Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.


(Spurningar sem borist hafa frá lesendum Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) og Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur hefur svarað með netpósti ).

Spurt:
Ég er að hugsa um að fá mér Kia Sorento og vildi biðja þig að veita mér ráð. Hægt er að fá hann með svo kölluðum TOD (Torque On Demand) millikassa. Spurning mín er hvort slíkur kassi sé það eftirsóknarverður að aukaútgjöldin borgi sig (ca 140000 isk). Er notagildið einungis við akstur í torfærum eða nýtist þetta jafnmikið við hefbundnari akstur (borgarakstur/slóðar við góð skilyrði að sumarlagi). Mér þætti vænt um ef þú gætir sinnt þessu.

Svar: Þessi búnaður er fáanlegur með sítengdu aldrifi frá Borg Warner. TOD (Torque on demand) mætti nefna á íslensku ,,Grip við gjöf". Þessi tölvustýrði búnaður sér á sjálfvirkan hátt um að beita fjórhjóladrifinu eftir þörf fyrir veggrip og gerir það með því að miðla vélaraflinu á milli fram- og afturhjóla með stýranlegri rafknúinni kúplingu í millidrifinu. Tölvubúnaður nemur snúning framhjólanna: Þegar þau snúast jafn hratt, en þá er stefna bílsins bein, er drifið á afturhjólunum eingöngu. Snúist framhjólin mishratt, þegar bílnum er beygt, tengir búnaðurinn framdrifið. Sama gerist við snögga inngjöf. Með þessu móti er unnt að nýta báða kostina - þ.e. sparneytni og öryggi bílsins í akstri. Búnaðurinn vinnur jafnframt með ABS-læsivörninni og ADB-spólvörninni (sé hún til staðar) til að tryggja sem mest veggrip við mismunandi aðstæður en bæði kerfin eru frá Bosch. Sé sítengda aldrifið með hlutfallið 2.48 í lága drifinu er aflinu miðlað jafnt (50/50) á milli fram- og afturhjóla. Þetta er flókinn búnaður sem íslenskum verkstæðum (og jafnvel bílaframleiðendum í Kóreu) hefur gengið illa að eiga við en talsvert hefur verið um galla í tölvubúnaðinum. Persónulega veldi ég Sorento sem einfaldastan - ekki síst með hliðsjón af því að ég er þeirrar skoðunar að takmörkuð tæknþekking/reynsla sé hjá þessu umboði sem nú er í höndum eiganda nr. 3 eða 4.

Spurt: Sæll Leo og þakkir fyrir góða síðu sem ég kíki á af og til og alltaf er nóg að lesa og skoða.
Nú langar mig að vita hvort þú kannast e.h. við M Bens 280 hjá mér er ekkert ljós í mælaborðinu og ég fann á spjall síðu að menn plokka sjálft mælaborðið úr með niður sorfnum hönkum af fatahreinsunar herðatrjám. !!
Heldurðu að mér sé óhætt að prófa þetta? Kveðja Einar.

Svar: Eins og þetta er lítið mál (kunni maður réttu handtökin) er merkilegt hvað búið er að skemma mælaborðið í mörgum Benzum - engu líkara en að menn grípi til kúbeinsins þegar þeir hafa engar skrúfur til að góna á........ Rétta aðferðin er þessi (á eldri Benz án öryggisloftpúða): Aftengdu mínuspól rafgeymisins. Losaðu stýrislásinn. Taktu stýrishjólið af: Losaðu miðjuna úr stýrishjólinu. Á sumum gerðum þarf að plokka merkið upp úr miðjunni en oftast er miðjupúðinn dreginn upp með því að byrja á einu horninu og halda svo áfram hringinn þar til hann er laus. Losar miðjuróna (eða 2 sexkant-bolta), snýrð stýrishjólinu þannig að rimarnir séu í lóðréttri stöðu en í þeirri stöðu á að vera auðvelt að ná st.hjólinu af.
Mælaborðskringlunni er haldið með gúmmístýringum. Notaðu þunnan vír (2 stk) með stuttum vinkilbeygðum endum sem þú stingur inn í samskeytin, snýrð og notar til að draga mælaeininguna út. Frekar en að beita afli skaltu fara með vírana á nokkra staði og reyna að losa um lítið í einu - sikk sakk. Þegar kringlan er komin út úr rammanum aftengirðu grönnu nælonslönguna sem kemur í smurmælinn, hraðamælisbarkann og rafmagnsfjöltengið. Þá á mælaborðið að vera laust.

Spurt: Ég er með Bronco ll 1986 2,9 i og er að vandræðast með hvar bensínsían er staðsett í bílnum ég er búinn að kaupa síu sem er nr G 3802A sem er með einum stút inn og öðrum út en það koma tvær slögur úr tankinum í box sem gæti verið sía sem er stað sett inn í grindini fyri miðjum bíl.
Það væri gott ef þú gætir hjálpað með þetta.

Svar: Þú ert að öllum líkindum með rétta síu. Ástæðan fyrir því að þú sérð 2 leiðslur frá boxinu í grindinni og aftur í geyminn er að önnur leiðslan er bakstreymi (yfirfall ) frá spíssatrénu á vélinni. Bensínsían er, eins og þú segir, inni í kassa eða hlíf í grindinni miðri - oftast svokölluð ,,canister" sía úr stáli. Í sumum þessara bíla er annað minna stykki, sívalt, inni í kassanum eða við hlið hans, en það er þrýstijafnari sem tengist síunni og geyminum.

Spurt: Sæll Leó, Ég stend frammi fyrir því að þurfa að velja mér fjórhjóladrifsbíl. Ég er búinn að spyrja ýmsa aðila hvað maður eigi að velja. En það verða allir einhvern veginn bílasalar sem maður talar við. Ég var að leita mér að fróðleik á netinu og fann þar speki þína um MMC Outlander, sem mér fannst mjög fróðleg. Þá fannst mér rétt að spyrja þig. Hvaða fjórhjóladrifsbíl myndir þú velja, ef þú hefðir 2-3 millj? Í augnablikinu sýnist mér maður fá mest fyrir peningana með 1-2 ára Hyundai Santa fe, þar sem þeir eru með spólvörn. Er hrifinn af útliti Rav-sins, og það er bíllinn sem er líklega auðveldast að selja aftur? Mér þætti vænt um það ef þú gætir sagt mér hvað þú myndir gera og kannski af hverju.

Svar: Val á bíl er alltaf persónubundið. Það sem ég segi þér er byggt á minni reynslu og minni tilfinningu fyrir bíl. Prófaðu sem flesta sídrifsjeppa/lepplinga og veldu þann sem þér fellur best við sitjandi undir stýri (sé hann á viðráðanlegu verði). En þú gætir byrjað á Hyundai Sante Fe er skemmtilegri bíll en RAV 4, en með V6 2,7 lítra vélinni eyðir talsvert miklu. (Sá nýi Hyundai Tucson með sömu vél eyðir enn meiru!). Santa Fe er farinn að eldast í útliti eins og RAV. Ráðlegg þér að skoða og prófa Mitsubishi Outlander - að mínu áliti ber hann af öllum þessum bílum hvað varðar akstureiginleika og þægindi - endursöluverð og endursölumöguleikar eru ekkert síðri en Toyota og hann er ný hönnun (gömul hönnun jepplings þekkist á varahjóli aftan á skuthleranum - það útlit er á útleið, núna þ.e. 2005).

Spurt: Sæll Leó, Ég las greinina þína um ryðvarnarruglið á Íslandi. Það þótti mér forvitnileg grein. Málið er að ég var að kaupa PT Cruiser frá USA (las líka dóma þína um þá og leyst vel á þá). Veistu hvort það er ryðvörn á PT Cruiser frá framleiðanda eða hvort betra væri að ryðverja hann hérna á Íslandi ?

Svar: PT Cruiser er ryðvarinn á framleiðslustigi og engin ástæða til að veikja hana með ,,íslenskri ryðvörn". Hins vegar gætirðu látið smurstöð sprauta varnarkvoðu (t.d. Gravitex sem fæst í Bílanausti) á þá staði undir bílnum sem lílegt er að steinkast mæði mest á - þ.e. ef þú ekur eitthvað að ráði á malarvegum - annars þarftu engar áhyggjur að hafa af annarri ryðvörn en lakkinu - bílar ryðga utanfrá hérlendis. P.S. Varðandi þetta íslenska ryðvarnarrugl, en ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert annað en fjárplógsstarfsemi nokkurra ryðvarnarfyrirtækja (sem ekki hafa fylgst með tímanum) og smærri og bílaumboða sem standa verr fjárhagslega en þau stóru) bendi ég á að stóru umboðin, IH/Bílaheimar, Toyota og Hekla hættu fyrir nokkrum árum með þessa ryðvörn á nýjum bílum enda allt að 12 ára ryðvarnarábyrgð á bílum þeirra og birtu um það yfirlýsingu í Mbl. haustið 2004. Ég er einnig þeirrar skoðunar að minni bílaumboðin virðist hins vegar ekki fylgjast með á þessu sviði, stjórnendur þeirra ekki nógu vel að sér á tæknisviðinu, eða að þau noti þetta ,,ryðvarnarsull" til að hafa meiri tekjur af viðskiptavinum.

Spurt: Ég var að vonast til þess að þú gætir upplýst mig um hlutverk spíssins í vélum.Maður heyrir oft talað um spíssinn en er ekki alveg á hreinu hverju hann stjórnar eða hverju hann sé tengdur. Bensín, lofti eða hvað?

Svar: Innsprautukerfið blandar saman loft og bensíni í ákveðnu hlutfalli miðað við inngjöf, álag og hitastig vélarinnar og miðlar því til brunahólfa vélarinnar með spíss. Það fer eftir gerð innsprautukerfisins hvort spíss er fyrri hvern sílindra eða 1 eða 2 spíssar fyrir soggreinina. Innsprautukerfi með spíss/um kom í stað blöndungs í eldri vélum - þ.e. það blandar eldsneytið með lofti (í bensínvél) og miðlar því til brunahólfa vélarinnar með úðun/ýrun. Spíssinn er einfaldlega nálarloki (núorðið rafstýrður) sem opnar við ákveðinn þrýsting á ákveðnum tíma en opnuninni stýrir tölva vélarinnar.

Spurt: Ég á í smá-vandræðum en þannig er mál með vexti að fyrir um 3 mánuðum seldi ég bílinn min "bílasölu" Cheeroke TDi 1996 árgerð þá keyrðann um 140þ km Núnna í síðustu viku fékk ég svo hringingu frá bílasölunni, og tjáðu þeir mér að hedd á velinni væri ónýtt og þetta þyrfti að laga, og bæri mér lagaleg skylda sem fyrri eiganda að greiða þessa viðgerð. Þarna eru þeir að vitna í bílalög sem þeir segja að gildi allt að 3 ár
aftur í tíman. Bílasalan hafði selt bílinn aftur og sá sem keypt hafði af þeim varð fyrir þessari bilun.
Vélinn er WM dísill sem er uppsett með 4 hedd yfir hverjum sýlinder, eitt af þeim er sprungið og lekur vatni.
Náunginn sem kaupir bílinn fer fram á að allur efri hluti vélarinnar verði gerður upp (áætlaður kost. ca: 250.000kr) En ekkur en um á bílnum þó bilaður sé. Eitt hedd kostar í Vélalandi 40.000kr. þá er viðgerð eftir.
Ég talaði við Sigurð í Vélalandi og spurði hann hvað hefði orsakað þetta ( hvort soðið hefði á bílnum eða ? ) og sagði hann mér þá að þetta væri mjög algeng bilun í þessum bílum nánast "krónisk" og að þessi bilun gæti orðið fyrirvara laust án ástæðu. Gaman væri að heyra þitt álit á málinu.

Svar: Þetta er eitt af þessum leiðindamálum - ef til vill réttara að kalla það áhættu, sem fylgir því að eiga bíl og selja hann notaðan. Þetta er þekkt vandamál í þessum dísilvélum eins og Sigurður í Vélalandi segir. Það sem færri vita er að orsökin er oftast trassaskapur eigenda/þjónustuaðila sem hafa ekki gætt þess að endurnýja kælivökvann á vélinni á 2ja ára fresti eins og viðhaldsfyrirmæli segja til um og það skýrum stöfum. Of gamall (súr) kælivökvi veldur því að heddin tærast, pakkningar leka, vélin nær að yfirhitna en við það margfaldast hætta á sprungum í heddi. (Það virðist þurfa að sparka rækilega í rassgatið á íslenskum bifvélavirkjum varðandi þessi kælivökva- og bremsuvökva-endurnýjunarmál sem þeir virðast flestir trassa af óskiljanlegum ástæðum). Ég fæ ekki séð að þér beri að kosta meiru til en þessu eina heddi (hér er um notaðan bíl að ræða en ekki nýjan!) - þ.e. að koma vélinni í það ástand að hún teljist vera í lagi. Hins vegar er þess að gæta að 3ja ára ábyrgð á þeirri viðgerð getur þú þurft að taka á þig. Ábyrgð af öðrum bilunum, í ljósi þess sem þú segir, að núverandi eigandi aki bílnum biluðum, verður tæplega krafist af þér. Hins vegar skaltu athuga að ef þú lætur endurnýja og gera við heddin (þ.e. það sem er ofan á blokkinni) eykur það verðgildi bílsins og því kann að vera hagstæðast fyrir þig að krefjast þess að kaupin verði látin ganga til baka þar sem þú teljir þig geta selt bílinn hærra verði eftir svo mikla viðgerð. Þegar kaup ganga til baka þarf sá sem keypti bílinn fyrir 3 mánuðum af þér að greiða þér fyrir afnot/notkun/rýrnun á grundvelli ástandsskoðunar eða samkvæmt áliti til þess bærra matsmanna (getur verið snúið mál).

Spurt: Mér er sagt að kóreska rafmagnskerfið í Musso sé það sem bilar óþarflega mikið en það þýska sé í lagi, hvernig þekkir maður þá í sundur?

Svar: Ég tel mig þekkja nokkuð vel til SsangYong-bíla en ég kannast ekki við neinn mismun á þessum rafkerfum, a.m.k. ekki eftir 1997 - það eru í þeim öllum Bosch-einingar með kóreönsku leiðslukerfi. Hins vegar eru tvenns konar Musso á markaðnum; Annars vegar þeir sem umboðið flutti inn og hins vegar þeir sem aðrir fluttu inn. Bilanir í rafkerfum bílanna sem fluttir voru inn af öðrum en umboðinu hafa verið miklu tíðari en í þeim sem umboðið flutti inn. Ástæðan er skipulega útfærðar forvarnaraðgerðir hjá umboðinu m.a. með því að rakaverja rafmótora í hurðum, millikassa o.fl.fyrir afhendingu nýs bíls. Bilanatíðni bíla sem fluttir voru inn frahjá umboðinu er mun hærri og þeir Musso eru því einfaldlega minna virði. Svar við spurningu þinni er því eftirfarandi: Fáðu bílasala til að slá upp fastanúmeri bílsins og skoða (eigenda)ferilskrána.Þá kemur í ljós hvort bíllinn var fluttur inn af umboðinu eða einhverjum öðrum. Sé Musso ekki fluttur inn af umboðinu á gangverð hans að vera minnst 30-35% lægra, að mínu áliti.

Spurt: Ástæða þess að ég spyr þig að þessu er að mig langar að fá álit sem flestra sérfræðinga á þessu sviði um þetta, og ég veit að þú ert mikill sérfræðingur á þessu sviði. Ég er með Bronco vél, gamla smallblock 302 blöndungsvél sem er í Bronco II, en við hana er einnig sjálfskipting úr gömlum Bronco (líklega C4? en það
skiptir ekki öllu) og millikassinn líka þaðan. Málið er að ég er að skipta um heddpakkningar í honum (ekki farinn að setja saman enn, er bara í bílskúrnum) og komst að því nýlega að hægt væri að leggja saman tvær heddpakkningar sitt hvorum megin og lækka þannig þjöppuna og þá gæti bíllinn brennt bensíni samanblönduðu við steinolíu, sem myndi lækka eldsneytiskostnaðinn verulega, án þess að ég myndi missa mikið. Ég þyrfti líklega að finna það með tilfinningunni hver hlutföllin yrðu, en það er nú ekkert hættulegt, auk þess sem ég þyrfti að stilla blöndunginn, sem ég get látið mjög vana menn leiðbeina mér með. Ég á eftir að setja upp reikningsdæmi um hversu lengi þetta yrði að borga sig upp, en ég tel fullvíst að þetta muni gera það á töltölulega skömmum tíma (eða réttara sagt tiltölulega fáum eknum kílómetrum). Ég vil endilega finna góða leið sem ég verð sáttur við, hvort sem ég sleppi þessum steinolíuplingum eða ekki, bíllinn þarf ekki að verða tilbúinn fyrr en eftir jól, er bara bílskúrsverkefni þangað til. Málið er að mig langar að heyra þitt álit á þessum breytingum sem ég er að velta fyrir mér og segja mér hvað ég myndi mest missa af eiginleikum
bílsins. Mun ég missa snerpu, hestöfl eða tog eða hvað?

Svar: Í fyrsta lagi yrði bíllinn draugmáttlaus ef blandan á að vera það mikil að einhver sparnaður hlytist af miðað við verðlag á á steinolíu núna. Í öðru lagi myndi bíllinn vera ólöglegur í umferðinni vegna mengunar í afgasi. Í þriðja lagi fellur dísilskatturinn niður frá og með 1. júlí 2005. Þá mun dísilolía hækka í verði um 45 kr. lítrinn en þó kosta eitthvað minna en bensín. Um leið mun annað hvort verðið á steinolíu (sem hefur hækkað í verði á þessu ári) hækka verulega eða að hún verður lituð eins og dísilolía fyrir vinnuvélar og óleyfilegt að nota hana á bíla. Niðurstaða: Bíddu með þessar pælingar þangað til ,,dísilbreytingin" hefur átt sér stað.

Spurt: Ég er lengi búinn að vera að leita af díselvél með miklu togi, en það eru þá helstar þessar amerísku. Sjálfur hef ég 360 AMC í jeppanum mínum, og er orðinn hudleiður á henni. Nema hvað að um daginn þá datt mér það í hug hvort það væri ekki reynandi að minnka þjöppunarhlutfallið í henni, kannski niður í um 7,5 – 8 :1 því að með þessu þá eykst togið mikið, en á kostnað hestaflanna. Ég er ekki mikill hestaflakall, heldur er það togið fyrst og fremst sem heillar mig. Hver er þín skoðun á þessu, og hvað myndir þú gera til að minnka þjöppunarhlutfallið?.

Svar: Það er örugglega mjög vondur ,,bisness" að lækka þjöppuna í V8-bensínvél til að auka togið þegar jeppi á í hlut. Miklu skynsamlegri kostur að fjárfesta í sparneytinni dísilvél. Bendi þér á 5 sílindra Benz-vélina (2,9 lítra) úr Benz sendibíl eða Musso með eða án túrbó. Með réttum gír/drifhlutföllum dugar hún merkilega vel.

Kæri Leó M: Ég þakka þér fyrir allann þann fróðleik sem þú hefur veitt mér á heimasíðu þinni,ég er nú ekki forfallinn bíladellukarl en hef samt mjög gaman af að lesa það sem þú skrifar um,með von um áframhald á þessu.

Svar: Þakka þér Josef - alltaf gaman að heyra frá ánægðum lesendum. Ég mun halda áfram að skrifa - þetta kemur í hryðjum og síðan mijafnlega löng hlé á milli þegar ég þarf að sinna brauðstritinu - því það er alveg ótrúlegt hve vinnan getur tafið mann ......

Spurt: Sæll Leó og ég verð að segja að þetta er alveg hreint frábær síða hjá þér. En nú vantar mig smávægilegar upplýsingar um sjálfskiptinguna í Explorer 1991 sem ég á. Þetta er fjögurra þrepa skipting og ég þurfti að taka pönnuna undan og eins og gefur að skilja þá mun ég skipta um olíu á henni. Einhvern tíman þá átti ég Econoline með overdrive skiptingu og á hana þurfti spes ATF olíu frá Ford. Spurningin er hvort það sé eins með Explorer skiptinguna eða má ég nota einhverja aðra ATF olíu t.d. Esso ATF D 3.

Svar: Á þessa Ford-skiptingu er notaður vökvi af gerðinni Dextron II eða Ford CJ.

Spurt: Getur þú sagt mér í stuttu máli hvernig ég get ljósastillt bílinn minn heima í bílskúr? Ég er nefnilega að laga bílinn minn eftir smá tjón að framan og vildi getað lagað þetta sjálfur til að spara pening. Svo var ég að lesa grein á síðunni þinni “búðu bílinn undir vetrarakstur og ég vildi benda á það að diesel bílar í dag eru með ansi stóra tanka (um 100L) í dag og ef svo stór tankur stendur hálf tómur í marga daga þegar það frystir og hlánar til skiptis, myndast raki í tanknum sem fer saman við olíuna. Svo langaði mig líka til að benda á það að það á ekki að þurfa að blanda olíuna sem maður kaupir út á bensínstöð í dag því hún þolir meira en -20°C (vetrarolían). En ef menn vilja auka það þol vil ég bend á að blanda einnig smávegis út í af tvígengisolíu til að liðka og verja þá fleti sem steinolían þurkar. Þakka fyrir frábæra síðu!

Svar: Ljósstilling er sýnd í mörgum handbókum sem fylgja bílum. Stillingin fer eftir bílgerð, fjarlægð á milli ljósa, hæð ljósanna frá vegi o.s.frv. Skýringarmynd í handbókinni (með flestum eldri bílum) sýnir hvernig þetta er hægt að gera t.d. fyrir framan bílskúrshurð. Ástæðan fyrir íblöndun með steinolíu er sú að olíufélögin bregðast oft of seint við og blanda dísilolíu ekki með frostþolsefni fyrr en eftir fyrstu meiri háttar frost - hef lent í því sjálfur auk þess sem 1000-2000 lítra geymar við marga sveitabæi eru ekki alltaf með frostþolinni olíu. Sé olían og geymir bíls í lagi á ekki að þéttast í honum vatn. Tvígengisolíu á aldrei að setja saman við dísilolíu - það hefur ekkert gildi og eykur aðeins mengun í útblæstri - þetta eru einhverjar furðurlegar kerlingabækur sem erfitt er að skilja - manni dettur einna helst í hug að með tvígengisolíunni séu olíufélögin að reyna að draga úr hættu á skemmdum á vélum vegna lakra gæða dísilolíu. Hins vegar er það staðreynd að eldri dísilkerfi (olíuverk og mekanískir spíssar) fengu smurning með brennisteinsinnihaldi dísilolíunnar sem nú hefur minnkað umtalsvert og hlýtur að skapa þörf fyrir annars konar íblöndunarefni. En tvígengisolía er örugglega ekki rétta efnið til að bæta upp þann skort/breytingu, að mínu áliti - og alls ekki á nýju dísilkerfin með forðagrein (common rail) því tvígengisolían mun ekkert gera í þeim annað en að valda skemmdum.

Spurt: Þannig er mál með vexti að stundum þegar ég drep á bílnum ( Saab 9000 CS 1992) þá heyrist eitthvað suð úr vélarrýminu á honum, þegar nánar er að gáð kemur það úr nágreni við forðabúrið fyrir bremsuvökvan. Þar er lítið box með öryggjum og reylay-i sem merk er "main relay" þegar ég prufa að taka það úr hættir hljóðið, spurninginn er: Er reylay-ið ónýtt þannig að nóg er að skipta um það eða er þetta flóknara dæmi? Það er búið að vera bögg með aðvörunar ljósið fyrir ABS líka stundum logar það og stundum ekki þó svo að allt virki eins og það á að gera, getur það verið útaf relay-inu eða er það eitthvað í skynjara? P.S. Hvað er bremsuvökvi á sænsku?.

Svar: Bremsuvökvi er bromsvätska á sænsku. Þetta suð sem þú talar um gæti verið frá aðvörunar-buzzer á bremukerfinu vegna rakaþéttingar eða vegna þess að bakleki sé í kerfinu. Ef þú ætlar að láta endurnýja vökvann og skoða bremsukerfið ætti að koma í ljós hvrt suðið er tengt bremsukerfinu (sem er líklegt). Hverfi þetta hins vegar ekki skulum við pæla í málinu frekar. (Varðandi verð á bílum þá er það greinilega af sem áður var þegar maður fór niður á Tégnergatan í Stokkhólmi með 500-kall í vasanum og kom heim á þokkalegum bíl í fínu lagi (þótt hann væri orðinn dálítið roskinn) - einn slíkan Opel Record notaði ég í 2 ár og fór þvers og kruss um Svíþjóð á honum og meira að segja til Köben eina ferð og seldi hann svo aftur á 500-kall skólafélaga.

Spurt: Ég á VW Polo árg. 99, sjálfskiptan. Mér finnst stundum eins og hann sé lengi að skipta sér niður þegar ég er keyri í einhvern halla eða upp brekkur. Veistu nokkuð hvað gæti orsakað það?

Svar: Í fljótu bragði dettur mér þrennt í hug:
A. Inngjöfin stýrir niðurskiptum - það gæti þurft að endurstilla inngjafarbúnaðinn.
B. Niðurskiptingu í sumum árgerðum af bílum með ZF-sjálfskiptingu er stjórnað að hluta með undirþrýstingi í soggrein vélarinnar, þegar sogið minnkar við það að vélin erfiðar eða snúningshraði hennar minnkar virkar það á loka í skiptingunni sem við það fer í lægri gír og síðan aftur upp í hærri gír þegar sogið eykst á ný. Frá soggreininni er plastslanga/grannt rör í þennan loka á sjálfskiptingunni. Sé leki í þeirri lögn getur það verið orsökin. Það tekur mjög skamman tíma á verkstæði að ganga úr skugga um hvort sogleki sé ástæðan.
C. Gæti verið komið að því að endurnýja þurfi vökvann á skiptingunni og að sía í henni sé orðin teppt. Það sést á því hvort vökvinn sé farinn að dökkna - sé hann í lagi er hann áberandi rauður á litinn - annars brúnn/dökkbrúnn/svartur. Ráðlegg þér að láta athuga þetta sem fyrst á alvöru-verkstæði.

Spurt: Ég las ágæta grein þína um trukka þá sérstaklega Ford. Við í Björgunarfélagi Ísafjarðar erum að undirbúa kaup á pikkup, Hugmyndin er að hafa hann með 2 földu húsi löngum palli til að geta sett vélsleða á eða slöngubát, Á honum þarf að vera td. vökvaspil, 35-36 tommu dekk og læsingar í drifum. Þar sem þú þekkir þetta greinilega vel er möguleiki að þú sendir okkur línu um góð ráð sem við ættum að athuga áður en við kaupum bíl og hvað okkur bæri að varast.

Svar: Þessi stóri Ford pickup 250 eða 350 með eldri PowerStroke (7,3) vélinni er firna öflugur bíll (nýja 6. lítr PowerStroke-vélin mun hafa verið meingölluð í fyrstu en á nú að vera orðin til friðs, eftir því sem manni er sagt). Það þarf að huga að lengd/þyngd/sporvídd/burðargetu bílsins gagnvart reglum um meirapróf og eflaust ýmislegt fleira sem snertir ykkar störf sérstaklega og ég er ekki vel inn í. Ég myndi ráðleggja ykkur að hafa samband við aðrar björgunarsveitir sem hafa verið að endurnýja bíla og nýta reynslu/mistök þeirra eftir því sem hægt er. Sá sem hefur mesta reynslu af innflutningi Ford pallbíla og seldur flesta nýja pallbíla frá Ford, GM og Chrysler er Ingimar Baldvinsson sem rekur IB-innflutningsmiðlun á Selfossi og myndi ég ráðleggja þér að slá á þráðinn til hans (GSM 664 8080).

Spurt: Nafn mitt er Steingrimur Steingrimsson og ég rek bílaverkstæði fyrir utan Gautaborg í Svíþjóð. Amerískir bílar hafa byrjað að kom í stærri stíl hingað síðustu árin. En aðgangur að tækniupplýsingum hefur ekki aukist og erum við í stórum vandræðum með að ná í tækniupplýsingar. Èg get með Teckno Test tölvu komist in i tölvuna á bílunum en hef engar upplýsingar um feikodana sem ég fæ. Mér var bent á af mági mínum að grenslast fyrir hjá þér hvort þú gætir hjálpað mér með upplýsingar. Mig vantar tækniupplýsingar aðalega fyrir Chevrolet S-10, BLAZER, M.M. Hvar get ég keypt svona bækur eða CD með þessum upplýsingum.?

Svar: Kóðarnir fara eftir árgerðum - kóðar fyrir S-10 Blazer af árgerð 1998 geta verið allt aðrir en fyrir árgerð 2000 o.s.frv. AutoData gefur út bækur með þessum kóðum. Það þýðir samt ekkert fyrir þig að tala við AutoData í Bretlandi eða Þýskalandi því þeir eiga bara bækur yfir evrópska og japanska bíla. Farðu á netið og leitaðu uppi AutoData í USA þar fást þessar bækur. Hins vegar máttu búast við að þurfa að láta einhvern kunningja í USA kaupa þær fyrir þig og senda því þessir andsk. virðast ekki kunna að selja út fyrir USA.

Spurt: Sæll Leó Ég heiti Þorsteinn Svavar og er með ólæknandi bíladellu eins og svo margir aðrir. Hef ég lesið fjölmargar fróðlegar, skemmtilegar og gagnlegar greinar eftir þig um bíla í gegn um árin. Langar mig að
vekja athygli þína á framtaki okkar feðga (mín og þriggja sona minna). Við höfum verið að jeppast og keppa í rally ásamt því að óhreinka okkur við endalausar bílabætur (viðgerðir) okkur til gagns og ánægju. Nú
nýlega opnuðum við vefsíðu til að kynna nýjasta hugarfóstur okkar; www.tomcat.is. Kynntumst við þessum bílum fyrst í gegnum tímaritalestur (Land Rover tímarit) fyrir nokkrum árum. Eftir svolitla vinnu, ferðalög og fjárútlát erum við komnir með umboð á Íslandi fyrir þessa bíla. En þessir bílar eru í raun kit byggð á Land Rover, Discovery, eða Range Rover Classic undirvagni. Fá þá gamlir "ónýtir" jeppar nýtt líf í þessum bílum. Eitthvað er í að þessir bílar komi til landsins en 3-4 eru væntanlegir. Mun ég hafa samband og sýna þér bíl eða bíla þegar þar að kemur ef þú hefur áhuga á að lýsa þeim á vefsíðu þinni eða annarstaðar.

Svar: Vona að ykkur gangi vel með þessa nýjung. (En þú veist væntanlega að ég er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá sumum félögum f4x4 - sem þó breytir engu fyrir mig eða vefsíðuna). Ég hef áhuga á öllum nýjungum sem eitthvað vit er í og segi frá þeim séu mér sendar nothæfar upplýsingar. Auglýsingar eru hins vegar ekki seldar/birtar á Vefsíðu Leós.

Spurt: Sæll, ég á VW Vento árgerð 1997 með 1600cc vélinni, keyrður 120.000 km. Það sem ég keyri er nú langmest og aðallega langkeyrsla og þá keyri ég á um það bil 100 km/h á klst. í 5 gír og snúningshraði vélarinnar er alltaf 3000 snúningar á mín. við þær aðstæður. Þetta finnst mér frekar mikill
snúningshraði við þessar aðstæður. Pabbi á VW Golf árgerð 1992 með 1800cc vélinni keyrður 200.000 km. og snúningshraði vélar í þeim bíl við sömu aðstæður er 2400 snúningar á mín. Þetta finnst mér frekar mikill munur. Ég hef svolitlar áhyggjur af þessu því að ég mundi halda að við aukinn snúningshraða vélar mundi bensíneyðsla aukast ásamt slit á vél. Hvað gæti verið að? Er Ventoinn bara svona "lágt gíraður" eða hvað?

Svar: Það er greinilegt að þessi Vento er með lægra drifhlutfall heldur en Golfinn sem þú nefnir - engu líkara en að 5. gírinn vanti. Ég myndi ekki ráðleggja þér að eiga neitt við vélbúnaðinn þótt vissulega slitni vélin fyrr. Þessi Vento er greinilega 25% lægra gíraður en Golfinn sem er með eðlilega niðurgírun. Það er til í dæminu að þessi Vento sé sérstaklega útbúinn fyrir fjallaakstur (Þjóðverjar segja þá bíla með ,,Berchtesgadener getriebe") þ.e. gerðir fyrir akstur í Alpafjöllunum. Það sem þú getur gert er að endurnýja smurolíuna með 25% styttra millibili en eðlilegt er á bílum af þessari gerð, t.d. á 6000 km fresti í stað 8000 eða 5250 í stað 7500 og draga þannig úr slitinu.

Spurt: Mér datt í hug hvort þú gætir komið með skýringu á skrítnu hljóði í Musso sem ég á. Það lýsir sér þannig að eftir að bíllinn er orðinn heitur, kemur fram glamur eða smellir í vélinni. Það fylgir snúningi vélarinnar en stundum deyr það út eftir ákveðinn tíma. Ég varð fyrst var við þetta í haust í eitt skipti, síðan ekki í nokkrar vikur. Núna síðustu ca.tvær vikurnar kemur þetta fram í hvert skipti sem bíllinn er notaður.
Hljóðið virðist koma ofantil í vélinni,en það kanski segir ekki neitt því hljóð getur leitt víða. Hvort það hafi eitthvað með þetta að gera að það sauð á bíllnum hjá mér síðastliðið vor veit ég ekki, en þá var kúppling á viftu ónýt, annað kom ekki í ljós. Ég er búinn að fara með bílinn á verkstæðið hjá Benna, en þar gátu menn
ekki áttað sig á þessu. Þetta er 2,9 l. turbo disel 155 hp. árg. 2000 ekinn 84000. Ef þú gætir áttað þig á þessu, væri gaman að fá svar frá þér.

Svar: Þetta er þekkt fyrirbrigði í 5 sílindra kóreönsku Benz-vélinni og stafar af því að heddpakkningin er ónýt þannig að lekur út í smurrásina fyrir undirlyftudemparana (sem skýrir smellina) - gerist yfirleitt eftir að vél nær að yfirhitna einu sinni eða tvisvar. Til þess að laga þetta þarf að taka heddið af, plana á því pakkningarflötinn og setja saman aftur með orginal Mercedes-Benz heddpakkningu (Ræsir/Askja).

Spurt: Konan er eitthvað að kvarta yfir því að koma ekki 1996 Golfinum okkar í 3. gír og sumir gírar séu erfiðir. Þetta er nýtilkomið. Getur þetta ekki verið út af kuldanum? Á ég að prófa að skipta um olíu á kassanum?

Svar: Mér finnst nú frekar ósennilegt að þetta sé vegna smurolíunnar og varla vegna slits í gírkassanum á ekki eldri bíl. Muni ég rétt er Golfinn með barkaskiptingu og orsakanna á þessum stirðleika frekar að leita þar (stilling). Í þessu gírkössum er eins konar lás sem á að koma í veg fyrir að þeir ,,hrökkvi" úr gírum. Sé kúpplingin orðin slök og farin að slíta illa, eða vanti vökva á kúplingsdæluna, getur þessi lás haft svipuð áhrif og þú ert að lýsa.

Spurt: Ég var að setja undir bílinn minn dekk af stærðinni 175/70R14 felgurnar eru undan Deawoo Lanos smell- pössuðu undir Toyota Corolla. Dekkin sem voru undir 155/R13 Gerir það bílnum eða dekkjunum einhver skaða að vera á 14" felgum og þetta stæri dekkjum?

Svar: Þvermál hjólanna sem þú tókst undan var 54,7 cm. Þvermál þeirra sem þú settir undir er 60 cm. Mismunur þvermáls er 5,4 cm. Bíllinn hækkar frá jörðu um 2,7 cm. Rúmist þessi stærri hjól í brettaskálunum án þess að taka út í er þetta í fínu lagi. Upptakan í bílnum verður örlítið lakari, hraðamælirinn sýnir 10% minni hraða en fyrir dekkjaskiptin og kramið ætti að endast lengur (10 % overdirive).

Spurt: Ég á Musso 1997 breyttan af Bílabúð Benna og mér sýnist á öllu að þeir hafi sett í þennan bíl millikæli og túrbínu. Veist þú eitthvað hvað þessi pakki er að skila í hestöflum? Ég var inni á spjalli á ferðaklubbi 4x4 þá sá ég að það er verið að tala um eitthvert sett í 602 vélina þ.e.s. segja á olíuverkið til að ná 165 Hp út úr þessari vél. Er þetta til? Hefur þú eitthvað komið nálagt breytingum í þessum bílum?

Svar: Séu bornar saman hestaflatölur yfir Musso með eða án original pústþjöppu/millikæli, annars vegar þær sem BB gefur upp og hins vegar framleiðandinn (ssangyong.com) og t.d. innflytjandi Musso/Korando í Hollandi kemur í ljós að tölur BB eru alltaf hærri. Skýringarnar sem BB gefur er að þeir láti breyta olíuverki og tíma hér heima og nái þannig meira afli út úr vélinni. Ég get ekki dæmt um hvort þetta er rétt og mér vitanlega hefur BB ekki birt opinberlega neinar mælingar á afli þess Musso sem þeir auglýsa sem 155 ha. Hins vegar er það þekkt að með alls konar fúski (ráðlegg þér að fara varlega eftir ýmsu sem sett er fram á vefsíðu f4x4) er hægt að ná meiru afli út úr dísilvél, t.d. með því að aftengja (blokka) EGR-pústrásina en þá er hægt að flýta tíma olíuverksins og auka magnið sem það deilir til spíssanna. Á meðal þeirra sem skrifa á spjallrásir f4x4 eru fúskarar sem vita ekki að sé EGR-rásinni lokað eykst hitinn í brunahólfunum (pústið inniheldur ekkert súrefni og kælir því brunahólfin en hitar ekki) og nituroxíðsmengun í afgasinu fer upp fyrir leyfileg mörk (bíllinn ólöglegur) auk þess sem þetta fúsk eyðileggur heddið séu ekki gerðar sérstakar ráðstafanir til að auka kælingu þess. Heddbilanir í Musso er algengar eins og í öðrum dísilvélum með álhedd sem búið er að fikta við á þennan hátt. Sjálfur hef ég ekki breytt Musso en endurnýi ég AMC CJ5-jeppann minn verður það líklega með (löglega) breyttum Musso.

Spurt: Ég er gamall áskrifandi að Bílnum, og rakst á heimasíðuna þína fyrir tilviljun á dögunum. Mig langar til þess að spyrja þig ráða vegna vandamáls sem ég verð var við af og til í bílnum mínum. Hann er af gerðinn Toyota Landcrusier 100 árgerð 1999 og á að baki um 170 þúsun kílómetra. Það sem ég er ekki ánægður með að stundum (ekki alltaf) þegar ég er að stöðva bílinn t.d. á ljósum, er eins og skiptingin skipti sér ekki niður. (Þetta virkar eins og maður sé á beinskiptum bíl og gleymi að kúpla þegar maður stöðvar). Það eru greinilega þónokkur átök í skiptingunni, og ég hef áhyggjur af því að þetta kunni að skemma eitthvað út frá sér. Dettur þér eitthvað í hug hvað þarna gæti verið á ferðinni.

Svar: Af lýsingu þinni að dæma gæti verið um aðra hvora eftirfarandi bilana að ræða: A. Sjálfvirk túrbínulæsing sé biluð - túrbínan aflæsist ekki alltaf. B. Bilun í ventlaboxi (stirður spóluloki) sem veldur því að túrbínulæsing fer ekki sjálfkrafa af þegar hún á að gera það. Láttu athuga þetta sem fyrst hjá viðurkenndu sjálfskiptingaverkstæði (þú færð upplýsingar um það hjá umboðinu). Þessi bilun getur auðveldlega eyðilagt skiptinguna.

Spurt: Nú eru það diesel vélar og tollar þeim tengdum. Væri ekki ráð að breyta viðmiðunum við vélarstærðir til að koma betur til móts við Diesel vélar? 'I tollalögum eru 30% tollur á bílum 2000cc eða minni hvort er um diesel eða bensín. Algengar diesel stærðir á vélum eru hinsvegar 2200cc. Mér þykir ósanngjarnt að borga 45% toll fyrir að flytja inn diesel bíl 2200cc vél. Kanski er hægt að hafa mismunandi tollamörk á diesel og bensín það er 2000 cc á bensín en 3000cc á diesel. Eða hækka sameiginleg mörk í 2200cc. 'Eg get ekki ýmindað mér að margir bensín bílar hoppi á milli flokka enda koma engar 2100cc eða 2200cc bensín vélar upp í hugann. En fyrir Diesel bíla sem eru þjóðhagslega hagkvæmir miðað við eyðslu myndu njót góðs af. Hver er þín skoðun? Andrés.

Svar: Ég hef lengi haldið fram þeirri skoðun að annarleg sjónarmið ráði því að Ísland sé eitt örfárra landa í V-Evrópu þar sem eru letjandi reglur gagnvart fólksbílum með dísilvél í stað þess að vera hvetjandi eins og annars staðar þar sem dísilfólksbílar stefna í að vera helmingur af seldum nýjum bílum. Ég hef margoft bent á það í ræðu og riti að engin rök mæli með því kerfi sem við höfum og það skaði almannahagsmuni. ,,Sérfræðingar" á snærum hins opinbera hafa nefnt þetta ,,dæmigerðan L.M.J.-málflutning" og gefið í skyn að ég sé einhver rugludallur. Nú er hins vegar komið í ljós (skýrslan um samráð olíufélaganna) að þessar arfavitlausu reglur eru einmitt til þess að skaða almannahagsmuni - tryggja að dísilbílum fjölgaði ekki því olíufélögin sáu fram á minni hagnað minnkaði bensínsalan: Þau borguðu í kosningasjóðina og þetta var ,,greiðinn" sem þau fengu í staðinn; frumvarp um olíugjald var margoft svæft í Efnahags- og viðskiptanefnd of pólitískum snötum olíufélaganna. Af þessu lærir maður að það er ekki til neins að ætla að færa fram skynsamleg rök þegar íslensk pólitík (spilling) er annars vegar. ,,Vetnisdellan" er angi af þessu máli - með henni var almenningur látinn halda að hægt væri að hoppa yfir dísiltímabilið ....

Spurt: Til að byrja með langar mig að þakka þér fyrir að halda úti frábærri síðu. Hingað hefur maður sótt mikinn fróðleik og Það má eiginlega segja að þessi síða sé sú eina þar sem hægt er að komast yfir fróðleik um bíla og önnur tæknimál sem er ekki skrifuður af sölumönnum, allavega á íslensku. Eins hef ég mjög gaman að lesa greinar um bílasöguna. En mig langaði að spyrja þig um tvö atriði, annað er hvort þú hafir
einhverjar skoðanir á blöndungastærð fyrir V8 vélar, er búinn að heira ansi margar skoðanir varðandi það, og hins vegar um þjappþol bensíns, þar að segja hversu mikla þjöppun 95 okt. bensin þolir og svo framvegis.

Svar: Það á að vera grein eftir mig um Edelbrock blöndunga á vefsíðunni - mig minnir ða hún sé í TÆKNIMÁL. Þvermál kverkar blöndungs skiptir máli en blöndungar eru metnir eftir því hve mikið kvekin getur flutt í rúmfetum á mínútu (cfm). Algengsutu mistökin eru þau að menn halda að 800 cfm hjóti að skila meiru afli en 600 cfm t.d. fyrri 350 kúbika vél. En það er þveröfugt. Því hærri sem cfm-talan er því minni verður lofthraðinn í kverkinni og blöndungurinn virkar ekki nema snúningshraði vélarinnar sé mikill enda er 700-750, 800, 850 blöndungar gerðir fyri keppnisvélar og eru einungis til vandræða á venjulegri vel fyri venjulega notkun. Bestur árangur næst með 600 cfm fyrir bíl í eðlilegri notkun. Varðandi bensínið þá á 95 oktan að þola þjöppun upp á rúmlega 9:1.

Spurt: Sæll Leó. Ég les síðuna þína reglulega og hef gaman af. Ég er hérna með nokkrar spurningar. 1. Er til einhver góð tækniorðabók sem útskýrir ýtarlega hugtök og fyrirbrigði í bílum? 2. Þar sem þú skrifaðir um afgasþjöppur minntist þú á að hafa tekið þátt í að setja svoleiðis í bjöllu. Er enn hægt á ná í túrbínur fyrir bjöllumótora? Ég er að hugsa um setja hana í fastback sem ég á. 3. Það er meira en að segja það að komst yfir einhverjar upplýsingar um það hve miklu amerískir bílar frá áttunda áratugnum eyða, kaninn virðist ekki hafa skrifað stafkrók um þetta efni í þeim manuölum sem ég hef skoðað, og ef maður reynir að spyrja einhverja "spekinga" kemur bara fanatískt ofstopasvar eftir því hvar þeir standa í bílapólitíkinni, sem rokka svona frá tíu lítrum á hundarðið upp í fimmtíu lítra á hundraðið. Bíllinn sem ég að spá í er Cadillac Coupe DeVille 74 með 472 vélinni.

Svar: Mér vitanlega er ekki til neitt nothæft tækniorðasafn. Til mun vera nefnd á vegum félags bifvélavirkja (íðorðanefnd ??) sem hefur verið að setja saman einhver fáránleg ,,torfbæjarhugtök" á borð við bullu, strokk, loka-lok, strokkloksþétti og önnur svona furðuorð sem enginn notar og ekkert gagn er að. Í þeirri textasmíði á tæknisviði sem ég hef fengist við undanfarna áratugi hef ég einfaldlega haft það fyrri reglu að nota mælt mál og helst ekki önnur nýyrði en þau sem skýra sig sjálf. Ég veit satt að segja ekkert um VW bjölluna lengur - það eru áratugir síðan ég var að fást við það dæmi. En mér kæmi ekki á óvart þótt enn væri eitthvað í gangi í USA - hlýtur að vera á Netinu. Í sambandi við eyðslu þessara ákveðnu amerísku bíla - þá ertu einmitt með ,,smog-tímabilið" 1974-1990 en þá var settur alls konar mengunarhreinsibúnaður á vélar, vélar tjúnaðar niður með kveikjuseinkun, ,,kyrktum" blöndungum o.s.frv. Afleiðingin var sú að margir þessara bíla voru ekki einungis aflvana heldur einstakir eyðsluhákar. Ég átti m.a. Chevolet Nova Concours með 305-vél af árgerð 1977 og hann þótti sparneytinn, var með um 18 lítra á hundraðið í blönduðum akstri. Ég átti þar áður AMC Hornet með 258 cid sexu sem eyddi 14 lítrum, þar áður Ford Fairlane með Thunderbird-vél sem eyddi um 20 lítrum og næst á undan honum Oldsmobile Super 88 Rocket 1956 sem eyddi rúmlega 40 lítrum í sæmilegum spyrnum. Ég myndi gera ráð fyrir að þessi Cadillac, sem þú nefndir, væri 25 lítra bíll.

Spurt: Ég hef orðið var við það í ýmsum umræðum hér og þar að menn eru með oft á tíðum rosalega fordóma gagnvart ýmsum tegundum bíla, svo ef maður spyr afhverju fær maður engin svör oft á tíðum en jú stundum.
Eitt dæmið er Honda Civic, margir lýta á þessa bíla sem drasl afþví að margir unglingar eru að kaupa þá afþví að þeim fynnst þeir flottir og setja oft alltof góðar græjur í þá (þyngja bílinn of mikið og skemma
akstursánægju oft), ég prófaði einn 1500cc bíl um daginn og ég sá akkurat ekki neitt af þeim bíl, fannst hann mjög fínn en samt ekkert spyrnutæki. Annað sem er rosalega pirrandi fynnst mér eru fordómar gagnvart Hyundai! Ég er fús að viðurkenna að Hyundai Pony er frekar mikið rusl en allir hinir fynnst mér bara fínir!
Gamall Accent fynnst mér að vísu frekar ljótur en hvort hann sé drasl er ég ekki svo viss um. Sjálfur er ég að fara að kaupa mér núna gott eintak af Hyundai Elentru 1800 GT (1994). Ég prófaði hann auðvitað og fannst mjög fínt að keyra hann, útlitið flott og vélin frekar aflmikil. Er ekki viss þörf á að stoppa þessa fordóma í fólki? Það eru til léleg eintök og árgerðir af öllum bílum og þá eru þeir oft dæmdir sem held, ef einn eða 2 Hyundai hafa bilað þá eru þeir stimplaðir drasl!! Sjálfur þekki á menn sem hafa unnið sem bifvélavirkjar í B&L og þeir segja þetta prýðisbíla báðir 2 og annar þeirra á Hyundai sjálfur og hefur átt í nokkuð ár, pabbi minn á líka Hyundai og allir þeir sem ég hef komist í færi við eru ekkert að bila í sífellu eða neitt svoleiðis,
einungis venjulegt viðhald? Hver er þín skoðun á Hyundai og þar sérstaklega 1800GT bílnum? Hvað finnst þér um þessa fordóma sem leynast hér og þar, ég veit mæta vel að margar tegundir eru verri en aðrar en hvernig hugsað hefur verið um bílinn (smurning, bónaður ofl.) spila mjög mikið inní.

Svar: Eftirfarandi er mín skoðun: Ég hef fylgst með bílum frá Kóreu undanfarin ár (starfaði m.a. fyrir eitt af umboðunum í 2,5 ár). Bílar frá Kóreu hafa verið að batna með hverju árinu. Musso er t.d. miklu betri bíll en margir aðrar jeppar á markaðnum, bæði sparneytnari og sterkari (Musso er t.d. laus við stórkostlega galla t.d. í vélum sem gert hefur það m.a. að verkum að skipta hefur þurft um vélar í öðrum nýjum jeppum). Fordómar gegn Musso eru m.a. vegna þess að braskarar voru að flytja þá inn framhjá umboðinu - en það voru bílar sem höfðu staðið í reiðileysi á 3. ár utanhúss í Þýskalandi. Fordómar gagnvart Hyundai voru upphaflega vegna þess að þetta voru ódýrir bílar. Fordómar gagnvart Renault voru einfaldlega vegna þess að Renault var lélegur bíll fram að 1990. Fordómar gagnvart Citroen voru vegna þess að menn kunnu ekki að gera við þá og skemmdu með fikti (samanber refurinn og vínberin sem hann náði ekki til; hátt hanga þau og súr eru þau....). Annars sýnist mér dæmið hafa snúist við með Hyundai - enda koma þeir ótrúlega vel út í hverri alþjóðlegri könnuninni á bilanatíðni á fætur annarri - með toppeinkunn. Í Bandaríkjunum er Honda í öðru sæti á eftir Toyota með minnsta bilanatíðni allra bíla. Séu einhverjir fordómar gagnvart Honda hérlendis myndi ég telja að það væri fyrst og fremst umboðinu að kenna (þekki það sem fyrrum eigandi margra Honda-hjóla) - en mér finnst það vera ömurlegt fyrirtæki og sem ég myndi aldrei skipta við.

Spurt: Ég hef verið að heyra sögur af bætiefni sem sett er útí smurolíu vélarinnar. Og eru þær allar yfirþirmandi jákvæðar svona undraefni. Þetta á að auka kraft minnka núning auðvelda kaldræsingu osfv. Þetta minnir mig á þegar Militec kom fyrst hingað þá var það auglýst sem undraefni. En þetta efni Prolong hefur ekkert verið auglýst (ekkert svo ég viti) en meðmælin eru firna góð samanber á vefsíðu þeirra: http://frontpage.simnet.is/prolong/icelandic.htm Hefurðu einhverja reynslu af þessu efni eða afspurn? Ef svo er mælirðu með því? Með fyrirfram þökk

Svar: Ég er búinn að prófa ótal ,,bætiefni" á löngum ferli. Mín reynsla er sú sama og bandarísku neytendasamtakanna - 99% af þessu virðast vera sjónhverfingar og lygi. Því mæli ég ekki með neinu bætiefni. Það breytir þó engu og vonandi hafa einhver þessara efna ,,sálræn" áhrif og ef menn eru tilbúnir að kaupa litla skammta af smurolíu á allt að 10-földu verði í þeirri trú að olían innihaldi efni sem breyti einhverju - þá er það bara þeirra mál.

Spurt: Ég á MB 190E sem er orðin óþéttur (vélin). Þar af leiðandi sótar alltaf á kertin og því er ég með spurningar varðandi val á kertum til að losna við sót. Kertin sem ég nota eru Champions s9ycc, samkvæmt framleiðenda eiga þau að vera s9yc. Til að losna við sótið er þá ekki í lagi fyrir mig að hafa heitara kerti td
s20yc (kerti Champion fyrir bíla er frá skalanum 1-25) eða er það of heitt? Með hverju mælirðu? Annað ég var að mæla viðnám kertaþráðanna, og eru þeir uþb 1350 ohm getur það staðist. þráðurinn frá háspennukefli í kveikjuna er 0 ohm, eru þetta eðlilegar tölur? PS Hvað gerist ef ég eyk eða minnka uppgefið bil kertisins?

Svar: Það eru meiri líkur á að önnur gerð af smurolíu minnki tilhneiginguna til að bleyta kertin. Það á að vera til sérstök smurolía frá Esso (Ultron ?) sem bleytir síður kerti í mjög slitnum vélum. Spurðu sölumenn hjá lagernum hjá Olíufélaginu um hana. Heitari kerti geta stundum komið að gagni en í takmarkaðan tíma - sé blandan röng (sót) en það dugar ekki á móti slitnum olíuhringjum. Sé sótmyndun er það vegna veiks neista eða of sterkrar blöndu (oftast ónýtir spíssar, rangt stilltur blöndungur, teppt loftsía eða sogleki) . Veikur neisti getur verið vegna útfellingr í kveikjuloki, háspennukeflis eða kertaþráða. Ef bilið á kertunum er aukið án lagfæringar á styrk neistans eykst vandamálið. (0,7- 0,9 mm). Varðandi viðnám í kertaþráðum fyrir rafeindakveikjukerfi er það mælt eftir lengd þráðanna og á að vera minna en 5000 ohm/tommu. Sé ekkert viðnám í þræðinum frá háspennukeflinu og engar truflanir í útvarpinu er það hið besta mál. (Í Benz eru notaðir sérstakir Bosch-þræðir með útvarpsþétti í stórri málmhulsu sem kemur á kertið).

Spurt: Fyrst vil ég þakka þér Leó fyrir góða síðu og góðar upplýsingar í gegnum tíðina. Það sem ég vildi spyrja um varðar jeppabreytingagreinina hjá þér, mér sem miklum sportbílaáhugamanni (sérstaklega Porsche), varð það á að setja út á akstureiginleika mikið breyttra jeppa við jeppadellukarla niðri vinnu, út frá t.d. miklum upplýsingum í greininni þinni. Þá kom spurningin segir hver? og ég missti út úr mér, t.d. Leó Emm og þeir urðu alveg vitlausir, sögðu að þú værir bara vitleysingur og að tæknideild f4x4 væri margoft búin að rannsaka þessar staðhæfingar þínar og að þetta væri allt bara rugl miðað við þær "niðurstöður" og að málið væri einfaldlega það að þú dúkkaðir alltaf upp á nokkurra ára fresti með einhverjar vitlausar staðhæfingar um jeppabreytingar og að þú værir alltaf kveðinn í kútinn með þær reglulega. Ég spyr nú, þótt ég viti nú sennilega svarið. Er þetta ekki algert rugl frá A-Ö, tæknideild f4x4? niðurstöður rannsókna?

Ég verð loks að koma frá mér smá reynslusögu, ég komst loksins um borð í Poreshe 930 bíl um daginn, 1984 módel, nýinnfluttur, ekinn 43 þús. km frá upphafi. Mig hefur alltaf dreymt um það í ansi mörg ár. Ég hélt svona lúmskt að þetta yrði svo bara loksins eitthvað anti-climax að þeysa um í 20 ára gömlum 911 bíl, af því að væntingarnar eru búnar að vera svo miklar í gegnum árin. Enn VÁÁ, hann stóð fyllilega undir öllum væntingum og miklu meira til, þetta var eins og að vera kominn í lítla orrustuþotu þegar að bar mælirinn rauk í botn og 7000 snúningarnir komu um leið, bíllinn sveif í um 140 km/h í öðrum gír. Þvílíkt tæki, ef ég hefði átt góðan bílskúr hefði bílinn verið keyptur á staðnum. Ps. Komu aldrei power bremsur í 930? eru þær bara í 964 turbo og yngri?

Svar: Ég hef einungis skrifað eina grein þar sem ég gagnrýni jeppabreytingar - var reyndar að gagnrýna ákveðnar breytingar, sem ég tel ólöglegar, en ekki endurbætur á jeppum, eins og ég vil kalla hóflegar breytingar framkvæmdar af einhverri þekkingu. Frá tæknideild f4x4 (hverjir sem eiga sæti í henni) hefur aldrei komið svo mikið sem ein lína á prenti - eftir því sem ég best veit. Hins vegar kippi ég mér ekkert upp við óhróður og dellu sem einhverjir gasprar í ferðaklúbbnum 4x4 eru að bera út (þeir tala alltaf eins og ég hafi beverið að gagnrýna jeppabreytingar en ekki hættulega breytta jeppa - enda kemur aldrei neitt af viti út úr rökræðum við þá - við skulum bara lofa þessum stropuðu grautarheilum að halda áfram tuðinu). Varðandi 930 (þ.e. fyrsta 911 Turbo) þá voru komnar á hann aflbremsur þótt ég muni ekki hvenær. Það væru þá hæg heimatökin að bæta því í.

Spurt: Svo er mál með vexti, að sumarið ´97 flutti ég inn frá Kanada nýjan Chevrolet Silverado "pick-up 1997 með 6,5 l. diesel vél. Eftir ca. 20 þús km. akstur fór bíllinn að drepa á sér á ferð, (gaman, ef maður væri í Hvalfjarðargöngunum eða á leið niður Kamba!) en fór yfirleitt strax í gang aftur. Mér virðist að þetta gerist frekar þegar gefið er í, þó ekki viss. Ég hélt að þetta væri vegna slæms sambands milli rafgeyma, sem vissulega var fyrir hendi þá. En svo fór hann að neita að fara í gang aftur. Var mér þá bent á grein eftir þig um 6,5 l Dieselvélina og búnaðinn frá Delta og fór með bílinn til þeirra í Vélalandi. Þeir settu segulrofa F/6,5 og kælir F/6,5 ofan á vélina. Nýlega fór bíllinn að steindrepa á sér aftur allt í einu, en fer yfirleitt strax í gang aftur. Vélaland setti mælitæki á kramið en fundu ekkert að græjunum, sem þeir settu í á sínum tíma, þannig að nú er ég ráðalaus. Bíllinn er keyrður tæplega 60 þús km. í dag. Ég held að yfirleitt sé kramið gott í þessum bílum, t.d. eru "orginal" rafgeymar og pústkerfi enn í honum. Er nokkuð sem þú getur ráðlagt mér?

Svar: Þetta er ágætt kram sé hugsað sæmilega um það - en það getur bilað eins og annað. Séu engir bilanakóðar í OB-tölvu bílsins getur það bent til sambandsleysis. Þá þarf að yfirfara vandlega jarðtengingar og straumskó á leiðslum t.d. á olíuverki og forhitun. Eftir að það er yfirfarið myndi ég leggja til að nýr stýribúnaður frá Delta yrði settur í - rafeindabúnaður getur auðveldlega bilað í 40 þús km. akstri.

Spurt: Ég á Mözdu 626 árg. 1994 ameríkutýpu og hef verið að reka mig á það að erfitt getur verið að finna varahluti í hana. Eru einhverjir aðilar hér á landi sem eru liðlegir hvað þetta varðar sem þú veist um? Ég er reyndar að spá í það að skipta yfir í dísel jeppa og þá jafnvel Musso. Maður heyrir tröllasögur af bilanatíðni þessara bíla en ég hef nú sterkan grun um að þar séu einhverjir fordómar á ferðinni sem eigi ekki við rök að styðjast. Veist þú um e-ð sem þarf að gæta sérstaklega að í sambandi við kaup á notuðum Musso(er á spá í '98 árgerð med 2.9 dísel)? Annars vil ég bara hrósa þér fyrir sérlega aðgengilega og læsilega síðu.

Svar: Sjálfur á ég ameríska Mözdu 626 af árgerð 1998. Ég hef fengið hjóllegur í hana í Ræsi, bremsudiska að framan og klossa fékk ég í Bílanausti. Hins vegar hef ég pantað dráttarbeisli, varahluti í sjálfskiptinguna og framljósker hjá IB Innflutningsmiðlun á Selfossi. Það gekk hratt og vel fyrir sig og var ekki dýrara en ég hefði búist við í umboðinu. Varðandi Musso þá er það rétt hjá þér að það eru fordómar gagnvart þeim - þetta eru með betri og sparneytnari dísiljeppum á markaðnum. Fordómarnir eiga sér rót í því að tvenns konar Musso eru á markaðnum, annars vegar bílar sem keyptir voru af gjaldþrota umboði í Þýskalandi á sínum tíma og fluttir inn framhjá íslenska umboðinu. Þeir bílar höfðu staðið óhreyfðir á 3. ár og fengu enga sérstaka undirbúningsmeðferð hér heima fyrir afhendingu. Þeir bílar hafa verið til vandræða - nánast allur rafbúnaður í þeim hefur bilað og gagnverð þeirra á með réttu að vera 25-35 % lægra en á þeim bílum sem umboðið flutti inn en þeir fóru í gegn um ákveðið forvarnarferli sem var við það miðað að verja ýmsan búnað gegn íslenskri veðráttu, salti o.s.frv. Þeir bílar hafa reynst vel þrátt fyrir misjafna meðferð. Eigendur Musso eru misjafnlega ánægðir með þjónustu umboðsins eins og gengur - og sumir þeirra hafa kosið að skipta við Ræsi (M-Benz vélbúnaður) og því má segja að þeir eigi annarra kosta völ. Sem sagt: Keyptu ekki Musso nema skoða ferilskrá bílsins áður og ganga úr skugga um hver flutti hann upphaflega inn og seldi.

Spurt: Sæll Leó og takk fyrir þetta frábæra framtak sem vefsíðan þín er. Í umfjöllun þinni um Land Rover Defender talar þú um að ryðverja grindina í öllum grindar-jeppum. Ég á mjög gott eintak af 4runner og hef verið að velta þessum ryðvarnarmálum fyrir mér. Þegar þú hefur talað um ryðvörn hefurðu í öðrum pistlum nefnt fólksbíla sem dæmi og því velti ég því fyrir mér hvort þú hafir aðrar skoðanir á þessu í tengslum við jeppa og mundi því gjarnan heyra þínar skoðanir á þessu og þiggja ráð frá þér um hvernig ég ætti að viðhalda undirvagninum á svona bíl.

Svar: Á þessu tvennu, ryðvörn fólksbíls með Tectyl, og ryðvörn grindar í jeppa, er verulegur munur.
Það er þekkt að lokaðar skúffugrindur (tvær u-skúffur soðnar saman) tærast með undraverðum hraða í sumum jeppum (reyndar öðrum gindarbílum líka). Ætli Isuzu, HiLux og gamlir AMC/Jeep séu ekki verstir - grindurnar bókstaflega hverfa. Því er eðlilegt að maður velti því fyrir sér hvort ekki sé hægt að stöðva tæringuna.
Eðlilegt er að menn reyni að ryðverja grindurnar. Margir eru á því að það verði einna helst gert með seigri keðjufeiti. Vandinn er sá að það þarf talsverðar græjur til að hreinsa gamla grind að innanverðu og blása úr henni og jafnframt þarf að útbúa einhve tæki til að sprauta megi feitinni inn í grindina þannig að hún þekist jafnt. En það er eins víst að einhverjir eru ekki í neinum vandræðum með að leysa þetta mál.
Ég reyndi þetta á mínum gamla AMC CJ5 en mér sýnist nú margt benda til að það hafi ekki tekist vel - sennilega hefur mér ekki tekist að hreinsa nægilega innan úr grindinni.

Spurt: Ég var rétt að uppgötva þessa frábæru síðu þína , hef alltaf saknað bílablaðsins Bíllinn , er hjartanlega sammála þér um það sem þú skrifar um hættulegar jeppabreytingar og ryðvarnir á nýum bílum. Mér finnst eins og sumir jeppamenn skilji oft ekki enföldustu eðlisfræði er sjálfur bifvélavirki en hef ekki starfað við það nokkuð lengi,því er þessi síða kærkomin til þess að reyna að fylgjast með.Vona að þú haldir þessu sem lengst áfram.

Svar: Ef til vill er ekki rétt að kalla þessa náunga, sem brugðust ókvæða við greinninni um hættulegar jeppabreytingar, jeppamenn. Mér finnst það lítilsvirðing við okkur þessa venjulegu jeppamenn - þetta eru jeppaeigendur sem eiga við sálræna (jafnvel líkamlega) erfiðleika að etja sem þeir reyna að dylja með afskræmdum jeppum og því fer fjarri að þeir séu einhver samnefnari fyrir alla félaga í ferðaklúbbnum 4x4. Þetta væri svo sem í lagi ef öðrum vegfarendum stafaði ekki hættu af afskræmdum jeppum og öðru breytingafúski. En við, sem eigum löglega breytta jeppa, megum eiga von á því að okkur verði bannað að nota þá vegna tiltekta þessa tiltölulega fáliðaða, en áberandi, vandamálahóps. Það vill svo til að sá hópur er jafnframt kjaftforastur og minnst upplýstur enda eru þeir félögum sínum í f4x4 til skammar. Ég á marga ágæta kunningja innan f4x4 og sumir þeirra eru á meðal færustu jeppabreytingamanna landsins.

Spurt: Volvo 244 DL árgerð 1979 en ég fékk þann bíl til afnota þegar ég fékk bílprófið og málið er að hann var alveg frábær fyrst rosalega gaman að keyra hann og allt svoleiðis ! Svo bara eins og þruma úr heiðskíru lofti missir hann svo mikið afl ! En maður tók vel eftir því þegar maður fór til dæmis upp Öxnadalsheiðina en hann flaug upp hana í fjórða gír eins og ekkert væri, með 4 í bílnum og skottið fullt af farangri ! En eftir að þetta gerist þá fór hann ekki upp nema að skipt væri niður í 3 gír og ég einn í bílnum samt! Það var búið að skipta um blöndung 3 sinnum og þann síðasta var alveg búið að yfirfara það er að segja setja nýja þind og nál og láta stilla af rosalega flinkum manni um Volvo! En ekki var það neitt skárra! Það var líka búið að skipta um loftsíu, nýir kertaþræðir, ný kerti auðvita! Og settar nýjar platínur og nýtt kveikjulok nýr kveikjuhamar ! Þjöppun var eins og hann væri nýr en það var mælt fyrir mig af bifvélavirkja ! En ekkert af þessu virtist breyta það miklu þótt hann skánaði þá var það aldrei eins og hann var eins og þegar ég fékk hann í hendurnar fyrst. Við vorum líka búnir að skifta um loftsíuna og bensínsíuna og það var alveg nýtt púst frá eldgrein!
En þetta var alveg að fara með mann á sínum tímum varðandi hvað var að honum. Ég skildi aldrei hvernig þetta var eiginlega hægt?

Svar: Þegar svona bilanir er við að etja beitir maður útilokunaraðferðinni. Kveikjuröðin í þessum Volvo-vélum er 1-3-4-2. Hafi verið skipt um kveikjuþræði eða kerti gætu þræðirnir á 3. og 4. hafa víxlast. Þá fer vélin í gang, gengur nokkuð eðlilegan lausagang en er grútmáttlaus við álag. Röng kveikjuröð hefur engin áhrif á þjöppumælingu eða kveikjutíma - það mælist eðlilegt - hins vegar getur sogmæling (vacuum-mæling) komið manni á sporið.

Spurt: Mér er sagt að bíllinn minn sóti verulega, sennilega vegna slits og er mér ráðlagt að kaupa efni til að hreinsa sótið úr vélinni. Málið er að allir benda mér á sitthvort efnið, en mér var bennt á að spyrja þig hvaða efni væri best að hreinsa sót úr vélinni og hvernig það væri framkvæmt. Ps. Bíllinn minn er BMW 318i árg '85.

Svar: Vandinn er sá að þegar um gamlan bíl er að ræða með vél sem hefur safnað í sig sóti lengi getur sótleysandi efni gert meiri skaða en gagn án ákveðinna ráðstafana. Áður en vélin er hreinsuð, t.d. með sótleysandi efni, þarf að kanna hvort sótmyndunin stafi af því að svonefnt öndunarkerfi vélarinnar, þar með talin loftsía, sé stíflað (algeng orsök) og lagfæra það um leið og smurolían er endurnýjuð - annars sækir fljótt í sama farið. Ráðlegg þér að fara með bílinn á smurstöð, t.d. Klöpp í Múlahverfinu (sértu í Reykjavík), og leggja málið fyrir þá. Þeir þekkja réttu efnin og eru vanir að fást við svona mál.

Spurt: Sæll Leó og takk fyrir góða síðu Ég á Toyotu Carinu E 2,0 árgerð 1995. Mjög góðan bíl sem hefur þjónað mér síðustu 5 ár án allra leiðinda. Þessi bíll er með samlæsingu, og takka innan á hurðarspjaldinu á bílstjórahurð sem er Unlock/Lock takki. Ég ákvað að fá mér fjarstýrðar samlæsingar í hann og fór í Nesradíó fyrir mánuði síðan og þar var sett kerfi í hann. Allt virkaði vel í mánuð en nú er kominn draugur í bílinn. Þegar ég læsi, hvort sem er með fjarstýringu eða lykli læsir hann sér en opnar sig aftur 2 sek. seinna. Þegar ég er að keyra með allar dyr opnar, á hann til að læsa sér, og ég heyri sífellda smelli í samlæsingunni. (læsir og læsir) Takkinn á hurðarspjaldinu virkar bara stundum og stundum ekki. Heldur þú að þetta gæti verið tengt þessu kerfi sem var sett í hann (held að það sé ítalskt) eða bara einhver pikklis í samlæsingunum? (allir mótorar virka).

Svar: Þetta er bilun í kerfinu sem var sett í bílinn. Sams konar kerfi voru sett í marga Daewoo-bíla og mörg þeirra hafa verið til vandræða.

Spurt: Sæll Leó, Hlynur heiti ég og er bóndi, jeppaáhugamaður og bifvélavirki norður í Eyjafjarðarsveit. Ég hef lengi pælt í hvers vegna maður sér aldrei flækjur á dieselvélum, Gildir ekki sama lögmál um bensín og díselvélar.

Svar: Nei það er nú verkurinn. Það er engin þörf fyrir flækjur þegar dísilvél á hlut að máli. (Þetta er skýrt nokkuð námkvæmlega í grein á vefsíðunni minni undir TÆKNIMÁL - mig minnir að hún heiti ,,Um vélar, skiptingar og fleira ... "). Vegna þess að bruni í dísilvél á sér stað við stöðugan þrýsting en við stöðugt rúmtak í bensínvél er ákveðinn eðlismunur á opferlum inn- og útventla. Til að hámarka optíma ventla í bensínvél verður ekki hjá því komist að ákveðin yfirlöppun eigi sér stað - þ.e. að ákveðnir útventlar séu að einhverju leyti opnir samtímis. Í pústgrein myndast þá þrýstipúlsar - einn ventillinn getur blásið á móti öðrum - en við það myndast mótþrýstingur sem dregur úr afli. Til að ráða bót á þessu eru notaðar flækjur, þ.e. hvert brunahólf hefur sína eigin skálm sem sameinast hinum í safnhólki lengra frá heddinu. Þá hefur þrýstingur fallið við kólnun afgassins og vandamálið með mótþrýstinginn er úr sögunni. Yfirlöppun á sér ekki stað í dísilvél - í henni er minna sog, eldsneytinu dælt inn á réttum tíma, meiri brunaþrýstingur, meiri stimpilhraði - þannig að þetta vandamál skapast ekki. En það kemur ekki í veg fyrir það að einhver idjót reyni að pranga pústflækjum inn á dísilbílaeigendur - það má græða peninga á öllum andsk....

Spurt: Ég er með 5,9 lítra Cummins dísil og búinn að lenda tvisvar í því að heddpakkning hefur gefið sig án þess að ég geti tengt það sérstöku álagi eða öðru - það byrjaði bara með blæstri út í vatnsganginn í bæði skiptin. Ég lét plana heddið, notaði orginal heddpakkningu og herti samkvæmt bókinni en 20 þús. km seinna var pakkningin farin aftur. Mér skilst að þú hafir leyst vandamálið með heddpakkningarnar í Oldsmobile Diesel á sínum tíma og því leita ég til þin. Hvað getur valdið þessu. Er þetta galli í þessum vélum? Hvað getur maður gert til að koma í veg fyrir svona vandamál?

Svar: Þetta mun nú ekki vera algengt vandamál varðandi Cummins 5.9. En eitthvað mun hafa verið um að heddpakkningar hafi gefið sig í báðum vélargerðunum, 12 ventla og 24ra ventla, eftir að settur hafi verið aflaukandi tölvukubbur við vélina. Þótt það hljómi lyginni líkast er þetta ekki galli í vélinni - réttari væri að segja að þetta sé galli í hugsanaferli starfsmanna Cummins - vandamál sem búið er til vegna nýsku og skammsýni einhverra idjóta hjá Chrysler/Cummins - sem telja sig vera að spara með því að nota heddbolta sem þola ekkert umfram það nauðsynlegasta. Til að koma í veg fyrir þetta vandamál í Cummins þarf að skipta um heddbolta; nota sterkari pinnbolta úr vandaðra efni. Bandaríska ARP (www.arp-bolts.com) framleiðir pinnboltasett fyrir báðar vélargerðirnar. Þeir eru með sexkanti í öðrum endanum sem gerir það að verkum að hægt er að skipta um boltana án þess að taka heddið af, t.d. áður en kubbur er tengdur. ARP pinn-heddboltarnir eru dýrir (450-500 dollarar í USA) en þeir halda.Þú getur pantað heddboltasett á www.jegs.com (070-247-4202 fyrir 24ra ventla og 070-247-4203 fyrir 12 ventla).Henti það ekki geta þeir hjá IB Innflutningsmiðlun á Selfossi eða Vélalandi í Reykjavík pantað boltana fyrir þig.

Spurt: Sæll vertu Leó og hafðu enn og aftur kærar þakkir fyrir skemmtilega síðu, hún er jafn góð og fræðandi og bílablaðið Bílinn sem að þú ritstýrðir í mörg ár og ég hef hjá mér í náttborðinu og gríp aftur og aftur í að lesa, það vantar svakalega svona gott blað í dag en með nýrri tækni má segja að netið hafi leyst þetta að hluta til; en hvað um það ég á Nissan Almera 98 módel sem að ég er mjög ánægður með en það er eitt vandamál og það ýskrar svo í þurkunum á honum, ég er með góð og ný þurkublöð og er búinn að bera Sun of The Gun á þau eins og mér var ráðlagt en það ýskrar samt svo mikið í mikilli rigningu og það lagast þegar að ég nota rúðupissið en byrjar svo aftur. Mér var að detta í hug hvort að það kynni að laga það að kaupa nýja þurkuarma; getur það verið ástæðan, ég veit að þetta er kannski ekki stórt vandamál en samt fer þetta ýskur svo í mann og er svo leiðinlegt. Hvað er til ráða?

Svar: Fyrst er að finna út hvort ískrið sé í þurrkudrifinu eða á milli þurrkublaða og glers. Lyftu báðum þurkkunum frá glerinu og láttu þær ganga í þeirri stöðu. Myndist ýskrið eftir sem áður er um bilun í drifinu að ræða - þurrir slitnir spindlar (sem armarnir festast á) eða sleðinn nuddast utan í eitthvað innan í hvalbaknum. Ýskri hins vegar einungis þegar þurrkurnar snerta glerið (ný þurrkublöð og ,,smurð" með Son of a Gun) berast böndin að örmunum. Stundum er ástæðan slit í þolinmóðunum sem eru í liðnum á örmunum, stundum vegna slits í blaðfestingunni. Ég reikna ekki með að rúðan sé orðin slitin og stöm (það fæst sérstakt glerbón frá Mother's á næstu bensínstöð). Ég er ekki viss um að þú fáir nýja arma annars staðar en í umboðinu.

Spurt: Sæll Leó. Hafþór heiti ég og er að lesa hér ansi skemmtilegar greinar og frásagnir hér á vef Bílanausts og er af mörgu (og skemmtilegu) að taka. En þar sem að ég er einlægur bílaáhugamaður þá verð ég að segja að það vantar hér einn bíl sem mætti setja í flokk með "tæknilega merkilegir bílar", en það er enginn annar en Mazda rx-7 með wancel mótornum magnaða, og reyndar flesta þá Mazda bíla með þessari vél. Og þá er auðvitað talinn með nýjasta undrið frá þeim snillingum, Mazda rx-8. En ef ég væri þú og ætlaðir að fara að ráðum og beiðnum mínum, þá mundi ég bíða með að setja inn umfjöllun þangað til að hingað á land er komin nýr og endurgættur Mazda rx-8 bíll með renesis-mótornum. Bara svona að benda þér á þetta þar sem að ég er einlegur Mazda aðdáandi enda átti ég eitt sinn Mazda-626 árgerð' 93 með 1840cc vél og fimm gíra handskiftum kassa, en hans sakna ég mikið eftir að ég lét hann flakka til að yngja upp í skúrnum hjá mér. P.S: Það var gaman að rekast á greinina um Nissan-Micra þar sem ég hafði heyrt að þessi stiglausa skifting væri eins og í snjósleðum, en það gat ég ómögulega skilið þangað til ég las þetta hjá þér.

Svar: Það var nú reyndar af hálfgerðri slysni að þessi tengill var settur inn á vefsíðu Bílanausts - veit ekki hve lengi hann verður þar. Ég hafði ákveðið að hætta bílaprófunum á síðasta ári eftir að hafa verið að í næstum 3 áratugi - hreinlega nennti þessu ekki lengur. Ég reynsluók Mazda RX 7 í Bandaríkjunum 1995 og birtist sú grein í tímaritinu Bílnum (man ekki í hvaða tölublaði - enda öll löngu uppseld og ófáanleg). RX-7-bíllinn er merkilegur fyrir margt. Það vantar að sjálfsögðu fjölmarga bíla í þetta safn, ef út í það er farið og ekki auðvelt að bæta úr því. Hins vegar tek ég undir með þér varðandi Mazda 626 - hafandi átt marga ágæta bíla, m.a. Benz o.fl. þá er minn ameríski Mazda 626 af árgerð 1999, sem er hlaðinn búnaði, einhver allra þægilegasti bíll sem ég hef átt lengi.

Spurt: Þannig er að ég er með Landcrúser 90 árgerð 1998, ekinn 90.000 .Olían sem umboðið gefur upp er APTCF4. Ég hef sett á bílinn Ultra 1 10wx40 .Nú hef ég áhuga á að vita hvort mér sé óhætt að skipta yfir í
John Deere PLUS-50 SAE 15w-40, ACEA E5/E3 ,API C1-4/SL. Ástæðan er að ég get fengið þá olíu á betra verði og má aka fleiri km. á olíunni.

Svar: Svo lengi sem smurolían er með þá seigjutölu sem hentar notkun og aðstæðum (væntanlega 15w-40 í þessu tilfelli),gerð fyrir dísilvél og stenst sömu staðalgæði (API) og Toyota gefur upp fyrir viðkomandi LandCruiser hefði ég ekki áhyggjur af því hvort hún nefnist X eða Z. Málið er að prófanir, t.d. bandarísku neytendasamtakanna (Consumer Union) hafa sýnt að hagkvæmast er að kaupa ódýra smurolíu og skipta oftar heldur en dýra smurolíu og nota hana lengur. Prófanir neytendasamtakanna sýndu m.a. að enginn mælanlegur munur var á sliti bílvélar sem á var notuð ódýrasta smurolían á markaðnum og bílvélar sem á var notuð syntetísk smurolía í hæsta verðflokki. Bendi þér á að í Bílanausti fæst Comma smurolía fyrir dísilvélar á hagstæðu verði (Comma er eign Esso) - ég hef notað Comma smurolíu á mína dísilbíla í brátt tvo áratugi með góðum árangri og ég á ekki von á að gerðar séu meiri kröfur um smurolíu fyrir Toyota-dísilvél en t.d. GMC 6.5 eða Isuzu TurboDiesel. (Ath. Þessi könnun Consumer Union á við dísilvélar með venjulegu olíuverki en ekki Common rail eins og er í nýrri bílum).

Spurt: Sælir takk fyrir góða siðu málið er að eg á benz 209 ek. 440Þ árg.'84 og öll olian er senilega utan á vélinni ekki að það komi i veg fyrir ágættis gang i henni en nú veit ég ekkert hvað hefur verið gert i viðhaldi á henni og hafði hugsað mer að laga oliu lekan var að velta fyrir mér er eitthvað sem eg ætti að lita eftir eða betrum bæta þarna í leiðini, t.d oliudælu eða eitthvað slikt og er i lagi að skrúfa turbo þarna utan á þessa vél á vandræða og hvað ætli oliueyðlsan se fyrir og eftir er eðlilegt að þessi sé að eyða 13+ í dag?.

Svar: Olíulekinn er oftast með ventlaloki og pönnu. Sé öndunin á vélinni teppt þrýstist olían út með öllum samskeytum. Það væri vondur bisness að setja pústþjöppu á vél sem búið er að keyra 440 þús. Hins vegar kæmi það til greina væri vélin endurbyggð áður. Eyðslan er eðlileg miðað við slitna vél.

Spurt: Ég bý úti á landi og er að vandræðast með lítið ekinn Daewoo Matiz sem er stundum vondur í gang og gengur þá óreglulega. Hvað getur verið að?. Verkstæðismenn hér segja mér að þetta séu vandræðabílar sem erfitt geti verið að losna við?

Svar: Eitthvað eru þessir ,,verkstæðismenn" einangraðir og illa upplýstir. Matiz er líklega einn vandaðasti smábíllinn markaðnum og á ekki að vera neitt vandamál að selja hann á ágætu verði. En Matiz er eins og önnur mannanna verk ekki alfullkominn. Kertaþræðir endast ekki nema um 20 þús. km. og geta valdið svona gangtruflun eins og þú lýsir. Þjófavarnarkerfið í Matiz eins og sumum öðrum Kóreu-bílum hefur reynst illa og ef ekki væri fyriri það (og alternatorinn sem fæst í Bílarafi á mun hagstæðara verði en í umboðinu) myndi Daewoo Matiz líklega teljast vera með einna lægsta bilanatíðni sem gerist. ,,Kramið" í Matiz er þrautreynt - en þetta er gamli Suzuki eins-lítra 3ja sílindra vinnuþjarkurinn uppfærður með beinni innsprautun og tölvustýrðu vélkerfi. Leitaðu til umboðsverkstæðis á þínu svæði og þeir leysa málið fyrir þig.

Spurt: Ég þarf að endurnýja vetrardekkin undir BMW-bílnum mínum (523i) sem eru af stærðinni 225/50 16 (heilsársdekk frá Continental) og hef verið að kynna mér framboðið á markaðnum. Verðmunur á dekkjum er ótrúlega mikill og þegar maður spyr um val á dekkjum undir þennan bíl og gæði ber nánast engum svörum saman. Mér hefur verið bent á að það borgi sig að nota aðra stærð fyrir vetrardekk en sumardekk. Er eitthvað til í því? Annað. Er einhver leið að átta sig á gæðum dekkja að verðinu slepptu?

Svar: Lágprófíldekkin (50) á 16 tomma felgu henta illa sem vetrardekk - það er ástæðan fyrir því að þú ert með heilsársdekk (sem er reyndar frekar sjaldséð í þessari stærð). Hagkvæmast er að hafa vetrardekkin á sérfelgum og þá liggur beinast við að velja belgmeiri snjódekk (ekki heilsársdekk) sem hafa viðunandi grip í snjó og hálku. Persónulega mæli ég með negldum snjódekkjum og er ástæðan það aukna öryggi sem þau veita og maður vill ekki eiga undir sveitarfélagi eða Vegagerðinni (söltun/ruðningur). Stærð dekkja fyrir BMW 523i er gefin upp 205/65 15. Öruggasti mælikvarði á gæði dekkja er þyngd þeirra. Gæðadekk frá þekktum framleiðendum eru undantekningarlaust léttari en óvandaðri dekk t.d. frá Kína og Kóreu (sem engu að síður geta verið hagkvæm). Michelin og Nokian (Hakkapelitta II) tel ég bera af öðrum vetrardekkjum.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

(14. janúar 2005)

Aftur á aðalsíðu