Minning: Jóhann Briem
f. 23.07.1946
d. 05.07.2009


Jóhann Briem var enn við nám í Verzlunarskólanum þegar hann gerðist útgefandi. Upp úr 1970 rak hann Frjálst framtak og var yngstur og umsvifamestur útgefandi tímarita hérlendis. Um það leiti hófst samstarf okkar sem stóð í rúma tvo áratugi, síðast eftir að hann hafði söðlað um og stofnað fyrirtækið Myndbæ til útgáfu kynningar- og fræðsluefnis á myndmiðlum.

Örlögin réðu því að Jóhanni Briem var kippt út úr atvinnulífinu í blóma lífsins til að glíma við illvígan MS-sjúkdóm í rúman áratug þar til yfir lauk. Þrátt fyrir það kom hann ótrúlega miklu í verk: Hann byggði upp sérhæft útgáfufyrirtæki, fyrst á Laugavegi 178 og síðar í eigin húsnæði í Ármúla 18. Í áratugi veitti fyrirtæki hans tugum manna vel launaða atvinnu. Sem stjórnandi hafði Jóhann sérstaka útgeislun. Hann var hinn dæmigerði leiðtogi sem hreif aðra með sér með hugmyndaauðgi, hvetjandi áhuga og framkomu; hann var aldrei lítill í neinu. Margir starfsmanna bundust honum órjúfanlegum böndum og á meðal viðskiptavina eignaðist hann trausta vini.

Jóhanns Briem mun verða minnst, m.a. sem merkilegs frumkvöðuls. Honum tókst að koma á laggirnar skipulagðri útgáfu tímarita og kynningarefnis um 1970 þótt þjóðin teldi einungis 204 þúsund manns, - fyrirtæki sem hefði getað veitt sömu þjónustu í Svíþjóð sem var þá 39 sinnum fjölmennari. Undir stjórn Jóhanns náðu sum atvinnulífstímarit Frjáls framtaks hlutfallslega langtum meiri útbreiðslu en samsvarandi tímarit á sænska markaðnum. Jóhann var einnig frumkvöðull á sviði framleiðslu kynningarefnis á myndmiðlum, í fyrstu á myndböndum, eða þar til hann dró sig í hlé sökum heilsubrests.

Aldrei var lognmolla í kringum Jóhann Briem, mér þótti alltaf gaman að vinna fyrir hann. Undir hans stjórn hlakkaði fólk til að takast á við verkefni dagsins. Hjá honum skapaðist þetta undarlega, mikilvæga fyrirbæri, vinnugleðin, sjálfkrafa. Eins og sagt var um nafna hans, von Göthe, var Jóhann fyrst og fremst manneskja; - frá honum stafaði náttúrlegri hugarhlýju.

Fyrrum starfsmaður, sem varð að dvelja lengi á sjúkrahúsi eftir slys, sagði mér eftirfarandi sem lýsir Jóhanni Briem vel: "Hann var einstakur yfirmaður. Þegar ég lá á sjúkrahúsinu allt árið 1978 kom hann oft í heimsókn, m.a. á aðfangadag. Á gamlársdag sendi hann mér stóran konfektkassa. Oft sendi hann stúlku af skrifstofunni með dönsku blöðin, ilmvatnsglas og sælgæti. Hvaða forstjóri hefði komið svona fram við starfsstúlku nema Jóhann Briem? Einnig man ég hvað áhugi hans og hvatning skipti mann miklu máli, ekki síst þegar manni gekk vel. Oft kom hann við í bakaríi á morgnanna og birtist á kaffistofunni brosandi og hress með nýbakað brauð og marmaraköku sem ég man að var í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Jóhann var einstakur á allan hátt."

Ég votta aðstandendum Jóhanns Briem samúð.

Leó M. Jónsson

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar