Grein þessi var skrifuð fyrir Bændablaðið og birtist vorið 2007
Leó M. Jónsson iðnaðar og vélatæknifræðingur:

Hver vill greiða fyrir umhverfisvernd?

Með aukinni velmegun, fólksfjölgun og breyttum lífsmáta hefur fjöldi einkabíla margfaldast samhliða því sem notendum almenningsvagna hefur fækkað. Nú mælist loftmengun í Reykjavík yfir hættumörkum þegar hún er mest að vetri - en er þó að minni hluta vegna útblásturs bíla heldur vegna ónógs þrifnaðar gatna (takmörkuð hálkueyðing , nagladekk, svifryk). Afleiðing loftmengunar er ómælt heilbrigðisvandamál þótt ástandið í Reykjavík (loftmengun) sé ekki nema að litlu leyti af völdum útblásturs frá brunavélum sem ekki telst viðverandi vandamál á Íslandi1). Flestir eru samt sammála um að merkjanlegar breytingar hafi orðið í veðurfari og á lífríki undanfarna áratugi. Gróðrhúsaáhrifum er kennt um, þ.e. eðlileg uppgufun og útblásturs gróðurhúsalofttegunda (ghl).

Á undanförnum áratugum hefur því ítrekað verið spáð að olíulindir jarðar sé að þverra. Á sama tíma hafa uppgötvast neðansjávarjarðlög sem geyma meira af gasi og olíu (Norðursjór) en nokkurn óraði fyrir. Víða í Evrópu er raforka til iðnaðar og húshitunar framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis með tilheyrandi loftmengun. Um 70% af heildarorkuþörf þjóðarinnar er mætt með vatnsaflsvirkjunum og jarðvarma2). Stærsti hluti loftmengunar (ghl) hérlendis1) stafar af umferð, samgöngum (22,7%), fiskveiðum og mjölvinnslu (25,9,7%), iðnaði (16,5%) og landbúnaði (15,9%).

Viðbrögð
Flestir munu sammála um að áhrifaríkasta vörn gegn vaxandi loftmengun sé minni brennsla jarðeldsneytis, þ.e. bensíns og olíu. Allir virðast sammála um að nauðsynlegt sé að grípa til slíkra aðgerða - en þeim finnst yfirleitt að framkvæmdin/aðgerðir sé hlutverk einhverra annarra en þeirra sjálfra; skoðanakannanir myndu líklega sýna að almenningur sé t.d. hlynntur svokölluðum tvinnbílum vegna sparneytninnar og hversu lítil loftmengun fylgir notkun þeirra; - samt kaupa fáir slíkan bíl. Mengunarvarnir þykja fólki sjálfsagðar - svo lengi sem þær bitna ekki á því sjálfu eða lífsmáta þess: Áhugi virðist vera fyrir öðrum tegundum eldsneytis og orkumiðlum - sé fyrirsjáanlegt að þær breyti engu í bráð heldur í hæfilega fjarlægri framtíð!

Íhaldssemi og fordómar
Ákveðin varkárni gegn breytingum er eðlileg. Einhvers staðar liggja mörk á milli algengrar íhaldssemi og fordóma. Varðandi umhverfismál er almenn varkárni hemill sem má losa um með upplýsingum. Fordómar eru erfiðari viðureignar. Markmið með upplýsingum er hugarfarsbreyting. Hins vegar má breyta atferli með opinberri stýringu (valdi) svo sem með sköttum. Dæmi: Háir skattar á eldsneyti í Evrópu, en lágir eða engir í Bandaríkjunum, gera það að verkum að Evrópubúi notar helmingi minna eldsneyti á heimilisbíl en Bandaríkjamaður.

Dýrt eldsneyti er mengunarvörn
Á miðju ári 2006 er um 60% af útsöluverði bensíns og dísilolíu skattar til ríkissjóðs3). Sé gert ráð fyrir álagningu olíufélaga má ætla að innkaupsverð bensíns og dísilolíu sé innan við 50 kr. á lítra. Af núverandi 125 kr. útsöluverði fær ríkissjóður, samkvæmt því, 75 krónur. Samkvæmt upplýsingum FÍB um eldsneytisverð í 13 Evrópulöndum, í mars 2006, er bensín einungis dýrara í Hollandi (127.08 kr/l) en hérlendis (115 kr/l). Dísilolía er hins vegar ódýrari í Hollandi en hér (93,66/113,00). Einungis í Bretlandi er dísilolía dýrari en á Íslandi (114,7/113,00). Athygli vekur í þessum samanburði FÍB að þar sem dísilolía er ódýrari en bensín (11 lönd) er munurinn minnstur á Íslandi. Hátt eldsneytisverð hvetur til kaupa á sparneytnari bílum þótt skiptar skoðanir séu um hve virk sú stýring er hérlendis. Einnig eru skiptar skoðanir um hve hátt eldsneytisverð megi vera - einhvers staðar liggja mörkin - ekki síst þegar það er haft í huga að eldsneyti er rúm 5% af vísitölu neysluverðs, hækkar þannig skuldir heimila á sjálfvirkan hátt og hefur bein áhrif á kjör fólks.

Því meiri loftmengun - því meiri tekjur
Á árinu 2005 innheimti ríkið 47 milljarða3) í sköttum af bílum og umferð. Stór hluti þess er skattur af eldsneyti. Af þeirri upphæð er varið um fjórðungi, 12 milljörðum3), til vegaframkvæmda. Sala eldsneytis er því mikilvægur tekjustofn ríkisins og líklega hærra hlutfall af heildarskatttekjum en hjá miklu stærri þjóðum í Evrópu. Sé sú tilgáta mín rétt hlýtur það að móta afstöðu valdhafa til aðgerða sem miða að umhverfisvernd. Þá á ég við minnkun loftmengunar með eldsneytissparnaði, með nýju eldsneyti eða öðrum orkumiðlum. Slíkar aðgerðir myndu þýða að skattar yrðu fluttir yfir á aðra stofna því fremur ólíklegt verður að teljast að tekjumöguleikar ríkisins verði skertir án mótvægis.

,,Hreinna eldsneyti" - illleysanlegt vandamál
Sem dæmi um eldsneyti, sem bílar gætu notað í stað bensíns og dregið gæti verulega úr mengun í útblæstri, er lífrænt gas, t.d. metangas sem verður til hér innanlands við gerjun sorps og knýr nú þegar nokkra bíla, m.a. bensín- og dísilbíla í eigu Vélamiðstöðvar borgarinnar. Útblástur koldíoxíðs (ghl) frá 113 metanbílum samsvarar útblæstri eins bensínbíls4). Hver yrðu áhrifin fyrir hið opinbera ef svo ólíklega vildi til að almenning í Reykjavík gripi mengunarvarnaæði og metanbílar yrðu keyptir í stórum stíl?

Hver metanbíll er niðurgreiddur um 240 þús. kr. við innflutning og er undanþeginn árlegum þungaskatti4). Metan, að jafngildi eins lítra af 95 oktan bensíni, kostar 78,57 kr. Um 10 þúsund metanbílar gætu sparað 10 milljón lítra af bensíni árlega. Tekjutap ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu bílanna yrði 2,4 milljarðar og árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna minni bensínsölu yrði 0,75 milljarður og tekjumissir olíufélaganna um 200-300 milljónir. Á móti kæmu 173 milljónir í ríkissjóð með virðisaukaskatti af sölu metans. Áhrif slíkra ótvíræðra loftslagsbóta og mengunarvarna yrði hins vegar meiriháttar áfall fyrir ríkissjóð. Auðvitað má benda á gjaldeyrissparnað vegna þeirra 10 milljón bensínlítra sem sparast - en hvaða gildi hefur gjaldeyrissparnaður núorðið, - gjaldeyrissparnaður sem rýrir tekjur ríkissjóðs og fleiri? Fólk getur leikið sér við að reikna þetta dæmi áfram. Niðurstaðan er að mengunarvarnir með minni brennslu eldsneytis eru slæmar fyrir hið opinbera - ef ekki alvarlegt vandamál.

Eru umhverfisvænni bílar óþægilegri?
En er einhver hætta á því að almenningur taki upp á því að kaupa bíla sem brenna metan eða bíla sem geta brennt bæði metan og bensíni? Borgaryfirvöld í Linköping (í Austur-Gautlandi) hafa haldið úti athyglisverðu verkefni síðan 1999 sem miðar að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nota þess í stað og samhliða lífrænt gas. Í fræðsluriti er gerð grein fyrir þessu verkefni, áhrifum þess og árangri5). M.a. lýsir leigubílstjóri í Linköping breytingum eftir að hann fór að nota tvinnbíl, Volvo V70, sem hann hefur ekið í 5 mánuði. Með fullan geymi af metangasi getur hann ekið 180-190 km á gasinu. Tæmist gasið skiptir búnaður sjálfvirkt yfir í bensín en á því getur hann ekið 300 km. Í Linköping eru fjórar áfyllingarstöðvar fyrir gas. Þessi leigubílstjóri þarf að fylla á gasgeyminn tvisvar á hverjum vinnudegi. Þrátt fyrir niðurgreiðslu tvinnbíla (gas/bensín) og áróðurs fyrir umhverfisvernd fjölgar þeim bílum hægt í Svíþjóð.

Fátt um fína drætti?
Flest hugsandi fólk álítur að raunhæf aðgerð við núverandi aðstæður sé að spara eldsneyti; ganga, hjóla, nota sparneytnari bíla, passa betur upp á ástand bíla (vélarstillingu, þrýsting í dekkjum) og temja sér sparakstur. Hið opinbera, af framangreindum ástæðum, tregðast við að hvetja til fjölgunar dísilbíla þótt þeir eyði þriðjungi minna eldsneyti og séu, með loftagnasíum, með hreinni útblástur en bensínvélar. Dísilvél er án kveikjukerfis og einfaldari búnaður gerir það að verkum að ástand þeirra er stöðugra og gæði brunans meiri.

Margt bendir til þess að hagkvæmt geti orðið að vinna etanól úr úrgangi (lífmassi) en 10% íblöndun etanóls í bensín krefst engra breytinga á bílvélum en minnkar loftmengun umtalvert. Etanól hefur um árabil verið í notkun í Svíþjóð með góðum árangri. Tvinnbílar, Toyota Prius, sem knúinn er bensíni og raforku er þegar á markaðnum og niðurgreiddur. Prius er mun sparneytnari en hefðbundinn bíll sömu stærðar og Toyota ábyrgist rafbúnað og rafhlöður í 8 ár. Eftirspurn er ekki rífandi. Galli við Prius er að rafhlöður hans er ekki hægt að hlaða með utanaðkomandi rafmagni, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Í upphafi skyldi …..
Skáldið Oscar Wilde sagði að vegurinn til vítis væri varðaður góðum ásetningi. Það á við varðandi pólitískar lausnir á mengunarmálum. Ágætt dæmi er frá 9. áratug síðustu aldar þegar yfirvöld í Brasilíu ákváðu að ráðast gegn mikilli loftmengun í stórborgum með því að taka upp etanól í stað bensíns sem eldsneyti á bíla. Bílar fyrir etanól voru framleiddir í stórum stíl í Brasilíu og etanólframleiðsla úr sykurreyr átti að verða lyftistöng fyrir landbúnað í hinum strjálu byggðum. Á fáum árum tókst að hreinsa loftið í stórborgunum. Gríðarleg aukning varð í ræktun á sykurreyr. Bændur brenndu reyrinn fyrir uppskeru til að eyða laufi og snákum. Og þar kom að meiri loftmengun varð í landbúnaðarhéruðunum vegna reyks og sóts en áður hafði verið í borgunum og þegar reykinn fór að leggja yfir borgirnar var sjálfhætt við etanólbílana. Reynslunni ríkari framleiða Brasilíumenn nú bíla sem brenna bensíni með 10% íblöndun etanóls.

Möguleikar
Skrifa mætti um framleiðslu á dísilolíu úr repju (fóðurkáli), úr notaðri matarolíu og öðrum fituafgöngum. Skrifa mætti um raforkuframleiðslu til sveita með gerjunargasi úr húsdýraskít með hjálp jarðvarma; um rafbíla, um skipastól og flugflota sem brennir óhreinna eldsneyti án nokkurra mengunarvarna, um vetnisvélar, um ónýttar orkulindir (mór og vindur o.fl). En til að meta raunhæfni hinna ýmsu kosta þarf að skoða ráðandi aðstæður í víðu samhengi - ofangreindar aðstæður sem margir telja mótsagnarkenndar, að ekki sé meira sagt. (þessari málsgrein breytt 22/9/09).

Póltísk kviðrista
Það er auðvelt að byggja skýjaborgir og sjá fyrir sér Ísland sjálfu sér nógt um eldsneyti með endurnýtanlegri orku án loftmengunar nema þeirrar sem leggur til okkar með háloftavindum frá Evrópu. Tækist að knýja helming bílaflotans með metangasi ætti hið opinbera varla annarra kosta völ en að auka skattlagningu eldsneytis til að tryggja tekjur sínar - sem gæti þýtt að verð á bensíni, dísilolíu og metan hækkaði í um 200 kr. lítrinn.

Stjórnmálamönnum er vissulega vorkunn: Sá þingmaður sem beitti sér opinberlega (en ekki á bak við tjöldin) gegn eldsneytissparnaði; yrði uppvís að því að beita sér gegn umhverfisvernd, af umhyggju fyrir afkomu ríkissjóðs, ætti ekki sjö dagana sæla. Þess vegna er leitað að möguleikum til þess að vera talsmaður og boðberi umhverfis- og náttúruverndar með viðeigandi upphrópunum sem ekki aldrei þarf að standa við. (Fylgdi hugur máli er eðlilegt að spyrja hvers vegna allir bílar sveitarfélaga séu ekki knúnir metangasi og hvers vegna allir strætisvagnar á Stór-Reykjavíkursvæðinu séu ekki knúnir vetni - því nóg er mengunin?). Á meðal himnasendinga er orkumiðlill/orkuberi á borð við vetni (sem er ekki eldsneyti heldur raforka í breyttu formi), sem nota má í stað eldsneytis og brennur án minnstu loftmengunar, en engin hætta á að raski núverandi eldsneytisbúskap fyrr en hugsanlega eftir 10-50 ár - sem er ákjósanlegur teygjanleiki í pólitík.
-----------------------------------
Um höfundinn:
Leó M. Jónsson er sjálfstætt starfandi iðnaðar- og vélatæknifræðingur ( f. 1942 -
----------------
Heimildir:
1) Orkustofnun. Upplýsingarit: Vistvænt eldsneyti. Október 2005 (bls. 13). www.os.is
2) Landsvirkjun. Upplýsingaritið ,,Umhverfið í okkar höndum."
3) Félag íslenskra bifreiðaeigenda. www.fib.is
4) Sorpa/Metan hf. www.metan.is
5) Linköpings Kommun. ,,28 steg för en bättre miljö I Linköping: Lokala investeringsprogram 1999-2005. (bls. 9) www.linkoping.se

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar