Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 11

29-01-05

(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti á leoemm hjá simnet.is).

(Spurt:) Til þeirra sem hafa verið að pæla í heitari kambás fyrir 350 Chevrolet eftir lestur greinar minnar um ,,Tjúnun 350 Chevrolet" í TÆKNIMÁLUM; farið að mínum ráðum og lesið leiðbeiningar framleiðanda kambáss um notkunarsvið auk þess að endurnýja tímagírinn (keðju/hjól) um leið með sveifaráshjóli með þremur kílsporum (Clover, Crane o.fl.). en hafa síðan lent í vandræðum með að tíma kambásinn inn fyrir vélina - eru eftirfarandi skilaboð, af gefnu tilefni:

(Svar:) Með hverjum kambási fylgir innstillingarseðill fyrir tímastillingu. Ástæða þess að nauðsynlegt er að ganga úr skugga um ventlatímann er að margar þessara véla eru ,,aftjúnaðar" með seinkun ventlatíma, ýmist 4 eða 8 gráður, vegna mengunarvarna. Þar að auki geta tímamerkingar á trissu verið ónákvæmar svo að skakki nokkrum gráðum. Af því leiðir að þegar nýr og heitari kambás er settur í vél er ekki hægt að treysta upprunalegum tímamerkjum eigi að tryggja að vélin skili hámarksafli. Rangan tíma á nýjum kambási má oft merkja á soginu í lausagangi, mælist það lágt t.d. 12-14 " Hg (í stað 17-18 " Hg) er ástæða til að tjékka tímann. Til að stilla tímann inn réttan þarf sérhæfð áhöld, gráðuhjól, fylgni-mikrómæli og stoppara í kertagat til að finna toppstöðu stimpils (auðvelt að búa til úr gömlu kerti). Jafnframt þarf að nota massíva undirlyftu fyrir innventil á 1. sílindra til að mæling opnunar sé marktæk. Án þessara áhalda er ekki hægt að vinna verkið. Í handbókum og leiðbeiningargreinum í tímaritum er oft talað um tvær aðferðir við að tíma inn kambás; annars vegar ,,intake valve centerline" en hins vegar frá 0.050" opnun og lokun í gráðum til að finna fulla opnun innventils. Fyrri aðferðin, en hún var áður notuð þegar ekki lágu fyrir upplýsingar frá framleiðanda kambáss, er úrelt og gildir ekki lengur eftir að farið er að renna kamba með tölvustýrðum tækjum. Ástæðan er sú að kambarnir eru ekki lengur samhverfir (symmetrical) - uppkamburinn er iðulega brattari en niðurkamburinn. Málið snýst um að finna fyrst raunverulega toppstöðu stimpils á sílindra nr. 1. Það er gert með því að snúa vélinni réttsælis og rangsælis á stoppara sem skrúfaður er í kertagatið. Með gráðuhjólinu er fundin sú staða þar sem stimpillinn stöðvast á jöfnum gráðum báðu megin við TDC. Helmingur gráðanna á milli stoppanna er rétt TDC = 0°. Þegar gráðuhjólið hefur verið still á 0° á mældu TDC-stöðunni er hægt að mæla hvenær innventill sílindra nr. 1 er galopinn. Á innstillingarseðli kambássins eru gefnar upp gráður fyrir opnunina. Einfaldast er að skýra aðferðina með því að mæld er opnun ventilsins í gráðum frá því hann opnar og þar til hann lokar. Miðja þeirrar mælingar er mesta opnun ventilsins. Á seðlinum stendur gráðustaðan fyrir fulla opnun. Með mismunandi kílsporum á sveifaráss-tannhjólinu á að vera hægt að stilla þennan tíma inn (fráviksmörk eru yfirleitt talin viðunandi plús/mínus 1-2 gráður). Fyrir kemur að þriggja kílspora tannhjól fyrir sveifarás nægir ekki til að ná réttum tíma (kílsporin eru; ,,orginal tímamerki (punktur), 2° fljótari (þríhyrningur) og 2° seinni (ferningur). Nákvæmari stilling fæst með því að nota hjámiðjukíl eða hjámiðjufóðringar fyrir boltana sem halda kambáss-tannhjólinu. Þetta er nákvæmnisverk og til þess að vinna það af öryggi þarf viðkomandi að skilja tilganginn og aðferðina. Það skýrir ef til vill nákvæmni þessarar innstillingar að ein tönn á tímahjóli jafngildir yfirleitt 16° ventlatíma. Ef einhver vafi er fyrir hendi borgar sig að fela fagmanni verkið og undir engum kringumstæðum mæli ég með því að þetta sé gert með vélina í bílnum.

Spurt: þakka þér góð ráð hér áður fyrr, en ég er nú kominn með Volvo 240 sem er í uppgerð hjá mér. Þá var ég að spá í það hvernig ætti að vinna niður ryðbletti sem eru hér og þar á honum, (mjög týpískir blettir eftir steinkast) Aðallega hvort ætti að pússa þá alveg niður og grunna eða eitthvað svoleiðis og svo hvað skuli setja yfir og/eða grunna með? Málið er að hafa þetta sem best og þetta á ekki að smita aftur út frá sér aftur eins og maður vill hafa fínan fornbíl! Hvernig væri best að höndla þetta mál?

Svar: Viðgerð á blettum vegna ryðupphlaups er vandasamt verk sem aðrir en fagmenn ráða sjaldan við þannig að vel sé. Ryð þarf að hreinsa og uppræta - það stækkar blettina iðulega talvert; brúnir verður að slípa niður, réttan grunn þarf að nota (sem er bannað að selja öðrum en fagmönnum); blettinn þarf að fylla upp með fylliefni, slípa niður, grunna á ný og sprauta með lakki af réttum lit. Blettun er vandasamasta verkið við bílamálun og krefst m.a. sérstakrar lakksprautu, sérstakrar þekkingar og tækni og sérstakra efna til að afmá samskeyti. Illa blettaður bíll er iðulega ljótari en óblettaður. Niðurstaða: Sé bíllinn einhvers virði ætti að fá tilboð fagmanns í lakkviðgerð eða heilsprautun.

Spurt: Ég er með Audi sem farinn er að reskjast. Það hverfur vökvi af stýriskerfinu án þess að greinileg merki um leka sjáist. Mér er sagt að stýrisvélin sé ónýt. Ég er ekki alveg sáttur við þá ,,sjúkdómsgreiningu" og botna ekki í hvað verður af vökvanum. Þess vegna leita ég til þín og spyr hvort það geti verið að stýrisvélin sé ónýt?

Svar: Í þessum Audi er tannstangarstýrisvél (að öllum líkindum frá ZF). Þegar þessar stýrisvélar hafa slitnað lekur út úr endum þeirra í ákveðinni stöðu þegar hjól fjaðrar á ferð. Það er ástæðan fyrir því að stundum er engin pollur sjáanlegur undir bílnum. Væri stýrisvélin skoðuð myndi sjást merki um lekann sem smit á gúmhlífunum á endum hennar. Sé jafnframt merkjanlegt slag í stýri eða högg þegar ekið er hægt yfir brúnir (og búið að ganga úr skugga um að það sé ekki vegna slits í hjöruliðnum á stýrisstönginni) máttu reikna með að stýrisvélin sé ónýt. Það er ekkert hægt að stilla í þessum stýrisvélum en hins vegar hafa þær fengist uppgerðar fyrir hálfvirði. Sé hvorki merkjanlegt slit né sjáanleg merki um leka á stúthosunum skaltu leita vandalega að leka annars staðar - vökvi gæti lekið niður á pústgreinina frá samsteningu lagnar frá stýrisdælunni og brunnið þar og það skýrt hvers vegna ekki myndast pollur undir bílunum.

Spurt: Las einhvers staðar eftir þig, eða haft eftir þér, um nauðsyn þess að endurnýja kælivökva reglulega á tveggja ára fresti vegna þess að hann súrni og tæri hedd úr áli með alvarlegum afleiðingum (heddpakkning o.fl.). Ég hafði ekki hugsað út í þetta en þegar ég fór að skoða handbókina sem fylgir mínum BMW sé ég að þar stendur þetta skýrum stöfum. Aldrei varð ég var við að umboðsverkstæðið sem ég skipti við á ábyrgðartímanum endurnýjaði kælivökvann frekar en bremsuvökvann en í handbókinni er einnig fyrirmæli um að hann skuli endurnýja. Á venjulegur bíleigandi að þurfa að hafa áhyggjur af svona tæknilegum hlutum - eiga ekki verkstæðin eða þjónustustöðvar að sjá um þessi mál - erum við ekki að borga fyrir sérþekkingu þeirra?

Svar: Af einhverjum ástæðum hafa íslensk verkstæði, með nokkrum undantekningum, trassað þennan þátt í forvarnarviðhaldi. Ég kann engar skýringar á því, t.d. hef ég ekki fundið neina skýringu á tregðu margra verkstæða, jafnvel umboðsverkstæða, gagnvart því að endurnýja bremsuvökva en get mér þess til að þau hafi ekki þau einföldu áhöld sem gera það bæði fljótlegt og einfalt. Ástæða er til að benda bíleigendum á að endurnýjun kælivökvans er nauðsynleg jafnvel þótt ekki sé álhedd á vélinni. Ástæða er til að benda á að eigendur Ford bíla, t.d. hafa lent í óskemmtilegum málum, vegna tæringar (leka) þótt hedd séu úr stáli. Á mörgum Ford-vélum (og reyndar fleiri) er tímagírslokið hluti af kælvatnskerfinu og það er úr áli. Súr kælivökvi hefur tært flötinn á lokinu sem þéttir á móti blokkinni og af því hefur orðið leki - og í einu tilviki sem ég veit um (Mustang 5.0) urðu talsverðar skemmdir á vélinni vegna yfirhitunar. Það gildir um þetta atriði eins og fleira að eigendur bíla þurfa að kynna sér leiðbeiningar í handbók, en á því virðist verulegur misbrestur, og þeir verða, eins og gildir um alla þjónustu, að hafa ákveðið eftirlit með því að hún sé framkvæmd á viðunandi hátt. Gæði þjónustu bílaverkstæða eru misjöfn eins og gengur.

Spurt: Ég á nýlegan japanskan fólksbíl. Upplýsingar um smurolíuskipti frá framleiðanda, sem eru á miða á dyrastafnum, eru ekki í samræmi við það sem kemur fram í verklista umboðsins yfir þjónustuskoðun á ábyrgðartíma - samkvæmt umboðinu endist smurolían mun skemur. Mér finnst þetta einkennilegt, sérstaklega þegar þess er gætt að bíleigandi greiðir fyrir þjónustuskoðanir og þar með fyrir smurolíu og síu. Kanntu einhverja skýringu á þessu - er verið að svindla á okkur bíleigendum?

Svar: Skipta má bílvélum í 2 flokka. Annars vegar eru eldri gerðir véla - vélar sem voru hannaðar um 1995 eða fyrr (en þær geta samt verið í tiltölulega nýlegum bílum) en hins vegar nýjustu gerðir bensín- og dísilvéla. Í flokki eldri véla eru bensínvélar með blöndung eða innsprautun í soggrein (1 eða 2 spíssar) og dísilvélar með olíuverk og mekaníska (þrýstivirka) spíssa. Þessar vélar sótmenga smurolíu þannig að skipta þarf um smurolíu og smursíu á 5000- 7500 km fresti til að tryggja eðlilega endingu vélanna - hver sem tilmæli framleiðandans kunna að vera. Nýjustu bensín- og dísilvélar, þær sem standast kröfur um mengunarvarnir samkvæmt þeim stöðlum sem nú gilda (frá áramótum 2004/2005) í Bandaríkjunum og Evrópu (ES), eru umhverfisvænni en eldri gerðir véla. Því minni mengun sem er í útblæstri véla því minna sót og útfellingarefni berast í smurolíuna. Nýjustu dísilvélar með forðagrein (common Rail) í stað olíuverks og rafstýrða spíssa í stað þrýstivirkra eru með allt að 95% minna af mengunarefnum í útblæstri en t.d. dísilvélar í bílum af árgerð 1998. Auk þess eru notaðar virkari eldsneytissíur og mun virkari loftsíur við nýjustu brunavélar, t.d. eldsneytissíur sem stöðva agnir af stærðinni 3-5 míkron í stað 15-20 míkron áður. Hreinna eldsneyti í brunahólfum minnkar mengun í útblæstri og jafmframt mettun smurolíu. Sem dæmi um þessa þróun má nefna nýlegan Land Rover dísil (Td5) sem er með 2 smurolíusíur, flóttaafls-síu sem skipt er um á 20 þús. km. fresti og aðalsíu sem skipt er um á 60 þús. km. fresti. Við þetta má bæta að til er eins konar millistig, þ.e. eldri gerðir véla sem eru með uppfærðum eldsneytisbúnaði sem ætlað er að lengja líftíma þeirra gagnvart mengunarstöðlum, t.d. í ódýrari gerðum nýlegra bíla. Varðandi þá bíla er næsta lítið að marka þær upplýsingar sem framleiðendur gefa sem leiðbeinandi um smurolíuskipti þar sem þær miðast fremur við að fullnægja kröfum svokallaðrar ,,förgunarvísitölu" fremur en að tryggja sem besta endingu vélarinnar. Förgunarvísitala (á ensku ,,Disposal index") hvetur bílaframleiðendur til að minnka magn endurnýjanlegra vökva sem fylgir viðhaldi bíls og er þáttur í umhverfisvernd. Förgunarvísitalan veldur því að framleiðendur reyna að teygja smurolíuskipti sem mest, jafnvel þótt um eldri hönnun vélar sé að ræða enda hafa þeir ekki teljandi áhyggjur af vélinni endist hún ábyrgðartímann. Olíufélögin hafa auglýst smurolíur sem eiga að ,,endast" lengur (dýrari). Áhrif förgunarvísitölunnar sjást t.d. á stöðugt minni fyrirferð smurolíusía, minna magni smurolíu á vélum, minni magni kælivökva o.s.frv. Minna magn þessara vökva lækkar förgunarvísitöluna en þýðir að meiri hætta er á að vél skemmist ef eitthvað bregður út af. Erlendis þar sem fyrirtæki, t.d. kaupleigufyrirtæki, reka bílaflota sem endurnýjaður er reglulega, skiptir förgunarvísitalan miklu máli varðandi reksturskostnað sem getur skipt sköpum við ákvörðun um kaup á bíltegund (í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, birtir fyrirtæki árlega útreikning á reksturskostnaði einstakra bílgerða sem vekur verðskuldaða athygli og hefur áhrif á val þeirra sem kaupa bíla, kaupleigja þá eða bjóða með rekstrarleigu). Af þessu leiðir þrýsting á bílaframleiðendur að m.a. gefa upp sem ,,hagkvæmasta" smurolíunotkun og það er eins víst að hún hentar ekki alls staðar. Það getur skýrt ákvörðun verkstæðisformanna að mæla með örari smurolíuskiptum sem þá er byggð á reynslu þeirra og þá væntanlega til að tryggja eðlilega endingu vélar og þar með hagsmuni bíleiganda.

Spurt: Hvert er álit þitt á jepplingnum Fod Escape - er væntanleg umsögn um hann á næstunni á vefsíðunni þinni. Hvar finnur maður þær upplýsingar um gæði bíla á Netinu, sem stundum er vitnað til, m.a. hjá þér

Svar: Ég er hættur að reynsluaka bílum. Umboðin fá þá þjónustu innifalda í auglýsingaverði hjá Morgunblaðinu. Þau virðast ekki hafa frekari áhuga á slíkri þjónustu við bílakaupendur, a.m.k. ekki minni þjónustu (sem er ekki ókeypis). Engu að síður mun ég fjalla um einstaka bíla eftir því sem ég nenni og hef áhuga á. Ford Escape er ekki á lista hjá mér yfir áhugaverða bíla. Sérstakt bandarískt fyrirtæki, J.D. Power & Assoc. fylgist með gæðum alls konar vöru, m.a. bíla. J.D. Power er þekktast og virtast slíkra fyrirtækja og oftast vitnað til, m.a. á vefsíðunni minni. Veffangið er http://www.jdpower.com og síðan er bara að fikra sig áfram og læra á innsláttarkerfið hjá þeim. Annar Vefur sem oft er vitnað til, en þar eru umsagnir bandarískra eigenda einstakra bílgerða, nota margir til að forðast að kaupa illa heppnaða bíla. Veffangið er http://www.carreview.com og ef þú vilt kynna þér sérstaklega það sem sagt er um Ford Escape er það að finna á http://www.carreview.com/SUV/Ford/PRD_49254_1524cex.aspx. Viðbót 2008: Nýi Ford Escape hefur hlotið mjög lofsamlega dóma og þeir sem þegar hafa ekið 2006 árgerðinni á annaðhundrað þús. km. eru ánægðir með bílinn (Umboðið er hins vegar þekkt fyrir dýra þjónustu).

Spurt: Bíllinn minn er ekki með dagljós og mér skilst að það sé ekki skylda lengur. Er mikið mál að setja dagljósabúnað í bíl? Gæti ég gert það sjálfur?

Svar: Síðast þegar ég vissi til fékkst ,,universal" dagljósasett í Bílanausti og gott ef ekki einnig hjá Aukarafi. Settinu fylgir tengimynd. Sæmilega handlaginn maður með rétt verkfæri ætti að geta tengt þetta skammlaust en það er talsvert verk og getur þýtt að rífa þurfi mælaborð misjafnlega mikið og til þess þarf kunnáttu til að ekki verði af skemmdir. Ég myndi mæla með því að fagmanni sé falið verkið - ekki síst til að tryggja öruggan frágang og að ,,rétt vinnubrögð" geti ekki valdið skaða á tölvubúnaði og innréttingu bíls (eða íkveikju). Tvennt finnst mér ástæða til að benda á í sambandi við sjálfvirk dagljós: Annars vegar að stýristraumur/stýrijörð að straumloku sé fenginn frá smurljósrofa vélarinnar. Það tryggir að ökuljósin kvikna ekki fyrr en vélin er komin í gang en það getur verið talsvert atriði þegar vél er gangsett í kulda og eykur endingu rafgeymisins. Hitt atriðið er að haga tengingu þannig að biðljós lýsi með ökuljósum. Þetta er öryggisatiði sem gerir það að verkum að ,,eineigður" bíll verður ekki algjörlega ljóslaus öðru megin að framan.

(Spurt:) Vildi bara benda þér á að það er verið að stela efni af vefsíðunni þinni - sendi þér nokkur sýnishorn sem eru ótrúlega ósvífin dæmi um ritstuld.

Svar: Þakka þér fyrir ábendinguna - það kom sams konar ábending frá vefstjóra Fornbílaklúbbsins sem benti mér á vefsíðu þar sem einhver náungi hafði einfaldlega afritað tugi greina af minni vefsíðu og myndir af vefsíðu Fornbílaklúbbsins og hlaðið niður og sett upp sem sitt eigið efni á nýrri vefsíðu. Eftir að fyrirtækinu Netheimum, sem hýsti þá ákveðnu síðu, var gert viðvart hafði það snör handtök og lokaði veffanginu. Vegna tímaskorts hef ég ekki getað fylgt eftir fleiri ábendingum sem mér hafa borist - maður er að reyna að halda þessari vefsíðu úti sem einstaklingsframtaki og án stuðningsaðila (auglýsenda) meðfram fullri vinnu og finnst ,vægast sagt, andskoti hart þegar efni er stolið af henni og birt á vefsíðum, án þess að höfundar sé getið, - og tekur nú steininn úr þegar efninu er stolið til að birta á vefsíðum sem jafnframt birta auglýsingar (þótt reglan muni vera sú, eftir því sem mér er sagt, að 95% auglýsinga á einkavefsíðum sé til að sýnast því engin greiðsla fáist fyrir þær). Getur verið að engin fræðsla sé veitt í grunnskólum um höfundarrétt? Getur verið að grunnskólakennarar viti sjálfir næsta lítið um þau lög og reglur sem gilda um meðferð hugverka annarra? Ég bara spyr. En ég þakka þér og öðrum sem fylgjast með þessu og gera viðvart.

Spurt: Í einum af pistlum þínum fyrir nokkru fjallaðir þú um ábyrgð og þjónustu í sambandi við innflutning ,,grárra" bíla frá Ameríku. Hafi ég skilið þig rétt gerðir þú ekki greinarmun á ábyrgð viðurkennds innflytjanda (umboðs) og aðila sem flytur inn nýja ameríska bíla án þess að hafa til þess umboð framleiðanda. Mér finnast þetta skrýtin skilaboð því ég hefði haldið, og las um það grein í Morgunblaðinu, að því fylgdi áhætta að kaupa nýjan bíl á ,,gráa markaðnum" og að umboðið væri trygging fyrir því að gallar, sem kynnu að leynast í nýjum bíl, fengjust bættir kaupanda að kostnaðarlausu.

Svar: Ég hef ekki hvatt fólk til þess að kaupa nýja bíla á ,,gráa markaðnum". Hins vegar er ekkert sem bannar fólki að kaupa ,,gráan" bíl og taka á sig áhættu af verksmiðjugöllum, ekki síst þegar slíkir nýir bílar eru boðnir á mun hagkvæmara verði en hjá skráðu umboði. Til að það valdi engum miskilningi bendi ég á að í pistlinum, sem vísað er til, var ég að fjalla um ákveðið fyrirtæki, sem ég nafngreindi, þ.e. IB á Selfossi, sem flytur inn nýja ameríska bíla frá Kanada (reyndar flytur það fyrirtæki inn flesta þeirra amerísku pallbíla sem keyptir eru hérlendis - t.d. fleiri en ,,umboðin" samanlagt). IB á Selfossi er að því leyti frábrugðið öðrum fyrirtækjum á ,,gráa markaðnum", mér liggur við að segja að það hafi algjöra sérstöðu, að það rekur vel búið verkstæði og þjónustumiðstöð með sérþjálfuðum fagmönnum; tekur ábyrgð á þeim bílum sem það flytur inn og gefur út sérstakt ábyrgðarskírteini, handbók og viðhaldsfyrirmæli fyrir hvern seldan bíl. Kaupendur hafa notið þessarar ábyrgðarverndar og hún hefur tryggt endursöluverð þessara IB-bíla notaðra. Það vill svo til að ég þekki þetta hafandi verið tæknilegur ráðgjafi IB varðandi ábyrgð og ábyrgðarþjónustu og þori að fullyrða að hún gefur þjónustu skráðra umboða (GM, Ford og Chrysler) ekkert eftir. Benda má á í þessu samhengi að um þessar mundir er verið að ræða um breytingar á lögum og reglum um vöruábyrgð framleiðenda. Ég spái því að innan fárra ára muni sú regla gilda að framleiðandi beri ábyrgð á nýrri vöru í ákveðinn tíma án tillits til þess hver hefur haft milligöngu um sölu hennar, t.d. á svipaðan hátt og íslensku kaupalögin segja til um. Og þá verði það regla að geti framleiðandi ekki lagfært gallaða vöru, eða telji sér það ekki hagkvæmt, skuli hann innkalla hana í skiptum fyrir nýja og sjá svo um, með förgun eða eyðingu á annan hátt, að gallaða varan komist ekki aftur í umferð - enda beri hann þá fulla ábyrgð á henni á nýjan leik. Þótt bandarískir bílaframleiðendur hafi reynt að sporna gegn þessum breytingum, því vitað er að þeir svindla á verksmiðjuábyrgð með ýmsum hætti (smáa letrið), tel ég víst að bandarísku neytendasamtökin muni hafa betur og ná þessari breytingu fram. Til vitnis um það bendi ég á nýlega reglugerð EEC (BER) og bandarísku ,,Lemon-lögin" um vernd neytenda gagnvart bílaframleiðendum.

Spurt: Þeir tala ekki vel um þig hjá Ferðaklúbbnum 4x4. Þér hefur ekki dottið í hug að taka niður greinina um hættulegar jeppabreytingar á vefsíðunni þinni til að friður skapist? Ég ætlast ekki til að þú svarir þessu - vildi bara stinga þessu að þér.

Svar: Lögmaður hafði samband við mig og benti mér á að hann hefði prentað út af vefsíðu f4x4 óhróður um mig eftir ákveðinn mann sem tvímælalaust hefði átt að kæra fyrir grófan atvinnuróg gagnvart sjálfstætt starfandi manni með skráð starfsréttindi - ekki síst vegna þess, sem lögmaðurinn sagði, að þessi ákveðni maður, sem er einnig er sjálfstætt starfandi einstaklingur með eigin fyrirtæki eins og ég, hefði fengið innleggi sínu í umræður um mig breytt eftir á (fengið hland fyrir hjartað), sem þó drægi ekkert úr ábyrgð hans. Þú ert ekki sá eini sem hefur bent mér á þetta - ég kippi mér ekkert upp við þótt einhverjir orðhákar verði samtökum á borð við f4x4 til skammar - þetta er vandamál allra félaga og viðkomandi stjórnar að glíma við það, t.d. með eðlilegri ritstjórn á vefsíðu. Ég hef bent á að ekki skyldi dæma félagið f4x4 af framkomu þessara fáu dóna sem vaða uppi á vefsíðu þess - þessi félagsskapur hefur látið margt gott af sér leiða og á meðal félaga þar eru menn sem vita að mínar skoðanir um jeppabreytingar eru ekki út í bláinn. Það gleymist gjarnan að gagnrýni mín á það sem ég nefndi ,,hættulegar jeppabreytingar" var sett fram og greinilega merkt sem skoðun mín. Engu að síður urðu engar málefnalegar umræður um þá skoðun eða skoðanir - einungis óhróður og skítkast sem beindist að mér persónulega fyrir að setja fram ákveðna skoðun. Eigum við ekki bara að þakka fyrir á meðan Ferðaklúbburinn 4x4 skiptir sér af jeppamálum en stjórnar ekki tjáningarfrelsi í landinu?

Spurt: Ég var að festa mér Land Rover Discovery Series II, árgerð 2000, með diselvélinni, leðurklæddan að innan. Hann er ekki sjálfskiptur og ekki með tveimur sætum aftast, fimm manna s.s. Síðan rakst ég fyrir tilviljun inn á síðuna þína núna í kvöld og skelfing hlýnaði mér um hjartaræturnar að lesa umfjöllun þína um þennan bíl (reyndar mun bíllinn sem þú prófaðir hafa verið með bensínvélinni). Ég átti tvo Range Rover-bíla þegar ég var rétt rúmlega tvítugur, nú er ég fertugur. Alltaf dreymdi mig um að eignast Range Rover aftur, en að sjálfsögðu hefur fjárhagurinn ekki leyft það. Það má segja að ég sé að láta langþráðan draum rætast með því að kaupa þennan Land Rover Discovery, miðað við lýsinguna þína og samanburðinn í umfjölluninni þinni. Þannig að ég er ákaflega glaður, hreinn bónus, að lesa heimasíðuna þína. Hins vegar hafa margir kunningjar mínir ráðlagt mér að láta vera að kaupa mér Discovery, hafa sagt að hann væri bilanagjarn þ.e.a.s. töluvert væri um smábilanir í þessum bílum. Síðan hef ég talað við aðra sem hafa hælt þessum bílum mjög og sagt mér óhræddum að kaupa slíkan. Mér þætti gaman og fróðlegt að vita hvað þú hefur um þessi misvísandi orð um Land Rover í dag. Jæja. Hvað segirðu um þessi kaup mín. Má ég eiga von á því að vera með hann á verkstæði af og til, hann er ekinn rétt um 100.000 km ?

Svar: Þetta með bilanatíðnina á við rök að styðjast. Bretinn hefur lengi verið frægur fyrir vondan frágang. Vandræði vegna vinnubragðanna hafa verið misjafnlega mikil eftir tímabilum - en um þau má lesa í greininni minni um sögu Land Rover. Ég þekki þetta sjálfur sem fyrrum Range-Rover eigandi - en mér fannst þetta aldrei alvarlegt mál enda gerði ég við mína bíla sjálfur - það var helst að fólk sem ekki gat skipt um peru eða bankað í sambandslaust ljós, kvartaði og kveinaði. Á vefsíðunni minni er grein um Defender og af henni má sjá að það fara ekki margir í föt hönnuða Rover t.d. varðandi fjöðrunina eða dísilvélarnar sem eru einhverjir mestu vinnuhestar sem hafa þekkst. Ég hef sem ráðgjafi aðstoðað við að leysa svona frágangsmál en með ákveðnum aðferðum (forvörn við standsetningu nýrra bíla o.fl.) er hægt að koma í veg fyrir óeðlilega bilanatíðni. B&L hefur ekki verið öfundsvert af umboðinu þegar þeir tóku við því af Heklu á sínum tíma, ekki síst vegna þeirra vandræða sem dunið hafa á Rover Group nánast stanslaust í áratugi. En þeir hafa náð góðum tökum á tæknimálunum og, eftir því sem mér er sagt, er þjónusta B&L góð. Nú hefur Ford að vísu eignast Land Rover en við skulum bara vona, fyrir hönd ykkar sem eigið Land Rover, að umboðið verði áfram hjá B&L.

Spurt: Er með eitt vandamál á annars mjög fínum jeppa.Þannig er að hann er að eyuða alveg gríðarlegu magni af bensíni eða um 24 - 26 lítrum í innanbæjar akstri. Ég hef haft samband við nokkur stillingaverkstæði og eru menn nokkuð á því að 16 - 18 lítrar ættu að vera nær lagi á þessum bíl í innanbæjar akstri í afturdrifi og þetta nokkrum gráðum í frost, og sætti ég mig fullkomlega við þá eyðslu. Bíllinn sem um ræðir er: Nissan Terrano V6 3.0L sjálfskiptur á orginal 30" dekkjum með 28 pund í hann er ekinn 178.000km árg 1990. Þetta er okkar annar svona bíll og hinn sem við áttum var alltaf með eyðslu í kring um 17 - 18 lítra í snattinu á veturna og fór niður í 10 á sumrin á þjóðvega akstri á 90 km hraða við kjör aðstæður. Það sem gert hefur verið við bílinn til að reyna að ná niður eyðslu er eftirfarandi: Vélarstillin á stillingarverkstæði ( skipt um kerti og sett K&N loftsía í boxið) Skipt um Oxygen sensor í pústi ( tölva bílsins núllstillt) Nýr rafgeymir og upptekinn alternator (gert á viðurkendu verkstæði) Lesið úr tölvu bílsins og það kom code 55 sem þýðir að ekkert sé að Þetta er manni alveg hulin ráðgáta hve bíllinn eyðir miklu, einhverjar tillögur? Eins og áður sagði áttum við annan svona og hann hrelldi mann ekkert með eyðslu og því var maður óhræddur að kaupa þennan bíl. Við höfum einnig átt Pajero langann 1994 árg með V6 3.0L ( ekki 180 hestafla vélinni ) sjálfskiptan hann var að koma út með 15 - 18 eftir aðstæðum innanbæjar.

Svar: Eftir þessa upptalningu er fátt um fína drætti. Þú ert væntanlega búinn að útiloka bensínleka, að bremsur liggi í og stíflað púst (hálftepptur hvarfakútur gefur engan kóða en stóreykur eyðslu - hvarfakút mun ekki vera skylda að hafa í bíl af árgerð 1990). Byrjaðu á því að mylja innan úr hvarfakútnum. Minnki ekki eyðslan eftir það myndi ég láta tjékka á tímanum því þessi vél er með tímareim og þær hafa átt það til að hoppa yfir um tönn (aflleysi og eyðsla en enginn bilanakóði) en dugi hvorugt skaltu láta tjékka sjálfskiptinguna.

Spurt: Sæll Leó. Ég er nýbúinn að kaupa Mözdu 626 ES-V6 árg. 1994. Það er eitthvað að þjófavörninni (fer
undantekningalaust í gang þegar ég opna með lyklinum). Samlæsingin á hægri framhurð er ekki virk og ef ég
læsi henni ekki, þá fer vörnin ekki í gang þegar ég opna. Getur þetta verið orsökin, eða hugsanlega eitthvað
annað? Þetta er svona það sem angrar mig svolítið, sérlega á morgnana þegar fólkið í kring er komið út í glugga eða út á svalir miður ánægt á svipinn:) Ég þori ekki orðið að læsa helv.hægri framhurðinni. Já, til að
þagga niður í henni þarf ég að opna skottið með lyklinum.

Svar: Það er svolítið erfitt að átta sig á bilun í rafeindakerfum á grundvelli lýsingar einnar saman - umboðið er með sérstakt tæki til að mæla virkni samlæsingakerfisins. Hins vegar, af lýsingu þinni að dæma, þá gæti ástæðan fyrir þessari bilun verið sambandleysi (laus tenging) á læsingarmótornum í hægri framhurðinni eða mótorinn ónýtur. Sé ekki þjónustuumboð fyrir Mazda á þínu svæði skaltu fara á verkstæði sem þjónustar Daewoo en ákveðnar gerðir af þeim eru með sama eða svipaðan samlæsingarbúnað og þeir þekkja þetta vandamál.

Spurt: Góð síða hjá þér. Ég er með Golf ´95 og vetrargangtruflanir. Hann er geymdur í bílskúr frá ca. 18.00 til 08:00 hvern dag en þegur maður fer af stað á morgnana byrjar hann strax að hökta ( mjög mikið, maður vorkennir öxlunum ). Þetta var nákvæmlega eins síðastavetur en í lagi í sumar. Hann er verstur á jöfnum hraða en ef maður er stanslaust að pumpa bensíngjöfina þá gengur fínt. Hann drepur líka á sér í hægagangi en fer alltaf strax í gang. Ég er nýlega búinn að setja ísvara í tankinn en það virðist ekkert hjálpa. Hefurðu einhverjar góðar hugmyndir?

Svar: Þegar vél gengur illa köld en er í lagi heit er í 90% tilvika annað hvort veikur neisti eða veik bensínblanda. Veikur neisti getur verið vegna útfellingar í kveikjuloki, ónýtra kerta, ónýtra kertaþráða eða lélegs háspennukeflis. Á þessum vélum er einn spíss í inngjafarhálsinum á soggreininni. Hitanemi í vatnsganginum á soggreininni og sérstakur kaldræsiloki (kaldræsibúnaður) stjórnar bensínblöndunni þegar vélin er köld þannig að hún verður sterkari á meðan vélin er að hitna (jafngildir innsogi hjá eldri vélum). Mér sýnist af lýsingu þinni að dæma að þessi kaldræsibúnaður sé óvirkur. Flestir bifvélavirkjar vita hvernig þessi búnaður er mældur þannig að þú átt að geta fengið þetta lagfært á næstum hvaða verkstæði sem er - án þess að það setji heimilsbókhaldið í mínus.

Spurt: Komdu sæll Leó. Mér finnst síðan þín góð og margt fróðlegt á henni. Mest hef ég þó gaman að greinunum um Citroen enda er ég mikill aðdáandi þeirra bíla. En ég á í smá vanda með bílinn minn, sem er stórfín Toyota Corolla ´95. Það kemur alltaf bleyta í teppið, afturí farþegameginn. Nú hef ég náð að rekja að bleytan kemur að neðan (fór í bílaþvott með undirvagnsþvotti og fann lyktina af hreinsiefnum í teppinu). Er einhver tappi í botninum á bílnum? Sem gæti þá vantað? Hvernig væri best fyrir mig að leysa vandann? Kærar þakkir.

Svar: Það eru gúmmítappar í botni fótarýmisins báðu megin aftur í. Þeir eru til þess að hægt sé að hleypa vatni niður úr bíl sem hefur flætt. Líklegasta skýringin er sú að annar tappinn hafi losnað. Með lægni er hægt að laga þetta neðanfrá (á lyftu). Ráðlegg þér að fara á smurstöð þar sem eru þjónustuliprir menn (t.d. Smurstöðina Klöpp, sértu í Rvk.) og biðja þá að skoða málið. Hins vegar væri ráðlegast að laga þetta ofanfrá, þótt það kosti að taka þurfi gólfteppið upp því flókann á neðri hlið teppisins er nauðsynlegt að þurrka til að ekki sé stöðug móða á rúðunum að innanverðu.

Spurt: Sæll Leó ! Eg á Oldsmobile Delta 88 árg 87 með 3,8 vél og sjálfskiptingu og er í smá vanda.Þannig er að skiptingin var gerð upp fyrir ca 8þús mílum alveg frá a til ö og kostaði 440 þús.kr. Núna er firsti gírinn farinn að snuða þegar ég tek af stað það heyrist hálfgert urg og víbringur. Eg lét stilla skiptinguna síðasta sumar og hún var góð í smá tíma átt þú eithvað yfir það hvernig á að stilla bandið?

Svar: Urg og ,,vibringur" er örugglega ekki vegna bandsins eða stillingar á því. Sá sem gerði þessa skiptingu upp fyrir 440 þús. ætti að svara fyrir þetta - eftir fullkomna endurbyggingu með endurbótabúnaði og ,,Shift-kit" á jafnvel þessi skipting, að vera í lagi a.m.k. 200 þús. km. 4T60, sem upphaflega nefndist THM 440 (4T60E með rafeindastýringu kom í árgerð 1988), en þetta er drifás (transaxle) fyrir framhjóladrif og er að því leyti sérkennilegur búnaður að hvorki er kambur né pinjón heldur búnaður sem nefnist ,,final drive". Þessi skipting var þekkt fyrir ýmis vandamál í fyrstu sem síðar voru upprættar. Á meðal þeirra voru bilanir í túrbínu (converter) vegna hnoða sem losnuðu og ollu urgi og titringi, hús 2. gírs kúpplingar vildi klikka, plötur brunnu í kúpplingu 4. gírs o.fl. Það er ekkert hægt að stilla í þessari skiptingu í bílnum nema inngjafarbarkann. Það er gert með því að draga upp gaffalsplittið, láta barkann renna í botn, stíga á inngjöfina í botn og sleppa henni. Síðan er barkinn dreginn út þar til finnst fyrir strekkingu, sú staða merkt, t.d. með hvítu leiðréttingalakki, og fest í þeirri stöðu. Frekari stilling við prófun á bílnum er þannig að skiptipunktar færast upp við að strekkja barkann en niður við það að slaka honum. Þetta er mjög nákvæm stilling og því getur jafnvel örlítil færsla valdið því t.d. að skiptingin fer ekki í hæsta gír. Hafir þú grun um að vandamálið (hljóðið) sé vegna 1-2-bandsins, sem er aftast í skiptingunni og heldur föstu í 1. og 2. gír en losar þegar 3. gír tekur við, skaltu fylgjast með hvort hljóðið breytist þegar skiptingin fer í 3. gír. Sé merkjanleg breyting bendir það til þess að bandið haldi ekki. Stilling bandsins er gerð við samsetningu skiptingarinnar með skinnum sem ráða stöðu bandpinnans - sé það ekki rétt gert er fjandinn laus .... Nú veit ég ekki hvar þú ert á landinu en þeir hjá Skiptingu í Keflavík þekkja þessar sjálfskiptingar vel - ég myndi ráðleggja þér, ef þú getur ekki fengið þetta lagfært af þeim sem endurbyggði skiptinguna, að snúa þér til þeirra og kanna hvað komi til greina að gera í stöðunni.

Spurt: Ég hef verið að lesa greinarnar þínar um bílaprófanir og er að velta fyrir mér kaupum á notuðum dísiljeppa. Ég er að pæla í LandCrusier (minni bílnum), Pajero, Musso, Isuzu Trooper eða Nissan Terrano II. Hvert er álit þitt á þessum bílum notuðum?

Svar: Eins og skiljanlegt er þá fjalla bílaprófanir um nýja bíla og er lýsing á því hvernig þeir koma manni fyrir sjónirs sem slíkir. Yfirleitt er bílnum ekið innan við 500 km. Þess vegna er eðlilega ekkert fjallað um frekari reynslu af viðkomandi bíl eða endingu - það er einfaldlega seinni tíma mál. Varðandi þessa ákveðnu bíla get ég bara sagt þér hvert mitt persónulega álit er (mín skoðun) án frekari ábyrgðar: Gleymdu Terrano II með 2,7 lítra dísilvélinni - þær vélar hafa reynst með eindæmum illa, auk þess að vera máttlausar hafa þær hrunið af ýmsu tilefni, t.d. við að of mikil smurolía hefur verið sett á vélina. Ýmis annar búnaður í Terrano II hefur reynst lélegur, t..d. mælaborð o.fl. 3ja lítra vélin sem seinna kom í Terrano II er kraftmeiri en með ótrúlega grófan og leiðinlegan gang. Hér áður fyrr voru Nissan-dísilvélar taldar með því besta á markaðnum, síðan er engu líkara en að Nissan hafi misst tökin á gæðamálunum því dísilvélarnar í jeppunum hafa reynst misheppnaðar, m.a. þurfti að skipta um dísilvélarnar í öllum nýjum Patrol fyrir nokkrum árum. Isuzu Trooper er landbúnaðartæki en ekki ferðajeppi auk þess sem dísilvélarnar hafa reynst makalausir gallagripir. LandCruiser af minni gerðinni er með 4ra sílindra 3ja lítra dísilvél sem er með þeim sprækustu á markaðnum. Hins vegar er bíllinn mjög þröngur og því óþægilegur nema fyrir smávaxið fólk auk þess sem innréttingin er nirfilsleg og ljót. Pajero er einn allra besti ferðabíll sem völ er á og dísilvélarnar, sé vel um þær hugsað, hafa reynst vel. Þú getur fengið notaðan Musso fyrir mjög hagstætt verð. Musso er rúmbetri og þægilegri ferðabíll en LandCruiser. Þótt 2,9 lítra 5 sílindra Benz-dísilvélin í Musso sé ein sú besta sem völ er á, og eins sú sparneytnasta, er sá galli á henni að hún er gamaldags hönnun, með olíuverki og spíssum eins og tíðkuðust á öldinni sem leið, máttlaus, jafnvel með pústþjöppu en þetta er traust vél sé eðlilega um hana hugsað. ,Aflaukandi búnað" umboðsins myndi ég ekki gefa krónu fyrir þar sem hann byggist á fúski sem framleiðandi vélarinnar myndi aldrei samþykkja.

Spurt: Sæll Leó. Keypti nýverið Sierra Pickup sem hefur verið að stríða mér, kom með villumeldingu í mælaborðið “water in fuel” og fór að drepa á sér. Ég hef gert ertirfarandi til að vinna bug á vandanum: Skipt um hráolíusíu (2svar). Sett ísvara út í hráolíuna (ítrekað). Þá er jafnframt búið að ráðleggja mér að setja tvígengisolíu út í hráolíuna, hef ekki gert það. Hef tekið eftir því að hann drepur frekar á sér þegar frost er úti, bíð í smá stund og get svo startað honum aftur. Er úti á landi og hef farið með hann á verkstæði en hér hafa menn afar takmarkaða þekkingu á USA bílum þannig að það skilaði engu (þeir settu hann í tölvu og lásu út af honum og sögðu að allt væri í lagi en samt hélt ljósið áfram að koma og bíllinn á það ennþá til að drepa á sér). Veistu hvað ég get gert?

Svar: Í fyrsta lagi skaltu ekki undir neinum kringumstæðum setja ísvara sem gerður er fyrir bensínvélar á geyminn, þ.e. þessi venjulegi ísvari sem innheldur Ísóprópanól. Hann veldur skemmdum á eldsneytisbúnaði dísilvéla (leysir m.a. upp gúmþéttingar í olíuverkinu). Í öðru lagi skaltu alls ekki setja tvígengisolíu saman við dísilolíuna - það gerir ekkert nema ógagn (kerlingabækur). Böndin berast að geyminum sem þú hefur fengið dísilolíu úr - sú olía er líklegast vatnsmenguð af einhverjum ástæðum. Prófaðu að skipta við aðra bensínstöð og blandaðu 10-15 lítrum af steinolíu út í fullan tank einu sinni. Þú getur fengið sérstakt efni í Bílanausti sem á að eyða raka úr dísilolíu - það er sérstaklega tekið fram á umbúðunum að það sé fyrir dísilvélar (ekki venjulegur ísvari). Settu lítið magn af því efni út í tankinn - yfirleitt nægir 100 ml. Í síuhúsinu (sem fest er á soggreinina) er hólf sem vatn á að safnast fyrir í. Þú hefur væntanlega tæmt það. Í grindinni undir bílstjórastólnum er rafknúin fæðidæla. Það hefur komið fyrir að hún hafi bilað, standi á sér, og getur það lýst sér í svona truflunum, m.a. með því að ,,vatnsljósið" blikki. Á hinn bóginn myndi ég gera ráð fyrir því að um annars konar bilun geti verið að ræða og það sé bara tilviljun að hún komi upp um leið og vatn hefur safnast fyrir í kerfinu. Sú bilun er í svarta boxinu sem er á soggreininni (Injector Driver einnig nefnt Solenoid Driver). Þegar sá búnaður klikkar lýsir það sér m.a. á þennan hátt, vélin drepur á sér í tíma og ótíma og með höppum og glöppum hvort hún næst aftur í gang fyrr en hún hefur náð að kólna. Þú getur lesið um þá bilun á vefsíðunni minni (tæknimál - 6.5 lítra GM diesel). Sýnist þér að það sé vandinn í þínu tilviki geturðu fengið þennan ,,dræver" endurbættan hjá Vélalandi og látið setja hann í á næsta verkstæði.

Spurt: Ég á rúmlega 3ja ára gamlan Musso GrandLux með 3,2ja lítra bensínvéli og tölvustýrðri sjálfskiptingu. Af og til kemur einhver truflun í vélina eftir að hún hefur náð eðlilegum hita og hún missir afl. Þetta getur komið upp aftur og aftur nokkra daga í röð en svo er eins og verði hlé á milli. Hef fengið ýmsar ráðleggingar svo sem um að nota heitari kerti, setja ísvara í bensínið, tappa öllu bensíni af geyminum, nota sterkara bensín (V-Power), skipta um bensínsíu o.fl. en ekkert af þessu virðist leysa vandamálið. Ég er búinn að fara með bílinn einu sinni í vélarstillingu en hún breytti engu. Mér lýst ekkert á að fara með bílinn á verkstæði út af þessari bilun nema hafa einhverja hugmynd um um hvað er að ræða.

Svar: Vélarstilling? (mér vitanlega er ekkert hægt að stilla á þessari vél ... - stóð ekki bilanagreining á reikningnum?). Eftir breytingar á 6 sílindra vélinni í nýlegri Musso-bílum, m.a. með öðrum kambás, hefur gangtruflun, ekki ólík þeirri sem þú lýsir, hrjáð sumar vélarnar. Ástæða hennar er sú að ventlar festast opnir. Sé um það að ræða í þínu tilfelli á ekki að vera mikið meira mál að laga það en við heddpakkningarskipti - þó má reikna með að verkið, í þessu tilviki vegna þess að bíllinn er ekki lengur í ábyrgð, kosti 150-200 þús. kr. Ráðlegg þér að hafa samband við þjónustustjóra umboðsins - starfsmenn á verkstæði þess þekkja þessa bilun.

 

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu