Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Margir kunna ekki að beita ABS-bremsum

ABS stendur fyrir Antilock Braking System, - rafeindakerfi sem stýrir þrýstingi í bremsudælum eftir boðum frá skynjurum sem nema snúning hjóla. Tæknin byggist á þeirri eðlisreynd að snúist hjól má stýra því í ákveðna átt. Um leið og hjól hættir að snúast og skautar verður það stjórnlaust. Mest veggrip hefur hjól þegar það snýst hægast en minnst þegar það hefur stöðvast og skautar. Með ABS-læsivörn má stöðva bíl á styttri vegalengd en án ABS; þ.e. kunni bílstjórinn að beita ABS-bremsum.

Fjöldinn les ekki leiðbeiningar í handbók sem fylgir bíl. Ástæðan er ekki sú að bókin sé á ensku því flestir kunna nóg í málinu - því veldur lenska hér sem annars staðar; - ,,alvöru fólk les ekki leiðbeiningar." Margt fólk kann ekki að beita ABS-kerfi bíls og því eru sérfræðingar í öryggismálum ekki sammála um gildi búnaðarins.

Þegar bremsum bíls með ABS er beitt í neyðartilviki á að standa á bremsunni og stýra og ekki létta ástiginu fyrr en bíllinn hefur stöðvast eða hætta er liðin hjá. Algeng mistök bílstjóra er að létta ástigi af bremsum, þ.e. að troða bremsuna í neyðartilviki en við það byrjar stýriferlið, sem á að tryggja mesta virkni, upp á nýtt hvað eftir annað og til að stöðva bílinn þarf lengri vegalengd en ella. Flóknara en þetta er málið ekki.

Hér má bæta við fróðleik um ABS-kerfið sem getur komið sér vel að kunna skil á:

1. ABS-ljósið í mælaborðinu á að lýsa þegar vél er gangsett og slokkna jafnharðan. Það er vísbending um að kerfið sé í lagi og virkt.

2. Lýsi ABS-ljósið stöðugt eftir að vél hefur verið gangsett og eftir að ekið er af stað er bilun í hjólnema/nemum eða leiðslu/leiðslum frá hjólnema.

3. Lýsi ABS-ljósið eftir gangsetningu vélar, slokkni en kvikni svo aftur þegar ákveðnum hraða er náð er bilun í teljara (tannhring) hjóls.

4. ABS-læsivörn er ekki skyldubúnaður. Sé kerfið bilað og ABS-ljósið lýsi til viðvörunar fæst engu að síður full skoðun án athugasemdar, sé annað ekki að bílnum. (Ath. sama gildir um öryggisloftpúða ,,Air-bags").

 

Fleiri greinar um bíltækni

Pistlar

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar