Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 16

Frá apríl 2006
Netfang: leoemm <hjá> simnet.is (ATH ! þú setur @ í stað <hjá>)
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti.

,,Íslensk ábyrgð"
Spurt:
Fyrirtæki sem auglýsir sem islandus.com býður nýja og notaða bíla frá Bandaríkjunum ,,langt undir markaðsvirði", eins og segir í auglýsingum þess í dagblöðum. Það býður jafnframt ,,Íslenska ábyrgð" til allt að 5 ára (væntanlega gegn greiðslu). Getur þú frætt mig á því hvers konar ábyrgð sé um að ræða og hvort hún standist, t.d. varðandi galla gagnvart viðkomandi bílaframleiðanda?

Svar: Nei - ég get ekki svarað því. Ég þekki ekki þetta islandus.com - hef bara séð auglýsingarnar og skoðað vefsíðu þess en þar er m.a. gefið upp símanúmer sem ég ráðlegg þér að nota til að afla frekari upplýsinga um þessa ábyrgð sem fyrirtækið auglýsir. Engin lög banna mönnum að auglýsa ábyrgð og fólk metur það og vegur, hvort því finnist vænlegt að eiga viðskipti við Pétur og Pál. Ef til vill eru einhverjar frekari upplýsingar um islandus.com á Netinu (mætti reyna að slá því upp sem leitarstreng á Google).

Og enn af Musso
Spurt:
Keypti nýlega árgerð 2002 af Musso með 5 sílindra dísilvél og sjálfskiptingu. Bíllinn er í ágætu lagi ef frá er talið leiðinlegt tikk í vélinni sem hefur verið að ágerast. Þetta er eins og undirlyftutikk og er mest áberandi strax eftir gangsetningu að morgni en minnkar og jafnvel hverfur alveg um stund en kemur svo aftur þegar vélin hefur náð að hitna og gengur lausagang. Kunningi minn sem er bílfróður giskar á að þetta sé ónýt undirlyfta. Er það ekki líkleg skýring? Hann segir einnig að Musso sé lélegur bíll og þess vegna sé endursöluverðið jafn lágt og raun ber vitni - þannig að ég hef líklega gert skyssu með að kaupa þennan bíl.

Svar: Það eru engar undirlyftur í þessari Mercedes-Benz-dísilvél heldur eru vökvademparar á milli yfirliggjandi kambássins og hvers ventils en þeir halda réttu bili og koma í veg fyrir hljóð. Ástæða þessa tikks sem þú talar um er ónýt heddpakkning. Pakkningin lekur á milli smurrásar og vatnsgangs. Þessi smurrás, frá blokk upp í hedd, fæðir vökvademparana. Lekinn veldur því að ekki er nægur þrýstingur á vökvadempurunum og því gengur einn eða fleiri ófylltur og það veldur tikkinu. Olía í kælivatninu mun staðfesta þessa greiningu. Láttu endurnýja heddpakkninguna með upprunalegri Benz-heddpakkningu ( sem þú færð í Ræsi). Ástæða þess að heddpakkningin gefur sig er trassaskapur - ekki hefur verið farið að tilmælum framleiðanda (skýrt tekið fram í handbók bílsins) um að kælivökvi skuli endurnýjaður á 3ja ára fresti. Þetta er ekkert sér-Musso-vandamál heldur afleiðing lágs gæðastigs og landlægs, óskiljanlegs, kæruleysis margra stjórnenda íslenskra bílaverkstæða. Afleiðingin er ótímabært tjón fjölda bíleigenda og þar koma flestar tegundir við sögu. Hagstætt verð á notuðum Musso er fyrst og fremst vegna þess að þeir voru á afar hagstæðu verði nýir, seldust því vel og því er framboðið á notuðum Musso eðlilega töluvert. Margir hafa góða reynslu af Musso: Benz-vélarnar hafa t.d. reynst mjög vel með eðlilegri meðferð auk þess sem 2,9 lítra Benz-dísilvélin gerir Musso sparneytnastan allra fullvaxinna dísiljeppa; eyðslan er 10-11 lítrar (Musso, bæði dísill og bensín, vann t.d. jeppaflokkinn í sparaksturskeppnum Esso og FÍB nokkur ár í röð upp úr 2000). Þessi áróður gegn Musso virðist m.a. sprottinn frá gösprurum á spjallvef f4x4, en þar bulla nokkrir fúskarar um jeppa öðrum félögum til ama og leiðinda. En ritfrelsi er enn ríkjandi í landinu, sem betur fer; aðalatriðið er að dæma ekki allan Ferðaklúbbinn 4x4 af fáeinum háværum bjánum en margir af færustu jeppamönnum landsins eru þar meðlimir.

Kaup á notuðum Golf
Spurt:
Ég er í vandræðum: Ég get keypt Golf station 1997 1.4 á 230þús.Vandamálið er að fyrsti gírinn er frekar stífur en kemst inn. Einnig sagði eigandinn að það væri auðveldara með því að setja í annan gír fyrst og síðan í fyrsta. Eigandinn hefur átt bílinn í 3 ár og hefur þetta verið frá upphafi. Honum hefur verið sagt að þetta sé ekki mikið mál að gera við. Hvað heldur þú. Ég fæ bílinn 30 þús kr. ódýrarari vegna þessa?

Svar:
Gírkassar eins og sjálfskiptingar hafa reynst ónýtir í þessum bílum - ég myndi ekki ráðleggja þér að kaupa bílinn - 30 þúsund er einungis það sem kostar að taka kassann úr og setja í. Ef þetta væri svona einfalt mál myndi núverandi eigandi láta gera við gírkassann - hann er einungis að segja þér frá þessu þannig að þú getir ekki gert kröfu um að kaupin gangi til baka þegar gírkassinn hrynur endanlega - ekki hafi verið um ,,dulinn galla" að ræða því þér hafi verið sagt frá þessu; - þetta er gamalt trikk sem bílasalar kunna.

Gírkassi í Nissan
Spurt: Ég á ársgamlan beinskiptan Nissan Almera. Ef ég er með hann stopp og erseitthvað að hræra í gírkassanum, t.d að setja í fyrsta gír heyri ég smá ískurshljóð frá gírkassanum þegar ég er að rugga gírstönginni á milli gíra, ég vonasað þú skiljir mig. Þetta er ekki hátt ískur- heyri þetta aldrei á ferð.
Heldur þú að þetta sé eitthvað að benda til þess að gírkassinn sé ekki í nógu góðu lagi? Bíllinn er ekinn 20.000 km.

Svar: Það er áreiðanlega ekkert að gírkassanum - þeir eru nánast ódrepandi í Nissan (eins þótt þeir séu frá Renault). Gírskiptingin í þessum bíl er svokölluð barkaskipting. Á enda barkanna við gírkassann eru tengi og líklegast er að þetta ískur sé í þeim, gæti t.d. verið vegna aflögunar, óhreininda, sands eða jafnvel smásteina sem lent hafa á milli. Venjulega nægir að blása óhreinindunum úr - en þetta eru ekki smurðir liðir/tengi.

Jeep Grand Cherokee 3.1 dísil
Spurt:
Mig langaði að spyrja þig hvort þú vissir eitthvað um Jeep Grand Cherokee 3.1L Turbo diesel árg. 2002, sérstaklega um vélina hvort hún sé að virka vel og hvort það séu einhver leiðindi með hana?
Er mikill munur á eiðslu milli 4.7L HO (Overland) og dísilvélarinnar? Er bensín vélin (4.7L HO Overland) betri upp á endingu og bilanatíðni? Mig langaði einnig að spyrja þig útí muninn á venjulegu 4.7L (Power Tech) vélinni og aftur 4.7L HO (Power Tech High-Output) vélinni. Hver er munurinn og er stórvægilegur munur á hestöflum og eyðslu?

Svar: 3.1 lítra, 5 sílindra túrbódísilvélin er hönnuð af Detroit Diesel og framleidd af VM Motori í Cento á Ítalíu (sami framleiðandi og 4ra sílindra 2,5 lítra dísilvélin í eldri Cherokee). Vélin er 140 hö, hún er búin rafeindastýrðu olíuverki (en ekki forðagrein þ.e. Common rail) og er því ekki nýjasta tækni & vísindi. Eyðslan er 11-12 lítrar. Þrátt fyrir ítalskan upprunan hafa þessar vélar ekki reynst illa (þær eru t.d. örugglega betri en nýja V6-túrbódísilvélin frá Benz sem nú er í Jeep).
Overland 4,7 lítra V8-bensínvélin er með skemmtilegustu vélum í bíl af þessari gerð. Samkvæmt niðurstöðum þýska Autobild reyndist eyðsla Jeep Grand með henni 12,3 - 14,4 lítrar á hundraðið í prófunarakstri en ég myndi nú trúa því varlega. Dísilbílar eru það mikið dýrari en bensínbílar í Bandaríkjunum að ekki borgar sig að kaupa þá miðað við núverandi verðlagningu á eldsneyti hjá okkur. (Að mínu áliti er minni munur á verði dísilolíu og bensíns hér en annars staðar í Evrópu vegna landlægra fordóma og forpokunar kerfiskarla og pólitíkusa sem virðast ganga erinda olíufélaga á kostnað almennings). 4,7 er 213 ha/4500 sn/mín. HO er 260 hö. Munurinn liggur að öllum líkindum í hærri þjöppun og ,,power-chip" (aflaukandi forriti). Báðar eru af sömu byggingu með ofanáliggjandi kambás.

Draugagangur í mælaborði á Chevy Van
Spurt:
Ég á Chevrolet Van '75. Það er einhver draugagangur í mælunum, aðallega í bensínmælinum sem virðist vera fastur - sýnir alltaf fullan tank. Getur verið að þetta sé mælirinn frekar en sendirinn í tanknum sem er sé að stríða mér?

Svar: Þetta er nokkuð algengt í amerískum bílum frá 1970-1990. Byrjaðu á því að skrúfa mælaborðið úr - það er ekki mikið verk. Aftan á mælaeiningunni er plastþynna með prentrásum. Líklegasta ástæðan fyrir truflun í mælunum er útfelling á þessum prentrásum sem eru úr koparfilmu. Þrífðu þetta upp þannig að ekki sé um sambandsleysi að ræða. Úðaðu svo yfir með Contanc Spray eða WD40 og sjáðu hvort mælarnir taki ekki við sér.

Opel bakkljós
Spurt:
Ég er að velta fyrir mér hvers vegna bakkljósin á Opel Corsa 1998 kvikna
ekki (hvorugu megin). Önnur ljós virka eðlilega og ég er búinn að prófa að skipta um perur.

Svar: Sé öryggið í lagi er líklegasta orsökin er sú að bakkljósrofinn á gírkassanum sé ónýtur eða sambandslaus. (Rofinn er efst á gírkassanum og yfirleitt það fyrsta sem sést þegar rafgeymistrogið hefur verið fjarlægt).

Dekkjahljóð í Forester
Spurt: Ég er á Subaru Forester 2001 og er með hann á naglalausum vetrardekkjum En mér finnst óþarflega mikill hvinur í þeim, getur það verið af of hörðu gúmíi?

Svar: Gæði dekkja eru misjöfn (létt dekk eru yfirleitt vandaðri en þung dekk). Það er eðlilegt að meira heyrist í vetrardekkjum en sumardekkjum eða heilsársdekkjum. Í handbók bílsins og á hurðarkarmi bílstjóramegin eiga að vera upplýsingar um þrýsting í dekkjum. Óeðlilegur hvinur í vetrardekkjum getur stafað af röngum þrýstingi þótt oftar sé það einfaldlega óvönduðum (þungum) dekkjum að kenna - og munsturs sem er fyrst og fremst gert fyrir snjógrip. Bílar eru misjafnir að því hve mikið hljóð þeir leiða inn í farþegarými frá hjólunum - hins vegar er mér ekki kunnugt um að það hafi verið vandamál með Subaru.

Handbók fyrir Durango
Spurt: É
g var að kaupa Dodge Dúrango 2005 LTD 5,7 HEMI innfluttan fyrir mig. Þegar ég fékk bílinn vantaði handbókina og fjarstýringuna fyrir DVD. Veistu hvar maður getur nálgast þessa hluti?. Svo virkar DVD að sjálfsögðu ekki hér, heyrði að það væri hægt að setja kubb til að breyta þessu en veit ekki hvar maður nálgast hann, frétti af einum sem setti einhvern kubb fyrir DVD en ekkert virkaði. Að lokum er ekki allt í lagi að keyra 5000 Mílur á smurolíunni? .

Svar: 8000 km (5000 mílur) á smurolíunni er í góðu lagi sé hún reglulega endurnýjuð. Ég veit því miður ekkert um útvarpstæki/spilara - það er ekki á mínu sviði. Handbók ætti að vera hægt að panta fyrir þig. Ráðlegg þér að tala við Gunnar Sigurðsson hjá IB á Selfossi (gunni@ib.is) - hann þekkir þessi DVD-mál og getur pantað fyrir þig handbókina og réttu hlutina í græjurnar.

Tjúnað púst fyrir Audi
Spurt:
Ég á Audi A4, 1,8 1995, 20 ventla og er spá í flækjur. Getur þú eitthvað hjálpað mér með upplýsingar, hvað þær gera og hvar ég gæti keypt þær?

Svar: Muni ég rétt er þetta 125 ha vélin. Sænskt fyrirtæki, Dahlbäck Racing er stærst í framleiðslu og sölu á alls konar aflaukandi búnaði fyrir m.a. Audi. Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa selt flækjur og pústkerfi fyrir Audi A4 (gæti verið frá Dahlbäck) heitir Greedspeed. Þú getur skoðað þetta dót á vefsíðunum
www.dahlbackracing.com og
www.greedspeed.com
Það er alveg til í dæminu að þú getir pantað frá þeim t.d. með flutningi DHL eða annarra flutningaþjónustu og greitt með krítarkorti - þá sér flutningaþjónustan jafnframt um tollskýrslugerð og það sem innflutningum fylgir. Það er hins vegar hætt við að það geti orðið dýrt. IB á Selfossi hefur pantað aflaukandi búnað í evrópska bíla frá USA. Þeir eru sérhæfðir í bílum og þykja ekki dýrir. Þú gætir prófað að hafa samband við Gunnar Sigurðsson hjá IB - hann hefur pantað ýmsa hluti í BMW fyrir menn svo varla verður honum skotaskuld úr að hjálpa þér með Audi.

Hvað er ,,No smog"?
Spurt:
Ég er með 400 Pontiac vél og stundum eru smurolíublettir á hægra ventlalokinu. Þar sem ég veit ekkert um vélar vildi ég spyrja hvort það sé eðlilegt? Á ventlalokinu er tappi með síu í sér, en ég held að upphaflega hafi verið hosa þarna úr og inn á lofthreinsarann. Hvað er verið að tala um þegar vélar eru sagðar " no smog " ?

Svar: No smog vél er vél án mengunarvarnarbúnaðar. Á þessari vél á að vera lokað öndunarkerfi (PCV-hringrásarkerfi). Í ventlalokinu á að vera einstefnuloki (kúluloki = PCV-loki). Þegar yfirþrýstingur myndast í sveifarhúsi/ventlalokum lyftist kúlan og óloftið fer um slönguna í ytra byrðið á lofthreinsaranum eða beint í soggreinina neðan við blöndunginn. Olíublettirnir geta verið merki um að öndunin á vélinni sé teppt eða óvirk/lokuð.

Spurt um álit L.M.J. á jeppum
Spurt: Nú hef ég áhuga á því að eignast Terracan með dísilvél. Hvað getur þú sagt mér um slíkan jeppa? Er hann áreiðanlegur, fer hann vel með mig og mína, heldur hann aurum mínum innan veskis en utan olíufélaga frekar en aðrir sömu stærðar (LCruiser, Terrano, Trooper ofl...)?

Svar: Terracan er alvöru jeppi - fínt verð - góð dísilvél - en gamaldags (gömul hönnun) - mun vera von á gjörbreyttum Terracan af árgerð 2007. Nýi SsangYong Kyron tekur við af Musso og er á fínu verði og með sparneytnustu Benz-dísilvélina. Isuzu Trooper er landbúnaðartæki/hergagn og á fátt sameiginlegt með lúxusjeppum - óþægilegur og þungur í sölu - þjónusta umboðsins er afleit. Terrano dísill eyðir of miklu og þjónustan (sama og Isuzu) er afleit. LandCruiser er ofmetinn jeppi - hann er týskubóla - ekkert sérstakur bíll en þjónustan fín, hátt endursöluverð o.s.frv.
Þægilegasti jeppinn er Pajero og sá sparneytnasti er Musso 2,9 D.

Gangtruflun og hökt í Peugeot 206
Spurt: Ég á í smá vandræðum með Peugeotinn minn. Þetta er 99' módel af 206 týpunni og gangurinn í honum hefur alltaf verið til trafala. Núna er hann keyrður 121 þúsund km. en skipt var um tímareim í 70 þúsundum. Gangurinn í honum er eins og tíminn sé eitthvað skakkur, hann hökktir og kippist til þegar ég ég sleppi bensíngjöfinni og ýti á hana aftur. Mest finnur maður fyrir þessu í fyrsta gír. Það er nýbúið að skipta kertunum út, ásamt fullt af rafmagnsdóti sem fór yfir um, þannig að ekki eru það þau. Getur verið að það sé kominn tími á tímareimina?

Svar: Jafnvel þótt tími væri kominn á tímareim, sem mér sýnist ekki vera, á það ekki að lýsa sér í neinum gangtruflunum. Það kemur fyrir að tímareim, vegna ónógrar strekkingar (bilaður eða ónýtur sjálfvirkur strekkjari), nái að hoppa til um tönn sem þá lýsir sér sem gangtruflun vegna rangs tíma. Það er þó sjaldgæft. Af lýsingu þinni að dæma (hökt t.d. þegar tekið er af stað) gæti orsökin frekar verið samspil lélegs súrefnisskynjara og útfellingar, óheininda, á inngjafarspjaldi sem ekki nær að setjast eðlilega eða bítur sig. Afgasmæling myndi leiða í ljós hvort súrefnisskynjari virkar eðlilega en hann stjórnar bensínblöndunni og mest munar um ranga blöndu þegar tekið er af stað og á stöðugum snúningi í kringum 4000 sn/mín.

Gömul en góð Honda Civic
Við eigum gamla Hondu Civic 1989, sem dóttir okkar notar á sumrin, en er geymdur inn í skúr á veturna. Billinn er nokkuð góður miðað við aldur, lítið ryðgaður og hefur staðið sig vel, keyrður um 162 þús. kílómetra. Tveir ókostir hrjá þó bílinn; hann er ekki búinn vökvastýri og hann er með handvirkt innsog. Sumir hér á heimilinu eru ekki mjög áfjáðir í að keyra gripinn, og vilja helst að hann verði seldur, en líklega er hann verðlaus en ég vil því þráast við og nota hann lengur þar sem hann virðist geta dugað eitthvað áfram. Mig langar til þess að spyrja þig hvort það sé mikið mál að setja vökvastýri og sjálfvirkt innsog í bílinn? eða á ég bara að gleyma því. Mér datt í hug að kannski væri hægt að fá það sem til þarf á bílapartasölu.

Svar: Á partasölum er ekki auðvelt að finna Honda-bíla með blöndungi en auðveldast væri að skipta um blöndunginn og setja blöndung með sjálfvirku innsogi. Hér áður var seldur búnaður til að breyta sjálfvirku innsogi í handvirkt (en það átti að minnka eyðslu enda kunnu ekki allir að stilla sjálfvirkt innsog). En ég man ekki eftir að hafa séð búnað til að breyta handvirku í sjálfvirkt. Ætli þú verðir ekki að láta það handvirka duga enn um sinn.Vökvastýri í þennan bíl er allt of mikið mál - gleymdu því. Með því að nota ný Cooper sumardekk að framan, en þau eru með dýpra munstur og minna snerilviðnám, myndi stýrið léttast talsvert. Þú færð Cooper-dekkin hjá Ísdekki.

Cadillac sogstýrikerfi - hausverkur
Spurt: Ég var að eignast þetta forláta ökutæki frá Kanada og hann lenti á Íslandi í byrjun vikunnar.
Þetta er prýðilegt eintak, ekinn 60.000 mílur rúmlega og allur í toppstandi. Það sem ég hins vegar heyrði og sá þegar ég gekk í kringum bílinn eftir að hann kom út úr gámnum var að ljósalokurnar virkuðu ekki eins og skildi og það heyrðist örlítið hviss í honum sem segir mér að vacuumkerfið sé einhverstaðar að leka. Ég er búinn að heyra allskonar grýlusögur um þessi vacuumkerfi eins og að það sé nánast vonlaust að gera við þau ef þau bila o.s.fr. Ég neita nú að trúa að það sé tilfellið svo mig langar að forvitnast örlítið um hjá þér um uppbyggingu vacuumkerfisins, þá helst það sem Cadillac hafði í sinni framleiðslu. Einnig er ég að spá hvort það hafi eitthvað með “Automatic Level Control” búnað bílsins á fjöðrun afturhjólanna.

Svar: Í þessum GM-bílum frá þessum tíma var sog notað fyrir nánast allan fjandann. Slöngurnar liggja út og suður. Engar teikningar eru til og jafnvel þótt þær væru til er yfirleitt ekkert að marka þær. Reglan er einfaldlega sú að á meðan kerfið var nýlegt, slöngur og múffur ekki byrjaðar að harðna og ekki búið að fikta og grauta í kerfinu, var það til friðs. En svo byrjar ballið. Það sem þú hefur heyrt um þetta sogstýrikerfi eru örugglega ekki ýkjur - þetta er, því miður mikilvirk uppspretta truflana/bilana - jafnvel svo að sumum er mikið í mun að losa sig við svona bíl þegar sogkerfið byrjar að bila. Hluti kerfisins stjórnar loftpúðum með sjálfstæðri dælu sem virkar sem hleðslujöfnun að aftan - í öðrum er hleðslujöfnunin framkvæmd með stillanlegum dempurum (verra kerfi). Hins vegar sýnist mér þú vera einn af þeim heppnu - það eru ekki allir sem hafa hviss-hljóð til að auðvelda leit að leka í svona kerfi. Eina aðferðin sem ég kann er að beita útilokunaraðferðinni, finna greiningar,loka greinum og prófa svo hverja grein með sogdælu. Byrjaðu á að kaupa þér ómissandi tæki sem nefnist MITYVAC Vacum Pressure Tester. Þú færð það hjá The Eastwood Company (www.eastwood.com) - með því er auðveldara að finna leka í þessu kerfi.

Toureq mælabreyting
Spurt: Ég keypti mér nýlega VW Touareg frá Bandaríkjunum. Bíllinn er að flestu leyti í samræmi við evrópska staðla, að öðru leyti en því að nokkrar skífur í mælaborði eru með bandarískum mælikvörðum. Á þetta einkum við um hraðamæli (mílur), vatnshitamæli (fahrenheit). Spurning mín er þessi: Veist þú hvar ég fæ evrópskar skífur fyrir mælaborðið og hversu mikil vinna er að skipa um þetta? Getur óvanur en handlaginn maður gert þessa breytingu sjálfur eða þarf fagmann/verkstæði?

Svar: Ég þekki þetta ekki í Touareg sérstaklega en tel þó sennilegt að mælaborðið sé af sams konar hönnun og í flestum bílum núorðið en þá er sitt hvort mælaborðið fyrir evrópska og ameríska kerfið. Þú leysir ekki málið með skífum heldur þarf að skipta um mælaborð, þ.e. mælaeininguna. Í flestum tilvikum þarf ekki að skipta um móðurtölvu bílsins og nægir að endurforrita hana fyrir metra-kerfið. Eðlilegt væri að umboðið aðstoðaði fólk við svona breytingar. Sé enga aðstoð þar að hafa bendi ég á IB á Selfossi sem hefur leyst margan vandann - þeir hafa örugglega flutt inn Touareg frá USA - hver veit nema þeir kunni lausn á þessu - prófaðu að tala við Gunnar Sigurðsson hjá IB.

Heddpakkning í Suzuki?
Spurt:
Mig langaði að vita hvort þú gætir veitt mér ráðleggingar í sambandi við bíl sem ég hef nýlega keypt. Þetta er Suzuki Vitara, árgerð 1999, ekinn 83.000km. Málið er það að blár reykur er í útblæstrinum í hvert skipti sem vélin er gangsett og er blaí reykurinn í um 3-5 sek. Ég hef einnig tekið eftir því að olían á kvarða minnkar lítillega. Kælivökvinn virðist einnig hverfa óeðlilega hratt. Ég hef líka orðið var við vatnsleka úr pústinu. Smit hafði áður gert vart við sig í ventalokspakkningu en gert var við hana rétt áður en ég keypti bílinn. Hef einnig fundið fyrir rakalykt í miðstöðinni, í litlum mæli þó. Vélargangurinn er nokkuð góður. Hvað dettur þér helst í hug að gæti verið vandamálið? Er möguleiki að heddpakningin sé farin? (ekki orðið var við vatn í olíunni). Smáviðbót: Ég skipti um kerti um daginn og á enn þau gömlu. Hvaða einkenni koma fram á þeim ef um er að ræða leka í heddpakkningu? Einnig var ég að spá í hvort þetta gætu verið stimpilþéttingarnar?

Svar: Lýsingin gæti átt við heddpakkningu sem er byrjuð að leka. Þegar kælivökvinn hefur ekki verið endurnýjaður á 2-3 ára fresti eins og framleiðandi bílsins mælir fyrir um (séríslenskur trassaskapur verkstæða) tærist heddið og pakkningin byrjar að leka á 6. ári og/eða við 90 þús. km. Sum verkstæði hafa búnað til að mæla þrýsting í kælikerfum og hann má nota til að ganga úr skugga um hvort það sé heddpakkning sem sé farin. Blái reykurinn er að öllum líkindum merki um að heddpakkningin leki á milli smurrásar og sílindra. Það getur bifvélavirki staðfest á því að ,,lesa" kertin. Varðandi miðstöðina (rakalyktina sem þú talar um ) þá er líklegt að miðstöðvarhitaldið sé einnig orðið tært og byrjað að leka - það er einnig orsök áðurnefnds trassaskapar (hitaldið færðu að öllum líkindum á hagstæðustu verði í Gretti-vatnskassaþjónustu á Vagnhöfða). Í þínu tilviki myndi maður ætla að heddpakkningin læki bæði smurolíu og kælivökva inn í sílindrana. Sé olíulekinn á einum sílindra (blái reykurinn) væri það kerti áberandi dekkra/sótugra en hin og það sæist líka á nýju kerti eftir eina bæjarferð. Vatnsleki inn í sílindra sést á hvítri útfellingu á skauti kertis og stalli. Það er til í dæminu að stimpilhringir séu slitnir - það er hægt að leiða í ljós með þjöppumælingu. Þó er það fremur ósennilegt, nema vélin hafi yfirhitnað oftar en einu sinni (fyrri eigandi) því þessar vélar endast mjög vel sé hugsað vel um þær.

Gagnsetning eftir 10 ára geymslu
Spurt: Mér datt í hug að leita til þín varðandi bíl sem ég hef áhuga á að kaupa. Um er að ræða Cadillac Eldorado, árgerð 1991, sem legið hefur í dvala sl. 10 ár í geymslu og á því tímabili aldrei verið hreyfður né startað. Þegar ég fer og kíki á hann þá er varla viturlegt að ætla að reyna að koma honum í gang? Hvað ber að varast? Ætli það sé ekki allt orðið pikkfast? Semsagt... Hvaða ferli þarf bíllinn að fara í gegnum áður en hann verður ökufær á ný?

Svar: Þú mátt reikna með að bensínið á tanknum sé ónýtt. Tappaðu því af og endurnýjaðu með 10 lítrum. Sé smurolían á vélinni áberandi dökk þarf að endurnýja hana. Hafi bíllinn staðið inni þennan tíma er eins líklegt að vélin snúist. Prófaðu gangsetningu með nýjum geymi. Snúist vélin eru 90% líkur á að hún fari í gang hafi hún verið í lagi þegar bílnum var lagt. Eftir að hafa farið í gang og náð að hitna eðlilega er smurolían endurnýjuð ásamt loftsíu og bensínsíu. Snúist vélin hins vegar ekki er nauðsynlegt að taka vélina upp - ekki borgar sig að reyna að losa hana öðru vísi - það myndi einungis auka kostnaðinn við upptekt.

BMW 750 sem lekur olíu og ...
Spurt: Ég er með BMW 750 '91 ek.225 þús. Vél: V12 5 lítra.
Vandamál 1. Hann lekur olíu, og ég sé ekki hvaðan. Er óhætt að setja þéttiefni á vélina? (efni sem selt er í litlum dollum á Esso). Vandamál 2. Lítill kraftur á miðstöð, þó viðeigandi hávaði heyrist. Í stað þess að losa mig við móðu af framrúðu virðist vera sem miðstöðin framleiði hana. Einnig virðist sem gufa stígi upp frá blástursopi við framrúðu. Hvað er í gangi þarna? Vandamál 3. Óreglulegur gangur í lausagangi í kulda, gerist einungis á morgnana... Afhverju? Vandamál 4. Titringur í stýri á í kringum 80 km/klst. Einnig þegar bremsað er niður af meiri hraða. Afhverju?

Svar: Olíulekinn gæti verið vegna tepptrar öndunar á vélinni. Ég hef aldrei vitað svona efni gera minnsta gagn við að stöðva olíuleka - en hver veit? Miðstöðvarhitaldið gæti verið farið að leka
Óreglulegur gangur kaldur - geta verið milljón ástæður - bilanagreining í tölvu er eina rétta leiðin.
Titringur í stýri er vegna ójafnvægis, væntanlega hjóls en titringur þegar bremsað er getur verið vegna skekkts bremsudisks - en þeir skekkjast stundum sé felgubolti ofhertur með loftlykli - oft vegna þess að ekki er hert í áföngum sikk sakk til að jafna herslunni en við það verpist diskurinn.

Mikið ekin Hyundai Sonata
Ég hef verið að skoða ekki svo dýra bíla og einn er það sem ég er að spá í, Hyundai Sonata 1994, vél V6, 3000cc, SS, ekinn 165.000km eða 102 þús mílur, sennilega komið að tímareima sk, en bíll af þessari stærð og Ameríku-týpa fyrir lítinn pening og er spurningin mín þessi, hvernig hafa þessir bílar reynst hér á Íslandi?

Svar: Reynsla eigenda af bílum frá Suður-Kóreu fer dálítið eftir eigendunum sjálfum - þeir sem eru sæmilega laghentir, hugsa vel um bíl og gera sjálfir við smærri bilanir hafa yfirleitt góða reynslu af þessum bílum - þótt á því séu undantekningar auk þess sem misjafnlega góð umboð hafa verið að gera eigendum þessara bíla lífið leiðara en ella. Um Hyundai gildir að þeir bílar hafa verið að batna frá og með 2000 - betri frágangur hefur fækkað kvörtunum undan ýmsum smærri agnúum. 1994 árgerð af Sonata, ekinn 165 þús, er komin á alvarlegt viðhaldsstig, eins og hvaða annar bíll sem er, og sumir vildu sennilega fá greitt fyrir að taka við bíl, sem kominn er á þetta stig, nema búið sé að endurnýja helstu hluti sem bila svo sem alternator, vatnskassa, startara, vatnsdælu, bremsulagnir, þurrkudrif, stýrisvél o.s.frv. Það er umhugsunarvert að Sonata 1994 skuli þó vera á markaðnum sem notaður bíll - þú munt ekki finna marga Peugeot 604, Audi A4, Citroen Xantia, Ford Mondeo eða VW Passat af árgerð 1994 í notkun - þeir eru jafnvel horfnir af partasölunum! Það segir ef til vill meira en langt mál um ,,gæði" Hyundai.

GMC Jimmy fer ekki í fjórhjóladrifið
Spurt: Ég á GMC JIMMY 1992, með 4,3 ltr vél, SS-týpu. Í vetur gekk mér ekki of vel að koma honum í framdrifið en það er gert með takka vinstra meginn í mælaborðinu. Surningin er hvað gæti valdið því? Einnig þætti mér vænt um að heyra þitt álit á svona bíl, tek það fram að hann hefur reynst mér vel í á 8 mánuði sem ég hef átt hann - einungis smurt og sett nýtt í kveikjuna, en veit af svona smá blettun sem er ekki mikið mál fyrir mig, en þetta er alvöru og gott járn í þessum bílum, engar dósir, en nota því betur af bensíni eða ca, 15-18 fer eftir veðri.

Svar: Smábilanir hafa verið tíðar í þessum GM jeppum/pallbílum - aðallega rafmagnsvandamál. Líklegasta skýringin á því að framdrifið er tregt er eitt af þessum rafmagnsvandamálum, sambandsleysi á millikassamótor eða mótorinn ónýtur (muni ég rétt eru einhverjir snertlar í millikassamótornum sem brenna). Þetta eru þægilegir bílar í keyrslu en frágangur á prentrásum í mælaborði og rafkerfi hefur reynst lélegur auk þess sem eyðslan er full mikil - a.m.k. fyrir mína parta.

LandCruiser sjálfskipting í rugli
Spurt: Ég á Land Cruiser 80 dísil árg 1993 ekinn 250 þús km. sjálfskiptur,vel með farinn, lítillega breyttur, er á 295-75R16 dekkjum. Málið er að skifting bílsins hegðar sér þannig að á 60 - 85 km/klst virðist hún ekki geta ákveðiðí hvað gír hún eigi að vera . Þ.e hún skiptir úr og í þar til á 90 eða meira en þá er ellt í fínu lagi. Taki maður ,,overdrive" af lækkar hraðinn sem þetta er að gerast á. Að þessu frátöldu virðist skiptingin vera í ágætu lagi. Ég hef spurt ,,sérfræðinga" en fengið mismunandi svör - sumt hef ég reynt en án árangurs. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Á olíuverkinu er nemi sem stýrir því hvenær yfirgírinn fer á og af með tilliti til inngjafar/álags. Oftast er ástæða svona flökts í Toyota Land Crusier sú að þessi nemi virkar ekki (ónýtur). Í sumum dísilkerfum er þessi nemi stillanlegur, t.d. í amerískum Ford upp að árgerð 2001. Yfirgírinn fær einnig boð frá hraðamælisbúnaðinum. Sé inngjafarbarkinn rangt stilltur, t.d. of strekktur, getur það valdið rugli en þá einnig á skiptipunktun ekki einungis á yfirgír. Ekki er sama hvernig barkinn er stilltur - það er sýnt í viðgerðarbókum. Röng vökvastaða í sjálfskiptingu, of mikið eða of lítið (sé kvarði á skiptingunni), getur valdið ruglingi í skiptingum - stöðuna á að mæla með vél heita, í lausagangi og skiptingu í P. Byrjaðu á að skipta um þennan nema.

Endist lakk misjafnlega eftir lit?
Spurt:
Mig langar að spurja hvort þú eigir ráðleggingar við val á lit á bílum í dag. Svo virðist sem lökk séu lélegri og jafnvel upplitist; ég á 2001 Terrano og hann var rauður! Nú er mál að fara að skipta og mig langaði bara að vita hvaða litir eru verstir og hvað á ekki að kaupa. Erfiðar spurningar, en svona er lífið bara, mér finnst ekkert gaman að horfa á litinn á bílnum mínum hverfa fyrir framan augun á mér.

Svar: Eftir að farið var að nota einungis vatnslakk á flesta fólksbíla og jeppa hafa litir án glæru reynst verst, t.d. hvítur, beinhvítur, svartur og gulur. Sanseraðir litir virðast þola veðrun betur en það er vegna þess að glæran er yfirleitt þykkari. En auðvitað eru þetta engin vísindi - það getur jafnvel farið eftir bílum hve vandað lakk er sem vörn, t.d. hafa Subaru lengi þótt vera með þynnra og verra lakk en gengur og gerist ;- hvítt lakk, t.d. á Benz og Ford-sendibílum virðist ekki veita nema takmarkaða vörn gegn ryði o.s.frv. Vegna lítillar loftmengunar (ekkert súrt regn - a.m.k. ennþá) ætti lakk að endast betur hér en víða erlendis en á móti kemur miklu meira steinkast, blásturs- og veðurálag. Þess vegna er nauðsynlegt að verja lakk hér með tíðari bónun en t.d. í Kaupinhöfn, Stokkhólmi o.s.frv.

Fleiri en eitt vandamál með Subaru
Spurt:
Ég á Subaru Legacy sedan 1994 með 2,2l 4 cyl. vél, ek. 110.000 km. Undanfarið hefur komið nokkrum sinnum fyrir að bíllinn fer ekki í gang þegar honum er startað heitum eða volgum. Hann bara startar og startar. Á endanum fer hann í gang eftir langt start, en ef ekki þá hef ég beðið í nokkrar mínútur og startað svo aftur og þá hefur hann hafst í gang. Ekkert ber á gangtruflunum þegar hann er í gangi hvorki fyrir né eftir svona stæla. Þetta gerist bara einstöku sinnum, kannski tvisvar á síðustu 2 mánuðum. Hvað getur orsakað þetta?

Ég á einnig Subaru 1800 station 1989. Talsvert glamur er alltaf í vélinni, sérstaklega fyrst eftir ræsingu og mest í kulda. Ég er búinn að skipta um smurolíudæluna í bílnum en lár smurþrýstingur virðist ekki hafa verið orsökin. Hvað annað er til ráða? Á maður kannski ekkert að vera að hugsa um þetta í svona gömlum bíl og bara keyra. Það væri þó synd að skemma hann því hann er ekki ekinn nema 215.000 km - á að rúlla miklu lengra!!!

Svar:
Svona dyntir geta verið af ýmsum orsökum og oft eru þetta erfiðustu bilanir að eiga við vegna þess að þær eru ekki viðvarandi þegar komið er með bíl á verkstæði. En ég bendi á að oft er svona truflun, eins og þú lýsir, fyrstu merki um bilun í rafknúinni bensíndælu eða straumloku bensíndælunnar. Í stað þess að fara í tímafreka bilanaleit, sem ekki er víst að skili árangri, getur borgað sig að endurnýja straumlokuna (og jafnvel dæluna) og sjá hverju fram vindur - jafnvel þótt hún sé ekki orsökin er ákveðið öryggi í að hafa hana nýja - 10-11 ár telst hvort eða er viðunandi ending á henni.

Varðandi 1800-bílinn: Subaru-vélar eru með vökvaundirlyftum og af því að þær eru láréttar eru þær viðkvæmar fyrir útfellingu úr óhreinni smurolíu standi bíll lengi. Undirlyfturnar stirðna eða festast og við það myndast þetta hljóð sem þú lýsir. Oft er hægt að lagfæra þetta á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt. Það er gert með því að setja 1 lítra af sjálfskiptiolíu í stað eins lítra af smurolíu, sem tappað er af, aka bílnum á þessari blöndu ca 100 km og endurnýja þá smurolíuna með 5w40 (og síu). Ef passað er upp á að setja ekki of mikla olíu á vélina, en láréttar vélar eru skiljanlega viðkvæmari fyrir yfirfyllingu en lóðréttar, er þetta yfirleitt virk aðferð til að losna við glamrið.

Um álit L.M.J. á VW Passat
Spurt: Mig langar að fá álit þitt á VW Passat árgerð 2003 og 2004.

Svar: Þetta eru þægilegir bílar, sparneytnir og með vel hannaða innréttingu en bilanatíðni er umfram meðaltal og viðhaldskostnaður getur verið mikill, t.d. mun meiri en á jafngömlum bílum frá Honda, Mazda og Toyota.

Um álit L.M.J. á KIA Sorrento
Spurt: Ég er að velta fyrir mér endurnýjun á bíl og prófaði Sorento frá KIA. Ekki það að maður vilji vera fullur af fordómum, en þessi reynsluakstur kom mér verulega á óvart, hef þó próað ýmsa bíla, enda á fimmtugsaldrinum! Mér fannst hann verulega skemmtilegur, hljóðlátur, sprækur (dísilll) og ótrúlega rúmgóður. Nú spyr ég þig hvernig er að kaupa og eiga KIA, - þá er maður að hugsa um endursölu og hvernig þessi bíll hefur komið út á Íslandi?

Svar: Gæði þessara bíla hafa batnað - umboðið fyrir Kia er komið úr höndum viðvaninga til fyrirtækis sem hefur reynslu og þekkingu (Hekla). Maður fær mikið fyrir peningana í þessum bíl (skoðaðu umsögn um hann á www.leoemm.com/bilaprofanir) - hins vegar er ekki við því að búast að endursöluverðið sé hátt en svo mikið er víst að það lækkar ekki. Annar fullvaxinn dísiljeppi, einnig á athyglisverðu verði, er nýi SsangYong Kyron, sem er jafnvel enn rúmbetri og sparneytnari en Sorrento.

Beðið um ,,kraftaverk"
Spurt:
Er með díselvél sem er treg í gang í kulda… og reykir töluvert, þá sérstaklega í kulda en er góð heit. Hef verið að setja Comma spíssahreinsi á hana og það hjálpaði. Ég lét skipta um dísur í spíssunum og setti ný glóðarkerti en það lagaðist ekkert.Ef þú hefur einhver trix handa mér væri ég þakklátur.....

Svar: Það er tvennt sem maður myndi skoða; annars vegar hvort kaldstart (aukainngjöf) virki en henni stýrir hitanemi í vatnsgangi (gæti verið óvirkur) eða að forhitunin virki. Þótt sett séu ný glóðarkerti er ekki þar með sagt að einhver glóð myndist á þeim. Reykur bendir til að forhitunin sé óvirk en kaldstartið í lagi. Glóðarkerti þarf að prófa með því að taka þau úr en hafa tengd/jarðtengd og sjá hvort þau glæðast. Glóðarkerti eru fyrir misjafna spennu, því lægri spenna því hraðari forhitun og nákvæmari útsláttur. Sé útsláttarbúnaðurinn bilaður geta ný glóðarkerti eyðilagst um leið og hleypt er á þau straumi í fyrsta sinn.

Renault sem hikstar
Spurt:
Ég á Renault Scénic árg '98. Um daginn tók hann upp á því að hiksta á lágum snúningi (1000 til 2000) til dæmis þegar ég sleppti bensíngjöfinni þegar ég skipti um gír eða var að fara yfir hraðahindranir og gaf honum inn aftur. Ég fór með hann á verkstæði og það var skipt um kerti en eftir tvo daga var hann aftur farinn að láta eins og ég er ekki frá því að þetta gerist bara þegar hann er orðinn heitur. Ertu með einhver ráð handa mér sem ég get prufað áður en ég fer með hann í umboðið til að lesa hann. Var nefnilega að láta skipta um tímareim og allt sem því fylgir með tilheyrandi kostnaði og var að vonast til að getað fundið eitthvað útúr þessu sjálfur.

Svar: Til þess að útiloka þann möguleika að raki geti verið í bensíninu skaltu setja smáslurk af ísvara út í bensínið - truflanir vegna rakaþéttingar (vatns í bensíni) koma yfirleitt ekki fram fyrr en vél hefur náð ákveðnum hita. Á inngjöfinni/soggreininni er stöðunemi (Throttle Position Sensor = TPS) sem getur orsakað svona truflun. Sé inngjafargaffalinn aftengdur og stöðunemanum snúið í botn og látinn smella til baka nokkrum sinnum getur hann virkað eðlilega um stund og truflunin horfið tímabundið. Súrefnisskynjari, sem er í pústgreininni, stýrir bensínblöndunni. Sé hann hættur að virka eðlilega getur bensínblandan orðið of sterk, kertin sótast og eyðslan eykst. Súrefnisskynjari (universal) hefur fengist í Bílanausti og hjá Stillingu og kostað um helming þess sem hann kostar í umboðinu (original). Afgasmæling leiðir í ljós hvort blandan sé eðlileg og súrefnisskynjarinn í lagi - tiltölulega einföld og ódýr aðgerð sem betri verkstæði geta framkvæmt - jafnvel þótt þau hafi ekki tæki til að bilanagreina/kóðalesa Renault.

Slappur Galloper
Spurt:
Við erum með Galloper '99 sem við keyptum í fyrrasumar og hann hefur reynst vel til þessa, en nú er hann orðinn þannig að hann hefur ekki afl til að komast upp brekkur. Í Hvalfjarðargöngunum er hann kominn niður í 40 km hraða síðasta spölinn á norðurleið! Það er búið að skipta um loftsíu og eldsneytissíu en það breytti engu. Í lausagangi nær vélin ekki meira en 3000 sn/mín á botngjöf.Þá er hann líka slappur á jafnsléttu, en nær þó upp sæmilegum hraða á löngum köflum. Það koma öðruhvoru smá hnökrar í ganginn (eins og svelti í augnablik) á ferð. Hljóðið er fínt í lausagangi. Er eitthvað sem við getum gert sjálf til að laga þetta?

Svar: Lýsingin bendir til að annaðhvort vanti eldsneyti eða eldsneyti á móti aukalofti frá pústþjöppu. Fyrsta sem ætti að kanna er eldsneytissían, (sem búið er að gera í þessu tilviki, þ.e. sú stærri) en örsmá sía, sem er í inntaki olíuverksins, getur verið stífluð hafi endurnýjun stóru síunnar ekki verið nógu tíð og þá breytist ástandið lítið þótt stóra sían sé endurnýjuð. En reynast síurnar í lagi berast böndin að stjórnloka/lögn sem stýrir inngjafarauka eftir því sem pústþjappan kemur inn. (Reyki vélin áberandi getur (mekanískt)olíuverkið hafa losnað og tíminn breyst). Spíssar gefa sig yfirleitt ekki á þennan hátt heldur með gangtruflunum og reyk. Líklegast er að teppt sía eða síur orsaki aflleysið en þar næst bilun í stýringin á pústþjöppu/olíuverki. Farðu með bílinn og þetta svar í Vélaland eða Framtak og fáðu þá til að líta á málið.

Trailblazer og kerrutengill
Spurt: Ég á í vandræðum með tengil aftan á Trailblazer ekkert rafmagn er á tenglinum búin að ath. öryggi og reynt að fylgja kapplinum undir bílnum nýbúið er að skifta um tengil rauður er + og hvitur er -mínus Ekkert rafmagn er á tenglinum en það eru þrjú öryggi ,,main", ,,Lbr" og ,,Rbr". Ég er búinn rífa
undan mælaborðinu en þar er ekkert að sjá. Hefur þú heyrt um svona vandamál?

Svar: Fyrsta skrefið er að ganga úr skugga um að tengillinn sé rétt tengdur. Rétt tenging 6 og 7 pinna amerískra tengla eru sýndar m.a. á www.etrailer.com/faq/wiring.asp. Sé um 7 eða 13 pinna ISO-tengil að ræða eru tengimyndir á www.us.is (Upplýsingar um tengibúnað og rafkerfi/US 314). Sé tenging rétt en ekki straumur á tenglinum er bara að taka straum annars staðar um öryggi - sé ekki hægt að finna hvar leiðslan er í sundur. Vandamál með þessa tengla eru yfirleitt ekki straumleysi heldur í sambandi við ,,ameríska fyrirkomulagið á bremsuljósum/afturljósum.

Um steinolíu sem staðgengils-eldsneyti
Spurt:
Ég var að lesa grein þína um rússneska bíla og hafði mjög gaman af. Sérstaklega fannst mér athyglivert að hægt væri að keyra rússajeppana á steinolíu og hef ég þá tvær til þrjár spurningar þar um, værir þú svo vinsamlegur að svara þeim; Hvað þarf að breyta miklu í vélunum og hverju þá? (blöndungnum?). Er vélin verri í gang og gangurinn ójafnari. Og að lokum hversu mikið minnkar aflið?
þetta er áhugavert nú í orkukreppunni þegar stjórnvöld eru að rýja almenning inn að skinni (án þess að heyrist í nokkrum).

Svar: Lágþrýstar bensínvélar (hámarks þjöppunarhlutfall 7:1) má keyra á feitara eldsneyti en bensíni, svo sem steinolíu. Munur á afli fer ekki eftir hitaeiningafjölda (eðlisvarma) í slíku tilviki heldur eftir því hve vel búnaður á vélinni nær að úða feitara eldsneyti, t.d. steinolíu en það er mjög misjafnt. Sumar vélar voru búnar sérstökum forhiturum (pústhitaðri pönnu) til að hita steinolíu sem við það þynnist og úðast betur. Vandinn er hins vegar sá að núorðið eru flestar vélar með of hárri þjöppu til að unnt sé að brenna í þeim steinolíu. Beini innsprautubúnaðurinn gerir það að verkum að auðveldara væri að brenna steinolíu í stað bensíns ef þjappan væri minnkuð en það getur verið talsvert flókin og dýr aðgerð. Það sem verra er er að olíufélögin tóku sig saman fyrir 2 árum um að hætta að selja steinolíu frá dælu en selja hana nú í brúsum - verðið hefur um leið rúmlega tvöfaldast þannig að steinolía er ekki ódýrt eldsneyti lengur - eins og margir sumarhúsaeigendur hafa fengið að reyna þegar þeir hafa keypt olíu á svokallaða ,,kerosen-ofna". Fyrir 7 árum sameinuðust olíufélögin um að hætta sölu á gasi og færa hana til sameiginlegs félags, Gasfélagsins, (með velþóknun Samkeppnisstofnunar), síðan hefur própangas hækkað um mörg hundruð prósentustig og er hérlendis dýrara en annars staðar í V-Evrópu og USA. Ríkissjóður (Samkeppnisyfirvöld) og olíufélögin hafa þannig sameinast um að banna okkur neytendum allar bjargir í þessu efni - og virðist ekkert lát á. Neytendasamtökin eru ónýt og á FÍB er aldrei hlustað - þótt það sé eitthvað að reyna að malda í móinn. Ég hef bent á að hægt er að framleiða dísileldsneyti úr úrgangsfeiti svo sem matarolíu sem fellur til hjá skyndibitastöðum í talsverðum mæli og er fargað með tilkostnaði. En því miður er eins víst að slík starfsemi yrði torvelduð á ýmsan hátt, eins og dæmi sanna, þannig að maður nennir ekki að vera að skarka í þessu. (Eini staðurinn í Rvk. sem ég veit til að enn sé seld steinolía frá dælu er á stærri Esso-stöðinni á Ártúnshöfða - en þar kostar hún 70 kr. lítrinn í sept. 06).

Eilífðar-smurolía?
Spurt: Ég sá á Netinu eftirfarandi um Skoda Octavia: "Þarf aldrei að fara með hann í olíuskipti því það er eilífðarolía á honum". Er svona eilífðarsmurolía skynsamlegt fyrirbæri - ætti maður að nota hana?

Svar: Ég myndi persónulega aldrei bíta á þetta - mér hefur aldrei fundist mikill sparnaður í því að endurnýja smurolíu sjaldnar, t.d. með dýrari ,,kraftaverkaolíu" - yfirleitt eru þetta einhverjar sjónhverfingar vegna svokallaðrar ,,förgunar-vísitölu" (Disposal Index) sem bílaframleiðendur fá styrki út á. Þá vill það oft gleymast að regluleg ,,heimsókn" á smurstöð er fyrirbyggjandi gagnvart ýmsum bilunum í bíl og hefur oft gildi varðandi öryggi bíls.

Um litaða dísilolíu
Spurt:
Ég var að velta því fyrir mér hvort það að nota litaða olíu á common rail díselvél gæti á einhvern hátt skemmt hana.

Svar: Lituð dísilolía er nákvæmlega sama dísilolían og sú ólitaða - liturinn hefur engin áhrif á vélina.

Um núverandi gæði Citroën
Spurt:
Ég keyri um á Peugeot 306 og er svona aðeins að spekúlera í að fara að skipta fljótlega. Ég er svona með vangaveltur um Citroen C4 (nýjan, og spekkaðan eins og ég vil), en var svona að velta fyrir mér hvort og hvaða skoðanir þú hefðir á C4 - hvort þú hefðir reynsluekið honum og findist hvað um hann?
Annars var ég að lesa greinina um Citroen DS bílana - þetta voru snillingsbílar í útliti. Orðið "fallegir" er orð sem bara rétt byrjar að lýsa þeim. Var hins vegar aldrei svo heppinn að setjast upp í slíkann, hvað þá að keyra. Það olli mér því pínu vonbrigðum þegar ég heyrði af því að Citroen verksmiðjurnar hefðu brætt upp mótin að DS...

Svar: Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með bæði Peugeot og Citroën - gæðin eru langt frá því að vera sambærileg við það sem var t.d. í DS hér áður fyrr (þau eru nær því að vera eins og var í GS). Það kemur mér því ekki á óvart að heyra um verulegan viðgerðarkostnað á Peugeot og það kemur heldur ekki á óvart að bílarnir skuli vera misjafnir - sumir afleitir aðrir sæmilegir því það fylgir lágum gæðastaðli. Samanburður t.d. á smíðum og frágangi á Citroën annars vegar og Mazda, Nissan og Toyota hins vegar er sláandi Citroën í óhag og ég á ekki von á að þeir Citroën-bílar sem nú er verið að selja komi til með að endast vel við okkar aðstæður. Nú væri ef til vill hægt að segja að franskir akstureiginleikar bættu upp það sem á vantar í gæðunum. Bæði Peugeot og Renault eru tvímælalaust þægilegri og skemmtilegri í akstri en japönsku bílarnir - en það verður ekki sagt um C4 - Ford Mondeo er t.d. skemmtilegri í akstri. Varahlutir í Peugeot hafa þótt mjög dýrir og ekki kæmi mér á óvart þótt það yrði einnig tilfellið með Citroën, þegar þar að kemur. Að sjálfsögðu eru þetta bara mínar persónulegu skoðanir - aðrir kunna að hafa allt aðra sögu að segja.

Hvað um ,,bensíntöflur"?
Spurt:
Sá á Netinu að farið er að auglýsa ,,Bensíntöflur" sem eiga að minnka bensíneyðslu um 10-30%. 30 töflur kosta 9000 kr og hver tafla 300 kr. Hvert er þitt álit á þessum töflum?

Svar: Ég vil ekki vera fyrirfram neikvæður - en prívat og persónulega myndi ég ekki borga eina krónu fyrir svona töflur. Þar með er ekki sagt að þær geti ekki haft sálræn jákvæð áhrif á þá sem gera út eyðslufreka bíla - en á bensíneyðsluna sjálfa hef ég enga trú á að einhverjar töflur virki. En ástandið á markaðnum kallar á alls konar glenniverk og blekkingar - það er til sérstakt orð í ensku yfir slíkan ,,business" en það er ,,Snake-oil" og blekkingameistarar vita vel að það eina sem alltaf er og verður nóg framboð á eru auðtrúa bjánar.

,,Þjöppulaus Benz 190
Spurt: Ég er með Benz 190 ekinn 137000. '92 árg. Ég keyrði hann inn í skúr til að þrífa og ætlaði síðan að keyra út daginn eftir en þá neitar hann að fara í gang virðist vera eins og hann þjappi ekkert, svo léttur. Ég tékkaði hvort kveikjuhamarinn snérist og það gerði hann svo ég prófaði að þrjóskast aðeins og það endaði með því að hann fór að taka við sér og fór síðan í gang. Það var eins og ég startaði upp þjöppu.síðan keyrði ég út og allt virðist í lagi dettur í gang. Dettur þér eitthvað í hug . Aðeins meira: Þð virðist vera farið að smita olía með heddinu og koma pínulítið af olíu í vatnið er nokkuð annað að gera en skipta um pakkningu í hvelli áður en meira gerist (er samhengi á milli þessa og fyrra?) Er búinn að gangsetja eftir svipaða stöðu og þá datt hann í gang.

Svar: Á þessum vélum er sérstakt öndunarkerfi (á ventlalokinu) og þegar það teppist eru fyrstu merkin olíuleki út með ventlalokinu. Heddpakkningar hafa gefið sig þannig að smurrás lekur út. Þetta ,,þjöppuleysi" þarf ekki að vera annað en að neistinn sé veikur og kertin hafi blotnað. Olía í vatninu er verra mál - það bendir til þess að heddpakkning sé farin á milli smurrásar og vatnsgangs - sé sá leki mikill getur hann haft þau áhrif að ventladempararnir fyllist ekki og þá er stutt í glamur eða tikk. Áður en þú tekur heddið af væri eflaust þess virði að splæsa þjöppumælingu á gripinn - þá veistu hvort heddið þarfnast jafnframt sértækra aðgerða - umfram plönun.

Það er þjónusta fyrir SsangYong Family
Ábending: Ég las á síðunni þinni þar sem var verið að spyrja um álit þitt á SsangYong Family þú segir að það séu engir varahlutir til í þá það er ekki rétt Bílabúð Bbenna flytur inn varahluti í þessa bila á mjög góðu verði, hef góða reynslu sjálfur af því.

Svar: Þeir eru þá nýlega byrjaðir á því - sem er hið besta mál.

Eyðsla Pajero á 33ja tommu
Spurt: Ég er að spá i Mitsubishi Pajero árgerð '99 TDI, ekinn 130 þús. km. 33 tommu breyttur. Hvernig hafa þessir bilar komið út og hve miklu eyða þeir?

Svar: Ég veit ekki betur en að þeir hafi komið vel út, Pajero er , að mínu áliti, besti ferðabíll sem völ er á fyrir okkar aðstæður, ekki síst úti á landi. Ég myndi ætla að eyðslan á 33ja tommu væri 14-17 lítrar að meðaltali - sé bíll og búnaður í sæmilegu lagi.

Musso bensín sem gengur óreglulega
Spurt: Ég er í vandræðum með Musso með bensínvél; hann gengur mjög óreglulega annars slagið, drepur svo á sér eins og lokað sé fyrir bensínið en rýkur alltaf strax í gang aftur. Hann er '98 módel, 4 cyl,ekinn 160 þús. Skipt var um kerti og bensínsíu fyrir 4000 km og hedd var planað í fyrra hjá Kistufelli.

Svar: Þetta gæti verið bilun í bensíndælu, sem er rafknúin, eða straumstýri/straumloku/relay fyrir bensíndæluna eða bilun í svissbotninum. Í þessu tilviki myndi maður byrja á að kóðalesa vélkerfið til að sjá hvort bilanakóðar eru skráðir - þú færð það gert hjá umboðinu, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs á höfuðborgarsvæðinu og umboðsverkstæðum úti á landi - það er ekki dýr aðgerð en getur sparað mikinn tíma við bilanaleit.

Mælaborð í M-Benz
Spurt:
Ég er með Mercedes-Bens 240 C 1998 og það er farin pera í mælaborðinu. Ég veit ekki hvernig á að rífa mælaborðið úr til að komast að perunum. Gætir þú sent mér upplýsingar um þetta vandamál.

Svar: Mælaborðinu er rennt í gúmmístýringu sem nær allan hringinn. Það er dregið út með því að smeygja þunnum vír, beygðum í L, inn fyrir hægra og vinstra megin, vírunum snúið 90°, og mælaborðið dregið varlega út,sikk sakk, þar til það er laust og hægt að komast að perunum.

Sjálfskiptivandamál í Subaru Legacy
Spurt:
Ég er með 2001 árgerð af sjálfskiptum Subaru Legacy keyrðan 93000 km. Uppúr 60000 km fór ég að verða var við tregðu í sjálfskiptingunni að skipta sér upp, sérstaklega frá öðrum gír uppí þriðja gír og þá aðallega þegar bíllinn var kaldur. Lýsti þetta sér þannig að við skipti á milli þessara gíra fór vélin aðeins upp á snúning áður en skipting heppnaðist. Síðan hefur þetta smá versnað. Þegar bíllinn er núna kaldur þá þýtur vélin upp á snúning áður en skipting verður. Held líka að þetta sé til staðar nú við skiptinu milli fyrsta og annnars gírs. Þegar ég er búinn að keyra 2-4 km virðast skiptingar eðlilegar. Skipti um sjálfskiptiolíu í tæplega 60000km, aftur í 92000 km hjá Subaruverkstæði. Subaru mönnum fannst olían ekkert gruggug. Þegar skipting er orðin heit virðist hún skipta sér eðlilega. Hef ekkert orðið var við smelli eða högg. Skiptingin snuðar ekki neitt þegar í gíra er komið. Aldrei neitt verið dregið á þessum bíl(króklaus). Gaman væri að heyra þitt álit á þessu.

Svar: Þetta hljómar eins og ventlabox-vandamál - stirður spóluloki í ventlaboxi, t.d. lokinn sem hleypir inn á dæluna þannig að þrýstingur byggist ekki nógu hratt upp í rásum að kúplingum og snuð myndar sót í vökvanum sem við það dekkist. Ef þú er heppinn er möguleiki á að þetta megi laga án þess að taka skiptinguna úr bílnum.Fyrsta skrefið er að láta þrýstiprófa skiptinguna.

ABS-ljós lýsir í Benz Sprinter eftir viðgerð
Spurt:
Ég þurfti að taka úr sambandi afturhjóladælur á Bens Sprinter 312 árg. 1999 sem ég á. Ég hélt mig vera búinn að tappa af öllu lofti af kerfinu. (að minnsta kosti kemur ekkert loft lengur bara vökvi). En nú logar ABS ljósið í mælaborðinu stöðugt sem það gerði ekki áður. Er þetta mögulega vegna þess að það er ekki farið allt loft af kerfinu?. Meðan opið var aftur úr kerfinu var bremsufetillinn festur alveg niður við gólf. Svo annað; ég ætla að skipta um stýrishjól, er það eitthvað mál vegna loftpúðans í því?.

Svar: Það getur verið talsvert bras að lofttæma ABS-bremsukerfi - loft vill sitja í ABS-lokunum sem eru í sérstöku ABS-lokahúsi - ef það er tilfellið finnurðu að bremsupedallinn pumpast upp. Það er bara að taka aðra törn á loftuninni og til öryggis skaltu tappa af framhjólunum líka. Þú þarft að kunna að aftengja ,,Airbag-tölvuna" til að taka stýrishjólið af - það er ekki nóg að taka öryggi úr eða aftengja rafgeymi. Ráðlegg þér að fela það verk löglegu verkstæði.

Um tímareimar yfirleitt
Spurt:
Getur þú frætt mig á því hvað tímareim á að endast? Ég hef alltaf heyrt að tímareimar endist svo og svo marga km en einn ágætur vinur minn staðhæfir að það eigi að miða við árafjölda; reimarnar eiga ekki að vera meira 4-5 ára í mesta lagi - eftir það séu þær farnar að gefa sig. Sem sagt: Aldur, en ekki noktun, eigi að ráða.

Svar: Það fer eftir bíltegundum; - lélegri bílar eru með lélegri tímareimar, t.d. 60 þús. eða 3 ár, vandaðri bílar 90 -120 þús eða 4-5 ár og þannig mætti áfram telja. Hiti og ýmsar gufur hafa áhrif á tímareim einnig efni í andrúmslofti þannig að aldur reimar er einnig takmarkandi þáttur. Ný reim sem geymd er í loftþéttum umbúðum og í pappakassa og þannig varin fyrir sólarljósi hefur margra ára hillutíma á meðan ný reim sem látin er hanga á nagla er varasöm eftir 3 ár. Maður vildi geta stólað á að ,,original" tímareimar væru betri en þær sem eru á eftirmarkaði en í því efni er ekki á vísan á róa - öruggast að fara eftir tilmælum framleiðanda bíls og endurnýja reimina reglulega (í USA eru komnar á markaðinn reimar sem sagðar eru endast bílinn).

Rétt magn smurolíu á Porsche 911
Spurt:
Keypti í vetur 30 ára gamlan Porsche 911 frá Þýsklandi - gullfallegan bíl. Nú var ég að fara að setja hann aftur á götuna eftir vetur í bílskúrnum. Einhver olía hafði lekið frá vél og þegar ég athugaði
kvarðann var hann alveg þurr. Setti tæpa 2 lítra á, en kvarðinn enn nánast þurr. Legg ekki í gangsetningu við svo búið.
Er ég að gera tóma vitleysu - eða á ég að bæta enn meiri oíu á vélina?

Svar: Eitt af því hættulegasta sem kemur fyrir flatar vélar er yfirfylling smurolíu sem þá nær upp fyrir stallinn og lárétt inn í sílindra og upp í brunahólf og leiðir til þess að heddið springur. Tappaðu af vélinni allri smurolíu og fylltu svo aftur á nákvæmlega það magn sem tiltekið er í handbók bílsins. Algengasti smurolíuleki í 911 frá 8. áratugnum er með olíukælinum framan á vélinni (næst hásingunni). Gúmmíhringir sem eiga að þétta að og frá-rás kælisins innþorna og þarf að endurnýja reglulega. Þetta sést venjulega á polli undir bílnum á þessum stað.

Hentar ,,Flotaolía" á dísilbíl?
Spurt:
Hvað mælir á móti því að nota flotaolíu á bíla - ég er með Toyota LandCrusier '99
er hætta á því að skemma vélina á þessu?

Svar: Um leið og olíufélag fer að bjóða ódýrara eldsneyti sérstaklega fyrir allar dísilvélar í skipum (en ekki í bílum) þýðir það einungis að um er að ræða minna hreinsaða gasolíu sem ekki stenst þær kröfur sem gerðar eru til eldsneytis fyrir venjulega umferð vegna mengunar í útblæstri (því engar kröfur eru gerðar um mengunarvarnir frá dísilvélum í skipum og bátum). Olíufélög eru engar góðgerðarstofnanir. Án þess að vita samsetningu flotaolíu, t.d. eins og Esso-flotaolíunnar, grunar mig að mesti munurinn sé í því fólginn að brennisteinsinnihald sé yfir þeim mörkum sem nú gilda fyrir bílaeldsneyti (bæði bensín og dísil). Sértu með eldri LandCruiser með hefðbundnu olíverki (stjörnu- eða raðdælu) ætti hærra hlutfall brennisteins að vera til bóta því að brennisteinninn eykur smureiginleika olíunnar. Yfirleitt eru venjulegar dísilvélar ekki viðkvæmar fyrir breytilegu gæðastigi dísilolíu - það er ekki fyrr en með forðagrein (common rail) sem t.d. brennisteinsinnihaldið fer að skipta máli og þá ekki vegna forðagreinarinnar sem slíkrar heldur vegna hvarfakútanna sem nú er farið að hafa við nýjustu dísilvélar. Ég sé enga tæknilega hindrun á því að nota flotaolíu á þennan bíl aðra en mengunarmælingu við skylduskoðun (athugasemd) - sé skoðunin eins og hún á að vera. En þetta er, að sjálfsögðu, mín persónulega skoðun - og engin ábyrgð tekin á henni.

Hvaða 7-manna bíll kemur til greina?
Spurt:
Ég er að leita mér af góðum 7 manna jeppa 4x4 og helst með þægilegum og góðum sætum, viðhaldslitlum og sterkum, 2004, 2005 eða nýjum. Með hverjum myndir þú mæla?

Svar: Nánast allir 7-manna jeppar eru 5+2 =7manna en það þýðir að 2 öftustu sætin eru ekki nothæf fyrir fullorðna nema í styttri ferðum. Einn jeppi sker sig þó úr í þessu sambandi en það er nýi Land Rover Discovery - hann er raunverulegur 7-manna bíll fyrir 7 fullorðna. Þú getur lesið um þetta í Bílaprófunum á www.leoemm.com (um Nissan Pathfinder og Land Rover Discovery). Þurfir þú fullkominn 7manna bíl er nýi Discovery sá sem þú skalt skoða. PS. Veit ekki hvort þú flokkar Hyundai Starex 4x4 sem jeppa en nýr slíkur er kominn af árgerð 2006 - meiriháttar 7 manna bíll - sá rúmbesti af þeim sem hér eru upp taldir.

Meira um kraftaverkatæki sem eiga að draga úr eyðslu
Spurt:
Mig langaði til að spyrja þig hvort að svona hlutir sem auka loftsteymi inn á vél, þ.e. með því að mynda hvirfil, séu í raun að virka. Þ.e. hvort að þetta minnki eldsneytiseyðslu og auki kraft?

Svar: Trúin flytur fjöll: Ég hef það frá mönnum sem ég treysti að þeir hafi mælt áhrif af þessum búnaði sem á að mynda hvirfil í lögn að soggrein! Persónulega, og þá byggi ég á langri reynslu af blaðamennsku þar sem margoft hefur verið reynt að telja manni trú um að einhver svona ,,galdrabúnaður" virki, myndi ég ekki láta tefja mig í 5 mínútur vegna svona dóts. Stundum virðist þetta vinna sálfræðilega - menn mæla aukna sparneytni til að réttlæta að þeir hafi ekki verið hafðir að fíflum - en það er einmitt eitt af undirstöðuatriðum í svokallaðri ,,Snake-oil" sjónhverfingalist sem blekkingameistarar beita - svona álíka tækni og Nigeríumennirnir beittu á fólkið sem taldi að peningaseðlar fjölfölduðust væru þeir settir í umslag með pappírsmiðum og svörtu dufti .........

Eyðsla pallbíla
Spurt:
Ég var að lesa grein þína um eyðslu pallbíla. Ég er með Ford Excursion árgerð 2004, kom á götuna jan. 2005. Sá bíll hefur alltaf eytt rúmlega 20 lítrum á 100km. innanbæjar, fer niður í lengri ferðum. Ég lét hækka hann upp á 37 tommur í apríl 2005 og við það jókst eyðslan aðeins, en ekki mikið. Þetta er verulega meiri eyðsla en þú lýsir í grein þinni um pallbílnana með sömu vél.
Er þetta eðlileg eyðsla?

Svar: Eyðslan sem um er rætt í greininni á við óbreytta pallbíla á upprunalegri dekkjastærð. Ég myndi telja það eðlilegt að eyðslan jykist með stærri dekkjum - hins vegar hafa verið hér bílar með óeðlilega eyðslu sem hefur stafað af ólagi auk þess sem sumir pallbílar eru viðkvæmari fyrir mótvindi en aðrir. Minn Ford Ranger með 4ra lítra V6-vél eyðir t.d. áberandi meiru í hvassviðri og kulda en við bestu aðstæður er eyðslan innan við 14 lítrar. Í þínum sporum myndi ég láta athuga dísilkerfið til öryggis - 20 lítrar er í hærri kantinum þótt Excursion sé þyngri og eyðslufrekari bíll en algengustu pallbílar.