Brotajárn nr. 19
Spurningar og svör
Fyrirspurnir (leoemm@simnet.is) sem Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað og birst hefur í Mbl. Bílar á föstudögum (Ath. einnig í fleiri Brotajárnsköflum)

Ath. Sumar spurningar/svör eru ekki birt í Mbl. Bílar en hefur verið svarað með netpósti. Vegna takmarkaðs rýmis í Mbl. getur þurft að stytta pistlana en þeir birtast óstyttir hér. Þá getur efni veruð of langt, of tæknilegt eða of sérhæft og þess vegna látið næga að svara með netpósti.

(Ath. Nota má innbyggða leitarvél (Ctrl-F) til að finna lykilorð).

---------------------------------------------
Er hægt að aflita litaða dísilolíu?
Spurt: Hvar fær maður keypta steinolíu frá dælu - eða er hún öll komin í brúsa og á tvöföldu verði. EInnig vil ég spyrja þig hvort það sé rétt að lituð dísilolía verði eðlileg á litinn ef blandað er í hana slurki af rauðri tvígengis-smurolíu eða slurki af sjálfskiptiolíu?
Svar: Steinolía var síðast þegar ég vissi seld frá dælu á 70 kr. lítrinn á Esso (nú N1-stöðinni) uppi á Ártúnshöfða (hægra megin þegar farið er austur). Um hugsanlega aflitun dísilolíu veit ég ekkert - en bendi á að allt fikt við litinn á dísilolíu sem er notuð á venjulega bíla er lögbrot sem varðar sektum (og því birti ég þetta ekki í Mbl.): - Því prófarðu þetta ekki bara sjálfur?

(49)
Hver er eðlileg ending pústþjöppu?
Spurt: Mig langar að leggja fyrir þig 2 spurningar sem snerta dísiljeppann minn sem er að falla úr ábyrgð og hefur farið í allar þjónustuskoðanir. Er eðlilegt að forþjappa (túrbó) endist 81 þúsund km? Og er eðlilegt að þá sé bara sett ný þjappa - fer hún ekki bara aftur eftir svipaðan tíma?

Svar: Ég myndi giska á að í 95% tilfella eyðileggist pústþjappa vegna ónógrar smurningar burðarlegunnar sem er í henni miðri (á milli hverfils og blásara) Önnur tilvik, t.d. vegna aðskotahlutar sem lendir í hverflinum eru sjaldgæf - það þarf yfirleitt eitthvað að brotna í vél eða skemmdarverk til að slíkt gerist. Gallar eru einnig sjaldgæfir í túrbínum - þetta eru ekki flóknir hlutir. Ég hef reynt að vekja athygli á hve regluleg endurnýjun smurolíu og síu sé mikilvæg á dísilvél, ekki síst þegar um er að ræða túrbódísilvél. Mín reynsla er sú að það sé hagkvæmara að nota ódýra smurolíu og endunýja hana oftar heldur en dýrari olíu og sjaldnar. (Ég hef endurnýjað smurolíu á 11 ára gamla Opel Vectra 1,7 túrbodísil með ódýrustu fáanlegri olíu (Comma-olíu sem stenst API-staðalgæði fyrir dísilvélar), á 3500 km fresti. Vélin tifar eins og klukka eftir tæplega 340 þús. km akstur, hreyfir ekki smurolíu, ekkert lát á túrbínunni og eyðslan óbreytt, rúml. 6 lítrar!).
Svarið við fyrri spurningu þinni er því nei. Seinni spurningunni svara ég á eftirfarandi hátt: Enginn fagmaður myndi skipta um túrbínu eftir 81 þúsund km akstur án þess að leita orsaka bilunarinnar. Í þínu tilfelli ætti orsökin ekki að vera trassaskapur varðandi smurolíuskipti (þjónustueftirlitið) þótt útlit olíunnar gæti hafa átt að gefa tilefni til frekari athugana því líkleg ástæða þess að pústþjappan eyðileggst er bilun í dísilvélinni sem veldur ófullkomnum bruna og óeðlilegri sótmyndun sem safnast í smurolíuna. Bilunin gæti verið of lág þjappa eða misjöfn vegna leka með spíss, skemmds ventilsi, bilaðrar heddpakkningar o.s.frv. (Bilanaleit gæti hafa farið fram og einhverjar aðgerðir í kjölfar hennar og er sjálfsagt fyrir þig að spyrja um það - stundum þegar um ábyrgðarviðgerðir er að ræða er eigandinn ekki upplýstur um það sem gert er). Sótmettuð smurolía eyðileggur burðarlegu túrbínunnar þar til hjól hennar taka út í og brotna. Ábending: Þegar þungur vagn er dreginn upp bratta brekku (í myrkri má sjá að hluti túrbínunnar verður rauðglóandi) - skyldi ekki drepa á túrbódísilvél (eða bensíntúrbóvél eftir inngjafir) sé stöðvað, - án þess að láta vélina ganga lausagang í um hálfa mínútu áður til að smurolían nái að kæla legu túrbínunnar.

Honda CRV sem rykkir
Spurt: Er með Honda CRV árg. 2000. Ég verð var við högg í drifrásinni við niðurskipti þegar vélin er köld. Mest ber á þessu þegar hraði minnkar t.d. úr 60 -70 km. niður í um 30 km og gefið inn aftur. Þetta lagast mikið þegar vélin er orðin heit. Búið er að skipta um hjöruliðskrossa og upphengjan á drifskafti er í góðu standi. Gæti þetta tengst sjálfskiptingunni?

Svar: Sé búið að útiloka hjöruliði og ganga úr skugga um að kaldræsibúnaðurinn sé í lagi þannig að vélin gangi ekki of hratt á upphitunartíma, berast böndin óneitanlega að sjálfskiptingunni, sérstaklega sé þetta bíll sem er notaður til dráttar. Hafir þú ekki látið endurnýja vökvann á skiptingunni og síuna í henni myndi ég ráðleggja þér að láta gera það - sé sían í skiptingunni teppt eða vökvinn óhreinn getur það valdið stirðleika og höggum. Smurstöðin Klöpp o.fl. í Reykjavík og Skipting í Keflavík (sértu á því svæði) o.fl. kunna þetta verk og hafa sérstök tæki til að tæma skiptingar (vökvinn í pönnunni er einungis hluti af vökvanum). Breytist skiptingin ekkert við þetta er ekki um annað að ræða en að leita til sjálfskiptingarverkstæðis - því högg eyðileggja út frá sér og gera viðgerð því dýrari sem hún er dregin lengur.

Ábending: Í sumarferðum er hættara við að steinkast myndi örsmáa gíga í lakkyfirborði bíla. Bónun er besta aðferðin til varnar því að raki nái undir lakkið í gígunum. Bónun kemur þannig í veg fyrir ryðskemmdir, t.d. á húddi, brettaköntum og sílsum.

(48)
Innri hjöruliður í framhásingu
Spurt: Ég er með Ford Explorer árg. 1991. Ég þarf að skipta um hjörulið í framhásingunni. Í henni eru 3 hjöruliðir, þar af einn inn við drifkúluna og hann þarf ég að endurnýja. Hvernig er best að fara að því og hvað nefnist þessi gerð af tvískiptri framhásingu?.

Svar: Sértu með 3,8 lítra vél nefnist þessi liðhásing að framan Dana 28 IFS (Independent Front Suspension) en Dana 30 IFS ef þú ert með 4ra lítra vél. 30 er burðarmeiri hásing en 28 að öðru leyti eru þær eins byggðar. Það á að vera hægt að skipta um innri krossinn með sérstöku áhöldum án þess að losa hásinguna sundur en það er mjög erfitt verk. Í stað þess að baxa við það má leysa málið með því opna drifhúsið, losa keiluhjólaboltann í mismunardrifinu þannig að losa megi c-splittið af enda hægri öxulsins, taka svo hásinguna sundur um liðinn (og losa hægri stífuna) og losa báðar spindilkúlurnar og stýrisendann hægra megin. Með hægri hluta hásingarinnar lausann er auðvelt að skipta um innri hjöruliðinn. Ráðlegg þér að skipta um alla 3 hjöruliðina og pakkdósina í drifhúsinu fyrir hægri öxulinn um leið - þar byrjar oftast að leka.

Loftmagnsskynjari er dýrt stykki
Spurt: Minn Opel Vectra 2002 er með 2ja lítra vélinni, ekinn 120 þúsund. Hann fór að ganga illa og verkstæðið fann út að það myndi vera loftmagnsskynjarinn, lítið svart stykki sem er í barkanum milli lofthreinsarans og soggreinarinnar. Þetta er dýrt stykki og ég er að velta því fyrir mér hvers vegna það skemmist og hvort ekki sé hægt að gera við það. Hvað segir þú um það?

Svar: Algengasta orsök þess að loftmagnsskynjari bilar (sem ekki skyldi rugla saman við MAP-skynjara, sem er annað tæki), er oft trassaskapur; endurnýjun loftsíunnar er ekki sinnt og óhrein, jafnvel mettuð loftsía eyðileggur þennan skynjara. Loftsíu ætti að endurnýja árlega. Loftsíur sem eiga að auka vélarafl (með því að sía minna) geta einnig eyðilagt þennan skynjara séu þær ekki þrifnar reglulega. Þennan skynjara er ekki hægt að gera við. Hann ghefur mátt fá fyrir Opel og fleiri þýska bíla fyrir skaplegt verð á www.bifreid.is og hjá Vöku.

Örugg leið til að eyðileggja sjálfskiptingar?
Ábending: Margir hafa spurt hve lengi sé óhætt að nota vökva á sjálfskiptingu. Sá misskilningur virðist útbreiddur að sé hvorki kvarði né áfyllingarop á skiptingu þurfi aldrei að endurnýja vökvann. Það er rangt. Margir bílaframleiðendur, t.d. bandarískir (pallbílar) skrá fyrirmæli í handbækur um að ekki þurfi að endurnýja sjálfskiptivökva fyrr en eftir 190 þús. km. Ég veit ekki við hvers konar aðstæður eða notkun sjálfskipting þolir að hafa sama vökvann upp undir 200 þúsund km. - að mínu mati á það a.m.k. ekki við okkar aðstæður, notkun og veðurfar. Ég myndi telja að endurnýja ætti sjálfskiptivökva reglulega á 70 þús. km. fresti (en þá er hann yfirleitt orðinn dökkur og illa lyktandi) og tel að þá yrði minna um að skiptingar (t.d. í evrópskum bílum) bókstaflega hryndu með viðgerðarkostnaði upp á hálfa milljón og uppúr. Brögð munu vera að því að verkstæði og smurstöðvar endurnýi síuna og skipti einungis um þann vökva sem er í pönnu skiptingarinnar. Sú endurnýjun er næsta lítils virði því í pönnunni er yfirleitt ekki nema hluti af vökvanum, jafnvel ekki nema þriðjungur þess sem er á sjálfskiptingu. Það þarf sérstök áhöld til að endurnýja allan vökvann eins og vera ber. Ástæða þess að nýrri gerðir sjálfskiptinga eru án áfyllingar og án kvarða er að á þeim er sérstök tegund vökva sem þenst út við hitnun en með þeim vökva má hafa 6 lítra á skiptingu sem áður þurfti 9-11 lítra. Væri kvarði á skiptingunni myndi vökvinn þrýstast út með honum eftir að skiptingin hefur hitnað. Af þessum ástæðum er mikilvægt að fylgjast með því að sjálfskipting leki ekki - það þarf ekki mikinn leka til að skipting skemmist, sérstaklega sé verið að draga vagn, og dropar undir bíl eru því viðvörum.

(47)
Sjálfvirk endurræsing tölvu
Spurt: Fyrir nokkrum vikum setti ég nýjan geislaspilara í Opel Vectra. Þurfti þá að víxla leiðslum miðað það sem algengast er því ein leiðslan, sú sem missir straum þegar lykillinn er tekinn úr svissinum, er ekki á sama stað og í flestum bílum (ISO tengi). Ég gerði þetta og allt virkaði vel. Vikum seinna bregður svo við að ljósið lýsir áfram á útvarpinu þótt lykillinn sé tekinn úr. Einnig var ljós í klukkunni í mælaborðinu. Ég prófaði að aftengja jarðsambandið á rafgeyminum og tengja hann aftur og þá hrökk allt í lag á ný. Hver getur ástæðan verið?

Svar: Í flestum bílum fram að árgerð 2002 má endurræsa aðaltölvuna með því einu að aftengja jarðsamband rafgeymis í 30-60 sekúndur. Í sumum tegundum með ákveðna gerð þjófavarnarkerfis (t.d. Daewoo, Kia o.fl.) getur þurft að endurræsa tölvuna með sérstöku forritunartæki, t.d. ef rafgeymir hefur tæmst - en þá getur kveikjukerfið verið óvirkt þrátt fyrir nýjan geymi. Við skulum vona að ekkert alvarlegra en endurræsing hafi sér stað í þínu tilviki - komi þessi truflun ekki upp á ný.

"Hálfdauður'' Volvo
Spurt: Ég er með Volvo 440 árgerð '89. Hann fór að ganga svakalega illa; var að hoppa upp og niður um 500-600 snúninga þegar kúplað var frá og þá fylgdu sprengingar í pústinu. Bílinn dróst hikstandi áfram með herkjum í 1. gír. Og nú fer hann ekki í gang. Ég endurnýjaði kertin en það breytti engu. Hvað getur þetta verið?

Svar: Sprengingar benda til þess að vélin fái bensín en neistinn sé ekki í lagi (gæti þó verið ónýtur súrefnisskynjari sé þetta 440 KAT). Prófaðu fyrst hvort neisti kemur frá háspennukeflinu. Þá tekurðu háspennuþráðinn úr miðju kveikjulokinu og heldur honum við vélarfestingu eða hedd með eingangraðri töng og lætur einhvern starta fyrir þig. Sjáist enginn neisti er bilun í kveikjunni (kveikjulok, hamar, magnari, pikköpp), háspennukefli ónýtt eða keflisþráðurinn ónýtur. Sé neisti sjáanlegur frá keflisþræðinum í jörð skaltu prófa kertaþræðina með því að taka eitt kerti úr og festa því með krafttöng á leiðandi hlut á vélinni, tengja það kertaþræðinum, og starta. Sé enginn neisti sjáanlegur á milli skauta kertis eða áberandi daufur eru kertaþræðirnir ónýtir - það byrjar oft þannig að einn þeirra hættir að leiða, vélin fer að ganga skrykkjótt á þremur og sóta sigr og sprengir. Gangsetning verður erfið. Þú færð nýja Bosch-þræði á bensínstöðvum (passa t.d. úr Renault 19 með sömu 1700-vél).

Pajero dísill: Erfið gangsetning að morgni
Spurt: Ég hef augastað á árgerð ´98 af Pajero 2.5 tdi (styttri gerðin) eknum 213 þús. Bíllinn virkar allur mjög vel á mig nema að hann er erfiður í gang kaldur. Hann er víst búinn að standa mjög lengi á bílasölu. Þegar hann er orðinn heitur og drepið er á rýkur vélin í gang. Bendir þetta ekki til ónýtra glóðarkerta?

Svar: Glóðarkertin eyðaleggjast ekki við að bíllinn standi. Hins vegar nægir að eitt þeirra sé ónýtt og þá getur verið erfitt að gangsetja vélina kalda. Sérstakur rafeindabúnaður stjórnar forhituninni og kaldstartinu á olíuvverkinu og hann getur verið bilaður - oft er þessi búnaður skemmdur þegar verið er að starta bílum með köplum - jafnvel frá 24ra volta kerfum. Glóðarkerti er auðvelt að prófa með prófunarljósi og þau fást í N1 og Vélalandi. Erfið gangsetning dísilvélar getur líka stafað af of lágri þjöppun (leki meö spíssum). Pajero hefur reynst vel og eru mjög þægilegir ferðabílar. Sjálfstæð klafafjöðrunin að framan hefur fleiri kosti en galla.

(46)
Ónýtt mælaborð?
Spurt: Terrano II árgerð 2000 dísill og sjálfskiptur: Snúnings- og hraðamælar flökta fyrstu 3-4 mín. þegar kalt er úti. Einnig blikka tankljós og rúðusprautuljós. Síðan er eins og þetta endurstilli sig. Olíu og hitamælir hreyfast ekki fyrr en endurstillingin hefur átt sér stað.
Klukku og kílómetrateljara þarf að endurstilla á eftir. Sé bíllinn tekinn kaldur út úr skúr er allt með felldu en ekki ef hann stendur úti yfir nótt. Hvað getur þetta verið?

Svar: Þetta er framleiðslugalli í mælaborðunum í þessum bílum. Þeir sem voru svo "heppnir'' að bilunin kom fram á ábyrgðartímanum fengu ný og endurbætt mælaborð sett í hjá umboðinu. Frekar ósennilegt er að ný mælaborð séu fáanleg og því er reynandi að fá mælaborð á partasölu eða reyna að hreinsa tenglana aftan á mælaborðinu.
Þar sem enginn barki kemur í mælaborðið að aftanverðu er auðvelt að losa það úr og því tilraunarinnar virði að gera það og hreinsa og úða tengi með "Contact Spray'' sé tæring/spanskgræna sjáanleg. Ef heppnin er með hverfur draugagangurinn.

Gamall Ford með uppsteit
Spurt: Ég á í vandræðum með gangtruflun í 351 kúbika Ford V8-vél af ágerð 1980 - 1990 með rafeindakveikju. Hann fer í en gang en steindrepur á sér eftir u.þ.b. 10 mín og tekur ekki við sér fyrr en eftir u.þ.b. klukkutíma. Það kemur enginn eða mjög veikur neisti frá háspennukeflinu meðan á þessu stendur. Krafturinn að háspennukeflinu mælist 6V þegar svissað er á en 12V þegar startað er. Ég er búinn að reyna að skipta um háspennukefli, setja gamalt sem ég hef haft til vara, en vandamálið er það sama með báðum keflunum. Hvernig finnur maður út úr þessu?

Svar: Sameiginlegt með öllum rafeindakveikjukerfum (Duraspark og TFI) í Ford frá þessum tíma er að háspennukeflið fær kraftinn frá tölvunni (Ignition Module) og engin spenna inn á háspennukeflið á að mælast minna en 90% af pólspennu geymis. Í starti kemur 12V spenna um framhjátengingu frá segulrofanum í húddinu. Bilunin er að öllum líkindum í tölvunni (boxinu í húddinu) eða í neistaskammtaranum í kveikjunni. Við endurnýjun á tölvuboxinu þarf að gæta að því að liturinn á plastþéttingunni þar sem leiðslurnar koma út úr tölvunni sé sá sami því gerðirnar eru nokkrar og allar með mismunandi lit á þessu stykki.

Hvað um Hyundai Santa Fe?
Spurt: Ég er alveg við það að kaupa nýjan SantaFe á 4 m kr. og langar að vera alveg viss að ég sé að gera það rétta. Hefur þú prófað þessa bíla eða geturðu gefið mér ráð hvort að það sé skynsamlegt að kaupa hann?

Svar: Ég prófaði SantaFe fyrir fyrir röskum 2 árum (umsögnin er á vefsíðunni minni) og fannst hann vera skemmtilegasti jepplingurinn ásamt Mitsubishi Outlander af þeim 5 sem ég prófaði; - bílar með karakter sem gaman var að keyra. Mér er sagt að SantaFe hafi komið vel út í notkun hjá mörgum lögregluembættum - en í lögguakstri þykir dísilvélin ekki nógu öflug og Lögreglan því með bíla með V6-vél sem eyða talsvert miklu. Mig minnir að SantaFe hafi þá kostað rúmar 3 mkr. Nú er komin nýr SantaFe sem ég geri ráð fyrir að hafi verið endurbættur, sé t.d. þéttari, eins og aðrir Hyundai-bílar.Hyundai hefur lága bilanatíðni og þjónusta er boðin um land allt.

Spurt: Ég er búinn að vera í miklum vandræðum með Ford F350 með 7,3ja lítra PowerStroke-dísilvélinni. Hann hefur alla tíð frá því ég fékk hann verið erfiður í gang kaldur. Það sem verra er er að hann steindrepur á sér t.d. í lengri akstri og er þá steindauður - ekki nokkur leið að koma honum í gang fyrr en hann hefur kólnað alveg (t.d. degi seinna). Þetta er bgúið að skapa slík vandræði að ég ætla ekki að reyna að lýsa því. Margir eru búnir að fást við vélina - búið að skipta um nánast allt sem hægt er að skipta um utan á henni en allt kemur fyrir ekki hann er alltaf jafn erfiður í gang kaldur og drepur á sér þegar verst stendur á og er þá steindauður. Og ekki hefur vantað skýringarnar þegar endurnýjun dýrra stuykkja og mikill viðgerðarkostnaður hefur engum árangri skilað. Ég er að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera því varla fer maður að rífa bílinn og ekki er hægt að selja hann með þennan galla. Hvað segir þú?

Svar: Af tæknilegum ástæðum er flóknara að mæla þjöppu dísilvéla en bensínvéla. Þess vegna yfirsést jafnvel færustu mönnum að tjékka á þjöppuninni - en hún hefur miklu meiri þýðingu í dísilvél en í bensínvél. Þegar dísilvél hagar sér svona eins og þú lýsir, sérstaklega þegar hún er erfið í gangsetningu í kulda þótt forhitun sé í lagi, er það bein ábending um að kanna þjöppuna. Þjöppu á að mæla í gegn um gat fyrir glóðarkerti (sé það ekki gert með álagsmælingu startata í tölvu) en ekki sgat fyrir spíss því það er oft sem þjappan er of lág vegna leka með spíssum. Mig grunar að í þessu tilviki sé sprunga í blokkinni eða í heddi (eða báðum) sem geri það að verkum að þjappan fellur þegar sprungan gliðnar vegna varmaþenslu, þ.e. ég tel að vélin sé einfaldlega ónýt.
Og af þessu og fleiri tilefnum segi ég að þrátt fyrir stöðug loforð og miklar yfirlýsingar Ford og Navistar (International) um endurbætur á 7,3 og 6 lítra PowerStroke-vélunum hafa þær reynst lítið annað en orðin tóm. Þessar vélar eru bilanagjarnari en góðu hófi gegnir, jafnvel svo að það eru stöðug vandræði með marga Ford-pallbíla frá fyrsta degi á meðan GM dísillinn, 6,5, frá og með 1999, er til friðs og 6,6 DuraMax einnig eftir að spíssavandamálið var leyst 2005. Dodge-bílarnir með Cummins-dísilvélunum hafa verið lausir við hvers konar síbilanir og staðið sig með prýði. Prívat og persónulega myndi ég ekki velja Ford dísilpallbíl ef ég stæði frammi fyrir slíku vali (þ.e. ætlaði að endurnýja minn gamla Ford Ranger með bensínvélinni sem aldrei slær feilpúst) - GM-pallbíllinn finnst mér þægilegastur og eigulegastur - og þótt stýrisgangur og framvagn sé ekki eins sterkur og í Dodge og Ford - þá eru það aldrei nema smápeningar í viðhaldi miðað við meiriháttar vélaviðgerðir eins og í Ford dísil.

45
Erfiður Primera dísill
Spurt: Ég er búinn að eiga lengi í vandræðum með 7 ára gamlan Nissan Primera dísil (ekinn 170 þús.) sem tók upp á því fyrir ári að ganga óreglulega og síðan smám saman varð alltaf erfiðari og erfiðari í gangsetningu - nú síðast þurfti að draga hann í gang. Ég er búinn að fara með hann á verkstæði margoft. Búið er að skipta um glóðarkertin, búið að ganga úr skugga um að forhitun og kaldstart virki eðlilega en allt kemur fyrir ekki og alltaf eykst kostnaðurinn. Nú síðast var mér sagt að spíssarnir væru líklega ónýtir en þeir (4 stk. ) kosta svipað og ég myndi fá fyrir bílinn í lagi. Bílnum hef ég því lagt. Getur þú gefið mér einhver ráð?
Svar: Það vill til að hjálparbúnaður dísilvélar er einfaldari (t.d. færri skynjarar) en bensínvélar. Yfirleitt er það reglan á verkstæði þegar um er að ræða dísilvél, sem ekki næst að gangsetja á eðlilegan hátt, að útiloka 4 þætti: Sá fyrsti er að eldsneyti berist til spíssanna, annar að forhitunin sé virk, þriðji að kaldstartið á olíuverkinu virki og sá fjórði er þjappan (það vill gleymast að það þarf ákveðna þjöppun til að dísilvél fari í gang). Séu þessir 4 þættir í lagi fer dísilvél oftast í gang jafnvel þótt spíssar séu lélegir. Hjá þér er greinilega búið að útiloka 3 fyrstu þættina en þjappan hefur líklega ekki verið mæld um leið og glóðarkertin voru tekin úr og því tel ég næstum öruggt að of lág þjappa valdi þessu vandamáli (þjöppunin á að vera 22,2 : 1). Nokkuð algeng orsök eru ónýtar þéttingar undir spíssum (blæs upp með spíssunum) og með höppum og glöppum að það sjáist eða heyrist. En takist að gangsetja vél má heyra uppblástur með hlustunarpípu. Byrjaðu á að endurnýja þessa þéttihringi undir spíssunum. Þeir kosta ekki mikið (þú færð þá í Vélalandi) og sjáðu hvað gerist.

Hraðastillir bilaður
Spurt: Bíllinn minn er 1997 árgerð af GMC 1500 með 6,5 lítra dísilvél með þessari nýju gerð af innsprautun (Common rail). Ég er búinn að lenda í ýmsu, aðallega bilunum og sliti í stýrisgangi. En allt í einu er "krúskontrólið'' hætt að virka. Hvað getur valdið því? Mér var sagt að bilunin gæti verið vegna sogleka - hvernig myndi maður laga það?
Svar: 6,5 lítra GM-dísilvélin er ekki með forðagrein (Common rail) heldur venjulegt olíuverk (Stanadyne SD4) en með tölvustýrðri inngjöf. Sérstök rafeindastýrieining, sem ýmist nefnist PMD (Pump Mounted Driver) eða PDM (Power Driver Module) stýrir magni inngjafar. Þessi eining hefur bilað í mörgum bílum með þessa vél eða þar til kerfið var verulega endurbætt frá og með árgerð 1999. Algengast er að bilunin lýsi sér þannig að vélin drepur á sér í tíma og ótíma og fæst ekki í gang fyrr en hún hefur kólnað. Þau eru ekki mörg tilfellin sem byrja með því að hraðastillirinn hættir að virka - en þessi eining stjórnar honum og bilunin hefur því ekkert að gera með sogleka. Ástæðan fyrir því að PMD-einingin, sem inniheldur m.a. 2 smára, bilar er ofhitnun. Hægt er að leysa þetta vandamál með sérstökum búnaði og er endurbótunum lýst í grein um GM 6.5 dísilvélina á www.leoemm.com (Tæknimál).

Ábending
Framundan eru lengri ferðir sumarsins út á land og jafnvel ekið á misjöfnum malarvegum. Dekk geta sprungið. Þá uppgötva sumir að þeir geta ekki losað felguboltana með þeim verkfærum sem fylgja bílnum enda hertir með loftlyklum á dekkjaverkstæði. Og takist það getur komið upp sú neyðarlega staða að ekki sé nokkur leið að losa varahjólið, sem er í grind aftast undir bílnum, eða að varahjólið í skottinu reynist loftlaust. Á bensínstöðvum fást útdraganlegir felgulyklar sem eru nægilega öflugir. Það er því fyrirhafnarinnar virði að prófa hvort hægt sé að losa varahjólið og mæla í því loftþrýstinginn - áður en haldið er í fyrstu ferðina.

Almennur fróðleikur:
„Gott er heilum vagni heim að aka’’. Við heyrum ýmsa taka sér þetta orðtak í munn, ekki síst þegar rætt er um umferðaröryggi. Færri vita hvaðan þetta er komið: Í Eglu segir að Skallagrímur Kveldúlfsson á Borg hafi sagt þetta við Þórólf son sinn, þegar sá ætlaði utan; latti hann með þeim orðum að gott væri heilum vagni heim að aka .....

(44)
Elantra sem brennir smurolíu
Spurt: Ég á Hyundai Elantra árgerð 2000 keyrða um 95 þ.km. Fyrir um 7 mánuðum fór ég að heyra mikið skrölt í vélinni og kom þá í ljós að lítil smurolía var á henni. Ég hef síðan þá fylgst vel með olíunni og ég þarf að bæta á hann um 1 -2 lítrum á mánuði. Bílinn lekur ekki heldur virðist hann brenna olíunni. Veistu afhverju þetta stafar? Hvað er til ráða ? Er hægt að laga þetta?

Svar: Algeng orsök smurolíubrennslu er að gúmþéttingar (hettur) á ventilstýringum eru ónýtar og smurolía kemst niður með ventlum inn í brunahólfin. Það er ekki neitt meiriháttar mál að endurnýja þessar hettur en það er samt nokkurra klst. verk. Hræddur er ég um að skröltið í vélinni hafi verið vegna þess að legur hafa bráðnað á sveifarási vegna olíuleysis og jafnvel stimpilhringir skemmst vegna yfirhitnunar af sömu ástæðum. Þú getur athugað ástandið með því að taka olíuáfyllingarlokið af vélinni heitri í lausagangi - ef þú finnur greinilega loftstrók upp úr áfyllingaropinu er vélin slitin og óþétt. Þú getur prófað að nota þykkari smurolíu, t.d. 15W-40 (Comma Motorway Mineral Mixed Fleet 15W-40) er ódýr olía sem þú færð í Bílanausti í 5 lítra brúsum eða á smurstöðvum. Því hærri sem fyrsta talan er því þykkari er smurolían, t.d. er 15W-40 þykkari en 10W-40 eða 5W-40. Til er seig sýrópskennd kvoða frá STP sem hellt er saman við smurolíu og á að minnka brennslu í slitnum vélum. Til þess að hún komi að einhverju gagni þarf að hita dósina þannig að kvoðan renni vel og hella henni hægt saman við olíuna á vélinni með vélina í lausagangi.

Enn um KN-loftsíur
Spurt: Mig langar að heyra þitt álit á K&N loftsíu. Málið er að ég er með Hondu Shadow 750 Aero 2006 (hippa), er búinn að opna pústið en er líka að spá í að setja stærri nál í blöndunginn og K&N loftsíu. Hef heyrt gott og slæmt um þær annars vegar aukinn kraft, minni bensín eyðslu og hins vegar meiri hættu á rykflæði inn í vélina. Hvað segir þú?
Svar: Ég hef fengið margar fyrirspurnir um KN-síur. Þú getur skoðað svörin á www.leoemm.com (Brotajárn nr. 17-19). Ég get bætt því við að ég hef átt Honda XBR 500, 750 Shadow og VT1100 C Shadow og mundi ekki þora að nota annað en þær síur sem Honda mælir með á þessar vélar því kambáslegurnar eru mjög viðkvæmar gagnvart óhreinindum sem geta komist í smurolíuna í gegn um loftsíuna og varahlutir dýrir.

Óregla á Freelander
Spurt: Ég á Freelander árg. 1998. Hann hefur nýlega tekið upp á því að rjúka af og til upp í snúningi og haldast í 1500-2000 snúningum ásamt því að snúningsnálin sveiflast upp og niður og svo dettur hann allt í einu í eðlilegan gang svona 800 snúninga. Dettur þér í hug hvað geti verið að?
Svar: Það er oftast eitt af 5 atriðum sem veldur þessu í bensínvél: Bilun eða sambandsleysi í hitanema sem stjórnar kaldstarti og snúningshraða á upphitunartíma. Bilun í inngjafarstöðunema (jafrnvel óhreinindi í inngjafarkverk eða á inngjafarspjaldi). Bilun í eða sambandsleysi súrefnisskynjara (finnst m.a. á aukinni eyðslu). Bilun í MAP-sensor (loftmagnsskynjara) - sé hann til staðar. Sogleki - einhver slanga frá soggrein lek. Raki í bensíni getur einnig valdið svona sveiflum í lausagangi (byrjaðu að útiloka það með smáslurk af ísvara fyrir bensínvél). Öruggast er að láta kóðalesa kerfið - það sparar bæði tíma og peninga.

(43)
Öryggisrofi fyrir startara
Spurt: Ég á SsangYong Korando sem er beinskiptur og ekki hægt að starta nema staðið sé á kúplingunni. Nú á hann það til að neita að starta og þarf margar tilraunir áður en startarin tekur við sér og vélin fer í gang. Er ekki hægt að aftengja þennan rofa á pedalanum eða tengja framhjá honum?

Svar: Rofinn í kúplingspedalanum er einfaldur búnaður, öryggisbúnaður sem ekki er leyfilegt né skynsamlegt að aftengja. Miklu meiri líkur eru á að uppslitin kol í startaranum valdi þessu. Ekki er óhætt að dangla í þennan startara því í honum eru síseglar sem geta eyðilagst við það. Þú færð kolin í umboðinu og lítið mál að skipta um þau - yfirleitt er allt annað heilt í startaranum og þarf einungis að þrífa og hann og smyrja. Til að útiloka að jarðsambandsleysi geti verið á milli vélar/startara og rafgeymis skaltu prófa að setja startkapal á mínuspólinn geymisins og festa hinum endanum kapalsins í alternatorfestinguna.

Loftkælingarviðgerð/áfylling
Spurt: Getur þú bent mér á einhvern stað þar sem gert er við og fyllt á loftkælingar
í bílum (AC)? Ég á hálffertugan Cadillac með kerfi sem lekur smávegis. Hvar fær maður gert við svona kerfi og fyllt á það (þetta er freon-kerfi)?

Svar: Á meðal þeirra sem kann á þessi kerfi, gerir við þau og hefur græjurnar (og tæki til að finna lekann) og endurfylla með kælimiðli heitir Gísli Wium og er á Hrannargötu 2 í Keflavík. Sími 421 2598 og 893 4502 og netfang gkwium@simnet,is.
Þú skalt mæla þér mót við hann á ákveðnum tíma. Ég er sjálfur með bíl sem þarf að fylla á kerfið og er búinn að fara 3 fýluferðir á verkstæðið til Gísla sem hefur verið fjarverandi í einhverju snatti í öll skiptin. Því mæli ég með að þú hafir samband við hann áður en þú ferð á staðinn.

Volvo 240 - breyting
Spurt: Ég skipti um blöndung á 3ja gíra sjálfskiptum Volvo 244 úr Zenith í Pierburg DVG. Við það breyttist skiptingin; nú skiptir bíllinn sér á miklu hærri snúningi (fer allt að 80 km/klst. í 2. gír áður en hann skiptir sér í 3ja). Blöndungurinn virkar vel, fékk skoðun, en engin tengsl (leiðslur) voru milli skiptingar og blöndungs. Ég vildi gjarnan geta notað 3ja gírinn örlítið innanbæjar. Hvað er til ráða?

Svar: Þótt ekki séu rafleiðslur á milli blöndungs og skiptingar á bæði Zenith (Solex) og Pierburg-blöndungunum í þessum bílum er svokallaður "kick-down" barki (sem skiptir niður þegar stigið er í botn). Þessi barki þarf að vera rétt stilltur til að skiptingin virki eðlilega, sé hann t.d. of strekktur fer hún ekki í 3. gírinn. Ástæða breytingarinnar á skiptipunktunum er að inngjafargafflarnir og barkinn er ekki sá sami á þessum tveimur blöndungum. Lausnin á málinu er sú að fá barkann sem áður var með Pierburg-blöndungnum og setja hann í stað barkans sem er í bílnum.

"Steering Lock Malfunction''
Spurt: Saab 93 með kubb fyrir svisslykil er með ruglað tölvukerfi, bilanakóðinn er Steering Lock Malfunction og umboðið hefur ekki getað fundið bilunina. Er einhver sem gerir við svona tölvubúnað hérlendis?
Svar: Ég veit ekki um aðra viðgerðarþjónustu en hjá Varahlutalagernum ehf. (Gunnar s. 587 0240) sem hefur sent svona tölvur út til Bretlands og fengið þær lagfærðar og endurforritaðar án mikils kostnaðar. Til að girða fyrir misskilning þá er þessi ákveðni Saab 93 fluttur inn frá Bandaríkjunum og er ekki með stýrislás fyrir venjulegan lykil heldur er bíllinn gangsettur með tölvukubb eða plötu. Þeir sem eiga Saab með stýrislás og venjulegum lykli geta fengið þessa bilanatilkynningu og er þá ástæðan oftast sú að stýrið hefur heft lásinn með álagi. Í eigendahandbókinni er þetta fjallað sérstaklega um þetta vandamál í Saab 93 með venjulegum stýrislás.


(42)
Vélarljós, kælivökvi og sjálfskipting

Spurt: Ég er á nýlegum Chevrolet Silverado 2500 með 6,6 lítra dísilvél. Í vatnsaganum undanfarið hefur vélarljósið kviknað og lýst mismunandi lengi nokkrum sinnum. Er það alvarlegt mál? Ég hef verið að spyrja "sérfræðinga'' hvort ekki þurfi að endurnýja kælivökvann á dísilvélinni en hefur verið sagt að það þurfi ekki sé hann upprunalegur. Er það rétt? Svo vantar mig upplýsingar um hvernig eigi að mæla vökvann á sjálfskiptingunni en hún er með kvarða. Það fylgdi engin handbók bílnum og því leita ég eftir þinni aðstoð.

Svar: Af vélarljósinu þarftu ekki að hafa áhyggjur svo lengi sem það slokknar. Vélarljósið getur kviknað vegna þess að hlutir í rafkerfi bílsins blotna vegna gusugangs; vegna þess að lítið eldsneyti er eftir á geyminum, vegna þess að sett er eldsneyti á geyminn með vélina í gangi eða lok áfyllingarinnar laust. Sé upprunalegur kælivökvi á vélinni (DEX-COOL) á að endurnýja hann eftir 240 þús. km. akstur eða 5 ár og þá með því að skola kerfið út. Rauður Comma kælivökvi hefur samsvarandi tæringarvörn (5 ár). Ég mæli með því að endurnýja kælivökvann oftar t.d. á 4ra ára fresti. Vökva á sjálfskiptingu og utanáliggjandi síu á að endurnýja eftir og með 80 þús. km. millibili sé bíllinn ekki í þungri notkun. Hafi bíllinn staðið lengi og merki um leka á að mæla vökvastöðuna áður en vélin er gangsett. Sé vökvastaðan neðan við neðri merki "kalda bilsins'' á kvarðanum þarf að bæta á hana (DEXRON VI) þar til kvarðinn sýnir vökvastöðu á "kalda bilinu'' . Þá er vélin gangsett og bílnum ekið þar til vélin hefur náð eðlilegum hita, en þá hækkar vökvastaðan. Eftir að bíllinn hefur staðið i um 1 mín. með vélina í lausagangi, skiptinguna í P og í stöðubremsu, er stigið á bremsuna og sett í D, N og R og svo aftur í P og vökvastaðan mæld a.m.k. tvisvar með vélina í lausagangi. Vökvastaðan á að vera á miðju "heita bilinu''. Nái hún því ekki skal bætt á hóflega þar til hún er á miðju bilinu (til glöggvunar jafngildir allt "heita bilið'' 1 lítra). Hálfum lítra of mikið er jafn slæmt og hálfum lítra of lítið.

Skrykkjóttur gangur í Mazda 626
Spurt: Ég á mazda 626 árgerð 1998 2L 135 hestöfl sjálfskiptur. þannig er mál með vexti að hann virðist ganga of hægan hægagang og á það til að drepa á sér í lausagangi þó það sé reyndar sjaldgæft en gerist það þá fer hann auðveldlega í gang aftur en gengur mjög hægt og svolítið skrykkjótt lausaganginn. Ég finn ekki fyrir neinu í akstri hins vegar þar virkar vélin eins og hún á að gera nema að mér finnst hann eyða örlítið meiru en hann átti að sér að gera en ég hef kennt vetrinum um það en hins vegar hefur verið frekar hlýtt síðustu daga og eyðslan er enn um 8,7 l /100 í blönduðum akstri í stað um 7,5-8 sem ég hef verið að ná í haust. Ég keyri hann til og frá vinnu sem eru 45km hvor leið þar af um 7 km í innanbæjar akstri en afgangurinn á milli 90-100 km/h á "cruize control'' með 3 farþega.

Svar: Þar sem vélarljósið lýsir greinilega ekki stöðugt myndi maður kanna hvort einhver sogslanga geti verið laus á vélinni eða lek - oft fylgir því óeðlilegt soghljóð þegar húddið er opnað. Væri þetta vegna skynjara myndi vélarljósið hafa kviknað. Sé sogleki ekki greinanlegur skaltu byrja á að útiloka rakamettun í bensíninu með því að hella slurki af ísóprópanóli út í fullan geymi. Hverfi gangtruflunin ekki við það mun bilanagreining (með kóðalestri) að öllum líkindum leiða í ljós hver bilunin sé - þótt hún kosti talsvert þá getur hún jafnframt sparað talsverða peninga, óþarfa varahlutakaup og fyrirhöfn.

Pontiac V8 403
Spurt: Ég sá auglýstan Pontiac Trans Am 1979 á e-bay með V8 403-vél. Er þetta sama 403-vélin og Buick o.fl. GM-deildir notuðu á árunum fram undir 1980? Eins langar mig að vita hvort 400-vélin í GTO og Firebird er sama 400-vélin og Chevrolet og GMC voru með í Blaser og GMC-Pickup fyrir 1980?
Svar: 403-vélin í TransAm 1979 er ekki frá Buick heldur upphaflega frá Oldsmobile. Hún var einungis notuð í Oldsmobile Toronado og svo í þessari einu árgerð af Pontiac TransAm, misminni mig ekki. Pontiac hannaði og framleiddi sína eigin 400-vél og hún þótti vel heppnuð. 400-vélin sem var t.d. í GMC-pick-up 1978 var allt annað tóbak - afbrigði af Chevrolet 350 sem gat, að vísu, státað af hárri hestaflatölu. Þau hestöfl voru hins vegar sýnd veiði en ekki gefin því 400-vélin í GMC var með gallað kælikerfi og mishitnaði. Á því var reyndar fundin lausn um síðir en mér finnst ótrúlegt að nokkur hafi áhuga á þeirri vél núorðið. Allar þessar vélar 403 Buick, 403 Pontiac, 400 Pontiac og 400 GMC voru smærriblokkar-vélar. (455 er hins vegar stærri blokkar-vél).

DuraMax-vandamál
Spurt: Ég keypti í sumar sem leið GMC 2500 HD árg. 2003 með Duramax 6.6 l vél. Bílnum hefur nú verið ekið 78000 km og hef ég lent í vandræðum með að hann startar ekki þegar vélin er volg. Þetta lýsir sér þannig að startarinn snýr vélinni en hún fær ekki neista/olíu og tekur ekki við sér. Hef nokkrum sinnum nær tæmt geyma vegna þessa. Hlaði ég geymana aftur fer bíllinn í gang aftur eins og ekkert hafi í skorist, enda vélin þá orðin köld aftur. Stundum hefur hann verið þungur í gang undanfarið en stundum ekki þó að vélin sé köld.
Leitaði álits mér fróðari manna sem telja að það geti lekið með spíss einum eða fleirum. Mín spurning er ; er þetta algengt eða þekkt með þessar annars ágætu vélar ?? Er þetta ekki nokkuð snemmt (78000 km akstur) ? Ef svo er þá fer nú mesti glansinn af þessum vélum. Er einhver leið fyrir leikmann að finna út úr þessu eða er þetta einungis á verksviði kunnáttumanna um mótorstillingar? Gæti þetta verið hitaskynjari sem hefur bilað ? Ég er nýbúinn að setja Webasto miðstöð í bílinn en hef ekki notað hana þar sem bíllinn fór ekki í gang í fyrsta skiptið sem ég notaði hana. Ég spurði verkstæðismenn sem settu niðstöðina í bílinn en þeir töldu ekki að Webasto miðstöðin hefði neitt átt þátt í þessu, enda hafði þetta komið fram áður en hún var sett í bílinn.

Svar: Spíssar hafa bilað í þessum vélum og þess eru dæmi að þeir hafi dottið í sundur og valdið miklum og dýrum skemmdum á vélinni og þéttingar hafa bilað (þennan galla á að vera búið að laga). Auðvelt er að finna hvort blæs út með spíss með því að hlusta þá. Af lýsingunni að dæma gæti þetta einnig verið sambandsleysi eða bilun í forhitunarbúnaði. Ráðlegg þér að láta kóðalesa kerfið. Þeir sem hafa tæki til þess og kunna á þessar vélar eru IB á Selfossi, Vélaland í Rvk. og Framtak í Hafnarfirði, jafnvel Mótorstilling í Garðabæ. Til öryggis myndi ég segja þeim frá Weasto-ísetningunni - því það er aldrei að vita í gegn um hvað þeir bora þessir náungar sem fást við þá hluti - að maður tali nú ekki um suma ,,sérfræðingana" sem taka að sér að setja hljómkerfi í bíla og bora í hvað sem er!

Ford 302 ventlabank
Spurt: Ég er að vadræðast með breyttan Bronco II með V8 302 vél. Hún gengur fínt að öðru leyti en því að þegar hún hefur náð hita heyrist undirlyftubank í lausagangi. Undirlyfturnar eru tæplega ársgamlar en þetta ventlabank hefur verið síðustu mánuði. Ég prófaði að setja þykkari olíu á vélina en það breyttist ekkert við það - um leið og vélin hefur náð vinnsluhita heyrist þetta ventlabank. Olíuþrýstingur er á miðjan mæli í akstri en fer niður í 10-15 psi í lausagangi. Getur það verið ástæðan?

Svar: Fáðu þér hljóðleiðninema - það eru ódýr tæki sem fást í bílabúðum og eru með plastslöngu á spöng sem maður setur í eyrun og sprota úr sérstakri málmtegund á hinum endanum. Með því að stinga sprotanum á hina ýmsu staði á vélinni í gangi má finna hvar í vél hljóð myndast. Reynsist ventlabankið vera á fremstu sílindrunum vinstra og hægra megin er ástæðan of lágur olíuþrýstingur vegna slits í fremstu kambáslegunni - undirlyfturnar ná ekki að fylla sig þegar olíuþrýstingurinn er lægstur vegna þrýstingsfalls fremst í smurrásinni. Þetta er þekkt vandamál í þessum Ford-vélum. Eina lausnin á því er að endurnýja kambáslegurnar (jafnvel kambásinn um leið) og þýðir meiriháttar aðgerð, þ.e. vélina verður að taka úr bílnum.

Bremsuvegalengd er afstæð
Spurt: Ég hef orðið var við að fólk misskilur lögmálin um mismunandi bremsuvegalengd bíla eftir því hve þungir þeir eru, sem dæmi heyrist æ oftar að jeppi sem er 2 tonn þurfi helmingi lengri bremsuvegalengd en fólksbíll sem er 1 tonn, en það gleymist að helmingi þyngri bíll ýtir dekkjunum helmingi fastar ofan í götuna og jafnast þar með út og stoppa á sömu vegalengd m.v. sama hraða að sjálfsögðu. Ég hef bent mönnum á að ítæknilýsingu sumra bíla, t.d. hjá Grand Cherokee SRT, sem er með Brembo-bremsur, er styttri bremsuvegalengd en hjá mörgum mun léttari bílum. Er til formúla yfir þetta og gildir sama um bíla sem aka á svelli (glæru), hvað myndi 50 tonna trukkur þurfa lengri bremsuvegalengd en 2 tonna jeppi við þau skilyrði?

Svar: Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir að undanförnu um þetta efni og virðist gæta sama misskilnings í þeim öllum eða ónógrar þekkingar á eðlisfræði: Ein af formúlum Newtons segir að beita þurfi ákveðnum krafti í ákveðinn tíma til að stöðva hlut á hreyfingu og sú vinna þurfi að upphefja massatregðuvægi hlutar (hreyfiafl hlutarins í kWh. Vandinn við svona samanburð er afstæðið; annað hvort verður að mæla bremsuvegalengd bíla hvers fyrir sig á braut eða á rúllum og bera þá saman nákvæmlega eins bíla á mismunadi forsendum, t.d. annan með ABS en hinn án ABS, eða sams konar bíl á mismunandi dekkjum. Bíll af ákveðinni þyngd hefur ákveðna massatregðu og ákveðið massatregðuvægi á ákveðnum hraða. Til þess að stöðva bílinn á ákveðinni vegalengd þarf viðnám á milli dekkja og undirlags að mynda ákveðinn mótkraft (viðspyrnu) til að yfirvinna massatregðuvægið þegar bremsum er beitt til fulls. Á þeim tíma sem tekur að stöðva bílinn fer hann ákveðna vegalengd samkvæmt formúlunni S = V x T. Það veltur á sjálfum bremsubúnaðinum , þ.e. hve mikla viðspyrnu dekkin geta veitt (t.d. eftir stærð diska, varmaþoli þeirra og klossanna, læsivörn o.fl.). Það þarf augljóslega öflugri bremsubúnað til að stöðva 2ja tonna bíl á 100 km hraða á 40 m vegalengd heldur en bíl sem vegur 1 tonn við sömu aðstæður. Ég held að það sem rugli menn í rýminu sé afstæðið - bremsuvegalengdin er háð ýmsum breytum og ytri aðstæðum. Dæmi: Fúskari, sem því miður færst við að breyta jeppum, átti í vandræðum með að koma 15" álfelgum fyrir á jeppa sem átti að vera með 16 eða 17" felgur. Í stað þess að skipta um felgur breytti hann festingarbúnaði bremsudælanna og renndi af diskunum þannig að dælurnar rúmuðust innan í 15" felgunum. Svo fannst honum það smámunasemi að skoðunarmaður hjá skoðunarstöð gerði athugasemd við bremsurnar (of lítill bremsukraftur = of löng bremsuvegalengd) en þá hafði hann ekið bílnum í rúmt ár. Ég hef fengið alls konar spurningar vegna þess að menn eru að pæla, eins og gengur, í mismunandi stöðvunarvegalengd, en gera sér oft ekki grein fyrir því að formúlan gildir fyrir hvern bíl og búnað fyrir sig (samanburður á Porsche Carrera GT með 300 km hámarkshraða og Fiat Stilo sem kemst í 170 km/klst myndi ekki gefa neina raunhæfa viðmiðun á bílunum nema báðir stöðvuðu á sömu vegalengd á hámarkshraða, sem ég veit ekkert um og efast reyndar um að þeir geri). Bremsubúnaður og eiginleikar bílanna eru eftir sem áður gjörólíkir. (T.d. er talið að hámarksbremsukraftur Porsche 911 Carrera samsvari um 1500 hestöflum þegar hann er stöðvaður á systu mögulegu vegalengd). Hvað varðar 50 tonna trukkinn mætti hugsanlega stöðva hann á sömu eða styttri vegalengd á sama hraða á sama undirlagi og 2ja tonna jeppa, t.d. ef trukkurinn væri á gaddadekkjum en jeppinn á sumardekkjum (afstæðið enn og aftur). Á svelli gildir einnig lögmál Newtons um bíl: Bíll heldur beinni stefnu á hálu yfirborði svo lengi sem hjólin vísa beint áfram (í sömu stefnu) og snúast öll jafn hratt og engir utanaðkomandi kraftar (vindur o.fl.) verka á bílinn. Það sem ræður bremsuvegalengdinni, ef við gæfum okkur að tveir sams konar bílar eigi í hlut, er viðnámið á milli dekkjanna og undirlagsins þegar bremsunum er beitt á áhrifaríkasta hátt og það viðnám fer eftir gerð undirlags, munstri dekkjanna, læsivörninni o.fl. Dæmið um bílinn á sléttslitnu dekkjunum í hálku miðað við sama bíl á nýjum nagladekjum skýrir málið enn betur með afstæðið.

Enn um dráttargetu mismunandi bíla
Spurt: Ég er með gamlan Cherokee, V8 5,2 lítra frá 1993, keyrður 260.000 km, sagður í skoðunarvottorði með 3,5 tonna dráttargetu. Með honum dreg ég 2,2 tonn án þess að finna fyrir því. Þegar ég fer upp Kamba með 2,2 tonn (vagn + 3 hesta) í drætti, fer olíuhitinn í mesta brattanum upp úr 90 í 110 gráður (rauða strikið byrjar við 125 gráður), en jafnar sig strax, þegar upp er komið. Mér finnst óþægilegt að horfa á mælinn. Með 2,5 tonn (vagn + 4 hesta) í drætti, sem er fínt á sléttu, hef ég freistast til að fara Þrengsli (minni bratti). Er þetta eðlileg varúð eða óþarfi? Mig langar til að fara með 2,8 tonn í drætti (vagn + 5 hesta) norður í sumar. Er það of mikið fyrir svona bíl, Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Öxnadalsheiði, Víkurskarð? Jafnar bíllinn sig milli fjallvega eða er þetta misþyrming á honum? KIA er nýr bíll, gefinn upp með 2,8 tonna dráttargetu, fæst á góðu verði. Dregur hann meira en 14 ára Cherokee með 3,5 tonna getu?

Svar: Ég myndi ekki hafa miklar áhyggjur af því þótt smurolíuhitinn hækki úr 32°C (90F) í 43°C (110F) sé rauða strikið við 52°C (125F). Þú getur aukið öryggi þitt verulega með því einu að endurnýja smurolíuna á þetta mikið notaðri vél á 5000 km fresti og nota ódýrari olíu t.d. Comma Motorway 15W-40 frá Bílanausti og fara bara upp brekkurnar hægar í lága drifinu - þá hreyfist ekki mælirinn. Þessi Cherokee er ólíkt meiri jaxl en þessir nýrri jeppar - en 13 árin segja líka til sín (eyðslan t.d.) - undirvagninn getur verið farinn að láta á sjá (tærð fjaðrahengsli að aftan, slit í fjarðrafóðringum og annað eins og gengur (ég þekki þetta af mínum 14 ára Ford Ranger sem ég hef þurft að vera að endurnýja margt í að undanförnu). Kia Sorrento er með lágt drif, hann er rúmgóður, sparneytinn, dísilvélin er ekki eitthvað drasl þróað af Fiat, gæði á frágangi og öðru eru miklu betri en voru á Kia fyrir 10 árum, verðið er hagstætt, dráttargeta dísilbílsins og V6-bensínbílsins er 2800 kg og umboðið komið í hendurnar á fagmönnum (Heklu) frá því að hafa verið í höndum alls konar landhlaupara. Og ekki sakar að þetta er bráðfallegur bíll. Hins vegar á ég ekki von á að hann endist jafn lengi með jafn litlu viðhaldi og Cherokee og hann dregur ekki eins létt 2800 kg vagn - en eins og áður - þá gildir bara að aka í lágadrifinu upp brekkurnar á 60 í hæsta gír og með yfirdrifið óvirkt.. Til frekari upplýsinga um útreikning á dráttargetu og búnað til dráttar yfirleitt bendi ég á sérstaka grein um þau mál á þessari vefsíðu http://www.leoemm.com/vagnar.htm


Handbremsuljós gæti lýst þegar vantar á kerfið
Spurt: Ég er með Subaru Legacy GL 2003 (ekinn 34000 km) og Lexus IS200 2002 (ekinn 70000). Í báðum bílunum er bremsu-viðvörunarljósið að koma á í frosti. Þetta er sama ljósið og kviknar þegar maður setur handbremsuna á. Til þess að gera er nýlega búið að skipta um bremsuklossa í Lexusinum en Subaruinn er enn með sína upprunalegu klossa. Ljósið fer svo af yfirleitt eftir svona 10-20 mínútur eða þegar bíllinn er orðinn vel heitur. Það kemur ekki á þegar bíllinn er geymdur inni. Subaruinn er yfirleitt hafður í handbremsu yfir nóttina en Lexusinn ekki. Ég velti því fyrir mér hvar skynjarinn er og hvers vegna þetta sé í báðum bílunum samtímis.

Svar: Að ljósin lýsi í báðum bílunum er áreiðanlega tilviljun ein. Rofinn fyrir handbremsuljósið er yfirleitt í stokknum inni í bílnum og tengist handfanginu og stirðleiki getur valdið því að handfangið fari ekki nógu langt niður til að slökkva ljósið. Handbremsuljósið getur líka kviknað vegna þess að glussa vanti á kerfið. Í sumum bílum eru tvö aðvörunarljós fyrir bremsur annars vegar handbremsuljósið og annað ljós sem kviknar séu klossar orðnir slitnir. Í handbókinni eru þessi ljós sýnd og skýrð.

Óreglulegur gangur í Benz
Spurt: Ég er á sjálfskiptum Benz 190 ´94. Undanfarið hefur hann látið illa í lausagangi, flöktir fram og til baka; dettur alveg niður og drepur næstum á sér en rýkur svo skyndilega upp aftur í 4-5 þús snúninga. Í akstri gef ég honum inn og snúningurinn á vélinni byrjar að detta niður og rýkur svo skyndilega upp. Er ég í mjög vondum málum?

Svar: Ég hef ekki trú á að þetta sé neitt alvarlegt svo lengi sem hitamælirinn er eðlilegur - Þetta innsprautukerfi er með þeim bestu. Þetta hljómar jafnvel eins og sogleki - einhver slanga við soggrein í sundur - þ.e. falskt loft. Prófaðu að láta þá skoða þetta hjá Mótorstillingu í Garðabæ, á verkstæði Ræsis eða hjá Kistufelli á Tangarhöfða - þar sem þú kemst fyrst að.

MMC Colt vandamál
Spurt: Ég er í vandræðum með Colt 1991 1500 sjálfskiptan.Þegar bíllinn er orðinn heitur fer hann að drepa á sér í tíma og ótíma, bæði í keyrslu og við umferðarljós. Fer samt alltaf í gang aftur. Einnig dettur hann í gang kaldur.Góð ráð væru vel þegin.

Svar: Þessi Colt er með fyrstu kynslóð innsprautukerfis í MMC-bílum. Í þessu i tilfelli myndi maður byrja á að útiloka raka í bensíninu (en sú truflun kemur yfirleitt ekki fyrr en vél hefur náð að hitna og lýsir sér þannig að þegar vatnsdropi í soggrein hefur gufað upp (hálf - ein mínúta) fer vélin í gang aftur og gengur þar til næsti dropi hefur myndast. Ísóprópanól-ísvari saman við bensínið gæti leyst málið - en yfirleitt þarf að endurnýja plastsíuna á eldsneytislögninni um leið því í pappanum í henni getur vatn setið lengi. Dugi þetta ráðlegg ég þér að láta bilanagreina kerfið á verkstæði - auk umboðsins er Bílvogur í Kópavogi með þjónustu fyrir MMC. Viðbót: Lesandi benti á að hann hefði sem afgreiðslumaður á bensínstöð oft þurft að hjálpa Colt-eigendum vegna gangtruflana sem þá hefðu stafað af því að upphitnartrekt úr blikki, sem leiddi hita frá pústgrein um barka upp á soggreinina hafi ryðgað og horfið en þá gat frosið í soggreininni við ákveðnar aðstæður. Það fylgdi ekki sögunni hvort ísvara var helt niður í inntakskverkina á soggreininni eða volgu vatni hellt á hana. A.m.k. er ástæða til að halda þessum upphitunarbúnaði, þótt ræfilslegur sé í lagi, jafnvel þótt smíða verði trekt eða einangra soggreinina á einhvern hátt.

Ábending til bíleigenda vegna svifryks!
Flestir fólksbílar og jeppar eru með sérstaka ryksíu í inntaki miðstöðvarinnar. Sían á að stöðva ryk, sót og frjókorn og hana á að endurnýja árlega (en það vill gleymast). Þessar síur eru til í umboðum og Bílanausti fyrir flesta algenga bíla auk þess sem margar smurstöðvar eiga þær og endurnýja fyrir fólk, en það er 10 mínútna verk. Algengt er að þessi sía sé orðin ónýt þannig að svifryk eigi greiða leið inn í bílinn eða sé teppt þannig að miðstöðin hiti ekki sem skyldi.


Miðstöðvarlaus Musso
Spurt: Musso árgerð 1998 Diesel. Bilanalýsing: Upphaflega var hann mjög snöggur að blása heitu. það var eitt að góðu kostunum við bílinn (hef átt hann í mörg ár.) Nú er það þannig að hann á það til að blása köldu, fer eftir hitastigi úti. Venjulega blæs hann volgu upp á rúður en alltaf köldu niður á gólf. Þegar ég hef stillt á hringrás inni er það heldur skárra. Hvað á maður að gera?

Svar: Rafmótorar stjórna lokunum, þ.e. loftstreyminu í gegnum miðstöðvarhitaldið og sá búnaður er ekki bilanagjarn. Lýsing þín á við það tilfelli þegar aðalrrofinn, sem á að stjórna miðstöðinni, er ónýtur. Fyrsta skrefið er að skipta um hann og sjá hvaða áhrif það hefur.
Patrol tregur í gang
Spurt: Ég keypti nýlega Nissan Patrol árg. 2001 með 3ja l dísilvél. Ég átti áður Izusu Crew-Cap dísil árg. 2000 líka með 3ja l vél og var sá keyrður u.þ.b. 250.000 km. Patrólinn er aðeins keyrður rúml 100.000 km. Spurning mín er; Strax og kólnar eitthvað í lofti virðist Patrólinn þurfa töluvert lengra start til að fara í gang heldur en Izusuinn þurfti. Er það eðlilegt eða er eitthvað farið að gefa sig í Patrólnum. Um er að ræða annars vegar 10 - 20 sek á Patrol á móti því að Izusuinn hrökk í gang á fyrstu snúningum sama hve kalt var.

Svar: Patrolinn á að vera með hraðforhitun eins og flestir dísilbílar síðan upp úr 1990 og ætti að ekki að þurfa lengra start. Eðlilegast er að byrja á að kanna hvort forhitunin sé í lagi - ekki þarf nema eitt glóðarkerti af 4 sé óvirkt til að gangsetning verði erfiðari. Ef þau reynast í lagi gæti rafeindastýring olíuverksins (kaldstartið) verið óvirkt og þá eðlilegt að láta kóðalesa kerfið. Þú getur fengið það gert hjá Vélalandi.

Ískyggilegir smellir í afturdrifi
Spurt: Ég er búinn að eiga Ford F250 Pikköpp í nokkur ár og hef látið þjónusta hann samkvæmt tilmælum í handbókinni og allt gengið vel þar til nú að ég er farinn að heyra smelli og jafnvel skruðninga frá afturdrifinu þegar teknar eru beygjur. Getur verið að drifið sé ónýtt eða að eyðileggjast? (Í ljós kom að skipt hafði verið um olíu á drifinu eftir að lengri ferð með hestakerru og ekið í djúpu vatni).

Svar: Þótt það komi ekki fram reikna ég með að tregðulæsing sé í mismunardrifinu að aftan (Traction -Lok). Smellirnir eru þá að öllum líkindum vegna þess að röng tegund olíu hefur verið sett á drifið. Á drif með seiglæsingu (diskar) á að nota sérhæfða sílikónolíu auk sérstaks bætiefnis til þess að ekki smelli í þeim. Þú færð þessa sérhæfðu olíu og bætiefnið hjá IB á Selfossi og jafnvel í umboðinu. Í venjulegri notkun F150/F-250 á aldrei að þurfa að endurnýja olíuna á afturdrifinu. Það er einungis gert ef bíllinn hefur verið notaður á óvenjulegan hátt undir miklu álagi svo sem þungum drætti, torfærum eða hafi verið ekið í djúpu vatni. Gírolían er 75W140 syntetísk. Bætiefnið nefnist „Friction modifier’’ (C8AZ-19B546A).

Rafmagnsvandamál í Ford F150
Spurt: Ég á Ford 150 Lariet árgerð 2003. Það hefur komið fyrir að rafgeymirinn tæmist þegar bíllinn stendur. Stundum kvikna inniljósin sjálfkrafa. Ég er búinn að koma að honum "dauðum'' nokkrum sinnum. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Í þessum bílum er sérstök tölva (Body Computer) sem stýrir þjófavarnarkerfi, inniljósum og ýmsu fleiru. Af lýsingu þinni að dæma fær þessi tölva boð sem hún túlkar sem opnar dyr og því kveikir hún inniljósið. Í fljótu bragði myndi mann gruna að einhver rofanna, sem eru í hurðalæsingunum, sé stirður eða skemmdur og frá honum fái tölvan boð um opnar dyr þótt hurðin virðist vera eðlilega læst. Maður myndi vilja hafa bilanagreiningartölvu tengda bílnum þegar þessi bilun er í gangi til að geta séð á henni hvað sé að gerast - en böndin berast að læsingarrofunum. Þú segir að inniljósin kvikni stundum sjálfkrafa sem beinir ljósinu að þessum rofum í hurðalæsingunum. Annars er algengt vandamál í mörgum nýrri Ford-bílum að eigendur sem eru að stilla styrk mælaborðsljósanna snúi stillihjólinu í botn en í rofinn fyrir inniljósin eru í þessum takka þannig aðþau kvikna þegar honum er snúið í botn. Við eðlilegar aðstæður lýsa inniljósin ákveðinn tíma eftir að bílnum hefur verið læst en eiga svo að slokkna af sjálfum sér - en það gera þau ekki ef þessi styrkstillir er í efstu stöðu - heldur lýsa áfram þar til þú kemur að bílnum aftur eða geymirinn tæmist. Þetta er ágætt dæmi um að sjálfvirknin hefur einnig sína galla.

Það mátti reyna!
Spurt: Ég er í vandræðum með Ford E-250 með 6,5 l vél úr '96 árg af Hummer og C6 Ford skiptingu '81. Þetta er túrbólaus vél ekki með rafstírðu olíuverki,drifhlutföll 4:10 ,millikassi 205. Bíllin kemst ekki hraðar en 90 km og er þá komin í 4000 snúninga. Bíllinn er rosalega þungur af stað og ef kemur smá snjó fyrirstaða þarf að setja hann í lága . Hann virðist ekki koma aflinu niður í hjól en samt er ekki að fynna að hann sé að slúðra. Getur þetta verið konverterinn eða eitthvað annað ??? (Spurt á móti við hvað snúningshraðamælirinn sé tengdur, dekkjastærð og eyðslu). Snúnigurinn kemur frá altanitor. Stilltur samanvið vél með mæli. er á 35" dekkjum.. Hann fer með svona 70 ltr á 200 km vegalengd, með 6 manns í honum.

Svar: Það er eitthvað verulega bogið við þetta dæmi: Í fyrsta lagi var enginn Hummer ´96 framleiddur með túrbólausri 6,5 GM dísil (einungis árgerð 1994 og 1995). Allar 6,5 GM dísil eru með Stanadyne S4D rafeindastýrðu olíuverki. Miðað við 4000 sn/mín og 90 km hraða í háa og 3. gír er öxulsnúningurinn 4000/4,1 = 976 sn/mín = sem samsvarar því að bíllinn sé á 19" dekkjum (undan fjórhjóli?). Sé ekki hraða- eða snúningahraðamælirin snarvitlaus er eini möguleikinn sá að skiptingin sé föst í spólvörn og fari aldrei í 3. gír eða sé ónýt. (gæti einnig verið 6,2-vél með ónýtt olíuverk og jafnvel sprungna blokk). Þetta hefur ekkert með konverterinn að gera - sé eitthvað að marka þessar upplýsingar í spurningunni á annað borð -sem ég reyndar efast um!

Porsche segir að það virki!
Spurt: Ég var að vafra um á netinu og sá ísl. auglýsingu um bensínspara, einhvers konar hvirflara sem settur er loftinntak vélarinnar og á að auka afl og spara bensín frá 7-30 %. Ég hringdi í innflytjandann og var sagt að tækið sem nefnist "Cyclone fuelsaver'' kostaði 8900 kr. Er einhvað vit í þessu og veist þú einhvað um þetta?

Svar: Ég hafði enga trú á þessu tæki enda mikið um alls konar hókus-pókus-búnað á markaðnum sem er nánast sjónhverfingar. En ég neyðist til að eta það sem ég hef áður sagt um þennan hvirflara ofan í mig. Ástæðan er sú að búnaður sem veldur hvirflun í loftinntaki er nú í nýrri kynslóð af Porsche Cayenne til að spara bensín og minnka mengun - og Porsche mundi örugglega ekki nota slíka tækni nema vegna þess að hún virkar. Hvort það er nákvæmlega sami búnaður og þessi "Cyclone Fuelsaver'' get ég ekkert fullyrt um en tilgangurinn er greinilega sá sami.

Hættulegar bremsur
Spurt: Mér áskotnaðist Mazda 323F árgerð 91 ekin 280 þús. Mesta furða hvað þessi bíll er. En bremsurnar finnst mér undarlegar. Þær eru þungar og þarf að stíga djúpt á þær og þá smám saman bremsar bíllinn. En þær eru gjarnar á að læsast þegar maður er búinn að stíga í botn. Sé þetta bilun, væri þá hægt að gera við hana með lítilli fyrirhöfn eða litlum kostnaði?

Svar; Af lýsingu þinni að dæma eru bremsurnar greinilega ekki í lagi - engar bremsur eiga að virka svona í bíl og bíllinn því hættulegur. Ráðlegg þér að draga ekki að láta líta á bremsurnar á verkstæði. Dælur í framhjólum geta verið fastar, klossar of slitnir þannig að stimplar í dælum gangi of langt út skekkist og festist - aflauki frá soggrein óvirkur o.s.frv. Bremsur eru ekki flókið fyrirbrigði en það breytir því ekki að verkstæðistíminn er dýr. Reyndu að fá upplýsingar um kostnaðinn áður en þú lætur gera við þetta - það gæti verið hagkvæmara fyrir þig (og aðra í umferðinni) að farga bílnum.

Tikkir í Musso
Spurt: Ég er með Musso 2.9 disel ´98, ekinn 220..þús sem hefur reynst mjög vel. Þegar vélin er köld eru smellir í henni í átaki en ekki í lausagangi. Ég lét endurnýja undirlifturnar en ekkert breyttist. Smellirnir hætta þegar vélin hefur hitnað. Ég lét skipta um tímakeðju og finn mun á gangi vélar eftir það en en smellirinir eru áfram þegar vélin er köld. Getur þetta tengst spíssum, dísum eða olíuverki?

Svar: Einn af fáum göllum í Benz-vélunum í Musso eru heddpakkningar sem leka smurolíu út með rásinni á milli blokkar/hedds, sem knýr ventlademparana (sem þú kallar undirlyftur). Smellirnir eru mestir þegar vélin er köld og demparinn tómur. Með nýrri heddpakkningu (frá Benz/Ræsir) og nýjum heddboltum (teygjuboltarIVélaland) teldi ég vænlegast til árangurs til að losna við þessa smelli. Stundum sést olíutaumur lekans utan á vélinni.

Hvað telst eðlileg bensíneyðsla?
Spurt: Er með 18 mánaða gamlan VW Polo, sem mér þykir eyða of miklu eða 9-10,5 lítrum eftir útihitastigi og akstursmáta (innanbæjarsnatt eða blandaður akstur). Ég fór með bílinn í umboðið og kvartaði undan þessu. "Þetta er náttúrlega allt tölvustýrt", var eina svarið sem ég fékk. Ég velti því fyrir mér hvenær teljist ástæða til þess að skoða svona mál hjá umboðinu - ætli það sé við 12, 14 eða 16 lítra á 100 km? (Bæti við eftirfarandi upplýsingum um eyðslu VW Polo af vefsíðu umboðsins: 95 oktan; innanbæjarakstur l/100 km 7,7 -7,8 utanbæjarakstur l/100 km 4,7 - 4,9 blandaður akstur l/100 km 5,8 - 6,0).

Svar: Mælingu þína er ekki ástæða til að rengja og því hefði átt að bilanagreina vélarkerfið - til þess er tölvustýringin m.a! Með tilliti til þess að bíllinn er í ábyrgð er þessi afgreiðsla umboðsins óásættanleg (og væntanlega undantekning) og ástæða til að gera frekari tilraun til að fá kannað hvað valdi eyðslunni. Viðbót og ábending frá VW Polo-eiganda í Danmörku: Hann lenti í nákvæmlega þessu sama. Danska umboðið endurnýjaði súrefnisskynjarann í pústgreininni (sem þeir sögðu hafa verið gallaðan í mörgum þessara bíla. Eftir það datt eyðslan niður í eðlilega.

Undirlyfta sem tikkar
Spurt: Ég á Chevy Van "antik-húsbíl'' sem stendur sig þrátt fyrir sín 30 ár. En undanfarið hef ég verið að heyra frá mótornum svona létt bank eða tikk á meðan hann er að ná að hitna, síðan hverfur það. Kunningi minn taldi að þetta kæmi frá undirlyftum, hvað heldur þú?. Annað; ég er oft spurður hvað þessi vél sé mörg hestöfl,en orðið að viðurkenna að ég bara veit það ekki, hvað segirðu um það?

Svar: Hafðu ekki áhyggjur af tikkinu, sem er frá undirlyftu sem nær ekki að fylla sig, svo lengi sem það hverfur. Hverfi það ekki dugar stundum að setja 1 lítra lítra af sjálfskiptiolíu í stað eins lítra af vélarolíu og aka 100 km - endurnýja svo olíu og síu. 1975 voru þessar vélar 145 hö við 3800 sn/mín með 2ja hólfa blöndungi en 170 hö við 3800 sn/mín með 4ra hólfa.

Hve mikið skal herða nafarró?
Spurt: Geturðu sagt mér hvað ég á að herða afturhjólalegu í VW Golf 1.4 ´95 mikið með átaksmæli? Hvar fær maður almennilegar - venjulegar gúmmímottur í bíl án þess að þurfa að greiða þúsundir króna fyrir settið eins og á bensínstöðvunum?

Svar: 129 lbf ft (181 Nm)
http://forums.vwvortex.com/zerothread?id=2940430
Þú færð fínar rifflaðar gummímottur í Rúfatafatalagernum fyrir 699 kr. parið - en ég birti þetta ekki í Mbl.. því það yrði allt hífandi vitlaust - þannig að þú skalt ekki segja nokkrum kjafti frá þessu!

Lúinn Pathfinder
Spurt: Ég er með gamlan Nissan Pathfinder V6 ekinn 170 þús. Nú er kominn draugur í vélina: Hún getur gengið vel en fer svo að missa mátt og drepur jafnvel á sér en fær síðan mátinn aftur og gengur þá eðlilega smá tíma. Þannig getur ferð frá Reykjavík til Hafnafjarðar tekið þrjú stopp. Það er búið að skipta um kerti, kveikjulok og athuga hvarfakút einnig setja ísvara í bensínið. Dettur þér eitthvað í hug sem gæti orsakað þetta?
Svar: Háspennukefli, bensínsía eða straumloka bensíndælu.

Litur á frostlegi og skúmmyndun
Spurt: Ég ætlaði að kaupa frostlög en bensínstöðin átti bara rauðan en á vélinni er grænn og mig minnti að ekki mætti blanda þessum litum saman. Ég fór því á aðra bensínstöð en þar var bara til blár og rauður. Þeir sögðu að til væri rauður, blár og grænn frostlögur og ekki mætti blanda saman tegundum. Hvaða mismunandi eiginleika hafa þessi litaafbrigði og má aldrei blanda saman litum? Hvað ræður því hvaða litur er notaður á bílinn? Annað mál: Mig minnir að ég hafi lesið grein eftir þig að skúm gæti myndast í ventlaloki ef öndun vélar væri teppt. Ég sá einmitt slíkt skúm þegar ég opnaði olíulokið (Opel Corsa) til að bæta olíu á vélina.
Er fleira sem getur valdið svona skúmmyndun og hvað er hún hættuleg?

Svar: Ástæður mismunandi litar á frostlegi, sem hefur ekkert með frostþol hans að gera, eru þrjár: Í fyrsta lagi til að skilja á milli annars vegar etýlglýkol-kælivökva, sem er dýr, hættulaus mönnum og dýrum og veldur minni tæringu á áli, og hins vegar própýlglýkol-kælivökva, sem er ódýr, skaðlegur (t.d. geta kettir drepist af því að lepja hann upp) og veldur meiri tæringu á áli. Sumir nýir bílar komi með grænum eða gulum etýlglýkol-vökva og er það þá sérstaklega tekið fram á miða í húddinu (og að aldrei þurfi að endurnýja hann). Etýlglýkol-vökvi mun ekki vera á almennum markaði hérlendis. Í öðru lagi nota ákveðnir framleiðendur liti til að skilja að frostlög eftir því hve mikið hann inniheldur af tæringarvarnarefni, t.d. er grænn Comma-kælivökvi með tæringarvörn sem á að duga í 3 ár en rauður 5 ár. Í 3ja lagi nota framleiðendur liti til að sérmerkja kælivökva sem inniheldur ákveðin efni samkvæmt staðli ákveðins bílaframleiðanda, t.d. getur kælivökvi fyrir Scania verið blágrænn en fyrir GM dísilvélar dökkblár. Það telst góð pólitík að blanda ekki saman kælivökva af mismunandi lit.
Varðandi skúmið - þá er algengasta orsök þess rakaþétting innan i ventlaloki vegna tepprar öndunar á milli ventlaloks og soggreinar. Leki heddpakkning vatni út í smurganginn getur myndast svona skúm en þá er olían jafnframt áberandi gráleit. Skúm vegna tepprar öndunar er algengasta orsök ótímabærrar eyðileggingar kambáss - sem er undantekningarlaust dýr viðgerð. Þeir á smurstöðinni Klöpp kanna öndunina fyrir þig.

Gangtruflun í Corolla
Spurt: Ég á Toyotu Corolla 1998 1300 ekin175 þús km og hefur fengið fengið gott og reglubundið viðhald. Sl. 6 mánuði hef ég heyrt svona "puff-hljóð'' frá vélinni þegar ég tek af stað og t.d í brekku í 2 gír. Bílinn eyðir um 10 lítrum í innanbæjaraktsri. Ég lét stilla hann sl sumar í von um að eyðslan myndi minnka og þessi feilpúst eða puff hljóð hættu. Hvorugt hefur gerst veist þú hvað veldur?

Svar: "Puff-hljóðið'' er að öllum líkindum vegna sprenginga í útblásturskerfinu sem inniheldur of mikið af óbrunnu kolvetni (eldsneyti) vegna veiks neista. Ég reikna með að ný kerti hafi verið innifalin i vélarstillingunni. Þessi vél er án kveikjuloks (kveikjulok er í 1600-vélinni) og kertaþræðirnir tengjast því beint háspennukeflinu. Kertaþræðirnir í Toyota Corolla frá þessum tíma (1300 og 1600) entust ekki lengi og hafi þeir ekki verið endurnýjaðir er þessi gangtruflun að öllum líkindum vegna ónýtra kertaþráða enda sýnist mér eyðslan benda til þess. Ef þú kaupir nýtt þráðasett í umboðinu passa þeir nákvæmlega og er ekki nema um hálftíma verk að skipta um þá. Það er vissara að byrja á að máta lengd hvers þráðar og skipta síðan um einn þráð í senn - því ruglist röðin ertu komin með enn verri gangtruflun.
Viðbót: Eftirfarandi svar barst frá þessum Corollu-eiganda nokkru seinna (sem sýnir hve mikilvægt er að lýsa gangtruflun sem skýrast og skýrir hugsanlega einnig hvers vegna ókeypis vélarstillingin fylgi með tímareimaskiptum á ákveðnu verkstæði):
Sæll Leó. Svarið sem þú gafst mér, varðandi gangtruflunina reyndist hárrétt. þetta puff hætti um leið og eyðslan hefur lagast með nýjum kertaþráðum. Eins finnst mér viðbragð og snerpa vera betri. Ég spurði um kerti og þræði þegar ég lét stilla hann á sínum tíma en þar sögðu menn (Nicolai) að allt væri í besta lagi!!!!
Vil þakka þér þetta framtak með vefsíðu þína, þú hefur örugglega sparað mörgum manninum stórfé (þ.a.m. mér).Ég er reglulegur lesandi á leoemm.com og vil einnig þakka fyrir skemmtilegan og fræðandi vef. mbkv. K.M.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar