Brotajárn nr. 17

Spurningar og svör
Fyrirspurnir (leoemm(hjá) simnet.is) sem Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað og birst hefur í Mbl. Bílar á föstudögum (Ath. einnig í Brotajárni nr. 17)

Ath. Sumar spurningar/svör eru ekki birt í Mbl. Bílar en hefur verið svarað með netpósti. Efnið getur veruð of langt, of tæknilegt eða of sérhæft.

(Ath. Nota má innbyggða leitarvél (Ctrl-F) til að finna lykilorð).

(21)

Hikar, kokar, sprengir - og eyðir
Spurt: Núverandi bíll til daglegra nota er búinn að vera svolítið skrýtinn í akstri undanfarna daga í frostinu.Hann er fínn í gang og malar ljúflega á ljósum en ef ég gef honum inn í akstri eða ek upp brekku þá kokar hann stundum og í kvöld þá varð ég var við sprengingu þegar ég gaf honum bensin á Sæbrautinni svo er hann farinn að eyða um 18 lítrum á hundraðið. Gæti verið raki í tankinum ?.Þetta er 1992 Chrysler New Yorker Salon með 3,3 lítra V-6 vél og beinni innsprautun og ekki ekinn nema 16.500 mílur frá upphafi. Einhverjar hugmyndir?
Svar: Í svona tilvikum getur margt komið til greina og eðlilegast að bilanagreina kerfið í tölvu. En maður myndi byrja á að tjékka neistann (því hann fær greinilega nóg bensín miðað við eyðsluna), háspennukefli, kveikjulok, þræði, kerti. Þessi bíleigandi hafði samband aftur og upplýsti að einn kertaþráðanna hefði verið ónýtur þannig að vélin gekk bara á 5. Eftir að þráðurinn hafði verið endurnýjaður gekk vélin aftur eins og hún á að gera.

Alvöru flutningar - þarfnast alvöru bíla
Spurt: Ég er að keyra út dagblöð til dreifingaraðila úti á landi á vondum malarvegum yfir fjallvegi og hef notað sendibíla frá Toyota og Hyundai sem hvorugur reyndist þola þessa hleðslu á svona vondum vegum - t.d. hvorki bremsur, fjaðrabúnaður né dísilvél. Benz Sprinter myndi líklega fara létt með þetta en hann kostar allt of mikið fyrir þetta verkefni. Nýr Ford Transit sendibíll án glugga (M300) beinskiptur sem ber 1200 kg með 2,2ja lítra 130 ha vél kostar um 3,3, mkr. (nú í okt/nóv 06). Spurningin er hvort hann hafi eitthvað á fjallvegi að gera með á annað tonn af farmi - er þessi litla dísilvél ekki bara fyrir borgarakstur? En spurningin er hvaða sendibíll myndi henta í svona vinnu?
Svar: Mér sýnist þú vera í sömu stöðu og þeir sem flytja níðþungar græjurnar (magnara o.fl.) fyrir hljómsveitir út á land, t.d. um Vestfirði. Í þannig vinnu dugar ekkert Euro-drasl - það er fyrst og fremst burðarþol, sterkur undirvagn og öflug dísilvél sem skiptir máli í svona flutningum. Sá bíll sem hentar best og kæmi best út í rekstri (auk þess að gera ekki út af við bílstjórann) - að mínu mati - er amerískur Ford 350 Cargo (áður Econoline) með 6 lítra V8 PowerStroke 325 hestafla dísilvél. Þá er ég að tala um venjulegan afturhjóladrifinn bíl sem er gefinn upp fyrir 2100 kg farm (en ber meira) og fer jafnframt létt með að draga rúmlega 3ja tonna kerru. Með seiglæst mismunardrif (LSD) kemst maður nánast alla vegi á þeim bíl og á keðjum (með LSD) er hann bókstaflega eins og jarðýta í snjó. IB á Selfossi hefur verið að flytja inn lítið ekna nýlega Ford 350 Cargo XL frá Kanada af árgerðum 2005 og 2006 (en Kanadabílarnir eru að ýmsu leyti betur búnir og betur frágengnir en þeir sem gerðir eru fyrir bandaríska markaðinn). Ég sel það ekki dýrar en ég keypti en IB mun selja þessa bíla á um 3 mkr. með tveggja ára ábyrgð. (Þessum ameríska Ford sendibíl er lýst frekar í kaflanum BÍILAPRÓFANIR hér á vefsíðunni).

Ískrandi þurrkur
Spurt: Á eldri MMC Lancer eru þurrkurnar leiðinlegar, þær hnökra, urga og ískra þegar þær fara yfir rúðuna eins og þær liggi of þungt á eða þrýsti of fast á rúðuna. Er eitthvað hægt að gera við þessu?
Svar: Oft er ástæða hnökra í hreyfingu þurrka slit í drif- og færslubúnaði. Í sumum tilvikum er slitið í þolinmóði þurrkuarmanna en það er pinni í liðnum sem þeir leika á þegar þeir eru spenntir upp frá rúðunni, t.d. vegna þrifa. Stundum má minnka þetta slit nægilega til að vandamálið hverfi með því að taka armana af og hnoða þessa pinna á steðja en í öðrum tilvikum með nýjum örmum og jafnvel nýjum þurrkusleða. Einföld aðgerð sem alltaf gerir þurrkur betri, séu þurrkublöð ekki ónýt, er að þrífa tjöruna af blöðunum með kveikjarabensíni og bera síðan á þau efnið "Son Of a Gun'' eða sambærilegt efni.

"Tveggja hluta stimplar''
Spurt: Í upplýsingabæklingi yfir jarðvinnuvél er tekið fram að dísilvélin sé með "articulated pistons'', þ.e. stimplum sem séu að einhverju leyti öðru vísi en venjulegir stimplar. Hvers konar stimplar eru þetta og hvað á að vinnast með þeim?
Svar: Dísilvélar stórra jarðvinnuvéla vinna oft við erfiðar aðstæður, t.d. langar tarnir/miklar álagsveiflur í miklum hita. Til að auka varmaþol stimpla eru þeir hafðir í tveimur hlutum sem fest er saman með stimpilboltanum og leika um hann. Efri hlutinn, kollurinn, er úr varmaþolnu stáli en neðri hlutinn, stýrikraginn er úr álblöndu. Með þessu móti er teflt saman miklu varmaþoli stálkolls og léttri álstýringu. Árangurinn er sterkari stimpill með minni massa en væri stimpillinn allur úr stáli.

"Air-bag-ljós'' sem lýsir
Spurt: Í bílnum mínum sem er árgerð 1998 af Opel Vectra tók rautt ljós hægra megin í mælaborðinu upp á því að fara að lýsa stöðugt í stað þess að lýsa þegar svissað er á og slokkna þegar véli er komin í gang. Ljósið er ferkantað merki með táknmynd af útblásnum belg, eða "Air-bag-ljós" eins og það er skýrt í handbókinni. Hvað getur valdið því að þetta ljós tekur upp á því að lýsa stöðugt?
Svar: Fjallað var um svipað mál í Mazda í síðasta pistli. Bílbeltalásarnir gefa stýriboð til tölvu sem stjórnar og virkir öryggispúðana. Ljósið gefur til kynna að öryggispúða-kerfið virki ekki. Oft er ástæðan sambandleysi í bílbeltalás eða straumleiðslu frá beltalás (undir stólum) sem hefur marist, brotnað eða slitnað sundur. Það er ekki fyrr en gengið hefur verið úr skugga um ekki sé um sambandsleysi að ræða og að öryggi séu í lagi, að ástæða er til að fara að huga að alvarlegri og (miklu) dýrari hlutum á borð við "air-bag-tölvu". En í flestum tilvikum þarf að "núlla'' "air-bag-tölvuna'' eftir viðgerð til að ljósið hætti að lýsa stöðugt.

Kerti í Dodge Ram V8 Hemi
Spurt: Ég á Ram 1500 SLT Hemi 2004 og mig langaði að vita hvað kertin endast en þau eru 16. Auðvitað er ekkert mál að skoða þau bara en veist þú hvað þau ættu að endast?

Svar: Í handbókum frá Chrysler er mælt með 50- 90 þús. km. notkun án þess að gerður sé greinarmunur á V8-vélum - en sérstaklega tekið fram að sé um gangtruflun að ræða skuli ekki útiloka kertin þótt þau kunni að vera nýleg. Í þessari 345 ha vél eru upprunalega kerti af gerðinni DENSO Irridium. Þú átt varla að þurfa að hafa áhyggjur af kertunum fyrr en upp úr 30 þús. km. Eyðslumæling er öruggasta eftirlitið með ástandi kertanna, aukist eyðslan mælanlega getur það verið vísbending um að skaut kertanna hafi tærst og neistabilið hafi aukist. Algengur misskilningur er að neista sé hleypt tvisvar á hvert kerti fyrir hvert aflslag í þessari Hemi-vél. Hið rétta er að háspennukeflin, sem eru 8 fyrir 16 kerti, hleypa neista á fleiri en eitt kerti (fyrir bruna í einum sílindra en eftir bruna í öðrum). Útfelling (sjáanleg) á raftengjum háspennukeflanna hefur valdið gangtruflunum. Í þessari vél eins og öðrum þar sem fyrstu kertaskipti eru upp úr 90 þús. km. hafa kerti haft tilhneigingu til að festast í heddunum séu þau ekki hreyfð og getur þá valdið verulegum aukakostnaði. Kostur við þessa Hemi-vél er að hægt er að komast að kertunum án þess að rífa þurfi hálfa vélina. Á meðal (venjulegra) kerta sem gefin eru upp fyrir þessa vél eru NGK LZTR4-11 (V-Power).

(19)
"Alvöru snjódekk''
Spurt: Þar sem ég bý á Norðurlandi er alvöru snjór á vetrum. Ég þarf að endurnýja snjódekk undir Ford Escort. Naglar henta mér ekki en mér finnst munstur margra snjódekkja ekki líklegt til stórræðna og oftast of grunnt - gæti verið ætlað fyrir nagla. Hvar fær maður ónegld snjódekk með nógu djúpu munstri?
Svar: Á markaðnum eru vetrardekk sem gerð eru fyrir evrópskar aðstæður (hraðbrautir), hafa fremur grunnt munstur og henta ágætalega hér á höfuðborgarsvæðinu. Dýpsta munstur snjódekkja er 10-11 mm og þau dekk eru yfirleitt, en þó ekki alltaf, háværari en dekk með grynnra munstur. Sem dæmi um dekk með 10-11 mm munstur má nefna amerísk snjódekk af tegundinni Cooper (Gúmmivinnustofan) og finnsk dekk af tegundinni Nokian Hakkapelitta (MAX1). Fleiri tegundir eru á boðstólum (t.d. Toyo harðskeljadekk sem eru ekta snjódekk, þ.e. gerð fyrir snjó en ekki vatnsveður að vetri og eru auk þess ný dekk en ekki notuð endurunnin dekk eins og harkornadekkin Green Diamond), - einfaldast er að mæla munsturdýptina með skíðmáli.

Um eyðslu
Spurt: Bíllinn okkar, sem er beinskiptur Subaru Legacy Sedan 1997 með aldrifi, ekinn tæplega 200 þúsund, eyðir 10-12 lítrum í lengri akstri, 12-14 lítrum í þéttbýli og 15-17 lítrum með 400 kg fellihýsi í eftirdragi. Nú hefur komið til tals að yngja upp og höfum við augastað á 2000-2001 árgerð af Legacy Station. Spurt er hvort staton bíllinn eyði meiru en sedan-bíll sömu gerðar, hvort sjálfskifti bíllinn sé ekki sparneytnari en sama gerð beinskipt og hvort sjálfskiptingin ráði ekki jafn vel við 400 kg. drátt?
Svar: Reglan er sú að stationbíll eyði meiru en fólksbíll - lagið veldur sogi aftan við stationbílinn sem eykur vindviðnám og eyðslu, hjá Subaru Legacy er þessi munur 10%. Reglan hefur lengst af verið sú að sjálfskiptur bíll eyði meiru en handskiptur hjá sama bílstjóra - sá munur, sem hefur farið minnkandi með árunum, er mismunandi mikill eftir tegundum sjálfskiptinga. Sjálfskiptur Legacy hefur sömu dráttargetu og handskiptur. Þegar vagn er dreginn með sjálfskiptum bíl skiptir máli að yfirgír sé aftengdur (OD-takkinn) þegar farið er upp í móti enda skal hafa í huga að ekki er leyfilegt að aka hraðar en 80 km/klst. með eftirvagn. Sé OD-takkinn notaður á dráttur, innan uppgefinnar hámarksþyngdar, ekki að valda óeðlilegri hitnun skiptingar. Þó er ákveðið öryggi fólgið í aukakæli fyrir skiptinguna. Með vagn í eftirdragi hlífir sjálfskipting vélinni þar sem niðurgírun stýrist af álagi á sjálfvirkan hátt.

Gasdempari
Spurt: Komið er að endurnýjun á framdempurum í Peugeot (McPherson). Við könnun á verði sem er mismunandi virðast einungis vera boðnir gasdemparar hérlendis. Ég þekki dálítið til í Danmörku og veit að þar eru boðnir olíudemparar í þennan sama bíl fyrir lægra verð. Hvað hefur gasdemparinn umfram?
Svar: Því meira álag sem er á dempara, t.d. á holóttum malarvegi (sem varla finnast lengur í Danmörku), því meira hitnar glussinn í honum vegna núnings en hann þrýstist á milli hólfa um gat í stimpli og hemur þannig hreyfingar hjóls og heldur því á veginum (veggrip). Nái dempari að hitna nægilega sýður glussinn og demparinn verður óvirkur. Með því að hafa samanþjappað niturgas með vökva í dempara, en niturgas blandast ekki glussa og er nánast ónæmt fyrir hitabreytingum, hækkar "andrúmsloftsþrýstingur'' og glussinn þolir meiri hita án þess að sjóða. Olíudempari með gasi þolir því meira álag/hita.

(18)
Hvað er silikón bremsuvökvi?
Spurt: Ég á gamlan verðmætan bíl sem ég nota einungis á sumrin. Mér var bent á að nota silikón-bremsuvökva á kerfið til að draga úr hættu á tæringu í dælum við svo langa geymslu/kyrrstöðu. Ég hef spurt um þennan bremsuvökva á bensínstöðvum en enginn virðist kannast við hann?
Svar: Bremsuvökvi af gæðastaðli DOT/No. 116, merktur DOT 4 er yfirleitt talinn fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru varðandi diskabremsukerfi í nýjustu bílum. Dæmi: DOT 5 bremsuvökvi frá Esso hefur sömu eiginleika og svokallaður silikónbremsuvökvi, þ.e. minnsta rakadrægni og hæst suðumark (270 °C) og hann má blandast öðrum bremsuvökvum sem flokkaðir eru DOT 3 eða DOT 4. Shell Donax ZB hefur einnig sömu eiginleika og sílikónbremsuvökvi (DOT 5). Í einstaka bremsukerfum eru gúmþéttingar sem ekki þola silikón-efnasambönd. Fyrir þau kerfi er sérstakur syntetískur bremsuvökvi með sömu eiginleika varðandi rakadrægni og suðumark. Sá vökvi flokkast sem DOT 5.1 og má ekki blandast (silikón)bremsuvökva í flokki DOT 5. Þessi númer DOT 5 og DOT 5.1 hafa valdið misskilningi og mistökum af augljósum ástæðum. Vert er að benda á sérstakar upplýsingar í eigendahandbókum bíla um bremsu- og kælivökva.

Smurolían getur ráðið úrslitum
Spurt: Hvað er ráðlegt að keyra nýjan bíl lengi (marga kílómetra) á smurolíu af tegundinni Mobil 1 eða er ef til vill heppilegra að nota ódýrari olíu og endurnýja hana oftar?
Svar: Mín reynsla sl. 25 ár er sú að ég tel mig hafa sparað mikla peninga, bæði í rekstri og viðhaldi, með því að nota ódýrustu smurolíuna sem ég hef fundið (Comma) og endurnýja hana og smursíuna reglulega; annars vegar á 4000 km fresti á dísilbíl en hins vegar á 8000 km fresti á bensínbíl. Ég sé um olíuskiptin sjálfur á mínum bílum og fer með úrgangsolíuna í spilliefnamóttöku sveitarfélagsins.

Galloper-truflun - viðbót
Lesandi hafði samband vegna bréfs sem fjallaði um gangtruflun í Galloper með dísilvél (sem reyndist vera vegna loftleka). Hann vildi benda á að í þessum bílum væri önnur sía á eftir aðalsíunni, pínulítil sía sem væri inn í eða við olíuverkið. Væri trassað að skipta um aðalsíuna stíflaðist minni sían, sem er einskonar öryggissía, og gæti valdið gangtruflunum.

Kerrutengill á Dodge Ram
Spurt: Ég flutti inn Dodge Ram 2500, árgerð '01, sjálfskiptan með Cummins dísilvél. Ég þarf að tengja kerrutengilinn samkv. íslenskum reglum til að fá dráttarbúnaðinn skráðan. Á verkstæði var mér sagt að þetta væri 5 til 7 tíma vinna. Aðalega vegna þess að það þurfi að setja rofa fyrir þokuljós og leggja fyrir því.Hvar gét ég nálgast teikningar af þessum tengingum og er flókið að tengja þetta? Það er í bílnum stillir fyrir kerrubremsur. Get ég haldið honum þó ég setji ISO-tengil?
Svar: Engu er líkara en að í reglugerðum sé ekki gerður greinarmun á dreifiljósum (þokuljósum) og kösturum (fjarljósum). Rofa fyrir þokuljósin (sem ekki eru kastarar) má tengja um straumloku - reglurnar eru skýrðar í reglugerðinni "Búnaður ökutækja'' á www.us.is en þar eru einnig tengimyndir ISO-kerrutengla. Stillinn fyrir bremsurnar hefurðu óbreyttan - en þú þarft að leggja sérlögn frá bremsuljósarofanum um straumloku í bremsuljósið á ISO-kerrutenglinum (vegna þess hvernig amerísk bremsuljós virka). Frekari upplýsingar varðandi dráttarbúnað má lesa í þessari grein:http://www.leoemm.com/vagnar.htm

(17)
Bremsuvandamál
Spurt: Við erum með Mercedes Benz 309 árg. 1985, húsbíl með GMC hásingar úr Suburban. Vandamálið er að bremsupedallinn sígur niður með hnökri þegar stigið er þéttingsfast á hann og bílinn er í gangi. Það eru diskar að framan, borðar að aftan. Búið er að setja nýja höfuðdælu frá Benz og búið að ganga úr skugga um að ekki sé loft á kerfinu og enginn leki merkjanlegur. Þegar framkerfið er tekið úr sambandi og blindnippill settur í höfuðdæluna virðist allt vera eðlilegt með afturhjólakerfið. Nokkur ráð?.
Svar: Byrjaðu á að finna út í hvoru framhjólinu þetta er - það má gera með því að blinda barkann með bremsuborðahnoði. Þegar hjólið er fundið þarf að útiloka að loft geti verið í lögn frá höfuðdælu að hjóli, hjóldælu eða gúlpur á barka. Sé ABS-læsivörn í báðum hásingum er loftun mun meira mál og seinlegra verk en án ABS.

Raffræðileg ryðvörn?
Spurt: Mér var sagt frá einhverskonar rafmagns-ryðvörn fyrir bíla, sem á að vera sams konar og notuð sé í skipum með góðum árangri. Veist þú hvort slík tækni skilar árangri sem tæringarvörn í bíl?
Svar: Ryðtæring stáls er raffræðilegt fyrirbrigði - flutningur jóna frá jákvæðu skauti til neikvæðs. Þrátt fyrir þessa eðlisreynd hafa ýmsar aðferðir við að nýta hana gefist misjafnlega - af ýmsum ástæðum. Hún stenst fræðilega en verklega virðist hún sýnd veiði en ekki gefin, a.m.k. í bílum. Ford Motor Co. ætlaði einu sinni að nýta þessa eðlisreynd og snéri rafkerfinu í bílunum við: Um árabil voru Ford-bílar með umpólun, þ.e. plúspól rafgeymis tengdan í stellið en mínuspólinn sem kraft - en samkvæmt raffræðinni átti það að stöðva tæringuna. Af einhverjum ástæðum voru þessir Fordar engu minni ryðdósir. Reynt hefur verið að koma zinkþynnum fyrir hér og hvar í bíl - en samkvæmt eðlisfræðinni átti zinkið að tærast í stað stálsins (eins og það gerir í skipum - sé það á réttum stað) - en einnig það kom að litlu gagni.
Rafmagnstækið, sem á að stöðva jónaflutninginn og þar með tæringuna er dýrt. Hvort það skilar árangri kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár. Mér sýnist þetta vera fyrst og fremst heppilegt tæki fyrir sölumenn! Sjálfur myndi ég ekki borga neitt fyrir svona tæki (sem kostar líklega rúmlega 20 þús. kr.)

"Dauður'' Lancer
Spurt: Ég er með Lancer 1600 GLXI, árgerð 1994, sem fer ekki í gang. Hann drap á sér nokkrum sinnum en fór þó alltaf í gang aftur þar til nú að hann er alveg dauður. Ég er búinn að athuga bensínsíu og dælu og vélin fær nóg bensín. Hvað getur verið að?
Svar: Fái hann bensín - liggur beinast við að athuga neistann. Taktu nýtt kerti, spenntu það fast á vélina með krafttöng og tengdu það með þræðinum af fremsta kertinu í vélinni. Láttu svo starta og fylgstu með. Sé neistinn greinanlegur geta kertin verið ónýt. Sé neistinn daufur eða varla merkjanlegur getur kveikjulokið verið ónýtt (sé því til að dreifa) eða kertaþræðir ónýtir. Sé enginn neisti berast böndin að kveikjuheilanum eða módúlnum í kveikjunni - þann búnað þarftu að fá prófunarmældan (eða kaupa á partasölu).

(16)
Meira um "Check Engine-ljós''
Eigandi Chevrolet Trailblazer skrifaði fyrir skömmu vegna bilanaljóss, sem lýsti nokkra daga í senn, af og til. Bent var á að hugsanleg ástæðan gæti verið að bensínlokinu hefði ekki verið tryggilega fest eða að pakkning á því gæti hafa skemmst og læki en þá á bilanaljósið að lýsa. Til viðbótar má nefna að bilanaljósið getur einnig logað tímabundið vegna þess að fyllt hafi verið á geyminn með vélina í gangi. Hvorki bensín- né dísilvélar má hafa í lausagangi, sé það ekki nauðsynlegt, þar sem lausagangur veldur hlutfallslega mestri loftmengun (gildir einnig um stærstu flutningabíla).

Afgashiti
Spurt: Ég er með Toyota 4runner 3.0L turbo disel sem er með 3" púst og K&N loftsíu. Túrbínan gefur 12 psi þrýsting. Bíllinn er á 35" dekkjum og er ekki með lækkuð hlutföll. Upprunalegar dísur eru í vélinni eftir 100 þús. km. Hvert má hámarkshitastig afgass vera frá svona vél?

(15)
GM-dísill: Áhættuhópur
Spurt: Ég á GM pikköpp með 6,5 lítra dísilvélinni. Fyrri eigandi var búinn að lenda í miklum hremmingum vegna eldsneytiskerfisins, m.a. þurft að skipta tvisvar um olíumagnstýringu (Injection driver) auk þess að endurnýja olíuerkið. Er eitthvað sem ég get gert til að girða fyrir þessa bilun í eldsneytiskerfinu?

Svar: Flestar bilanir í 6,5 GM-dísilkerfinu frá Stanadyne virðast stafa af takmarkaðri kælingu rafeindabúnaðarins. Hér er ekki rými til að fara út í tæknihlið málsins (en um hana er fjallað á www.leoemm.com/taeknimal.htm). Um um dísilkerfi í nýrri USA-pallbílum gildir að þau nýta eldsneytisforðann í geyminum til að kæla innsprautubúnaðinn með stöðugu gegnumflæði með bakrás. Því skiptir máli að beita þessum bílum ekki undir álagi, t.d. við þungan drátt með hálftóman eldsneytisgeyminn. Þeir sem ekki fylla á geyminn fyrr en hann er næstum tómur taka, að mínu mati, óþarfa áhættu og það gildir ekki einungis um GM 6,5.

Cherokee startar ekki
Spurt: Cherokee 2,5tdi startar stundum ekki sem kemur sér afar illa - ekki síst þegar skroppið er út í búð. Rafgeymirinn er í lagi en eina hljóðið sem heyrist þegar lyklinum er snúið eru litlir smellir. En hafi maður þolinmæði startar hann yfirleitt aftur eftir hálftíma eða svo. Annars dugar ekkert annað en dráttur. Hver getur ástæðan verið?

Svar: Sennilegasta skýringin er sambandsleysi á kolum í startara vegna slits. Stundum má sannreyna þetta með því að dangla með hamri í startarann - ef hann virkar við það eru kolin uppurin. Hjá Bílanausti á Bíldshöfða (Villi heitir sérfræðingurinn í þeim varahlutum) á að vera til allt í þennan startara og jafnvel nýr startari á, til þess að gera, hagstæðu verði. Nú þegar útseldur tími á verkstæði kostar jafnvel 7000 kr. borgar sig tæpast að gera við startara, nema maður geti gert það sjálfur. (Lesandi hafði samband og benti á að í þessum Cherokee væri startarinn af tegundinni MMC, í honum væru síseglar sem væri viðkvæmur búnaður, t.d. gagnvart höggum og því gæti verið varasamt að slá í belg startarans með hamri. Hann bætti því við að oft væri nóg að endurnýja kolin og þrífa startarann/endursmyrja).

Pústhlífar sem skrölta
Spurt: Við eigum Toyota Corolla 1996 sem reynst hefur vel.
Getur þú sagt mér hvað hlífarnar gera sem eru yfir pústgreininni og pústinu nálægt greininni. Boltarnir eru búnir að éta sig í gegn og önnur er dottinn af og hin skröltir ógurlega. Er í lagi að fjarlægja þetta ?

Svar: Þér er óhætt að fjarlæga það sem eftir er af þessum hlífum - sú sem er yfir pústgreininni gengdi því hlutverki að flýta fyrir upphitun vélarinnar en sú sem er yfir rörinu, á eftir greininni, er að öllum líkindum til þess að hvarfakúturinn hiti ekki gólfið um of - en hafi hún ekki náð að bræða skósóla bílstjóra/farþega, eftir að hún losnaði, gerir hún tæplega nokkurt gagn lengur.
Gírkassi í Nissan KingCab
Spurt: Hvað borgar sig að gera þegar gírkassinn er dæmdur ónýtur í annars sæmilegum Nissan KingCab pikköpp af árgerð 1993? Og er eitthvað hægt að gera við grindina sem virðist vera hálffull af sandi/mold?
Svar: Fjárhagslega borgar sig tvímælalaust að farga 12 ára bíl við þessar aðstæður. Samkvæmt mínum upplýsingum kostar svona gírkassi 600 þúsund kr. nýr. Verð á partasölu er 50-75 þús. kr. Þú mátt reikna með 70-100 þús. kr. kostnaði á verkstæði vegna gírkassaskipta. Að mínu mati hefur ,,Íslenska ryðvörnin" yfirleitt náð að eyðileggja grindina í þetta gömlum bíl.
Meira um "Check Engine-ljós''
Eigandi Chevrolet Trailblazer skrifaði fyrir skömmu vegna bilanaljóss, sem lýsti nokkra daga í senn, af og til. Bent var á að hugsanleg ástæðan gæti verið að bensínlokinu hefði ekki verið tryggilega fest eða að pakkning á því gæti hafa skemmst og læki en þá á bilanaljósið að lýsa. Til viðbótar má nefna að bilanaljósið getur einnig logað tímabundið vegna þess að fyllt hafi verið á geyminn með vélina í gangi. Hvorki bensín- né dísilvélar má hafa í lausagangi, sé það ekki nauðsynlegt, þar sem lausagangur veldur hlutfallslega mestri loftmengun (gildir einnig um stærstu flutningabíla).

Afgashiti
Spurt: Ég er með Toyota 4runner 3.0L turbo disel sem er með 3" púst og K&N loftsíu. Túrbínan gefur 12 psi þrýsting. Bíllinn er á 35" dekkjum og er ekki með lækkuð hlutföll. Upprunalegar dísur eru í vélinni eftir 100 þús. km. Hvert má hámarkshitastig afgass vera frá svona vél?

Svar: þumalfingursreglan er að hiti afgass, mælt við inntak þjöppu, þ.e. við op pústports, sé ekki hærri en 700 °C. Yfirleitt er reiknað með að kælingin í gegn um þjöppuna sé um 90 °C. Of mikil kæling í þjöppu lækkar þjöppuþrýstinginn og til að verjast því pakka sumir grein og þjöppu með einangrandi álþynnu.


Mustang með kælivandamál
Spurt: Ég er með Ford Mustang árg 1968 og vélin er 351 "strókuð'' í 427 cid, þjappa var 11.5 og vökva-rúllu-ás með 0,56" lyftu. Nú var ég að skipta út heddum og ás, setti á hana ný AFR 225-álhedd í stað Edelbrock-hedds og nýjan ás fyrir "mekanískar" rúllur með 0, 678" lyftu. Eftir að ég setti þetta í vélina og hún nær eðlilegum hita fer vatnið að flæða upp úr vatnskassanum og í yfirfallskútinn og spýtist svo upp úr honum. Ég prófaði að hafa kassan opinn og fylgjast með vatninu. Þetta er eins og öldugangur; vatnið kemur og fer eins og alda. Ég hélt að það blési út í vatnsgang með milliheddi og skipti um þær pakkningar en það var sama sagan. Þá tók ég heddin af og skipti um heddpakkningar. Engin breyting. Hvað getur verið að? Nú er ég að nota rafmagnsvatsdælu, getur verið að hún sé ekki að snúast nógu hratt? Svo hef ég líka heyrt um lofttappa - ég er alla vega stopp með þetta. Hvað getur verið að?
Svar: Það er greinilegt að eitthvað teppir eðlilegt flæði í kælikerfinu. Af lýsingu þinni að dæma er eðlilegast að álykta að blási út í vatnsganginn. Þar eru tveir möguleikar; annars vegar með heddpakkningu en hins vegar vegna sprungu í heddi. En þar sem þú ert með ný hedd og búinn að skipta aftur um heddpakkningar sýnist mér það ósennilegt. Í milliheddinu er EGR-rás (pústhringrás). Rangar milliheddspakkningar, sem ekki passa á milli hedda og þess millihedds sem þú notar, gætu valdið því að pústi út í vatnsgang. Rafmagnsvatnsdæla getur varla valdið þessu, jafnvel þótt hún væri öfugt tengd. Þá berast böndin að vatnsrásinni í gegn um kælikerfið, þ.e. óvirkur vatnslás eða stíflun í vatnskassa. Ráð væri að taka vatnslásinn úr og kanna hvort það hafi áhrif á flæðið í gegnum vatnskassann. (Ath. 2 mánuðum seinna kom í ljós að ástæðan fyrir þessu var rafmótor, sem settur hafði verið á vatnsdæluna til að knýja hana í stað reimar - en gerði það ekki, þegar til átti að taka).


Bremsuvandamál
Spurt: Við erum með Mercedes Benz 309 árg. 1985, húsbíl með GMC hásingar úr Suburban. Vandamálið er að bremsupedallinn sígur niður með hnökri þegar stigið er þéttingsfast á hann og bílinn er í gangi. Það eru diskar að framan, borðar að aftan. Búið er að setja nýja höfuðdælu frá Benz og búið að ganga úr skugga um að ekki sé loft á kerfinu og enginn leki merkjanlegur. Þegar framkerfið er tekið úr sambandi og blindnippill settur í höfuðdæluna virðist allt vera eðlilegt með afturhjólakerfið. Nokkur ráð?.
Svar: Byrjaðu á að finna út í hvoru framhjólinu þetta er - það má gera með því að blinda barkann með bremsuborðahnoði. Þegar hjólið er fundið þarf að útiloka að loft geti verið í lögn frá höfuðdælu að hjóli, hjóldælu eða gúlpur á barka. Sé ABS-læsivörn í báðum hásingum er loftun mun meira mál og seinlegra verk en án ABS.

Raffræðileg ryðvörn?
Spurt: Mér var sagt frá einhverskonar rafmagns-ryðvörn fyrir bíla, sem á að vera sams konar og notuð sé í skipum með góðum árangri. Veist þú hvort slík tækni skilar árangri sem tæringarvörn í bíl?
Svar: Ryðtæring stáls er raffræðilegt fyrirbrigði - flutningur jóna frá jákvæðu skauti til neikvæðs. Þrátt fyrir þessa eðlisreynd hafa ýmsar aðferðir við að nýta hana gefist misjafnlega - af ýmsum ástæðum. Hún stenst fræðilega en verklega virðist hún sýnd veiði en ekki gefin, a.m.k. í bílum. Ford Motor Co. ætlaði einu sinni að nýta þessa eðlisreynd og snéri rafkerfinu í bílunum við: Um árabil voru Ford-bílar með umpólun, þ.e. plúspól rafgeymis tengdan í stellið en mínuspólinn sem kraft - en samkvæmt raffræðinni átti það að stöðva tæringuna. Af einhverjum ástæðum voru þessir Fordar engu minni ryðdósir. Reynt hefur verið að koma zinkþynnum fyrir hér og hvar í bíl - en samkvæmt eðlisfræðinni átti zinkið að tærast í stað stálsins (eins og það gerir í skipum - sé það á réttum stað) - en einnig það kom að litlu gagni.
Rafmagnstækið, sem á að stöðva jónaflutninginn og þar með tæringuna er dýrt. Hvort það skilar árangri kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár. Mér sýnist þetta vera fyrst og fremst heppilegt tæki fyrir sölumenn! Sjálfur myndi ég ekki borga neitt fyrir svona tæki (sem kostar líklega rúmlega 20 þús. kr.)

"Dauður'' Lancer
Spurt: Ég er með Lancer 1600 GLXI, árgerð 1994, sem fer ekki í gang. Hann drap á sér nokkrum sinnum en fór þó alltaf í gang aftur þar til nú að hann er alveg dauður. Ég er búinn að athuga bensínsíu og dælu og vélin fær nóg bensín. Hvað getur verið að?
Svar: Fái hann bensín - liggur beinast við að athuga neistann. Taktu nýtt kerti, spenntu það fast á vélina með krafttöng og tengdu það með þræðinum af fremsta kertinu í vélinni. Láttu svo starta og fylgstu með. Sé neistinn greinanlegur geta kertin verið ónýt. Sé neistinn daufur eða varla merkjanlegur getur kveikjulokið verið ónýtt (sé því til að dreifa) eða kertaþræðir ónýtir. Sé enginn neisti berast böndin að kveikjuheilanum eða módúlnum í kveikjunni - þann búnað þarftu að fá prófunarmældan (eða kaupa á partasölu).


(14)
Sjálfskipting heggur
Spurt: Ég hef nýlega eignast Ford Explorer, 4,0 l árgerð 2005. Bíllinn er ekinn 40 þús. km. Sjálfskiptingin heggur þegar hún skiptir, einkum þegar vélin er köld en þetta lagast þegar hún hitnar. Verst er þetta þegar skipt er úr P í R, þ.e. úr kyrrstöðu í afturábak og er afleitt standi bíllinn í brekku. Þá finnst mér skiptingin snuða; hún skiptir óeðlilega seint og ekki hnökralaust, einkum þegar vélin er köld. Hvaða ráð getur þú gefið mér?
Svar: Í ljósi þess að bíllinn er ekki meira ekinn skulum við vona að þú sért heppinn og að endurforritun tölvunnar, sem stýrir skiptingunni (TCM = Transmission Control Module), muni laga þetta. Dugi það ekki mun lestur bilanakóða væntanlega leiða í ljós hver bilunin er. Nokkur verkstæði, auk umboðsins, hafa tæki til að endurforrita og bilanagreina Ford-sjálfskiptingar t.d. IB á Selfossi, Mótorstilling í Garðabæ o.fl. (Væri bíllinn meira keyrður gæti orsökin m.a. verið ónýtur hjöruliður á aftara drifskafti).Í versta falli þarf að endurnýja ventlaboxið með uppfærðu (updated) boxi frá Ford. Þú færð það hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss.

Bilanaljós lýsir óreglulega
Spurt: Bíllinn minn er nýlegur Chevrolet Trailblazer með 4,2ja lítra 6 sílindra línuvélinni. Bílinn er, að því mér virðist, í fínu lagi nema að nokkrum sinnum hefur það gerst á undanförnum 3 mánuðum að "Check Engine-ljósið'' hefur kviknað og lýst í nokkra daga en svo slokknað t.d. í viku eða svo. Hvað telur þú að geti valdið þessu?
Svar: Það er áreiðanlega sjaldan sem bilanaljós hagar sér á þennan hátt - yfirleitt slokknar það ekki nema eftir bilanagreiningu (með kóðalestri), viðgerð og endurinnsetningu. Ef við gefum okkur að þetta sé ekki bíll sem hefur lent í flóðunum í Bandaríkjunum - en í flæddum bílum getur verið alls konar draugagangur, dettur mér einungis eitt í hug sem gæti valdið þessu og það er að bensínlokinu sé ekki alltaf jafn vel fest eftir áfyllingu. Eldsneytiskerfið í þessum bílum á að vera loftþétt þannig að bensín geti ekki gufað upp úr geyminum (mengunarvörn). Sé bensínlokið kviklæst eða þétting á því biluð getur bilanaljósið kviknað. Til öryggis ráðlegg ég þér að láta kóðalesa vélkerfið lýsi bilanaljósið.
Má nota nitró?
Spurt: Veistu hvort að notkun nítrós sé leyfileg á götum borgarinnar eða í götuskráðum bílum?
Svar: Lög banna hvorki notkun hláturgass (nítrós) sem eldsneytis-brunabæti í bensínbílum né própangas í sama tilgangi í dísilbílum að því tilskildu að útblástur standist mengunarmælingu.

Gírolía á motocross-hjól
Spurt: Ég er nýgræðingur í motocross. Hjólið mitt er nýtt Yamaha YZ með 250 kúbika tvígengisvél. Ég þarf að endurnýja smurolíuna á gírnum. Handbókin segir að nota eigi olíu flokkaða sem SAE 10w-30. Með hjólinu fékk ég gírolíu með SAE-flokkun 10w-40. Er mér óhætt að nota hana á gírinn?

Svar: 10w-40 í stað 10w-30 hefur 50% meira seigjusvið en byrjar á sama seigjumarki (10). Þetta þýðir einfaldlega að 10w40 þolir að hitna meira án þess að þynnast og er því enn betri kostur en 10w-30. Gæða-eiginleikaflokkunin skiptir einnig máli - flestar 10w-30-olíur er gæðaflokkaðar API: CF/CE/CD/SG (því aftar sem þessir bókstafir eru í stafrófinu því meiri gæðakröfur uppfyllir olían). Þessi gæðaflokkun á að vera gefin upp í handbókinni með hjólinu.


Kvartmíla
Spurt: Ég er með 9" Ford-hásingu sem ég ætla að setja undir Camaro LT1 '93 kvartmílubíl. Fjöðrunin er 3ja arma með togarm í miðjunni og þarf að færa festingar af 10-bolta GM-hásingunni og setja yfir á 9". Hve vandasamt er að sjóða þetta án þess að hásingin vindi sig? Hvaða suðuaðferð hentar? Gæti ég gert þetta sjálfur eða myndir þú mæla með einhverju fyrirtæki sem kann þetta og ekki er rándýrt?

Svar: Það er ekki sama hvernig þetta er gert né hvers konar rafsuðu er beitt. Álag getur orðið gríðarlegt í spyrnu og því mikilvægt öryggisatriði að þessi suða sé pottþétt og jafnframt þannig unnin að hún valdi ekki verpingi og aflögun hásingarinnar. Árni Brynjólfsson rennismiður og jeppabreytingamaður í Hafnarfirði (Renniverkstæði Árna) er vanur svona verkefnum og getur jafnframt sagt þér hvað það myndi kosta.

Brak í stýri
Spurt: Bíllinn minn sem er Toyota Avensis '98 hefur verið að þyngjast í stýri og stundum brakar í stýrinu með höggum. Ég er búinn að láta athuga vökvann á stýrisdælunni og reimina. Hvort tveggja virðist vera í lagi. Getur verið að stýrisvélin sé að gefa sig? Hversu alvarlegt getur þetta verið?

Svar: Ekki skyldi koma á óvart braki og bresti mest í vökvastýrinu hafi bíllinn staðið ónotaður um tíma, t.d. geymdur í saltroki við Leifsstöð. Þetta er nokkuð algengt í eldri bílum og er vegna þess að hjöruliður, sem er á milli stangarinnar frá stýrishjólinu og stýrisvélartappans er onýtur; hefur stirðnað við að í hann hefur komist vatn, óhreinindi og raki. Stundum má leysa málið til bráðabirgða með því að úða á liðinn ryðolíu og hreyfa stýrið um leið. Skipta þarf um þennan hjörulið. Í Avensis er hjöruliðurinn hluti af stýrisstönginni og kostar það stykki nýtt rúml. 30 þús. kr. Til viðbótar kemur kostnaður vegna vinnu, líklega 1,5-2 tímar.

Má draga bílinn?
Spurt: Minn sjálfskipti Opel Vectra '00 bilaði um 7 km ofan við Borgarnes. Mér var sagt að óhætt væri að draga bílinn í Borgarnes. En þegar til átti að taka var ekki nokkur leið að binda í bílinn nema skemma vindhlífina undir framstuðaranum því dráttaruglan, sem skrúfa átti í framstuðarann, virtist ekki passa. Því varð að flytja bílinn á vagni. Er það rétt að draga megi sjálfskiptan bíl þessa vegalengd?

Svar: Reglan er sú að ekki skuli draga sjálfskiptan bíl. Ástæður geta verið fleiri en ein sé um nýlega bíla að ræða og, sem dæmi, getur þurft sérstaka kunnáttu til að losa skiptingu úr P sé bíll rafmagnslaus. Um eldri sjálfskipta bíla gildir að þá mátti draga sé sérstökum skilyrðum fullnægt en þau eru gefin upp í handbók viðkomandi bíls. Eftirfarandi má hafa sem þumalfingursreglu um skilyrði: Áður en sjálfskiptur bíll er dreginn þarf að ganga úr skugga um að nægur vökvi sé á skiptingunni. Sé svo má draga bílinn með skiptinguna í N sé vélin látin ganga lausagang. Sé vélin ógangfær má ekki draga bílinn lengra en 30 km og ekki hraðar en 20 km/klst. Ástæðan er sú að gangi vélin ekki þegar bíllinn er dreginn, snýr drifið miðöxli skiptingarinnar og vökvadælu hennar með mjög takmörkuðum smurningi sem getur valdið hitnun og skemmdum. Varðandi dráttarugluna skaltu prófa hana aftur; - margir átta sig ekki á því að allar dráttaruglur, sem fylgja bílum, til að skrúfa í framstuðara, eru með öfugum skrúfgangi (til að þær losni ekki við átak).

Eðlilegt dekkjaslit
Spurt: Slitna framdekk á afturhjóladrifnum bíl ekki hraðar en afturdekk?

Svar: Nei þau eiga ekki að gera það sé stilling framhjólanna rétt - slitið á að að vera jafnara en á framdrifnum bíl. Það er aðallega rangt millibil (vegna slits) og of lítill þrýstingur í dekkjum (á að vera minnst 30-32 psi núorðið) sem valda því að framdekk slitna meira en drifhjól að aftan.

Ekta amerískur bíll
Spurt: Mér var að bjóðast ágætis eintak af Mercury Sable árg 1993. með V6 3,8 lítra vél, ekinn 110 þús. km. Ég fæ hann á mjög hagstæðu
verði en ég vildi samt áður fá álit þitt af þessum bílum varðandi endingu
gæði og bilanir.

Svar: Þetta eru ekta amerískir bílar og kunni maður að meta séreiginleika amerískra bíla eru þessir framhjóladrifnu Sable (sem er nánast sami bíll og Ford Taurus en stærri) á meðal þeirra bestu. Eins og með aðrar vélar sem eru með álheddum hefur tekist að búa til heddpakkningarvandamál hérlendis með landlægum trassaskap (kælivökvi ekki endurnýjaður á 3ja ára fresti). Skynsemin í að kaupa svona 12 ára gamlan bíl fer einfaldlega eftir því í hvers konar ástandi hann er - gangverðið er lágt, eftirspurn engin og því vondur ,,bisniss" ef þarf að leggja út í teljandi viðgerðarkostnað.

Eftirlegukind með blöndungi
Spurt: Blöndungur í Land Cruiser RJ70 (22R) 1988, sem ég keypti uppgerðan frá fyrirtæki í Florida er með öðruvísi raftengingum en sá sem var í bílnum. Blöndungurinn var settur í bílinn á verkstæði með raftengingum af þeim gamla. Hann virkar fínt þegar vélin er þanin í kyrrstöðu en þegar ég ek og kúpla frá og sleppi inngjöfinni þá slær vélin
ekki af strax niður í lausagang heldur eftir 2-3 sekúndur.

Svar: Að öllum líkindum eru raftengin vegna sjálfvirks innsogs og ef til vill þarf að stilla það - það kunna allir bifvélavirkjar. Ástæða þess að vélin helst á snúningi þarf ekki að vera vegna þessarra tengja - líklegri ástæða þess er að blöndungur/soggrein dragi falst loft - gæti hafa gleymst einhver tenging á soglögn eða gleymst að loka einhverju gati á blöndungnum - þau eru fleiri á þeim amerísku vegna mengunarbúnaðarins. Farðu aftur á verkstæðið. Þeir athuga hvort inngjafarstangir/barki/gaffall virki eðlilega og leita síðan að sogleka.

Um þrýsting í dekkjum
Spurt: Ég er að reyna finna út hvað mikið loft á að vera í dekkjastærð P235/70 R16 104S. Getur þú hjálpað mér?

Svar: Það fer eftir bílnum - ekki dekkjastærðinni - en 32 pund eru algegasti þrýstingur í nýrri bílum/dekkjum - hefur hækkað um 6-8 pund á 10 árum vegna tækniþróunar í dekkjum. Öruggasta leiðin til að eyðileggja dekk er að hafa í þeim of lítinn þrýsting auk þess sem of lítill þrýstingur (um 4-10 pund) rýrir aksturseiginleika og öryggi bíla og eykur eyðslu umtalsvert. Á öllum bílum eiga að vera upplýsingar um dekkjaþrýsting; á límmiða í hurða/dyrakarmi, innan á eldsneytisloki eða á sólskyggni auk þess sem þrýstinguinn er gefinn upp í handbók bílsins.

Land Cruiser eða Pajero
Spurt: Ég er að huga að jeppakaupum og eru 2 bílar sem ég hef augastað á annar er MMC Pajero árgerð 2000 með nýja laginu 3.2 dísill, sjálfskiptur, ekinn 130 þús. km og breyttur fyrir 33" en hinn er Land Cruiser 100 árgerð 1998, 4.2 dísill, sjálfskiptur, ekinn 144 þús. km og breyttur fyrir 36" (en er á 35") . Ég er svona að velta fyrir mér kostum og göllum þessara bíla og eyðslu. Hvað aálit hefur þú á þessum bílum?

Svar: Ég tel Pajero einhvern besta ferðabíl sem völ er á - þ.e. á öllum venjulegum vegum og samt lipran í þéttbýli. Valið fer talsvert eftir því hvers konar notkun þú ætlar bílinn fyrir: Sértu ferðamaður og leggir leið þína á hálendið er Land Cruiser 100 á 35/36 mjög traust og öflugt tæki. Það er nánast vonlaust að gefa upp eyðslu á breyttum jeppum - enginn þeirra er eins breyttur og munur á eyðslu getur verið verulegur á milli tveggja bíla sem líta nánst eins út. Ég myndi giska á að eyðsla svona breytts Land Cruiser 100 dísil gæti verið nálægt 17 lítrum í borgarakstri en ef til vill 13-16 í lengri akstri sé hann í góðu lagi. Pajero 3,2 er talsvert sparneytnari óbreyttur - spurningin er hvort þessi sé breyttur (hlutföll) fyrir 33" eða bara settur á 33". En ég gæti giskað á að hann væri 14 lítra bíll í borgarakstri en 11-12 lítrar í lengri akstri - sé hann í góðu lagi. Varðandi eyðsluna þá er sennilega öruggasta aðferðin að mæla hana með því að aka bílunum lengri leið, t.d. í Borgarnes eða á Selfoss.

Skoda eða Toyota ?
Spurt: Dóttir mín er að leita að notuðum bíl til að kaupa. Við erum að reyna að velja á milli þessa tveggja:
Skoda Fabia Comfort 1400, árg. 2000, ekinn 61 þús.
Toyota Corolla S/D Terra 1300, árg. 1999, ekinn 82 þús.
Hvaða skoðun hefur þú á þessum bílum varðandi áreiðanleika/endingu?

Svar: Endursöluvirði Toyota-bílsins er meira. Corolla með 1300 -vél er hvorki sérlega spennandi né skemmtilegur bíll akstri (ég kann betur við 1600-bílinn) og hann er heldur ekki eins laus við bilanir og margir virðast álíta en þjónustan þykir hins vegar góð. Skoda Fabia er þægilegri bíll og jafnframt bráðskemmtilegur í akstri; - gæði Skoda eru meiri en margur hyggur - en endursöluvirði er (enn) talsvert minna en á Toyota.

ABS-vandamál í Land Crusier
Spurt: Ég er nýbúinn að kaupa LandCruiser 80, árg. '94. ABS kerfið er að einhverju leyti ofvirkt því það kemur inn (pedallinn titrar) rétt áður en bíllinn stöðvast og er þá sama þótt bremsað sé rólega. Þetta virðist þó eingöngu gerast þegar bíllinn er í vinstri beygju. Ég hef ekki getað fengið neinar skýringar hjá sérfræðingum í Toyota á því hvað geti valdið þessu. Bíllinn er nýkominn úr aðalskoðun og ekkert fannst að bremsukerfinu; hann bremsar jafnt og eðlilega og ABS-ið virtist virka eðlilega á prófunarvölsunum. Þessi ofvirkni kemur hinsvegar fram á þurru malbikinu. Kannt þú einhverja skýringu á þessu?

Svar: Toyota-sérfræðingar, eins og aðrir eru tregir til að veita ókeypis upplýsingar enda skapa upplýsingar litlar tekjur. Af lýsingu þinni að dæma get ég giskað á eftirfarandi: ABS kerfið á að virka frá og með ákveðnum hraða þegar dregið er úr hraða með bremsun. Ástæða svona ,,ofvirkni" er að öllum líkindum sú að skynjari eins hjólsins er, af einhverjum ástæðum óvirkur eða hættir að telja áður en þessum hraðamörkum er náð; - kerfið túlkar það sem læst hjól og bregst við - jafnvel á þann hátt sem þú lýsir. Gefðu þér að einn nemi sé bilaður, sambandslaus, laus í festingunni eða virki ekki vegna skemmds tannhrings - ef engin merki eru sjáanleg um skemmdir og ekki greiningarbúnaður fyrir ABS við hendina er bara að kaupa ABS-nema og prófa með útskiptum.

Eyðsla Ford F-150
Spurt: Mig langar að forvitnast um Ford F-150 með 5,4L bensínvélinni.
Hvað er sá bíll að eyða í borgarsnatti? og hvað er hann að fara með
í langkeyrslu? Ég hef heyrt að fá megi forrit í tölvuna sem minnkar eyðsluna! Er eithvað til í því? Ég er spá í að kaupa svona bíl og vil vera viss um að kaupa ekki köttinn í sekknum. Er bilanatíðnin há í þessum bílum? Hvar stendur maður varðandi þjónustuna þegar bíllinn er ekki fluttur inn af umboðinu?

Svar: Þú mátt reikna með 14-15 lítrum í þéttbýli - 10-12 á langkeyrslu sé ekið með sparneytni í huga. (Ath. uppgefin eyðsla frá framleiðenda (EPA-tölurnar) er einungis staðlað viðmið sem nota má til að bera saman mismunandi bíla en ekki raunveruleg eyðsla sem háð er aðstæðum, veðri og aksturslagi. Hvassviðri eykur t.d. eyðslu vegna þess hve stórir pallbílar taka á sig mikinn vind. Afturhlerinn einn getur aukið eyðslu um 5-10% í mótvindi - með því að nota net í stað hlerans má koma í veg fyrir þessa eyðsluaukningu - pallhús dregur úr eyðslu af þessum sökum. Aksturslag ræður meiru um eyðslu pallbíls en fólksbíls, t.d. eykst eyðsla hlutfallslega meira með hraða - t.d. er um 13% minni eyðsla á langkeyrslu sé ekið á 85-95 í stað 100-110 km/klst). Tölvukubbar eru til sem auka afl og dráttarþol - hef ekki heyrt af kubbi sem á að auka sparneytni eina og sér. Samkvæmt reynslu í Bandaríkjunum er bilanatíðni Ford pallbíla lág - þetta eru einfaldir, sterkir og vel frágegnir bílar (enda metsölubílar). IB á Selfossi hefur flutt inn flesta þessara bandarísku pallbíla og er með varahluta og viðhhaldsþjónustu fyrir þá.
Ath. Við þetta má bæta eftirfarandi: Ítrekað er að eyðsla ræðst af ástandi bíls, aksturslagi, aðstæðum/notkun. 10% meira ummál dekkja þýðir t.d. að eyðsla mælist meiri en hún er í raun og veru. Eigandi F-150 með 5,4 lítra vélinni sendi t.d. bréf og sagðist mæla eyðslu síns bíls talsvert meiri en hér er nefnt, t.d. 20-21 lítra innanbæjar og 14-16 lítra á þjóðvegi.

Pillur lækna ýmislegt
Spurt: Mér eru boðnar töflur sem setja skal út í bensín eða dísilolíu og eru sagðar hafa þá töfravirkni að draga úr eldsneytisnotkun bíls - minnst 15% en hugsanlega allt að 25%. Verðið er 5000 kr. fyrir 20 töflur sem eiga að nægja fyrir 1.400 lítra. Hvaða álit hefur þú á þessu máli?

Spurt: Í fyrsta lagi finnst mér þetta bráðfyndið. Það er eitthvað til sem nefnist ,,blekkingarvísindi" og hópur Nigeríumanna sagður sérhæfa sig í þeim, jafnvel að því marki að geta talið alsgáðu fólki trú um að séu pappírsstrimlar settir í umslag, ásamt einhverju dufti, verði miðarnir að peningaseðlum! Þessi vísindi eru ekki ný - þúsund ára kínverskt spakmæli segir að jafnvel steinar verði heitir, sé setið á þeim nógu lengi. Virkja má þá trú sumra að pillur lækni flest - t.d. láta þá kaupa pillur fyrir 5.000 krónur til að setja í eldsneytisgeyminn til að lækna þorsta bílvélar! Í undirmeðvitundinni finnst viðkomandi að hann hafi mælt aukna sparneytni frekar en að viðurkenna, það sem hann grunar, - að forvitnin hafi orðið til þess að hann lét ginnast. Það eina sem ég tel öruggt í sambandi við þessar töflur er að sala á þeim eykur hagvöxt .... Prívat og persónulega myndi ég ekki borga eina krónu fyrir svona töflur en það segir ef til vill meira um mig sjálfan en töflurnar?

Ófullnægjandi dekkjaþjónusta
Spurt: Ég er með Kia Sportage 2005. Sumardekkin voru sett á hann í ösinni í miðjum apríl hjá VDO Borgardekk. En þau eru 235/55/R17. Litlu síðar tók ég eftir titringi á stýri og fór með bílinn aftur til þeirra og þeir voru ekkert nema leiðindin en tóku að lokum dekkin að framan og jafnvægðu þau aftur en þverneituðu að skoða dekkin að aftan. Þegar ég fer að skoða afturdekkin sé ég að á vinstra hjóli eru 250g af lóðum en á því hægra 50g. Telst þetta eðlilegt verklag?
Svar: Sá sem notar 250g af lóðum til að jafnvægja hjól af þessari stærð kann ekki á jafnvægingarvél (þetta er fjórðungur úr kg!): Hafi felga eða dekk verið skemmd átti ekki að jafnvægja hjólið nema gera umráðamanni bílsins viðvart áður og þá einungis með samþykki hans. Annir á dekkjaverkstæði afsaka ekki svona vinnubrögð.

Audi-vandamál
Spurt: Ég er, eða var, mjög ánægður eigandi að Audi A6. Bíllinn er mikið keyrður, en vél og allur búnaður og viðhald í besta lagi, m.a. hafði fjarstart verið endurnýjað fyrir ári. Samt tók hann upp á að drepa á sér á keyrslu og fer þá ekki í gang nema augnablik í senn og stöðvast aftur. Þetta gerist óreglulega og bíllinn óaðfinnanlegur á milli. Þegar skipt var um tímareim á verkstæði umboðsins bað ég sérstaklega um að þetta yrði skoðað í leiðinni. Þegar ég tók bílinn aftur, virkaði allt vel fyrstu 2-3 klst. en fór svo aftur í sama farið. Eftir flutning aftur á verkstæðið fór hann í gang á fyrsta starti og þeir sögðust ekkert finna að. Bíllin var í lagi í 4 klst. Eftir ábendingu lét ég skipta um svissbotninn en það kom fyrir ekki. Nú er bíllinn búinn að vera ónothæfur í um 3 mánuði og á verkstæðinu finnst mér menn lítið vilja við mig tala. Hvað getur maður gert í þessari stöðu?

Svar: Þær bilanir sem erfiðast er við að eiga eru af þessari gerð (bíllinn er í lagi þegar komið er með hann á verkstæði) en einmitt af þeim ástæðum geymir vélkerfið bilanakóða í minni). Hefði ekki verið búið að endurnýja fjarstartið hefði það verið það fyrsta sem kæmi í hugann. Sá búnaður drepur á vélinni eftir lausagang í ákveðinn tíma og hann drepur einnig á vélinni séu engar dyr opnaðar innan ákveðins tíma eða ekki svissað á með lykli. Í þessum fjarstart-búnaði koma margir rofar, skynjarar og breytur við sögu og bilun getur lýst sér eins og þú tiltekur, t.d. lélegt samband frá hurðarrofa/skynjara eða stýribox fjarstartsins bilað. Maður myndi byrja á að taka fjarstartið úr sambandi og tengja allt eins og það væri ekki til staðar - en það krefst þekkingar á þessu kerfi. Prófun staðfestir þá eða útilokar rafstartið. En þar sem fjarstartið er nýlegt skulum við láta það liggja á milli hluta. Lýsing þín (óreglan) gæti verið dæmigerð fyrir ónýtan toppstöðunema (crank-sensor). Eðlilegast er að byrja á að bilanagreina vélkerfið með kóðalestri og skrýtið hafi það ekki verið gert með tilliti til verkbeiðninnar. Sé þessi nemi bilaður á kóði að vera í minni tölvunnar þótt vélin gangi eðlilega þegar greiningin fer fram. (Því má bæta hér við að í framhaldi af þessari fyrirspurn var kerfið bilanagreint hjá Bílvogi í Kópavogi; kóðalestur leiddi í ljós að toppstöðuneminn (crank-sensor) olli vandamálinu. Fleiri bilanir svipaðar þessari er fjallað um á www.leoemm.com/gagnabanki.htm).

Um aksturslag ...
Spurt: Ég hef lengst af ekið beinskiptum bílum (hátt í hálfa öld ) og notað þyngdaraflið undan brekku, þ.e.a.s. sett bílinn í hlutlausan gír. (fríhjólað). Ég hef ávallt aukið snúning vélar þegar ég set í gír á ný til að minnka álag á gírkassa (sbr. svonefnda tvíkúplun fyrir daga samhæfðra gírkassa). Síðustu þrjú árin hef ég að mestu ekið sjálfskiptum bílum og haldið sama aksturslagi, þ.e. fríhjólað undan halla. Engin hefur getað sagt mér hvort slíkt aksturslag geti skemmt sjálfskiptinguna. Nú vil ég beina þeirri fyrirspurn til þín, hvort svo sé?

Svar: Af ákveðnum tæknilegum ástæðum (m.a. til að girða fyrir ofhitnun) fríhjóla sjálfskiptingar þegar átaki er létt nema valinn sé sérstakur gír með viðhald. Ég fæ ekki séð að það geti skaðað sjálfskiptingu þótt hún sé sett í N þegar farið er undan halla, haldi bíllinn ferð (vegna þeirra sem koma á eftir) og vélin sé í gangi (sem er nauðsynlegt til að dælan haldi eðlilegum vökvaþrýstingi á núningsflötum) - en ég sé heldur engan tilgang með því að setja í N. Það sem skiptir máli varðandi akstur sjálfskipts bíls núorðið er að taka yfirgírinn/túrbínulæsingu af (sé takki til þess) þegar ekið er undir álagi, t.d. upp brekku og þegar dreginn er vagn.

Högg og skruðningar í Golf
Spurt: Ég er með VW Golf 1997 ekinn 88 þ. Þegar ég set hann í bakkgír og bakka "harkalega", þ.e. gef kúplinguna upp hratt, finnst mér eins og að einhver öxull gangi út og sé við það að detta úr sambandi. Þetta gerist ekki þegar ég slaka kúplingunni upp rólega og bakka og það allt í lagi þegar ég ek áfram. Það er nýbúið að skipta um kúplingu og tímareim. Hefur þú hugmynd um hvað þetta gæti verið ?
Svar: Mig grunar að sá sem skipti um kúplinguna hafi ekki gætt þess að kíla öxlana aftur inn í drifið þannig að splitthringurinn, sem heldur þeim inni, hafi náð að smella í raufina. Þegar þú bakkar, eins og þú lýsir, snýr vélin upp á sig í húddinu og öxullinn nær að dragast langleiðina út úr rillunum. Láttu viðkomandi athuga málið - vonandi í tíma áður en öxull/öxlar eyðileggjast - en það getur orðið dýrt dæmi.

Ford Fiesta sem hikar og hikstar
Spurt: Ford Fiesta ´99 (eldri 1300-vél með einum spíss), er keyrður um 130 þús km. Vélin missir út takt og takt í lausagangi en þó ekki reglulega. Í akstri gengur vélin eðlilega þar til inngjöf er aukin, t.d. upp Ártúnsbrekkuna, þá hikstar hún og fer jafnvel að ganga á þrem sílindrum. Gangtruflunin finnst á lægri snúning, undir 3200 sn/mín, en virðist hverfa þar fyrir ofan. Truflunin eykst þegar vélin hefur náð fullum hita. Þetta átti sér engan aðdraganda, ég tók eftir þessu einn daginn og sólahring seinna var hann eins slæmur eins og hann er nú. Bilanagreining með tölvu (7 þús, kr.) skilaði engum árangri. Ég er búinn að skipta um kerti og þræði en án árangurs.

Svar: Orsök gangtruflunar, þegar álag eykst á vél og varir á ákveðnu sviði snúningshraða, er annaðhvort vegna ónógs eldsneytis (veikrar blöndu) eða veiks neista. Sogleki, stífluð bensínsía, bilaður súrefnisskynjari (veik blanda) og biluð bensíndæla kemur til greina en hins vegar kveikubúnaður, t.d. kveikjlok (sé því til að dreifa) eða háspennukefli (þar sem búið er að skipta um kerti og þræði). Byrjaðu á að úða bensíni yfir soggreinina með vélina í lausagangi. Breytist gangurinn dregur vélin falskt loft (soggreinarpakkning, sogslanga) en við það veikist bensínblandan - á meiri snúningshraða munar minna um loftlekann og truflunin virðist hverfa (sogleki kemur ekki alltaf fram við bilanagreiningu, þ.e. kóðalestur en sést oftast á skauti kertanna sem verða ljósgrá - veikur neisti svertir hins vegar skautin). Bensínsíu þarf að endurnýja með 20-25 þús. km millibili (sjá handbók). Lesandi Vefsíðu Leós bætir við þetta sinni reynslu af svipaðri gangtruflun í Escort (sama vél): Lenti í þessu sama með Eskort 97. Eftir mikla leit ákvað ég að skipta um samtengi sem voru fest við hvalbakinn með plastklemmum. Varð að klippa klemmurnar og hólkinn sem hélt utan um vírana utanaf kappli til þess að lengj vírana fyrir nýja tengið.Þá kom bilunin í ljós, brunninn vír, klemman hafði
kramið einn vírinn í sundur að hluta og orsakað brunann. Reyndar var líka spansgræna í samtengjunum.

Dauf ökuljós
Spurt: Ég á 1993 árgerð af Ford Explorer. Mér finnast ökuljósin daufari en eðilegt er, a.m.k. lýsa þau ekki vel fram á veginn í myrkri og virka gulleit. Engin athugasemd var gerð vegna stillingar ljósanna í síðustu skoðun. Rafgeymirinn er nýlegur og hleðslumælir sýnir eðlilega hleðslu/spennu. Væri hægt að setja sterkari perur í ljósin eða perur af annarri gerð?

Svar: Í ökuljósunum eru halógen-perur af sérstakri gerð (Ford) sem auðvelt er að skipta um. Lýsi lági og hái geislinn á báðum ljóskerjum og séu engar sjáanlegar skemmdir á speglunum myndu nýjar halógen-perur varla leysa vandann svo vel sé. Yfirleitt er afl pera í ökuljósum tiltekið samkvæmt reglum og ekki leyfilegt að nota öflugri perur (t.d. er 12 volta H4-halógen-pera 60/55 vött). Á markaðnum eru halógen-perur sem hafa 20-40% meiri ljósstyrk (,,gullperur"). En áður en þú ræðst í að endurnýja perurnar, sem kosta talsvert, skaltu skoða ljóskerin. Þau eru úr plasti og sé gegnsæa hlífin orðin gráleit (mött) er það líklegri orsök lakrar lýsingar; - matt pólýkarbonat-plast rýrir ljósstyrk verulega. Með slípimassa, eins og notaður er til að endurgljáa bílalakk, má gera ljóskerin glærari og auka þannig ljósstyrkinn.

Stýrisvél sem lekur
Spurt: Vökvastýrisvélin í rosknum fólksbíl lekur. Á verkstæði er mér sagt að stýrisvélin sé ónýt og ekki sé hægt að skipta um þéttingar í henni heldur þurfi að fá nýja eða endurbyggða stýrisvél. Vandinn er sá að jafnvel þótt ég fyndi nothæfa stýrisvél á partasölu yrði heildarkostnaðurinn meiri en gangverð bílsins. Er ekki til efni sem stöðvar svona leka?

Svar: Til eru efni í bílabúðum og á bensínstöðvum sem eiga að geta stöðvað leka í stýrisvél. Ég mæli ekki með notkun þeirra nema stýrisvélin hafi verið metin ónýt. Kemísk innihaldsefni virka á þann hátt að þéttingar bólgna upp. Hvort þinn vandi verður leystur tímabundið með slíku efni fer eftir því hve lekinn er mikill, þ.e. hve mikið slitnar þéttingarnar eru í stýrisvélinni. Þessi efni eru yfirleitt ertandi, ef ekki eitruð og geta því verið hættuleg. Því skyldi nota hlífðarhanska og geyma efnið ekki á glámbekk.Sé stýrisvélin ónýt geturðu prófað að setja svo sem eina tappafylli af bremsuvökva saman við stýrisdæluvökvann - stundum stöðvar það leka tímabundið.

Óreglulegur lausagangur í Skoda
Spurt: Skoda Favorit 1300 1995 gengur óreglulegan lausagang eins og vélin sleppi úr, en sé gefið inn virðist allt vera í lagi. Kerti eru ný og búið að mæla upp kveikjukerfið sem virðist vera í lagi og eyðslan er ekki óeðlileg. Hvað getur valdið svona gangtruflun?

Svar: Þessi vél er með háspennukefli fyrir hvert kerti og án kveikju og því án kertaþráða. Líklegasta skýringin á gangtrufluninni í lausagangi er lek pakkning á soggreininni (soggreinin laus og pakkningin þá ónýt). Þú getur fundið út á hvaða sílindra pakkningin er lek með því að aftengja einn og einn spíss með vélina í lausagangi. Sá spíssinn sem minnst munar um við aftengingu er á þeim sílindra sem dregur falskt loft. Annað næstum óbrigðult ráð til að staðfesta sogleka við óreglulgan lausagang er að hafa bensín í dælubrúsa og úða yfir soggreinina. Breytist lausagangurinn við það dregur vélin falskt loft. Ath. Fleiri tilfelli þar sem gangtruflanir koma við sögu er að finna á www.leoemm.com/gagnabanki.htm

Amerískt mælaborð
Spurt: Ég keypti VW Touareg frá Bandaríkjunum. Bíllinn er að flestu leyti í samræmi við evrópska staðla nema mælaskífa hraðamælis sýnir mílur og vatnshitamælis Fahrenheit-gráður. Spurning mín er þessi: Veist þú hvar ég fæ evrópskar skífur fyrir mælaborðið og hversu mikil vinna er að skipa um þetta? Getur óvanur en handlaginn maður breytt þessu sjálfur eða þarf fagmann/verkstæði?

Svar: Ég þekki þetta ekki í Touareg sérstaklega en tel þó sennilegt að mælaborðið sé af sams konar hönnun og í flestum bílum núorðið en þá er sitt hvort mælaborðið fyrir evrópska og ameríska kerfið og skipta þarf um mælaborð, þ.e. mælaeininguna. Í sumum tilvikum er móðurtölvan endurforrituð fyrir metra-kerfið. Geti umboðið ekki aðstoðað þig varðandi mælana skaltu hafa samband við IB á Selfossi - þeir flytja inn m.a. þessa bíla frá Bandaríkjunum og hafa leyst svona mál. Varðandi síðasta hluta spurningarinnar: Ég myndi ekki hafa áhyggjur af hitamæli með Fahrenheit-gráðum. Laghentur maður getur margt og sé hægt að ná mælaeiningunni í sundur verður flinkum teiknara ekki skotaskuld úr því að setja km-skala inn á hraðamælinn. Hvort það fyrirtæki borgi sig er svo annað mál.

Suzuki Vitara
Spurt: Keypti nýlega Suzuki Vitara, árgerð 1999, ekinn 83.000 km. Blár reykur kemur 3-5 sek eftir að vélin er gangsett. Bæta þarf smurolíu á vélina vikulega.Kælivökvinn virðist einnig hverfa óeðlilega hratt. Ég hef líka orðið var við vatnsleka úr pústinu. Smit hafði áður gert vart við sig í ventalokspakkningu en gert var við hana rétt áður en ég keypti bílinn. Hef einnig fundið fyrir rakalykt af miðstöðinni. Gangurinn er nokkuð góður. Getur verið að heddpakkningin sé farin?

Svar: Lýsingin gæti átt við heddpakkningu sem er byrjuð að leka. Þegar kælivökvinn hefur ekki verið endurnýjaður á 2-3 ára fresti eins og framleiðandi bílsins mælir fyrir um (sér-íslenskur trassaskapur verkstæða og eigenda) tærist heddið og pakkningin byrjar að leka á 6. ári og/eða við 90 þús. km - en þetta er nánast ,,klassískt" Vitara-vandamál. Oft eru einkenni lekrar heddpakkningar loftbólur í yfirfallskúti þegar vél er gefið inn í lausagangi. Blái reykurinn bendir til að heddpakkningin geti verið farin á milli smurrásar og sílindra en getur einnig verið vegna ónýtra ventlaleggsþéttinga. Það getur bifvélavirki staðfest með því að ,,lesa" kertin eða með þjöppumælingu. Varðandi miðstöðina (rakalyktina) er líklegt að miðstöðvarhitaldið sé tært og byrjað að leka - það er einnig orsök áðurnefnds trassaskapar (hitaldið færðu að öllum líkindum hjá Gretti-vatnskössum á Vagnhöfða). Athygli er vakin á að eldri svör eru birt á www.leoemm.com (Brotajárn) og nota má innbyggða leitarvél til að finna tilfelli þar sem heddpakkning kemur við sögu.

Eftir langa geymslu
Spurt: Ég hef áhuga á að kaupa Cadillac Eldorado, árgerð 1991, sem legið hefur í dvala sl. 10 ár í geymslu og á því tímabili aldrei verið hreyfður né startað. Þegar ég fer og kíki á hann þá er varla viturlegt að ætla að reyna að koma honum í gang? Hvað ber að varast? Ætli það sé ekki allt orðið pikkfast? Hvaða ferli þarf bíllinn að fara í gegnum áður en hann verður ökufær á ný?

Svar: Þú mátt reikna með að bensínið á tanknum sé ónýtt. Tappaðu því af og endurnýjaðu með 10 lítrum. Sé smurolían á vélinni áberandi dökk þarf að endurnýja hana. Hafi bíllinn staðið inni þennan tíma er eins líklegt að vélin snúist. Prófaðu gangsetningu með nýjum geymi. Snúist vélin eru 90% líkur á að hún fari í gang hafi hún verið í lagi þegar bílnum var lagt. Eftir að hafa farið í gang og náð að hitna eðlilega er smurolían endurnýjuð ásamt loftsíu og bensínsíu. Snúist vélin hins vegar ekki er nauðsynlegt að taka vélina upp - ekki borgar sig að reyna að losa hana öðru vísi - það myndi einungis auka kostnaðinn við upptekt.

BMW 750 V12
Spurt: Ég er með BMW 750 '91 ek. 225 þús. Vél: V12, 5 lítra. Vélin lekur olíu, og ég sé ekki hvaðan. Er óhætt að setja þéttiefni á vélina? (efni sem selt er í litlum dollum á bensínstöðvum). Miðstöðin hitar illa þótt hún heyrist blása - í stað þess að eyða móðu af framrúðu virðist hún auka móðuna og gufa stígur upp frá blástursopi við framrúðu. Svo er gangurinn óreglulegur fyrst eftir gangsetningu á morgnana... Þá er titringur í stýri á um 80 km/klst. og þegar stigið er á bremsuna. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Olíulekinn gæti verið vegna lélegra ventlalokspakkninga eða vegn tepptrar öndunar á vélinni. Ég hef aldrei vitað svona efni gera minnsta gagn við að stöðva olíuleka - en hver veit? Miðstöðvarhitaldið virðist vera lekt/ónýtt. Óreglulegur gangur kaldur - geta verið ótal ástæður - bilanagreining í tölvu er eina rétta leiðin. Titringur í stýri er vegna ójafnvægis, væntanlega hjóls en titringur þegar bremsað er getur verið vegna skekkts bremsudisks - en þeir skekkjast stundum sé felgubolti ofhertur með loftlykli - oft vegna þess að ekki er hert í áföngum sikk sakk til að jafna herslunni.

Roskinn Hyundai Sonata
Spurt: Ég hef verið að leita að ódýrum notuðum bíl og er að spá í Hyundai Sonata 1994, vél V6, 3ja lítra, SS, ekinn 165.000 km. sem ég fann á bílasölu. Þetta er stór og rúmgóður bíll af Ameríku-týpu fyrir lítinn pening. Hvernig hafa þessir bílar reynst?
Svar: Reynsla eigenda af bílum frá Suður-Kóreu fer dálítið eftir eigendunum sjálfum - þeir sem eru sæmilega laghentir, hugsa vel um bíl og gera sjálfir við smærri bilanir hafa yfirleitt góða reynslu af þessum bílum. Um Hyundai gildir að þeir bílar hafa verið að batna frá og með 2000 - betri frágangur hefur fækkað kvörtunum undan ýmsum smærri agnúum. 1994 árgerð af Sonata, ekinn 165 þús, er komin á alvarlegt viðhaldsstig, eins og aðrir jafn gamlir bílar, og sumir vildu sennilega fá greitt fyrir að taka við þannig bíl, enda viðbúið að komið sé að endurnýjun ýmissa dýrra hluta svo sem alternators, vatnskassa, startara, vatnsdælu, bremsulagnar, þurrkudrifs, stýrisvélar o.s.frv. Það er umhugsunarvert að Sonata 1994 skuli þó vera á markaðnum sem notaður bíll - þú munt ekki finna marga evrópska bíla í þessum stærðarflokki á bílasölum sem segir meira en langt mál um gæði Hyundai!

Um "frostlög''
Spurt: Ég á Volvo S60 og vil forðast ótímabæra og dýra heddðakkningarviðgerð. Í handbókinni er sagt að við reglulega endurnýjun skuli einungis nota frostlög frá Volvo. Hvað hefur hann umfram venjulegan frostlög?

Svar: Frostlögur nefnist núorðið kælimiðill þar sem hann er á kerfinu allan ársins hring. Auk þess að varna því að frjósi á vél er suðumark kælimiðils hærra en vatns og undir þrýstingi er kæligeta kerfisins því meiri en væri á því vatn. Kælimiðill inniheldur efnasambönd sem gera það að verkum að efnahvörf milli hans og áls (hedd) verða minni en ef notað væri vatn. Þessi efnasambönd virka takmarkaðan tíma; kælimiðill súrnar og tæring áls verður við það örari. Á markaðnum er kælimiðill af mismunandi gæðum með mismunandi tæringarþol. Samkvæmt staðli á rauður kælimiðill að hafa tæringarvörn sem virkar um 66% lengur en tæringarvörn ódýrari græns kælimiðils. Það þýðir að veiti grænn kælimiðill tæringarvörn í 3 ár veitir sá rauði sambærilega vörn í 5 ár. Tilgangur bílaframleiðanda með því að mæla með ákveðnum kælimiðli er væntanlega sá að tryggja sem besta tæringarvörn.

CO-gildið of hátt
Spurt: Ég er með aldraðan eðlavagn MB 280 E sem ég nota bara á sumrin. Vélin er með mekanískri innsprautun og vandamálið er að CO-gildið mælist of hátt í skoðuninni og það virðist ekki vera hægt að stilla það þótt vélin virðist vera í ágætu lagi . Bensín- og kveikjukerfi voru yfirfarin í fyrrahaust og þá var skipt um bensínsíu og loftsíu auk smursíu og smurolíu. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Mekaníska innsprautukerfi nefnist K-Jetronic (frá Bosch) og einnig CIS-kerfi til aðgreiningar frá rafeindastýrðri innsprautun. Hætt er við því að ruglað sé saman tveimur stilliskrúfum: Önur er fyrir venjulegt skrúfjárn og stjórnar snúningshraða í lausagangi. Hin stýrir blöndunni og þar með CO-gildinu í lausagangi og er sú fyrir sexkant og er niðri í stykkinu á milli spjaldhússins og deilisins. Um þetta kerfi gildir að blönduna verður að stilla frá veikri í sterka blöndu en ekki öfugt. Sé blandan of sterk (of hátt CO-gildi) er sexkantskrúfunni snúið rangsælis þar til blandan verður of veik og síðan réttsælis, örlítið í senn, þar til hún telst rétt. Bensínið sem selt hérlendis þolir takmarkaða geymslu. Gamalt bensín brennur með hærra CO-gildi en nýtt. Þetta er vert að hafa í huga þegar fornbíll er annars vegar.

7-manna bíll?
Spurt: Ég er að leita mér af góðum fjórhjóladrifnum 7 manna bíl, helst með þægilegum og góðum sætum, viðhaldslitlum og sterkum, 2004, 2005 eða nýjum. Með hverjum myndir þú mæla?

Svar: Nánast allir 7-manna jeppar eru 5+2 =7manna en það þýðir að 2 öftustu sætin eru ekki nothæf fyrir fullorðna nema í styttri ferðum. Einn jeppi sker sig þó úr í þessu sambandi en það er nýi Land Rover Discovery - hann er raunverulegur 7-manna bíll fyrir 7 fullorðna (en mjög lágt undir hann óbreyttan). Þú getur lesið um þetta í Bílaprófunum á www.leoemm.com (um Nissan Pathfinder og Land Rover Discovery).

Rétt magn smurolíu á Porsche 911
Spurt: Keypti í vetur 30 ára gamlan Porsche 911 frá Þýsklandi - gullfallegan bíl. Nú var ég að fara að setja hann aftur á götuna eftir vetur í bílskúrnum. Einhver olía hafði lekið frá vél og þegar ég athugaði
kvarðann var hann alveg þurr. Setti tæpa 2 lítra á, en kvarðinn var enn nánast þurr. Legg ekki í gangsetningu við svo búið. Er ég að gera tóma vitleysu - eða á ég að bæta enn meiri oíu á vélina?

Svar: Eitt af því hættulegasta sem kemur fyrir flatar vélar er yfirfylling smurolíu sem þá nær upp fyrir stallinn, lekur inn í lárétta sílindra og upp í brunahólf sem getur valdið því að heddið springur. Tappaðu af vélinni allri smurolíu og fylltu svo aftur á nákvæmlega það magn sem tiltekið er í handbók bílsins. Algengasti smurolíuleki í 911 frá 8. áratugnum er með olíukælinum framan á vélinni (næst hásingunni). Gúmmíhringir sem eiga að þétta að og frá-rás kælisins innþorna og þarf að endurnýja reglulega. Þetta sést venjulega á polli undir bílnum á þessum stað.

ABS-ljós lýsir í Benz Sprinter eftir viðgerð
Spurt: Ég þurfti að taka úr sambandi afturhjóladælur á Bens Sprinter 312 árg. 1999. Ég hélt mig vera búinn að tappa af öllu lofti af kerfinu. (að minnsta kosti kemur ekkert loft lengur bara vökvi). En nú logar ABS ljósið í mælaborðinu stöðugt sem það gerði ekki áður. Er þetta mögulega vegna þess að enn sé loft á kerfinu?. Meðan opið var aftur úr kerfinu var bremsufetillinn festur alveg niður við gólf. Annað; ég ætla að skipta um stýrishjól, er það eitthvað mál vegna loftpúðans í því?

Svar: Það getur verið talsvert bras að lofttæma ABS-kerfi - loft vill sitja í ABS-lokunum sem eru í sérstöku ABS-lokahúsi - sé það tilfellið sígur bremsupedallinn (pumpast upp). Þá er bara að taka aðra törn á loftuninni og til öryggis skaltu tappa af framhjólunum líka. Þú þarft að kunna að aftengja ,,Airbag-tölvuna" til að taka stýrishjólið af - það er ekki nóg að taka öryggi úr eða aftengja rafgeymi. Ráðlegg þér að fela það verk löggiltu bílaverkstæði.

Mælaborðsperur í M-Benz
Spurt: Ég er með Mercedes-Bens 240 C 1998 og það er farin pera í mælaborðinu. Ég veit ekki hvernig á að rífa mælaborðið úr til að komast að perunum. Gætir þú gefið mér upplýsingar um þetta vandamál?

Svar: Mælaeiningin í borðinu situr í gúmmístýringu, eins konar löber sem nær allan hringinn. Einingin er dregið út með því að smeygja þunnum vír, beygðum í L, inn fyrir hægra og vinstra megin, vírunum snúið 90°, og mælaeiningin dregin varlega út, sikk sakk, þar til hún er komin nægilega út til að komast megi að perunum.

Musso gengur óreglulega
Spurt: Ég er í vandræðum með Musso með bensínvél; hann gengur mjög óreglulega annars slagið, drepur svo á sér eins og lokað sé fyrir bensínið en rýkur alltaf strax í gang aftur. Hann er '98 módel, 4 cyl, ekinn 160 þús. Skipt var um kerti og bensínsíu fyrir 4000 km og hedd var planað í fyrra.

Svar: Þetta gæti verið bilun í bensíndælu, sem er rafknúin, eða straumloka bensíndælunnar ónýt. Bilun í svissbotni og ónýtur kveikjustöðunemi (crank sensor) getur einnig orsakað svona truflun. Í þessu tilviki væri eðlilegast að láta kóðalesa vélkerfið á bílaverkstæði sem hefur búnað til þess - það er ekki dýr aðgerð en getur sparað mikinn tíma við bilanaleit.

Steinolía sem staðgengils-eldsneyti?
Spurt: Ég var að lesa grein þína um rússnesku bílana á www.leoemm.com og hafði mjög gaman af. Sérstaklega fannst mér athyglivert að hægt væri að keyra rússajeppana á steinolíu og hef ég þá tvær til þrjár spurningar þar um, værir þú svo vinsamlegur að svara þeim; Hverju þarf að breyta í bensínvélunum, blöndungnum?. Er vélin verri í gang og gangurinn ójafnari?. Og að lokum hversu mikið minnkar aflið?
þetta er áhugavert nú í orkukreppunni þegar stjórnvöld eru að rýja almenning inn að skinni (án þess að heyrist í nokkrum).

Svar: Lágþrýstar bensínvélar (hámarks þjöppunarhlutfall 6-8 á móti einum) má keyra á feitara eldsneyti en bensíni, svo sem steinolíu - og reyndar allar dísilvélar með venjulegu olíuverki. Í lágþrýstri bensínvél fer munurinn á afli ekki eftir hitaeiningafjölda (eðlisvarma) í slíku tilviki heldur eftir því hve vel búnaður á vélinni nær að úða feitara eldsneyti, t.d. steinolíu en það er mjög misjafnt. Sumar bensínvélar voru búnar sérstökum forhiturum (pústhitaðri pönnu) til að hita steinolíu sem við það þynnist og úðast betur. Rússajeppinn var hins vegar með 2 geyma og mátti nota annan þeirra fyrir steinolíu sem skipt var yfir með krana. Blöndungur rússajeppans gat úðað steinolíu nægilega fyrir lágþrýst brunahólfin. En steinolía er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin; olíufélögin hættu að selja steinolíu frá dælu fyrir rúmum 2 árum. Nú fæst steinolían einungis á brúsum og verðið hefur verið rúmlega tvöfaldað þannig að hún er ekki sá ódýrari kostur sem hún var hér áður fyrr. Viðbót: Lesandi Vefsíðu Leós hafði samband og benti á að steinolíu mætti enn kaupa frá dælu a.m.k. á einni bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu, stóru Esso-stöðinni á Ártúnshöfða (á leið út úr borginni). Þar kostaði steinolían 73 krónur lítrinn og væri talsvert um að dísilbílaeigendur fylltu þar á bíla sína.

Eru startkaplar hættulegir?
Spurt: Í handbók með bílnum mínum eru leiðbeiningar um notkun startkapla við gangsetningu. Þar er sagt að tengja skuli kaplana í ákveðinni röð; fyrst á milli plúspóla geymana og síðast mínuskapalinn í stellið á bílnum með tóma geyminn en ekki í mínuspólinn á rafgeyminum sjálfum. Ég hef verið að spyrja ýmsa mér fróðari menn hvers vegna ekki sé sama í hvaða röð startkaplar séu tengdir en hef ekki fengið nein "skynsamleg" svör - því spyr ég þig.

Svar: Þegar rafgeymir afhleðst myndast vetni; litlaust, lyktarlaust gas sem myndar sprengihættu. Því skyldi alltaf gera ráð fyrir hættu af sprengingu nálægt rafgeymi sem hefur tæmst, t.d. yfir nótt. Hlaupi neisti nálægt nýlega tæmdum rafgeymi getur orðið af sprenging. Af sömu ástæðu ætti aldrei að reykja nærri rafgeymum. Sprenging getur tætt rafgeymi sundur og af hlotist alvarleg slys, ekki síst slettist brennisteinsýra á fólk en hún getur m.a. valdið alvarlegum augnskaða. Sprengihætta er einnig til staðar sé reynt að tengja startkapla við tæmdan rafgeymi með frosinni geymissýru. Reglurnar um tengingu startkapla í ákveðinni röð eiga að draga úr þessari hættu en með þeim er reynt að tryggja að viðkomandi sé sem fjærst rafgeymi, þegar tveir rafgeymar tengjast endanlega. Fólk ætti því að kynna sér upplýsingar í handbók viðkomandi bíls.

Hitasveiflur í Corollu
Spurt: Ég á Toyota Corolla '95 sem hefur aldrei slegið feilpúst fyrr en nú. Tvö atriði pirra mig mest: Miðstöðin hitnar seint. Þótt hitamælirinn sé löngu kominn á sitt venjulega svið blæs miðstöðin samt köldu hvort sem loft er tekið uta- eða innanfrá. Þá á mælirinn til að rjúka upp, næstum á rautt, en fellur svo aftur á sitt eðlilega svið. Þetta getur endurtekið sig 2-3 sinnum en svo ekki aftur fyrr en mörgum dögum seinna. Í öðru lagi er lausagangurinn óreglulegur og flöktandi á meðan vélin er að hitna, engu líkara en að hún gefi sér sjálf inn. Þetta hættir þegar vélin hefur hitnað. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Sértu heppinn er vatnslásinn ónýtur - en sé hann hálffastur getur það lýst sér svona - ýmist lokar hann ekki (mælirinn lengi að stíga) eða lokar ekki á réttum tíma (mælirinn stígur hátt og dettur svo niður) og enginn hiti frá miðstöðinni. Sértu óheppinn, en það sýnist mér líklegt, er heddpakkningin farin - sést á loftbólum í yfirfallsgeyminum þegar vélinni er gefið inn heitri - jafnvel stendur gusan upp úr geyminum. Leki heddpakkning á milli vatnsgangs og sílindra kemst loft inn á kælikerfið og veldur því að miðstöðin hættir að hita nema öðru hverju. Gangtruflunin getur stafað af því hitaskynjari í vatnsganginum, sem stýrir bensínblöndunni, virkar ekki eðlilega nema kælikerfið sé í lagi. Byrjaðu á því að fá kælikerfið til að virka eðlilega áður en lengra er haldið.

Olíuskipti - hve oft?
Spurt: Ég var að kaupa nýjan SantaFe-jeppling með dísilvél. Hjá umboðinu var mér sagt, þegar ég spurði um olíuskipti, að einu sinni á ári eða á 15 þús km. fresti væri reglan. Er það óhætt?

Svar: Ef til vill er það óhætt en ég myndi ekki telja það skynsamlegt. Sparnað í smurolíuskiptum, sérstaklega á dísilvél við okkar aðstæður (hitasveiflur), tel ég vera vondan "bisness". Mín reynsla er sú að hagkvæmast sé að nota ódýra smurolíu og endurnýja hana oft frekar en dýra smurolíu og endurnýja sjaldnar. Á dísilvél myndi ég skipta um olíu og síu á 5000 km fresti og á 8000 km fresti á bensínvél. Það vill gleymast að eftirlitið, sem fylgir olíuskiptum á betri smurstöðvum, er mikilvæg forvörn sem oft getur komið í veg fyrir dýrar viðgerðir. (Smurstöðvar mættu gera meira af því að auglýsa þann þátt þjónustunnar). Það þarf ekki mikið að gerast til að viðgerðarkostnaður hlaupi á hundruðum þúsunda króna og því er kostnaður við tíðari olíuskipti ódýr trygging, að mínu mati, sem ég byggi m.a. á notkun og reynslu af dísilbílum s.l. 25 ár og tæplega hálfrar milljón km akstri.

Lituð dísilolía
Spurt: Hvernig er það með litaða dísilolíu... ég var að spá í dísilbíl og eigandinn sagði mér að hann hafi notað litaða vinnuvélaolíu til að spara sér útgjöld. Hefur lituð olía einhver áhrif á vélina? Mér líst illa á að kaupa eitthvað sem er merkt eða ólöglegt!
Svar: Dísilolían er sú sama, lituð eða ólituð. Hafi verið notuð lituð olía á bílinn, en það er ólöglegt og varðar sektum eins og flestum er kunnugt, losnar liturinn ekki úr geyminum fyrr en eftir dúk og disk og eins víst að þú gætir lent í vondum málum þess vegna; t.d. gætir þú lent í miklum vandræðum með að sanna að liturinn séu leifar af lögbroti fyrri eiganda!

Lágt drif eða ekki …….
Spurt: Þegar árgerðir 2005 og 2006 af Jeep Grand Cherokee eru sagðar vera 4x4 - þýðir það að þeir bílar séu með háu og lágu drifi eins og eldri gerðinar t.d. árgerð 1995? Getur þú jafnframt sagt mér hver sé munur á Quadra-Trac I og II í þessum bílum?

Svar: Á Bandaríska markaðnum eru flestir svokallaðir sportjeppar (SUV) fáanlegir með drif einungis á afturhjólunum (2WD) eða með fjórhjóladrifi (4x4). Þótt nýlegur Jeep Grand Cherokee sé sagður 4x4 er ekki þar með sagt að hann sé með bæði hátt og lágt drif. Quadra-Trac I þýðir að bíllinn er með sítengt aldrif en einungis með hátt drif. Quadra-Trac II er með hátt og lágt sítengt aldrif. En Quadra-Trac II er fáanlegt í tveimur útfærslum; annars vegar með aflmiðlun (spólvörn), sem beitir ABS-kerfinu (brake traction control), en hins vegar með rafeindastýrðri seiglæsingu í mismunardrifi að framan og aftan og í millikassanum. Það síðastnefnda nefnist, til aðgreiningar, Quadra-Drive II. Munurinn á þessum drifkerfum er töluverður en mest munar um að bíllinn með spólvörninni, sem byggð er á ABS-kerfinu (þ.e. Quadra-Trac II), eyðir meiru en sá sem er með Quadra-Drive II.

Meira brotajárn

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar