Kanntu að herða stálegg svo bíti?

Eflaust liggja margir bitlausir meitlar í verkfæraskúffum og kistum. Þegar á að nota þessi verkfæri duga þau illa - þeim er jafnvel fleygt og keypt ný. Með réttum upplýsingum getur hver sem er gert meitil úr stáli eins og nýjan. Byrjað er á að bregða meitlinum á smergel og laga ásláttarendan þar til sveppalagið er horfið. Síðan er endinn lagaður til þar til hann er örlítið kúptur og brúnir rúnnaðar. Þegar meitill er skerptur þarf að taka mið af því hvort hann skuli nota á harðan eða mjúkan málm. Á mýkri málma þarf egg meitils að mynda 60° fleyg. Eigi að nota meitilinn á harðara stál þarf hvassari egg, 70° - 75° . Gæta þarf þess þegar meitill er lagður á að eggin sé jöfn þvert yfir og báðu megin. Þegar eggin er mynduð þarf að varast að hita stálið um of - betra er að taka lítið í einu í mörgum áföngum þar til eggin hefur fengið rétta lögun.

Næsta skrefið er að herða stálið en það er gert með hitun sem veldur því að sameindir stálsins raða sér upp á sérstakan hátt sem veldur hörku. Festu nú meitilinn (eða marga meitla) í skrúfstykki þannig að nýformuð eggin vísi út. Logsuðutæki eru notuð til að hita eggina (með stórum spíss) með venjulegum loga þar til hún er orðin skær-rauðglóandi. Þá á hitastig hennar að vera 750-830 °C. Þá er brugðið krafttöng á meitilinn og einungis egginni dýft 5 sm niður í kalt vatn og kæld þar til hana má snerta.

Þegar hér er komið sögu höfum við hert stálið og gert það stökkt. Verkinu er þó ekki lokið. Eftir er að gefa stálinu þá seiglu sem fær eggina til að endast. Það er gert með því að hita eggina aftur en nú mun minna eða þar til eggin er mitt á milli þess að vera brún eða blá. Hitastigið á þá að vera um 300 °C. (Það er auðveldara að vinna þetta verk við takmarkaða raflýsingu upp á litinn að gera). Þegar þessu hitastigi hefur verið náð er öllum meitlinum sökkt í kalt vatn og látinn kólna. Þá er bara að strjúka meitilinn með tusku vættri í smurolíu til að ekki falli á hann ryð og er þá meitillinn aftur sem nýr.

Þessa sömu aðferð má nota til að seigherða ýmis önnur verkfæri og gera þau sem ný. Verkfæri eru dýr og góð verkfæri geta sparað mikinn tíma. Það skiptir því máli að kunna með verkfæri að fara.

Netfang höfundar

Fleiri greinar um tæknileg málefni

Greinar um bíla

Til baka á forsíðu