Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 12

20.2.2005
(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti á leeomm hjá simnet.is).

Spurt: Heill og sæll Leó ! Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir þessa hreint ágætu bílasíðu sem ég hef, sem svolítill bíladellu kall, gaman af að glugga í og veit ég ekki aðra betri. Ég var að lesa það sem þú skrifar um Musso jeppann. Ég er svona í rólegheitum að velta svolítið fyrir mér jeppakaupum, jeppa sem færi vel með mig á langkeyrslu og væri líka hentugur til fjallaferða, jeppa á svona 33" dekkjum. Ég hef svona verið að gefa Mussonum (þetta er ekki fallegt orð) svolítið auga. Ég hafði einn svoleiðis yfir nótt, hann fór vel á bílastæðinu. Fyrir bragðið gat ég líka prófað hann nokkuð vel, bæði með og án konunnar. Mér fannst hann satt að segja mjög þægilegur á malbikinu. En þegar ég fór að prófa hann utan malbiks, á grófum vegum, fannst mér hann bara grjóthastur. Þessi bíll er árgerð 1998, á 31" dekkjum. Þegar ég kvartaði yfir þessu við bílasalann fannst honum þetta skrýtið því hann hafði einmitt heyrt að þessir bílar væru svo mjúkir. Ég hafði samband við umboðið, en sölumaðurinn sagði eitthvað svipað og bílasalinn. Hann spurði mig líka á hvaða tegund af dekkjum bíllinn væri, sem ég hafði nú ekki gáð að.Ætli bílasalar, að ég tali nú ekki um þá sem vinna hjá umboðunum, prófi ekki bílana sem þeir eru að selja, segi bara það sem þeir hafi heyrt.Ég verð að viðurkenna að ég gleymdi einu, og það var að athuga
loftþrýstinginn í dekkjunum. Hefur þú prófað Musso á grófum vegum ? Og ef hann er nú hastur á grófum vegum er þá nokkuð hægt að mýkja hann án himinhás tilkostnaðar? Þú sérð að ég hef ofurtraust á þér sem sérfræðingi sem geti svarað öllu um alla bíla. Með kveðju, og aftur, þakklæti fyrir skemmtilega síðu - og von um að þú hafir smá tíma til að svara mér, og vitir allt, um mýkt eða hastleika Musso, ("hastleika" þetta er heldur ekki fallegt orð). Yngvi Guðnason, Kirkjulækjarkoti, í Fljótshlíðinni fögru.

Svar: Musso á 31" dekkjum með eðlilegum þrýstingi (25-28 pund eftir hleðslu) er með mýkstu jeppum. Hins vegar grunar mig að þessi Musso sem þú prófaðir hafi verið með stinnari dempurum - þeir eru settir undir til að bæta aksturseiginleika og gera bílinn stöðugri á malbiki. Þótt dekk kunni að vera misjöfn eftir tegundum er ekki svo mikill munur á 31" dekkjum frá einum framleiðanda eða öðrum að bíll sé hastur, séu þau með sama þrýstingi t.d. 26 pund. Ef þú kaupir notaðan Musso skaltu passa upp á að hann sé upphaflega fluttur inn af umboðinu (bílasali getur séð það í ferilskrá bílsins) - nokkur hundruð Musso sem fluttir voru inn framhjá umboðinu af árgerð 1997 og 1998 voru verr búnir, fengu ekki forvarnarmeðferð og höfðu jafnvel á þriðja ár óhreyfðir á hafnarbakka erlendis - slíkur bíll er um þriðjungi minna virði og erfiður í sölu vegna hærri bilanatíðni.

Spurt: Sæll Leó M. Þér ber æfinlega að þakka fyrir það hugsjónastarf þitt að halda úti þessari stórgóðu heimasíðu. Það er bragð af skrifum þínum. Ekki svo að skilja að ég kunni alltaf og æfinlega að meta bragðið en bragðlausan jafning sem inniheldur ekki neitt hef ég ekki séð hjá þér enn. Ég var að lesa grein þína um gæði bíla. Góð grein og sannarlega allrar athygli verð. Fór bara að velta vöngum yfir gæðum, og þeim skilningi sem við, hvert og eitt leggjum í hugtakið. Ekkert efast ég um áreiðanleika þeirra gæða sem JDP mælir. Ég er hinsvegar að velta vöngum yfir því hvað þeir eru að mæla. Kaupendur nýrra bíla, sem eiga bíla sína í 2 - 5 ár, geta tvímælalaust tekið mið af þessum athugunum. Ekki spurning að þær segja mikla sögu um það hvað þeir kaupendur fá í hendur. Við hin, við, sem höfum fundið þá leið í bílamálum að kaupa æfanlega notaðan bíl og aka honum býsna lengi. Já við hljótum að vera að leita að langtíma endingu. Við hljótum að vera að leita að bíl sem fer fyrstu 200.000 km bilanafrír, og með litla þörf fyrir fyrirmælt viðhald. Enda eru það gjarna fyrstu 100.000 kílómetrarnir í okkar höndum (eðlileg skipti á hlutum samkvæmt fyrirmælum verksmiðju er viðhald en ekki bilun). Bíl sem fer næstu 100.000 km bilanalítill og fer síðan í 400.000 km vandræðalítið. Helst vandræða laust! Jafnframt þarf eðlilegt viðhald samkvæmt fyrirmælum verksmiðju að vera skaplega létt og óldýrt..
Það er t.d. 400 % dýrara að láta skipta um tímareimar á 60.000 km fresti og borga fyrir 80.000,- kr eða gera það á 100.000 km fresti og borga 30.000,- kr fyrir, svo búið sé til hugsað dæmi. Ennfremur er munur á, hvort ég opna húddið inni í bílskúr og skipi um viftureim Jafnvel þótt ég kunni afskaplega lítið í bílaviðgerðum, eða hvort ég þarf að láta vinna verkið á verkstæði vegna þess að það þarf m.a. að losa um mótorfestingu ! ! ! ! til að ljúka verkinu. Þú fórst sjálfur í gegnum langtímaprófun á RENAULT CLIO. Bíl, sem hér á landi átti sér formælendur fáa en því fleiri sem „vissu” að þetta var vopnlaus ryðdós og ofurbilanagjörn drusla og komst með niðurstöðu sem sannarlega kom á óvart., að ekki sé meira sagt. Eru til einhverjar aðrar (erlendar) sambærilegar úttektir? Get ég einhverstaðar séð hvernig langtíma útgerðin kemur út? Eitt sinn keypti ég nýjan bíl. Fór með hann á þjónustuverkstæði vegna þess að bílstjórasætið hitnaði ekki. Á verkstæðinu settu menn sætið í samband. Leiðslurnar lágu undir því með plögg á endum en bara ekki í sambandi. Þetta er dæmi um galla í nýjum bíl. Galla sem ég vil sannarlega fá lagaðan á þjónustuverkstæði. Því ég ætla ekki að fara að skemma eitthvað á ábyrgðartímanum með fikti. En þetta er jafnframt dæmi um fullkomlega einskisvert atriði í 3 gja ára gömlum 95.000 km bíl sem ég er ný búinn að kaupa. Ég sting þessu bara í samband. Ég efast um að ég muni hér eftir frekar en hingað til telja mér hag í þessum úttektum JDP og annarra þeirra sem eru að mæla hluti sem lítið koma til álita hjá mér við mína bílaeign. En ítreka að ég er ekki að draga í efa ágæti mælinganna fyrir þá sem nýju bílunum aka. Góðar mælingar og vandaðar eru frábær tól og undirstaða framþróunar.Við þurfum hinsvegar að huga mjög vel að því hvað verið er að mæla hverju sinni.

Svar: Ég get verið sammála öllu sem þú segir. Mér vitanlega nennti enginn að prófa bíla 100 þúsund km. á sínum tíma nema ég (Bíllinn: Daihatsu Charade og Renault Clio) - og þótt ég hafi aldrei átt jafn hagkvæman bíl og Clio veit ég ekki hvort mín reynsla náði að slá á fordómana. Ég tel að enn sem komið er sé endursöluverð bíla eini rökrétti mælikvarðinn - því það mælir bæði endingu, rekstrarkostnað og verð á þjónustu. Hins vegar er endursöluvirði að miklu leyti háð fordómum og breytist því fremur hægt - listar JDP geta þó haft áhrif á það eins og dæmi sanna (Audi). Mér vitanlega eru engir sambærilegir mælikvarðar fyrir notaða bíla við kvarða JDP nema ef væri lengri tíma bilana/kvartanatíðni sem Consumer Union í Bandaríkjunum skráir og birtir í Consumer Reports. Vandinn er sá að bilanir eru ekki sama og kvartanir og að kvartanir Þjóðverja eru ekki sambærilegar við kvartanir Svía (eða Íslendinga) og kvartanir Ameríkana (eftir að hafa starfað þar hér áður fyrr) tek ég alltaf með ákveðnum fyrirvara. En, það er ekkert betra að hafa yfir nýja bíla en JDP. Hve mikið mark maður tekur á þeim mælingum er svo önnur saga.

Spurt: ,,Sæll og takk fyrir góð og skjót svör um daginn. málið er að ég er með Benz 190e árg '84 með 2ja litra vélinni sem er keyrður litið miðað við aldur eða 180.þ en samt með smurbók frá 50 þúr. Hann ælir oliuni upp i loft hreinsara eins og öndunin sé stifluð og mikill blástur upp úr oliuloki. Er þetta eithvað þekkt vandamál sem þú hefur heyrt um og hefur lausn á (ég vil ekki reyna að finna upp hjólið). Smurmælirinn sýnir tælega 1 þegar vélin er heit sem mér finnst óeðlilega lágt.

Svar: Þetta gerist þegar öndunin er stífluð (algeng útfærsla í Benz er einstefnuloki og slanga frá ventlaloki í lofthreinsara) eða loftsía teppt. Með olíuþrýstinginn í huga þá er sá möguleiki fyrir hendi að vélin sé úrbrædd, fastir eða slitnir stimpilhringir og að því blási svona upp með stimplunum sem myndar yfirþrýsting í ventlalokinu og þrýsti smurolíunni út. Ég myndi þjöppumæla vélina í þínum sporum - það sparar þér heilmiklar tilraunir ef í ljós kemur að þjöppunin er slöpp.

Spurt: Fyrir amatöra eins og mig er þetta gullmoli að komast í uppl. um farartæki á þennan hátt hjá þér. Ég er með fyrirspurn til þín ef þú værir svo vænn að svara mér, það er mér mikils virði. Mér býðst að kaupa Landrover Def 110 átta manna árg 1998 ekinn 118.300 kil. 112 hest. með svokölluðu 300 vélinni. Allt er í fína með fyrri eiganda. Hef keyrt hann og finnst mér hann skemmtilegur þótt það blási köldu inn og hann leki smá og að frúin segist ALDREI muni keyra Hann. Ég fæ hann á 1.300.000 kr, til viðmiðunnar er hann óbreyttur og enginn árg. 1998 á sölu til að skoða sambærilegt verð, ég bý í Fljótshlíðinni í sveitinni og tel þetta farartæki ágætt. Geturðu leiðbeint mér hvort þetta séu hagstæð kaup eða ekki?

Svar: Nú kemur vel á vondan - eins og þar segir, því ég veit ákaflega lítið hvað telst eðlilegt verð á notuðum Defender, einkum og sér í lagi á 8 manna bílnum sem hlýtur að vera lítið framboð af. Hins vegar skil ég vel að menn í Fljótshlíðinni hafi áhuga á þessu farartæki því byggi ég í sveit væri þetta bíllinn fyrir mig. (Bara sem dæmi þá hef ég heyrt af ágætum Musso 5 síl. dísiltúrbó af árgerð 1998 sem fékkst fyrir 780 þús. staðgreitt þótt sett væri á hann 1250 þúsund). Svo vill til að ég hef vitneskju um að nokkrir Land Rover Defender-eigendur hafa með sér samtök eða klúbb og eru með vefsíðuna

http://www.ecweb.is/islandrover/klubburinn/

Þú gætir reynt að hafa samband við þá (það er tengill fyrir netbréf á vefsíðunni) með fyrirspurn - hver veit nema eitthvað kæmi að gagni út úr því.

Spurt: Sæll og blessaður Leó. Hef verið að leita "ærlegri" bók og eða geisladisk um Nissan Patrol 2.8 l.
árgerð 2000. Veit að vísu að þetta er til en ekki virðist mögulegt að fá þetta hér, "heyrði talað um
að hægt væri að fá þetta fyrir kr. 100.000.-" veit ekki hvað er að marka það. Hafði reyndar samband við Nissan umboð í Danmörku en þeir sögðust ekki einu sinni geta selt varahluti hingað. Nú virðist, svo skrítið sem það er, ekkert ganga að tala við neinn hvort heldur umboðið, verkstæði eða FÍB (er reyndar m.limur þar). Minnir að ég hafi haft samband við þig áður með sama málefni, en veistu hvort hægt er að nálgst eithvað efni um þennnan bíl einhvers staðar á netinu?

Svar: Prófaðu www.haynes.com, www.amazon.com eða www.haynes.au Þú gætir líka prófað að leita á Google að fyrirtækjum í Bretlandi og Ástralíu en þar var selt talsvert af þessaum japanska Patrol (ekki spönskum).
notaðu leitarstreng nissan patrol.co.uk og nissan patrol.au Bílanaust/N1 er með umboð fyrir Haynes, sem gefur út viðgerðarbækur fyrir flesta bíla. Þeir hafa sérpantað bækur fyrir menn - þú gætir prófað það.

Spurt: Sælir, ég var að spá hvort þú hefðir einhverja hugmynd um það hvað gæti verið að bílnum mínum, þetta er 1997 árg af vw golf 1600 með inspítingu, og vandamálið lýsir sér þannig, að vélin er ekki að orka neitt, og hann kæfir ef að maður er með hann í lausagangi og gefur snögglega inn, þá kæfist vélin í c.a hálfa til eina sekondu og fer svo upp, og svo gæti annað við þetta verið að bíllinn slær út í 5 þúsund snúningum, bíllinn er líka nýstilltur og ekki ekinn nema tæpa 80 þúsund kílómetra, og ég var búinn að fara með hann á pústverkstæði og láta taka hvarfakútinn undan og þeir tjekkuðu hvort að það væri stíflaður hljóðkúturinn en svo var ekki. Mér var síðan bent á þig af kunningja mínum og mér datt í hug að senda þér póst og tjekka hvort þér dytti e-ð í hug.

Svar: Það er ekkert óeðlilegt við að þessi vél slái út í 5000 snm (sem betur fer - þetta er bara venjuleg vél en ekki ,,keppnisvél"). ,,Kæfingin" við inngjöf stafar af veikum neista, röngum neistatíma eða of veikri bensínblöndu (oft vegna ónýts súrefnisskynjara (Oxy-sensor) í pústkerfinu). Ráðlegg þér að fara með bílinn á verkstæði sem hefur tölvubúnað til að bilanagreina VW. Þótt bíllinn sé ekki meira ekinn er það aldur ákveðinna hluta sem getur verið orsökin, t.d. kveikjuþráða, kveikjuloks. Tímareim er orðin gömul hafi aldrei verið skipt um hana og gæti hafa ,,hlaupið" til um tönn - en þá er neistatíminn rangur sem gæti skýrt aflleysið (gömul tímareim getur slitnað en það getur valdið miklum og dýrum skemmdum á vélinni). Það sem þú getur gert - áður en þú ferð með bílinn á verkstæði er að setja slurk af ísvara í bensíngeyminn og sjá hvort það breytir einhverju.

Spurt: Hæ ég á i vandræðum mað Volvo 460 ´92-1.8. hann vill hitna of mikið það byrjaði með að ég skifti um kæli slöngu og ég held ad þetta sé loft á kerfinu eða vaslásinn sé ónýtur hvernig fæ ég loftid af kervinu ég þori ekki ad skipta um vaslásinn út af því ég veit ekki hvernig ég fæ loftið út.

Svar: Sé ekki sérstakur lofttappi efst á vatnskassanum öðru megin skaltu finna þau samskeyti (hosuklemmu) sem liggja hæst í kælikerfinu, losaðu um hana þannig að geti lekið, fylltu síðan kerfið kælivökva rólega án þess að yfirfylla geyminn og þar til lekur út með þessari klemmu sem þú losaðir. Þá er kerfið loftlaust. Gamlir vatnslásar eiga það til að standa fastir eftir að hreyft hefur verið við kerfinu, t.d. tæmt. Byrjaðu á því að setja nýjan vatnslás og fylltu síðan á með þessari aðferð.

Spurt: Sæll Leó. Þakka þér góða síðu. Headpakkning fór í Isuzu 4cyl.2.6 4ZE1. Ég varð strax var við það því miðstöðin snöggkólnaði. Þurfti að bæta á vatni og keyra varlega 2 til 4 km. Head-ið verður gert upp með hefðbundnum hætti, en hvaða efni get ég notað til að hreinsa örugglega frostvökvaleifar úr stimpilhringjum og hringjaraufum, án þess að taka stimplana úr?

Svar: Það er ekki um annað að ræða en að blása niður með þeim með þrýstilofti, snúa vélinni hring, og vona að það skili sér út með smurolíunni sem þú tappar af. Standi vélin ekki þeim mun lengur óhreyfð á ekki að vera nein teljandi hætta á ferðum.

Spurt: Sæll Leó, Langaði að spyrja þig varðandi eitt atriði en þannig er mál með vexti að í Bronco jeppanum mínum er 460 vél. Síðastliðið ár hef ég þurft að skifta um kælivatn þrisvar sinnum og í hvert skifti er vatnið sem kemur af vélinni koldrullugt og brúnt eins og úr leðjupolli. Var að spá hvort þú vissir einhverjar skýringar á þesssu.

Svar: Það er greinilega einhver útfelling í kerfinu - stundum er það vegna þess að smurolía blandast kælivatninu en þá myndast útfelling í vatnskassanum ekki ósvipuð rauðbrúnni mold. Á bensínstöðvum og í Bílanausti er til efni til að hreinsa kælikerfi en í því er jafnframt efni sem á að stöðva útfellingu. Ráðlegg þér að prófa það og jafnframt að skipta um kælivökva, nota t.d. rauðan vökva eins og notaður er á nýjustu dísiljeppana - og sjá hvað gerist.

Spurt: Komdu sæll Leó. Ég les pistlana þína reglulega og hef mjög gaman og gagn af. Málið er það að ég á Cherokee laredo limited árg 1991 og var að velta því fyrir mér hvernig skifting sé í honum. Langar að breyta honum fyrir 33"dekk og var að velta því fyrir mér hvort öxlar og skifting myndu þola það.

Svar: Það fer að vísu eftir vélum en mér þykir sennilegast að í þínum bíl sé AW4, 4ra gíra sjálfskipting með yfirgír. AW stendur fyrir Aisin Warner en það er japanskur framleiðandi sem General Motors á og selur sjálfskiptingar (með tölvustýringu) í ýmsa bíla svo sem Jeep, Volvo og fleiri. Það á ekki að vera neitt vandamál með öxla og skiptingu í varðandi 33" breytingu - þú gætir þurft að breyta hraðamælisstýringunni. Ráðlegg þér að hafa samband við jeppabreytingaverkstæði, t.d. VDO í Rvk. eða annað og kanna hvað þeir bjóða fyrir þennan bíl.

Spurt: Sæll Leó. Ég á Opel Vectra 1999 árg. Ég keypti bílinn af Ingavari Helgasyni.Bíllin var í lagi í fyrstu og þegar kaupin voru gerð þá var bíllin ekki söluskoðaður.Ég veitti því enga athygli að þokuljósin svokölluð voru ekki tengd. Annað var að virka prýðilega að mér fannst. Svo kom að því að ég þurfti að fara með bílinn í skoðun hjá Frumherja. Og þá byrjuðu vandræðin,mér var sagt að bíllin fengi ekki skoðun vegna þessa atriðið með ljósin og tveggja annara atriða. Mér var sagt að ég þyrfti að láta laga ljósin og þá væri ég kominn með skoðun. OK ég fer í Bílaáttuna í Kópavogi (stór fín þjónusta) og sagði þeim farir mínar ekki sléttar við Frumherjamenn. Þeir hjá Bílaáttunni tengja að minni beiðni þokuljósinn. Ég fer í skoðun og allt leikur í lyndi um stund. Viku seinna þá er ekkert rafmagn á bílnum að morgi dags. Og ég hef verið í endalausum rafmagnsvandræðum með bílinn síðan. Bílaáttumenn í Kópavogi hafa reynst mér vel og mældu geymirinn sem virtist vera í fullkomnu lagi. Við tókum relayið (sjálfvirka ljósabúnaðinn) fyrir ljósin í bílnum úr, en ekkert gengur, ég alltaf ragmagnslaus að morgni. Þá tókum við öryggi úr þannig að enginn mælir virkar í mælaborðinu, hurðarljós o.fl. Og ég handset ljósin á. Við aftengdum þokuljósinn. Þannig er bíllin i dag. Ef ég set öryggið í og hef allt saman í gangi, þá verður hann rafmagnslaus að morgni. Margreynt þetta. Í gegnum þetta brölt mitt þá hafa mér borist sögur um að það sé mjög algengt í þessum Opel Vectra bílum að mælaborðin séu hreinlega ónýt. Og að Ingvar Helgasson eigi fulla gáma af þessum mælaborðum og að skipta um slíkt kosti á annað hundrað þúsund.Ég á samt eftir að kanna hver átti bílinn minn vegna þess að þegar ég fór að kanna þetta hjá IH þá fékk ég engar upplýsingar um sögu bílsins. Og annað sem ég tók eftir með minn bíl og veitti enga athygli við kaupinn og það var að digital mælir fyrir bílinn þar voru stafir bilaðir og sýndu ekki rétta niðurstöðu með ekna kílómetra.Og á meðan ég er ekki með öryggið í bílnum í dag þá skráir bíllin enga ekna kílómetra. Hann er enþá keyrður nánast það sama og þegar ég tók öryggið úr vegna rafmagnsvandamálanna. Það hefur eitthvað komið fyrir þennan bíl eða hann verið mjög gallaður hugsa ég en hvað veit ég og hvað skal gera. Ég keypti bílinn 2001. Fyrri skráði eigandi er einhver útlendingur,ég er að hugsa um að reyna að fá einhverjar upplýsingar þaðan. En það er mikið ófremdarástand að hafa bílinn svona og ég þarf eitthvað að gera.og reikna nú með að þurfa að greiða það sjálfur, gammarnir passa sitt. Ég er ekki sérfróður um bíla.

Svar: Þetta eru talsverðar hremmingar sem þú hefur lent í af lýsingunni að dæma. Ég á sjálfur Opel Vectra Turbodiesel árgerð 1996 sem er kominn í 280 þús. km. Hann hefur að sjálfsögðu þurft viðhald en ekkert umfram það sem teljast má eðlilegt. Það er örugglega slúður að mælaborðin séu ónýt í Opel Vectra - líklega hefur sú saga kviknað vegna mælaborðanna í Terrano II (sama umboð) sem voru gölluð en það er allt önnur saga. Mér vitanlega hafa ekki verið neinar óeðlilegar bilanir í mælaborðum í Opel Vectra. Skýringin á því að stafir bila í km-teljaranum er líklegust sú að peran sé farin. Þeir geta lagað það fyrir þig hjá Bílaáttunni. Það hefur komið fyrir, m.a. í Opel, að bilun í svokölluðum ,,Body Computer" (sem nefnist Relay - þetta eða hitt í Opel - muni ég rétt), hafi tæmt rafgeymi yfir nótt - en þau tilvik voru fá. Algeng bilun í Opel er hins vegar vegna þess að svokallað dagljósa-relay bilar - stundum með útleiðslu - en bilað dagljósa-relay lýsir sér m.a. þannig að snúa verður ljósrofanum til að ökuljósin kvikni eftir gangsetningu. Ég hef ekki trú á að þeir hjá Bíláttunni hafi tengt þokuljósin rangt. Hins vegar er ekki óeðlilegt, hafi rafmagnsleysið byrjað upp úr því, að þeir grandskoði þá tengingu til öryggis. Ég tel að það sé tilviljun að þetta rafmagnsleysi hafi komið upp fljótlega eftir tengingu þokuljósanna. Sé upprunalegi rafgeymirinn í bílnum eða ,,original" Opel rafgeymir myndi ég ráðleggja þér að losa þig við hann og fá nýjan Varta Silver-rafgeymi í Bílanausti í staðinn. Þessir Opel-rafgeymar hafa reynst illa - vægast sagt - flestir enst stutt og bilunin í þeim lýsir sér nánast eins og hjá þér - í lagi eftir hleðslu en ,,dauðir" jafnvel 3 klst. síðar. Sýndu þeim hjá Bílaáttunni þetta svar ef þú hyggst láta þá athuga málið.

Spurt: Sæll Leó, Ég er með Golf árg 2000 með 2L vél, Þetta er station bíll með fjórhjóladrifi. Bilunin lýsir sér þannig að hann drap á sér í akstri og fer ekki aftur í gang. Engin ljós í mælaborðinu kveikna þegar svissað er á bílinn né heldur aðalljós og ekkert gerist þegar reynt er að starta nema að startarinn snýst. Ég er búinn að skoða þessi atriði og sannreyna að þau eru í lagi: stóru öryggin við rafgeymi og öryggi inní mælaborði bílstjóramegin Nokkrir menn hafa komið með hugmyndir að því hvað geti verið að og hafa þeir nefnt að þessi atriði geta verið í ólagi: relay við bíltölvu, bíltölvan, rafmagnsvír að bíltölvu, Svissinn, vissbotn, bílllykillinn eða kóðalesari af lyklinum, Bensíndæla og relay við bensíndælu. Ég er að vona að þú getir gefið mér leiðbeiningar um önnur atriði sem geta orsakað þetta og hvaða bilun ég eigi að profa fyrst og hvar ég finn viðeigandi hluti (t.d. relay fyrir tölvuna) ásamt því hvernig ég prófa hlutina.

Svar: Af lýsingu þinni að dæma myndi ég skoða alternatorinn - þegar stator eða ankeri gefa sig í alternatornum hefur aðdragandi stundum verið einhver ,,draugagangur", hleðsluljós blikkað, snúningshraðamælir flökt, aðalljós dofnað o.s.frv. Þegar svo rafgeymirinn hefur afhlaðist niður fyrir 11 volt geta einkennin orðið þau sem þú lýsir. Byrjaðu á því að láta mæla alternatorinn og sjáðu hvað kemur út úr því.

Spurt: Kæri Leó. Spurning er varðandi miðstöðvarkerfi á Chrysler Stratus. Hitnar ekki neitt að ráði og er að spá hvort hægt sé að fá efni sem hreinsar element ef það gæti verið sem að er. Búinn að skipta um vatnslás og ekkert skeður. Vonast eftir svari sem fyrst þar sem ansi kalt er úti enn.

Svar: Sennilegasta skýringi er sú að rafmótor sem stjórnar spjaldi sem veitir fersku lofti inn á hitald miðstöðvarinnar sé bilaður og að spjaldið sé því í þeirri stöðu að veita köldu lofti beint inn í bílinn. Í sumum þessara bíla stjórnar tölva miðstöðvarkerfinu og hún getur bilað. Í versta falli getur heddpakkning verið farin.

Spurt: Ég á Nissan Patrol 3.0 (sjálfskipur, 35", original hlutföll) og hann virkar mjög vel. Um daginn hitti ég mann sem hafði miklar efasemdir um þessar vélar. Er einhver slæm reynsla af þessum vélum? Veistu hvort þær séu að endast illa?

Svar: Gæti stafað af fordómum og slúðri. Það var skipt um vélar í öllum nýjum Patrol vegna galla, strax eftir að fyrstu bílarnir komu eftir breytinguna (stærra boddíið), ég hef ekki heyrt af neinum vandamálum með vélar í Patrol eftir það.

Spurt: Heill og sæll Leó. Þakka þér fyrir góða heimasíðu. Sérstaklega þótti mér gaman að lesa greinina um Citroen DS og CX en ég er með Citroen veiruna sem ég fékk ungur. Átti m.a. um tíma DS 20 Pallas 1973 með rafmagnsskiptingu í stýri og háu ljósunum sem fylgdu hreyfingunum á stýrinu. Þá átti ég einnig Bragga, GS, GSA og BX. Mig langar að fá að spyrja þig nokkurra spurninga. Ég var nefnilega að kaupa diesel bíl, Nissan Terrano “99, en ég hef einungis átt bensínbíla til þessa. Hvernig á ég að keyra hann m.t.t. eyðslu og m.t.t. þess að fara vel með mótorinn? Hvernig er viðhaldi háttað. Þ.e. olíuskipti á vél, skipti á olíusíu, smursíu og þessháttar. Í bílnum er tölvukubbur sem verið hefur frá upphafi. Bíllinn er ekinn 101.000 km. og hefur alltaf fengið mjög gott viðhald hjá Nissan verkstæði skv. smurbók. Í stuttu máli. Hvað gerir svona kubbur og er eitthvað sem þarf að varast? P.s. Það var skipt um kúplingsdisk og pressu nú í janúar þegar eg keypti bílinn en mér finnst kúplingin hnökra. Þ.e. smá titringur kemur þegar tekið er af stað í 1. gír. Er mögulegt að þetta sé vegna þess að í kúplingsdisknum eru umhverfisvæn efni sem komu í staðin fyrir aspestið? Getur verið að þetta lagist þegar kúplingsdiskurinn hefur aðlagast svinghjólinu? Eða er möguleiki á að þetta geti verið eitthvað annað? Lélegur mótorpúði eða gírkassapúði? Þetta fer ferlega í taugarnar á mér og skemmir alveg ánægjuna sem fylgir því að eignast svona bíl.

Svar: Þú finnur fljótt hvar vélin togar mest, sennilega um 2000 snm. Þegar vélin togar mest er það jafnframt sá snúningshraði sem fer best með vélina. Sem sagt maður notar gírana til að stjórna snúningshraða og vinnslu. Verst fer með vélar þegar þær eru látnar hökta á of litlum snúningi, þ.e. of háum gír. Mín reynsla er sú að smurolíu + síu borgi sig að skipta um á 5000 km fresti þegar dísilvél á í hlut. Ég gef ekki mikið fyrir ýmsar yfirlýsingar um að lengri notkun sé hagkvæm með vandaðri (dýrari) smurolíu - mín reynsla er sú að það borgi sig að nota ódýrustu smurolíuna (Comma fyrir dísil) og skipta oftar. Kubburinn stjórnar ýmsum ferlum sem eiga að samræma innsprautun (tíma) olíuverks og viðbrögð pústþjöppu (turbó) þannig að afl vélarinnar aukist. Áhrif kubba eru mjög mismunandi mikil (eftir framleiðendum o.fl.). Varðandi kúplinguna: Svona hnökrar verða oftast vegna þess að olía nær að komast á disk eða pressu. Olía getur lekið út með sveifaráspakkdós aftan á vélinni. Oft má sjá merki þess á samskeytum vélar og gírkassa/kúplingshúss - láttu skoða það næst þegar bílnum er lyft.

Spurt: Sæll, Ég ek um á bmw 750il, innfluttur okt 2003. Þannig er mál með vexti að hann heggur svo þegar hann skiptir sér, og fólk vill meina að þetta séu diskarnir inní skiptingunni. Núna er þetta minn fyrsti ssk bíll, þannig að ég hef sama og ekkert vit á þessu. Svo núna er hann farin að snuða og gefa mér augljós merki um það að þetta sé málið, en kostar hrottalegann pening en hinsvegar þá heyrði ég frá gæja sem á 735 og þetta var svipað hjá honum, og hann skipti um olíu og síu og þetta lagaðist ??? Getur það verið rétt? Svona áður en ég fer að sóa hreinlega tíma í það að spá í því… Er ekkert viss um að það þurfi, síðast þegar ég skoðaði á kvarðann á skiptingunni þá fannst mér jafnvel of mikið á henni sem að ég veit að fer ílla með hana, en það var eftir essó smurstöðina í hfj … En jæja það væri kanski gaman að heyra hvort að þú tryðir því að olíu og síuskipti gætu breytt einhverju ? (Vantar helst að hafa bílinn svo ég komist vestur á sjóinn er í rvk), kveðja, Árdís.

Svar: Það er þekkt að yfirfylling skiptingar, jafnvel með hálfum lítra, geti orsakað truflanir (þær verða vegna froðumyndunar). Það er líka þekkt að vanstillt vél getur orsakað högg þegar sett er í gír - en snuðið bendir til að það sé ekki tilfellið hjá þér. Í þínum sporum myndi ég láta endurnýja síu og vökva í skiptingunni. Það þarf ekki að kosta svo rosalega mikið, en gæti hugsanlega breytt einhverju (þótt ég reyndar efist um að það í þínu tilviki af lýsingunni að dæma) - hjá smurstöðinni Klöpp í Múlahverfinu eru menn sem kunna þetta og hafa til þess réttu tækin, svo ég nefni dæmi. Breytist ekkert við það er ekki um annað að ræða en að taka skiptinguna upp - og það kostar hins vegar helling svo olíu/síu-skiptin eru tilraunarinnar virði.

Spurt: Sæll Leó. Ég rambaði inn á síðuna þína og sá að þú svarar fyrirspurnum, vandamálum. Ég hef verið að leita að upplýsingum um hvernig magnetukveikja virkar í einhverju fræðiriti eða blaði, (kveikja eins og er í vélsleðum og mótorhjólum, engar platínur ), en það gengur illa að finna slíkt. Ég er með þetta svona nokkurn vegin hvernig þetta virkar en vantar td. Hvað er spennan há (og amper) frá magnetu á sveifarás (kannski breytileg eftir snúningshraða), hvernig virkar cd-kubburinn og er hægt að mæla spennu frá honum eða finna með mælingu hvort hann sé í lagi? Þó að maður sé með rafmagnsteikningu yfir tækið þá er sjaldan eða aldrei sýnd teikning yfir cd-kubbinn. Ég er með vélsleðamótor og fæ litla spennu frá magnetu (er með vasaljósaperu 2.4v sem kveiknar á þannig að spennan er ekki mikil, kannski er hún rétt)? Frá henni tengist í cd-kubbinn en frá honum í háspennukefli fæ ég enga spennu (nota sömu peru), er ég að gera eitthvað sem vit er í, er til góð aðferð til að leiða sig í gegnum svona kveikjukerfi? Þetta er Arctic Cat Jag Special 440 árgerð 1991. Kokusan held ég að magnetan heiti. Ég fæ ekki neista á kertin. Það er ekki alveg komið að gangsetningu hjá mér, (er að gera sleðan upp) vélin er hálf strípuð, vantar blöndunga, púst o.fl, og ætla að fá helst neista (fá rafkerfið til að virka rétt) áður en ég fer að reyna gangsetningu. Hvernig virkar megnetu-kerfi í svona tvígengisvélum? Hvað gerir cd-kubburinn? Er hægt að finna upplýsingar um svona kerfi eða teikningar td. á netinu?

Svar: Það er ekki hægt að prófa magnetu nema við snúning og kubbinn er ekki hægt að prófa nema með sérstökum búnaði/mæli og teikningu. Án þess að þora að fullyrða það þá minnir mig að þetta magnetukerfi hjá þér sé það sama eða svipað og var í Kawasaki og Yamaha um 1990. Í eldri tvígengisvélum (mótorhjólum) gat verið brösótt að eiga við platínurnar en eftir að rafeindabúnaðurinn kom í þeirra stað er yfirleitt lítið um bilanir í þessum búnaði. Það sem hefur bilað hjá mér t.d. var einu sinni háspennukefli í Honda XBR - og ég man einungis eftir því vegna þess hve keflið var svakalega dýrt í umboðinu. Í þínum sporum myndi ég láta kveikjukerfið mæta afgangi og sjá hvort það virkar ekki eðlilega þegar dótið er komið saman og hægt að prófa gangsetningu á eðlilegan hátt. (Ég minnist þess frá mínu mótorhjólaskeiði að hægt var að sækja (download) viðgerðarhandbækur t.d. fyrir Yamaha á netsíðunni: http://www.geocities.com/lucky_142/

Þú getur líka prófað að setja eftirfarandi leitarstreng inn á Google- leitarvélina: <CD Ignation chip wiring diagram> og skoðað það sem út úr því kemur. En hér er svar við því sem þú spurðir um megnetukveikjuna sem slíka: Kveikjukerfi með magnetu er í öllum aðalatriðum eins og hefðbundin neistakerfi með kambstýrðri kveikju. Helsti munurinn er sá að magnetan er rafall (rak- eða riðstraums) sem framleiðir strauminn sem þarf til að mynda neistann, þ.e. að byggja upp spennu í vöfum háspennukeflis. Til að neisti hlaupi á kerti þarf að rjúfa straumrásina í háspennukeflinu þegar stimpillinn hefur lokið þjöppun. Til þess er notaður rofi sem kambur á sveifarási stjórnar (platínur). Til þess að rofinn virki sem slíkur og neistinn hlaupi ekki á milli snertla hans og eyðileggi þá með neistabruna er þéttirinn. (Í nýrri rafeindastýrðum kveikikerfum er samrás (kubbur) í stað platína og þau nýjustu eru ,,kveikjulaus"). Með magnetukveikju þarf ekki rafgeymi til að gangsetja vél og kostur þessa búnaðar er hve lítinn snúningshraða hann þarf til að mynda nægilega kröftugan neista fyrir gangsetningu. Raftengingar eru eins og í hefðbundnu kveikjukerfi. Straumur frá sviss fer inn á plús-pól háspennukeflis og leiðslan frá mínus-pól þess tengist rofa magnetunnar á sama tengi og þéttirinn. (Stundum er leiðsla frá kveikjuflýti á þessu sama tengi). Rofinn (platínurnar) rýfur jarðsambandið til háspennukeflisins og fasti hluti þeirra þarf því að hafa jörð (mælda). Í stað platína sem slitna og eyðast vegna snertingar og sem þýðir að bil þeirra þarf að stilla með vissu millibili eru notaður rafeindarofi, annars vegar ljósbrotsrofi (fótósella) en hins vegar segulsviðsrofi. Virknin er sú sama en engir snertifletir og því viðhaldsfrír búnaður og þéttir óþarfur. Í þínu tilfelli er CD-kubburinn allt í senn, rofi, þéttir, spennir og tímastýring. Frá magnetunni liggja 3 vírar í kveikjuna/CD-kubbinn, einn þeirra er jörð, annar er straumur og sá þriðji er tímastýring. Frá CD-kubbnum liggja 2 leiðslur að háspennukeflinu. Önnur tengist plús-pólnum en hin mínus-pólnum. Tilgangurinn með CD-kveikju (Capacitive Discharge = mögnun) er að bæta upp veikan neista á lágum snúningshraða og mynda virkari stýringu neistans á miklum snúningshraða. Kubburinn magnar upp 12 volt í um eða yfir 250 volt og sendir sem örstuttan spennupúls inn á háspennukeflið sem aftur eykur spennuna í um og yfir 25-30 þús. volt - og jafnvel meira. Árangurinn verður sterkari neisti sem auk þess varir skemur eða einungis um 10-12 míkrósekúndur = milljónasti hluti úr sekúndu, (og þess vegna er bil á kertum með rafeindakveikju haft meira en með platínukveikju - í stað 0,6 - 0,8 mm er bilið haft 1 - 1,3 mm). Tvennt má nefna hér að endingu: Einn af helstu kostum þess að nota rafeindabúnað til að magna neista er hve skamman tíma margfalt sterkari neisti varir en það gerir ,t.d. einnig kleift að hleypa mörgum neistum fyrir hverja brunalotu og minnka þannig afgasmengun til muna við lægri snúningshraða. En til að þeim árangri verði náð þarf sérstaka gerð af háspennukefli, kefli með minnaa innra viðnám í vöfum (low resistant coil). Það er skýringin á því hvers vegna háspennukefli fyrir platínukveikju henta yfirleitt ekki fyrir rafeindakveikju. Og í lokin er ástæða til að vara við því að ákveðinni hættu stafar af þessum magnetukveikjum (og rafeindakveikjum yfirleitt) því spennan sem myndast frá þeim getur verið mjög há (jafnvel 40-60 þúsund volt) og slíkt stuð getur valdið hjartastoppi og dauða.

Spurt: Sæll Leó. Ég keypti nýlega lítið ekinn Ford Bronco II af ágerð 1993. Það er einhver bilun í ljósabúnaðinum þannig að ég get kveikt aðalljósin og skipt á milli lága og háa geislans en fæ engin ljós í mælaborðið né afturljós. Hins vegar virka afturljósin með ,,Hazard" ljósunum. Ég hef ljósarofann grunaðann en maður þurfti að skarka í honum til að fá mælaborðsljósin til að virka þar til þau hurfu alveg. Myndurðu halda að ég fengi þetta í lag með því að endurnýja ljósrofann?

Svar: Ljósarofinn í þessum Ford-bílum er ekki merkilegur og viðnámsgormurinn fyrir styrkleikastillingu mælaborðsljósanna er yfirleitt það sem gefur sig fyrst. Hins vegar stemmir lýsingin ekki við ónýtan ljósrofa, þ.e. að segja afturljósin (biðljósin að framan lýsa örugglega ekki heldur - þekki ég þetta rétt). Í þessa bíla voru sett dagljós hjá umboðinu á sínum tíma (Glóbus í þínu tilviki). Þú nefnir það ekki í bréfinu en ég geri ráð fyrir því að dagljósabúnaðurinn virki ekki. Sá búnaður hefur valdið alls konar draugagangi. Byrjaðu á því að skoða straumlokuna fyrir dagljósin sem á að vera í húddinu nærri hvalbaknum bílstjóramegin. Á straumlokunni sjálfri er 15 ampera öryggi sem gæti verið sambandslaust vegna útfellingar eða brunnið. Annað 15 ampera öryggi er á straumleiðslunni á milli startpungsins og straumlokunnar. Mig grunar að þarna sé bilunin sem þú leitar að en fáirðu dagljósin til að virka koma biðljósin á um leið. Hins vegar gætirðu þurft að endurnýja ljósarofann vegna mælaborðsljósanna - hann fæst í Bílanausti/N1.

Aftur á aðalsíðu