Audi A4 (1996-2003) prófaður:

Fyrir þá sem finnst gaman að keyra

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

Audi, Renault og Volvo eiga það sameiginlegt, auk þess að vera evrópskir, að hafa ,,komið út úr skápnum" upp úr 1990. Meðþví er átt við að Audi er ekki lengur dæmigerður þýskur bíll, Renault ekki dæmigerður franskur og Volvo er hættur að vera klossaður sænskur brúksjálkur. Þessir bílaframleiðendur, eins og flestir aðrar, hafa tekið þátt í alþjóðavæðingunni; hætt að eltast við sérvisku heimamarkaðarins og snúið sér að heimsmarkaðnum.


Audi fór inn á þessa braut með nýjum Audi 80/90 1986, Renault með R19 1989 og Volvo með 850 1992. Audi og Renault eru á meðal fárra bíltegunda sem hafa náð sér upp úr lægð, endurheimt fyrri stöðu og öðlast nýja ímynd sem selur. Sú var tíðin að Audi var, eins og Renault, með þyngri bílum í endursölu, ekki einungis hérlendis heldur einnig í Svíþjóð, Bandaríkjunum og víðar. Ástæður voru há bilanatíðni, veik bygging og mikil ryðtæring. Umskipti urðu hjá Audi upp úr 1986. Bílasalar í Reykjavík segja mér að nýlegur Audi sé góður endursölubíll, einn var meira að segja á því að Audi væri jafnvel betri í endursölu en Renault.

Hins vegar á ég dálítið erfitt með að sjá Audi fyrir mér sem stöðutákn, t.d. á borð við Volvo 850. Til þess þarf hugarfarsbreytingu sem getur getur tekið nokkur ár til viðbótar. Annar bíll sem er á svipuðu verði og Audi A4 og Volvo 850 er nýr Nissan Maxima. Þótt sá bíll sé með meiri lúxusbúnaði en Audi og Volvo virðist mér hann, eins og Audi, vanta þá ímynd stöðutákns, sem Volvo og BMW hafa í þessum verðflokki.

MERKIÐ OG NAFNIÐ

Einhver hefur líklega velt því fyrir sér hvers vegna Audi notar 4 samtengda hringi sem tegundarmerki. Ekkert samband er á milli Audi?merkisins og merki Ólimpíuleikanna, sem eru reyndar 5 hringir. Audi?merkið var tekið upp árið 1932 þegar 4 fyrirtæki, Horch, DKW, Wanderer og Auto Union sameinuðust undir hatti Auto Union; merkið, hringirnir fjórir, er tákn samrunans. Í bresku bílablaði sá ég skammstöfunina DKW þýdda sem ,,Deutsche
Kraftfahrzeug Werke,,. Í vönduðum uppsláttarritum er DKW sagt standa fyrir ,,Dampf?Kraft?Wagen".

Þótt það sé útúrdúr má geta þess að stofnandi DKW í Þýskalandi (1907) var Daninn J.S. Rasmussen, sem síðar varð einn af þekktum iðnjöfrum Þýskalands. Rasmussen byrjaði á framleiðslu gufuknúinna bíla, framleiddi rafknúna leigubíla um tíma og fræg mótorhjól upp
úr 1920. Þau voru uppnefnd ,,Das Kleine Wunder" fyrir DKW. Um 1930 var DKW heimsins stærsti framleiðandi mótorhjóla. Fyrsta DKW bílinn framleiddi J.S. Rasmussen árið 1928 og fyrsta framhjóladrifna bílinn árið 1931. Rasmussen og tæknimenn hans hönnuðu þriggja sílindra tvígengisvélina, sem áratugum saman knúði DKW, Audi, IFA og síðar Saab. Það má því gera því skóna að Dönum hafi fundist þeir eiga dálítið í Audi og Saab.

August Horch, sem er einn af frumkvöðlum þýskrar bílaframleiðslu og starfaði m.a. sem tæknifræðingur hjá Benz fyrir aldamótin 1900, stofnaði eigið fyrirtæki, August Horch Automobilwerke GmbH árið 1910. Annar bílaframleiðandi, A. Horch & Co
Motorwagenwerke, stefndi nýja fyrirtækinu og krafðist þess að það notaði annað nafn en Horch. Horch þýðir ,,að hlusta" á þýsku. Latneska samheitið er Audi og því lá beinast við taka það upp sem fyrirtækisiheiti í stað Horch.

Saga Audi verður ekki rakin frekar hér. Þó skal þess getið að upp úr 1980 hefur Audi haslað sér völl sem leiðandi fyrirtæki á tæknisviðinu. Sá ferill hófst með aldrifsbílnum Audi Quattro
sem síðar vann nánast allar rallkeppnir á tímabili eða þar til Peugeot 205 tók við því hlutverki. Sem dæmi um tæknilega stöðu Audis má nefna að 2. kynslóð Audi 80, sem kom á markaðinn 1988, var með einn lægsta vindviðnámsstuðul allra 4ra dyra fólksbíla
eða 0,29. Einungis Opel Omega gat státað af minna vindviðnámi (Cd = 0,28) og engin tilviljun að sami hönnuður átti þar hlut að máli. Annað tæknilegt afrek Audi er 5 síl. bensínvélin sem birtist fyrst í Audi 100 af árgerð 1977.

   

BYGGING

Audi A4 er nýr bíll byggður á grunni Audi 80/90 og tók við hlutverki hans sem árgerð 1996. Eins og með 80/90 er straumlínuhönnunin áberandi. Vindviðnámsstuðull bílsins er enda með því lægsta sem gerist, 0,29. Audi A4 er 4ra dyra, framdrifinn, með vélina langsum. Að framan er sjálfstæð gormafjöðrun en að aftan er þverbiti með snerilfjöðrun. Tannstangarstýrið er með vökvaaðstoð. ABS?bremsur og öryggisbelgir fyrir bílstjóra og farþega í framsæti eru staðalbúnaður í A4 1,8. Samlæsingar eru ekki fjarstýrðar, rafknúnar rúður eru einungis í framhurðum. Útispeglarnir eru rafstilltir. Vandað útvarp/snældudrif (Blaupunkt) með 4 hátölurum er innifalið í verði og auk þess þjófavörn.

Hjólastellið að framan er sérstakt; ný hönnun sem Audi hefur þróað. Meira um það síðar. Vélin, eins og annað í þessum bíl, er tæknilegri en gengur og gerist. Hún er 4ra sílindra með
tveimur ofanáliggjandi keðjuknúnum kambásum og 5 ventla í hverju brunahólfi. Þjöppunarhlutfallið er 10,3 : 1. Hámarksaflið er 125 hö við 5800 sn/mín. Hámarkstogið er 173 Nm við 3950 sn/mín. Vélstýrikerfið, kveikjulaust neistakerfi og bein innsprautun í
sogport, er nýjasta tölvutækni. Það er til marks um þá tækni sem býr að baki þessari vél (og bíl) að 20 ventla heddið, samsett og tilbúið til ísetningar, vegur einungis 12 kg. Audi A4 fæst með mun aflmeiri vél, sé áhugi fyrir því svo sem 150 ha 4ra sílindra 20 ventla, 220 ha 3ja lítra 30 ventla V6-vél (170 ha 4ra síl. turbó í 1,8 T Quattro) , 5 sílindra 2,2ja lítra vél í stationbílnum og síðast en ekki síst 344 ha V8-vél (S4).

FYRIR HVERN?

AudiA4 vegur 1240 kg (sjálfskiptur). Stærðin, skuggi botnflatar, er 7,75 m2. Það þýðir að Audi A4 er álíka stór og Toyota Carina en örlitlu minni en Renault Laguna og örlitlu stærri en BMW 300. Volvo 850 kostar svipað og Audi A4, er hins vegar stærri (8,15 m2) og rúmbetri bíll. Volvo 850 er sá sem líkist mest Audi A4, hvað varðar aksturseiginleika, af sambærilegum bílum sem ég hef prófað.

Audi A4 er mjög rúmgóður fram í. Hann er hins vegar þröngur aftur í, t.d. er fótarými takmarkað og stokkur í miðju gólfi til trafala. Af þessum ástæðum er Audi A4 ekki jafn heppilegur fjölskyldubíll og t.d. Toyota Carina og Renault Laguna, sem báðir eru rúmbetri aftur í og með þægilegra aftursæti. Audi A4 er skráður sem 5 manna bíll. Að mínum dómi er hann nær því að vera 4ra manna bíll vegna lítils rýmis aftur í. Skottið er hins vegar mjög stórt og svokallað ,,skíðagat" er fyrir miðju baki aftursætis. Innréttingin er áberandi vönduð og falleg. Stíllinn og áferðin er nær Benz en BMW.

Sem fjölskyldubíl, í þessum stærðar og verðflokki, veldi ég fremur Volvo 850 en Audi A4. Setti maður eigin hagsmuni framar en fjölskyldunnar veldi ég hins vegar Audi A4; það er
einfaldlega svo ótrúlega gaman að keyra bílinn.

AKSTURINN

Sá Audi sem við höfðum til prófunar var sjálfskiptur. Skiptingin, sem er frá ZF, er af einfaldari gerðinni, 3ja gíra skipting með túrbínulæsingu sem virkar eins og 4. gír. Þessi
sjálfskipting mætti vera skemmtilegri. Evrópskir framleiðendur eru enn áratugum á eftir bandarískum í þeirri tækni, sem þarf til að búa til góða og ódýra sjálfskiptingu. Sjálfskiptingin er eini mínusinn sem ég gat fundið við Audi A4 ? mér finnst hún of frumstæð fyrir svona bíl.

Þann dag sem Audi A4 var prófaður var rok og úrhellisrigning ef ekki skýfall á Suðurnesjum; Keflavíkurvegurinn varð á svipstundu eins og vatnsrennibraut og malarvegurinn frá Grindavík, fyrir Reykjanes til Hafna, en þar höfðu skipts á holuklasar og
þvottabretti fyrr um daginn, var orðinn eitt samfellt holu? og drullusvað.

   

Á Keflavíkurveginum varð ég ekki var við að vatnsaginn hefði áhrif á stöðugleika bílsins, hann hélt rásfestunni betur en ég átti von á miðað við aðstæður. Dekkin eiga sinn þátt í
þessu. Þau eru af gerðinni Michelin MXAV3, X?Radial, af stærðinni 205/65 R15. Þetta eru athyglisverð dekk og það var sérstaklega eftir að komið var á malarveginn að ljóst var að þetta eru dekk sem henta fyrir íslenskar aðstæður öfugt við Continental dekkin sem voru á Renault Laguna, sem ég hafði prófað nokkru áður, og sem gerðu hann ómögulegan á malarvegi.

Það er eitthvað sérstakt við fjöðrunina í Audi A4 sem maður finnur ekki í öðrum bílum. Sem dæmi má nefna að hann hallar nánast ekkert í beygjum, fjöðrunin botnar aldrei þótt farið sé
yfir djúpar holur, hann heldur rásfestunni á malarvegi á talsverðri ferð yfir þvottabretti og/eða holur þar sem aðrir væru farnir að kasta til afturendanum; hann er lítið sem ekkert undirstýrður á malbiki en hæfilega á malarvegi sem gerir hann stöðugri. (Undirstýrður bíll hefur tilhneygingu til að beygja með stærri radíus en stýrið myndar með vísun hjólanna). Þrátt fyrir stöðugleikann er Audi A4 áberandi þýður og er að því leyti frábruginn mörgum hraðskreiðum bílum, sem eiga það sameiginlegt að vera grjóthastir.

Samandregið:

  • 4ra síl. 1800?vélin skilar nægu afli fyrir allan venjulegan akstur. Viðbragðið er óaðfinnanlegt, jafnvel þótt bíllinn sé sjálfskiptur. Gangurinn er hljóðlátur og mjúkur. Samkvæmt lauslegri mælingu er bensíneyðslan í blönduðum akstri um og yfir 11 l/100 km.
  • Þeir sem líta á bíl sem leikfang og hafa gaman af líflegum bílum í þessum verðflokki ættu kynna sér Audi A4. Á ensku eru svona bílar nefndir ,,a driver s car", þ.e. bíll fyrir þá sem
    finna mun á bílum, hafa gaman af akstri og kunna að meta vel útfærða tækni.
  • Helsti keppinauturinn, hvað tæknina varðar, er Volvo 850 og þeir sem tóku við af honum. Athyglisvert er að bera Audi og Volvo saman og þá svo saman við japanska bíla í sama verðflokki. Þá sést að evrópskir framleiðendur hafa ekki sofið á verðinum.
  • Þótt Audi A4 sé þýskur eins og BMW 318 hefur hann ólíkan karakter; aksturseiginleikarnir eru ólíkir, innréttingin dregur dám af Benz og tæknin er meira áberandi en í BMW.
  • Audi A4 er stór en nettur og lipur bíll. Aksturseiginleikarnir eru í sérflokki. Þýsk séreinkenni eru á bak og burt í Audi, m.a. sparsemisbragurinn á innréttingunni sem áður einkenndi þýska bíla öðrum fremur.
  • Margvíslegir stillimöguleikar gera það að verkum að bílstjórastóll og mælaborð er eins og það hafi verið hannað sérstaklega fyrir viðkomandi.
  • Aftursætið mætti vera betra. Í baki þess er skíðalúga. Audi A4 er nokkuð þröngur aftur í þótt sæmilega fari um 2 fullorðna. Farangursrýmið er rúmgott og opnast vel.


Til baka

Aftur á aðalsíðu