Desember 2005.

Skýringar á ástæðum galla í 2,7 lítra vatnskældum Porsche Boxster-vélum í bílum af árgerðum 1998 og 1999 (vélargerð 986/987).

Við smíði Boxster (frumsýndur haustið 1996) var Porsche í samstarfi við Kolbenschmidt um framleiðslu á nýju vatnskældu 2,7 lítra boxaravélinni. Í hana voru notaðir svonefndir ,,Lokasil-sílindrar". Kostur þeirra er núningsflötur með umtalsvert minna viðnám sem eykur endingu þeirra, ekki síst með tilliti til stöðugt lengri tíma á milli þjónustu. Til að átta sig á ýmsu varðandi þessar vélar þarf að hafa í huga að þær eru með láréttum sílindrum og lárétta vélarblokk í miðjunni. Fyrstu Boxster-blokkirnar reyndust gallaðar að fleiri en einu leyti. Gallarnir byrjuðu að koma í ljós strax 1998 og hafa verið og eru enn að koma fram (nú 2005/2006). Alvarlegasti gallinn í fyrstu vélunum var steypugalli sem olli ,,svampmyndun" í álsteypunni. 1997 reyndust margar af þessum vélum leka smurolíu út í gegn um blokkina vegna vandamáls/mistaka við álsteypuna sjálfa; þegar blokkin er steypt í háþrýstimótum þarf loft að eiga greiða leið út úr álblöndunni við steypuna - sé álblöndunni þrýst of hratt í mótið getur loft lokast inni í henni í pokum. Pokarnir mynda ,,svamp" í steypunni. Þar sem ,,svampurinn" myndaðist lak smurolían í gegn um blokkarkápuna. Ástæða þess að olía lak út en ekki kælivökvi er rakin til aðferðarinnar við steypuna; loftpokarnir mynduðust neðst og aftast í miðju blokkarinnar - þar sem smurolían er. (Ástæða er til að blanda ekki þessum olíuleka saman við olíulekann í vatnskældu 911-vélinni sem er vegna sveifaráss/blokkarpakkdósar (RMS-problem = Rear Main Seal Problem).

Annað þekkt vandamál er vegna gallaðra sílindra í 2,7 lítra vélum sem voru framleiddar seinni hluta árs 1998 og snemma árs 1999. Þær teljast allar framleiddar 1998 en eru einnig í Boxster sem seldir voru á fyrstu mánuðum ársins 1999.

Það vandamál verður einnig rakið til framleiðsluaðferðarinnar. Sílindrarnir eru úr málmblöndu sem inniheldur silikon til varnar gegn sliti. Áður en blokkin er steypt raðar starfsmaður sílindrunum í steypumótið sem búið er festingum/stýringum fyrir þá. Sílindrarnir komu fullunnir frá fyrirtækinu Ceram Tec AG í Plochingen sem notar háþróaða frysti-steyputækni. Eftir að mótinu hefur verið lokað er blokkin steypt með háþrýstitækni (HPDC) og háfergjun (SC = Squeeze Casting). Notaðar voru 3 fergjur við steypun blokkanna með 1800 tonna fargi. Kostur ,,Lokasil-steypunnar" er sá að silikonið verður einungis á þeim flötum þar sem það gerir gagn. ,,Lokasil" er ódýrara efni en sílikonblönduð álsteypa (,,Alusil") og auðveldara viðfangs. Þessir sílindrar (eða fóðringar) innihalda mikið silikon (20-27%). Núningsviðnám í þeim er mjög lítið (minni varmamyndun - betri orkunýting - minna slit). Kolbenschmidt hefur einkaleyfisvernd á ,,Lokasil" en er jafnframt þekkt fyrir þróun og framleiðslu á sílindrum með Alusil- og Galnikal-aðferð/tækni. ,,Lokasil" er svokölluð ,,úrbruna-steypa". Það þýðir að silikonið í sílindrunum er bundið í trefjum sem brenna upp og hverfa við fargsteypun blokkarinnar. Með því móti vinnst tvennt í senn; sílikonið verður eftir nákvæmlega á þeim flötum sílindrans þar sem þess er þörf og sílindrar og blokk mynda eitt gegnheilt stykki og kemur þannig í veg fyrir misþenslu (hreyfingu) með tilheyrandi þéttivandamálum.

1998 olli óhapp hjá Kolbenschmidt skemmdum á steypufergjunni. Viðgerð tók talsverðan tíma og hefði getað valdið alvarlegum töfum á smíði og afhendingu Boxster-bíla ef ekki hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana. Lausnin fólst í því að endurvinna blokkir sem ekki höfðu staðist gæðaúttekt og settar höfðu verið til hliðar. Flestar blokkirnar voru með einn eða fleiri sílindra með steypugöllum (aflögun eða ,,svampi"). Viðgerðin var einföld og stóðst að öllu leyti staðlaðar gæðakröfur - að því tilskyldu að hún væri rétt unnin. Á meðan viðgerð á steypufergjunni fór fram var unnið að því að gera við þessar gölluðu blokkir hjá Kolbenschmidt. Viðgerðin hófst á því að bora út gölluðu sílindrana þannig að hægt væri að þrýsta fóðringum í hana í staðinn. Til að varna því að fóðringin gæti hreyfst í blokkinni var fræst fyrir víðari hring eða spori efst í sílindrahólfinu. Sporið var 2 mm víðara en ytra þvermál sílindrans/fóðringarinnar og dýpt þess um 4,5 mm. Við ísetningu fóðringanna var ákveðið að beita þrýstingi. Í þeim verkþætti urðu mistök. Í sumum tilfellum var þrýstingurinn meiri en þessi festihringur fóðringarinnar þoldi. Afleiðingin varð sú að sprungur mynduðust efst í fóðringunni. Þegar efsti hluti fóðringarinnar, þessi festihringur, losnaði sundur í vélinni undir álagi olli það miklum skemmdum; brot úr hringnum eyðilögðu sílindrann, stimpilinn, ventlahausa og brunahólfið; stimpilhringirnir bitu sig í sílindravegginn og þrýstu fóðringunni inn að miðjunni þar sem endi hennar rakst í sveifarásinn með tilheyrandi alvarlegum skemmdum.
Í vægari tilfellum var þessum vélum skipt út á ábyrgðartímanum vegna kælimiðilsleka eða bruna (hvítur reykur) sem var þá vegna áðurnefnds festihrings sem hafði losnað og náð að skemma heddpakkninguna áður en vélin sallaðist niður af sjálfri sér.

Porsche hefur ekki gefið nákvæmar upplýsingar um hve margar 2,7 lítra vélar með þennan galla er um að ræða að öðru leyti en að þær eru af þeim árgerðum sem nefndar eru hér að ofan (1998 og 1999). Porsche hefur heldur ekki gefið upp nein vélar- eða verksmiðjunúmer þeirra véla sem eru með viðgerðar blokkir/sílindra. Ástæða er til að nefna að eftir að þessi galli kom í ljós, en það var yfirleitt á fyrstu 10 þús. km var reynt að endurbæta aðferðina/tæknina við viðgerð blokkanna hjá Kolbenschmidt. Nú er hins vegar nokkuð ljóst að það hefur ekki tekist að öðru leyti en því að flytja eyðileggingu þessarra ákveðnu 2,7 lítra véla fram yfir ábyrgðartímann.
Porsche hefur brugðist við þessum galla með því að skipta um vélar í bílum í ábyrgð - en dæmi eru um að skipt hafi verið þrisvar um vél í sama bíl á ábyrgðartíma. Vitað er um tilfelli þar sem Porsche og/eða umboðsaðilar þess hafi komið til móts við eigendur þessara Boxster-bíla og bætt þeim vélarnar jafnvel þótt ábyrgðin hafi verið útrunnin. Hins vegar gefur það auga leið að engum umboðsmanni Porsche þykir það eftirsóknarvert að fá inn á sitt svæði bíla, sem verið er að bjóða í Bandaríkjunum með þennan galla óbættan (sem er oft trassaskap eigenda að kenna frekar en þjónustukerfi Porsche), því þeim fylgja erfiðleikar og leiðindi. Því er ástæða til að vara fólk við sem sér ,,ódýran" Porsche Boxster af árgerð 1998/99 auglýstan t.d. á E-bay - lágt verð á slíkum bíl þýðir að öll aðvörunarflögg ættu að vera á lofti ! Varla þarf að taka það fram að þessi galli er ekki í öðrum árgerðum af Porsche Boxster/911 en vatnskældum 1998/99.

(byggt m.a. á upplýsingum Porsche Club of America)

Leó M. Jónsson
www.leoemm.com
vélatæknifræðingur

 


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar