Garður Barthólómeusar

Eftir Leó M. Jónsson

Berchtesgaden í þýsku Ölpunum er eitt af fegurstu landssvæðum Mið-Evrópu og vinsælt ferðamannasvæði. Berchtesgaden á sér jafnframt merkilega og sérstaka sögu. Ljósmyndun í Berchtesgaden er ekki á færi annarra en atvinnumanna með sérstakan búnað. Við vinnslu þessarar greinar, sem birtist í tímariti árið 1987, naut ég aðstoðar ákaflega alúðlegra fagmanna á skjalasafni sögufélags Berchtesgaden þar sem mér var m.a. leyft að nota ljósmyndir frá styrjaldarárunum. Tvö fyrirtæki í Berchtesgaden veittu mér góðfúslega leyfi til að nota ljósmyndir úr gríðarlegu safni þeirra og ýmis útgefin rit þeirra við öflun heimilda. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir hjálpsemina og liðlegheitin. Þau eru Verlag Anton Plenk og Fotokunstverlag FG Zeitz. Hvet ég lesendur til að skoða vefsíður þeirra. Sá sem ekki hefur lagt leið sína til Berchtesgaden á mikið eftir. Áður en haldið er af stað er vissara að tryggja sér gistingu fyrirfram því meiri skortur er á gistirými í Berchtesgaden en annars staðar í Þýskalandi. Íslensk kona, Helga Þóra Eder, hefur ásamt þýskum eiginmanni búið í Berchtesgaden í 30 ár og rekur þar gistiheimili með nokkrum herbergjum auk þess sem hún leigir út íbúð. Helga heldur úti vefsíðu á ensku, þýsku og íslensku og henni má skrifa á íslensku. Veffang Helgu er www.friedwiese.de/

(Þeim sem leigja bíl í Þýskalandi er bent á að um bíla í stærri flokki (E og F) gilda oftast takmarkanir, settar af tryggingafélögum, t.d. er ekki heimilt að aka þeim yfir landamærin og inn í Ítalíu. Því er öruggara að kynna sér skilmálana rækilega í upphafi ferðar).

Á leið upp snarbrattan, mjóan og hlykkjóttan veginn neðan úr Berchtesgaden upp í þorpið á Obersalzberg (Efra Saltberg) í hlíð fjallsins Hoher Göll ofan við Berchtesgaden kemur ákveðin setning í hugann; ,,Hefur hver til síns ágætis nokkuð". Nema einn, - finnst mér að ætti að bætast við og hef þá Martin Bormann í huga. Í bröttustu brekkunum er sem bíllinn ætli að prjóna og falla afturfyrir sig enda er farið hálfan kílómetra lóðrétt upp á þessum tiltölulega stutta vegi þar til komið er upp á Hintereck bílastæðið í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli þaðan sem rúturnar ganga upp í efsta bílastæðið, neðan við Kehlsteinhaus (Arnarsetrið) sem trónir 834 m ofar efst á brún fjallsins Kehlstein.

Þegar farið er yfir sögu þorpsins Obersalzberg á síðari hluta 20. aldar er Martins Bormann oft getið og, að því virðist, aldrei fyrir annað en illvirki og varmennsku. Hann var framkvæmdastjóri Hitlers á Oberzalsberg fram að stríðslokum 1945. Hér knúði hann þúsundir stríðsfanga áfram við geðveikislegar byggingaframkvæmdir, jafnvel í vitlausum veðrum og vetrarkulda, með hjálp stormsveitarmanna með sérþjálfaða hunda. Hann lifði hér í vellystingum praktuglega með hirð gæðinga sér á báðar hliðar. Ofboðslegt óhóf hans, eyðslusemi og svall varð frægt að endemum. Svo varð einnig meðferð Bormanns á föngum sem hafðir voru sem þrælar við framkvæmdirnar. Hér létust margir; - örmögnuðust við vinnu, slösuðust við glæfralegar vinnuaðstæður, dóu af vosbúð eða af völdum barsmíða og hrottaskapar.

Í fjölda heimildarita er umfjöllunin um Martin Bormann öll á einn veg; hann virðist hafa verið á eina bók lærður og ekkert haft sér til ágætis: Engum líkaði við þennan ómenntaða sveitadurg og flestum stóð ógn af honum; hann þótti hrokafullur undirförull, valdagírugur, hrottafenginn ruddi og sýndarmennskan uppmáluð. Samt átti þessi maður konu og börn.

Þegar staðið er á hólnum við bílastæðið Hintereck og horft yfir þennan dásamlega fallega stað er erfitt að gera sér í hugarlund þann mikla mannlega harmleik sem honum tengist á fleiri en einn veg. Og hér voru lögð á ráðin um hvert illvirkið á fætur öðru í styrjöld sem mun hafa kostað um 50 milljónir manna lífið.

Mun fáa hafa grunað hvílík ógæfa fylgdi Austurríkismanni að nafni Adolf Hitler sem barði að dyrum og baðst gistingar á sveitakrá á Oberzalsberg sumarkvöld eitt árið 1923.

Perla í Bæjaralandi

Berchtesgaden er í suðausturhorni Þýskalands, í efra Bæjaralandi skammt suðaustan við München - í Ölpunum aðeins spölkorn frá Salzburg í Austurríki; 460 fkm tota sem gengur inn í Austurríki og talin vera einn af fegurstu stöðum í Evrópu. Í Berchtesgaden er 226 fkm svæði umhverfis stöðuvatnið Köningssee friðlýstur þjóðgarður.

Af hásléttunni suðaustur af München er farið um Inzell og 500 metra niður á milli skógivaxinna fjalla, - stanslausar brattar brekkur þar til komið er niður í héraðið, dalverpi umlukið hrikalegum fjöllum. Þótt undirlendi sé lítið eru býlin mörg og nokkrir bæjir, stærstir Bad Reichenhall, Bischofswiesen og Berchtesgaden sem jafnframt er samheiti.

Þorpstorgið í Schönau. Dæmigerð sjón í Berchtesgaden. Fjallið Hoher Göll í bakgrunni.

Berchtesgaden, sem upphaflega mun hafa heitið Bartholomeusgarten, kemur fyrir sjónir ferðamanns sem afar sérstætt samfélag, um margt ólíkt öðrum bæverskum stöðum. Frá náttúrunnar hendi er þetta skýrt afmarkað og nánst lokað svæði með einungis 3 aðkomuleiðir. Hugtakið ,,fjallabúar" eða ,,fjallafólk" kemur í hugann enda sjást hér þrekvaxnir kálfar, karla sem kvenna, standa upp úr sterklegum fjallgönguskóm. Íbúðarhúsin eru upp eftir öllum hlíðum. Í miðbænum (Markt) eru hús frá 14. öld og yngri. Húsin hafa á sér suðrænt snið með verönd og sólhlerum fyrir gluggum sem vitna um lygnt veðurfar. Stíllinn er gamall og húsum vel við haldið. Hér, eins og víðar í Suður-Þýskalandi, sjást áhrif hins kaþólska siðar í skreytingu húsa að utan, gjarnan með myndum trúarlegs eðlis. Elstu veggmyndir eru frá 16. öld.

Saga þessa héraðs er sérstök. Það hefur verið hluti af Bæjaralandi síðan 1810 eftir að hafa tilheyrt Austurríki-Ungverjalandi síðan 1806. Þar áður, um 700 ára skeið, hafði Berchtesgaden verið eitt Páfaríkja undir stjórn biskups með furstatign; eins af prinsum hins heilaga rómverska keisaradæmis.

Öldum saman var klaustrið miðpunktur þessa strangkaþólska samfélags og enn þann dag í dag leggja kaþólskir land undir fót og fara pílagrímsför til helgra staða í Berchtesgaden. Fjórir þeirra eru þekktastir; Kunterweg, kirkjan í Ettenberg, Barthólómeusarkapellan við Köningssee og kirkjan Maria Gern hátt uppi í fjalladal. Þar eru nokkur málverk frá 16. og 17. öld, þekktast þeirra er myndin ,,Vitjun Maríu" (vitjun Maríu meyjar til Elisabetar móður Jóhannesar skírara). Greiðasala til pílagríma (og nú ferðamanna) er áðstæðan fyrir hinum mörgu gistiherbergjum og þorpskrám í Berchtesgaden.

Hér skartar náttúran sínu fegursta; skógivöxnum hlíðum, grænum engjum, lækjum, marmarahvítum tignarlegum fjöllum, blómaskrúði og fögrum vötnum, - landi Mjallhvítar og dverganna sjö. Eftir að sól er sest ímyndar maður sér að ein ljóstýra inni í skóginum geti kveikt hugmyndir að hundrað æfintýrum.

Fyrr á öldum var aðalatvinnuvegur íbúanna vinnsla saltnáma í fjöllunum, eins og svo mörg örnefni bera með sér og síðar allskonar tréiðnaður, aðallega smærri hlutir úr tré svo sem búshlutir, alls konar munir trúarlegs eðlis, skrín og önnur ílát úr tré að ógleymdum frægum leikföngum úr tré. Einu nafni nefndust þessar vörur ,,Berchtolsgadener Waare" og voru eftirsóttar víða um Evrópu og stóð blómaskeiðið alla 17. öld. Þá fóru karlar úr Berchtesgaden fótgangandi með þessar vörur á bakinu til nálægra bæja og borga . Til að ,,ganga ekki auðum höndum" prjónuðu þeir sokka á göngunni. Það hafa því fleiri en íslenskar ,,kellíngar" farið prjónandi á milli bæja. En 18. öldin reyndist íbúum Berchtesgaden erfið því saltnámið hætti að bera sig. Einn megnar landbúnaðurinn ekki að standa undir lífsbjörginni vegna landleysis og var því lifað við sult og seyru þar til á fyrri hluta 19. aldar að fyrirfólk uppgötvar Berchtesgaden og fer að leggja leið sína þangað á sumrin sér til heilsubótar. Þannig varð þýska heitið ,,kurort" til. Áður en langt um leið voru skemmtiferðamenn komnir í stað pílagríma. Ekki minnkuðu vinsældir staðarins við það að bæverska konungsfjölskyldan, ættmeiður af húsi Wittelsbach, valdi hann til sumardvalar og markaði sér konunglegar veiðilendur.

Þegar á 19. öld sóttu listmálarar víðsvegar að úr Evrópu til Berchtesgaden. ,,Stillur" frá Köningssee urðu brátt eftirsóttar á fínni veggi og voru þeirra tíma auglýsingar fyrir héraðið. Á ákveðnum stað við Köningssee sem nefnist ,,Malervinkel" mátti sjá þekktustu listmálara Evrópu á hverju sumri, ár eftir ár, enda var nánast inntökuskilyrði í heldri samkvæmi að þekkja landslagið í Berchtesgaden með fjallstindinn Watzman eins og hann ber fyrir sjónir frá Malervinkel. Brátt þótti bátsferð yfir Köningssee hápunktur draumasumarleyfis. Í byrjun 20. aldar fer fólk að leggja leið sína á vetrum til Berchtesgaden til að fara á skíði eða látast fara á skíði: Enginn furða þótt nú sé þjónusta við ferðamenn aðalatvinnuvegurinn allan ársins hring.

Hefðir - undirstaða ,,byggðastefnu"

Í Berchtesgaden er tekið vel á móti ferðamönnum. Svo virðist þó um hnútana búið að gestir freistist ekki til að ílendast þrátt fyrir náttúrufegurðina. Erfiðleikar, miklar breytingar og ör þróun hefur þjappað þessu fólki saman og sterkasta hópeflið hefur reynst vera hefðir, - gamlir siðir. Hér er þjóðbúningur karla og kvenna ekki aðeins til skrauts á hátíðum heldur er gengið til vinnu í þjóðlegum klæðnaði sem er um margt ólíkur bæverskum búningi. Kaþólskir siðir eru hér í hávegum hafðir. Án efa er það vegna rösklegrar framgöngu kanúka í Berchtesgaden á öndverðri 18. öld þegar þeir ráku burt þá sem höfðu ánetjast kenningum Marteins Lúthers - kenningum sem sumir bændur höfðu talið sér einkum hagstæðar útfrá búfræðilegum sjónarmiðum.

Annars verður ekki betur séð en að í Berchtesgaden sé að finna þá sem með réttu geta kallað sig fyrstu samvinnumennina í Evrópu síðan á steinöld. Fólkið er talið hafa flust frá Pinzgau á 12. öld. Það braut landið og ræktaði í samvinnu en úthlutaði skikum eftir ákveðnum reglum. Það var ekki fyrr en 1937 að bændurnir öðluðust rétt til að kaupa jarðirnar með ákveðnum kvöðum. Meðal þeirra er árlegt afgjald og sú kvöð að mega ekki flytja úr byggðarlaginu án sérstaks leyfis. Hins vegar höfðu þeir leyfi til að skipta jörðunum og fá meðábúendur, syni og tengdasyni sem unnu heima við trésmíði eða unnu í saltnámunum. Bændurnir eru eins konar landsetar á eigin jörðum og er samvinna þeirra efni í langa grein. Þetta ásamt mörgu öðru gerir það að verkum að enginn nema heimamaður getur í raun sest að til langframa í Berchtesgaden. Þar sést ekki, á meðal 45 þúsund heimamanna, andlit af öðrum ættboga eins og t.d. í München.

Á haustin má sjá fagurlega skreytt naut í högunum. Á krúnunni eru rósettubönd og aðrar skrautfléttur sem heimasætur hafa hannyrt á sumarkvöldum. Skrautneytin eiga þeir bændur sem ekki hafa orðið fyrir óhappi með búpening sinn það árið.

Öðru vísi kóngur

Lúðvík II, konungur Bæjaralands, var á sinni tíð sagður geggjaður. Því til sönnunar átti að vera byggingaræði hans en hann stóð í byggingabraski allan þann tíma sem hann ríkti sem þó var einungis 22 ár. Hann lést á dularfullan hátt; sagður hafa drukknað í Starnberger-vatni 13. júní 1886. Hann var þá aðeins tæplega 41 árs og hafði verið þvingaður til þess að sleppa stjórnartaumunum. Ein af sönnunum fyrir geggjun hans átti að vera sú að hann hafði falið uppfinningamanni að kanna möguleika á smíði tækis sem gerði manni kleift að flúga! (10 árum seinna flaug fyrsta flugvél Wright-bræðra). Eftir Lúðvík II liggja 3 stórkostlegar hallir í Bæjaralandi sem laða að ferðafólk. Hann kom á fót fyrstu listaakademíu álfunnar, Wittelsbach-stofnuninni til að efla listiðnað, gerði Rauða Krossinum kleift að taka til starfa í Bæjaralandi (og þar með í Þýskalandi) og það var Lúðvík II sem bjargaði tónskáldinu Richard Wagner frá gjaldþroti og gerði honum kleift að semja fleiri snilldarverk tónbókmentanna.

Þessi merkilegi kóngur kemur við sögu Berchtesgaden á sinn sérkennilega hátt: Það er nefnilega ,,geðbilun" Lúðvíks II meðal annars að þakka að einn fegursti staðurinn í Berchtesgaden, stöðuvatnið Köningssee, er óspillt og ómengað, það eina af 25 stöðuvötnum Bæjaralands. Þegar skemmtiferðamönnum hafði fjölgað ár eftir ár átti að taka í notkun bát með kolakyntri gufuvél árið 1873 til að sigla með fólk á vatninu. Lúðvík II brá við skjótt og kom í veg fyrir þau áform: Hann lagði blátt bann við notkun hvers konar véla á svæðinu umhverfis vatnið og hefur það bann staðið allar götur síðan. Engin byggð er leyfð á nyrðri vatnsbakkanum, sem komast má að landveg, nema hótelið ,,Shiffmeister" með tilheyrandi bátaskýli. Einn aðili annast útgerð þess 21 báts sem leyft er að nota á vatninu en það eru árabátar og hljóðlausir rafknúnir fólksbátar.

Á ákveðnum stað á Köningssee er bergmáliið þrefalt. einungis árabátar og hljóðlausir rafknúnir bátar eru leyfðir á vatninu.

Königssee minnir á fjörð. Það er skorðað á milli brattra fjalla. Víðast ganga snarbrattar fjallhlíðarnar út í vatnið en á stöku stað eru litlir balar og engi. Það er eitt af smærri stöðuvötnum í Bæjaralandi, 5 fkm að flatarmáli og einungis 1200 metrar þar sem það er breiðast. Eins og margt annað í Berchtesgaden er Königsee sérstakt fyrirbrigði. Það er eitt af dýpstu stöðuvötnum Mið-Evrópu, 185 metra djúpt. Önnur stöðuvötn í Bæjaralandi eru á Alpastallinum og talin hafa myndast á síðasta skeiði ísaldar fyrir um 12 þúsund árum. Königsee er allt annars eðlis; talið 140 milljón ára gömul gjá sem dýpkað hafi á ísöld.

Öldum saman fluttu bændur búfénað yfir vatnið á stórum flatbytnum sem nefnast ,,Landauer". Þannig gátu þeir nýtt bithaga handan vatnsins en bithagar eru af skornum skammti í Berchtesgaden. Það er óneitanlega skrýtið að sjá svo stóra báta uppi í reginfjöllum, enda verður óvíða lengra frá sjó og siglingaleiðum komist. Bátarnir eru smíðaðir á vetrum í sérstakri stöð við vatnið og ,,Landauer-bátar" hafa verið nákvæmlega eins öldum saman. Þeir fluttu pílagríma hér áður fyrr auk búfénaðar til og frá beitarhögum við vatnið.

Á dálitlu nesi sem skagar út í vatnið undir miðri austurhlíð fjallsins Watzman stendur kirkja heilags Barthólomeusar, eins lærisveinanna, ásamt ,,Húsi fiskimannsins", bátasmiðju og gripahúsum. Þangað verður ekki komist nema á báti. Þar skammt frá er minnismerki og lítið altari til minningar um 70 pílagríma sem drukknuðu af báti sem sökk í þrumuveðri 23. ágúst 1688 á leið til árlegrar messu heilags Barthólómeusar í kirkjunni, en hún er sungin 24. ágúst. Uppi á stalli í hlíð Gotzenalm, á bakkanum gegnt kirkju heilags Barthólómeusar, er Malervinkel, sá frægi sjónarhóll listmálara, sérstaklega þeirra sem máluðu í anda rómantísku stefnunnar á fyrri hluta 19. aldar. Þar skammt frá er bergmálið þrefalt þegar lúður er þeyttur á vatninu. Sé haldið innar eftir vatninu er komið að eiði en handan þess er annað vatn minna, Obersee, en fyrir botni þess gnæfa tveir fjallstindar, ,,Hníflar kölska" (Teufelshörner). Hér er bátnum snúið við.

Þegar haldið er til baka er tindur Watzman, tákn Berchtesgaden, á vinstri hönd. Þjóðsagan segir að fyrir æfalöngu hafi ríkt dramlátur kóngur í Berchtesgaden sem hét Watze. Hann gerði engum gott en stundaði veiðar nótt sem nýtan dag. Ómur veiðihornanna og ýlfur grimmra hunda vakti ótta á meðal fólksins. Látlaus veiðin gekk nærri dádýrastofninum og spillti skóginum. Dag einn kom kóngur og menn hans þar að sem kona með barn á armi gætti hjarðar. Við hlið hennar lá stór fjárhundur. Hundar kóngs réðust umsvifalaust á fjárhundinn og felldu konuna í látunum. Watze kóngur kom þar að - hló og henti gaman að. Þegar bóndi konunnar kom hlaupandi konu sinni til hjálpar og réðst gegn veiðihundunum ærðist kóngur af reiði. Hann skipaði mönnum sínum að drepa bóndann, konu hans og barn og sigaði hundunum á líkin. En ekki var viðureigninni fyrr lokið en óðir hundarnir réðust á kónginn, drottningu hans og börn og drápu. Líkin breyttust síðan í hvíta marmarakletta. Sá hæsti er tindurinn Watze kóngur en sá næst hæsti er drottning hans, á milli þeirra eru börnin, 7 tindar.

Obersalzberg

Bærinn Berchtesgaden gengur yfirleitt undir heitinu ,,Markt" til aðgreiningar frá héraðinu öllu sem ber sama heiti. Á Hotel Post (an der Markt) er veðurathugunarstöð á veggnum hægra megin við útidyrnar; loftvog, raka- og hitamælir. Þessi tæki eru ekki til skrauts og þau er að finna á flestum gistihúsum staðarins. Á hverju ári ferst fólk í hrikalegum fjöllunum vegna skriðufalla, grjótflugs, hraps, eldinga eða snjóflóða sem verða þegar skipast veður í lofti á skammri stund. Frá 1890 til dagsins í dag hafa nærri 100 manns látið lífið í snarbröttum hlíðum Watzman.

Í stein við vinsæla fjallgönguleið hefur verið höggvin setning á latínu fyrir ævalöngu: ,,Pax intrantibus et inhabitantibus", - friður sé með ferðamönnum og heimamönnum. Berchtesgaden er friðsæll staður: Þar var ekkert virki eða leifar slíkra hernaðarmannvirkja fyrir fyrra stríð. Saga Berchtesgaden er ekki stríðum stráð eins og saga margra annarra héraða Mið-Evrópu.

Austan við Markt, í áttina að Salzburg í Austurríki, eru fjöllin Rossfeld, Mannlgrat og Kehlstein í boga frá norðaustri til vesturs og er Hoher Göll (2522 m) hæsti tindur Mannlgrats tignarlegastur. Þau mynda eins konar sæti. Að framan er Salzberg en sætið, slétta ofar í fjallinu í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli og 500 m ofan við bæinn Berchtesgaden, nefnist Obersalzberg.

Á Obersalzberg var búið öld fram af öld. Þegar fína fólkið uppgötvaði Berchtesgaden á 19. öld og tók að venja komur sínar þangað sér til heilsubótar jókst byggðin þar smám saman; gistihús voru reist, á meðal þeirra var Pension Moritz þekktast en heiti þess var síðar breytt í Platterhof og enn síðar í Hotel General Walker. Ferðamönnum fjölgaði verulega eftir að járnbraut var lögð til Berchtesgaden 1888. 1903 var reist Gistihús Tyrkjans (Gasthaus zum Turken) auk þess sem bændur og sveitakrár á Obersalzberg leigðu út herbergi. Í byrjun 19. aldar komu á sumrin til Berchtesgaden kóngafólk, aðalsmenn, iðnjöfrar, skáld og aðrir listamenn. Á Pension Moritz á Obersalzberg dvöldu ekki ómerkari menn en Dr. Carl von Linde, frumkvöðull nútíma kælitækni og á meðal listamanna var bæverska skáldið Ludwig Ganghofer, Peter Rossegger og fleiri sem komu til að njóta lífsins í þessu þýska ,,Unuhúsi". Skammt frá Pension Moritz var Villa Bechstein, sumarhús í eigu hljóðfærasmiðsins Carl Bechstein sem var þekktur fyrir Bechstein-flygla sína. Varla hefur því vantað hljóðfærin. Viðskiptaráðherra Bæjaralands, Winter von Buxtehude lét byggja sér lítið hús á Obersalzberg sem hann nefndi ,,Haus Wachenfeld" og síðar mun koma við sögu. Telja má víst að menningarlíf hafi staðið með miklum blóma á Obersalzberg, ekki síst þau sumarkvöldin sem einhverjir meðlimir bæversku konungsfjölskyldunnar eða austurrísku keisaraættarinnar hafa verið á staðnum ásamt fylgdarliði.

Bylting skipulögð?

Sumarið 1923 gistu tveir menn á Pension Moritz, sem þá nefndist Platterhof. Annar þeirra var Dietrich Eckard, blaðamaður og skáld sem m.a. hafði þýtt Pétur Gaut Ibsens á þýsku og var þekktur fyrir að vera með afbrigðum ölkær. (Hann lést síðar þetta sama ár). Hinn var Hermann Esser, maður með vafasama fortíð og sem bauð ekki af sér góðan þokka. Skömmu síðar þetta sumar bættist í hópinn Austurríkismaður að nafni Adolf Hitler en þessir þrír sáust oft saman á gangi á Obersalzberg um sumarið.

Síðla þetta ár þann 9. nóvember gerðu hægri öfgamenn, eins og þeir voru nefndir, tilraun til að velta ríkisstjórn Bæjaralands úr sessi. Byltingin mistókst og forsprakkarnir, en á meðal þeirra var Hitler, voru dæmdir til fangelsisvistar. Þegar Hitlar var sleppt úr Landsberg fangelsinu í München 19. desember 1924 var það álit margra fyrrum félaga hans að hann væri búinn að vera. Hann var alslaus, hafði verið sviptur opinberu málfrelsi og fleiri borgaralegum réttindum og við honum blasti að verða rekinn úr landi og framseldur til Austurríkis. Hinn ungi Nazistaflokkur hafði verið bannaður ásamt blaði flokksins. Hitler hírðist í München um veturinn. Um vorið 1925 hélt hann til Berchtesgaden þar sem hann hafðist við á gistihúsum á Obersalzberg um sumarið og sleikti sár sín. Þar fylgdu honum nú aðrir menn eins og tryggir hundar. Á meðal þeirra var undarlegur Bæverji, alinn upp í Egyptalandi, að nafni Rudolf Hess. Um haustið tók Hitler á leigu lítið hús ofan við Platterhof. Þar bjó hann þegar systir hans! keypti sumarhús fyrrum viðskiptaráðherrans, Haus Wachenfeld þar skammt frá, og hann flutti þar inn. Á Obersalzberg (1925-26) skrifaði Hitler bókina ,,Mein kampf"; dag eftir dag, mánuð eftir mánuð á Hitler að hafa lesið fyrir og Rudolf Hess skrifað niður.

Vellauðugur rithöfundur

,,Mein kampf" seldist nokkuð vel til að byrja með og síðar í gríðarlegum upplögum. Um 1930 var svo komið að Hitler var orðinn stórauðugur maður og gat látið eftir sér nánast hvað sem var. Árið 1927 hafði hann keypt ,,Haus Wachenfeld" af systur sinni og lét þegar hefjast handa um endurbyggingu og stækkun hússins sem hann gaf nafnið Berghof og þótti ákaflega glæsilegt. (Til að girða fyrir misskilning var Berghof, sem einnig nefndist ,,Hitlerhaus", íbúðarhús Hitlers á Obersalzberg. Það skemmdist mikið í loftárás og var jafnað við jörðu af Bandamönnum eftir stríð. Annað hús, Kehlsteinhaus (sem aðrir en Þjóðverjar hafa nefnt ,,Arnarsetur" en í því bjó Hitler aldrei) var byggt mörgum árum seinna efst á fjallinu Kehlstein, 824 metrum fyrir ofan Obersalzberg, og stendur þar enn).

Á árunum í kringum 1930 dvaldist Hitler langtímum saman ásamt félögum sínum á Obersalzberg en var mikið í förum á milli, aðallega til München. Í febrúar 1925 hafði hann öðlast þýskan ríkisborgarrétt á þann einkennilega hátt að innanríkisráðherra (nasisti) í fylkinu Braunswick tilnefndi hann fulltrúa í sendinefnd þess í Berlín en við það varð hann sjálfkrafa þýskur ríkisborgari.

Kreppan vann með Hitler í stjórnmálunum og til að gera langt mál stutt varð hann kanslari Þýskalands 31. janúar 1933. Eftir dularfullan bruna þinghússins í Berlín, 27 dögum síðar, jukust völd hans jafnt og þétt þar til hann mátti heita einvaldur. Árin 1933-34 lagðist nasisminn eins og ský yfir Þýskaland og fyllti nánast hvern krók og kima. Hitler sást nú sjaldnar en áður á Obersalsberg en húsið Berhof þurfti að stækka enn frekar vegna veisluhalda og stórfunda; annars hélt Hitler sig mest í Berlín. Í Berchtesgaden var fólk talsvert upp með sér yfir því að sjálfur kanslarinn skyldi hafa tekið ástfóstri við staðinn sem, fyrir bragðið, var orðinn einn af miðpunktum stjórmálalífsins í landinu. Hverjir hefðu svo sem ekki verið hreyknir í þeirra sporum? Ferðamenn voru teknir að ráfa kringum hús Hitlers, Berghof, stærsta og glæsilegasta íbúðarhúsið á Obersalzberg.

Nýir herrar - nýir siðir

Fljótlega eftir að Hitler komst til valda breyttist staða hans og fylgifiska á Obersalzberg: Þeir voru ekki lengur gestir. Rudolf Hess fór fljótlega að leita hófanna um kaup á lóðum fyrir helstu samstarfsmenn kanslarans og varð bærilega ágengt. Á skömmum tíma risu ný og glæsileg einbýlishús skammt frá hinu glæsilega stórhýsi Hitlers, Berhof. Að baki þess gnæfði fjallstindurinn Hoher Göll. Skammt frá því á hægri hönd var hús Martins Bormann og spölkorn ofar á berginu hafði risið hús innanríkisráðherra Prússlands og síðar ríkismarskálks, Hermanns Göring. Villa Bechstein, neðar á berginu vinstra megin við Berghof, var endurbyggð og óþekkjanleg eftir að Josef Göbbels eignaðist húsið. Þegar Rudolf Hess tók að falast eftir bændabýlum kom hins vegar annað hljóð í strokkinn. Á sumum þeirra hafði sama fjölskyldan búið í 300 ár og má geta nærri um hverjar undirtektir tilboð Hess hafa fengið.

En sá sem valdið hefur biður aðeins einu sinni. Hess, sem þótti ekki nógu ýtinn og frekur, voru fengin önnur verkefni og hinn lágvaxni sadisti Martin Bormann, sérfræðingur Hitlers í skítverkum og síðar staðgengill eftir að Hess flaug til Skotlands að biðja um frið, tók að sér að gera Obersalzberg að stað sem gæti hýst æðstu stjórn Þýskalands á nægilega öruggan hátt.

Hafi Rudolf Hess skorti hroka og fautaskap reiddi Martin Bormann slíka ,,mannkosti" í þverpokum. Hann gerði bændum og húseigendum tilboð, - ,,tilboð sem þeir gátu ekki hafnað". Og hófst þá skelfilegur tími fyrir heimamenn á Obersalzberg. Bormann, sem líklega hefur verið fyrstur til að beita ,,handrukkun" í Þýskalandi, náði strax yfirráðum yfir 10 ferkílómetra svæði umhverfis stórhýsi Hitlers og lét girða það af með 2ja metra hárri girðingu sem jafnframt var gætt af lífvörðum foringjans. Næst lét hann til skarar skríða gegn bændunum og öðrum. Nasistarnir höfðu komið sér upp sérstöku kerfi sem gerði þeim kleift að fá samþykkt lög og tilskipanir á ríkisþinginu í Berlín, nánast fyrirvaralaust, um hvað sem hentaði þeim og þeir sögðu vera í þágu öryggis ríkisins. 1936-37 voru 27 hús og bændabýli með 428 gistirými tekin eignarnámi á Obersalzberg ásamt 243 hekturum beitar- og skóglendis. Sumir bændanna fengu 3 daga til að hypja sig af jörðunum en um 400 manns voru neydd til að yfirgefa staðinn nánast fyrirvaralaust. Flestum þeirra var troðið inn á fólk annars staðar í Berchtesgaden - með álíka stjórnsemi. Matsverð var boðið fyrir eignir nema þegar Bormann brast þolinmæð voru ,,erfiðir" viðsemjendur, sem fyrir missskilning töldu að við menn væri að eiga, teknir fastir, fangelsaðir eða látnir hverfa í þrælabúðakerfi Þriðja ríkisins; - þessari klassísku og ómissandi maskínu einræðisstjórna.

Framkvæmdatími

Martin Bormann og meðreiðarsveinar hans létu hendur standa rækilega fram úr ermum byggingaverkamanna á Obersalzberg. Girðingar og varðmenn sáu til þess enginn óviðkomandi kæmist inn á svæðið. Á örskammri stund var 51 bygging jöfnuð við jörðu. Sex byggingum var breytt eða þær stækkaðar. 19 nýbyggingar risu, sumar þeirra stór og mikil hús sem hýstu stjórnsýslu, aðstöðu SS, og íbúðir hermanna auk þess sem reist voru gríðarleg stór gróðurhús, svínabú með sláturhúsi og fleiri byggingar en hugmynd Bormanns mun hafa verið sú að gera Obersalzberg að óvinnandi vígi sem gæti m.a. verið sjálfum sér nægt um matvæli hvað sem á gengi annars staðar í Þýskalandi. Á meðal þeirra sem reist voru einbýlishús fyrir eða endurbyggð hús á Obersalzberg voru Adolf Hitler (Haus Wachenfeld/Berghof), Martin Bormann (nýtt), Hermann Göring (Eckerbichi), Josep Göbbels (Villa Bechstein) og Albert Speer (nýtt). Síðar voru grafin loftvarnabyrgi, 3 km löng jarðgöng og jarðhýsi með 79 herbergjum alls 4120 fermetrar að flatarmáli undir húsum Hitlers, Bormanns og Görings. Þegar það verk hófst, en það var ekki fyrr en í ágúst 1943, segir sagan að Albert Speer arkitekt, sem þá var hermálaráðherra, hafi látið kalla alla Þjóðverja, sem unnu að byggingaframkvæmdum á Obersalzberg, til herþjónustu og er það talið honum til málsbóta, svo illt þótti að vinna við jarðgangnagerðina hjá Bormann. Að framkvæmdunum þræluðu stríðsfangar, Tékkar og Ítalir sem Mussolini hafði ,,útvegað".

Martin Bormann og Adolf Hitler
Gríðarlegt kerfi vistarvera var neðanjarðar á Obersalzberg. Í þessum loftvarnabyrgjum voru öll hugsanleg þægindi, m.a. flísalögð baðherbergi.

Neðanjarðarbyrgi þremenninganna voru af vönduðustu gerð með öllum hugsanlegum þægindum og þeirra stærst var byrgið undir Berghof, húsi Hitlers. Byrgin áttu að þola eld og brennistein á yfirborði jarðar, voru búin eigin orkuveri og lofthreinsibúnaði. Sögusagnir voru um að Bormann hefði látið fylla hvert herbergið af öðru með verðmætum listaverkum, fatnaði og matvælum sem nægt hefðu honum og fjölskyldu hans til 200 ára.

Fimm dögum fyrir dauða Hitlers í Berlín var gerð hrikaleg loftárás á Obersalzberg: Miðvikudaginn 25. apríl 1945 flugu hvorki fleiri né færri en 318 Lancaster sprengjuvélar yfir og vörpuðu 1234 tonnum af sprengjum á þennan stað sem er á stærð við þorpið Hvolsvöll á Rangárvöllum. Fjöldi fólks lét lífið og flestar byggingar eyðilögðust en aðrar löskuðust, þar á meðal hús Hitlers, Berghof, sem seinna var sprengt í loft upp og jafnað við jörðu eins og aðrar rústir eftir loftárásina. Aðeins Hótel Tyrkjans og Platterhof (nú Hotel Gen. Walker) voru endurbyggð og eru starfrækt.

Berghof (fyrrum Haus Wachenfeld) eftir endurbyggingu og stækkun, einbýlishús Hitlers á Obersalzberg.
Berghof eftir loftárásina í apríl 1945. Rústirnar voru síðar jafnaðar við jörðu eins og flestar aðrar laskaðar byggingar á Obersalzberg.
,,Landhaus Göring" var einbýlishús Hermanns Göring á Obersalzberg. Í bakgrunni er fjallið Untersberg.
Rústir húss Görings eftir loftárásina. Nú er þarna sléttur grasbali. Það eina sem minnir á húsið er harðlæst rambyggð stálhurð í litlum hól en að baki hennar eru tröppur niður í neðanjarðarbyrgið sem enn er undir.

Samkvæmislíf - samgangur

Um samkvæmislíf og samgang fjölskyldna stjórnarherra á Obersalzberg þessi ár frá 1936-1944 er ekki mikið vitað nema að Martin Bormann hélt sig sér með áhangendum og lítið bar á eiginkonu hans. Josef Göbbels var eini nasistinn í innsta hringnum sem hafði umtalsverða háskólamenntun, en hann var doktor frá háskólanum í Heidelberg og hafði lagt stund á sögu, heimspeki, bókmenntir, listir og sögu. Sagt var að eiginkona hans Magda hafi ekki kunnað vel við sig í návist Hitlers.

Hermann Göring hafði kvænst Emmy Sonnemann, þekktri kvikmyndaleikkonu árið 1935. Þau dvöldu oft á Obersalzberg í ,,Landhaus Göring" sem margir töldu fallegasta húsið. Þótt Göring væri nægilega skarpur til að keppa ekki við Bormann í íburði var hann einn um að hafa útisundlaug. Göring mun hafa tekið lítinn þátt í samkvæmislífi á þessum árum og samneyti hans við Hitler og Bormann virðist hafa verið merkilega lítið. Hann stundaði útivist sér til hressingar. Litrík fortíð hans skipaði honum á sérstakan bekk meðal nasistaforingjanna. Hann var dáð stríðhetja sem flugmaður í fyrra stríði. Göring hóf nám í hagfræði við háskólann í München þar sem hann hafði kynnst Adolf Hitler. Eftir byltingartilraunina þar árið 1923 flúði hann til Svíþjóðar þar sem nasistar áttu löngum vini vísa. Þar fékk hann lækningu vegna ofneyslu deyfilyfja en hann hafði særst í stríðinu og þjáðist lengi vegna eftirkasta. Í Svíþjóð kynntist Göring fyrri konu sinni, mágkonu Erics von Rosen greifa. Hún var Caren von Kantzow, þá gift sem barónessa Fock - talin ein af fegurstu konum Svíþjóðar. Hún skildi við mann sinn, barón Fock, til að giftast Göring sem mun hafa unnað henni mjög. Caren Göring var flogaveik og lést síðar úr berklum án þess að komast frá Svíþjóð til manns síns, sem þá var kominn aftur til Þýskalands.

Óhamingjusamasta konan

Kvennamál Hitlers fóru ekki hátt en talsvert var pískrað um öfgakennt ástarsamband hans og ungrar frænku hans Geli Raubal sem talsvert kom við sögu á Obersalzberg því hún lést með vofeiflegum hætti 1931 - fannst skotin í höfuðið í herbergi sínu í húsi Hitlers. Opinberlega var dánarorsökin sögð vera sjálfsmorð en alls konar kviksögur fengu vængi. Samband þeirra hafði þá staðið síðan sumarið 1928. Herbergi hennar lét Hitler standa óhreyft árum saman.

Skömmu síðar hélt til í Berghof ástkona Hitlers, Eva Braun. Eva var nánast geymd þar í hálfgerðri einangrun og henni var stranglega bannað að koma til Berlínar þar sem Hitler var sagður vera í slagtogi við unga draumadís að nafni Sigrid von Lappus.

Eva Braun var falleg kona, sögð hæglát, hlédræg og lítt gefin fyrir að trana sér fram. Hún hafði unnið áður sem nemi á ljósmyndastofu í München en eigandinn, Heinrich Hoffmann, mun hafa kynnt hana fyrir Hitler árið 1932 eða 33. Hún varð yfir sig ástfangin og olli foreldrum sínum miklu hugarangri; þeim geðjaðist ekki að Austurríkismanninum með Chaplin-yfirvaraskeggið.

Eva Braun (Ljósmynd frá 1929)

Samband Hitlers og Evu Braun var stormasamt og a.m.k. tvisvar reyndi hún að fyrirfara sér á Obersalzberg. Seinna sagði Erich Kempka, einkabílstjóri Hitlers um Evu: ,,Hún var óhamingjusamasta kona Þýskalands. Allt hennar líf varð að bið eftir Hitler". Hún giftist honum að lokum í neðanjarðarbyrgi í Berlín 29. apríl 1945 þegar styrjöldin var töpuð og hersveitir andstæðinganna voru komnar að borgarmörkunum. Svaramenn voru þeir Dr. Göbbels og Martin Bormann. Degi síðar voru þau látin.

Karlamagnús

Sagt er að tíminn lækni öll sár - sum þeirra með hjálp Sögunnar, sum fyrr, önnur seinna þótt manni finnist það ótrúlegt. Ég stend hér á Hintereck bílastæðinu á Obersalzberg síðsumars 1987 og horfi niður í Berchtesgaden af þessu örlagasviði. Degi er tekið að halla: Sólin stafar geislum niður á milli skýjanna á fjallið Untersberg í norðvestri handan dalsins. Þetta hefur verið daglegt útsýni Evu Braun úr stóra stofuglugga Berghof þar sem hún beið Hitlers. Í hugann kemur þýsk þjóðsaga af Karlamagnúsi - konungi Frakka og Langbarða og sem síðar var krýndur keisari hins heilaga rómverska keisaradæmis af Leó III Páva á jóladag árið 800. Sagan segir hann liggja í dvala inni í Untersberg með þúsundir hermanna. Í fyrndinni grófu dvergar sali í Untersberg. Þar sefur Karlamagnús í marmarahásæti með kórónu á höfði og veldissprota í hægri hönd. Hvítt skegg hans er vafið tveim sinnum um borðplötuna. Í hliðarsölum sofa þúsundir hermanna með alvæpni.

Öðru hverju vaknar keisarinn. Er þá riddarasveinn sendur um einn 12 útgangna út á sjónarhól að kanna hvort hrafnar hniti hringi yfir fjallinu. Þegar riddarasveinninn kemur til baka með þær fréttir að enn séu hrafnar á sveimi líður Karlamagnús útaf með hryggðarstunu og fellur aftur í svefn. Á þeim degi, segir þjóðsagan, sem skeggið nær þriðja hringinn um borðplötuna mun keisarinn vakna og allt hans lið. Verður þá ráðist gegn óvinum Þýskalands í tæka tíð; ógurleg orrusta mun hefjast og mun blóðið vella upp úr skóm hermannanna.

Húsið á Kverkfjalli

Í suðvestri ofan við Obersalzberg er Kehlsteinhús (Arnarsetrið) sem engin sprengja hæfði í loftárásinni 1945. Það stendur á brún Kehlstein (Kverkfjall) rétt neðan við öxl Mannlgrats í 1837 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá Hintereck bílastæðinu á Obersalzberg ganga rútur upp eftir vegi sem höggvinn er inn í bratta hlíðina og liggur upp á annað bílastæði, minna, í 1701 metra hæð. Þar er farið inn í fjallið í láréttum 124 m löngum göngum þar til komið er að glæsilegri tveggja hæða lyftu sem gengur aðra 124 metra lóðrétt upp í húsið. Húsið er ekki mjög stórt en afar vandað að allri gerð. Það er byggt úr graníti og þannig frá því gengið að ómögulegt er að koma auga á það úr lofti. Hugmyndin að þessu húsi mun hafa verið Bormanns og sagt er að hann hafi ætlaði húsið sem eins konar afmælisgjöf frá sér til Hitlers á 50 ára afmælinu. Á meðal nasistanna gekk þetta hús undir heitinu Kehlsteinhús eða D-hús (Diplomatahús). Arnarsetrið (Adlerhorst) er nafngift komin frá öðrum en Þjóðverjum.

Séð yfir Berchtesgaden af brún fjallsins Kehlstein í 1834 m hæð. Í forgrunni er Kehlsteinhús sem einhverjir tóku upp á að kalla ,,Arnarsetur" Hitlers.

 

Hin fræga U-beygja á veginum frá Obersalzberg og upp á efsta bílastæðið þar sem jarðgöngin liggja að lyftunni.

Bygging þessa húss, vegarins og lyftunnar inni í fjallinu er tæknilegt afrek, og væri afrek með allri þeirri tækni sem tíðkast nú á tímum. Kehlsteinhús hannði Roderick Fick arkitekt í München. Kehlsteinvegurinn upp frá Obersalzberg, um 7 km langur með 5 jarðgöngum og einni u-beygju, þykir einstakt tæknilegt meistaraverk en hönnuður hans var Dr. Todt. Þessar framkvæmdir kröfðust fórna. Þær hófust í ágúst 1936 og lauk 13 mánuðum seinna. Unnið var dag og nótt vetur, sumar vor og haust í 390 daga samfellt. Um 3000 stríðsfangar voru keyrðir miskunnarlaust áfram af kúskum Bormanns. Margir þeirra létu lífið eða hlutu örkuml. Engu var til sparað og talið er að þetta fyrirtæki hafi kostað jafnvirði um 100 milljóna bandarískra dollara. Fyrir framan arininn var austurlenskt teppi sem vóg hálft tonn; gjöf frá Hirohito japanskeisara.

Hitler mun hafa komið fyrst upp í húsið haustið 1938, síðan nokkrum sinnum og síðast í ágúst 1939. Það var því aðallega Martin Bormann sjálfur sem notaði Kehlsteinhúsið. Eva Braun mun hafa verið þar oft. Hitler mun ekki hafa haft nokkurn áhuga á Kehlsteinhúsinu.

Margir líta á Oberzalsberg og Kehlsteinhaus sem minnisvarða um þá sem þræluðu þar til ólífis ófrjálsir og jafnframt sem áminningu um nauðsyn þess að vera á varðbergi gegn jafnvel minnsta vísi um nasisma með þeirri illmennsku, ofstæki og ofmetnaði sem honum fylgir. Því miður var byggingum eytt á Obersalzberg sem hefðu getað orðið enn frekari víti til varnaðar.

 

Efsta bílastæðið og dyr jarðgangnanna, 124 m neðan við grunn Kehlsteinhúss sem sést í hornið á fyrir ofan.

Ragnarök

Það er síðsumar árið 1987. Ég stend á verönd Kehlsteinhúss fyrir utan borðstofuna sem nú er stærsti veitingasalurinn. Héðan er útsýn yfir Berchtesgaden stórfengleg. Beint af augum er Untersberg, fjallið þar sem Karlamagnús sefur væntanlega enn í einum salnum. Veitingarekstur og móttaka ferðamanna hefur verið í Kehlsteinhúsi síðan það var opnað almenningi eftir áralanga baráttu Bæverja við hernámsyfirvöld sem höfðu ákveðið að sprengja það í loft upp. Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem grípur mann á þessum stað í hæð sem mæla má með tveimur Esjum: Mér finnst ég verði að komast sem fyrst niður aftur og eitthvað segir mér að hér vildi ég ekki þurfa að vera yfir nótt.

Á þessum stað og stund fer hugurinn meira en 42 ár aftur í tímann að loftárásinni miklu: Það er kaldur miðvikudagsmorgun; klukkan er að verða hálftíu þann 25. apríl 1945. Af verönd Kehlstein-húss sést Obersalzberg langt fyrir neðan og mótar fyrir stórum byggingunum í gegn um morgunmóðuna: Ómur véla, sem starfa að nýfallinni mjöllinni á veginum upp frá Hintereck, myndar einkennilegt bergmál í fjallasalnum. Skyndilega kveður við draugalegt baul í loftvarnaflautum. Skömmu síðar heyrast stigmagnandi og þungar drunur margra flugvéla sem nálgast úr suðvesturátt................

 

 

 

 

 

Jarðgöngin inn að lyftunni eru 124 m löng og mjög vönduð.

 

Lyftan, sem er er tveggja hæða og mjög glæsileg, myndi sæma sér vel á hvaða 5 stjörnu hóteli sem er . Hún flytur fólk 124 m upp í Kehlsteinhús.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fleiri frásagnir

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar