn á stöðugum hraða á jafnsléttu. Og ástæða er til að bæta því hér við að sítengt aldrif, þ.e. drifbúnaður sem er með stöðugt drif á öllum hjólum en mismunardrif á milli fram- og afturhjóla, en þannig búnaður er t.d. í jeppingum á borð við Toyota RAV4 (þó án læsingar miillidrifs og í fólksbílum á borð við Subaru Legacy og Tribeca. Eðlis síns vegna veldur þessi búnaður meiri eyðslu (en hún hefur dregið verulega úr sölu á Subaru Legacy) og sem dæmi þá eyðir RAV4 yfirleitt um 14 lítrum í blönduðum akstri en t.d. Mitsubishi Outlander um 11 lítrum með sprækari vél en auk sjálfvirkrar tengingar fjórhjóladrifs er Outlander er með læsanlegt mismunardrif á milli fram- og afturhjóla.

Ekki sammála um Benz
Netbréf: Ég las pistil þinn 5. júní þar sem þú fjallar um erfiðleikana hjá DaimlerChrysler (nú Daimler Benz á ný) og efast ekki um að þar er margt rétt frá sagt. Þó rak ég augun í eina fullyrðingu sem ég tel að ekki geti staðist en þar segir þú ,,þrátt fyrir þá staðreynd að enginn Benz-bíll hannaður eftir 1990 hafi reynst gallalaus". Ég þykist sjá að þú eigir við fólksbílana. Nú vill svo til að sjálfur átti ég lengi Benz 300 E 4-Matic 1993 árgerð, sjálfskiptan með 3ja lítra 6 sílindra vél. Ekki varð ég var við neina galla í þeim bíl - reyndar er hann einhver besti bíll sem ég hef átt um mína daga. Að öðru leyti þakka ég fyrir frábæra og fræðandi vefsíðu.

Svar: Þakka þér fyrir þessa ábendingu (allar ábendingar eru vel þegnar sem endranær). Ástæða þessara efasemda þinna er ákveðinn misskilningur. Þú blandar óvart saman þeim tíma sem hönnunarskeiði bíls lýkur og framleiðsluárinu. Samkvæmt upplýsingum, sem m.a. hafa komið fram í tímariti Benz (In aller Welt), var meðaltími hönnunar nýs fólksbíls hjá Benz 4 ár á 9. áratugnum. Það þýðir t.d. að hönnun þíns bíls (smíðaár 1993) hefur lokið snemma á árinu 1989. Hann er því hannaður fyrir 1990. Fyrstu bílarnir sem tilheyra Benz, sem hannaðir voru eftir 1990, eru líklega af árgerð 1995 sem komu á markaðinn seint um haust 1994 - en þá byrjaði ballið, m.a. með skynditæringu boddís, sem margir kannast við, og fleiri króniskum bilunum. Ég hef átt marga Benza af ýmsum árgerðum og tel að 420 SEL (minn var af árgerð 1991/92 og hafði að mestu leyti verið óbreytur í 10 ár) sé ekki bara besti bíll sem ég hef átt heldur besti fólksbíll sem nokkru sinni hefur verið hannaður. Mér er líka kunnugt um að þeir sem átt hafa 4-Matic-bílinn af árgerð fyrir 1995 hafa verið mjög ánægðir með hann. Ég vil nota þetta tækifæri, af því verið er að ræða um Benz (en stór yfirlitsgrein er um Benz á þessari vefsíðu) til að svara enn og aftur ábendingu Rúnars, sem er sérstakur áhugamaður um Benz og vandaði mér ekki kveðjurnar á spjallvef Fornbílaklúbbsins, en hann taldi (ef til vill með réttu) að villur væru varðandi árgerðir í þeirri grein (reyndar birtist röng mynd af fyrsta dísilfólksbílnum 260D frá 1936 sem var 4ra dyra fólksbíll en ekki 2ja dyra Coupe og hefur verið lagfært). Það sem Rúnar áttaði sig ekki á, enda ekki með reynslu sem blaðamaður, að í þeirri grein var rækilega vísað í heimildir sem stuðst var við auk þess sem tekið var sérstaklega fram að oft væri ekki ljóst hvað höfundar ýmissa blaðagreina ættu nákvæmlega við þegar þeir tiltækju þann tíma sem ákveðinn bílgerð var við lýði, (dæmi; framleiddur 1954-1961 gæti þýtt, án frekari skýringa, að framleiðsla hafi hafist 1954 og staðið til 1961 eða hafist í ársbyrjun 1954 og lokið í árslok 1961). Það sem Rúnar virðist ekki hafa áttað sig á, þrátt fyrir svör mín (sem hann virtist, af einhverjum ástæðum, líta á sem skæting í sinn garð) var að hefði hann undir höndum betri heimildir og vildi koma þeim á framfæri þá átti hann að gera það við þá heimildaraðila sem vísað var til í grein minni (ég hafði ekkert leyfi þeirra til að breyta því sem ég sótti í þeirra skrif - enda er það ein af mikilvægum reglum blaðamanna í meðferð heimilda). Við skulum bara vona að Rúnar miðli af þekkingu sinni með álíka yfirlitsgrein grein um Benz, t.d. á íslenska Benz-vefnum www.stjarna.is sem er ein af áhugaverðum íslenskum bílavefsíðum.

Meira um Musso
Spurt: Ég sé að þú mælir með Musso með 5 sílindra Benz vélinni. En er ekki nýrri týpan með aðra gerð af sjálfskiptingu en eldri Musso sem er með Benz-skiptingu. Ég hef heyrt að það hafi verið einhver vandamál með þær sjálfskiptingar - kannast þú við það?

Svar: Nýrri Musso er með tölvustýrðri Benz-sjálfskiptingu (með kvarða) og sá nýjasti með ástralskri BTR-sjálfskiptingu með tölvustýringu (prógramval W(inter, E(conomy) og S(port) en kvarðalaus). Vegna galla í tölvuforriti brotnuðu túrbínur í nokkrum bílum af fyrstu árgerðinni með BTRA (sem mig minnir að hafi verið 2001) - þeir bílar voru í ábyrgð og BTRA-skiptingin endurnýjuð eigendum að kostnaðarlausu. Framleiðandinn endurbætti tölvubúnaðinn og eftir það hafa ekki verið nein vandamál með BTR-skiptingar - þvert á móti eru þetta þær sjálfskiptingar í jeppa sem auka eyðslu einna minnst. BTR í Ástralíu hefur framleitt sjálfskiptingar í meira en 45 ár, m.a. fyrir Ford sem hefur notað þær í bílum framleiddum í Ástralíu og í USA. Ég er á því að BTR-skiptingarnar séu vandaðri en Benz-skiptingarnar. Handskiptu kassarnir voru upphaflega frá Bord-Warner en í nýrri Musso og Korando eru handskiptingarnar frá Tremac. Millikassinn er frá Borg-Warner. Enn erí gangi alls konar slúður um Musso sem keppinautarnir komu á flot á sínum tíma þegar þeir gátu hvorki keppt um sparneytni né verð (Musso vann sparaksturskeppni Esso og FÍB 2 ár í röð bæði með bensín og dísilvél). Ef þú vilt sannfærast um muninn á landbúnaðartæki og lúxusjeppa skaltu prófa Isuzu Trooper og síðan Musso. Staðreyndin er sú að reynslan er ólygnust: Nú (2009) viðurkenna flestir jeppamenn að 5 sílindra dísilvélin í Musso sé ein sú besta og Musso eru enn í fullu fjöri - sumir á 13. árinu.

Felgur á Toyota Highlander
Spurt: Ég var að Kaupa Toyota Highlander 2004 og er að leita að auka felgum undir hann ,framleiðandinn segir offsettið ( ET ) eiga að vera 18-28 nánast ekkert er til af felgum 16-18" hér á landi sem uppfylla þessi skilyrði en þó var prófuð á hann felga á dekkaverkstæði sem var með 40 í offset og passaði hún á svo fremi sem dekkið rekist ekki út í demparann. Spurningin er hversu strangt á að fara eftir þessum tölum ? ( 18-28 ) Hvað er í húfi sé þeim ekki framfylgt ? kemur það niður á skrikvörn eða einhverjuöðru ? eða er nóg að felgan og dekkið rekist hvergi utan í ?

Svar: Einungis þvermál hjóls hefur áhrif á stöðugleikabúnað þar sem hann byggir á púlstíðni frá ABS-nemum. Aðalatriðið er að dekkin taki ekki út í eða rekist í þegar hjól fjaðrar eða lagt er á. Felgur kunna að passa á upphækkaða bíla þótt þær passi ekki á óbreyttan bíl - en ég á nú ekki von á að úrval hækkunarbúnaðar sé mikið fyrir Highlander sem er stór jepplingur sérstaklega gerður fyrir bandaríska markaðinn. Því meiri sem útsetning felgu er því meira mæðir á hjólnöf og hjóllegum þar sem aukin átaksarmur myndast. IB á Selfossi (Gunnar Sigurðsson) hefur verið að panta ýmsan búnað í bíla sem eru sérstaklega gerðir fyrir bandaríska markaðinn. Ráðlegg þér að tala við þá (480 8080).

Tímareimarvandamál
Spurt: Ég er með Chrysler LeBaron af árgerð 1994 með 3ja lítra V6-vél. Ég er í vandræðum útaf því að tímareimin endist ekki nema tæpan mánuð - er þegar búinn að skipta tvisvar á tæpum 2 mánuðum. Reimin trosnar þangað til hún fer út af hjólunum. Ég er búinn að skipta um strekkjarann. Það er ca. 20/1000" endaslag í kambásnum sem virkar dálítið mikið - getur það verið ástæðan?

Svar: Endaslagið er innan marka. Þér hefur áreiðanlega verið seld röng tímareim. Það eru tvenns konar tímareimar í þessum vélum - annars vegar venjuleg flöt en hinsvegar reim með rúnnuðum köntum. Sé reimin sem eyðileggst venjuleg með flata kanta, sem ég reikna með, er það vegna þess að stýringarnar á strekkjarahjólinu tæta kantana upp. Fáðu réttu reimina, þessa með rúnnuðu köntunum og þetta vandamál mun verða úr sögunni.

(52)
Ómöguleg kúpling
Spurt: Kúplingin var hætt að slíta í gömlum Dodge Ram 50 (MMC) svo keypt var kúplingssett og látið skipta um á verkstæði. Þegar ég fæ bílinn aftur, eftir að hafa greitt fyrir 7 tíma vinnu, slítur kúplingin en hins vegar nötrar allur bíllinn og skelfur þegar tekið er af stað og er hundleiðinlegur fyrir bragðið. Verkstæðið segir þetta vera einhverja aðra bilun. Getur verið að þeir hafi snúið kúplingsdisknum öfugt eða að kúplingssettið hafi verið gallað?

Svar: Í einstaka bílum er hægt að snúa kúplingsdiskinum öfugt þó flestir diskar séu þannig gerðir að það er ekki hægt. Vanur maður sér það á disknum hverning ætlast er til að hann snúi. Í þínu tilviki tel ég að um sé að ræða algengustu mistök, sem gerð eru varðandi kúplingar, þ.e. að planið á svinghjólinu, sem önnur hlið disksins þrýstist að sé slitin (íhvolf) og hefði þurft að plana í rennibekk. Sé það ekki gert tekur nýi diskurinn einungis á jöðrunum þegar kúplingin byrjar að tengja og af því myndast titringurinn. Vanir bifvélavirkjar setja ekki nýja kúplingu í bíl nema kanna áður flöt svinghjólsins með réttskeið og millimáli eða mæla misþykkt disksins sem tekinn er úr en það er gert með skrúfstilltri mælikló. Mælist borðaflötur disksins t.d. um 0,5-1,0 mm þykkari næst miðju en yst á jöðrunum á að taka svinghjólið úr og láta plana það áður en ný kúpling (diskur pressa/lega) er sett í.

Fjórhjóladrifinn og 7 manna
Spurt: Við erum að leita að 7 manna bíl (fjölnota). Okkur langar í bíl sem er stór að innan en smár að utan, öruggur, eyðslugrannur (jafnvel dísel) og með fjórhjóladrifi. Hvað ættum við að skoða?

Svar: 7-manna fjórhjóladrifsbílar með díslvél eru ekki í miklu úrvali hvorki sportjeppar né fullvaxnir jeppar. Chevrolet Captiva sem er 7 manna sportjeppi, fjórhjóladrifinn en ekki með lágt drif. (Þú getur lesið um hann í bílaprófunum á vefsíðunni www.leoemm.com. Suzuki Grand Vitara XL7 er 7 manna en þrengri en Captiva. LandRover Discovery, Ford Explorer og fleiri fást með sætum fyrir 7 en það eru fullvaxnir jeppar og því dýrari og eyðslufrekari. Ein undantekning er þó frá þeirri reglu en það er SsangYong Rexton, 7 manna sparneytinn dísiljeppi.

Óeðlileg eyðsla
Spurt: Ég er með tæplega 2ja ára VW Polo sem er allt í einu farinn að eyða allt að 12 lítrum þegar mest er. (Var áður í 6-8 lítrum eftir aðstæðum/keyrslu). Hver er líklegasta orsökin fyrir þessari auknu eyðslu - vélin virðist í fullkomnu lagi að öllu öðru leyti?

Svar: Sé bíllinn ekki því meira ekinn ætti hann að vera enn í ábyrgð. Það hafa verið gallaðir súrefnisskynjarar í þessum vélum (nefnast einnig Lambda-skynjarar) og valdið því að eyðslan tvöfaldast og rekstrarkostnaðurinn hækki að sama skapi. Það sem flækir málið og gerir það að verkum að ekki hefur alltaf tekist að laga þetta í fyrsta skipti, þrátt fyrir heiðarlega tilraun, er að þessi galli í súrefnisskynjaranum virðist ekki alltaf koma fram við bilanagreiningu. Samt ráðlegg ég þér að snúa þér til VW-þjónustuverkstæðis því sýni bilanagreining ekki kóða fyrir skynjarann er hægt að mæla spennusvið hans og þá kemur í ljós hvort hann er sökudólgurinn. Þrautalendingin gæti verið að kaupa skynjarann í N1 eða Stillingu og skipta um hann sjálfur.

Góð kaup í notuðum jeppa?
Spurt: Mig langar í jeppa og hef verið að velta fyrir mér notuðum jeppum á verðbilinu 1500-2000 þus. kr. Það ganga alls konar sögur sem gera mann hræddan við að kaupa sumar tegundir en ég er fyrst og fremst að leita að jeppa til að ferðast á ekki bara borgarjeppa.

Svar: Þú getur spurt hundrað manns og enginn þeirra hefur sömu skoðun á jeppum. Ég get bara sagt þér hvaða notaðan jeppa ég myndi kaupa fyrir þennan pening en það er nýrri gerðin (nýja grillið) af 2,9 lítra sjálfskiptum Musso dísil. Musso er með bestu og sparneytnustu dísilvélina (5 sílindra Benz), hann er sterkbyggður, með góða aksturseiginleika og þægilegur ferðabill. Það hafa engin alvarleg vandamál verið með Musso (sem verður ekki sagt um alla jeppa). Ég hef ekki enn séð ryðgaðan Musso. Hásingarnar eru Dana 30 (stutt) að framan (vindustangir) og Dana 44 að aftan (gormar) og í þær fæst allt á skaplegu verði - varahlutaþjónusta er a.m.k. 100% betri en t.d. fyrir Nissan jeppana og varahlutaverð mun hagstæðara en t.d. hjá Brimborg (Explorer/Ranger/F-Series).

Enn ein bilun í GM 6.5 dísil
Spurt: GM pickup 1998, sem hefur staðið í tæp ár en var í lagi þegar honum var lagt, neitar að ganga. Hann fer í gang í startinu en steindrepur svo á sér eftir fáeinar sekúndur. Búið er að skipta um olíuverk (setja nýtt ekki uppgert), dræverinn fyrir innsprautunina er nýr, eldsneytissían er ný og eldsneytisdælan skilar olíu til verksins - en allt kemur fyrir ekki - en kostnaðurinn orðinn svakalegur. Það eru engir bilanakóðar lesanlegir með prufuljósi. Hver fj. getur valdið þessu?


Svar: Það kom ekki fram hjá þér en blikki ljós í mælaborðinu er það bilun í þjófavarnarkerfinu sem veldur þessu - það hefur ekkert með það að gera að bíllinn hefur staðið heldur bara tilviljun að hún kemur upp (einhvern tíman byrja bilanir). Oft er bilunin í svisslyklinum/svissnum. Um tvö kerfi er að ræða í þessum bílum, eldra kerfið er með venjulegan svisslykil sem með viðnámi veldur því að tvær fjaðrir inni í svissbotninum gefa stýristraum á straumloku. Sé lykillinn orðinn slitinn, en þá verður viðnámið í honum of lítið, og enginn minna notaður varalykill til, má bjarga málinu með því að taka ákveðna leiðslu í sundur frá svissnum og setja hana saman með ákveðnu viðnámi sem er gefið upp á rafteikningu yfir þessa bíla. Yngri útgáfan er með svisslykil sem inniheldur flögu sem gegnir sama hlutverki (þessi hluti þjófavarnarinnar gerir það að verkum að ekki er hægt að tengja beint í þessum bílum og stela þeim þannig). Bilun getur verið í flögulyklinum, en yfirleitt ekki svona eins og þú lýsir heldur fer vélin ekki í gang nema endrum og eins. Sumir lásasmiðir geta forritað lykilinn upp á nýtt. Blikki hins vegar ekkert ljós í mælaborðinu og vélin fer í gang en drepur jafnóðum á sér um leið og lyklinum er snúið úr startstöðu getur bilunin verið í rafsegullokanum á olíuverkinu en hann virkar sem ádrepari. Það er greinilega straumur að honum úr því hún fer í gang (en hann má mæla með prufuljósi á milli plús og mínusleiðslnanna og á ljósið að lýsa sé svissað á). Oft nægir að hlusta þennan loka, hann bilar oftast með því að standa á sér eða síga til baka vegna ónýtrar spólu. Heyrist smella í lokanum þegar svissað er á er hann oftast í lagi. Ef hvorugt þessara atriða koma að gagni skaltu hafa samband aftur og við sjáum til um framhaldið.

Opel Astra fékk ekki fulla skoðun
Spurt: Ég fór með bílinn minn, sem er Opel Astra 1999 ekinn rúml. 100 þúsund og sem gengið hefir ágætalega, í skoðun, en fékk grænan miða vegna þess að rauða Airbag-ljósið slokknaði ekki eftir gangsetningu - en það hefur komið fyrir nokkrum sinnum en svo slokknað einn daginn og verið ílagi nokkrar vikur, eða þar til fer að rigna. Nema það þurfti endilega að gerast í skoðuninni og nú lýsir það stöðugt. Ég fór á verkstæði (í umboðið þýðir ekkert að fara - þeir neita að skoða svona en gefa manni tíma eftir meira en mánuð í fyrsta lagi) og þar var lesinn ákveðin bilanakóði og mér sagt að þetta væri vegna þess að Airbag tölvan væri ónýt og hún kostaði 130 þúsund krónur, líklega í umboðinu?!. Ég tjékkaði á þessum kóða á Netinu og skýringin við hann, muni ég rétt, er „Voltage measured too high’’ á einhverju sem ég man ekki hvað hét. Hvað segir þú um þetta - á ég að fara að fjárfesta í Airbag-tölvu - gæti hugsanlega fengið hana á partasölu og þá vaknar spurningin hvar hana sé að finna í bílnum?

Svar: Ég mæli ekki með því að bíleigendur séu sjálfir að eiga við öryggisbúnað - það á að láta fagmenn um það. Kóði sem þýðir að of há spenna sé á einhverju (og bilun tengd raka og rigningu) hefur ekkert með Airbag-tölvuna að gera (en hún er á hvalbaknum að innanverðu upp undir miðju mælaborði fyrir framan gírstokkinn). Ohms-lögmálið segir að spenna sé margfeldi af straumstyrk og viðnámi. Spennan frá rafgeymi hefur væntanlega ekkert breyst frekar en straumstyrkurinn. Viðnám hefur einhvers staðar aukist í leiðslum sem tengjast Airbag-búnaðinum og því fær tölvan of háa spennu á einhverja virkjunarrás. Í Opel eru það oftast tengin undir framstólunum, sem liggja að Airbag-tölvunni frá bílbeltalásunum, sem valda þessu og því að rauða ljósið slokknar ekki. Aftengdu annan pól rafgeymisins (eigðu ekki við leiðslurnar fyrr en eftir nokkrar mínútur). Renndu stólunum í fremstu stöðu og losaðu Torx-skrúfurnar í sleðunum að aftanverðu þá eru þeir lausir (renna inn í hak að framanverðu). Þá sérðu þessar tvær grönnu leiðslur með grönnum spaðatengjum undir hvorum stól (mig minnir að vírkápan sé gul). Taktu einangrunina utan af spöðunum, taktu þá sundur og hreinsaðu, sé þess þörf. Settu þá svo saman. Berðu á þá lóðfeiti og hitaðu þá með lóðbolta þar til þeir bræða lóðtinið. Lóðaðu þannig saman hulsuna og spaðann á öllum 4 tengjunum, þ.e. 2 undir hvorum stól. Einangraðu leiðslurnar vel með einangrunarbandi og festu þeim með tenntri plastreim (strap) þannig að þeir geti ekki flækst fyrir þegar stólnum er rennt aftur eða fram en þó þannig að leiðslurnar séu lausar frá fremstu til öftustu stöðu stóls. Tengdu rafgeyminn aftur. Að öllum líkindum slokknar nú Airbag-ljósið vegna þess að spennan hefur lækkað við það að minnka viðnámið með lóðningunni. Hins vegar skaltu ekki láta þér bregða þótt það taki upp á því að lýsa aftur eftir 10 mín. eða svo. Þá er kominn tími til að fara að skoða önnur mál eins og t.d. tölvuna (láta Varahlutalagerinn í Kópavogi senda hana út til viðgerðar). En tengingarnar þurfti að lóða saman - þú hefðir ekki getað sleppt því þannig að það var ekki til einskis (Ég gæti vel trúað því að tölvan kostaði 130-200 þúsund krónur sérpöntuð hjá umboðinu því sem Opel-eigandi er maður ýmsu vanur í þeirri varahlutadeild - en ef þeir skyldu eiga hana til þá er það örugglega vegna einhverra mistaka).

Gangtruflun í Corolla (endurbirt - sjá viðbót!)
Spurt: Ég á Toyotu Corolla 1998 1300 ekin175 þús km og hefur fengið fengið gott og reglubundið viðhald. Sl. 6 mánuði hef ég heyrt svona "puff-hljóð'' frá vélinni þegar ég tek af stað og t.d í brekku í 2 gír. Bílinn eyðir um 10 lítrum í innanbæjaraktsri. Ég lét stilla hann sl sumar í von um að eyðslan myndi minnka og þessi feilpúst eða puff hljóð hættu. Hvorugt hefur gerst veist þú hvað veldur?

Svar: "Puff-hljóðið'' er að öllum líkindum vegna sprenginga í útblásturskerfinu sem inniheldur of mikið af óbrunnu kolvetni (eldsneyti) vegna veiks neista. Ég reikna með að ný kerti hafi verið innifalin i vélarstillingunni. Þessi vél er án kveikjuloks (kveikjulok er í 1600-vélinni) og kertaþræðirnir tengjast því beint háspennukeflinu. Kertaþræðirnir í Toyota Corolla frá þessum tíma (1300 og 1600) entust ekki lengi og hafi þeir ekki verið endurnýjaðir er þessi gangtruflun að öllum líkindum vegna ónýtra kertaþráða enda sýnist mér eyðslan benda til þess. Ef þú kaupir nýtt þráðasett í umboðinu passa þeir nákvæmlega og er ekki nema um hálftíma verk að skipta um þá. Það er vissara að byrja á að máta lengd hvers þráðar og skipta síðan um einn þráð í senn - því ruglist röðin ertu komin með enn verri gangtruflun.
Viðbót: Eftirfarandi svar barst frá viðkomandi Corollu-eiganda nokkru seinna (sem sýnir hve mikilvægt er að lýsa gangtruflun sem skýrast og skýrir hugsanlega einnig hvers vegna ókeypis vélarstillingin fylgir með tímareimaskiptum á ákveðnu verkstæði):
Sæll Leó. Svarið sem þú gafst mér, varðandi gangtruflunina reyndist hárrétt. þetta puff hætti um leið og eyðslan hefur lagast með nýjum kertaþráðum. Eins finnst mér viðbragð og snerpa vera betri. Ég spurði um kerti og þræði þegar ég lét stilla hann á sínum tíma en þar sögðu menn (Nicolai) að allt væri í besta lagi!!!!
Vil þakka þér þetta framtak með vefsíðu þína, þú hefur örugglega sparað mörgum manninum stórfé (þ.a.m. mér).Ég er reglulegur lesandi á leoemm.com og vil einnig þakka fyrir skemmtilegan og fræðandi vef. mbkv. K.M.

(50)
Passat sem höktir
Spurt: Ég á VW Passat 1,9 TDI sjálfskiptan árgerð 2001. Hann tók upp á því að þegar ég slæ af án þess að nota bremsurnar að þá höktir hann stundum. Hann höktir ekki í hvert skipti sem ég slæ af en hann tekur upp á þessu stundum. Bíllinn gerir þetta EKKI þegar hann er kaldur og ekki alltaf þegar hann er heitur þannig að þetta virðist vera hálfgerð draugabilun. Ég er að leiðinni með hann á verkstæði hér í Reykjanesbæ en vildi vita eitthvað um hvað þetta gæti verið.
Svar: Prófaðu að keyra bílinn í D2 í stað D. Hætti höktið við það er bilunin í sjálfskiptingunni (túrbínulæsing stirð og slítur ekki). Það getur verið nóg að endurnýja vökvann á skiptingunni og setja sérstakt bætiefni saman við hann. Það munu vera um 5 lítrar á þessari ZF-skiftingu og þarf sérstakan búnað til að ná honum öllum af. Skipting í Keflavík hefur þann búnað og bætiefnið. Hætti höktið ekki við D2 þarftu að láta kóðalesa vélstýrikerfið.

Steinolía
Spurt: er eitthvað hæft í því að hægt sé að nota steinoliu á dísilbíl með því að blanda tvígengisoliu samanvið steinolíuna?
Svar: Flestir eldri dísilbílar með venjulegt olíuverk og mekaníska spíssa geta brennt steinolíu án þess að í hana sé blandað öðrum efnum (tvígengisolía eykur sótmyndun og þar með HC-mengun í útblæstri umfram leyfileg mörk). Fyrir síðustu áramót innhélt dísilolía meira magn brennisteins sem virkaði sem smurefni í eldri gerðum dísilkerfa (með olíuverki). Í stað brennisteinsins hafa eigendur eldri bíla blandað 10% steinolíu til að tryggja smurningu. Ég myndi ekki mæla með notkun steinolíu á nýrri gerð dísilkerfa með forðagrein (common rail) í stað olíuverks og rafstýrða spíssa. Auk þess er ekki allt efni, sem selt er sem steinolía, sama efnið. Ath. Steinolía er seld frá dælu hjá N1 (Esso) á Ártúnshöfða.

"Bank'' í Opel Vectra
Spurt: Ég er með Opel Vectra 2001. Undanfarið hef ég heyrt bank hægra megin í bílnum aftan til. Ég átta mig ekki á hvað þetta getur verið en þetta heyrist yfirleitt þegar tekið er að stað eða gefið í. Einnig þegar slegið er af. Þetta virðist aðallega vera bundið við hreyfingu áfram eða afturábak. Heyrist t.d yfirleitt ekki þegar keyrt er yfir hraðahindrun. Eftir bank sem heyrist við hreyfingu áfram heyrist það næsta oftast ekki fyrr en slegið er af.
Svar: Vectra er með sjálfstæða fjörðun að aftan. Afturhjólinu halda 3 bitar, demparar og jafnvægisstöng. Tveir bitanna eru þverstæðir, eftir og neðri á milli festingar undir miðjum botni bílsins og nafarhaldarans (spindilsins). Gúm/stálfóðringum er þrýst í enda armanna og gengur bolti í gegn um þær. Þessar fóðringar slitna, oftast gefur sig neðri fóðringin út við hjól fyrst og við það myndast slag og hljóð eins og þú lýsir. Það þarf sérstakt áhald til að skipta um þessar fóðringar í bílnum eða taka armana úr og þrykkja fóðringum úr og í með 10 tonna pressu. En áður en farið er í meiriháttar framkvæmdir er ef til vill þess virði að opna verkfærahólfið sem er einmitt í hægri hliðinni í skottinu á Vectra og kann hvort þar geti verið laus felgulykill að slást til ..............

Pjero sem hikar ...
Spurt: Ég er með Pajero árg. 98, 2.5 dísel sem er ekinn um 215 þ km. Vandamálið lýsir sér þannig að við inngjöf heldur bíllinn stundum ekki jöfnu togi, þ.e. hann virðist aðeins missa niður kraftinn við ákveðinn snúning. Þetta lýsir sér ekki sem hökt heldur frekar sem smá hik. Í fyrstu togar hann eðlilega, síðan á ákveðnum snúningi missir hann örlítið kraftinn en togar svo áfram eðlilega. Hefur þú einhverja hugmynd um hvert vandamálið gæti verið?
Svar: Gæti verið stýringarvilla í tölvukerfinu (leki) sem stjórnar olíuverkinu og stýrir inngjafarmagni á móti túrbínuþrýstingi. Sé örlítil sía í inntakinu á olíuverkinu getur hún verið hálfstífluð. Baklekir spíssar geta einig valdið svona hiki - en þá er vélin venjulega farin að reykja t.d. við meiri gjöf/álag. Að öllum líkindum er bilanakóði skráður í minni tölvunnar fyrir þessa truflun. Ef þú ert á höfuðborgarsvæðinu ráðlegg ég þér að láta kóðalesa kerfið hjá umboðinu eða í Vélalandi.

Nýlegir Ford rafmagnslausir að morgni
Ábending: Nokkrir eigendur Ford-lúxusjeppa hafa haft samband vegna „draugagangs’’ í rafkerfinu sem lýsir sér þannig að einn morguninn koma þeir að bílnum með dauðan rafgeymi. Eftir að hlaðinn rafgeymir er settur í kemur í ljós að inniljósin fara ekki sjálfkrafa af eftir ákveðinn tíma eins og þau eiga að gera sé allt með felldu. Í fæstum tilvikum er um bilun í læsingarrofa eða Body Computer að ræða - þótt ófáum þúsundum hafi verið eytt í að leita að því, heldur er um að ræða athugunarleysi bílstjóra sem hefur ekki haft fyrir því að lesa leiðbeiningar yfir stjórntækin í handbókinni sem fyrlgir bílnum. Á fremra inniljósinu og því aftara eru yfirleitt 2 hnappar sem kveikja á kortaljósum. Þeir eiga að vera inni (þ.e. það á að þrýsta þeim inn þannig að þeir séu í botnstöðu) til að slökkt sé á ljósunum, en takkanum er hleypt niður til að kveikja á þeim. Annað atriði er styrkstillirinn fyrir mælaborðsljósin (hjólið) þegar honum er snúið upp á við í efstu stöðu kviknar á kortaljósununum (inniljósunum). Sé bíllinn yfirgefinn með styrkstillinn í efstu stöðu lýsa inniljósin þar til næst er komið að bílnum (oft rafmagnslausum). Það sem eykur líkur á þessu er að inniljósin, þegar allt er með felldu , lýsa ákveðinn tíma eftir að bílnum hefur verið lokað, læst eða yfirgefinn. Þetta er neikvæða hliðin á lúxusbúnaðinum - þ.e. fólk varar sig ekki á þessu. Sem sagt athugið stöðu þessarra rofa í Ford.

Nýtt efnisem vert er að prófa
Ábending: Komið er á markaðinn nýtt efni á úðabrúsa sem nefnist „Freeze & Relese’’ og er frá Loctite. Úðabrúsinn (400 ml) inniheldur blöndu af kolsýru og öðrum rokefnum og ryðolíu sem frystir hluti niður í mínus 43°C. Efnið er notað til að losa sundur ryðgaða eða samanþrykkta hluti auk þess sem það getur komið sér vel þar sem ekki verður komið við hitun t.d. vegna nærliggjandi hluta úr plasti og ætti , að mínu mati að vera í hverri verkfærakistu fagmanna. Í mörgum tilfellum gerir þessi úðabrúsi sama gagn og logsuðutæki þegar losa þarf sundur hluti úr málmum. Efnið á að fást á N1 bensín- og varahlutaverlsunum - en vissara er að biðja afgreiðslumennina að slá heitinu upp á tölvu - kannist þeir ekki við vöruna, sem er til í dæminu má tiil öryggis má hafa vörunúmerið 571-67906 og biðja þá að slá því upp á tölvunni - ég keypti þetta efni sjálfur hjá N1 í Keflavík og er á því að kröftugra ryðlosunarefni fái maður ekki á úðabrúsa. (Ég er búinn að prófa þetta efni á allan andskotann - því miður er það langt frá því að virka eins og framleiðandinn gefur í skyn).

Pústflækjur - gömul sannindi og ný
Enn berast fyrirpurnir um pústflækjur - nú eru einhverjir „stórsérfræðingar’’ farnir að reyna að selja eigendum dísiljeppa flækjur og treysta á það að úr því að þær geta aukið afl hjá bensínvél hljóti þær að gera það hjá dísilvél líka! En svo er einfaldlega ekki. Þar sem nánast ekkert sog er inntalsgrein dísilvélar er engin þörf á yfirlöppun með kabmás (þ.e. út og innventlar eru aldrei opnir samtímis á sama sílindra. Og af því minnst er á yfirlöppun má geta þess að það er ein af höfuðástæðum þess að hafa 2 kambása á hverju heddi í bensínvél - til að losna við yfirlöppun ventla).
En til að gera langt mál stutt þá er það löngu liðin tíð að frumbúnaður á borð við sog- og pústgrein er óvönduð málamiðlun í venjulegum fólksbílum - sá búnaður verður lítið endurbættur í skúrum núorðið: Flækjur og millihedd á eftirmarkaði bæta engu við afl venjulegra bíla lengur (ólöglegir hljóðkútar/frethólkar geta gert það) - það eru tölukubbar sem hafa komið í staðinn. En á gömlum vélum, t.d. vinsælum V8-vélum á borð við 5,7 lítra Chevrolet (350) og 5 lítra Ford (302) er þetta enn í fullu gildi. Sá misskilningur er útbreiddur að því víðara sem pústkerfið sé því meira verði afl vélarinnar. Það er rangt - á þessu eru ákveðin takmörk eins og öllu öðru. Gamla reglan er í fullu gildi að víðair flækjur en 2" geta skapað vandamál. Lengd flækjanna skiptir meira máli. Grannar langar flækjur auka afl á lægri snúningi (upptöku) en víðar stuttar auka afl á hærri snúningi. Framleiðendur flækja gefa eiginleika þeirra upp á vefsíðum sínum og mæla með ákveðinni útfærslu fyrir ákveðin not. Dæmi www.hookerheaders.com

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar