Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 13


Tímabil: 20.02-24.05 (2005)
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti á leoemm hjá simnet.is).


Spurt: Ég er kona og hef mikinn áhuga á bílum, á t.d. húsbil Benz 309D. 78 módel og er í góðu lagi þó aldraður sé. Ég var að hlusta á þáttinn þinn áðan og rétt missti af frásögn þinni af kælivatni bíla. Ég er á Suzuki Vitara jeppa árg.99 og er kælivatnið eitthvað að fara af bílnum, það er búið að setja tvisvar á hann á rúmum mánuði, getur þú nokkuð sagt mér hvað er hugsanlega að gerast?

Svar: Vonandi er þetta bara leki í kerfinu - en ef þú hefur ekki látið endurnýja kælivökvann lengi (og ef þér þykir miðstöðin hita verr en hún ætti að gera) er hætt við að heddpakkningin sé farin. Þú getur látið þrýstiprófa kerfið á verkstæði, t.d. hjá Bílaáttunni í Kópavogi en þá ætti ástæða þess að vökvinn hverfur að koma í ljós. Það kostar ekki mikið að þrýstiprófa kerfið.

Spurt: Mig langar að byrja á að þakka þér þáttinn þinn á Talstöðinni á laugardagsmorgnum. Ég vissi ekki um hann en rakst inn á stöðina í morgun um 0920 og kom inn í endann á því að þú varst að ræða um niðurstöður bílaprófanna frá einhverri stofnun sem ég hef ekki heyrt um fyrr. Er þátturinn endurtekinn? Annað sem mig langaði að spjalla um er að ég hef tekið eftir því í seinni tíð hvað ég forðast orðið að lesa texta í löngum línum, svona eins og t.d. Brotajárnið hjá þér. Og ef þetta efni er mjög áhugavert þá klippi ég textann yfir í Word og stytti línulengdina niður í kanski 7 sm og þá get ég lesið án óþæginda. Jú svarið við þessu eru gleraugun sem ég nota, þessi með breytilegum fókus. Þessi gleraugu gefa fókus á mjórri lóðréttri rönd í miðju glerinu, þannig að maður veltir hausnum upp og niður til að finna fókusinn. En í staðinn á maður erfitt með að renna augunum til hliðanna, verður að hreyfa höfuðið til hliðanna. Og þarna er skýringin, manni finnst óþægilegt og seinlegt að hreyfa höfuðið svona, en mjói dálkurinn gerir manni kleyft að renna augunum niður eftir dálkinum og þar sem manni er orðið eðlilegt að velta hausnum upp og niður til að halda fókus, verðum maður ekki var við það. Ég segi þér nú þetta meira til gamans því ég er viss um að þér er ekkert óviðkomandi ef það þarfnast hugsunar. Eitt langar mig að spyrja þig um. Ég eignaðist minn þriðja Pajero Disel jeppa í desember. Þetta er 2000 módel, það fyrsta af nýju gerðinni með 3,2 lítra 164ha vél, díselvél af nýju gerðinni, þessari sem ekki er með olíuverk. Mjög skemmtileg vél, eyðir minna en gamla 2.5 lítra vélin, en er mjög öflug. Það sem kommér á óvart er hve hávær þessi vél er, alveg sérlega fyrst eftir kaldstart, en hún er í lagi þegar hún er orðin heit. Einnig finnst mér hún ekki ná upp fullu afli fyrr en hljóðin lækka.Kanntu einhverja skýringu á þessu ? Og ef svo er, er eitthvað hægt að gera til að deyfa þessi óhljóð ? Þú minntist á að þú vistaðir vefsíðuna þína í USA. Hefur þú rætt við EJS á Grensásveginum, þeir reka Hýsingu og vista þar vefsíður fyrir þó nokkra, og einhverjir hafa flutt sig frá USA með sínar síður og sögðu það hagstæðara. Mig minnir að Hallgrímur hafi verið með einhverja sem þetta gerðu í viðtali á Sögu í haust. Hallgrímur man kannski eftir þessu. Þú á miklar þakkir skilið fyrir þessa síðu Leó og ég vona að þú haldir þetta út sem lengst. Finnur.

Svar: Ég vissi þetta ekki með dálkbreiddina/gleraugun - fannst það áhugavert. Hins vegar er dálítið snúið að vinna með marga dálka í því kerfi sem ég vinn vefsíðuna í - en ég mun skoða málið því ábending þín vekur mann til umhugsunar um að fleiri kunna að stríða við þetta vandamál. Talsvert hef ég lesið um 3.2ja lítra Pajero dísil en aldrei séð kvartað undan hávaða eins og þú lýsir en hins vegar þykir 2,8 lítra dísilvélin í Pajero vera lík grjótbryðju í lausagangi. Þessi 4ra sílindra tveggja kambása 16 ventla túrbó-dísilvél er með innsprautun beint í brunahólf Fyrstu vélarnar með því fyrirkomulagi komu um 1999 hjá japönskum framleiðendum. Kosturinn við beinu innsprautunina er meiri sparneytni og betra viðbragð en gallinn (við fyrstu vélarnar) var að þær voru háværari en eldri vélar með innsprautun í forhólf. Sá munur á þó ekki að vera til vansa. Sé vélin mjög gróf köld myndi ég, í þínum sporum, láta athuga hana hjá umboðinu. Það kann að vera að forhitunin, sem er reyndar meira en forhitun fyrir gangsetningu því hún virkar sem mengunarvörn í ákveðinn tíma á meðan vélin er að hitna, virki ekki eðlilega og að það skýri hljóðið og aflleysið, sem þú telur þig merkja. Hýsing vefsíðunnar minnar er í stöðugri skoðun - núverandi fyrirkomulag er enn talsvert hagkvæmara en tilboð innlendra aðila sem sýnast ódýrari við fyrstu sýn en þau raunverulega eru - maður er einfaldlega laus við þennan íslenska ,,rip-off-hugsanagang" þegar maður skiptir við Ameríkana í eðlilegu samkeppnisumhverfi. Þar sem ég stefni að því að verða 125 ára (samkvæmt síðustu áætlun) er eins víst að vefsíðan mín verður við lýði í langan tíma. Það gengur stundum frekar treglega að koma nýju efni inn á hana - það er þetta sígilda vandamál sem flestir okkar þekkja; vinnan tefur mann svo rosalega......

Spurt: Vandamál mitt er að ég sem altaf hef átt bíla með blöndúng, finn nú eingann slíkan í mínum Susuki Beleno? '96 og eg var vanur að pumpa 4-5sinnum bensíngjöfinni og fór þá blöndúngs bíllinn á sekúntunni í gang, en nú er öldin önnur bein innspíting, og eg er nýbúinn að fatta að svissa á hann og bíða 7 sekúntur og starta svo, mér finnst þetta vera frat, og hvar er svo hægt að stilla hægagangs hraða? Heimur versnandi fer, bakkljós eru eingin hvernig hurfu þau fóru kanski báðar perurnar í einu (ég þarf að mæla þær) eða rofi fyrir bakkgír bilaður? Hvar er hann ? kanski gleymst að ætti að fylgja? Ég er nú þegar orðinn gráhærðari, jæja ég væri þakklátur fyrir svar.Björgólfur

Svar: Fátt er svo með öllu illt. Eftir að blöndungurinn hvarf minnkaði mengunin og hættan af því að fiktað væri við stillingar. Baleno er seldur m.a. í USA og þar er bannað að hafa einhverjar stillingar. Það er skynjari og ,,mótor" sem ræður lausagangshraða. Stundum veldur teppt loftsía gansetningarvanda og röngum lausagangshraða. Bakkljósarofinn er á gírkassanum hann er líklega sambandslaus eða ónýtur.

Spurt: Ég hlustaði á bílaþáttinn hjá þér á Talstöðinni og fór í framhaldi af því inn á heimasíðuna hjá þér og list vel á hvorutveggja. Ég á Jeep Grand Cherokee Ltd. og las því um þá ágætu bifreið á heimasíðunni hjá þér. Nú langar mig að beina til þín smá fyrirspurn um Overdrive takkann í bílnum, hann heitir O/D off, og spurningin er þessi. Er þessi takki t.d. til þess að taka overdrive af í borgarakstri (ýta takkanum inn, en þá kviknar ljós) eða á ég bara að láta hann eiga sig. Ég hef fengið dálítið misvísandi upplýsingar um þetta atriði - bæði um tilgang og svo eyðslu. Jón.

Svar: Þessi rofi aftengir yfirgírinn.. Hann má nota við framúrakstur til að fá betra viðbragð (eins konar handvirk niðurskipting) og við kerrudrátt en þá á yfirgírinn að vera ,,aftengdur" til að hlífa sjálfskiptingunni. Yfirgírinn eykur sparneytni bílsins í lengri akstri og ljósið er til að láta mann vita að ekki sé ekið með hámarkssparneytni.

Spurt: Ég er í vandræðum með intercooler sem ég ætlaði að setja í Landroverinn minn, vélin í honum er ISUZU TROOPER 2,8 turbo árg 1991. Vandinn er sá að þegar búið var að setja græjuna í þá missti vélin afl. Þarf að breyta túrbínunni þegar svona er sett í eða gera eitthvað annað? Gott væri ef að þú gætir liðsinnt mér eitthvað í sambandi við þetta. Þórður.

Svar: Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig það má vera að vélin missi afl við millikæli - Þessar Isuzu-dísilvélar eru til með millikæli sem skilar árangri. Millikælirinn er hafður á loftinntaki á eftir túrbínu, þ.e. hann kemur á milli túrbínu og soggreinar. Kælda loftið frá millikælinum lækkar mótþrýstinginn þannig að túrbínan á auðveldara með að þjappa saman loftinu. Það á ekki að þurfa að breyta túrbínunni - það eina sem gerist við millikæli er að afköst túrbínunnar aukast - það er líkast því að sett hafi verið stærri túrbína án þess að ,,hikið" fylgi. Missi vélin afl við það að tengja millikælinn bendir það til þess að eitthvað teppi loftflæðið þannig að vélin sé svelt - í slíkum tilvikum ætti að sjást munur á pústinu (dekkra). Farðu yfir dæmið, lið fyrir lið, - einhvers staðar er eitthvað ekki eins og það á að vera.

Spurt: Ég á í vandræðum með sjálfskipta Toyotu Carina II 2,0 1991. Vandamálið lýsir sér í því að hann vill stundum drepa á sér þegar tekið er af stað og jafnvel þegar þarf að stöðva snögglega. Einnig á hann það til að drepa á sér þegar farið er úr "P" í "D". Það er dagamunur á honum en helst virðist þetta gerast u.þ.b. þegar hann er að ná fullum hita. Stundum kemur talsverð bensínlykt þegar verið er að reyna að starta honum aftur. Ég hef farið með hann til Toyota og þeir yfirfóru allt rafkerfi en fundi ekkert en töldu að skipta þyrfti um bensíndælu, þó ekki vissir. Þegar hann er í "D" er hann í um 500 sn. og gefur ekki sjálfkrafa inn þegar sett er í "D" heldur dettur niður í þenna snúningafjölda. Sumir hafa nefnt að einhversstaðar sé skynjari eða skynjarar sem gætu hafa bilað án þess að geta fest á því hendur. Þetta er mjög hvimleitt. Ég hef "leyst" þetta með því að auka snúningin í 650 og þegar ég þarf að stoppa í umferð þá "slúðra" ég, þ.e er með vinstri fótinn á bremsunni en held snúningi með hægri. Væntanlega slæm lausn. Hvað getur hugsanlega verið að? Ingi

Svar: Þetta er eitt af þessum truflunum sem erfitt getur verið að henda reiður á - ekki síst í Toyota. Það er margt sem getur valdið þessu og jafnvel verið margir samverkandi þættir. Ástæða þess að vélin gengur hægari lausagang er annað hvort of veikur neisti (kerti, kveikjulok/kertaþræðir) eða ekki nóg eldsneyti - en lausagangshraða er ekki hægt að stilla (sérstakur ,,mótor" á inngjafarkverkinni á að sjá um að stilla hraða lausagangsins). Stundum er ástæðan sú að vélin nær að draga falskt loft einhver staðar á eða við soggreinina. Þú skalt byrja á að athuga boltana sem halda soggreininni á heddinu, yfirfara allar loftslöngur sem koma á soggreinina, t,d, frá soggrein í kveikjuflýti o.s.frv. og endurnýja það sem þér sýnist geta lekið. Teppt loftsía getur valdið því að blandan verður of sterk og vélin kæfi á sér í lausagangi, stífluð bensínsía getur valdið svipuðum einkennum, raki í bensíni (prófaðu ísvara) - og jafnvel lek bensínlögn frá bensíngeymi. Sótútfelling á inngjafarspjaldi getur valdið ójöfnum gangi á lægri snúningi og lagast sé spjaldið þrifið.


Spurt: Ég er að fara að setja 30 mm lækkunargorma undir bílinn hjá mér og það er spurning um að ég þurfi að hjólastilla bílinn eftir það. Hvernig geri ég það?

Svar: Það fer eftir ýmsu, m.a. bíltengund - ef þú ert með ,,lækkunarsett" t.d. frá Koni og bíllinn er BMW eða Audi þarf ekkert að stilla svo dæmi sé tekið.

Spurt: Ég keypti MMC Galant, árgang ' 93 síðastliðið sumar. Ég hef því miður þurft að kaupa mér eldri gerðir af bílum vegna fjárhagsins þar sem ég er kominn á eftirlaun. Mér hefur verið sagt að Galantinn hefði mjög lága bilanatíðni og leist því mjög vel á bílinn og líkar hann vel. Við hjónin keyrum mikið á sumrin þar sem við erum með hjólhýsi á Laugarvatni og aðgang að bústöðum hjá skyldmennum á Austfjörðum. Bíllinn var ekinn 164þ. km. þegar ég keypti hann og er kominn í 176þ. í dag. Bílinn er sjálfskiptur og ég lét skifta um síurnar í skiptingunni stuttu eftir kaupin. Það er eitt sem mér þykir að, er hvað hann skiptir sér harkalega ef hann er í over -drive þegar keyrt er innanbæjar, það koma eins og þung högg. Þetta kom aldrei fyrir í Nissan Sunny sem ég átti fyrir þennan bíl og hann var kominn í 236 þ.km. Er skiptingin orðin svona slitin eða er þetta kanski "meðfætt"?Valur.

Svar: Japanskar sjálfskiptingar hafa reynst ágætlega. Hins vegar er ef til vill ekki við því að búast að allar komist þær klakklaust í 150 - 200 þús. km. Höggin sem þú talar um að komi þegar skiptingin er í yfirgír (og ég skil af lýsingu þinni að komi ekki fyrir í öðrum gírum) eru að öllum líkindum vegna þess að svokallaður túrbínulás er bilaður (stendur á sér). Túrbínulásinn læsir túrbínunni í efsta gír þannig að yfirgír myndast við að túrbínan (vökvatengslin á milli sjálfskiptingar og vélar) tengist beint án snuðs. Ég ráðleg þér að láta athuga þetta á verkstæði sem fyrst því festist túrbúnulásinn alveg getur það valdið dýrum skemmdum á sjálfskiptingunni. Stundum er hægt að fá notaða sjálfskiptitúrbínu fyrir sanngjarnt verð á partasölu - einnig getur þrautalendingin verið sú að aftengja yfirgírinn og losna þannig við höggin - sé túrbínan óskemmd. Ræddu þetta við bifvélavirkja sem kann á sjálfskiptingar. Séu höggin einnig við skiptingu á milli fleiri gíra gæti orsökin verið slit í hjörulið.

Spurt: Ég er að reyna velta því fyrir mér hvað gæti orsakað mikið glamur í vél eftir að hún hefur náð að hitna
Ég verð ekki var við þetta þegar vélin er köld Glamrið heyrist greinilega inn í bíl þegar hann er í kyrrstöðu í hægagangi og eykst með hærri snúning ef ég stíg á bensíngjöfina Vélin Toyota1,3 (2E) ekin 214.000 þús Ég veit ekki til þess að hún hafi fengið neitt viðhald síðustu 10 ár nema einhver olíuskipti. Fannar


Svar: Það er ekki auðvelt að átta sig á orsökum hljóðs af lýsingu. Það sem einn kallar glamur kallar annar bank. En tvennt gæti átt við í þínu tilfelli - annars vegar ónýtur dempari á milli ventils og kambáss (ef um yfirleiggjandi kambás er að ræða) en hins vegar úrbrædd stangarlega. Fáðu einhvern bifvélavirkja til að hlusta vélina - hann ætti að geta sagt þér hvað um er að ræða.

Spurt: Komdu Sæll Leó og Takk fyrir góða og skemmtilega heimasíðu.Mig langar að minnast á að viðhorf þín gagnvart ítölskum bílum hafa valdið mér vonbrigðum. Þú lofsyngur m/fra/þýs, bíla en afgreiðir ítalska sem algert drasl. Talar um Ferrari sem rándýrt drasl ,Alfa Romeo sem algert rusl og furðar þig á því hvers vegna nokkur kaupir Fiat. Nefnir mikla umfjöllun og slynga sölumenn sem ástæðu. Annars staðar talar þú um að ekki þýði að slá ryki i augu þýskra neytenda með auglýsinga skrumi, bíll verði að standast gæðakröfur. Fiat og Alfa Romeo eru mjög vinsælir í Þýskalandi..Ef ég man rétt þá var Fiat Brava valinn eigulegasti bíll keyrður 100.þ.km.af Auto Motor und Sport fyrir fáeinum árum. Ég hafði afnot að Fiat með 1.6l vél, átti ekki von á að bill með ekki stærri vél gæti verið svona skemmtilegur í akstri.Gefum því einkunn! Þar er ekki einskisvert að maður hafi virkilega gaman af akstrinum. Vel má vera að ítalskir bílar séu viðkvæmir stundun gallaðir-viðhaldsfrekir sama gildir um marga evrópska og ameríska bíla. Ummæli eins og " Heyrðu það er þó alltaf skárra að eiga gamlan amerískan en nýjan Alfa Romeo! (það helvítis drasl)" Vekja undrun mína. Hvernig amerískan ertu að tala um? Dodge Aries eða Aspen, Pontiac Sunfire. Móðgandi ummæli og ekki til þess fallin að styðja nýtt umboð sem gerir sitt besta til að fólk fái notið þeirra gæða, akstursánægu og fjölbreytni í bílaflóru sem Alfan bíður uppá. Ef Ferrari væri algjört drasl væri gengi bílsins ekki með því móti sem raun ber vitni í F1. Lág bilana tíðni sem Ferdinant og félagar þyrftu mikið að hafa fyrir.Ég hef lesið margar Ferrari eigendasögur og Ferrari þarfnast umhyggu sem kostar peninga. Ég hef þó ekki lesið sögur sem styðja þitt viðhorf til bílsins þvert á móti. Við þekkjum glæsilega sögu Ferrari, saga Alfa Romeo er einnig saga glæstra sigra þó að sum tímabil hafi verið öðrum betri. Eitthvað sem fjölmargir bílaframleiðendur þekkja af eigin raun. Ekki er hægt að afgreiða ítalska bílasögu á þennann hátt. Þórður

Svar: Þú hefur komið þinni skoðun á framfæri. Ég virði rétt manna til að hafa skoðanir og rétt þeirra til að halda þeim fram. Að sjálfsögðu hefur fólk misjafnar skoðanir á ítölskum bílum. Það er sérstaklega tekið fram á vefsíðunni minni að hún endurspegli persónulegar skoðanir mínar. Ég fer ekkert leynt með þær (sigli ekki undir fölsku flaggi) og svo vill til að ég er ekki eini maðurinn sem er með ,,fordóma" gagnvart ítölskum bílum - ég er hins vegar einn fárra hérlendis sem hef gert við ítalska ,,ofurbíla", þ.a.m. Ferrari - og hef því skiljanlega afar lítið álit á ítölskum bílum yfirleitt. Það eru áreiðanlega til vefsíður þar sem allt öðrum sjónarmiðum en mínum er haldið fram - mér finnst það bæði upplýsandi, þarft og skemmtilegt. Mínar skoðanir hafa ekkert með bílaumboð að gera og bílaumboð hafa aldrei mótað mínar skoðanir á bílum - þar af leiðandi hafa þær ekkert með Fiat-umboð að gera - það er og verður einhvers konar masókismi að taka að sér umboð fyrir Fiat en allir hafa gefist upp á því hingað til. Aðalatriðið er að þú haldir áfram að hafa ánægju af ítölskum bílum.

Spurt: Ég kíki stundum á heimasíðuna þína og sá að þú ert að bjóða að senda
tölvupóst ef maður er í einhverjum vandræðum. En ég á bíl með álheddi (KIA) og ætlaði bara að skipta um kerti en það hefur maður gert ótal sinnum. Það tekur smá tíma að komast að kertunum því að það þarf að taka sogreinina af og svo eru kertin í brunnum og frekar neðarlega. En þegar ég snéri 1. kertinu fannst mér það ekki losna (þó að það hreyfðist) og þá var maður smeykur um að gengjurnar hreyfðust með og þá ákvað ég að hætta og setti allt saman aftur til að skemma ekki gengjurnar. Kannski hef ég verið of mikil kveif og hefði bara átt að halda áfram að skrúfa kertið úr? En spurningin er hvað getur maður gert til að losa kertið ef grunur er á að gengjurnar fylgi með. Hita kertið, blokkina eða ?. Eða kæla kertið og þá hvernig? Og svo hvað gerir maður í versta falli ef gengjurnar eyðileggjast. Verður maður þá að taka heddið af. Er þá hægt að setja stálhólka í heddið? (varla þarf að fá nýtt hedd??). Eða er hægt að redda þessu án þess að taka heddið af? En það er talað um að skipta um kerti á 50.000 km. fresti og kannski veldur það því að meiri líkur eru á að kertin festist við álheddið (einhver oxun). Kannski er álið í Kórenskum lélegra en í öðrum bílum? En ætti ekki bara að vera stálhólkar í blokkinni sem kertin myndu skrúfast í. Eða getur það valdið einhverjum vandamálum vegna hitaþennslu? Það væri ánægjulegt ef þú lumar á einhverjum upplýsingum um þetta og hvað verkstæði gera í svona málum. Sigurður H.

Svar: Þú ert hvorki sá fyrsti né sá eini sem lendir í þessum hremmingum. Það er ekki ráð að hita kertið - það þarf að hita svo mikið að hætt er við meiri skemmdum en á gengjunum við að skrúfa það úr kalt - þrátt fyrir átök. Til er freon-efni á úðabrúsa sem nota má til að frysta kertið en það er varasöm aðferð vegna álsins sem umlykur kertið og því ekki sama hvernig því er beitt. Því lengur sem þú dregur að skrúfa kertið úr - því meiri líkur eru á að heddið skemmist. Kertin á að skrúfa úr þegar heddið er sem kaldast. Skemmist gengjurnar getur þú átt 3ja kosta völ (eftir því hve heppnin er mikil): A. Gengjurnar aflagast: Sérstakur snitttappi fyrir kertagöt (frá KD) fæst í Bílanausti og víðar. B. Gengjurnar ónýtar: Innsetningargengjusett er til í Bílanausti og Stillingu með snitttappa og ísetningargengjum (Helicoil). C. Meiri kemmdir: Taka þarf heddið af og fara með á vélaverkstæði, t.d. Vélaland. Stundum er hægt að laga svona skemmdir en stundum þarf að endurnýja heddið - það fer eftir eðli skemmdanna.
Í þessu tilfelli ráðlegg ég þér að ræða við þá í Vélalandi og kanna hvað þeir telja sig geta gert fyrir þig í stöðunni - áður en þú tekur til þinna ráða. Það er ekkert síðra efni í þessum álheddum frá S-Kóreu en annars staðar frá. Draga má úr hættu á að kerti festist í álheddum með því að nota sérstaka álfeiti á gengjurnar (Anti Seize Compound frá Permatex) sem fæst í Bílanausti. Þetta er þó ekki pottþétt trygging. Til að girða fyrir þessi ,,óskemmtilegheit" hef ég ráðlagt fólki að láta skipta um kerti á 20 þús. km. fresti eða oftar (og nota þá ódýrari kerti í staðinn - ekki platínuhúðuð). Hins vegar er það ef til vill ekkert þjóðráð þar sem það gerist nú algengara að rífa þurfi næstum hálfa vélina til að komast að kertunum!

Spurt aftur: Þakka kærlega fyrir fljót og skýr svör. En hvernig virka innsetningargengjusett. Þarf þá að bora eitthvað út eða er settur (þunnur) hólkur í gatið sem er síðan snittaður. Á heimilinu er bara einn bíll og erum við sambýlisfólkið með eina litla dóttur og því fer allt á annan endan ef farartækið stoppast þannig að ég miða allar viðgerðir sem ég geri sjálfur við að halda bílnum gangandi og hann sé nothæfur á hverjum degi. Get því ekki tekið lengur sjéns á því að byrja á einhverju sem ég get ekki klárað. Einnig hefur maður takmarkaðan tíma í bílaviðgerðir. Ætla því í þessu tilfelli að láta skipta um kertin hjá umboðinu en ef allt er í lagi á það ekki að kosta mikið og ef hægt er að laga þetta með einföldum hætti t.d. með að snitta upp gengjurnar ætti maður þá líka að sleppa vel. Og kannski hef ég rangt fyrir mér og var bara kveif. En auðvitað fer það í taugarnar á manni að hafa ekki klárað þetta en maður lagði bara ekki í að reyna meira án þess að hugsa sig um. En ef þetta verður í lagi þá eru þetta góð ráð hjá þér hvernig maður heldur þessi í lagi en í mínu tilfelli á maður að gera skipt um kerti á einum klukktíma og því sleppur maður kannski nokkuð vel með hvað þarf að rífa af vélinni.

Svar aftur: Þetta viðgerðarsett inniheldur úrtak (bor), snitttappa og ísetningargengjur - það er við það miðað að hægt sé að gera þetta án þess að taka heddið af. Þetta er þó ekki verkefni sem allir ráða við. Í þínum sporum myndi ég tala við þá í Vélalandi um þetta vandamál áður en þú ferð í umboðið - þú hefur þá a.m.k. álit fleiri á málinu.

Spurt: Var að skoða greinina hjá þér um Cherokee, er búinn að vera að spá í hann,
þú talar um að V8 vélin komi betur út en 4l vélin, varðandi eyðslu o.þ.h. veistu hvað þessar vélar eru að eyða? Tómas.

Svar: Ástæðan fyrir því að 4ra lítra 6 sílindra vélin getur eytt verulega (um og yfir 20 lítrum) er illa heppnað tölvustýrt innsprautukerfi. Þegar 6 sílindra vélin er í fullkomnu lagi hefur eyðslan verið 15-17 lítrar eftir aðstæðum. V8-vélin hefur verið með stöðugri eyðslu 17-20 lítrar á hundraðið. Með 4ra sílindra vélinni í lagi eyðir Cherokee 13-14 lítrum 5 g beinskiptur og 4ra g sjálfskiptur.

Spurt: Ég er með fyrirspurn til þín um Hiclone og hvort þú þekkir það fyrirbæri?. "Hiclone er stálhólkur með leiðiblöðum sem settur er inn í loftinntak vélarinnar milli loftsíu og soggreinar. Í túrbínuvélum er staðsetning við inntak túrbínunnar og við soggrein, en í vélum án túrbínu er staðsetning við soggrein. Hólkurinn, sem gerður er úr ryðfríu gæðastáli, breytir beinu loftflæði í hvirfilflæði og eykur þannig fyllingargráðu túrbínunnar og bætir blöndun á súrefni og eldsneyti og eykur þannig fullkomnun brunans í vélinni. Þannig eykst snúningsátak/tog vélarinnar, dregur úr útblæstri og eldsneytiseyðsla minnkar." (Heimild, www.hiclone.is). Ég á Pajero Sport 2,5 TDI og var að spá í að setja svona í bílinn, en er þó ekki viss. Veistu hvort þessi hólkur hafi einhver óæskileg áhrif á túrbínuna og vélina þegar til lengri tíma er litið? Ólafur Már

Svar:
Ég hef heyrt af þessu áhaldi. Löng reynsla af alls konar hjálparbúnaði og kraftaverkatækjum sem bílaframleiðendur hafa ekki sýnt neinn áhuga (sem mér finnst alltaf grunsamlegt), hefur gert mig afar varkáran varðandi svona fyrirbrigði - ekki síst vegna skrifa minna um bíla og bíltækni - sem maður reynir að byggja á staðreyndum. Oftast hefur þetta dót reynst vera einskisnýtt. Hins vegar reyni ég að varast fordóma og er þessa stundina að fylgjast með notkun þessa Hiclone-áhalds í bíl eins af kunningjum mínum. Mælist einhver jákvæð áhrif mun ég segja frá því á vefsíðunni minni. Mér finnst ótrúlegt að svona búnaður - af lýsingu að dæma - geti valdið skaða á vél - en er samt ekki fær um að fullyrða neitt um það á þessu stigi málsins.

Spurt: Ég er einlægur aðdáandi síðunar þinnar og finnst þetta meiriháttar framtak hjá
einstaklingi..... enda kem ég reglulega við á henni Þar sem ég einnig ber mikla virðingu fyrir skoðunum þínum á farartækjum vegna óhlutdrægni (finnst mér) að þá ákvað ég að spyrja þig spurninga (álit) um bílakaup sem ég stefni á að framkvæma bráðlega.... Ég ættla að fá mér praktískan fjölskyldubíl á aldrinum 1990 til 1995. Því hljómar spurningin svona: Með hvaða bílum mælir þú með neðangreindum skylirðum og kröfum? Ekki sjálfskiptur. Vélarstærð 1600 til 2000cc. Má vera diesel eða bensín. Má vera station eða sedan. Helst fjórhjóladrifinn en ekki skylirði. Ekki Ford Escort...... :) eyðsla má ekki fara mikið yfir 10 á hundraði. Verð um og yfir 200,000 kr. Umboð með góða þjónustu og gott verð á varahlutum... Mér datt í hug eftirfarandi: Dihatsu Appluse (4x4), Nissan Sunny (4x4) (station) (sedan).

Svar: Það er nú ekki auðvelt að svara þessu svo vel sé - mér sýnist þitt vandamál geta orðið takmarkað framboð af bílum sem uppfylla þessar kröfur. Ég veit að Nissan Sunny er með ódrepandi kram en ryðgar meira en góðu hófi gegnir en varahlutaþjónustan hefur lengi verið sú versta sem þekkist. Mér litist betur á Daihatsu Applause - en ég hef góða reynslu af Daihatsu (átti sjálfur tvo Charade í röð fyrir um 15 árum) - tel reyndar að Daihastu gæðin séu vanmetin - þetta eru vandaðir einfaldir bílar. Eldri Hyundai Sonata eru á mjög hagstæðu verði. Það hefur verið ýmislegt pillerí að þeim bílum en ekkert sem laghentir hafa ekki getað ráðið við - þeir eru að vísu ekki fjórhjóladrifnir en stundum dugar framdrifið.

Spurt: Sæll og blessaður Leó þakka þér fyrir frábærann þátt á Talstöðinni! Þannig er mál með vexti að ég er með Hondu Civic árg. '99 VTi 1.6 og er að gæla við það að fá mér flækjur og aðeins opnara púst. Ég tel mig vita sitthvað um bíla enda bílaáhugamaður með meiru en núna langar mig samt að spyrja því maður er búinn að heyra svo margar útgáfur frá hinum og þessum hvernig eigi að gera þetta með flækjur og púst með hverju þú mælir í þessum
málum? t.d. hvað er hámarkssverleikinn á pústinu og þess háttar. Vill aðeins spá í hlutina áður en ég framkvæmi þá en ekki enda bara með eitthvað pústkerfi sem kostaði kannski 50-60 þús og gefur ekkert annað en eitthvað prumphljóð. Er búinn að setja K&N svepp í hann sem gefur skemmtilegt hljóð í hann, sérstaklega þegar VTEC-ið kemur inn og svo er hann örítið léttari á sér. Hef heyrt góðar sögur af BJB í Hafnarfirði og þeir eru með vörur frá Vibrant Performance sem ég þekki ekki neitt. Spoon hefur hefur verið sett mikið undir Hondu en mér þætti vænt um að fá að heyra þína skoðun á málunum því þú ert eini maðurinn á þessu landi sem hefur alla þá vitneskju sem ég tel mig þurfa til þess að geta farið út í þessar framkvæmdir! Smári.

Svar: Ég reikna með að þú sért með 1600 VTi. Flækjur fyrir þá vél eru 1 1/2" eða 2". Aflaukningin er svipuð (um 20%) en fyrirferðin á 2" flækjunum er meiri og getur skapað vandamál eftir búnaðarstigi bíls. Þú skalt leita til þeirra hjá BJB í Hafnarfirði með málið - ég myndi treysta þeim til að selja þér flækjur og setja þær í þannig að þær endist - því það er ekki sama hvernig gengið er frá flækjunum og tengingu þeirra við útblásturskerfið - þeir eiga að kunna það. Í Bandaríkjunum eru margir Honda-eigendur með flækjur frá Hedman. Þú getur skoðað ýmsar upplýsingar á vefsíðu þeirra www.headman.com

Spurt: Þakka þér fyrir góða síðu, og ekki síður dúndurgóða útvarpsþættí á Talstöðinni. En ég á við lítið vandamál að stríða í frúarbílnum sem er Corolla árgerð 1995. Þegar bíllinn er kaldur er stýrið svo stirt. Lagast bara þegar maður er búinn að snúa í nokkra hringir eftir nokkrar sek.
Í akstri er bíllinn mjög góður í stýri , ekkert dautt slag og bíllinn mjög fínn. Það vantar ekki vökva á vökvastýrið. Gætir þú ímyndað þér hvað gæti verið að? Stefán

Svar: Þakka góð orð um síðu og þátt (reyndar spáðu vanir útvarpsmenn þættinum mínum ekki góðu gengi - því hann væri allt of sérhæfður - en ég held að þeir hafi reiknað með að þetta yrði allt á einhverri tækni-golfrönsku sem enginn skildi). Varðandi stirða stýrið: Af lýsingu þinni að dæma getur þetta ekki stafað af föstum stýrislið - þá yrði stýrið ekki eðlilegt í akstri. Því sýnist mér orsakanna vera að leita í stýrisdælunni. Dælan getur staðið föst köld og reimin slúðrað þar til hún losnar. Í dælunni eru bein- og bakstreymislokar sem geta staðið á sér. Mér kæmi ekki á óvart þótt fljólegasta og ódýrasta lausnin væri að kaupa notaða stýrisdælu á partasölu og skipta.

Spurt: Mér datt í hug áðan þegar ég rakst á þetta bréf í tölvunni að senda þér það svona að gamni. Ég hef ekki séð neina neytendasíðu í Mbl. síðan ég sendi þeim þetta svo ég veit ekki hvort þetta hefur vakið áhuga þeirra. Þú hefur kannski gaman af að sjá hvernig kerfið getur klúðrað einföldum hlutum. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir fínt efni á síðunni þinni og ágætan þátt í Talstöðinni. Konan mín hafði orð á því að þarna væri talað mál sem venjulegt fólk skildi. Í framhaldi af spjallinu um bremsuvökvann, hvað segir þú um silikon bremsuvökva?
Hann á ekki að taka í sig raka og hafa hærra suðumark en hinir. Við höfum notað hann á gömlu bílana því td. bretar ráðleggja það vegna minni hættu á tæringu og ryðskemdum og ekki á að þurfa að skifta honum út eins og þeim venjulega. Það er helst í bílafréttum héðan að Jón Sigursteinsson er að ljúka við XK 120 bílinn og ég get lofað þér því að þarna er toppurinn
á Íslenskum fornbílum kominn og þó við leituðum út fyrir landsteinana. Með bestu kveðju, Fornbílamaður nyrðra.

Svar: Þakka þér góð orð um vefsíðuna og þáttinn. Varðandi þáttinn á Talstöðinni þá spáðu vanir útvarpsmenn ekki vel fyrir honum - þeir töldu að efnið væri alltof sérhæft. Ég var ekki sammála - mér finnst að þetta efni sé ekkert sérhæfðara en þættir um matreiðslu í sjónvarpinu - en það eru 70 þúsund heimili í landinu sem eiga ein bíl eða fleiri og sem ég tel að hafi þörf fyrir svona upplýsingar. Varðandi Silikón-bremsuvökvann þá er DOT 5 einmitt Silikón-vökvi (sérhæfður fyrir ABS - sem vegna verkunarinnar geta hitnað meira en venjulegar bremsur). Ég mun skýra þetta betur í næsta þætti. Ég var nærri því að bíta á þetta agn hjá Umferðarstofu á liðnu hausti þegar ég lagði Thunderbird-bílnum mínum sem ég hef bara á númerum yfir sumarið eins og þú með MGB-bílinn. Ég var svo heppinn að hitta kunningja minn sem vinnur í skoðunarstöðinni í Njarðvík og hann fræddi mig á því að þetta væri ekki til neins gagns og tómt klúður. Ég er sammála þér um að þetta mál er með endemum - og manni finnst sem Umferðarstofu hefði borið að auglýsa að um mistök hefði verið að ræða - en þetta er opinbert - eða hálfopinbert apparat - forstjórinn er gamall útigöngu-sauður frá Bifreiðaskoðun - og því er ekki við neinum myndarskap að búast úr þeirri átt. Neytendasíðu Mbl. hef ég ekki séð nýlega. Það verður gaman að sjá Jaguar Jóns þegar þar að kemur - ég efast ekki um að hann verði meiriháttar. Getur þú ekki komið því til leiðar að fréttamaður Sjónvarpsins á Akureyri taki saman þátt um Jón og bílana hans - og þá ekki sem bílaþátt - heldur sem þátt um menninguna á Akureyri - því þetta er ekkert síðra framtak en Listasafnið í Gilinu.?
Spurt: Sæll Leó og kærar þakkir fyri góða þætti á Talstöðinni. Ég er með eina spurningu. Nýlega keypti ég Subaru Outback árg 2000 ekinn 80.000 km. Stuttu eftir að ég keypti bílinn, tók ég eftir þvi að sjálfskiptingin virkar ekki sem skyldi. Bilunin lýsir sé á eftirfarandi hátt:Stundum, ekki alltaf, þegar ég er búinn að setja í "drive" þá er eins og skiptingin taki ekki við sér. Ég þarf að bíða í smá tíma og jafnvel gefa honum aðeins inn þangað að til að skiptingin svarar með smá rikk. Eins og ég sagði kemur þetta ekki alltaf fyrir en ég veit að þetta á ekki að vera svona. Getur þú ráðlagt mér eitthvað? Jakob.
Svar: Sjálfskiptingin á ekki að vera svona. Ég myndi ráðleggja þér að láta athuga málið á verkstæði. Tvennt getur valdið þessu (vanti ekki vökva á skiptinguna), annars vegar teppt sía á inn/upptakinu sem er í pönnunni eða stirður loki í ventlaboxinu (oft vegna óhreins vökva). Nú veit ég ekki hvar þú ert á landinu en Skipting hf. í Keflavík er sérhæft verkstæði í sjálfskiptingum og jafnframt þjónustuumboð fyrir Subaru - þeir þekkja þetta vandamál og hafa tæki til að endurnýja vökvann og síuna í skiptingunni.

Bréf: Sæll Leó. Alltaf gaman að rekast á skoðannabróðir (varðandi axlirnar á Keflavíkurveginum). Sjálfur ek ég á móti þér daglega og þekki þetta af eigin raun. Sennilega er ég betur settur með sól í bakið. Í fyrstu var ég lukkulegur með axlirnar og taldi þetta hið besta mál. Sjálfsagt hefði það orðið svo væri umferðarmenning betri. Oftar en ekki ek ég um á 82 árgerð af Hilux og kann ljómandi vel við mig á 80-90 km hraða. Var duglegur að hleypa framúr mér ef ég ók undir 90km. En þetta var stressandi aksturlag. Frekja og yfirgangur alls ráðandi.
Nú hafa mál þróast þannig að ég ek um á 90-95 km og held mig á veginum. Ég fékk hundleið á að láta reka mig út af veginum akandi á löglegum hámarks hraða. Þar sem ég er á nokkuð auðþekktum bíl hafa ýmsir gefið sig á tal við mig og haft sínar skoðanir á því hvernig ég á að aka. Starfsmenn varnarliðsins sem að öllu jöfnu eru dagfarsprúðir truflast á slaginu fimm. Ekkert skal standa í vegi þeirra á heimleið. Ég hef gjarnan sagt þeim sem telja vegaxlir öruggar til aksturs á 90-100 km að fara þá sjálfir út á axlirnar og fara þannig framúr mér.
Svo er það spurnig um það hvort að akstur á öxlum teljist ekki vera utanvegar akstur. Hvernig ætli tryggingar taki á óhappi sem gerist á 90-100km hraða á vegöxl ? Sveinbjörn.

Svar: Sem betur fer finnst mér ástandið hafa lagast frá því axlirnar voru fyrst teknar í notkun og hugsanlega einnig eftir að vegurinn var tvöfaldaður á kafla. Vegagerðin gaf loks út þá yfirlýsingu að axlirnar væru ekki vegur og ekki gerðar fyrir akstur (vegamálastjóri í útvarpsviðtali snemma í fyrra - hann gleymdi að minna menn á að axlirnar væru hættulegri í vesturátt en austur vegna ljósastauranna - skyldu ökufantarnir hafa pælt í því?). Slysin sem orðið hafa vegna bíla og tækja sem skilin hafa verið eftir eða eru geymd á öxlunum hafa greinilega haft einhver áhrif - þó ekki á mestu ruddamennin - þau læra aldrei neitt - og munu áfram opinbera sjúkdómseinkenni sín með aksturslagi í stað þess að fá róandi töflur, Prosac eða aðstoð geðlæknis.

Spurt: Sæl Leó og takk fyrir greinina um ryðvörn íslenskra bíla sem ég rakst á við netflakk. Erindi mitt tengist þessu: ég er að flytja inn bíl frá Bandaríkjunum, Audi A4 nánar tiltekið, og mér var sagt að langbest væri að ryðverja hann hér heima. Nú er ég efins, hefur ryðvörn á undirvagn engin önnur áhrif en að vera grjóthlíf? Ég bý á Ísafirði og þarf því að böðlast dálítið á malarvegum þegar ég leita í aðra landshluta og langar því að bera þetta undir þig: get ég sleppt því algerlega að láta smyrja einhverju á bílinn? Svavar.

Svar: Ég get bara svarað fyrir mig - ég myndi ekki láta sprauta neinni kvoðu á undirvagninn/botninn - hún er að mínu mati líklegri til að valda skemmdum en grjótkastið. Ég myndi í mesta lagi setja grjótvörn á þá hluta sem greinilega verða fyrir grjótkasti en ekki annars staðar. Hins vegar er ástæða til að ítreka að ég hef ekkert á móti ryðvörn þar sem hennar er þörf, eins og t.d. þegar um er að ræða eldri bíl, m.a. eftir endurbyggingu. Að mínu áliti er engin þörf fyrir aukaryðvörn þegar nýjir bílar eiga hlut að máli.

Spurt: Sæll Leó og þakka þér áratuga óeigingjarnt starf í þágu almúgans. Málið er að í Lincolninum hjá mér er 3,8 Ford V6 vél. Fyrir uþb 6 árum fór heddpakning í bílnum og fékk ég þá að utan slípisett frá Ford með nýjum pakkningum og heddboltum og hefur vélin gengið án vandræða síðan. Svo gerðist það að ég lánaði bílinn kunningja mínum, sem rak hann niður á ósléttum sumarbústaðarvegi, reif vatnshosu og missti allt vatn af vélinni en tók ekki eftir því þar til að bíllinn var við það að drepa á sér vegna hita. Ég fór í dag að kanna með vélina, setti á hana vatn og setti í gang, en hún gekk illa, bankaði og ældi vatninu af sér á uþb 1 mínútu. Þá lagaðist gangurinn en vélin bankar samt. Ætli mótorinn sé úrbræddur, eða ætli bankið sé tilkomið af skemmdum undirlyftum eftir hitann? Eða heddin komin í döðlur? Alli.

Svar: Af lýsingu þinni að dæma finnst mér sennilegast að heddpakkning hafi gefið sig (eða sprunga myndast í heddi), vatn hafi komist inn á sílindra og það skýri hvers vegna vélin ,,ældi" vatninu fyrstu mínútuna. Það skyldi ekki koma á óvart þótt stangarlega hafi slegið úr - og að það skýri bankið.

Bréf: Takk fyrir frábæran útvarpsþátt. Ég er bólstrari. Það koma oft til mín bilstjórar með illa farin bílsæti, svampur jafnvel horfinn að hluta og allt tætt. Bílstjórar gera sér oft ekki grein fyrir því að þeir eru með verk í baki, herðum,mjöðmum og svo framvegis. Slæm og illa farin bílsæti geta leitt til þess að menn fái slæma gigt hér og þar. Bílstjórar ættu að fylgast betur með því að um leið og sæti er orðið of mjúkt í köntum og farið að bælast (svampur rýrnar með aldri/notkun) ættu þeir að láta athuga það því þá er kosnaður tiltölulega lítill ef áklæði er ekki farið að rifna. Við hjá H.S Bólstrun höfum sérhæft okkur í þessum viðgerðum og gerum við mikið af sætum fyrir atvinnubílstjóra og ýms bílaumboð. Við getum formað sætið eftir óskum viðskiptavina, einnig sett í sætin loftfylltan mjóhryggspúða. Við veitum fljóta og góða þjónusu. Viðkomandi getur fengið tíma sem honum hentar, oft samdægurs eða komið seinnipart dags og fengið sætið að morgni næsta dags, jafnvel um helgar. Við höfum góðar myndir á heimasíðu okkar af ýmsum viðgerðum, þar sést viðgerð fyrir og eftir (www.bolstrun/hs). Til umhugsunar fyrri atvinnubílstjóra: Gott bílsæti Þarf að veita þægilegan stuðnig við mjóbakið og vera vel formað útí hliðarnar einnig að velta megi setunni svo hægt sé að breyta afstöðunni milli lærleggja og hryggjar til að létta bæði á fótum og baki. Góður aðbúnaður á vinnustað þarf ekki að vera ávísun á aukin útgjöld. Vandað gott bílsæti getur endast áratugi ef því er vel við haldið. Skipulögð heilsuvernd og góður aðbúnaður bætir líðan starfsmanna, dregur úr fjarvistum og ber vitni um góðan rekstur. Fyrirspurn Hvað er þessi þáttur oft í viku? og hvenær er hann endurtekin? Ég reyni alltaf að hlusta. H.S Bólstrun ehf. www.bolstrun.is/hs
Hafsteinn Sigurbjarnason 892-1284

Svar: Sæll vertu Hafsteinn. Þakka þér fyrir góða ábendingu. Ég mun notfæra mér hana í einhverjum af næstu þáttum enda þörf - ekki bara fyrir atvinnubílstjóra - það er fjöldi manns að fara illa með sig vegna lélegra og skemmdra sæta - eins og þú segir. Ég hef sjálfur notfært mér þjónustu bólstrara til að laga stóla í bílum sem ég hef átt og/eða gert upp. Þátturinn er einu sinni í viku, á laugardögum, 9-10 og endurfluttur að kvöldi sama dags 19-20 og svo aftur um nóttina 03-04. Pistillinn sem fluttur er í hverjum þætti er birtur á vefsíðunni minni.

Spurt: Ég er með Mözdu 323 4x4 árgerð 93. Bíllin er 4x4 með 1600 vél. vandamálið er að þegar vélin er orðin heit þá gefur hann stundum inn sjálfur. Pétur

Svar: Nokkrar ástæður koma til greina. Súrefnisskynjari í pústinu getur verið bilaður. Loftflæðisskynjari í inntaki að lofthreinsara getur verið bilaður. Vanti vökva á kælikerfið getur vatnshitaskynjari truflast og valdið svona inngjöf. Stundum getur sogleki átt þátt í svona tiktúrum: Skoðaðu grönnu slöngurnar sem tengjast soggreininni - einhver þeirra kann að vera lek, skemmd eða laus.

Spurt: Ég þakka fyrir skrifin um loftpressur á Vefsíðu Leós (Tæknimál). Ég er listamaður og þarf á sprautu að halda við það verk sem ég er að vinna að. þú skrifar um Geo hvlp-sprautukönnu - spurning mín væri, er hægt að nálgast þessar sprautukönnur hér á íslandi? Kristleifur

Svar: Mig minnir að fyrirtækið Íslakk ehf í Kópavogi eða Ístækni í Árbænum hafi selt þessar Geo-sprautur. Þeir eru a.m.k. bæði með mjög vandaðar sprautur. Ráðlegg þér að hafa samband við þá.


Spurt: Ég var að velta fyrir mér smáræði sem hefur farið í taugarnar á mér síðustu
ár, vegna þessa að ég veit ekki svarið. En hver er t.d. munurinn á 2000cc vél sem er 120hö og GTi 2000cc vél sem er 150hö ......? Sama vélarstærð en ....? Sem dæmi: Nissan Primera SLX 2.0 124 hö og Nissan Sunny GTi 2.0 148 hö td .... En það eru til mörg fleiri dæmi um þetta.....
Guðmundur FS.

Svar: GTi var yfirleitt með ofanáliggjandi kambás, hærra þjöppunarhlutfall og eyðslufrekari eldsneytisstýringu.

Spurt: Ég er einn af þeim fjölmörgu sem íhuga að flytja inn amerískan pallbíl. Er bæði að skoða Ford F250/350 og Chverolet 2500/3500. Árgerð 2003-2004 Ég er að velta fyrir mér hvort það sé til einhverstaðar samanburður á þessum bílum. Eyðsla, bilanatíðni o.fl. Einnig er spurning hvort maður eigi að taka benzín eða díeselvélar í ljósi nýrra laga um olíugjald. Er tilvonandi bóndi og vantar duglegan bíl til að draga hestakerrur, en einnig góðan keyrslubíl. Veistu hvar er best að nálagst upplýsingar um þessa bíla, vélarnar í þeim eða hefur þú áforma að skoða þá
eitthvað. Sigurður Þór.

Svar: Ég tel að það sé engin spurning að þú þarft dísilbíl. Þú getur lesið allt um nýju dísilvélarnar í grein eftir mig á vefsíðu IB á Selfossi www.ib.is Ég var búinn að reynsluaka Ford F250 Diesel í Bandaríkjunum - sú grein er inni á vefsíðunni minni www.leoemm.com undir BÍLAPRÓFANIR - frekari prófanir eru ekki fyrirhugaðar (ég nenni þessu ekki lengur). Helsti munurinn á GM og Ford pallbílum er sá að GM er meiri fólksbíll en Ford er meiri vinnubíll/trukkur.

Spurt aftur: Takk fyrir góð svör. Ég var einmitt að lesa greinina um F250, hún er mjög góð. Reyni að fylgjast með vefnum þínum. Sumir segja mér að það sé miklu dýrara að halda díselbílnum við, spíssar sérsaklega dýrir og díselvélin þyngri og því meira slit í fóðringum og fjöðrunarbúnaði að framan í slíkum bílum, eru þetta þjóðsögur? Svo sé eyðslan svipuð á benzín og díesel og olín verði jafn dýr. Bara vangaveltur Takk aftur.

Svar aftur: Við álag , t.d. í drætti og akstri á verri vegum, er eyðsla bensínbílsins tvöföld eyðsla dísilbílsins. Sé pallbíll notaður sem fólksbíll er eyðslan svipuð hvort sem um bensín eða dísil er að ræða. Þjóðsögur um viðhaldskostnaðinn eru ekki marktækar (,,Þeir segja mest af Ólafi konungi sem hvorki hafa heyrt hann né séð").

Spurt: Mig langaði að athuga hvort þú vissir um einhverjar netsíður um Galloper jeppana. Ég finn frekar lítið sjálfur en mig hefur langað að finna kannski dóma eða viðgerðartips. Ég er mjög ánægður með þennan 2001 2.5 TDI Galloper, hann er þó greinilega úr ódýrari málmum en ég hugsa vel um hann og þá helst hann fínn. Hvað finnst þér um þá sjálfum? Guðmundur.

Svar: Það eru nokrar vefsíður skráðar fyrir leitarstrenginn <Korean Galloper> (Google eða Yahoo). Þetta er í stórum dráttum MMC Pajero af 2. kynslóð (muni ég rétt). Ég hef ekkert pælt í þessum jeppum og ekkert fjallað um þá - sjálfur átti ég (í 2 ár) nýjan 7 manna Pajero Turbo Diesel sjálfskiptan með öllu (m.a. með fjaðrandi bílstjórastól og 2 sjálfstæðum miðstöðvum) af árgerð 1995 - en það er langbesti ferðabíll sem ég hef notað hér innanlands.

Spurt: Ég sá á vefsíðu þinni þar sem þú fjallar um Citroenbíla að þú hafir ekki verið ánægður með XM bílinn. Þar er ég alveg á öndverðri skoðun. Ég hef átt Citroen síðan 1971, byrjaði með Ami 8, síðan GS '74, þá DS Pallas, sem ég á enn, einstakur vagn, þá BX '87 og síðan XM '91 sem ég átti til '97. Aldrei hef ég verið eins stoltur af bílnum mínum og ánægður á ferðalögum eins og þegar ég ók Citroen XM. Bíllinn er þvílíkt vegaskip að erfit er að finna rétt orð sem hæfa. Þetta er mín skoðun og reynsla. Ég vil svo þakka þér fyrir frábæra umfjöllun um þessa einstæðu bíla sem Citroen er. Guðmundur H. Guðjónsson.

Svar: Menn upplifa bíla á mismunandi hátt. Það er ef til vill full sterkt til orða tekið að ég hafi ekki verið ánægður með XM - sem slíkan - það sem ég var að reyna að koma orðum að var að eftir að hafa átt DS-bílana fannst mér CX í fyrstu vera afturför (þar til ég vandist honum - en ég átti m.a. CX Prestige) og síðan XM aftrför miðað við CX. Málið er auðvitað að þessir bílar þróuðust einfaldlega í samræmi við breyttar kröfur (meiri hraða - þéttari umferð o.s.frv) - og ég gat þess einmitt í einum af í vikulegum bílaþáttum mínum á Talstöðinni. En ég er sammála þér að þetta voru (og eru) frábærir bílar.

Spurt: Komdu sæll Leó. Ég á Skoda Oktavia 4x4 2003 módel sem ég keypti í haust. Sölumaðurinn hjá Heklu þar sem ég keypti bílinn, sagði að vélin væri smurð með langtíma olíu og það mætti líða 8000 til 12000 km á milli olíuskipta. Þar sem ég bý úti á landi er ekki hlaupið að því að fá þessa langtíma olíu, svo að ég notaði Mobil 1 í næstu olíuskiptum. Ég er vanur að skipta um olíu á 6000 km fresti. Skemmi ég vélina á því að nota ekki langtíma olíu? Vignir

Svar: Þetta langtímaolíu-fyrirbæri er einungis til að hafa af þér peninga og það eru meiri líkur á að þú skemmir vélina með því að nota slíka olíu 8-12 þús. km. (sé hún á annað borð til) heldur en að nota Mobil 1 og skipta á 6000 km fresti. Þér er óhætt að nota ódýrari olíu, t.d. Comma Eurolite 10w40 (Bílanaust) ef þú skiptir á 6 þús. km. fresti um olíu og síu.

Spurt: Sæll Leó. Mikið hef ég saknað þinna skrifa,frá því að BÍLLINN hætti að koma út. Ég hef fylgst í nokkur á með heimasíðunni þinni og þótt það betra en ekki. Þegar ég heyrði að þú ætlaðir að vera með þátt á TALSTÖÐINNI stundi ég sáran út af því að ná ekki útsendingum stöðvarinnar. Þegar ég svo sá þættina á heimasíðunni fagnaði ég og las með ánægju það sem komið er. Mér datt í hug að senda þér klausu sem ég held að gæti átt erindi til margra og varðar nauðsyn þess að sýna aðgát og loka götum og stútum þegar unnið er að viðgerðum,gallar geta komið fram löngu síðar. Bílinn á myndinni keypti ég árið 2001 þá ekinn 300 000 km.Ég hef síðan ekið bílnum um 55 000 km. Bíllinn var í mjög góðu standi, verið oft notaður við erfiðar aðstæður en haft gott viðhald. Smurolíueyðsla var um. þ.bil á milli merkja á kvarða á 4500-5000 km , ca. 1- 1,5l. Ég hefði fullyrt aðspurður að vélin væri í topplagi þegar allt í einu kom hnykkur á bílinn á ca.60km. hraða og síðan var eins og bíllinn gengi ekki á öllum. Þegar ég reyndi að starta aftur stóð allt fast..Ég fékk bílinn dreginn heim í skúr þar sem ég tók af honum heddið og sá að fremsti stimpill var í brotum og stimpilboltinn búinn að rífa sig í gegn út í vatnsgang. Allt var þetta atað í smuroliu en ég tók handfylli af musli, setti í dall og þreif það. Eins og sést á myndunum gátu flest brotin verið frá TOYOTA ( HINO)? en eitt skar sig úr og ég efast um að áðurnefndir framleiðendur hafi það á sínum skrám. Þetta var nokkurra sentimetra girðisbútur eins og töluvert hefur verið notað til festinga á Intercoolerum og lögnum frá þeim. Við athugun á soggrein kom í ljós að hún var talsvert nudduð að innan,mest fremst og loks hefur járnið náð beygjunni inn á fremsta sogventil,beygt hann og það líklega brotið stimpilinn, síðan hefur jánið komist alla leið inn og krumpast
saman. Þar sem ég hafði aldrei rofið loftrásina til annars en skipta um loftsíu ( og ekki fer járnið gegn um túrbínuna) hlýtur járnið að hafa verið þarna langan tíma, og líklegast finnst mer að það hafi komist í soggreinina( kannske verið að klippa niður í allt annan bíl og endi þeytst út í loftið og ekki fundist) þegar Intercooler og lagnir voru settar í fyrir að m.k 6-8 árum. Þetta sýnir að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Birgir Ingólfsson.

Svar: Þakka þér fyrir áhugavert bréf. Ég mun hafa efni þess á bak við eyrað og nota, með þínu leyfi, gefist tilefni til - sem verður áreiðanlega fyrr eða síðar. Eins og þú segir gæti skýringin á þessu hafa verið óhapp - að vírbúturinn hafi skotist á ,,sinn stað" án þess að menn hafi tekið eftir því. Einu verra tilfelli man ég eftir - sem ég kom að sjálfur á löngum ferli sem ráðgjafi en þá var komið með bíl sem hafði verið lengi til vandræða vegna yfirhitunar (mikill höfuðverkur og margt verið reynt) og endaði með að bræða úr sér. Skýringin var sú að einhver ,,snillingur" sem hafði skipt um heddpakkningu, en þetta var V6-vél, hafði breidd pappírsklút yfir undirlyftubekkina á blokkinni til varnar óhreinindum, en gleymt að fjarlægja hann þegar milliheddið var sett á (hvernig sem það var nú hægt?). Undirlyfturnar náðu síðan að naga pappírsklútinn þar til pappírsmassinn hafði stíflað upptökusíu olíudælunnar og smurrásir. Eðlilega datt engum í hug að taka milliheddið af og því síður pönnuna undan vélinni enda ekki hægt nema losa vélina á púðunum og tjakka uupp í húddinu. Því fór sem fór.

Spurt: Sæll Leó. Keypti nýverið Sierra Pickup sem hefur verið að stríða mér, kom með villumeldingu í mælaborðið "water in fuel" og fór að drepa á sér. Ég hef gert erftirfarandi til að vinna bug á vandanum: Skipt um hráolíusíu (2svar).Sett ísvara út í hráolíuna (ítrekað) Þá er jafnframt búið að ráðleggja mér að setja tvígengisolíu út í hráolíuna, hef ekki gert það. Hef tekið eftir því að hann drepur frekar á sér þegar frost er úti, bíð í smá stund og get svo startað honum aftur. Er fyrir norðan og hef farið með hann á verkstæði en hér hafa menn afar takmarkaða þekkingu á USA bílum þannig að það skilaði engu (þeir settu hann í tölvu og lásu út af honum og sögðu að allt væri í lagi en samt hélt ljósið áfram að koma og bíllinn á það ennþá til að drepa á sér). Veistu hvað ég get gert? Ingvi Stefánsson.

Svar: Í fyrsta lagi skaltu ekki undir neinum kringumstæðum setja ísvara á geyminn sem gerður er fyrir bensínvélar, þ.e. þessi venjulegi ísvari sem innheldur ísóprópanól. Hann veldur skemmdum á eldsneytisbúnaði dísilvéla. Í öðru lagi skaltu alls ekki setja tvígengisolíu saman við dísilolíuna - það gerir ekkert nema ógagn í þessum bíl. Böndin berast að geyminum sem þú hefur fengið dísilolíu úr - sú olía er líklegast vatnsmenguð af einhverjum ástæðum. Prófaðu að skipta við aðra bensínstöð og blandaðu 10-15 lítrum af steinolíu út í fullan tank. Þú getur fengið sérstakt efni í Bílanausti sem á að eyða raka úr dísilolíu - það er sérstaklega tekið fram á umbúðunum að það sé fyrir dísilvélar (ekki venjulegur ísvari). Settu lítið magn af því efni út í tankinn - yfirleitt nægir 100 ml. Í síuhúsinu (sem fest er á soggreinina) er hólf sem vatn á að safnast fyrir í. Þú hefur væntanlega tæmt það. Í grindinni undir bílstjórastólnum er rafknúin fæðidæla. Það hefur komið fyrir að hún hafi bilað, standi á sér, og getur það lýst sér í svona truflunum, m.a. með því að ,,vatnsljósið" blikki. Á hinn bóginn myndi ég gera ráð fyrir því að um annars konar bilun geti verið að ræða og það sé bara tilviljun að hún komi upp um leið og vatn hefur safnast fyrir í kerfinu. Sú bilun er í svarta boxinu sem er á soggreininni (Injector driver). Þegar sá búnaður klikkar lýsir það sér m.a. á þennan hátt, vélin drepur á sér í tíma og ótíma og með höppum og glöppum hvort hún næst aftur í gang fyrr en hún hefur náð að kólna. Þú getur lesið um þá bilun á vefsíðunni minni (tæknimál - 6.5 lítra GM diesel). Sýnist þér að það sé vandinn í þínu tilviki geturðu fengið þennan búnað endurbættan hjá Vélalandi og látið setja hann í fyrir norðan.

Framhald málsins: Vildi þakka þér fyrir svarið, var settur FSD cooler í bílinn og hann gengur eins og klukka núna. Frábært að fá þessar upplýsingar hjá þér, var búinn að spyrjast fyrir víða og var aldrei bent á þetta. Veistu hvernig þessi búnaður hefur verið að koma út, er ekki hætta á þvi að þetta sé einungis frestun á því að skipta um olíuverkið? Enn og aftur takk kærlega fyrir upplýsingarnar. Ef þú hefur áhuga á því að vita það þá athugaði ég verð bæði hjá Vélalandi og IB en gat keypt hlutinn sjálfur á Netinu þannig að hann kostaði mig miklu minna.

Framhaldssvar: Þakka þér fyrir upplýsingarnar - ég hef stundum sagt að það sé ekkert sem komi í stað þekkingar og reynslu - ég lærði dísilstillingar á sínum tíma, vann við það um tíma en hef síðan verið ráðgjafi verkstæða á þessu sviði og öðrum tengdum í áratugi - og átti m.a. ákveðinn þátt í hönnun þessa sænska BETA-búnaðar. Miklu máli skiptir að FSD-kælirinn sé settur í á réttan hátt - með leiðandi feiti og tryggilega fest þannig að kælileiðni sé fullvirk og ekki hætta á að tæring geti rýrt leiðnina með tímanum (virkar eins og ,,heat-sink"). Í þessum kerfum þar sem eldsneytið er jafnframt kælimiðill fyrir olíuverkið ræðst ending olíuverksins að einhverju leyti af því hve mikið bílnum er ekið með minni en hálfan eldsneytisgeymi og við hvers konar aðstæður/álag. Þess eru dæmi að allt þetta dót hafi eyðilagst á hálftíma sem bíll hefur verið að brjótast í ófærð með 15 lítra í geyminum. Bæði hjá Vélalandi og IB er mönnum kunnugt um að hægt sé að panta þetta á Netinu fyrir mun minni pening - en það er varla von að þeir lækki verðið á meðan eftirspurnin er til staðar (engum er bannað að kaupa þetta á Netinu enda ber hann þá sjálfur ábyrgð á að búnaðurinn sé ógallaður).

Spurt: Ég lét setja sumardekkin undir bílinn hjá mér um daginn. En nú hef ég orðið var við titring í stýrinu þegar ég bremsa. Dekkin voru ekki jafnvægisstillt þegar þau voru sett undir. Gæti það verið orsökin? Eða að felgurnar séu skítugar að innan? BNB.

Svar: Ef þú finnur einungis titring í stýrinu þegar þú bremsar en ekki á ferð bendir það til að felgurnar sitji ekki rétt - hafi verið hertar um of og/eða hertar rangt og herslan hafi skekkt bremsudisk. Á sumum bílum, sérstaklega með 4 felgurær/bolta, getur þurft að skrúfa 2 rær sikk sakk til skiptis - og slá í felguna um leið, til að felgan sitji rétt á keilulaga (kónískri) stýringu rónna/boltanna. Önnur hugsanleg skýring er sú að önnur hvor eða báðar felgurnar hafi áður verið undir að aftan og þarfnist ballanseringar.

Spurt: Heldur þú að það sé gerlegt að setja loft inn á depara, sem notasta með öðrum venjulegum depurum, bara rétt til að geta stýrt hleðslu bíls, eða veghæð. Þá langar mig að bora neðarlega í einhverja heppilega vökvadepara, snitta fyrir grannri slögu og geta síðan strýrt hæð hans með þrýstilofti, kannski full flókið...? Sigurður.

Svar: Líst illa á hugmyndina. Hvers vegna ekki að kaupa frekar sérstaka dempara sem hægt er að dæla í glussa - eins og ,,chikanos" nota til að láta bílana hoppa, halla og steypa stömpum á rúntinum í Los Angeles. Þú getur látið panta þá fyrir þig hjá IB á Selfossi ef svokallaðir ,,Load levellers" eru ekki til í Bílanausti?

Spurt: Hæ Leó ....... flott síða hjá þér .....segðu mér ég á Trooper 99 sem vélin hrundi í .......og ég hef ég verið að leita að nýrri á vefnum og hér heima, en það virðist að lítið sé um svona vélar á lausu. Hvar gæti maður grafið svona grip? 3.0td 4cyl ....sumir segja að þetta séu vandræða gripir en aðrir segja að þær séu fínar, gæti verið að einhver önnur vél passaði í þetta án stórvægilegra breytinga? Gunnar.

Svar: Í flestum tilvikum þegar Trooper-dísilvél hefur ,,hrunið" - oft vegna þess að hún nær að ganga á smurolíunni - má rekja orsökina til ófullnægjandi viðhalds/umhirðu/eftirlits, ef ekki trassaskapar. Þessir bílar eru ekki algengir í Evrópu og sjaldséðir í USA með dísilvél. Það er einna helst að Trooper með þessari 3ja lítra vél sé til í Bretlandi og Ástralíu - en þeir eru þó ekki margir. Ég myndi reyna að leita á Vefnum með breskum leitarstreng þ.e. co.uk. Prófaðu t.d. http://www.Isuzu.co.uk og http://www.isuzu.au og svo áfram út frá þeim. Það er eflaust hægt að mixa einhverja aðra vél í þennan bíl en það er ekkert einfalt mál lengur vegna rafeindabúnaðar/mengunarkrafna. (Ástæða er til að taka það fram að vandræðin hafa fyrst og fremst verið í sambandi við 3ja lítra dísilvélina í Trooper - eldri 3.1 lítra dísilvélin hefur hins vegar enst mjög vel).

Spurt: Sæll Leó er að spá í að kaupa gamlan Nissan Terrano II árg 97 disel ekin 165.000 km er eitthvað sérstakt sem að maður ætti að skoða? Konráð.

Svar: Sé vélin 2,7 lítrar myndi ég hugsa minn gang. Það hafa verið alls konar vandræði með þessar vélar, þær hafa hreinlega hrunið af, að því virðist, minniháttar tilefni (400 hundruð þúsund króna dæmi). 3ja lítra dísilvélin í Terrano II er með grófari lausagang en hefur verið OK. Bæði Pajero og Musso hafa komið betur út en Terrano II 2.7 Td í sambandi við vélbúnað. Varðandi Terrano II með 2,7 túrbódísil skiptir mjög miklu máli að viðhaldsþjónustan hafi verið framkvæmd samkvæmt tilmælum framleiðanda - slíkir bílar eru yfirleitt ekki til neinna vandræða - fylgi ekki gild (stimpluð) þjónustubók Terrano II 2,7 túrbódísil, eða hún sögð týnd, myndi ég ekki kaupa bílinn.

Spurt: Við, hjónakornin, erum að kaupa okkur hjólhýsi í fyrsta sinn. Það hefur eigin vigt 1.050 kg og við eigum Toyota Corolla Wagon (árg.2003) sjálfskiptan, 110 hestöfl - og erum að velta fyrir okkur hvort ekki sé örugglega í lagi að láta hann draga hjólhýsið eða hvort vissara sé að setja einhvern kælibúnað á sjálfskiptinguna. Skv. skoðunarvottorði á bíllinn að geta dregið 1.300 kíló. En þar sem hugmyndið er að ferðast út og suður um landið með hjólhýsið í eftirdragi og Ísland ekki beinlínis flatt, þá veltum við þessu mikið fyrir okkur, því vitanlega munum við þurfa að fara upp og niður brekkur. Og svo er líka að veltast fyrir okkur hvort nauðsynlegt sé að kaupa öflugri (Toyota) bíl til að vera örugg með að skemma ekki gírkassann. Fínn þátturinn þinn, ég sem er 66 ára gömul kerling, hlusta oft á hann og finnst það skemmtilegt. Ég var nefnilega með bíladellu á yngri dögum og gekk með það í maganum að verða bifvélavirki því mér fannst gaman að vasast í bílaviðgerðum - en slíkt nám var ekki fyrir kvenfólk á þeim tíma - foreldrar mínir drifu mig í Versló í staðinn;takk fyrir einkar fróðlega þætti og fjölbreytta og fína vefsíðu. Guðrún

Svar: Varðandi hjólhýsið og Corolla þá ætti bíllinn að ráða við dráttinn sé ekið með lægni og passað upp á að sjálfskiptingin sé ekki í efsta gír (nota hnappinn á stönginni). RAV4-bíllinn, svo ég taki dæmi af jepplingi, er ekkert öflugri í þessu tilliti en Corolla station (þeir eru byggðir á sama eða svipuðum undirvagni). Hafðu í huga að talsverð hætta fylgir því að draga 1000 kg á mismunandi góðum vegum - ekki vegna brattans endilega heldur vegna sviptivinda, sérstaklega á fjallvegum. Bíll sem vegur ekki nema rúm 1000 kg óhlaðinn getur verið mjög varasamur með annan eins þunga í eftirdragi, sérstaklega komi slinkur á vagn t.d. vegna sviptivinds. Af þessu hafa orðið alvarleg slys á þyngri bílum en Corolla - venjulegir 1600 kg jepplingar eru t.d. varasamir með 1000 kg í eftirdragi. 1800 - 2000+ kg bíll er öruggari. En að sjálfsögðu fer þetta allt eftir varkárni og heilbrigðri skynsemi - en hættan er fyrir hendi.

Bréf: Komdu sæll Leó og þakka þér fyrir þáttin þinn á Talstöðinni - og ekki síður heimasíðuna. Þegar þú varst áðan að ræða við manninn frá Bílanaust, þám um hinar mörgu varahlutaverslanir sem opnar voru í Reykjavík fyrrum, flaug mér í hug að skrifa þér. Ég hef allt frá því að ég man eftir mér (f. 1936) haft heilmikla bíladellu og þá ekki síst dellu fyrir gömlum bílum. Þegar ég bjó í Reykjavík fyrir 1965, eignaðist ég minn fyrsta bíl. Það var FORD A, 1932 eða '33, fjögurra sýlindra (borunin að mig minnir 3 7/8 " eða 4" ! ). "Krabbakveikja" svokölluð og sveif fylgdi svo að snúa mátti hann í gang. 6 volta rafkerfi. Tveggja dyra var hann bíllinn og með hægri handar stýri. Var á 17" teinafelgum fyrrum , en svo hættu þau dekk að fást og þá voru settar undir hann 16" Ford felgur og Rússajeppadekk! (Sjá mefðf. mynd af Grána - eins og hann var alltaf kallaður. Ég á einhversstaða betri myndir af honum, en fann þær ekki í svipinn). Eins og nærri má geta var Gráni með teinabremsur og undir honum voru 22 smurkoppar! Þverfjaðrirog demparar með örmum. Ég eignaðist bílinn árið 1963. Keypti hann af móðurbróður mínumn , Guðmundi Björnssyni veggfóðrara, sem þá orðið bjó í Kópavogi. Á meðan Guðmundur bjó í Reykjavík, var á bílnum númerið R 499 en er í Kópavoginn kom fékk hann númerið Y41. Ári áður en ég flutti hingað austur á Selfoss (Ég flutti 1965), tók ég með aðstoð þáverandi svila míns Guðna G. Albertssonar "altmuligmanns" upp mótorinn í Grána. Hann var orðinn svo óþéttur að hann hafði það varla upp Kambana. Ég fór með blokkina í Kistufell, þar sem hún var boruð út og settar í hana slívar. Síðan var farið til Egils Vilhjálmssonar þar sem gengið var frá vélinni, settir í hana nýjir stimplar og bræddur hvítmálmur í höfuð- og stangalegurnar og gengið frá að öðru leyti. Þvílík breyting sem varð á bílnum! Og nú kem ég að því sem upp kom í hugann þegar ég hlustaði á þáttin þinn áðan. Ég keypti nefnilega slífarnar og stimplana í varahlutaverslun Þorbergs við Hverfisgötuna. Ég man ekki hvað verslunin hét fullum stöfum. En ekki mátti ég koma seinna, því að það var alveg sérstakt að þarna skyldu vera til fjórir stimplar og fjórar slívar sem pössuðu í svona gamlan Ford A. Merkilegt er að ég var bara þriðji eigandi Grána frá því hann kom til landsins, fluttur inn notaður frá Bretlandi 1935. Ingibergur í Blikksmiðjunni Gretti átti hann fyrst og af honum keypti Guðmundur hann. (Guðmundur átti á undan - að mig minnir - bíl af tegundinni ERSKIN. Geturðu sagt mér eitthvað um þá tegund?). Gráni setti mjög ofan við flutninginn austur á Selfoss. Leit þó alltaf nokkuð vel út og síðast þegar ég málaði hann notaði ég meira en kíló af P38 ! Trégrindin í boddýinu var að verða að fúasalla. Hurðirnar voru stórar, á þremur lömum hvor og oft erfiðar viðfangs. Ingibergur hafði sett aftan á bílinn farangurskassa og sett varahjólið í frambrettið vinstra megin.Einu sinni fór í honum drifið. Þá fórum við Guðni upp að Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi og fengum að hirða þar afturöxul með öllu, sem lá þar úti í túnfæti ásamt ógrynnum að gömlum bílum og bílahlutum. Við rifum þarna öxulinn upp úr grasinu, fluttum heim og settum innvolsið í grána. Öxull þessi var undan 1929 eða '30 módelinu. Margar sögur tengjast Grána eins og nærri má geta. Ég seldi bílinn 1976, manni sem hét Halldór Guðmundsson og vann í Landsbankaútibúi að Laugavegi 77. Ég hef ekki heyrt frá honum síðan, en fyrir ca ári frétti ég að NÚNA (!) væri verið að byrja að gera Grána upp. Þakka þér aftur fyrir þáttinn þinn og síðuna Leó. Kveðja, Ólafur Th Ólafsson,


Svar: Sæll Ólafur og þakka þér skemmtileg skrif - ég mun birta þau á vefsíðunni minni í Brotajárni nr. 12 - hafi þú ekkert á móti því. Það væri einnig gaman að lesa um þína mótorhjólasögu. Það er lítill heimurinn: Ingibergur Elíasson (oft kenndur við Gretti) var einmitt í viðtali á laugardaginn fyrir viku - en þá ræddum við um kennslumálin í BHS (bílgreinadeildinni) þar sem hann er núna kennslustjóri. Varahlutaverslun Þorbergs - sem eiginkona hans hélt áfram með eftir lát hans (á horni Nóatúns og Laugavegar og seinna innlimuð (með konunni) í H.Jónsson) nefndist ,,Bílabúðin Hf. Þorbergur P. Sigurjónsson". Ég man vel eftir karlinum - hann bjargaði mér nokkrum sinnum þegar ég var sem stráklingur að brölta með Dodge Weapon - þetta var merkilegur karl og af honum er talsverð saga sem á eftir að koma á prent. Erskine var framleiddur af Studebaker og bar fornafnn eins af aðalstjórnendum Studebaker Motor Co. í South Bend í Indiana.

Spurt: Ég á Nissan Doublecab jeppa með driflokum handstýrðum driflokum á framhjólunum. Er ekki í góðu lagi að keyra með lokunar á þótt keyrt sé í afturdrifi. 'Á þessum umhleypingartímum í veðráttu nennir maður ekki alltaf að setja þær á hluta úr degi og taka þær af seinnipartinn, heldur notar bara gírstöngina til þess að skipta frá 2wd í 4wd. Magni.

Svar: Það er ekki gert ráð fyrir að það valdi skemmdum að hafa lokurnar á þegar ekið er í afturdrifi. Það er hins vegar líklegra til að valda skemmdum sé framdrifið tengt án þess að læsa lokunum. Í sumum framdrifum, t.d. Dana 35 (Ford) hefur það valdið óverulegu sliti á rilluskífum í hjólnöfum að aka í afturdrifi með lokur læstar að framan. Það eina sem gerist í þínu tilviki er að eyðslan verður aðeins meiri.

Spurt: Ég á frekar gamlan bíl sem er kominn til ára sinna. Nú er eitt og annað farið að bila í honum og eins er farið að sjá á lakkinu. Því hef ég nokkrar spurningar fyrir þig. 1. Flautan er biluð og er ég 98% viss um að um sambandsleysi er um að ræða. Vandinn er ekki í stýrinu. Hvað gæti verið að? 2. Rúðupissið er bilað (á framrúðuna). Aftur á móti er í lagi með rúðupissið á afturrúðuna. Hvað gæti verið að? 3. Hver er besta leiðin til að fylla upp í rispur á bílum? T.d. eftir grjót o.s.frv.? Sófús

Svar: 1. Flautan er að öllum líkindum ónýt. 2. Dælumótorinn sambandslaus eða ónýtur (það er sérdæla fyrir afturrúðuna). 3. Ef þú ert ekki þeim mun flinkari með lakk getur litað bón verið besta lausnin (TutrleWax hjá Bílanausti og á bensínstöðvum er til í mismunandi litum).

Spurt: Við erum með Polo árg. 2000 sem tók upp á því að vél drap á sér. Fer ekki í gang aftur. Öll ljós virka, startar eðlilega, búin að vera á þjónustuverkstæði. Finnur ekkert. Ekki hægt að komast í tölvuna í bílnum. Bifreiðavirkinn heldur að tölvan sé ónýt en er ekki viss. Keyrður 47 þús. km. er sjálfskiptur. Hefur þú enhver svör við þessu? Guðjón.

Svar: Þetta getur nú verið dálítið snúið - eins og bifvélavirkinn er greinilega búinn að sjá.
Til öryggis skaltu aftengja rafgeyminn (mínúspólinn) og tengja aftur eftir u.þ.b. 10 mín. Ef vélin fer ekki í gang eftir það skaltu fara með bílinn á VW-verkstæði. Þeir ganga úr skugga um hvort neisti sé á kertunum og hvort spíss ýri bensíni. Þeir eiga vara-tölvu sem þeir geta tengt til að ganga úr skugga umhvort tölvan í bílnum sé ónýt - en það tel ég frekar ólíklegt. Líklegra er að það sé einhver skynjari ónýtur.

Spurt: Sæll og takk fyrir góða vefsíðu og útvarpsþátt. Ég er að pæla í að kaupa mér nýjan bíl en er á Oldsmobile Eighty Eight 1994 árgerð sem er jú æðslegur enda GM bíll. Hann er með góðri 3.8 lítra V6 vel og í alla staði æðislegur bíll. Nú er það þannig að mig er farið að langa í nýjan bíl og sá ég einn flottann Chrysler Cirrus 2000 árgerð með 2.5 v6 mótor. Bíllinn er ekkert tjónaður ég er búinn að kanna það en veistu eitthvað um reynslu af svona bílum maður heyrir svo misjafnar sögur, eru þetta vandaðir bílar eða er þetta bíll sem á eftir að enda inn á
verkstæði í langan tíma. Ég treysit GM 100% en ég veit ekki með Chrysler hvað finnst þér?

Svar: Mín skoðun: Chrysler-bílarnir eru flottir - ekki vantar það. En þeir hafa bilað talsvert og það er mjög tímafrekt að gera við þá vegna þess hvernig hönnun/frágangur er. Sumir hafa verið heppnir með þessa bíla - en hinir sem hafa verið óheppnir hafa lent í ótrúlegum málum og rosalegum reikningum.

Spurt: Sæll Leó. Ég kíki stundum inná vefinn þinn til að lesa það sem þar er. Margt athyglisvert, fínn vefur. Mig langar að spyrja þig nokkurra spurningar. Er bíll sem gengur fyrir dísilolíu nokkuð betri kostur hvað mengun varða heldur en bensínbíll? Er ekki eini munurinn sá að hann eyðir færri lítrum pr. 100 km heldur en bensínbíllinn og mengar því minna? Bjarki.

Svar: Nýjustu dísilvélar eru talsvert umhverfisvænni en benísnvélar, sérstaklega er kolmónoxíð-mengun frá þeim minni en frá bensínvélum. Munurinn á eyðslu hefur minnkað þar sem bensínvélar verða sífellt sparneytnari - var 40% fyrri nokkrum árum er kominn í 28% nú. Þú getur fræðst um þessi mál með því að lesa grein um nýju amerísku dísilvélarnar á vefsíðunni www.ib.is

Spurt: Snorri heiti ég og var að kaupa mér Blazer S10, sem sagt minni Blazerinn. Það er sams konar vél í honum eins og var í Chevrolet Malibu, sem sagt V6 vél. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú gætir ráðlaggt mér hvað ég gæti gert til að tjúnna hann aðeins upp? Er þá að tala um vélina, fá meira útúr henni, t.d. einhverjar kraftsíur og annað, hvar ég gæti fengið það líka?

Svar: Þú átt að geta fengið KN-síu, pústflækjur og kút með minna flæðisviðnámi - hjá IB á Selfossi. Þeir panta það fyrir þig. Talaðu við Gunnar í síma 480 8080. Ný kerti með réttu bili, t.d AC, Champion, NGK eða Bosch (1,1- 1,2 mm) - og hreinsaðir tappar í kveikjuloki geta skilað þér betri gangi og minni eyðslu.

Spurt: Sæll ! Ég var að velta því fyrir mér hvað væri að bílnum mínum? það virðist enginn geta svarað þessu.... ekki einu sinni þeir á verkstæðunum. Ég á Subaru Imprezu 1.6 2wd 97, og oft þegar ég stend bílinn t.d. í 1gír stoppar hann í snúningum, eða það er að segja hann er komminn kannski í 4 þúsund snúninga og ég er enn með bensíngjöfina í botni, síðan allt í einu skíst hann upp og ég get klárað gírinn. Bílinn gengur ekki óeðlilegum hægagangi, en hann eyðir meira og virkar ekki eins og hann á að virka. Sama hversu mikilli ferð ég er á honum í fimmta og fer í brekku er alltaf eins og hann drepi á sér hann dettur svo flótt niður í snúning, kertaþræðirnir mældust allir 9 ohm nema einn sem var 8 ohm. Hvað er að? EMG

Svar: Ég myndi tjékka á súrefnisskynjaranum (oxy-sensor).

Bréf: Vildi þakka þér bílaþættina á Talstöðinni, þeir eru afar áheyrilegir og margt hef ég lært sem er mér og mínum bíl til hagsbóta. Beztu þakkir, Guðrún.

Svar: Það er gaman og uppörvandi að að fá svona bréf. Allar ábendingar um umfjöllunarefni væru vel þegnar.

Spurt: Mig langar til að byrja á að þakka þér fyrir góða og fróðlega síðu. Þannig er mál með vexti að ég á Hyundai Starex með fjórhjóladrifi og díselvél. Ég er rosalega ánægður með bílinn að flestu leyti. Það helsta sem skyggir á ánægjuna er hvað mér finnst hann kraftlaus og í vetur fór eyðslan í allt að 17 l/100km og hann liggur í 13-14 l/100km sem mér finnst of mikið. Til samanburðar má nefna Musso sem er vel undir 10 l/100km. Mig langar til að fá mér millikæli og langar í því sambandi spyrja þig hvort það breyti einhverju með eyðsluna. Ég veit að aflið verður meira og ekki veitir af. Vélin er ekin 170000. Getur það farið illa með hana að fá intercooler? Brynjar

Svar: Millikælirinn eykur brunanýtingu og þar með afl sem segja má að þannig fáist fyrir lítið (nema stofnkostnaðinn af kælinum). Það er ekki eðlilegt að þessi bíll sé kraftlaus og 17 lítra eyðsla er of mikil og er vísbending um að eitthvað sé að vélinni eða einhverjum búnaði við hana. 13 -14 lítra eyðsla, miðað við einhverja hleðslu, er eðlileg og samanburður við Musso er einnig eðlilegur því Starex tekur á sig mun meiri vind (hærri Cd-stuðull) og 5 síl. Benz-vélin í Musso er með hagstæðari slagrýmisnýtingu. Ráðlegg þér að láta yfirfara vélina hjá umboðinu eða þjónustuverkstæði. Hvarfakútar hafa reynst misjafnir í þessum bílum og eyðsla aukist af því - leirkakan hefur viljað molna, t.d. hafi steinn lent í kútnum. Þú skalt láta skoða það sérstaklega.

Spurt: Sæll Leó og bestu þakkir fyrir skemmtilega og fróðlega heimasíðu. Mig langar að bera undir þig vandamál með bílinn minn sem er Ford Escort '97 eða´98.Hann dettur alltaf í gang á fyrsta starti en gengur eins og það sé í honum kuldahrollur.Ef kalt er í veðri og ég gef honum ekki inn í 1500-2000 sn./mín. Fjarar hann úthægt og drepur á sér eftir ca.20 sek. En fer strax í gang aftur bíði ég augnablik áður en ég starta en starti ég strax þarf ég að pumpa gjöfina aðeins á meðan ég starta. Láti ég bílinn ganga í svona 3 mín.þannig að hitamælirinn sé aðeins farinn að stíga eða aki strax af stað og aki 2-3 km.þá hættir þetta og er í lagi næstu 3-4 klst. eftir að ég stoppa og legg bílnum þ.e.a.s.á meðan vélin er heit eða volg þá get ég ekið af stað og allt er í lagi en kólni vélin byrjar sama ferlið. Ég fór með bílinn í Brimborg fljótlega eftir að ég fékk hann til að láta tölvulesa hann en það var ekki hægt vegna ónýtra ventla sem síðan voru endurnýjaðir ásamt stýringum en gallinn er ennþá til staðar. Einhver sagði mér að einstaka bílar af þessari gerð væru svona og töldu ventlana of þrönga í stýringunum aðrir telja þetta vera í heilanum og ég hef reynt að taka minusskautið af geyminum smástund að ráði vélastillingamanns. Vélin gengur alltaf frekar köld, vel fyrir neðan miðju á hitamælinum nema þegar ég stoppa og bíð með vélina í gangi þá hitnar hún eðlilega og viftan fer í gang.Nú spyr ég: er mögulegt að vatnslásinn standi opinn og heddið og ventlastýringarnar hitni ekki nægilega mikið til að ventlarnir geti þanist út á eðlilegan hátt en þeir eru eins og þú veist að sjálfsögðu, í hitanum af sprengislaginu. Það væri gaman að fá alit þitt á þessu. Sigurður E.Sigurðsson.

Svar: Sameiginlegt vandamál með mörgum minni 16 ventla vélum er að útventlar festast í stýringunum - einkum og sér í lagi þegar vélin er köld og í kuldum. Þótt eigi að vera búið að gera við þetta (samkvæmt því sem þú segir) er ekki þar með sagt að það hafi verið gert á viðunandi hátt. Stæði vatnslásinn opinn myndi vélin ekki ná að hitna nægilega til að viftan færi í gang. Það kann að vera að til sé ,,heitari" vatnslás fyrir þessa vél (hugsanlega hjá Vélalandi) og ef til vill ráð að prófa hann - þar sem það gæti minnkað líkur á að ventlar festist iopnir, sé það vandamálið. Sennilegri orsök þessa vandamáls tel ég vera í vélstýrikerfinu. Styrkur bensínblöndunnar ræðast af skynjurum og nemum. Við gangsetningu styrkist blandan vegna spennu frá hitastigsnema í heddinu (vatnsgangi) og á meðan vélin er að ná eðlilegum brunahólfshita ræðst blöndustyrkurinn af spennuboðum frá súrefnisskynjara í pústgreininni. Bilanagreiningartæki eru misjöfn að gæðum og sama gildir um þekkingu þeirra sem með þau fara - umboð er engin trygging fyrir slíku. Ég myndi ráðleggja þér að fara með bílinn á verkstæði þar sem nægileg þekking er á bilanagreiningu og láta yfirfara vélstýrikerfið. Hringdu í Tæknimiðstöð bifreiða í Hjallahrauni í Hafnarfirði og kannaðu hvort þeir geti ,,lesið" þetta kerfi - þeir eru sérfræðingar í Bosch og þýskum bílum.

Spurt: Ég var að rífa undan dempara á Daewoo Nubira 99 (að framan) og skipta um þá. Ég reif þá báða undan í einu, síðan var ég að rífa þá í sundur og ætlaði að setja nýju deparana saman en ég er ekki viss um að ég hafi sett þá rétt saman vegna flýtis. Ég er ekki viss hvort að legan sé á réttum stað (sem sér um það að gormurinn snúi ekki upp á sig) vegna þess að þegar ég keyrði bílinn kemur einhver víbringur þegar maður bremsar sem hefur ekki verið áður en ég skipti um dempara, víbringurinn var í líkingu við að dekkinn væru að nuddast í eitthvað, sem ég er búinn að kanna og er ekki. Veistu um einhverja síðu sem sýnir uppbyggingu á dempara á Daewoo Nubira (að framan). Ég er alveg ráðalaus með þennan víbring sem mig grunar að sé út frá dempurunum. Sigrún Heiða.
Svar: Það eru engar vefsíður til sem fjalla um viðgerðir á Daewoo Nubira. Legan er með gróp á annarri hliðinni sem sverari hluti demparans, sem tekur við af gengjunum, gengur upp í. Hafirðu snúið legunni öfugt sérðu það á því að styttri hluti gengja stendur upp úr rónni - sé sá hluti mismunandi mikill á hvorum dempara fyrir sig snýr legan öfugt þar sem róin gengur styttra niður. Þú hefur væntanlega áttaði þig á að um er að ræða hægri og vinstri dempara - sé þeim víxlað verður hjólhallinn rangur. Ofan á gorminum er skál sem þarf að falla rétt og snúa rétt - skálin vinstra megin pasar ekki hægra megin.

Spurt: Heill og sæll. Ég á Toyota Landc 90. 99" (óbreyttan), þar sem ég veit að þú ert sérfróður um allt sem viðkemur túrbínum og öðrum tæknimálum í bílum datt mér í hug að senda þér línu, þar sem mér hefur flogið í hug að setja intercooler til viðbótar við túrbínuna sem fyrir er, þetta er beinskiptur bíll, er eitthvað orginal til í þetta eða má nota úr einhverju öðru, svo er spurning hvort þessi aðgerð borgi sig yfir höfuð? Guðbrandur.

Svar: Sé millikælir rétt ísettur (leiðbeiningar fylgja þeim) eykur hann afl og er líklega ein ódýrasta aflaukningin sem hægt er að setja á túrbóvél. Ég veit hins vegar ekkert um hvort það borgar sig það fer eftir því hve mikið þú keyrir, hve mikið einhverjum tekst að okra á þér með kælinn o.s.frv. Talaðu við þá hjá Artic Trucks í Reykjavík þeir geta sagt þér hvað millikælar með ísetningarsetti kosta. Einhver blikksmiðja var að auglýsa millikæla (gæta hafa verið Grettir). IB á Selfossi hefur sérpantað svona búnað fyrir Pétur og Pál o.s.frv. Annars er það alveg makalaust hvað hægt er að okra á jafn einföldum búnaði og millikæli - muni ég rétt kostaði svona sett hjá Benna (Íslandsmeistaranum) um 50 þúsund krónur. Á mínum yngri árum - fyrir 100 árum - fannst manni ekkert tiltökumál að smíða svona kæli bara sjálfur.

Spurt: Ágæti Leó. Ég vil byrja á að þakka þér þessa skemmtilegu og fjölbreyttu heimasíða og ekki síður góða og upplýsandi útvarpsþætti. Þannig háttar til með mín vandamál að ég á Lexus LX400 árgerð 1992 sem er orðinn afleitur í akstri. Hann flýtur einhvern veginn á veginum og áður en farið var að reyna viðgerðir var hann þannig að maður hafði á tilfinningunni að afturendi bílsins gæti jafnvel snúið fram. Ég fór með hann í viðgerð þar sem viðkomandi bifvélavirki fullyrti að vandinn stafaði frá stífum í afturhjólabúnaði. Ef vel hefði átt að vera hefði þurft að skipta um einhverja ása sem innihalda flest gúmmí sem slitna. Slík aðgerð var einfaldlega of kostnaðarsöm miðað við verðmæti bílsins. Því greip téður bifvélavirki til þess ráðs að skipta um gúmmí í þessum ásum. Við þessa aðgerð lagaðist bíllinn nokkuð en var fjarri því að vera góður. Ég greyp til þess ráðs að fara með hann í umboðið og fól þeim að finna út úr þessum vanda. Þeir tóku eftir því að þegar bílnum var gefið inn leitaði hann til vinstri. Þeir töldu meinið allt eins geta verið í framenda hans eins og afturenda. Þessir ljúfu menn tóku bílinn til gagngerrar yfirferðar en sáu hvergi í honum slit. Þeir hjólastilltu hann, prófuðu önnur dekk og gerðu próf á höggdeyfum. Dekk og höggdeyfar voru í lagi. Skiptu samt um einhver gúmmí sem þeir töldu slitin. Sem fyrr lagaðist bíllinn nokkuð við gúmmískiptin en var fjarri því að vera eðlilegur í akstri. Starfsmenn Toyota verkstæðisins sögðust einfaldlega ekki finna neinar vísbendingar til lausna. E.t.v. mætti gera aðra atlögu ef og þegar einkennin versnuðu.
Bifvélavirkinn sem ég minntist á í upphafi taldi að meinið lægi í höggdeyfum bílsins. Sagðist vita um sams konar bíl sem hagaði sér á svipaðan hátt og að hann hafi lagast við slík skipti. Flestum finnst þetta vera langsótt skýring einkum þar sem núverandi höggdeyfar virðast vera í góðu lagi skv. prófunum. En enginn vill slá þennan möguleika af. Ég hef tekið eftir því að þegar bíllinn lendir í vegahvilftum á nokkrum hraða er eins og hann sleppi framhjólunum á einhvern hátt og þyngd eða viðnám stýrisins breytist. Við þetta fer hann á meira "flot" en ella. Ég er alveg ráðþrota. Þetta er góður og skemmtilegur bíll að upplagi sem er í nokkru dálæti hjá mér og því er mér nokkurt keppikefli að koma honum í lag þótt hann sé nú með böggum hildar. Getur þú lagt mér eitthvað gott og notadrjúgt til í þessum barningi? Annað langar mig til að spyrja um. Ég á Toyota Landcruiser 80 árg. 1994. Mér finnst hann eyða talsverðri dieselolíu, um 17 l. í langkeyrslu á um 100 km. hraða. Er það eðlilegt? Hvað er hægt að aðhafast til að stemma stigu við slíkri eyðslu? Hvað á smurþrýstimælirinn að sýna ef allt er með felldu. Bíllinn er ekinn tæplega 300 þús. km.? Önundur.

Svar: Vandamál þitt varðandi Lexus-bílinn er mjög sérstætt - ég minnist þess ekki að hafa heyrt af neinu svipuðu. Það, í sjálfu sér, leiðir líkum að því að eitthvað kunni að hafa komið fyrir bílinn og valdið einhverri aflögun. Af lýsingu þinni að dæma á því hvernig bíllinn hagar sér þegar hann fer yfir hvilftir berast böndin að framvagninum og eins bendir lýsing þín á því að bíllinn leiti út á hlið við inngjöf til þess að einhver aflögun sé í framvagninum. Mig grunar að eitthvað valdi því að dempararnir að framan virki ekki eins og þeir ættu að gera - jafnvel þótt þeir hafi verið dæmdir í lagi. Stæði ég frammi fyrir svona vandamáli myndi ég byrja á að endurnýja framdemparana. Leysi það ekki málið myndi ég hafa samband við réttingaverkstæði sem ræður yfir svokölluðum tölvubekk (þú færð upplýsingar um slíkt réttingaverkstæði t.d. hjá Toyota-verkstæðinu). Eftir að bíllinn hefur verið tekin út með leisigeislamælingu og niðurstöður bornar saman við staðalnorm yfir bílinn ætti að koma í ljós hvort um einhverja skekkju sé að ræða í undirvagni. Það þarf ekki að taka fram að dekk eru mjög mismunandi, of hart pumpuð dekk (yfir 28 pund) og hörð hraðbrautardekk (með hraðastuðli S, T eða H) geta gert bíl ómögulegan á malarvegi - slitni dekk ójafnt er það vísbending um það sem ég hef þegar minnst á. Varðandi LandCruiser Diesel þá er 17 lítra eyðsla í efri mörkum jafnvel þótt bílnum hafi verið ekið 300 þúsund. Það kemur þér ef til vill á óvart en oft er ástæða aukinnar eyðslu teppt loftsía og/eða ójafn og rangur þrýstingur í dekkjum (of lin). Eftir 300 þúsund km. ætti að vera nóg lyftist vísir smurmælisins eitthvað í lausagangi heitrar vélar. Með því að nota smurolíu með víðara þykktarsvið t.d. 15 w 40 í stað 10w 30 má tryggja betri smurningu slitinnar vélar.

Spurt: Við erum að berjast við vandamál sem er þannig að það er búið að brotna millistykkið á milli gírkassana í 2 gang í sömu bifreið, einnig er þetta búið að gerast á Akureyri og engin hefur fundið ástæðuna fyrir þessi.Bifreiðar og Landbúnaðarvélar hafa engin svör og ekki umboðið úti að manni skilst. Þannig að maður er að fiska eftir vitneskju alstaðar til að leysa málið. Stefán

Svar: Það getur bara verið ein ástæða fyrir þessu, þ.e. skekkja í festingum sem myndiar spennu sem brýtur þetta. Þetta kemur mér ekkert á óvart eftir að hafa tekið út Dana 44 hásingar sem framleiddar eru í S-Kóreu - hver einasta þeirra reyndist skökk þannig að misvísun afturhjóla (to-out eða toe-in á sömu hásingu getur verið 7-8 gráður og hjólhallinn eftir því). Það hefur komið mörgum á óvart hve frávikin geta verið mikil í þessum S-Kóreu bílum - í þessu dæmi gæti stigagrindin verið tígulformuð - án þess að það kæmi mér á óvart. Ég myndi því fara með þennan Starex í leisigeisla-réttingabekk og taka út alla festipunkta bæði í lóðréttu og láréttu plani og bera saman við normið sem er í verkstæðishandbókinni.

Spurt: Ég hef áður skrifað þér héðan frá Spáni og langar nú að leita álits fyrir vinafólk mitt hérna. Þau eru alvarlega að spá í að kaupa 1988 árgerð af Audi 80 diesel (ek. 260.000 km). Þau fá hann hundódýrt, en bíllinn lítur vel út. Mig langaði bara að vita hvort þau ættu að vera eitthvað sérstaklega undirbúin undir viðhaldsævintýri. Hvort þessir bílar hafi haft einhverja "veiki" o.þ.h. Það þarf að koma bílnum í gegnum skoðun fyrir umskráningu og ég hefði gjarnan viljað getað ráðlagt þeim eitthvað áður en þau stökkva á þetta. Varahlutaverð spilar einna stærsta hlutverkið í þessu á ég von á, en mér er ekki kunnungt hvort það er eitthvað sambærilegt við BMW og Benz. Þau hafa kannski pening fyrir bílnum, en ekki fyrir mikið meira.Sveinn.

Svar: Audi 80 Diesel hefur reynst ágætlega og ekki verið nein vandræði með þá. Hins vegar er þessi bíll orðinn gamall og talsvert mikið ekinn þannig að sá sem kaupir hann verður að gera ráð fyrir viðhaldi og að komið sé að endurnýjun á dempurum, bremsudiskum, vatnskassa, kúplingu o.s.frv. - þetta er einfaldlega spurning um að taka áhættu. Kosti bíllinn lítið borgar sig að setja sér ákveðin mörk strax - hve miklu eigi að kosta upp á hann og hvar skuli stöðva og farga honum. Varahlutir hafa alltaf verið dýrir í Audi.

Spurt: Ég er með Volvo 440 Turbo 91, og hann gefur frá sér svakalega mikinn bláann reyk, minnkar þó þegar hann er orðinn heitur. Mér hefur verið sagt að þetta sé vegna ónýtra ventlafóðringa. Ég spyr:1. Hversu mikið mál er að skipta um fóðringar? 2. Hvað þykir eðlilegur verkstæðiskostnaður fyrir þessa viðgerð og hversu langann tíma á þetta að taka? 3. Gæti þetta verið eitthvað annað? 4. Getur þú lýst fyrir mér þessarri framkvæmd? 5. Þarf að skipta um fleira í leiðinni eða þarf einhver sér tól og tæki við þetta? (S.s. herslumæli o.fl.). Hjálmar.

Svar: 1. Þetta er 6-8 tíma verk (það eru ventlahettur, en þær eru úr sérstöku plasti, en ekki fóðringar/stýringar sem geta valdið þessu). 2. 30-40 þús. kr. 3. Gæti verið slitnir stimpilhringir/sílindrar - verkstæði getur fundið út hvort er. 4. Þetta er gert með því að halda vetlinum uppi með þrýstilofti á meðan gormurinn er losaður af og hettan endurnýjuð. Þetta er ekki verk fyrir óvana. 5. Yfirleitt ekki - en gæti þurft nýja ventlalokspakkningu. Þar sem þetta er túrbóvél er ekki hægt að útiloka að legan og þéttingin á ási pústþjöppunnar séu ónýtar og smurolía sem renni úr legunni inn í hólfin valdi bláa reyknum. Þeir hjá Vélalandi eru sérfræðingar í viðgerðum á pústþjöppum og geta sagt þér hvort hún sé sökudólgurinn.

Spurt: Mér var bent á þig þar sem ég var orðinn hálf-ruglaður (eða verri en dags dalega) að leita mér að snattbil eftir óvísindalega könnunn fannst mér ég fá mest fyrir peninginn ca 1.400.000 í nýjum Skoda Fabia - fannst hann hafa svona flest fram fyrir Yaris og Getz. En betur sjá augu en auga - hvaða skoðun hefur þú á þessari niðurstöðu minni? Kári.

Svar: Það er líklega rétt ályktað hjá þér að meiri nýjan bíl en Skoda Fabia færðu tæplega á bilinu 1200-1400 þús. kr. Sértu sáttur við Fabia eftir prófun þarftu ekki að leita lengra. Þjónustan er líka sæmileg fyrir Skoda og þjónustuverkstæði út um allt land.

Spurt: Ég er kona sem veit ekkert um bíla en vandamálið er að bíllinn minn sem er af gerðinni Opel Astra árg. 2000 er mjög dyntóttur. Hann gengur illa í lausagangi og titrar í vissum hraða 60-90 á 2000-3000 snúningum. Sérstaklega þegar kalt er í veðri. Svo einn daginn virðist allt í lagi. Það ýmist blikkar eða loga stöðugt ljós með mynd af vélinni í mælaborðinu, svo einn daginn er það horfið. Ég fór með bílinn á verkstæðið í umboðinu meðal annars vegna þessa en það var einhverri tölvu stungið í samband við hann og kom ekkert út úr því og ekki hefur hann lagast. Held að ekkert hafi verið gert í þessu, en ég borgaði fúlgu fyrir aðrar viðgerðir, er ekki alveg tilbúin að fara með hann aftur á verkstæði og borga morð fjár og fá hann eins til baka. Þá er spurningin hvort það er eitthvað sérstakt sem ég á að láta athuga, eða er eitthvað sem ég get keypt til að bæta ganginn, eitthvað bætiefni eða þ.h. Það er búið að segja mér svo margt (af bíladelluköllum sem eru ekki endilega faglærðir) að ég er orðin alveg rugluð, því sitt sýnist hverjum. Hvað getur verið að? Guðrún.

Svar: Mér finnst með ólíkindum að þeir hjá umboðinu skuli ekki hafa áttað sig á því hvað valdi þessari gangtruflun því hún er alþekkt í Opel (Daewoo og fleirum) og lýsing þín kemur nákvæmlega heim og saman við hana. Ástæðan er sú að útventlarnir í vélinni festast opnir - og alveg sérstaklega þegar kalt er í veðri. Stundum er hægt að laga þetta með því að hreinsa vélina rækilega með til þess gerðum efnum og setja svo á hana þynnri smurolíu (5W30). Dugi það ekki til þarf að taka heddið af og rýma ventlastýringarnar. Það er dýr viðgerð. Þurfi að taka heddið af er mikilvægt að notaðar séu orginal pakkningar frá Opel því hettur sem eru á ventlunum hafa verið endurbættar í orginal pakkningasettum. Nú veit ég ekkert hvar þú ert stödd á landinu. En sértu á höfuðborgarsvæðinu ráðlegg ég þér að tala við þá hjá BílaÁttunni í Kópavogi. Það er mikilvægt að þeir viti að truflunin sé vegna ventlanna en þeir eru með sérstök hreinsiefni sem geta gagnast. Þú skalt sýna þeim þetta svar.

Spurt aftur: Þakka þér fyrir góðar upplýsingar. Ég fór með bílinn í smurningu og hreinsun í Bíla-Áttuna og var bíllinn ekkert skárri fyrst, en batnaði eftir því sem ég keyrði hann meira. Svo fékk ég ventlahreinsiefni til að setja í bensínið, en það var annað hreinsiefni í því fyrir, svo ég varð að tæma tankinn fyrst. Eftir þetta hefur bíllinn ekki svo mikið sem hikstað, en ljósið í mælaborðinu logar enn. Ég held reyndar að það þurfi að skipta um kerti. Getur ljósið verið þess vegna? (Nenni ekki með hann einu sinni enn í umboðið, þar sem reynsla mín af því er ekki upp á marga fiska). Þeir hjá Bíla-Áttunni voru mjög stoltir að sjá bréfið og að það væri verið að vísa á þá. Og til upplýsinga þá kostaði þessi smurning og hreinsun með öllu tilheyrandi tæpar 13000 kr. og er það alveg þess virði að reyna þetta áður en farið er út í 200 þúsund kr. viðgerð. Ég ætla svo að reyna að halda þessu við með því að setja þetta ventlahreinsiefni reglulega í bensínið. Er það ekki góð hugmynd?

Svar aftur: Það eru talsverðar líkur á því að ventlarnir verði til friðs úr því þetta virkaði á annað borð. Ljósið logar vegna þess að einhver bilanakóði er í minni tölvunnar. Það á nú ekki að kosta nema 2-3 þús. (jafnvel í umboðinu) að fá kóðana lesna - þá kemur í ljós hvað það er sem er bilað og þá geta þeir hjá BílaÁttunni alveg eins lagað það eins og umboðið en væntnlega fyrir sanngjarnara verð.

Spurt: Var að lesa mér til hér á síðunni þinni og rakst á spurningu frá einum varðandi eyðslufrekann 2.5 td Pajero, en ég hef einmitt sama "vandamál" hjá mér. Datt þá í hug að það hefði verið átt við ERG búnað vélarinnar þannig að "aflið aukist". Hvernig get ég séð það og verið viss um hvort það hafi verið átt við þennan búnað. (stendur reyndar eitthvað í vottorði um breytingu á vél) Hann er 35" breyttur (veit ekki með hlutföll) en samkvæmt breyttum/leyðréttum hraðamæli fer hann í 90 kmh í sirka 2100 sn/mín, sem væri sennilega hærra á orginal dekkjum miðað við núverandi hlutföll. (vonandi ertu að skilja hvað ég er að fara?) Einnig var ég að láta mig dreyma; eftir að hafa lesið grein þína um túrbínu með beinispjöldum á afgashjóli (Ford V-8 Powestroke og Landrover Defender 3) hvort að möguleiki væri að setja svona túrbínu í bílinn hjá mér til að ná togkúrfunni neðar og betri vinnslu. Mundi vélin þola álagið sem fylgir því að boostið kemur fyrr inn, eða mundi hún eyða óheyrilega og hrynja hjá mér. Tekið skal fram að þetta er vél sem er smíðuð fyrir túrbínu og er ansi skemmtileg þegar að túrbínan fer að blása við 1800 sn+. Hvernig reiknar maður Amerískar Tog-tölur- FT.LBs í skiljanlegar Nm.

Svar: Þú getur séð hvort fiktað hafi veruið við EGR-lokann á því hvort hann hafi verið blokkaður (rásinni lokað) með þunnri plötu á flansinum sem boltast á soggreinina. Þú getur ekki notað þjöppu með beinispjöldum eins og eru í Ford því þeim er stýrt með vélartölvunni. Hins vegar er ekkert útilokað að þú getir fengið afkastameiri þjöppu fyrri þennan Pajero (prófaðu að tala við þá hjá Vélalandi). Ft.lbs x 1.4 = Newtonmetrar.

Spurt: Getur þú mælt með einhverri tegund framar annarri í notuðum jeppum? Við erum 5 manna fjölskylda í leit að einum slíkum. Þarf helst að vera neyslugrannur og viðhaldsfrír :) (það má alltaf vona að hægt sé að gera góð kaup). Við höfum til margra ára verið á Mazda 323. 1991 módel, sem hefur staðið sig með stakri prýði. Frábær bíll, en farinn að gefa sig svona hér og þar upp á síðkastið. Við höfum verið að skoða á netinu og það virðist vera hægt að fá Galloper, Musso og Family á sæmilegu verði miðað við hvað þeir eru keyrðir. Mælir þú með einhverjum af þessum bílum?

Svar: Gallopher dísill er í öllum aðalatriðum sami bíll og eldri Pajero. Þeir hafa reynst ágætlega, varahluta- og viðhaldsþjónustu er auðvelt að fá nánast hvar sem er á landinu. Musso með 5 sílindra Benz-dísilvélinni er þægilegur og sparneytinn - hefur komið ágætlega út, - þ.e. þeir bílar sem fluttir voru inn af umboðinu, þótt þjónustan hafi þótt dýr. SsangYong Family skaltu ekki hugsa um. Hins vegar skaltu vera undir það búin að viðhaldskostnaður jeppa sé umtalsvert meiri en þú hefur vanist með Mazda fólksbílinn - Subaru Legacy 4x4 Station gæti jafnvel hentað jafn vel og jeppi - vel með farinn Legacy er mjög hagkvæmur í rekstri, lág bilanatíðni, rúmgóður, tiltölulega sparneytinn miðað við stærð og þægilegur ferðabíll.

Spurt: Sæll Leó, ég er að leita mér að góðum notuðum bíl á bilinu 600-700 þúsund kall. Það er eitt ákveðið eintak sem ég hef verið að spá í (umboðið er að láta taka hann í gegn fyrir sölu), en það er 97 árgerð af Ford Mondeo, sjálfskiptum með 2000cc vél. Langaði að forvitnast um reynsluna af þessum bílum. Spurning hvort það væri ekki ráðlegra að kíkja frekar á t.d. Honda Civic eða Toyotu. Ég er að leita að bíl með amk 1500 vél, helst sjálfskiptum. Best að taka það fram að ég hef svo gott sem ekkert vit á bílum!

Svar: ( Mín skoðun): Honda Civic hefur það umfram Mondeo að vera laus við tíðar og hvimleiðar bilanir og þótt ekki megi á milli sjá hvort umboðið er dýrara (verðkannanir) er kosturinn sá að þú myndir þurfa mun sjaldnar á Honda-umboðinu að halda en Brimborg. Bestu kaupin myndirðu hins vegar gera, að mínu mati, í Toyota Avensis beinskiptum með 1600-vélinni - ef þú dyttir niður á gott eintak fyrir þennan pening.

Spurt: Ég heyrði í þér um daginn á Talstöðinni tala um álfelgur og mér fannst vanta hjá þér að benda á einn möguleika með að hressa uppá felgur. Með því að vinna þær aftur og pólera er hægt að fá orginal glans og betri með smá vinnu. Sjá http://www.caswellplating.com
Með bestu kveðjum og von um fleiri góða pistla.

Svar: Þakka þér fyrir ábendinguna. Ég prófaði þessa aðferð með miklu puði en gafst upp - þær felgur urðu of dökkar - sama hvernig ég djöflaðist - endaði á því að láta renna nýtt yfirborð á felgurnar enda voru þær sléttar og hægt að renna þær. Málið verður flóknara þegar í hlut eiga felgur með rúnnuðum rimum - þær er mjög tímafrekt að handvinna og nánast ekki um aðra aðferða að ræða en að glerblása. Hins vegar má segja að það sé nokkuð á sig leggjandi miðað við okurverðið sem er á nýjum sportfelgum.

Spurt: Ég var með í huga að spyrja þig aðeins út um sjálfskiptingu í bílum, ég var að spá hvernig maður færi best með sjálfskiptingu í fólksbíl. Ég ek á Nissan Almera 1.6SLX árgerð 1998, hann er sjálfskiptur. Bílinn hefur komið mjög vel út í það eina og hálfa ár sem að ég hef átt hann. Ég fékk með honum þjónustu bók og þar stendur að skipt hafi verið um olíu og síu á sjálfskiptingunni við 60 000 km og núna í byrjun maí lét ég skipta um olíu og síu aftur en þá var bílinn kominn í 100 000 km. Er það mjög mikilvægt að skipta um á 40 000 km fresti á sjálfskiptingum? Svo er það spurningin um það hvort að maður eigi að taka úr D og setja í N þegar maður bíður drjúga stund á ljósum hérna í bænum (eins og maður gerir nú svo ekki sjaldan!) Fer það betur eða ver með skiptinguna að hafa hana í Drive? Svo er það með þennan yfirgír, þetta er þriggja gíra skipting með overdrive, menn segja að maður fari illa með skiptinguna að keyra með yfirgírinn alltaf á, en ég keyri með hann á, því að svo oft þegar maður fer á miklubrautina eða langa beina kafla þá er maður kominn í kannski 80 km hraða og þá snýst vélin mikið meira þegar að ekki er notaður yfirgírinn og þess vegna hef ég haft þetta á. Er ég að gera skiptingunni illt með þessu? Ég hugsa vel um bílinn og vil alls ekki gera eitthvað sem gæti skemmt skiptinguna. Hvert er álit þitt á þessu?

Svar: Endurnýjun vökvans á skiptingunni er mikilvæg forvörn. Reynslan hefur sýnt að sé það gert samkvæmt tilmælum framleiðanda eru mun minni líkur á að skiptingin bili. Ekki er mælt með því að setja skiptingu í N á gatnamótum þegar beðið er eftir ljósi. Ástæðan er tvíþætt annars vegar öryggisatriði (bíllinn getur ekki runnið afturábak) og hins vegar vegna höggálags þegar sett er í D t.d. á hálfupphitaðri vél. Í allri venjulegri keyrslu skaltu hafa yfirgírinn virkan - það sparar bensín. Takkann til að taka yfirgírinn af notar maður þegar taka á framúr (notað sem niðurskipting) og þegar farið er upp langar brekkur, t.d. Kamba, og þegar vagn er dreginn. Í yfirgírnum snýst aðalás skiptingarinnar hægast - þá er þrýstingur frá vökvadælu skiptingarinnar jafnframt lægstur. Aukist álag í efsta gír er hættara við að þrýstingur nái ekki að halda kúplingsplötum efsta gírs nægilega þétt saman og þær geta slúðrað. Þegar yfirgírinn er tekinn af snýst ásinn hraðar, vökvaþrýstingur eykst og kúpling 3ja gírs þolir meira álag.

Spurt: Sæll, ég er með sjálfskiptingu í 7,3 lítra Ford Econoline, á 36 tommu dekkjum, mér finns hún skipta sér alltaf og seint, þ.e.a.s. að hún þarf svo mikinn snúning til að skipta sér. Hvað getur verið að?

Svar: Án þess að vita neitt um bílinn, árgerð eða breytingarsögu hans dettur mér fyrst í hug að drifið hafi ekki verið lækkað þegar 36" dekkin voru sett undir - þá þarf vélin að snúast mun hraðar fyrir hvern skiptipunkt. Sé þetta eldri Econoline með C6 skiptingu er möguleiki að stilla skiptipunktana með því að færa til stillinguna á vacuum-pungnum á olíuverkinu. Sé þetta yngri Econoline með tölvustýrðri sjálfskiptingu er ekki um annað að gera en að lækka drifhlutfallið (ekkert hægt að stilla).

Spurt: Ég vil byrja á að þakka þér fyrir góða og gagnlega síðu. Það er eitt sem er að plaga mig, en málið er að ég á heima í Vestmannaeyjum og á Terrano II árg 98 Dísil. Þegar ég fer upp á land með fellihýsi og lendi í brekku þá ofhitnar vélin hjá mér og virðist ekki krafta nægilega mikið. Mér er sagt að hvarfakúturinn gæti verið stíflaður, gaman væri að fá þína skoðun á þessu og einnig hvort hægt sé að þrífa kútana að innan. Einnig ef þú værir til í að útskýra fyrir mér hvað er inní þessum kútum.

Svar: Í hvarfakútnum er leikkaka sem inniheldur efnahvata sem breyta kolmonoxíði í koldíoxíð og vatn. Fyrir kemur að kakan molnar, t.d. hafi kúturinn orðið fyrir höggi og þá getur flæðið í gegn um kútinn teppst. Stundum er hægt að hreinsa innan úr hvarfakúti og nota hann án leikkökunnar (en það er ólöglegt sé bíllinn nýlegur - með einu símtali til skoðunarstöðvar færðu upplýsingar um það) - en stundum þarf hann að vera í afgaslögninni vegna súrefnisskynjara sem oft er festur í hvarfan sjálfan. Sértu með 2,7 lítra vélainna skaltu passa vel upp á að skipta um smurolíu og síu á 5000 km fresti - þær vélar hafa verið til vandræða - en það er oft vegna of sótmettaðrar smurolíu. Hægt er að fá aukasmurolíukæla fyrir þessar vélar - þær hafa fengist t.d. í Bílanausti (universal kælar) en þeir kælar geta gert gæfumuninn við kerrudrátt.

Spurt: Mig langar til að spyrja þig varðandi Montero 2003 sem mig langar í. Hekla segir að þeir hafi ekki tölvu til að lesa þessa bíla. Er óráðlegt að kaupa svona bíl vegna þess eða einhvers annars?

Svar: Ég myndi ekki leggja í kaup á svona bíl nema hafa þeim mun betri sambönd til að geta útvegað varahluti, nýja eða notaða, frá USA. Vandinn er sá að sú bilun getur komið upp í vélstýrikerfinu að engin leið sé að finna hana nema með bilanagreiningartölvu - og þá er ekki um annað að gera en að kaupa einingar í lagi, heila, skynjara o.fl. og það getur orðið fokdýrt. Öðru máli gildir um suma ameríska bíla af árgerðum fram að 2004 en í mörgum þeirra má lesa bilanakóða án greiningartölvu.

Spurt: Frábær síða hjá þér... En getur þú hjálpað mér ég er með sjálfskiptan Musso 98 model sem ég var að kaupa og nú tekur hann upp á því að það er bara einn gír (3. gír held ég). Hvað getur verið að?

Svar: Þetta er áströlsk tölvustýrð skipting frá BTRA (þær hafa reynst vel). Mig grunar að hún taki af stað í W-stillingunni og hangi í henni. Prófaðu að skipta á milli prógramma með takkanum og kanna hvort það breytir einhverju. Gerist ekki neitt myndi ég ráðleggja þér að fara með bílinn í umboðið eða Bifr.verkstæði Grafarvogs og láta athuga hvort bilun sé í rafkerfinu eða þurfi að endurprógrammera tölvu skiptingarinnar (TCM) - þeir hafa tæki til þess.

Spurt: Sæll Leó og þakka góða útvarpsþætti. Ég hlusta af og til og læri mikið af þessu.
Ég er ein af þeim sem vilja eiga jeppling og festi kaup á 10 ára gömlum, beinskiptum Cherokee Jamboree í vetur. Nú vil ég láta yfirfara hann og skipta um það sem gæti verið komið á tíma etc. Mig langaðI að spyrja þig hvort þú gætir mælt með einhverjum hér í höfuðborginni sem er 'sérfræðingur' í þessari tegund. Ég hef lítið skipt við verkstæðI, en mig grunar að allir myndu þykast vera bestir ef ég hringdi bara út í loftið eftir símaskránni. Ég hef ekki getað fundið það sem kallað er þjónustuverkstæði fyrir þessa tegund, eins og er svo algengt með aðrar tegundir. Askja hefur bara opnað þjónustu fyrir Benz, en þeir eru komnir með umboðið fyrir Cherokee.

Svar: Það er ekkert sérhæft verkstæði fyrir þessa tegund. Hins vegar eru mörg verkstæði sem hafa búnað til að bilanagreina þessi kerfi og ráða við flest sem upp kann að koma. Á meðal þeirra er Skipting í Keflavík, Jeppasmiðjan við Selfoss, Mótorstilling í Garðabæ, Bílaverkstæði Skúla Eysteinssonar og Bílaáttan í Kópavogi svo ég nefni það sem fyrst kemur í hugann. Kíktu á einhverja þessara aðila og kannaðu hve traustvekjandi þér finnst þeir koma fyrir.

 

Aftur á aðalsíðu