Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 15

Des. 2005 - mars. 2006 Netfang: leoemm hjá simnet.is (þú setur @ í stað hjá)
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpóst

Volvo bremsuvandamál
Spurt:
Ég er langt kominn með að gera upp gamlan Volvo PV 544 en er í vandræðum með bremsurnar. Bremsunum á framhjólunum var breytt í diskabremsur með sérstöku breytingasetti sem fylgdi búnaður fyrir sogvirkt hjálparátak. Bremsurnar virka ágætlega fyrst í stað en síðan liggja bremsurnar út í á afturhjólunum sama hve mikið er slakað upp á útíherslunum. Í þessu breytingasetti fylgdi með sérstakur loki (Reduction valve) fyrir afturhjólakerfið. Er hugsanlegt að hann valdi þessu, geti t.d. verið öfugt tengdur?
Svar: Jöfnunarlokinn gegnir því hlutverki að koma í veg fyrir að afturhjólin læsist föst á undan framhjólunum. Þetta breytingarsett sem þú talar um er trúlega byggt á bremsuhlutum úr Amazon sem var með diska að framan en skálar af aftan. Í PV-bílnum eins og í öðrum bílum með skálabremsur á öllum er bakþrýstingsloki í höfuðdælunni. Hlutverk hans er að halda ákveðnum yfirþrýstingi á kerfinu sem gormarnir, sem halda bremsuklálkunum saman, mótverka þannig að borðarnir leggjast ekki út í. Þegar diskabremsur eru settar á framhjól í svona kerfi þarf að taka þennan bakþrýstingsloka úr höfuðdælunni til að bremsurnar liggi ekki út í. Og það hlýtur að vera rangt í bréfinu frá þér að það séu afturhjólin sem festast - það hljóta að vera, eðli málsins samkvæmt, framhjólin sem liggja í því yfirþrýstingurinn frá höfuðdælunni gerir þ.að að verkum að klossarnir klemmast að diskunum. Jöfnunarlokinn hefur ekkert með þetta vandamál að gera. Og þá má bæta hér við að þeir sem hafa sett diskabremsur að framan á gamla Willys-jeppann hafa lent í þessu sama vandamáli.

Ódýr Porsche!
Spurt:
Ég hef mikinn áhuga á Porsche og hef verið að velta fyrir mér kaupum á notuðum bíl. Á meðal þeirra sem til greina koma er Porsche 928 GTS af ágerð 1993 sem ég rakst á að vefsíðu breskrar bílasölu sem mér sýnist vera á mjög hagstæðu verði. Bíllinn er beinskiptur með hægri handar stýri og þeir segjast geta útvegað mér allt sem til þarf til að breyta honum fyrir vinstrihandar stýri. Er það mikið verk ef maður hefur svona ,,breytingarsett"?

Svar: ,,Ódýr Porsche" er undantekningarlaust ávísun á vandamál því það er einfaldlega ekkert ódýrt við þessa bíla. Þeir sem leita að ódýrum Porsche (en það eru yfirleitt Noðrmenn) ættu frekar að snúa sér að venjulegum bílum á borð við VW og Daewoo (nú Chevrolet). Eins og fram kemur annars staðar á þessari vefsíðu (sjá aðalsíðu) er verðhrun á notuðum Porsche Boxster ekki að ástæðulausu og hafa margir farið illa út úr kaupum á þeim bílum og setið uppi með ónýta vél og 1-2ja milljón króna viðgerðarkostnað. Þú skalt fara varlega að þessum Porsche 928. Breski bílasalinn er greinilega að reyna að blekkja þig: Í fyrsta lagi er ekkert til sem heitir ,,breytingarsett" fyrir vinstri handar stýri, a.m.k. ekki frá Porsche. Í öðru lagi, og það er aðalástæða þess að þessi ákveðni bíll er á ,,hagstæðu" verði, er að hann er beinskiptur. Beinskiptur kassi í Porsche 928 (en einungis lítill hluti bílanna var seldur beinskiptur) er keppniskassi, sérstaklega gerður fyrir hægri handar stýri eins og algengt er í breskum og ítölskum alvöru-sport/keppnisbílum. Það þýðir að skiptiferlið er öfugt sé stýrið vinstra megin; fyrsti gírinn er frá manni og upp og 5. gírinn að manni og upp. Og þessu skiptiferli verður ekki breytt. Þetta er ástæðan fyrir því að allir 928-bílarnir sem seldir voru í Bandaríkjunum eru sjálfskiptir (ZF) og þetta er jafnframt ástæða þess að ég liti ekki við beinskiptum 928.

Eru startkaplar hættulegir?
Spurt: Í handbók með bílnum mínum eru leiðbeiningar um notkun startkapla við gangsetningu. Þar er sagt að tengja skuli kaplana í ákveðinni röð; fyrst á milli plúspóla geymana og síðast mínuskapalinn í stellið á bílnum með tóma geyminn en ekki í mínuspólinn á rafgeyminum sjálfum. Ég hef verið að spyrja ýmsa mér fróðari menn hvers vegna ekki sé sama í hvaða röð startkaplar séu tengdir en hef ekki fengið nein "skynsamleg" svör - því spyr ég þig.

Svar: Þegar rafgeymir afhleðst myndast vetni; litlaust, lyktarlaust gas sem myndar sprengihættu. Því skyldi alltaf gera ráð fyrir hættu af sprengingu nálægt rafgeymi sem hefur tæmst, t.d. yfir nótt. Hlaupi neisti nálægt tómum rafgeymi getur orðið af sprenging. Sama gildir um reykingar. Sprenging getur tætt rafgeymi sundur og af hlotist alvarleg slys, ekki síst ef brennisteinsýra slettist á fólk en hún getur m.a. valdið alvarlegum augnskaða. Sprengihætta er einnig til staðar sé geymissýran frosin í tæmdum rafgeymi. Reglurnar um tengingu startkapla í ákveðinni röð eru því mikilvægar. Með þeim er reynt að tryggja að viðkomandi sé sem fjærst rafgeymi, þegar tveir rafgeymar tengjast endanlega, en þannig minnkar hætta á að neisti geti valdið sprengingu. Fólk ætti því að kynna sér upplýsingar í handbók bíls.

VW Golf gengur ekki lausagang
Spurt: Er í vandræðum með Golf 1600 '94 sem gengur ekki hægar en 2000 sn/mín. Vélin virðist ganga eðlilega fyrir utan lausaganginn. Ný kerti breyttu engu. Hvað getur verið að?

Svar: Þetta er vandaræðagripur eins og flestir VW-bílar virðast vera síðustu ár, þessi 1600-vél í árgerð 1994 er með blöndungi með rafeindastýringu. Líklegasta skýringin á því að lausaganginn vantar er að lausagangsrásin í blöndungnum sé stífluð. Endurnýjaðu bensínsíuna og blástu blöndunginn út. Leysi það ekki málið berast böndin að kveikjukerfinu, ónýtt lok og/eða þræðir gætu orsakað þetta - blöndungurinn er þó mun líklegri.

Hitasveiflur í Corollu
Spurt: Ég á Corollu '95 sem hefur aldrei slegið feilnótu fyrr en nú. Tvö atriði pirra mig mest: Miðstöðin hitnar seint. Vatnshitamælirinn er löngu kominn á sitt venjulega svið en samt blæs miðstöðin köldu hvort sem loft er tekið að utan eða innan. Þá á mælirinn til að rjúka upp, næstum á rautt, en fellur svo aftur á sitt eðlilega svið. Þetta getur endurtekið sig 2-3 sinnum en svo ekki aftur fyrr en mörgum dögum seinna. Í öðru lagi er lausagangurinn óreglulegur og flöktandi á meðan vélin er að ná að hitna, eins og hún gefi sér sjálf inn. Þetta hættir þegar vélin hefur hitnað. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Sértu heppinn er vatnslásinn ónýtur - en sé hann hálffastur getur það lýst sér svona - ýmist lokar hann ekki (mælirinn lengi að stíga) eða lokar ekki á réttum tíma (mælirinn stígur hátt og dettur svo niður) og enginn hiti frá miðstöðinni. Sértu óheppinn, en það sýnist mér líklegt, er heddpakkningin farin - sést á loftbólum í yfirfallsgeyminum þegar vélinni er gefið inn heitri en þá veldur loft í vatnsganginum því að miðstöðin hitar ekki nema öðru hverju. Þá getur það hjálpað til við gangtruflun sé sótútfelling á inngjafarspjaldinu. Súrefnisskynjarinn getur verið ónýtur (þú færð hann í Stillingu fyrir 50% af því sem hann kostar í umboðinu). Sogleki getur valdið óreglulegum gangi. Kertaþræði þarf að endurnýja á nokkra ára fresti í þessum bílum. Rakaþétting í bensíni getur lýst sér svona (slurkur af ísvara ætti að laga það).

Olíuskipti - hve oft?
Spurt: Ég var að kaupa nýjan SantaFe-jeppling með dísilvél. Hjá umboðinu var mér sagt, þegar ég spurði um olíuskipti, að einu sinni á ári eða á 15 þús km. fresti væri reglan. Er það óhætt?

Svar: Ef til vill er það óhætt en ég myndi ekki telja það skynsamlegt. Sparnað í olíuskiptum, sérstaklega á dísilvél við okkar aðstæður (umhleypingur), tel ég vera vondan "bisness". Mín reynsla er sú að hagkvæmast sé að nota ódýrustu smurolíuna á markaðnum, t.d. Comma, og endurnýja hana oft frekar en dýrari smurolíu og endurnýja sjaldnar. Á dísilvél myndi ég skipta um olíu og síu á 5000 km fresti og á 8000 km fresti á bensínvél. Það skyldi ekki gleymast að eftirlitið, sem fylgir olíuskiptum, er mikilvæg forvörn (smurstöðvar mættu gera meira af því að auglýsa þann þátt þjónustunnar). Það þarf ekki mikið að gerast til að viðgerðarkostnaður hlaupi á hundruðum þúsunda króna og því er kostnaður við tíðari olíuskipti ódýr trygging, að mínu mati, sem ég byggi m.a. á notkun og reynslu af dísilbílum s.l. 25 ár og tæplega hálfrar milljón km akstri.

Óreglulegur lausagangur í Skoda og fleiri teg.
Spurt:
Skoda Favorit 1300 1995 gengur óreglulegan lausagang eins og vélin sleppi úr, en sé gefið inn virðist allt vera í lagi. Kerti eru ný og búið að mæla upp kveikjukerfið sem virðist vera í lagi og eyðslan er ekki óeðlileg. Hvað getur valdið svona gangtruflun?

Svar: Þessi vél er með háspennukefli fyrir hvert kerti og án kveikju og því án kertaþráða. Líklegasta skýringin á gangtrufluninni í lausagangi er lek pakkning á soggreininni (soggreinin laus og pakkningin þá ónýt). Þú getur fundið út á hvaða sílindra pakkningin er lek með því að aftengja einn og einn spíss með vélina í lausagangi. Sá spíssinn sem minnst munar um við aftengingu er á þeim sílindra sem dregur falskt loft. Annað næstum óbrigðult ráð til að staðfesta sogleka við óreglulgan lausagang er að hafa bensín í dælubrúsa og úða yfir soggreinina. Breytist gangurinn við það dregur vélin falskt loft. Ath. Þessi bilun er nokkuð algeng, einskorðast ekki við Skoda og eldri VW-vélar heldur er einnig þekkt í Honda-vélum. Hún getur tafið menn verulega því einkennin eru þau sömu og ónýtt kerti, þráður eða ónýtur spíss. Ástæða bilunarinnar er sú sama í öllum þessum vélum - þær eiga það sameiginlegt að vera með soggrein úr áli - vegna ess hve hún stendur langt út frá heddinu nær hún að titra og mer smásaman pakkninguna sundir. Til að koma í veg fyrir þessa bilun eru nýrri vélar með léttari soggrein úr plasti.

Lituð dísilolía
Spurt: Hvernig er það með litaða dísilolíu... ég var að spá í dísilbíl og eigandinn sagði mér að hann hafi notað litaða vinnuvélaolíu til að spara sér útgjöld. Hefur lituð olía einhver áhrif á vélina? Mér líst illa á að kaupa eitthvað sem er merkt eða ólöglegt!

Svar: Dísilolían er sú sama, lituð eða ólituð. Hafi verið notuð lituð olía á bílinn, en það er ólöglegt og varðar sektum en liturinn lossnar ekki úr geyminum fyrr en eftir dúk og disk og eins víst að þú gætir lent í vondum málum með svona "svindlbíl"; t.d. gætir þú lent í miklum vandræðum með að sanna að liturinn séu leifar af svindli fyrri eiganda en ekki þínu.

ABS-ljós
Spurt:
Ég á Ford Econoline '94, ekinn 200 þús. sem kveikir öðruhvoru gult aðvörunarljós fyrir ABS-kerfið. Sé drepið á vélinni og hún gangsett aftur slokknar ljósið en það kemur alltaf aftur. Þessi bíll er með ABS á öllum hjólum. Búið er að skifta um straumloku í öryggjaboxi í húddinu og öryggi í boxinu inni í bílnum en án árangurs. Klossar, diskar og borðar eru í lagi. Getur verið að ABS-nemar séu ónýtir eða þarfnist hreinsunar?

Svar: Oftast þegar þetta gerist í amerískum Ford er orsakarinnar að leita í kerutenglinum. Venjulega er hægt að ganga úr skugga um þetta með því að kanna hvort bremsuljósin virki eðlilega. Hafi bremsuljósaöryggið brunnið við það að tengja ljós á kerru við bílinn eða brennur strax og stigið er á bremsuna (en þá kviknar ABS-ljósið) eru miklar líkur á því að kerrutengillinn sé ekki rétt tengdur. Bremsuljósin í tenglinum (Nr. 54 rauður) þarf að tengja um straumloku beint frá bremsuljósarofanum. Væri bilunin í ABS-kerfinu myndi gaumljósið lýsa stöðugt. Byrjaðu að kanna bremsuljósin/kerrutengilinn.

Of mikil smurolía
Spurt: Ég fór með bílinn í smurningu og þar var sett of mikil olía á vélina en það uppgötvaði ég af bláum reyk sem kom úr pústinu. Ég fór samdægurs til að fá dælt af honum - það reyndist vera um 300 ml of mikið á vélinni (er 5 lítrar í allt). Reykurinn hefur stafað af því að smurolía hefur smitast með stimplunum inn í brennslurýmið - hvaða skaða getur svona yfirfylling valdið á vélinni?

Svar: 300 ml gera vonandi ekki meira en að valda reyknum sem þú lýsir vegna þess hve fljótt þú brást við. Yfirfylling getur valdið alvarlegum skemmdum á vélum - jafnvel eyðilagt hedd í vélum með lárétt liggjandi stimpla á borð við Porsche og Subaru. Það gildir með vélar eins og sjálfskiptingar að olíumagn á undantekningarlaust að mæla nákvæmlega.

Hraðamælir í Skoda
Spurt: Ég á í vandræðum með hraðamælinn í Skoda Octavia 1600 '99. Hann virkar bara öðru hverju og á því er engin regla. Hjá umboðinu er mér sagt að mælaborðið sé ónýtt. Getur það verið? Ég er með KN-svepp sem er frekar mikið mixaður í - getur hann haft áhrif á mælinn? Hvað er hægt að gera í stöðunni?

Svar: KN sveppurinn (loftsían) hefur örugglega ekkert með þetta vandamál að gera. Líklegasta skýringin er sú að prentrás í mælaborðinu sé rofin en nái sambandi þegar undirlagið hefur náð að þenjast vegna hita (þegar miðstöðin er orðin heit - eða útihitastig hátt o.s.frv.). Bili mælaborð af þessari gerð er sjaldan hægt að gera við það. Lausnin er því sú að endurnýja mælaborðið.

Jarðvegsmengun af tjöruleysiefni
Spurt: Til stendur að útbúa þvottaaðstöðu á stæði við hliðina á mínu í bílageymslu fyrir 50 bíla. Er ekki mengun af þessum tjöruleysiefnum sem fólk úðar yfir bílana - t.d. loftmengun en fólk fer daglega með börn í og úr bílageymslunni?

Svar: Það er ekki að ástæðulausu að notkun þessarra tjöruleysiefni við heimahús er yfirleitt bönnuð eða verulega takmörkuð á Norðurlöndum. Leysiefnið sjálft, sem oftast er terpentína (næsti bær við dísilolíu), er bæði mengandi og hættulegt (krabbameinsvaldur í andrúmslofti) ekki síður en koltjaran sem efnið leysir af bílunum. Hérlendis fer hluti tjöru og leysiefnis út í jarðveginn og væntanlega saman við grunnvatn með tímanum. Í byggingarsamþykktum eru sérstök ákvæði um frágang frárennslis frá þvottastæðum. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélags fer með þessi mál og á að geta veitt allar nauðsynlegar upplýsingar.

Tæring ólíkra efna?
Spurt:
Ég lét innrétta VW Transporter '99 fyrir 3 árum sem húsbíl. Verkið vann fagmaður og hefur innréttingin reynst vel nema sinkhúðaðar járnskrúfur sem festa lista og boga í þakið innanvert. Hvítt sinkoxýð byrjaði snemma að berast út í áklæðið í toppnum. Ég setti skrúfur úr ryðfríu stáli í staðinn en tæring heldur áfram. Mér hefur verið sagt að þetta sé vegna útleiðslu í raflögninni í bílnum en mig grunar að þetta hafi eitthvað með rafeindaflutning milli málmtegunda að gera. Bíllinn á það til að tæma út af rafgeyminum kannske 1-2 svar á sumri án augljósrar ástæðu en það gerist helst ef hann hefur staðið óhreyfður í nokkra daga í rigningartíð. Getur þú gefið mér ráð?

Svar: Í sambandi við útfellinguna á skrúfunum þá getur það átt sér skýringar í raffræðilegu fyrirbrigði sem nefnist ,,dielektríski skalinn" og skýrir hvers vegna ákveðnir málmar eiga ekki samleið, skýrir t.d. hvers vegna ál og stál má ekki snertast. Þú gætir prófað að nota leiðandi feiti á gengjurnar - hún fæst m.a. hjá Wurth og í Bílanausti/N1 og nefnist ,,Dielectric Compound". Ástæða þess að rafgeymirinn tæmist getur átt sér eðlilegar skýringar - ekki þarf meira en venjulega mælaborðsklukku til að tæma hann á nokkrum mánuðum. Besta ráðið við því er að setja svokallaðan höfuðrofa á jarðsambandið frá geyminum en með honum aftengirðu geyminn þegar bíllinn er ekki í notkun. Tæmist rafgeymirinn hins vegar alveg á 1-2 sólarhringjum gæti útleiðslan verið í alternatornum - ónýt einstefnudíóða í spennustillinum.

Leki á milli skiptingar og vélar
Spurt: Ég á Plymouth Voyager '93 með 3,3ja lítra vél. Farið er að leka sjálfskiptiolía út á milli vélar og skiptingar, þ.e. niðru úr túrbínuhúsinu. Þetta er ekki mikið en samt myndast blettur þar sem hann stendur. Hvað er líklegast að sé að?

Svar: Orsökin er slit á stút sjálfskiptitúrbínunnar sem gengur inn í aðaldæluna. Oftast þarf að sjóða á stútinn og renna niður í mál og endurnýja pakkdósina um leið - sjaldnar nægir að skipta um pakkdósina eingöngu. Áhugasömum er bent á að spurningar og svör, sem birst hafa hér í DV-bílum, ásamt meira upplýsingaefni má nálgast á www.leoemm.com (Brotajárn).

Maðkur í mysunni ….
Spurt: Ég er að vandræðast með Ford 350, með 6L vél árgerð 2004. Hosur og millikælirinn hafa sprungið. Þegar plasthosan frá millikælinum að soggreininni sprakk var mér sagt að þetta væri ekki óeðlilegt svo að ég setti nýtt plaströr og hélt áfram að keyra bílinn. Svo sprakk millikælirinn í keyrslu. Nýr millikælir var settur í og mælist þrýstingur í honum 27 til 40 pund þegar mest er. Þessi bíll er á 46" dekkjum. Í öðrum svona 350 Ford mælist þrýstingurinn mest 27 pund. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Annað hvort hefur eitthvað verið ,,skrúfað upp" eða að ,,boost pressure valve" (búnaðurinn sem stillir forþjöppunina) er bilaður eða að fiktað hefur verið í kerfinu - því þrýstingurinn er greinilega of mikill. Varla kæmi á óvart þótt sá eða þeir sem breyttu bílnum fyrir 46" dekkin kunni einhverjar skýringar - tjékkaðu a.m.k. feril bílsins.!

Ábyrgð á notuðum bíl
Spurt: Hversu víðtæka ábyrgð ber seljandi á notuðum bíl?
Getur kaupandi farið fram á að seljandi beri kostnað vegna þess að eithvað losnar í gömlum bíl (í þessu tilviki er um að ræða 16 ára gamlan Subaru)? Þá er átt við einhvað eins og strekkingu á viftureim og þess háttar sem getur alltaf losnað á gömlum bíl...

Svar: Um gamla bíla - og þá er yfirleitt átt við eldri bíla en 3ja ára og sem eru úr ábyrgð framleiðanda - gildir ábyrgð gagnvart duldum göllum í 2 ár samkvæmt svokölluðum lögum um lausafjárkaup (Kaupalögin). Ennfremur er til ,,Reglugerð um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki", nr. 044/2003. Hana má nálgast á vef Umferðarstofu (www.us.is/Reglugerðarbrunnur) eða á vefsíðu Alþingis (www.althingi.is). Í þessumlögum/reglugerðum, sem reyndar eru á svo vandaðri Íslensku að fáir skilja þau að gagni, er fjallað um skemmdir eða ólag sem fyrri eiganda mátti vera kunnugt um en lét ekki getið við söluna. Að mínu áliti gildir ekki nein ábyrgð að öðru leyti - sá sem kaupir t.d. 16 ára gamlan Subaru greiðir fyrir hann gangverð eins og er á 16 ára bíl og má eiga von á að sá bíll geti bilað eins og aðrir notaðir bílar. Dæmi: Vatnshosa, viftureim, kertaþræðir, hurðalæsing, pera í aðalljósi o.s.frv. Hrynji hins vegar gírkassi, kúpling hættir að slíta, rafgeymir snýr ekki vélinni o.s.frv. myndi ég telja það dulinn galla sem bera að bæta (eða kaup gangi til baka) nema vottar séu að því að kaupanda hafi verið greint frá því áður en salan fór fram.

Fastar læsingar
Spurt: Ég á 5 ára gamlan Hyundai Accent sem hefur lengi verið þannig að erfitt er að opna og loka honum í frosti. Hurðin læsist ekki fyrr en eftir u.þ.b. 5 mín að lásinn grípur við að hitna. það virðist eitthvað vera frosið í læsingunni. Svo á ég Subaru Station 1991 í ágætu standi að öðru leyti en því að miðstöðin gengur ekki nema á 3. og 4. hraða og hann blæs bara á rúðuna hvað sem öllum stillingum líður? Hvað er til ráða?

Svar: Þetta með læsingarnar er ekki óalgengt (og ekki bundið við Hyundai). Því veldur rakamettuð blanda af feiti, ryðvarnarefni og óhreinindum í læsingunni sjálfri sem nær að frjósa/stirðna í kulda. Læsinguna þarf að taka úr hurðinni, þrífa hana upp úr steinolíu eða bensíni og blása hana hreina. Síðan þarf að smyrja hana með feiti og setja í á nýjan leik. Varðandi Subaru-miðstöðina þá er þetta ekki mjög tæknilega flókið kerfi - líklegasta skýringin á því að einungis blæs upp á rúðu er að barki/vír frá stillihnappi í spjaldloka sé í ólagi eða laus. Ástæðan fyrir því að mótorinn blæs bara á 3. og 4. er að mótstaðan er ónýt - það er ferningslaga kubbur í stokknum eða á stokkunum á bak við hanskahólfið - muni ég rétt.

Vitara jeppabreyting
Spurt: Mig langaði að forvitnast aðeins. Ég er með Suzuki Vitara 33" breyttan 33" og langaði að vita hvað þú haldir að ég muni þurfa að gera til að koma 35" dekkjum undir hann. Eru það einhverjar dýrar breytingar eða er nóg að skera aðeins úr ?

Svar: Ég hef séð Vitara á 35" dekkjum en þekki ekki dæmið. Prófaðu fyrirspurn á vefnum (spjallrásinni) www.f4x4.is en þar eru áreiðanlega einhverjir sem hafa framkvæmt þessa breytingu og geta miðlað þér af sinni reynslu.

,,Chevrolet gæði" ?
Spurt: Ég var að skoða laglega bíla hjá Bílabúð Benna. Ég fæ ekki betur séð en að þetta séu Daewoo-bílar frá Suður-Kóreu þótt búið sé að setja á þá Chevrolet-merki. Ég spurði sölumann að því í hverju þessi ,,Chevrolet-gæði" væru fólgin en fékk einungis loðin svör og er því engu nær. Ástæða þess að ég spyr er að á vefsíðu J.D. Power sýnir síðasta langtímamæling á gæðum bíla á bandaríska markaðnum að Daewoo er þar í lægsta sæti með flestar kvartanir vegna galla. Eru þessir Chevrolet frá Suður-Kóreu ekki sömu bílarnir og seldir eru sem Daewoo í Bandaríkjunum og fá þar lægstu einkunn fyrir gæði?

Svar: Daewoo varð gjaldþrota 2003. GM keypti þrotabúið í Suður-Kóreu og rekur nú fyrrum Daewoo-verksmiðjur og því er ekkert óeðlilegt við að það noti sín vörumerki. GM keypti einnig ráðandi hlut í Fiat á sínum tíma og sumir þessara bíla, sem framleiddir eru í fyrrum Daewoo-verksmiðjum í Suður-Kóreu, eru t.d. seldir á Ítalíu sem Fiat. (Þetta hefði Jón Eyjólfsson, sem er yfirbílasali hjá Benna, getað sagt þér). Varðandi J.D.Power þarf að taka þeim niðurstöðum með ákveðnum fyrirvörum þar sem þær gæðamælingar eru sér-amerískt fyrirbæri. Það vill stundum gleymast að ekki er óeðlilegt þótt bilanatíðni ódýrustu bíla á bandaríska markaðnum sé meiri en en margfalt dýrari bíla - sem þó er reyndar ekki reglan því Daewoo bilar ekkert meira, samkvæmt mælingum J.D.Power en t.d. LandRover Discovery. Ekkert er óeðlilegt við þótt gæðamælingar sýni að ódýrustu bílar hafo lægst gæði og hafa ber í huga að þetta er mæling á kvörtunum á ábyrgðartíma og gera má ráð fyrir að eigendur fái ókeypis lagfæringu á flestu þvi sem þeir kvarta undan. Þegar svona mæling sýnir dýra bíla í lægstu sætunum, t.d. Land Rover og rándýra bíla eins og Benz 13 sætum undir meðaltali hlýtur það að teljast áfellisdómur. Þá má benda á að þegar Daewoo-bílar voru seldir hérlendis voru þeir betur búnir og kostuðu talsvert minna en evrópskir bílar keppinauta af svipaðri stærð en reyndust ekkert síður, t.d. myndi ég ekki vilja skipta á Daewoo Nubira Station fyrir t.d. Peugeot 307 - Nubiran er miklu betri bíll, að mínu mati. Um hitt má spyrja - hvers vegna þessir Chevrolet-bílar frá Suður-Kóreu séu svona dýrir hérlendis?

Blazer-vandamál
Spurt: Ég á Chevy Blazer S10 1991 sem er með stafrænu mælaborði. Hraðamælirinn virkar ekki fyrr en farið er að hitna inni í bílnum. Bensínmælirinn sýnir alltaf að hann sé fullur. Hvað getur orsakað þetta?
Svar: Sambandsleysi aftan á mælaborðinu getur valdið því að hraðamælirinn virki ekki strax - þetta eru plastborðar með prentrásum og aðaltengillinn sem kemur aftan í borðið gæti verið sambandslaus (fjöður) en náð sambandi við að þenjast við hitnun. Ástand bensínmælisins getur verið vegna þess að sendirinn í tanknum sé ónýtur - ef það væri sambandleysi í mælaborðinu myndi mælirinn sýna tóman geymi. Þetta er vandræðadrasl og oft ekki um annað að ræða en að fá nýtt mælaborð.

"Dauður" BMW
Spurt: Rafmagnstruflanir eru að hrjá sjálfskiptan BMW 520 1997. Búið er að fara nokkrum sinnum með bílinn á verkstæði og þótt kostnaður sé orðinn töluverður lagast bíllinn ekki heldur versnar. Þetta byrjaði með því að miðstöðin hætti að virka, svo spólvörnin og ABS-kerfið. Nú fer hann ekki í gang lengur (bréf stytt).

Svar: Það er nánast vonlaust að reyna að bilanagreina þessi kerfi í BMW öðru vísi en með til þess gerðum tækjum. Mér sýnist þó af lýsingu þinni að rafmagnsleysi valdi því að eitt af öðru hefur verið að detta út en það gerist með fallandi spennu. Skýringin gæti verið sú að hleðslan sé ekki í lagi - stundum er það vegna útleiðslu í gegn um bilaða straumloku (díóðu) í innbyggðum spennustilli alternatorsins og stundum vegna þess að geymir er ónýtur (botnfall). Þá virðist hleðslan vera í lagi (ljósið slokknar) en geymirinn tæmist engu að síður yfir nótt eða á nokkrum dögum. Prófaðu að hlaða rafgeyminn með mínuspólinn aftengdan. Taki geymirinn við hleðslu og gangi vélin eðlilega með fullhlaðinn geymi en sé komin í sama ástand degi síðar myndi ég taka alternatorinn úr og láta yfirfara hann t.d. hjá Bílarafi í Kópavogi. Breyti endurhleðsla rafgeymisins engu getur svokallað ,,Main Relay" eða aðalstraumloka verið ónýt - það er þó einungis ágiskun. Umboðið (B&L) hefur tækin og réttu handbækurnar til að leysa þetta mál.

"Turbo Timer"
Spurt: Ég á Volvo S40 t4 beinskiptan af árgerð '99. Vélin er 2.0 l turbo. Ég hef verið að spá í búnað sem nefnist "TurboTimer" en hann lætur vélina ganga lausagang í ákveðinn tíma eftir að svissað hefur verið af og á þannig að varna því að pústþjappan eyðileggist með því að tryggja að hún nái fyrst að kólna. Telur þú að borgi sig að fjárfesta í svona sjálfvirkum búnaði?

Svar: Undir öllum venjulegum kringumstæðum er sérstakur búnaður, eins og þú lýsir, óþarfur. Það er einungis eftir hressilegar inngjafir, t.d. ef þú færir á botngjöf upp Kambana, eða í keppnisakstri, að pústþjappan yrði rauðglóandi, sem hún verður við slíkt álag, að varað er við því að drepa snögglega á vélinni. Sé það gert þegar þjappan er mjög heit stiknar smurolían í burðarlegu þjöppunnar. Burðarlegan er á milli pústhverfilsins og þjöppuhjólsins, þ.e. í miðri pústþjöppunni. Með því að láta vélina ganga lausagang í 30 sek. eftir meiriháttar inngjafir nær smurkerfið að dæla nægilega mikilli smurolíu í gegn um burðarleguna til að kæla hana. Miklu algengara er að pústþjappan (og vélin) sé eyðilögð með trassaskap varðandi endurnýjun smurolíunnar eða vegna þess að ekki er fylgst nægilega vel með magni smurolíu á vélinni. Sniðugir náungar reyna að gera meira úr svona málum en efni standa til í því augnamiði að selja sína vöru (í þessu tilviki Turbo-Timer).

Brakar í stýrinu
Spurt: Eftir að hafa staðið vikutíma á geymslustæði við Leifstöð virkar vökvastýrið ekki í bílnum mínum sem er af gerðinni Toyota Avensis '98 ekinn 160 þús. Stýrið er næstum því eins og engin vökvaaðstoð sé og myndast hnökrar þegar því er beitt og stundum heyrist urg. Enginn leki er sjáanlegur, reimin er strekkt og ekki vantar vökva á dæluna. Mér var sagt að stýrisvélin gæti verið ónýt. Hvað telur þú að geti valdið þessu?

Svar: Í mikilli rigningartíð eins og verið hefur fyrri hluta febrúar er Miðnesheiðin líklega rakasti staðurinn hér suðvestanlands. Ágæt lýsing þín á ástandi stýrisins sýnist mér passa að öllu leyti við fastan stýrishjörulið, en þeir festast oft eftir að bíll hefur staðið dögum saman óhreyfður í röku loftslagi og valda þá hnökrum, mismunandi miklum. Hjöruliðurinn er á milli stýrishjóls-stangar og stýrisvélar. Þú getur reynt að úða á hann WD-40 og snúa síðan stýrinu rækilega, botn í botn, en við það gæti hann liðkast. En hjöruliðinn þarf að endurnýja.

Notaður Volvo V70
Spurt: Ég er að spá í Volvo V70 CrossCountry árgerð 2001 innfluttan frá Bandaríkjunum. Mig langar að vita hvort það sé eitthvað sem maður þarf að athuga sérstaklega. Bíllinn er ekinn 110 þús. km. og er nýkomin úr skoðun hjá umboðinu þar sem ekkert stórvægilegt kom fram en hann lítur mjög vel út; nýlega skoðaður og virðist vera í mjög góðu ástandi. Mig langar að fá hlutlaust álit þitt.

Svar: Hlutlaust eða ekki hlutlaust: Þar sem þetta er ekki ódýr bíll, ekinn 112 þús. km og úr ábyrgð, ráðlegg ég þér, til öryggis, að láta verkstæði sem þú þekkir og treystir skoða bílinn - það getur aldrei kostað mikið. Mér er ekki kunnugt um nein vandamál í sambandi við þessa gerð af Volvo. V70 CrossCountry er skemmtilegur í akstri og með það sem kalla mætti "ameríska tilfinningu". Hins vegar má sjá það við skoðun að þetta er, þrátt fyrir fjórhjóladrifið og útlitið, enginn jeppi.

"Patrol-væl"
Spurt: Ég er með Nissan Patrol '99 með 2,8 vélinni. Mér þykir hann eyða helst til of miklu. Ég hef lesið frá þér pistla þar sem fólk kvartar undan eyðslu Terrano II. Er þetta eitthvað svipað sem er að gerast hjá mér?
Patrolinn er að eyða 20+ í innanbæjar akstri, hann er beinskiptur og á 33'' dekkjum. Er þetta kannski bara eðlilegt? Ég hélt að dísilbílar eyddu minna en ég átti Bronco á 38'' með 302-bensín sem eyddi 15 - 20 L. Á þetta að vera svona eða er þetta bara væl í mér?

Svar: Þetta er allt annað dísilkerfi í eldri Patrol - mekanískt en ekki tölvustýrt eins og í Terrano II. Þessi bíll ætti ekki að eyða svona miklu jafnvel þótt hann sé á 33" dekkjum. Ástæður geta verið eðlilegt slit (óþéttir ventlar/ ventlabilsstilling o.s.frv.), lélegir spíssar, olíuverk (rangur tími). Reyki vélin áberandi við hressilega inngjöf bendir það til að olíuverk/spíssa þurfi að yfirfara.

Mopar 360
Spurt: Ég er með Chrysler 360 bensínblöndungs-vél sennilegast úr Rramcharger '85. Hún er nýlega endurbyggð, þ.e allar legur nýjar, nýr kambás/undirlyftur, ventlar og sæti skorin og nýir stimpilhringir; allt var mælt upp, skoðað og virtist vera í góðu lagi. Þegar vélin er gangsett köld heyrist í henni talsvert glamur líkt ventlaglamri; hún gengur illa köld en jafnar sig og verður ágæt heit. Hvað getur valdið þessu? Önnur spurning varðandi rafstýrða kæliviftu; - hvar á neminn að vera og á hvað á að stilla hann?

Svar: Þessi lýsing þín getur átt við fleiri en eitt atriði. Á þessum heddum/milliheddi getur verið EGR-rás - það þýðir að annað hvort þarf að loka henni með milliheddspakkningum eða nota EGR-loka - en sé EGR-loki á vélinni eru gangtruflanir í kaldri vél oft vegna þess að hann lekur eða rásin, sem hann er í, lekur, - glamrið getur bent til þess. Í öðrulagi myndi ég tjékka röðun í kveikjulok (Réttsælis 1-8-4-3-6-5--7-2) og kveikjutíma (12-16° fyrir toppstöðu) en trissan snýst réttsælis. Nemann fyrir kæliviftuna myndi ég hafa í efri stútnum á vatnskassanum. Kælimiðillinn frá vélinni opnar vatnslásinn við 195 °Fahrenheit. Það yrði þá þitt viðmið/stilling.

Þjófavörn í lagi
Spurt: Ég á nýlegan Toyota LandCruiser. Þegar bíllinn er ekki í gangi blikkar ljós í mælaborðinu með táknmynd af bíl og lykli. Í handbókinni segir að þetta tengist "Engine Inmobilizer". Hvað þýðir þetta og á þetta ljós að blikka svona?

Svar: Þetta blikkljós gefur til kynna að innbyggð þjófavörn sé virk eftir að drepið hefur verið á vélinni og lykillinn tekinn úr svissnum. Það á að blikka eins og þú lýsir. Hluti af þjófavörninni er búnaður sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gangsetja vélina t.d. með framhjátengingu. Í svisslyklinum er tölvuflaga sem m.a. geymir kóða sem vélstýrikerfið þarf að lesa til að hægt sé að gangsetja vélina. (enska orðið "Inmobilizer" er dregið af latínu. Í ítölsku, svo dæmi sé tekið, nefnist fasteign "Imobilare" = eitthvað sem ekki verður hreyft).

Startarinn skrallar
Spurt: Í Kia Sportage með bensínvél sem er ekinn 120 þúsund skrallar startarinn oftast áður en hann grípur og snýr vélinni - sem gerist þó alltaf eftir nokkrar tilraunir. Hvað er þetta alvarlegt mál og hver er líklegasta skýringin?

Svar: Líklegasta skýringin er sú að startkransinn á vélinni sé skemmdur en oft skemmast tennurnar á honum enda álagið á hann - og mest þegar vélin er köld. Röng kveikjustilling getur flýtt fyrir þessu vandamáli. Skoðaðu startarann áður en þú aðhefst frekar í málinu, sértu heppinn getur ástæðan verið sú að startarinn hafi losnað. Sé startarinn tekinn úr kemur í ljós hvort startkransinn þurfi að endurnýja eða hvort þú sleppur með að endurnýja bendixinn, en það er búnaður sem skýtur litla tannhjóli startarans fram.

Bremsuvökvi
Spurt: Ég keypti nýlega bíl (Opel Corsa 1998) sem hefur óljósa viðhaldssögu. Ég er búinn að endurnýja tímareim, vatnsdælu, kerti og bensínsíu og ætla að endurnýja bremsuvökvann. Hvernig er best að bera sig að við þetta?

Svar: Auðveldast er að endurnýja bremsuvökvann með til þess gerðum tækjum. Séu þau ekki fyrir hendi er auðveldast að vinna verkið með aðstoðarmanni. Algengt er að tæpur lítri af bremsuvökva sé á kerfi og helmingur þess í biðunni. Í Opel er loftað í þessari röð; vinstra afturhjól, hægra framhjól, hægra afturhjól, vinstra framhjól. Aðstoðarmaður sér um að troða bremsupedalann fyrir þann sem tappar af. Máli skiptir að láta biðuna ekki tæmast en fylla á hana jafnóðum og tæmt er um 1/4 lítri af hverju hjóli. Samkvæmt tilmælum Opel skal nota bremsuvökva af flokki 3 eða 4. (DOT 5 er silikonvökvi sem hefur hæst suðumark, minnsta rakadrægni og er því öruggari lengur). Hafa ber í huga að komist loft inn á kerfið er seinlegra og meira verk að lofta bremsur séu þær með ABS.

Um Terracan
Spurt: Hefur þú prófað/reynsluekið Hyundai Terracan. Getur þú sagt mér eitthvað um þann bíl í samanburði við Nizzan Pathfinder og Toyota LandCruiser? Ég var að spá í 35" breytingu, geturðu mælt með henni?

Svar: Ég hef prófað hann (en ekki skrifað um hann). Þetta er sterkbyggður alvörujeppi (með hátt og lágt drif), ljúfur í keyrslu og tiltölulega auðveldur fyrir 33" - þarf ekki að lækka drifhlutfall (35" er meira mál, ekki síst vegna þess að lækka þarf hlutföllin en settið kostar a.m.k. 100 þús. kr./hásingu). Munurinn á Terracan og Nissan Pathfinder og LandCruiser er m.a. sá að Terracan er eldri hönnun; ekki eins flottur og ekki eins dýr. Sölumenn hjá B&L eiga að vita hve mikið mál 35" breyting er og hvað hún kostar. Þær upplýsingar ættirðu einnig að geta fengið hjá Artic truck.

Endurforritun sjálfskiptingar
Spurt: Eigandi nýlegs Mazda MPV (Ameríkugerð) segist ekki ánægður með sjálfskiptingu sem heggur í gírana þegar vélin er köld. Sé ekið með lítilli inngjöf eftir að vélin hefur hitnað myndast högg þegar sjálfskiptingin skiptir niður úr 3. í 2. gír. Hann segir truflunina vera stundum en ekki alltaf og spyr hvað geti valdið þessu og hvernig eigi að bregðast við.

Svar: Sams komar spurningu hef ég svarað áður hér í DV-bílum. Um þekkta truflun er að ræða í tölvustýringu Mazda-sjálfskiptinga. Hún er lagfærð með því að endurforrita tölvu skiptingarinnar (TCM = Transmission Control Module). Þótt þetta sé ekki alvarleg bilun geta höggin eyðilagt skiptinguna og því vissara að draga aðgerðir ekki um of. Um þetta mál hefur Mazda gefið út tæknilýsingu ("Technical Bulletin") sem er nr. 05-001/04 og er á www.mpvclub.com/tsb.php?id=144
Geti umboðsverkstæði ekki endurforritað tölvuna má senda hana til Bandaríkjanna og fá hana senda um hæl endurforritaða. Frekari upplýsingar eru á vefsíðu bandaríska Mazda MPV-klúbbsins (www.mpvclub.com).

Dísiljeppi þungur á fóðrum
Spurt: Ég á Nissan Terrano II 2,7 trb-dísil '98 á 33" dekkjum og er ekki sáttur við hve eyðslufrekur bíllinn er. Hann er í ágætu lagi og án gangtruflana. Er eitthvað sem maður getur gert til að minnka eyðsluna?

Svar: Eftir að verð á dísilolíu rúmlega tvöfaldaðist með niðurfellingu dísilskattsins 1. júlí í fyrra finnst ólíkt meira fyrir eldsneytiskostnaði dísiljeppa. Sem dæmi getur algengur jeppi á borð við Nissan Terrano II eytt um og innan við 20 lítrum á 33" dekkjum. Sumir hafa verið settir á 33" dekk án þess að drifhlutföllum hafi verið breytt til að vega upp á móti meira þvermáli dekkjanna, þ.e. verið breytt útlitsins vegna. Terrano II er upphaflega á 29" dekkjum (235/75R15) og með drifhlutfall 4,625. Þegar þvermál dekkja eykst úr 29 í 33 tommur " jafngildir það hækkun drifhlutfalls (lægri tala) um tæp 14%. Sé drifhlutfall ekki lækkað til mótvægis við 4" meira þvermál dekkja, en það hefði þurft að lækka í 5,28, vinnur vélin ekki á því sviði snúningshraða þar sem tog og sparneytni er mest. Afleiðingin verður umtalsverð eyðsluaukning jafnvel þótt vélin sé í lagi. Og ég bæti því hér við þetta DV-svar að nú geta Musso-eigendur hlegið með öllum kjaftinum, eins og þeir sögðu við Djúp, en eins og ég hef oft bent á (og jafnvel fengið skammir fyrir) er að 5 sílindra Benz-dísilvélin í Musso er einhver besta dísilvélin á markaðnum og sem gerir það að verkum að Musso er einn fárra stórra dísiljeppa sem eyðir 10-11 lítrum á hundraðið á 31" dekkjum.

Gaqngtruflun í Terrano dísil
Spurt: Ég á í vandræðum með jeppann minn sem er Nissan Terrano II '98
með 2,7 trb-dísilvél, handskiptur og ekinn 248 þús. Km. Vélin missir úr á lágum snúningi (ef þetta væri bensín-bíll myndi ég athuga neistann en ég hef litla þekkingu á dísilvélum). Þetta er mest áberandi þegar vélin er köld. Hvað myndir þú ráðleggja mér að gera til að finna bilunina?

Svar: Þetta er dæmigert bilanagreiningarverkefni fyrir bílaverkstæði með réttu áhöldin enda getur margt komið til greina þegar um svo mikið ekinn bíl er að ræða. En þar sem gangtruflunin er mest áberandi þegar vélin er köld myndi maður byrja á að skoða EGR-búnaðinn; tölvustýrðan loka sem veitir útblæstri inn í brunahólfin til að kæla þau (með veikari blöndu). EGR-lokinn á að vera lokaður og þéttur þar til vélin hefur náð vinnsluhita. Leki EGR-lokinn veldur það gangtruflunum þegar vélin er köld.

Ýskrandi þurrkublöð
Spurt: Hvað getur maður gert til að losna við ískur og hökt í þurrkunum?

Svar: Þrífðu framrúðuna með glerhreinsiefni þannig að hún sé laus við tjöru og fái eðlilegan gljáa. (þrífðu hana að innanverðu um leið - þú munt verða hissa á því hve hún er óhrein). Hreinsaðu því næst tjöruna af þurrkublöðunum með kveikjarabensíni, ísvara eða aseton og berðu á þau yngingarefni fyrir plast ("Son of a Gun" eða sambærilegt). Oftast leysir þetta málið - séu þurrkublöðin ekki ónýt. Noti maður vatnsfælu, t.d. Rain-X, á framrúðuna eftir að hafa þrifið hana verður minni þörf fyrir þurrkurnar auk þess sem þær vinna léttar.

Slöpp miðstöð
Spurt: Miðstöðin í MMC Galant er mjög lengi að hita og hitinn lítill þótt hún blási eðlilega og hitamælirinn sýni eðlilegt ástand. Hvað er hægt að gera í stöðunni?

Svar: Af lýsingu að dæma er bilunin í miðstöðinni sjálfri. Hitaðu vélina í vinnsluhita, stilltu á mesta hita og láttu blása í 5 mín. Taktu þá á miðstöðvarslöngunum við hvalbakinn. Séu slöngurnar greinilega misheitar getur orsökin verið óvirkt spjald sem beinir inntaksloftinu í gegn um hitaldið og inn í farþegarýmið. Kalt loft fer þá framhjá hitaldinu og inn. (barka getur hafa losnað eða vír krækst úr). Sé lítill munur á hita slanganna getur barki frá stillitakka hafa aftengst lokanum sem opnar/lokar fyrir rennsli í hitaldið. Lokann má prófa með því að renna grannri slöngu inn í stútinn um leið og hitastillir er færður til. Reynist lokinn í lagi er hitaldið stíflað. Reynandi er að aftengja slöngurnar og gegnumspúla með heitu vatni áður en ráðist er í að endurnýja hitaldið.

Móða á rúðunum
Spurt: Í Benzanum mínum (árgerð 1997) myndast mikil móða innan á rúðunum. Hvað gæti valdið því? Fæst eitthvað efni sem eyðir móðu af innanverðum rúðum?

Svar: Algengasta orsök móðu er sú að fólk stillir miðstöðvarinntakið á hringrás til að forðast mengun frá útblæstri bíls, sem er á undan í biðröð, en gleymir að stilla inntakið á ferskt loft þegar haldið er aftur af stað. Takkinn sem stjórnar þessu er með táknmynd af bíl og hringrás. Sá takki á, að öllu jöfnu, að vera í "óvirkri" stöðu. Önnur ástæða móðu eru blaut gólfteppi - stundum vegna þess að göt eru á gúmmímottum, motturnar ekki tæmdar eða halda ekki í sér nægilega miklu vatni. Þriðja ástæðan getur verið lekt miðstöðvarhitald. Oft fylgir þeim leka sérkennileg "kemísk" lykt. Efni sem eyðir móðu innan af rúðum fæst í Bílanausti og er frá Rain-X - sérstakur móðueyðir.

Á ég að spá í Trooper?
Spurt: Við eigum von á okkar þriðja barni og stefnir í 3 stóla aftur í. CR-V-inn minn ræður hvorki við það né farangurinn sem fylgir þremur smábörnum. Sá í dag Trooper 2000 ekinn 132þ, sem mér leist skrambi vel á. Þetta er laglegasti jeppi, sjálfskiptur með 3000TDI. Hvert er álit þitt á Isuzu Trooper - svona til að ég nái mér aftur niður á jörðina?

Svar: Að mínu áliti er Trooper landbúnaðartæki og hergagn og afar óþægilegur sem jeppi; - vond sæti, ómöguleg fjöðrun auk þess sem endalaus vandræði hafa verið með 3ja lítra dísilvélina: Vondur kostur - og nánast óseljanlegur bíll nema við uppítöku. Þú ættir að skoða möguleikann á auknu rými í MPV (fjölnotabíl) - það er talsvert úrval af slíkum bílum af ýmsum stærðumog tegundum - en flestir jeppar eru of þröngir eða eyðslufrekir sem fjölskyldubílar þegar börn þurfa mest rými (stólar). Viðbót við svar í DV: Trooper-eigandi sendi mér línu og lýsti óánægju sinni með ummæli mín um Isuzu Trooper. Ég benti honum vinsamlega á að skýrt væri tekið fram að um mitt álit væri að ræða - enda spurði viðkomandi um persónulegt álit mitt (en ekki sölumanna umboðsins) á Trooper. Yfirleitt þýðir ekki að spyrja eigendur Isuzu Trooper um reynslu þeirra af bílnum fyrr en þeir hafa losað sig við hann - það er ofur eðlilegt mál. Ég bendi þeim sem eru að velta fyrir sér kaupum á Trooper - sem er ,,í kippum" á flestum bílasölum! að prófa að bera saman Trooper og t.d. Musso af sömu árgerð og svipað ekinn (en Musso kostaði upprunalega talsvert minna en Trooper) - fara sama hringinn á báðum bílunum. Sé hann ekki sammála mér um Trooper eftir þann samanburð þá er hann örugglega einn af þessum ljónheppnu bíleigendum sem hafa enga tilfinningu fyrir bíl og gætu þessvegna ekið um á hvaða bíl sem er - með bros á vör.

Lancer sem snuðar og kokar
Spurt: Ég er með sjálfskiftan MMC Lancer '97 með 1600 vél með beinni innsprautun, ekinn um 140 þ. km. Hann snuðar stundum á milli 2. og 3. gírs. Þetta hefur alltaf lagast af sjálfu sér fljótlega en varði lengst í 2-3 vikur. Það sem hefur líka angrað mig er að þegar ég aftengi yfirgírinn heggur skiftingin yfirleitt, nema að ég sleppi bensíngjöfinni á meðan. Þegar bakkað er og aftur valið "D" hikar skiptingin í 2 -3 sek. Annað sem pirrar er að vélin kokar við snögga inngjöf, sérstaklega þegar staðið er á bremsunni á ljósum. Kerti eru nýleg, einnig þræðir, kveikjulok, hamar og rafgeymir.

Svar: Sjálfskiptingin: Af lýsingunni að dæma hefur þetta með þrýsting/flæði að gera. Oftast er það vegna tepptrar upptökusíu. Annaðhvort nær skiptingin ekki upp nægilegum vökva/þrýstingi eða lokar í ventlaboxinu standa á sér (væri dælan ónýt væru þessi einkenni í hvert skipti sem þú tekur af stað). Höggin geta stafað af óvirkum sogstýri á skiptingunni eða leka í sogstýrilögn (kokið!). Vökvastöðu í skiptingunni á að mæla þegar vélin er heit og gengur lausagang og skiptingin í P. Hikið í vélinni: A. Óhreinindi á inngjafarspjaldi B. Sogleki (einhver slanga lek, t.d. í kveikju, í sjálfskiptingu, laus soggrein, leki með sogi á bremsukúti o.sfrv. C. Lélegur súrefnisskynjari í pústgrein. D. Of strekkt rafleiðsla milli vélar og t.d. búnaðar sem festur er á hvalbak, sem missir samband einungis á því augnabliki þegar vél er gefið inn en þverstæð vélin snýr upp á sig í húddinu þegar sett er í gír (þekkt í MMC og fleiri bílum).

Ódýrari varahlutir í Subaru
Ég á Subaru Forester árgerð 2000. Nú er svo komið að afturdemparar eru farnir að leka og er bíllinn jafnvel orðin hávær og leiðinlegur í akstri í miklum ójöfnum. Þar sem mér finnst að umboðið hérlendis misnota aðstöðu sína, (settið af dempurunum kostar þar 140 til 145 þús. kr.) myndi ég vilja reyna fyrir mér erlendis með varahluti. Getur þú bent mér á einhvern söluaðila sem gæti selt mér þessa hluti og þá reyndar fleiri varahluti í framtíðinni, eða þá bent mér á hvar ætti að leita að þeim aðila?

Svar: Sé um japanska bíla að ræða sem jafnframt eru seldir í Bandaríkjunum, eins og Subaru Forester, má fá flesta varahluti á viðunandi verði frá fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Þótt mörg þeirra selja ekki til aðila utan Bandaríkjanna fer varahlutasölum fjölgandi sem ,,kunna á kerfið" og selja/senda með hraðpósti eða hraðflutningaþjónustu á borð við DHL, FedEx, TNT, o.fl. Eitt þeirra, sem mun áreiðanlega leysa þitt vandamál og selur jafnframt varahluti í alla bandaríska bíla og sendir með hraðpósti eða hraðflutningi, eftir því hvað þú velur, er www.discountautoparts.com

Enn og aftur: Óþörf ryðvörn?
Ég er að fá nýjan Ford frá Bandaríkjunum. Starfsmaður á skoðunarstöð benti mér á að það væri ekki endilega besta lausnin að láta ryðverja bílinn hér skv. okkar venjum. Benti hann á að verksmiðjuryðvörnin ætti að duga en ástæða gæti verið til að ryðverja bremsu- og bensínlagnir sérstaklega. Nefndi hann að oft pössuðu dyraspjöld illa eftir meðferð á ryðvarnarstöð og eins væri spurning hvort ryðvörnin væri nægilega vel unnin til að gagn væri að henni. Því spyr ég , hvernig myndir þú ráðleggja mér að ryðverja bíinn, þ.e. grind, botn og lokuð rými svo sem hurðar (sérstaklega samsetningu milli ytra og innra byrgðis) og t.d. brettaboga (sérstaklega samsetningu milli innra og ytra brettis)?

Svar: Margir lesendur eru greinilega að velta fyrir sér hvort þeir eigi að kaupa ,,íslenska ryðvörn" á nýjan eða nýlegan bíl. Mín skoðun er, eins og áður hefur komið fram, eftirfarandi:
Slepptu allri frekari ryðvörn - það er einungis aukakostnaður og jafnvel eyðilegging samkvæmt minni reynslu. Sé undirvagninum haldið sæmilega hreinum með því að spúla hann með vatni öðru hverju þarftu ekki að hafa áhyggjur af undirvagni eða lögnunum - nema særok mæði á bílnum. Allir bandarískir bílar eru ryðvarðir á framleiðslustigi - fyrst með zinfosfat-húðun stálsins eftir völsun og á undan formun og samsetningu og á eftir með því að sökkva þeim í raflausn (galvanisering). Á einstaka hluti botns, sem verða fyrir steinkasti, er sprautað sérstöku plastefni sem hrukkast við storknun. Hvers konar efni, sem úðað er innan í holrými eða annars staðar yfir verksmiðjuryðvörnina (en það takmarkar eða ógildir ryðvarnarábyrgð framleiðandans) styttir endingu bílsins, að mínu áliti: Reynsla mín af ,,íslenskri ryðvörn" er, í einu orði sagt, vond - hún hefur eyðilagt pallbíla á borð við Hilux, Isuzu, Ford o.fl. Mylja má grindina úr þessum bílum með berum höndunum vegna ,,íslenskrar ryðvarnar" eftir ákveðinn tíma. Einungis eldri bíla og endurbyggða ætti að ryðverja og þá með vaxi og þá hluti, sem verksmiðjuryðvörn er rofin á (t.d. á jeppum vegna úrskurðar/breytinga), á að verja með mörgum yfirferðum af ætigrunni og lakki. S.k. undirvagnskvoða, sem nú er reynt að selja fólki fyrir umtalsvert verð sem "hljóðvörn", deyfir ekki hljóð en eyðileggur bíla við okkar aðstæður (raki, salt, umhleypingur), að mínu mati.

Öryggispúðar: Hvað má og hvað ekki?
Varðandi "Air bag-ljós": Ég keypti bíl sem er viðgerður eftir tjón að framan. Seljandi gerði mér grein fyrir því að engir öryggispúðar væru í bílnum - sem mér finnst í lagi því mér er ekki vel við þessa púða - enda eru þeir dýrari en bíllinn. Ég vil losna við öryggispúða-ljósið í mælaborðinu. Hvað stjórnar þessum öryggispúðum og hvernig má losna við þetta ljós?

Svar: Púðarnir virka með mismunandi hætti eftir tegundum en yfirleitt er högg/snerti/færslu-rofi í framstykkinu (pendúlskynjari eins og í jarðkjálftamæli) og/eða flóttaaflsrofi (stálkúla í seigum massa) sem getur verið hluti af tölvuheila bílsins. Einfaldast í þínu tilfelli er að taka peruna úr til að losna við ljósið. Hins vegar er ástæða til að benda á að séu merkingar um öryggispúða sjáanlegar í innréttingu bílsins (en algengt er að sérstakt merki sé í miðju stýrishjóls og á mælaborði farþegamegin) verður að fjarlægja þær merkingar til að notkun bílsins sé lögleg án öryggispúðanna. Það gefur augaleið að merkingarnar geta, að öðum kosti, veitt falskt öryggi sem skapar ákveðna hættu.
www.leoemm.com

Slöpp miðstöð
Miðstöðin í MMC Lancer er mjög lengi að hita og hitinn lítill þótt hún blási eðlilega og hitamælirinn sýni eðlilegt ástand. Hvað er hægt að gera í stöðunni?

Svar: Af lýsingu að dæma er bilunin í miðstöðinni sjálfri. Hitaðu vélina í vinnsluhita, stilltu á mesta hita og láttu blása í 5 mín. Taktu þá á miðstöðvarslöngunum við hvalbakinn. Séu slöngurnar greinilega misheitar getur orsökin verið að spjald, sem beinir inntaksloftinu í gegn um hitaldið og inn í farþegarýmið, sé óvirkt og beini köldu lofti framhjá hitaldinu og inn, t.d. vegna barka sem hefur losnað eða vírs sem hefur krækst úr. Sé lítill munur á hita slanganna getur barki frá stillitakka hafa aftengst lokanum sem opnar/lokar fyrir rennsli í hitaldið. Virkni lokans má prófa með því að renna grannri slöngu inn í stútinn um leið og hitastillir er færður til. Reynist lokinn í lagi er hitaldið stíflað. Reynandi er að aftengja slöngurnar og spúla í gegn um hitaldið með heitu vatni áður en ráðist er í að endurnýja það.

2ja ára ábyrgð á viðgerðarþjónustu?
Ég keypti Toyota Corolla árg. '02, sjálfskiptan með 1600-vél af ættingja sem hafði keypt hann nýjan og hafði farið með hann í allar tilmæltar skoðanir hjá umboðinu. Áður en ég gekk frá kaupunum, en þá hafði bílnum verið ekið 37.500 km, fór hann í skoðun hjá umboðinu. Þá lætur Toyota-umboðið eigandann vita að koma eigi með bílinn aftur 14 dögum seinna til að skipta um vélina vegna galla (of mikil brennsla smurolíu) og yrði skipt um blokkina en það sem væri ofan á blokkinni yrði fært á milli. Í millitíðinni tók ég við bílnum og sá um að fara með hann í vélarviðgerðina. Þegar ég fæ bílinn aftur tek ég strax eftir titringi eða glamri eins og einhver hlíf væri laus, hafði samband við umboðið og var sagt að koma með bílinn. Starfsmaður kíkti undir bílinn og sagði að einhver hlíf væri líklega laus og sagði mér að panta tíma á verkstæðinu. En mál æxluðust þannig að ég seldi bílinn. Áður en nýr eigandi tók við bílnum hafði hann farið í ástandsskoðun án athugasemda en ég sagði nýjum eiganda frá titringnum/glamrinu sem ég sagði að Toyota-umboðið myndi laga á sinn kostnað - enda vissi ég ekki betur. Nýi eigandinn fór með bílinn á Toyota-verkstæðið. Þeir voru lengi að finna orsökina en komust loks að því að soggreinin væri ónýt: Viðgerðin sögðu þeir að myndi kosta 52 þús. kr. og að þeir bæru ekki ábyrgð á þessum hluta vélarinnar því bíllinn væri ekki lengur í ábyrgð. Ég verð líklega að greiða þennan reikning eigi kaupin ekki að ganga til baka. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Hvað get ég gert í málinu?
Svar: Þú getur leitað til Neytendastofu eða Bílagreinasambandsins - þar er sáttamaður sem fjallar um kvartanir vegna verkstæða sem eiga aðild að Bílagreinasambandinu - en Toyota-umboðið mun vera eitt þeirra. Svona mál geta verið snúin en af lýsingu þinni að dæma og hafandi í huga að þetta er 2002 árgerð og ekki ekinn meira finnst mér vera líkur á að soggreinin hafi verið eyðilögð vegna mistaka við áðurnefnda vélarviðgerð. Hafa ber í huga að samkvæmt "kaupalögum" er 2ja ára ábyrgð á viðgerðinni.

Röng bílgerð?
Ég nota Toyota Hiace sendibíl 4x4 dísil til að keyra dagblöð á milli sölustaða úti á landi. Bíllinn, sem má vega með farmi 3 tonn, er oft mjög þungur og þá reynir mikið á bremsur, stýrisgang, kúplingu og fjöðrun. Væri hægt að setja í hann stífari gorma eða loftpúða inn í gormana? Ennfremur - væri hægt að styrkja bremsurnar (diskar vilja verpast, búinn með tvö sett á 90 þús. km), stýrisgang og kúplingu með öðrum hlutum en upprunalegum?

Svar: Loftpúðar sem notaðir voru áður fyrr reyndust illa auk þess sem þeir myndu ekki henta fyrir sendibíl að mínu mati. Stinnari gormar væru betri lausn. Að öðru leyti sýnist mér þitt vandamál vera að þú ert að nota of veigalítinn bíl, - styrking stýrisgangs, bremsa og kúplingar yrði dýr væri hún framkvæmanleg. Mér sýnist sem þú værir betur settur með burðarmeiri og sterkari bíl t.d. Ford Econoline eða GMC Suburban með dísilvél.

www.leoemm.com


Nötrar látlaust ....
Bíllinn minn er Corolla Station 1600 5gíra af árgerð 1998 ekinn 120 þús. Frá því í fyrrasumar hefur titringur verið að aukast í bílnum og er mestur á 80-90 km hraða. Jafnvægisstilling breytti litlu og þegar titringurinn hélt áfram eftir að jafnvægisstillt vetrardekk voru sett undir og þrátt fyrir að jafnvægisstillingin væri endurtekin var mér sagt á dekkjaverkstæðinu að líklegast væru dekkin gölluð. Mér fannst það ótrúlegt því þau voru í lagi í fyrra. Á bílaverkstæði fannst ekkert að framvagni eða fjöðrun. Til öryggis lét ég endurnýja bremsudiskana að framan og yfirfara bremsukerfið - en titringurinn hélt áfram - hann virðist mestur frá hægra framhjóli. Hvað get ég gert?

Svar: Þar sem titringurinn virðist vera frá hægra framhjóli og eftir það sem búið er að gera gæti skýringin verið slit í innri hjörulið sem veldur hjámiðju/slætti á drifskafti. Vatn eða raki gæti hafa komist í innri hjöruliðinn. Slitið finnst þegar tekið er á drifskaftinu fyrir ofan miðju. Innri liðinn má fá á partasölu - hann gengur upp á rillur á öxulendanum og er haldið á öxlinum með hringsplitti. Liðbotninn er sleginn eða spenntur úr drifinu (láshringur).

Fer ekki í gang heitur
Ég á gamlan Bronco með 302-V8-vél sem neitar að fara í gang heitur. Ég er búinn að skipta um kerti, þræði, kveikjulok, hamar og háspennukefli en það breytir engu; vélin er annars eðlileg, tími réttur og allt í lagi þar til á að gangsetja eftir að hafa hlé t.d. 10 mín. Þá er enginn neisti fyrr en vélin hefur kólnað. Þetta er rafeindakveikja með segulrofa í stað platína. Getur verið að kveikjuheilinn sem sé ónýtur?

Svar: Oftast er orsökin sú að háspennukeflið er ónýtt - það finnst á því að það hitnar svo mikið að ekki er hægt að halda utan um það. En nýtt kefli útilokar þá orsök. Sennilega er þetta Ford Duraspark I-kveikja (tveir 3ja leiðslu tenglar frá heilanum). Líklegasta ástæða bilunarinnar er segulneminn í kveikjunni. Hann má prófa með því að hita hann með blástursbyssu í ca 80 °C. Þá á viðnámið á milli 2ja samhliða spaðanna í tenginu frá kveikjunni (3. leiðslan er svört/jörð) að breytast - það má ekki vera minna en 400 ohm og ekki meira en 1000 ohm við hitunina - að öðrum kosti er það ónýtt. Ástæðan fyrir því að vélin gengur eðlilega þar til drepið er á henni er að neistaskammtarinn (sem er eins og 8 skóflu hjól í laginu) virkar eins og kæliblásari á nemann svo lengi sem vélin gengur.

Og enn um Nissan Terrano II
Er með Nissan Terrano TDi sjálfskiptan og breyttan á 33" (ekinn um 175 þús). Er í vandræðum með mikla eyðslu (20 lítrar). Sá pistil á vefsíðunni þinni um svipað vandamál. Er að velta fyrir mér hvar þessi "Map-sensor" sé og hvort einhver leið sé að sjá hvort hann sé meinið?

Svar: Loftmagnsskynjarinn er í soglögninni á milli lofthreinsara og soggreinar. Aukin eyðsla er oft vegna bilaðs loftfmagnsskynjar, bilunar í tölvustýringu olíuverks (sem jafnframt veldur hökti í efsta gír sjálfskiptingar) og/eða vegna þess að sjálfvirki yfirgírinn fer ekki á fyrr en á 90-100 í stað 70 km/klst. (Breytt dekkjastærð getur valdið því). Kóðalestur leiðir í ljós hvort loftmagnsskynjari virki eðlilega. Hann er ekki hægt að mæla nema með sérstöku tæki (viðnámshermi). Gangtruflun, t.d. fyrst eftir gangsetningu, getur hins vegar stafað af óþéttum EGR-loka. Hann er oft hægt að hreinsa en á ekki að aftengja (blinda).

Spurt: Það er 12 volta rafkerfi í jeppanum mínum sem er af tegundinni Hyundai Terracan. Í viðgerðarbók yfir þennan bíl stendur m.a. að alternatorinn eigi að hlaða með rúmlega 14 volta spennu. Hvers vegna er ekki sama spenna frá alternatornum eins og er á kerfinu, þ.e. 12 volt?

Svar: Alternator þarf að framleiða næga raforku til að halda 12 volta spennu á rafkerfi og fullhlöðnum rafgeymi samhliða orkunotkun. Alternatorinn framleiðir samtímis orku til að knýja ökuljós, miðstöð, afturrúðuhitara, sætishitara o.fl. Rafspenna er margfeldið af straumstyrk og viðnámi. Til að framleiða nægan straum til að knýja hin ýmsu raftæki bílsins án þess að ganga á straumforða rafgeymisins, en hann þarf að vera fullhlaðinn til að tryggt sé að gangsetning heppnist í mestu kuldum, er alternatorinn látinn framleiða með hærri spennu. Þar sem viðnámið er óbreytt þýðir hærri spenna aukinn straumstyrk, þ.e. meira rafmagn.
www.leoemm.com

Slöpp miðstöð
Spurt: Miðstöðin í MMC Galant er mjög lengi að hita og hitinn lítill þótt hún blási eðlilega og hitamælirinn sýni eðlilegt ástand. Hvað er hægt að gera í stöðunni?

Svar: Af lýsingu að dæma er bilunin í miðstöðinni sjálfri. Hitaðu vélina í vinnsluhita, stilltu á mesta hita og láttu blása í 5 mín. Taktu þá á miðstöðvarslöngunum við hvalbakinn. Séu slöngurnar greinilega misheitar getur orsökin verið óvirkt spjald sem beinir inntaksloftinu í gegn um hitaldið og inn í farþegarýmið. Kalt loft fer þá framhjá hitaldinu og inn. (barka getur hafa losnað eða vír krækst úr). Sé lítill munur á hita slanganna getur barki frá stillitakka hafa aftengst lokanum sem opnar/lokar fyrir rennsli í hitaldið. Lokann má prófa með því að renna grannri slöngu inn í stútinn um leið og hitastillir er færður til. Reynist lokinn í lagi er hitaldið stíflað. Reynandi er að aftengja slöngurnar og gegnumspúla með heitu vatni áður en ráðist er í að endurnýja hitaldið.

Móða á rúðunum
Spurt: Í Benzanum mínum (árgerð 1997) myndast mikil móða innan á rúðunum. Hvað gæti valdið því? Fæst eitthvað efni sem eyðir móðu af innanverðum rúðum?

Svar: Algengasta orsök móðu er sú að fólk stillir miðstöðvarinntakið á hringrás til að forðast mengun frá útblæstri bíls, sem er á undan í biðröð, en gleymir að stilla inntakið á ferskt loft þegar haldið er aftur af stað. Takkinn sem stjórnar þessu er með táknmynd af bíl og hringrás. Sá takki á, að öllu jöfnu, að vera í "óvirkri" stöðu. Önnur ástæða móðu eru blaut gólfteppi - stundum vegna þess að göt eru á gúmmímottum, motturnar ekki tæmdar eða halda ekki í sér nægilega miklu vatni. Þriðja ástæðan getur verið lekt miðstöðvarhitald. Oft fylgir þeim leka sérkennileg "kemísk" lykt. Efni sem eyðir móðu innan af rúðum fæst í Bílanausti og er frá Rain-X - sérstakur móðueyðir.

Á ég að spá í Trooper?
Spurt: Við eigum von á okkar þriðja barni og stefnir í 3 stóla aftur í. CR-V-inn minn ræður hvorki við það né farangurinn sem fylgir þremur smábörnum. Sá í dag Trooper 2000 ekinn 132þ, sem mér leist skrambi vel á. Þetta er laglegasti jeppi, sjálfskiptur með 3000TDI. Hvert er álit þitt á Isuzu Trooper - svona til að ég nái mér aftur niður á jörðina?

Svar: Að mínu áliti er Trooper landbúnaðartæki og hergagn og afar óþægilegur sem jeppi; - vond sæti, ómöguleg fjöðrun auk þess sem endalaus vandræði hafa verið með 3ja lítra dísilvélina: Vondur kostur - og nánast óseljanlegur bíll nema við uppítöku. Þú ættir að skoða möguleikann á auknu rými í MPV (fjölnotabíl) - það er talsvert úrval af slíkum bílum af ýmsum stærðumog tegundum - en flestir jeppar eru of þröngir eða eyðslufrekir sem fjölskyldubílar þegar börn þurfa mest rými (stólar).

Lancer sem snuðar og kokar
Spurt: Ég er með sjálfskiftan MMC Lancer '97 með 1600 vél með beinni innsprautun, ekinn um 140 þ. km. Hann snuðar stundum á milli 2. og 3. gírs. Þetta hefur alltaf lagast af sjálfu sér fljótlega en varði lengst í 2-3 vikur. Það sem hefur líka angrað mig er að þegar ég aftengi yfirgírinn heggur skiftingin yfirleitt, nema að ég sleppi bensíngjöfinni á meðan. Þegar bakkað er og aftur valið "D" hikar skiptingin í 2 -3 sek. Annað sem pirrar er að vélin kokar við snögga inngjöf, sérstaklega þegar staðið er á bremsunni á ljósum. Kerti eru nýleg, einnig þræðir, kveikjulok, hamar og rafgeymir.

Svar: Sjálfskiptingin: Af lýsingunni að dæma hefur þetta með þrýsting/flæði að gera. Oftast er það vegna tepptrar upptökusíu. Annaðhvort nær skiptingin ekki upp nægilegum vökva/þrýstingi eða lokar í ventlaboxinu standa á sér (væri dælan ónýt væru þessi einkenni í hvert skipti sem þú tekur af stað). Höggin geta stafað af óvirkum sogstýri á skiptingunni eða leka í sogstýrilögn (kokið!). Vökvastöðu í skiptingunni á að mæla þegar vélin er heit og gengur lausagang og skiptingin í P. Hikið í vélinni: A. Óhreinindi á inngjafarspjaldi B. Sogleki (einhver slanga lek, t.d. í kveikju, í sjálfskiptingu, laus soggrein, leki með sogi á bremsukúti o.sfrv. C. Lélegur súrefnisskynjari í pústgrein. D. Of strekkt rafleiðsla milli vélar og t.d. búnaðar sem festur er á hvalbak, sem missir samband einungis á því augnabliki þegar vél er gefið inn en þverstæð vélin snýr upp á sig í húddinu þegar sett er í gír (þekkt í MMC og fleiri bílum).

Drepur á sér á ferð
Bíllinn okkar er Subaru Legacy með 2.2 lítra vél, árg. '97 station, ekinn 148 þús. Honum hefur alltaf verið vel við haldið og smurbók færð. Nú drepur vélin á sér eftir að hafa hitnað; eftir lausagang smástund í P dregur niður í vélinni og hún drepur á sér. Sama gerist á ljósum þegar ég læt vélina ganga í D og stend á bremsunni og stundum þegar farið er niður brekku og vélin látin halda við. Mér var bent á að þetta gæti verið sjálfskiptingin sem væri að gefa sig (túrbínan)?

Svar: Þetta hefur ekki með sjálfskiptinguna að gera úr því vélin drepur á sér í P. Líklegasta skýringin á þessu er bilaður loftmagnsskynjari; tæki sem er í loftrásinni á milli lofthreinsara og soggreinar og mælir loftmagn inn á vélina sem tölva notar til að stýra bensínblöndunni. Þegar þessi skynjari bilar verður blandan röng en vél er viðkvæmust fyrir rangri blöndu í lausagangi. Til öryggis skaltu láta bilanagreina vélkerfið með kóðalestri á Subaru-verkstæði. Staðfesti kóðalestur bilaðan loftmagnsskynjara skaltu kynna þér verð hans hjá umboðinu, AB-varahlutum, Vöku (endurbyggðan), á www.discountautoparts.com og víðar áður en þú kaupir. Loftmagnsskynjari nefnist einnig loftflæðisskynjari (Air Flow Sensor). Súrefni leiðir rafstraum. Í skynjaranum er örgrannur vír úr platínu sem mælir súrefnismagnið með leiðni/viðnámi og um leið loftflæðið. Vírinn er hitaður (glóðaður) til að hann brenni af sér ryk og óhreinindi. Svokallaður MAP-skynjari (Manifold Air Pressure) gegnir sama hlutverki með því að mæla loftþrýsting.

Virkar Nitró?
Ég hef verið að velta fyrir mér Nítró-setti til að setja í Chevrolet Blazer V6. Í auglýsingum er sagt að vélaraflið geti aukist um 100-150 hö með sjálfvirkri
nítró-inngjöf. Hvað kostar nítró-sett, er vandasamt að setja það í og er aflaukningin svona mikil? Hvar á millirörið í 2ja greina pústkerfi að vera setji maður pústflækjur á vélina?

Svar: Nítríó er stytting á "dí-nituroxíð" (N2O), en það er lofttegund sem fleiri þekkja sem hláturgas. Sé því blandað saman við bensínúða í ákveðnu hlutfalli eykst brunaorka eldsneytisins. Búnaður til að blanda hláturgasi sjálfvirkt við inngjöf (nítró-sett) er mismunandi flókinn, mismunandi vandaður og verðið frá 50 þús. kr. og upp úr. Ísetning getur verið flókið nákvæmnisverk og er oft klúðrað. Til þess að hláturgas-innsprautun virki þarf þrýstingurinn á því að vera um 800 psi sem þýðir að gasið á þrýstihylkinu þarf að vera a.m.k. 24 °C. Þær aðstæður eru sjaldan ráðandi hér og því getur þurft að nota sérstakan hitara á hylkið. Mín reynsla er sú að aflaukning vegna hláturgassins sé oftar sýnd veiði en gefin - búnaðurinn virki sjaldan eins og lýst er í auglýsingum; í raunveruleikanum sé aflaukningin yfirleitt minni en sú sem auglýst er, gangtruflanir algengar og gasið fokdýrt. Þverpípan (rörið á milli greinanna) á að vera á eftir flönsum safnhólkanna og eins framarlega og rými/drifskaft leyfir.


Kaup á gömlum bíl
Er að velta fyrir mér kaupum á Subaru Legacy '93. Veist þú hvort einhver sérstök vandamál hafi verið algeng varðandi þennan bíl?

Svar: Subaru Legacy er einn þeirra bíla sem hafa bilað minnst - sem er þó létt í vasa þegar bíll er 12-13 ára. Gamlir Subaru Legacy eru ryðdósir. Þeir ryðga utan frá vegna lélegs lakks (afturhleri, brettakantar o.fl.) og botninn verið ónýtur af ryði en það er, að mínu áliti, afleiðing "íslenskrar ryðvarnar/hljóðvarnar". Ryðskemmdir í burðarvirki og botni er erfitt,- ef ekki ómögulegt, að gera við í þessum bílum.


Á ég að láta ryðverja?
Mig langar að spyrja þig hvort ég þurfi að ryðverja nýjan Ford 150 Pickup og ef svo er hvernig eigi þá að gera það? Svo langar mig að vita hvaða smurolíu sé best að nota á hann hér?

Svar: Ég hef áður lýst þeirri persónulegu skoðun minni, bæði hér í DV og annars staðar að ég myndi ekki láta ryðverja nýjan bíl - hann er ryðvarinn á framleiðslustigi annars vegar með zinfosfat-húðun stálsins og hins vegar með galvanhúðun í rafbaði eftir samsuðu formaðra hluta. "Íslensk ryðvörn" er, að mínu áliti, einungis líkleg til að flýta fyrir eyðileggingu bílsins (gamlan endurbyggðan bíl þarf hins vegar að ryðverja og það myndi ég ekki treysta ryðvarnarstöð fyrir). Með öllum nýjum Ford-bílum fylgir handbók með upplýsingar um smurolíu. Mér hefur reynst vel að nota ódýra smurolíu og endurnýja hana oft (t.d. á 5000 km fresti í mínum Ford Ranger). Sem dæmi nefni ég Comma Syner-D 5w40 sem er syntetísk smurolía í háum gæðaflokki fyrir nýjustu dísilvélar með forþjöppu (Comma Syner-G 5w40 er af sömu gæðum fyrir nýjustu bensínvélar) þessar fjölþykktarolíur má nota allan ársins hring séu þær endurnýjaðar reglulega.

Ein fjöður .....
Ég er með ChryslerVoyager '99. Flautan og hraðastillirinn hættu að virka án augljósrar ástæðu. Ég er búinn að kanna öryggin og þau eru í lagi. Flauta á nú ekki að vera flókin og ég skil ekki hvernig hún getur tengst hraðastillinum. Er þetta eithvað sem þú kannast við?

Svar: Það sem er að er svokallað ,,Clock spring" en það er fjöður í stýrishjólinu sem leiðir boð frá flautu og hraðastilli: Hún er greinilega ónýt. Þú færð þessa fjöður hjá H. Jónssyni bílabúð. Ráðlegg þér að láta skipta um hana á löggildu bílaverkstæði vegna öryggispúðans í miðju stýrishjólsins.

Gangöruggir bílar
Ég hef hug á að kaupa Cherokee (Grand-gerðina) '99 eða '00. Það
eru nokkrar vélargerðir í boði; 4ra , 4,7 og 5,2ja lítra - jafnvel fleiri.
Nú leita ég eftir þinni sérfræði. Hvaða vél hefur komið best út hvað varðar
eyðslu , bilanatíðni o.fl. Mælirðu með svona bíl?

Svar: Þetta eru vel heppnaðir og eftir því vinsælir bílar. Bilanatíðni mjög lág. V8-vélarnar, bæði sú eldri 5,2ja lítra og sú nýrri 4,7 lítra, hafa , eftir því sem ég veit best, reynst vel. 4ra lítra vélin er 6 sílindra línuvél. Cherokee Laredo með 2,5 lítra 4ra sílindra vél eyðir t.d. 12-13 lítrum. Cherokee með 8 sílindra vél af árgerð '00 þarf að vera í góðu lagi til að eyða undir 17-18 lítrum - því er vissara að reikna með miklum eldsneytiskostnaði. Nýjustu bílarnir með 4,7 lítra V8 eyða um og innan við 13 lítrum í bönduðum akstri.

Máttlaus Transit
Ég var að vonast til að þú gætir hjálpað mér með vandamál: Ég á Ford Transit '99 með túrbódísilvél. Hann var aldrei mjög sprækur en nú er hann steinmáttlaus. Bíllinn er búinn að vera í marga klukkutíma í bilanaleit hjá Brimborg og þeir segja að pústþjappan sé í lagi og virki eðlilega og að eldsneytissían sé líka í lagi. Tölva bílsins gefur ekkert til kynna. Semsagt, þeir finna ekkert að. Hefur þú hugmynd um hvað það er sem að þeim Brimborgarmönnum gæti hafa yfirsést?

Svar: Síðast þegar þeir Brimborgarmenn gáfust upp á svipuðu máli (einnig Transit en án túrbó) reyndist orsökin sú að tímareimin hafði hoppað um 1-2 tennur (sá var jafnframt erfiður í gang í kulda). Önnur orsök aflleysis getur verið óvirk inngjafaraukning. Hún virkar með þindarstýrðum loka sem tengist pústþjöppulögninni og olíuverkinu og eykur við inngjöf þegar þjappan kemur inn. Fáðu Framtak í Hafnarfirði til að skoða þjöppu/eldsneytisstýringuna.

Rafmagns-reimleikar í Pajero
Ég er með langan Pajero '96 og var að hækka yfirbygginguna á grindinni um 2". Eftir hækkunina virka rafmagnsrúðurnar ekki. Ég er búinn að skoða allar tengingar sem ég kemst að með því að rífa mælaborðið og prófaði að tengja beint inn á takkaborðið í hurðinni og fékk þá virkni í allar rúður en ekki í hverri fyrir sig. Spurningin er þá hvar getur þetta legið og ef engin skýring finnst er óhætt að tengja nýja leiðslu frá sviss í hurðina um öryggi?

Svar: Einhver leiðsla hlýtur að hafa rofnað við hækkunina. A.m.k. myndi maður leita vel og rækilega að öllum hugsanlegum leiðslum/jarðsambandi sem gætu hafa rofnað við þessa breytingu/hækkun. Áhrif beintengingarinnar þýðir að þú getur einangrað vandamálið við bílstjórahurðina því í henni er höfuðrofi sem allur straumur/jörð fer um til hinna hurðanna. Þessi höfuðrofi gæti verið ónýtur (tilviljun). Framhjátenging án þess að finna bilunina er ekki viðunandi viðgerð þar sem hætta á íkveikju getur skapast.
P.S. Nokkru síðar kom eftirfarandi í ljós: ,,Ég er loksins búinn að finna bilunina, þetta var öryggið í húddinu sem var brotið þannig að það mældist alveg eins og það væri í lagi en náði ekki sambandi þegar því var stungið í, þakka þér fyrir fyrirhöfnina það borgaði sig að leita betur eins og þú sagðir í fyrra bréfinu."

SsangYong "fjölskylduvandamál"
Veistu hvernig bílar SsangYong Family eru?, Á Netinu má finna marga svona bíla af árgerð '98-99 keyrða 60-100 þús. km. Eru góð kaup í svona bíl?

Svar: Þetta eru sjálfsagt ekkert verri bílar en aðrir frá S-Kóreu af sömu árgerðum. Vandinn er sá að þeir eru upprunalega eldri kynslóð Izusu og eiga ekkert skylt við Musso. Þeir voru fluttir inn á sínum tíma af bröskurum. Varahlutaþjónusta er engin og til umboðsins hafa eigendur Family yfirleitt lítið að sækja því ekkert passar úr Musso. Af þessum ástæðum er jafnvel enn verra að losna við SsangYong Family en aðra SsangYong/Daewoo (nú Chevrolet)-bíla. (Við þetta má bæta þeim upplýsingum frá lesanda/eiganda Family að síðan þessu bréfi var svarað (í september 2005) er umboðið fyrir SsangYong (Musso/Rexton) einnig farið að sinna varahlutaþjónustu fyrir SsangYong Family).

Porsche Boxster
Spurt:
Sem áhugamaður um sportbíla hef ég verið að skoða framboðið á uppboðsvefnum Ebay.com en þar kennir margra grasa og verð hagstæð, a.m.k. nú þótt dollarinn sé byrjaður að hækka. Á meðal þess sem mér finnst áhugavert er úrvalið af eldri Porsche 911 og ótrúlega lágt verð á Porsche Boxster, t.d. 1997, 1998 og 1999 árgerðinni. Maður heyrir ýmsar sögur af því að menn hafi verið hlunnfarnir í viðskiptum á Ebay. Hvert er þitt álit á því?

Svar: Ég þekki ekki Ebay, hef aldrei nýtt mér þá þjónustu og get því engan dóm á það lagt. Hins vegar væru viðskiptin á þeim uppboðsvef varla jafn mikil og raun ber vitni ef þar væri einungis stundaðir svik og prettir og í því efni sem öðu varasamt að trúa sögusögnum. Það má gera góð kaup í eldri Porsche 911í Bandaríkjunum en hins vegar er það nýtt fyrir mér að úrvalið sé mikið. Hins vegar er ástæðan fyrir ,,hagstæðu" verði á Porsche Boxster af árgerðum 1997, 1998 og það af 1998 framleiðslu, sem seld var á árinu 1999, gallaðar vélar; þær hafa lekið smurolíu út í gegn um blokkina vegna steypugalla (árgerð 1997) og/eða hrunið (árgerð 1998 og 1999) um það leiti sem verksmiðjuábyrgðin er útrunnin (3 ár) - vélarnar hafa brotnað niður og gjöreyðilagst - byrjar oft með því að heddpakkning lekur kælivökva inn í sílindra. Boxster-vandamálin, en þau varða 2,7 lítra vélar af gerðunum 986 og 987, eru um þessar mundir eitt af heitum ,,neytendamálum" í USA og hafa haft í för með sér álitshnekki fyrir Porsch en talið er að vélin geti verið ónýt í fimmta hverjum Boxter-bíl. Kaupi maður notaðan Boxster af þessum árgerðum getur maður átt von á 1,5 -2,5 milljón króna kostnaði eða vegna vélarskipta. Vandamál hafa einnig verið með vatnskældu vélina í 911 (996-gerðin), m.a. þrálátur olíuleki úr öftustu höfuðlegu - nefnist RMS á ensku (Rear Main Seal) með alls konar afleiðingum. Engin vandamál eru hins vegar í sambandi við eldri 911-bílinn með loftkældu vélinni (993-gerðin) - hann er eftir sem áður einhver best smíðaði bíll sem völ er á. (sjá nánar í grein ,,Boxster-galli" í BÍLAPRÓFUANIR)

Um stöðuspennu
Spurt:
Hvað segir þú um jarðtengingu á bílum (eldingarvara) þetta er mjög
algengt á bílum erlendis og ég heyri að fólk (börn) verði síður bílveikt ef bílar eru með eldingarvara. Hefur þetta með stöðuspennu að gera?

Svar: Úr flutningatækjafræðinni var þetta þekkt öryggisráðstöfun hér áður fyrr (keðjan sem eldsneytisflutningabílar drógu) en sem nú sést ekki lengur.
Ég hef ekki séð neitt um hvort sýnt hafi verið fram á að svona leiðandi taumur á fólksbíl geri gagn. Hins vegar þarf ekki annað en að bleyta dekkin með vatni til að stöðuspenna hverfi í talsverðan tíma.

Ólykt af nýja bílnum
Spurt:
Ég á 6 mánaða gamlan Toyota Corolla. Síðustu viku hef ég fundið vonda
tektyl-brunafýlu þegar ég stíg út úr bílnum. Ég hefði aldrei fundið þessa lykt
fyrr en bíllinn er orðinn 6 mánaða, sem mér finnst svolítið skrýtið. Heldurðu
að það sé eitthvað að óttast?, eða þetta sé eðlilegt?

Svar: Til öryggis skaltu láta kanna hvort einhver smurolíuleki geti verið frá vélinni niður á pústgreinina. Að öllum líkindum er ástæðan fyrir þessu sú að efni, sem úðað hefur verið á botn bílsins, hefur lekið niður á hvarfakútinn eða fremri hluta útblásturskerfisins. Fyrirtækið sem tekur að sér að úða þessu efni neðan á bílinn - á að ganga þannig frá verkinu að efnið komist ekki í snertingu við útblásturskerfið - það er einfalt öryggisatriði. Í þínum sporum myndi ég hafa samband við umboðið og fara fram á að þetta verði lagfært - þessi þjónusta er ekki ókeypis og því eðlilegt að þetta sé lagfært.

Ónýtt bensín
Ábending um ónýtt bensín: Hér áður fyrr nutum við besta bensíns í heimi (frá Sovétríkjunum). Nú kemur það fyrir að eigendur fornbíla koma þeim ekki í gang eftir geymslu yfir veturinn. Oft er ástæðan sú að bensínið, sem nú kemur frá Noregi (svokallað krakk-bensín) þolir ekki geymslu heldur eyðileggst og brennur ekki. Bifvélavirkjar þurfa nú að taka með í reikninginn að þótt nóg bensín sé á geymi bíls getur það verið ónýtt og því vissara að prófa hvort það brennur!

Amerískt beisli - þokuljós að aftan
Spurt: Ég er með Ford Escape árg. 2005 sem er fluttur inn frá Kanada. Á þessum bílum eru enginn þokuljós að aftan (rauð) Og þannig fékkst hann skráður. Hann var með dráttarbeisli og USA- tengil en kúlan var ekki í beislinu og þess vegna var beislið ekki skráð hér á landi. Ég setti 7 póla tengil en nú er mér sagt að ég verði að tengja þokuljós í tengilinn með viðeigandi rofa og lögnum þótt bíllinn hafi verið skráður án þessa ljóss. Hefur þú einhver svör við þessu?

Svar: Þar sem kúlan var ekki á beislinu (en ameríska kúlan er minna en sú evrópska og ekki lögleg hérlendis) skoðast það ekki sem dráttarbeisli og því fékkst bíllinn skráður (þ.e. án dráttarbeislis og án sérstakrar úttektar á því). Eftir að kúlan er kominn á telst búnaðurinn vera dráttarbeisli og verður þá að uppfylla kröfur um tengil til að vera löglegt. Þetta eru ES-reglur - m.a. að þokuljós skuli vera í tenglinum því margir húsvagnar eru með þokuljós (enda veitir ekki af því þeir draga upp á sig mikinn vatnsúða á hraðbrautum Evrópu). Þokuljósið verður að tengja með rofa um straumloku sem fær stýristraum frá háa geisla ökuljósanna þannig að ekki sé hægt að kveikja þokuljósið aftan á bíl/vagni nema með háu ljósunum - eins skynsamlegt og það nú er. Þetta eru reglurnar sem skoðunarmönnum er ætlað að framfylgja og þeir eru ekki öfundsverðir af því hlutverki. Þokuljós hafa ekki verið á amerískum bílum að aftan fyrr en nú á einstaka bílum. Hins vegar var ljósstyrkur afturljósa á þeim samkvæmt SAE-staðli meiri en á evrópskum bílum samkvæmt DIN-staðlinum. Ath. tengimynd fyrir kerrutengil er á TÆKNIMÁL


Rangar upplýsingar
Spurt: Ég er með Ford Explorer af árgerð 1995. Miðstöðin lekur kælivökva inn í bílinn. Mér var sagt á verkstæði að það væri mikið og dýrt verk að endurnýja hitaldið í miðstöðinni því rífa þyrfti mælaborðið úr bílnum til að komast að miðstöðinni. Er hægt að nota vatnskassaþéttiefni til að stöðva svona leka?

Svar: Þú hefur fengið rangar upplýsingar. Það tekur um 1 klst. að endurnýja hitaldið í miðstöðinni (það er í Asíu-og evrópskum bílum sem stundum þarf að rífa hálfan bílinn til að framkvæma þetta verk). Miðstöðvarslöngurnar eru aftengdar við hvalbakinn í vélarrýminu. Neðan á miðstöðinni, nokkurn veginn fyrir miðjum bíl, er lárétt lok á stærð við skókassa sem 5 litlir boltar halda (8 mm toppur) en boltarnir skrúfast lóðrétt upp í miðstöðvarhúsið. Lokið getur þurft að spenna frá vegna (lím)þéttiefnis. Þegar lokið er laust er hitaldið laust og er tekið úr og nýju rennt í, lokið sett aftur á með nýju límkítti og fest með boltunum. Hitaldið færðu líklega hjá Gretti-vatnskassaþjónustunni á Vagnhöfðanum.

 

Aftur á aðalsíðu