Reglugerð gegn viðskiptahindrunum í sölu og þjónustu á sviði bíla
(EC 1400/2002 B.E.R. Samkeppnisreglur með síðari breytingum og viðaukum).

Íslensk þýðing: Leó M. Jónsson iðnaðar- og vélatæknifræðingur, Reykjanesbæ.

Tækifæri fyrir óháða aðila á eftirmarkaði
Nýja reglugerðin gegn viðskiptahindrunum á sviði bílgreina, 1400/2002/EC, nefnd BER-reglugerðin (Block Excemption Regulation = BER), sem tók gildi 1. október 2002, er nýr löggjafarrammi fyrir dreifingu bíla og samninga um þjónustu. Reglugerðin inniheldur einnig mikilvæg ákvæði varðandi eftirmarkað á sviði bílgreina en með nýju BER-reglugerðinni er stefnt að því að skapa meiri samkeppni í sölu og þjónustu sem og í framboði á varahlutum. Með reglugerðinni hyggst Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna (The European Commission)1 verja rétt bíleigenda til að kaupa þjónustu, viðgerðir og varahluti þar sem þeir kjósa og á verði sem ákvarðast af samkeppni.

Upplýsingaritið skýrir þau réttindi og viðskiptatækifæri sem nýja BER-reglugerðin ber með sér eða myndar fyrir óháða aðila á eftirmarkaði. Nýja BER-reglugerðin er lagalegur rammi sem eykur frjálsræði allra aðila markaðarins auk þess að stuðla að aukinni samkeppni. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna gerir ráð fyrir að óháðir aðilar á eftirmarkaði nýti sér hið nýja kerfi. Þetta mun, að sjálfsögðu, verða langtíma verkefni sem FIGIEFA og umbjóðendur þess í viðkomandi löndum, munu aðstoða þig við.

Varahlutir

Skilgreiningar
Ein þeirra uppfinninga, sem mestu máli skipta fyrir hinn óháða eftirmarkað, er nýja skilgreiningin á hugtakinu ,,original spare parts", þ.e. frumhlutir. Nýja skilgreiningin er eftirfarandi:

" Varahlutir sem bílaframleiðandi framleiðir sjálfur;

" Varahlutir framleiddir af sjálfstæðum varahlutaframleiðendum en sem bílaframleiðandi og/eða umbjóðendur hans selja/dreifa. Bílaframleiðandinn getur krafist, eins og tíðkast í viðskiptum, að varahlutur, sem hann dreifir, sé merktur honum; en má ekki hindra framleiðanda varahlutarins í því að nota sitt eigið vörumerki (annað hvort eitt sér eða ásamt merki bílaframleiðandans, þ.e. ,,tveggja merkja vara");

" Varahlutir framleiðenda (hvort sem þeir framleiða frumhluti eða ekki fyrir bílaframleiðanda) sem eru að tæknilegum eiginleikum eins og frumhlutir viðkomandi bíls og dreift til óháðra aðila á eftirmarkaði. Þessir hlutir bera, að sjálfsögðu, einungis vörumerki varahlutaframleiðandans.

Hugtakið ,,frumhlutir" (,,original spare parts") er samkvæmt þessu ekki lengur skilgreint með tilliti til dreifikerfis bílaframleiðanda heldur, í þess stað, með skírskotun til gæða viðkomandi varahlutar. Varahluti, sem eru eins hvað varðar tæknilega eiginleika, má nú bjóða og kaupa sem frumhluti. Nýja skilgreiningin ryður burt einokun bílaframleiðenda á hugtökum og skapar óháðum aðilum ný tækifæri á eftirmarkaði.

Nýja BER-reglugerðin skilgreinir einnig hugtakið ,,varahlutur af sambærilegum gæðum" eða ,,samgæða varahlutur" (,,spare parts of matching quality"): Það er varahlutur sem verður að vera af sambærilegum gæðum og sá hlutur sem upphaflega var í bílnum nýjum, þ.e. verður, að minnsta kosti, að vera jafn upphaflega hlutnum hvað varðar staðalkröfur um byggingu, framleiðslu og notvirkni (functional) (eða getur verið yfirburða að gæðum).

Skilyrði vottunar
Umbjóðendur bílaframleiðanda (umboð og umboðsverkstæði) verða, samkvæmt BER-reglugerðinni, að nota varahluti sem eru, að minnsta kosti samgæða upphaflegum hlutum eða af meiri gæðum. Til þess að greiða fyrir sölu óháðra birgja til umbjóðenda bílaframleiðenda (umboða og umboðsverkstæða) og til að firra umbjóðendur hættu á lögsókn af hálfu bílaframleiðenda - er framleiðendum varahluta gert að gefa út, sé þess krafist, eigið vottorð um gæði viðkomandi varahluta (þ.e. vottorð sem pakkað er með varahlut eða í formi tilkynningar á Internetinu).

Formleg skilyrði vottunar eiga ekki við þegar um er að ræða sölu á varahlutum til óháðra viðgerðaraðila. Samt sem áður, af markaðsástæðum og við kynningu á gæðamerkingunum ,,frumhlutir" og ,,samgæða varahlutir" á eftirmarkaði, getur verið heppilegt að láta slíkt gæðavottorð einnig fylgja hlutum, sem seldir eru óháðum aðilum.

Viðurkennt bílaumboð og viðurkennt umboðsverkstæði

Frelsi til að kaupa samkeppnishæfa varahluti af óháðum aðilum á eftirmarkaði
Með nýju BER-reglugerðinni hefur hin áður tilskipaða tenging á milli sölu nýrra bíla og eftir-sölu-þjónustu verið fjarlægð. Hvað sölu og þjónustu varðar geta umboð sérhæft sig á öðru hvoru eða báðum sviðunum. Ennfremur geta óháðir seljendur eða verkstæði, sem hafa misst eða ekki fengið endurnýjaðan umboðssamning, sótt um viðurkenningu sem umboðsverkstæði, ekki einungis fyrir ákveðna tegund heldur fyrir nokkrar tegundir (fjöl-merkja-viðgerðir). Hins vegar skyldi meta kosti og hugsanlegt óhagræði og bera gaumgæfilega saman af því að vera; annars vegar umboðsverkstæði og þar með hluti af þjónustuneti bílaumboðs og, hins vegar, að vera áfram óháð þjónustuverkstæði.

Varðandi varahluti er mikilvægt að ítreka að báðum aðilum samnings, bílaumboði og umboðsverkstæði, er jafn frjálst að kaupa ,,frumhluti", ,,samgæða varahluti" eða varahluti af yfirburða gæðum, frá óháðum birgjum. Með þessu móti skapast virkur valkostur framboðs sem jafnframt eykur samkeppni um gæði. Hvers konar viðnám gegn þessu frelsi, sem bílaframleiðandi kynni að beita, lítur Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna á sem alvarlegt brot gegn nýju BER-reglugerðinni.

Þess er vert að geta að Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna ítrekaði einnig að byði bílaframleiðandi sjálfur umbjóðendum sínum að kaupa varahluti af öðru gæðastigi (þ.e. ,,sparnaðar-línu") getur hann ekki bannað umbjóðandanum að kaupa sams konar varahluti, af sama gæðastigi, af óháðum birgja. Umbjóðandinn (umboð eða umboðsverkstæði) getur óskað eftir gæðavottorði útgefnu af varahlutaframleiðandanum sjálfum.

Tækifæri
Óháðir varahlutabirgjar geta átt frum-kvæði að því að bjóða varahluti og þjónustu sína umbjóðendum bíla-framleiðenda (umboði og umboðs-verkstæðum).
Óháðir varahlutabirgjar geta óskað eftir gæðavottorðum gefnum út af þeim varahlutaframleiðendum, sem þeir kaupa af, til að láta umboði eða umboðsverkstæði í té, þar sem jafn-framt komi fram hvort viðkomandi varahlutur er ,,frumhlutur" eða ,,samgæða varahlutur" samkvæmt skilgreiningu BER-reglugerðarinnar. Varahlutabirgjar eru hvattir til að mæta slíkum óskum í því skyni að auka þýðingu gæðavottorða og til að mæta hugsanlegum mótmælum bílaframleiðenda. Með útgáfu slíks gæðavottorðs flyst sönnunarbyrði frá framleiðanda varahlutar yfir til bílaframleiðanda; beri bílaframleiðandi brigður á gæði ákveðins varahlutar, sem studd eru gæðavottorði, þarf bílaframleiðandinn að sanna að varahluturinn sé ekki ,,samgæða" samkvæmt skilgreiningu BER-reglugerðarinnar.
Í daglegum viðskiptum, skyldi fylgst með því hvar bílaframleiðandi býður frumhluti með gæðafráviki. Í slíkum tilvikum er umboði/umboðsverkstæði ekki aðeins heimilt, heldur skyldi það hvatt til að kaupa samgæða varahluti frá óháðum birgja (sé það talið hagkvæmara).


Varahlutabirgjar

Frelsi til að skipta við óháða aðila á eftirmarkaði
Samkvæmt nýju BER-reglugerðinni geta bílaframleiðendur ekki hindrað þá, sem framleiða fyrir þá frumhluti, í að selja hlutina einnig til óháðra varahlutabirgja né beint til óháðra verkstæða eða umboðsverkstæða. Síðastnefnda er þó, eins og gefur að skilja, óhagkvæmt fyrirkomulag (flutningar). Ennfremur geta framleiðendur frumhluta, sem þeir selja bílaframleiðanda og til umbjóðenda hans (bílaumboða/umboðsverkstæða), merkt varahlutina með sínu vörumerki. Slík merking er mikilvæg til að viðhalda virkri samkeppni á þjónustumarkaðinum. Raunverulegur uppruni varahlutar verður neytanda og viðgerðaraðila einungis ljós af vörumerki framleiðanda hlutarins. Jafnframt má ljóst vera að frumhlutir og samgæða varahlutir, sem seldir eru óháðum aðilum á eftirmarkaði, bera einungis vörumerki framleiðanda hlutarins.

Tækifæri
Framleiðendur varahluta hafa lögskipaðan rétt til að selja hluti, sem þeir framleiða sem frumbúnað, jafnframt til óháðra aðila á eftirmarkaði (en þá að sjálfsögðu einungis merkta eigin vörumerki). Fjöldi frumhluta, sem ekki standa óháðum aðilum til boða vegna sérstakra aðgerða bílaframleiðenda, ætti að minnka umtalsvert. Þar sem framleiðendur frumhluta geta verið bundnir samningi um viðskiptaleynd og því, ef til vill, tregir til að kvarta, er mikilvægt að seljendur/dreifiaðilar fylgist með hvort ákveðnir frumhlutir frá framleið-endum, sem þeir skipta við, standi þeim ekki einnig til boða. Framleiðendur frumhluta ættu að kynna vöru sína rækilega og merkja á kerfisbundinn hátt með vörumerki sínu þannig að neytendur séu með-vitaðir um hinn raunverulega uppruna varahluta.


Þjónusta, viðhald og viðgerðir á ábyrgðartíma

Ný tækifæri fyrir óháð verkstæði á sviði þjónustu
Í skýringabæklingi Framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna er að finna mikilvægar skýringar varðandi þá spurningu hvort óháð verkstæði megi inna af hendi eðlilega viðhaldsþjónustu og viðgerðir á bíl sem er í ábyrgð. Margir bílaframleiðendur tíðka að skilyrða ábyrgð sína við að öll þjónusta og viðgerðir á gildistímanum sé framkvæmd af umbjóðanda þeirra (umboði/umboðsverkstæði) og að jafnframt séu ekki notaðir aðrir varahlutir til verksins en frumhlutir frá viðkomandi bílaframleiðanda. Þennan hátt/lögvenju hefur Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna afnumið sem óréttláta þvingun.

Eftirfarandi greinarmun verður að gera: Þegar um ótvírætt ábyrgðarmál er að ræða, ókeypis þjónustu eða innköllun hefur bílaframleiðandi óvéfengjanlegan rétt til þess að krefjast þess af umbjóðanda sínum (umboði/umboðsverkstæði) að einungis séu notaðir frumhlutir frá honum. Þetta er lögmætt með því að í þessum tilvikum greiðir bílaframleiðandinn fyrir hluti og þjónustu vegna viðgerðarinnar og tengdrar þjónustu vegna ómaks viðskiptavinarins. Þó verður að greina á milli ábyrgðarverks, samkvæmt ofangreindu, og eðlilegrar þjónustu, viðhalds og viðgerða (svo sem vegna óhapps) sem eiga sér stað á ábyrgðartímanum, þ.e. í tilvikum þar sem ekki er um ábyrgðarkröfu að ræða, ekki ókeypis þjónustu eða innköllun).
Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna tekur af allan vafa um að neytandinn skuli ekki glata rétti sínum varðandi ábyrgð gagnvart bílaframleiðanda hafi eðlileg þjónusta eða viðgerð verið látin í té eða framkvæmd af óháðu verkstæði. Bílaframleiðandi getur því yfirleitt ekki neitað ábyrgðarkröfu, t.d. vegna startara eða bilunar í rúðuvindumótor, með þeim rökum að smurolíuskipti hafi verið framkvæmd af óháðu verkstæði. Hins vegar, sé bilunin orsök ófullnægjandi viðgerðar óháðs verkstæðis ber viðkomandi verkstæði ábyrgð á henni.

Skýringarnar eiga við 2ja ára lögbundna ábyrgð. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna tekur skýrt fram að skýringarnar eiga einnig við hvers konar viðbótar- eða framlengda ábyrgð, sem og aðra samningsbundna ábyrgð (neytendaréttur umfram 2ja ára lögbundinn ábyrgðartíma samkvæmt Neytendavöru-tilskipun 1999/44/EC).

Gerðu umbjóðanda FIGIEFA á starfssvæði þínu viðvart hafir þú vitneskju um að ábyrgðarkröfu hafi verið hafnað af bílaframleiðanda af þeirri ástæðu að viðgerð eða þjónusta hafi verið keypt af óháðu verkstæði. Umbjóðandinn mun kanna málið og senda erindið til FIGIEFA.

Aðgangur að tækniupplýsingum

Ný tækifæri fyrir óháða þjónustuaðila
Óháðir aðilar, sem heild, skapa þýðingarmikinn og virkan möguleika á ódýrari og fjölbreyttari þjónustu fyrir neytendur. Þeim hefur þó, á undanförnum árum, verið haldið frá markaðnum í vaxandi mæli með takmörkunum á aðgangi þeirra að þeim tækniupplýsingum og bilanagreiningarbúnaði, sem nú er nauðsynlegt að hafa til viðgerða á bílum. Með nýju BER-reglugerðinni er stefnt að því að breyta þessu óhagræði, skapa óháðum aðilum, svo sem óháðum verkstæðum, þjónustustöðvum við þjóðvegi, framleiðendum bilanagreiningabúnaðar, sem og óháðum seljendum varahluta, lagalegan rétt til að geta orðið sér úti um tæknilegar upplýsingar, verkfæri, búnað og þjálfun. Þetta innifelur óheftan aðgang að og notkun rafeinda-búnaðar til stýringar og bilanagreiningar. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna horfir sérstaklega til mikilvægs hlutverks óháðra varahlutabirgja fyrir hinn óháða markað fyrir viðgerðir. Möguleikinn á að sameina sölu varahluta meðfylgjandi ,,upplýsingapakka", með sérsniðnum tæknilegum upplýsingum fyrir viðkomandi viðgerð, mun gefa óháðum varahlutabirgjum tækifæri til að þróa þjónustu sína enn frekar. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna hefur sniðið nýju BER-reglugerðina að nútíma þörfum fyrir þjónustu og bilaviðgerðir.

Tækifæri
" Óháðir aðilar eiga að fá sömu tækni-legu upplýsingar og umbjóðendur (umboð/umboðsverkstæði), þ.e. þeir eiga rétt á að fá allar tæknilegar upp-lýsingar sem þarf fyrir viðhald og við-gerðir. Bílaframleiðendur verða að gera viðhlítandi ráðstafanir, frá og með 1. október 2003, til að tæknilegar upplýsingar þeirra séu aðgengilegar með beinum hætti.
" Nýja BER-reglugerðin tryggir enn-fremur rétt til endurforritunar (upp-færslu) frumútgáfu þess hugbúnaðar sem nú er, í auknum mæli, nauðsyn-legur til að endurstilla búnað bíla til að gangsetja megi þá eftir viðgerðir. Ekki síst getur þetta átt við um þjófavar-narbúnað bíla en þjófnaðarvörn má ekki nota sem ástæðu til þess að neita um aðgang að tæknilegum upplýs-ingum. Verkstæði og bílaframleiðendur ættu að hafa samvinnu um notkun öryggisaðgerða, eins og lýst er í staðlinum ISO 15764, til að tryggja að einungis til þess bærir aðilar endur-forriti búnaðinn.
Kostnaður við öflun tæknilegra upp-lýsinga verður að vera ,,viðunandi", þ.e. upplýsingarnar verða að vera í eða á því formi að óháðir aðilar markaðarins séu ekki þvingaðir til að kaupa meira en nauðsynlegt magn upplýsinga. Aðgang að tæknilegum upp-lýsingum verður að veita óháðum aðilum án mismununar, með tafarlausum og samræmdum hætti og jafnframt þannig að verðlagning þeirra mismuni ekki óháð-um aðilum.
" Tæknilegar upplýsingar verða að vera hagnýtar og ,,nothæfar". Ekki er nóg að þær séu einungis fræðilega til reiðu heldur verður að vera hægt að nota þær við vinnu.
" Óháð verkstæði gætu átt í vandræðum með ákveðnar viðgerðir, að hluta vegna þess hve þær eru tímafrekar og að hluta vegna þess að leit að tæknilegum upplýsingum á vefsíðum bílaframleiðenda, fyrir ákveðna viðgerð og bílgerð, getur verið flókin.
" Verið er að rannsaka og kanna möguleika á stöðluðu rafrænu formi, undir ,,On-Board-Diagnostics"-tilskipununni (98/69/EC) sem, innan ákveðins tíma, ætti að auðvelda aðgang að tæknilegum upplýsingum undir ákvæð-um BER-reglugerðarinnar.


Aðgangur að ,,útilokuðum" varahlutum bílaframleiðenda

Hjá umboði og umboðsverkstæðum
Bílaumboð og umboðsverkstæði skulu veita óháðum verkstæðum aðgang að svokölluðum ,,útilokuðum" (captive) varahlutum bílaframleiðenda. ,,Útilokaðir" varahlutir geta verið þeir sem einungis bílaframleiðandi sjálfur framleiðir (þ.e. grind, hjólbotn, vélarblokk, ákveðnir boddíhlutir o.fl.) eða hlutir/búnaður sem bílaframleiðendur hafa löggilt framleiðslueinkaleyfi fyrir. Með þessu móti er nýju BER-reglugerðinni ætlað að tryggja að öll óháð verkstæði geti aflað nauðsynlegra varahluta vegna viðgerða, einnig þeirra ,,útilokuðu" varahluta sem óháðir varahlutabirgjar geta ekki útvegað: Bílaumboð og umboðsverkstæði geta ekki neitað að selja óháðum verkstæðum slíka frumhluti bílaframleiðenda. Hins vegar hefur þetta ekki áhrif á afslætti á þessum ákveðnu hlutum - en í mörgum tilfellum dregur óhagkvæmt verð á ,,útilokuðum" hlutum úr samkeppnishæfni bílaframleiðanda/umboðs.

Öflun varahluta frá bílaframleiðanda eða bílaumboði, sem eru í raun ,,útilokaðir" eða bundnir og sem óháðir varahlutabirgjar geta ekki útvegað, er oft ekki fjárhagslega raunhæf. Eitt af markmiðum FIGIEFA, sem samtaka þjónustugreinar, er að stuðla að sem mestu og minnst hindruðu framboði varahluta til óháðra verkstæða.


Umboðsdreifing á ,,frumhlutum" bílaframleiðenda
Reglugerð (EC) 1400/2002 aðgreinir sölufarvegi: Í fyrsta lagi sem sölu nýrra bíla, í öðru lagi sem sölu varahluta og í þriðja lagi sem sölu viðgerða og viðhaldsþjónustu. Afleiðing, og í samræmi við þetta, getur bílaframleiðandi valið þann kost að bjóða umbjóðendum sínum þrjá aðskilda samninga (þar sem einn umbjóðandi getur verið handhafi allra þriggja samninganna, tveggja eða einungis eins þeirra):

" Samningur um söluumboð nýrra bíla.

" Samningur um sölu varahluta (varahlutaumboð).

" Samningur um þjónustu, viðhald og viðgerðir (umboðsverkstæði).

Varðandi kostinn um samning um sölu á varahlutum bílaframleiðanda verður hann héreftir einungis metinn með gæði sem mælikvarða en ekki magn. Áður settu bílaframleiðendur fram kröfu um ákveðið magn varahluta, sem varahlutaumboð átti að selja til þess að frammistaða þess þætti viðunandi (t.d. 30% eða meira af verði seldra bíla/ár) (Reglugerð ES, BER 1400/2002 fjallar um ákveðnar takmarkanir á því að nota magn sem viðmið við dreifingu/sölu bílavarahluta og viðhaldsþjónustu).
Í grundvallaratriðum og af tæknilegum ástæðum, ræðst markaður fyrir varahluti í ákveðinn bíl ekki af heildarfjölda bíla af þeirri gerð í notkun, heldur af fjölda hverrar árgerðar viðkomandi bíls. Samkeppni er því einungis á milli varahluta sem hægt er að nota í þá ákveðnu árgerð.

Af þessu leiðir að að dreifikerfi fyrir frum(vara)hluti bílaframleiðanda verður einungis metið á grundvelli gæða. Geti óháður varahlutabirgi fullnægt gæðakröfum bílaframleiðandans (með tilliti til mögulegrar getu til birgðahalds eða hæfni starfsmanna), gæti hann komið til greina sem ,,samningsbundið varahlutaumboð". Að áliti margra sérfræðinga má færa lagaleg rök fyrir því að bílaframleiðanda beri skylda til að bjóða slíkan samning um varahlutaumboð einnig óháðum varahlutabirgjum með gæðakröfur sem grundvöll. Samt sem áður hefur endanleg útlistun ekki verið gerð á því hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að lagalegur réttur stofnist til samnings um varahlutaumboð, þ.e. í þeim tilvikum sem samningur um varahlutaumboð, eitt og sér, er laus hjá bílaframleiðanda og gæti verið boðinn án þess að öðrum dreifingaraðilum væri mismunað. FIGIEFA hvetur dreifingaraðila til þess að leita til bílaframleiðenda, sem þeir hafa áhuga á viðskiptum við, telji þeir fyrirtæki sitt og dreifingarkerfi vera vænlegan kost sem varahlutaumboð fyrir viðkomandi bílaframleiðanda.

Framkvæmdastjón Evrópubandalaganna (EU Commission) hefur þegar auglýst að hún muni hafa mjög náið eftirlit með framkvæmd nýju BER-reglugerðarinnar í því augnamiði að girða fyrir einokun.


Frekari upplýsingar um hvernig hinni nýju reglugerð (BER) verður komið í framkvæmd og/eða um hvernig bregðast skuli við hindrunum, sem þú kannt að verða fyrir, eru fáanlegar frá umbjóðanda FIGIEFA á þínu markaðssvæði.


Umbjóðandi FIGIEFA á þínu markaðssvæði getur ráðlagt þér og í gegnum FIGIEFA (alþjóðasamtök birgja á eftirmarkaði bílgreinarinnar) getur hann komið upplýsingum til Framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna um hindranir gegn framkvæmd BER-reglugerðarinnar og augljós brot á henni.


Heimildir:
CEPE (Compagnie d'Equipements Professionnels Européenne)
http://cepe-france.fr

FIGIEFA
International Ferderation of Automotive Aftermarket Distributors
Brussel. Belgíu. http://www.figiefa.org


Fylgiskjal 1
European Commission. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (European Commission) er skrifuð Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna (The Commission of the European Communties) í skjölum sem hafa lagalega þýðingu.
Markmið framkvæmdastjórnarinnar er tryggja að sameiginlegi markaðurinn/tollabandalagið virki eins og til er ætlast og að vernda hagsmuni Evrópusambandsins inn á við og gagnvart öðrum ríkjum og samtökum. Framkvæmdastjórnin hefur einkarétt á að leggja fram tillögur að nýrri löggjöf. Hún tekur þátt í að skapa, framfylgja og hafa eftirlit með EB rétti og hefur umboð til samningagerðar við önnur ríki.
Framkvæmdastjórnin fer með framkvæmdavald innan ESB auk þess sem hún á frumkvæði að stefnumörkun og lagasetningu sambandsins og hefur eftirlitshlutverk. Framkvæmdastjórnin lítur á sig sem "verndara sáttmála Evrópusambandsins". Hún gætir þess að aðildarríkin og aðrir uppfylli þær skuldbindingar sem sáttmálarnir mæla til um og leggur fram tillögur sem eru til þess fallnar að færa samstarfið lengra, í samræmi við það umboð sem hún hefur. Auk þessara mikilvægu verkefna kemur framkvæmdastjórnin fram fyrir hönd aðildarríkjanna gagnvart öðrum ríkjum og fjölþjóðlegum samtökum, sérstaklega þegar samið er um viðskipta- landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Á síðustu árum hefur hún einnig fengið aukið hlutverk sem málamiðlari, þar sem hún leitast við að aðstoða aðildarríkin við að fá niðurstöðu í deilumálum.
Framkvæmdastjórnin samanstendur af 20 framkvæmdastjórum sem hafa um 15.500 starfsmenn (þar af um 1.700 þýðendur) undir sinni stjórn í nokkuð flókinni stjórnsýslu. Framkvæmdastjórnin er skipulögð með þeim hætti að rödd allra hagsmunaaðila heyrist og enginn einn aðili (aðildarríki/hagsmunaaðili) geti hindrað hana í því verkefni að verja hagsmuni heildarinnar. Framkvæmdastjórarnir eru skipaðir af aðildarríkjunum með samþykki Evrópuþingsins. Hver og einn hefur einn eða fleiri málaflokka á sinni könnu. Megineiningarnar í stjórnsýslunni eru síðan svokallaðar stjórnardeildir (Directorate-General, DG) en þær eru nú 23 talsins. Þannig er ein stjórnardeild fyrir samkeppnismál, önnur fyrir sjávarútveg o.s.frv.
http://europa.eu.int/comm/index_en.htm af vefsíðunni: http://www.esb.is/siteindex/commission.htm

Íslensk þýðing © Leó M. Jónsson, 30. nóv. 2004

Leó M. Jónsson.