Prófun: Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

BMW 320i Touring


Sá BMW 300 Station sem enn er við lýði kom sem nýr bíll á markaðinn af árgerð 1996. Endurbætur voru talsverðar, m.a. breiðari afturhluti sem jók innanrýmið. Samt sem áður er BMW 318/320i Touring með takmarkaðra farangursrými en margir keppinautar í flokki stationbíla.

Það fer ekkert á milli mála að þessi BMW þristur er enn í fullu gildi árið 2004 þótt hann sé ef til vill ekki nýtískulegur í samanburði við bíla á borð við Renault Laguna - og ekki telst hann heldur með rúmbestu stationbílum. En gæði bílsins leyna sér ekki. Það skyldi því ekki koma á óvart að BMW-3 er dýrari en flestir aðrir bílar af millistærð.

Vélar
Hafi einhver haldið að 4ra sílindra BMW station sé einhver sleði þá er það misskilningur. Vélin í 318i er með 1796 rsm slagrými og skilar 118 hö við 5500 sn/mín. Hámarkstogið er 170 Nm við 3900 sn/mín. Með þessari vél er krafturinn viðunandi en má ekki minni vera, jafnvel með beinskipta 5 gíra kassanum. 320i er hins vegar með 4ra sílindra 2ja lítra vél sem skilar 143 hö við 6000 sn/mín og hámarkstogi 200 Nm við 3750 sn/mín. Með sjálfskiptingunni, sem jafnframt má handskipta, er þessi 1385 kg 320 stationbíll hins vegar kraftmikill. Það er t.d. áberandi hvað þessi aflsmunur, sem þó er ekki nema 25 hestöfl, gerir 320-bílinn liprari, sneggri og, að mér finnst, öruggari. Mismunurinn á bílunum er talsvert meiri en en mismunur hestaflatölunnar segir til um. Skýringin liggur í vélstýrikerfinu, Motronic frá Bosch en það er forritað með sparneytni sem frumforsendu í 318i en afköst í 320i. Þessar 4ra sílindra BMW-vélar eru bæði traustar og vandaðar; 16 ventla vélar með öllum þeim tæknibúnaði sem nú tíðkast. Báðar eru áberandi þýðgengar.

Viðbragð - afköst
BMW 320i Touring er 9,3 sek. að ná 100 km. hraða frá kyrrstöðu. Hámarkshraðinn er 218 km/klst. Mæld eyðsla í lengri akstri á þýskri hraðbraut er 7,2 lítrar á hundraðið með sjálfskiptingunni. Athygli vekur hve lítill staðalbúnaður er innifalinn í verði nýs BMW 320i Touring. Það fyrirkomulag dylur hátt verð bílsins. Sá sem prófaður var var þó búinn spólvörn (DSC), en hún hefur verið staðalbúnaður síðan 2001, sem gerir bílinn merkjanlega stöðugri í rásinni og án efa öruggari í vetrarakstri.

Öryggi er ofarlega á blaði hjá BMW eins og vænta má. Þessi station-bíll fékk t.d. 4 stjörnur fyrir öryggi í svonefndri Euro Ncap-prófun. Auk alls venjulegs öryggisbúnaðar eru 6 loftpúðar í árgerð 2004.

BMW 320i Touring er á meðal fallegustu station-bíla.

Stærð - rými
Heildarlengd bílsins er 4,47 m. Breiddin er 1,74 og hæðin1,42 m. Hjólhafið er 2,7 m. Þessi ytri mál segja ef til vill ekki mikið. Hins vegar kemur manni dálítið á óvart að innra rýmið skuli ekki vera meira, sérstaka athygli vekur hve farangursrýmið í þessum station-bíl er takmarkað, nánast ekki meira en sæmilegt fyrir meðalstóran hund. Hins vegar er þar að finna ýmsar hirslur og festikróka sem koma að góðum notum. Ég sló máli á bilið á milli hjólskálanna og reyndist það vera 835 mm sem er 50 mm minna en í Renault Laguna station og Benz C-T. Varahjólið er undir hlera í gólfinu og hólfið vel einangrað sem finnst á því að þetta dæmigerða boddíhljóð sem oft hefur fylgt station-bílum heyrist ekki. Lárétta tjaldið sem draga má yfir farangursrýmið virkar jafnframt sem hljóðdeyfing.

Rými bílstjóra er eins og það á að vera, stjórntækin eins og maður á að venjast í BMW og stólarnir einstaklega þægilegir með upphitun, hæðarstillingu og hallastillingu setu, stillanlegum stuðningi við mjóbak auk venjulegra stillinga.

Útlit og akstur
BMW 320i Touring er án efa einn af fallegri station-bílum af millistærð - línan í þessum bíl er stílhrein og hann hefur tvímælalaust yfirbragð nýs bíls. Þótt hönnunin sé ekki spónný eru engin ellimerki á BMW 320i Touring.

Aksturseiginleikarnir eru dæmigerðir fyrir BMW, bíllinn er hæfilega mjúkur þegar ekið er beint af augum en um leið og lagt er á breytir fjöðrunin um karakter - verður stinnari og sportlegri. Slaglengd fjöðrunarinnar er meiri í þessum BMW en gerist og gengur, árangurinn er áberandi mikið veggrip sem lýsir sér t.d. í því hve hratt má aka þessum bíl á mjög vondum malarvegi. Rásfesta er yfir meðallagi, bílinn er lítt næmur fyrir hliðarvindi og vingnauð og veghljóð á ferð með minnsta móti.

Högg í stýri þegar farið er yfir skarpar brúnir á malbiki virðist ætla að fylgja 300-bílnum og furðulegt að þetta skuli ekki vera búið að laga þennan hvimleiða mínus á svo annars vönduðum bíl.

Athygli vekur að BMW mælir með því að 20 þúsund km. séu látnir líða á milli þjónustu, m.a. á milli smurolíuskipta. Ég myndi aldrei nota sömu smurolíu lengur en 10 þús. km. - kaupi frekar ódýrari smurolíu og skipti oftar. Þessi 20 þúsund km. þjónustubil virðast vera einhver sölutrikk til að blekkja þá nískustu á meðal kaupenda.

Fleiri greinar um bílaprófun

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar