Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Porsche 911 í 40 ár

Síðari grein.

(Þessi grein, nokkuð stytt, birtist upphaflega í Morgunblaðinu/Bílar 27/8/2003)

911 reyndist væntanlegum arftökum lífseigari

Í fyrri greininni í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá frumsýningu Porsche 911 lauk þróunarsögunni með 911 Carrera RS árið 1973. Sá magnaði keppnisbíll vakti rækilega athygli á 10 ára afmæli 911 en í upphafi 8. áratugarins var ekki algengt að bíll yrði svo langlífur.

(Myndir eru fengnar frá Porsche).

En fyrir Porsche 911 var ballið rétt að byrja því 1975 kom fyrsti 911 Turbo. Vélin var með 3ja lítra slagrými og afgasþjöppu. Þetta var fyrsta alvarlega breytingin á 911-bílnum enda er tegundarheiti hans 930 (934 og 935 eru sérútbúnir 930-keppnisbílar, 935 var t.d. með vatnskældum heddum). Þótt Porsche hafi ekki haft forystu í ,,túrbóvæðingunni" frekar en Saab (það var GM með Chevrolet Corvair Monza Spider 1961/62) var 911-túrbóvélin vel heppnuð frá upphafi, t.d. vakti sérstaka athygli að ,,þjöppuhik" var ekki merkjanlegt. Með afgasþjöppunni jókst afl 3ja lítra vélarinnar úr 200 í 260 hö og togið um 35%. Smurolíukerfi án biðu (dry sump) tryggir smurningu án tillits til flóttaafls/halla auk þess að hámarka kælingu núningsflata. (tæknileg lýsing á virkni afgasþjöppu o.fl.)

911 Turbo 3.0 Coupe 1975 911 SC 3.0 Cabriolet 1983

Enginn 5 gíra kassi þoldi átak túrbóvélarinnar og því voru gírarnir einungis 4 í fyrstu. (Það er opinbert leyndarmál að Carrera RS 3.0 (án túrbó með 5 gíra kassa) var ofjarl fyrsta 911 Turbo þrátt fyrir hærri hestaflatölu). 911 Turbo er ekki breyttur 911 heldur annar bíll - önnur hönnun (930); breiðari botn með sterkari hjólastell. Skelin á 911 Turbo er víðari og með meira vindviðnám. Þetta þurfa áhugamenn um Porsche að vita ætli þeir að kaupa notaðan bíl því mörgum 911-bílum hefur verið breytt í 930-útlit - jafnvel á ódýrari hátt - og eru því ekki upprunalegir 911 Turbo.

Knappur dans

1978 var eitt versta árið í sögu Porsche - gjaldþrot virtist vofa yfir, annars vegar vegna mikils samdráttar á bandaríska markaðnum vegna ,,orkukreppunnar" og hins vegar vegna kostnaðar af þróun nýrrar bílgerðar (924/928). Ernest Fuhrmann (höfundur 911-vélarinnar) hafði tekið við sem æðsti stjórnandi 1972 þegar Porsche-fjölskyldan, stærsti hluthafinn, hafði ákveðið að hætta afskiptum af daglegri stjórn, sem þótti ekki hafa tekist nógu vel. (Ferry) Porsche II hafði gerst formaður sérstakrar umsjónarnefndar sem skipti sér ekki af rekstrinum en hafði samt úrslitavald í ákveðnum málum. Nýi bíllinn 924 (1975) og 928 (1977), sem var með vélina að framan og afturhjóladrif, var þýðingarmesti þátturinn í aðgerð Fuhrmanns til að bjarga fyrirtækinu og altalað var að hann teldi tíma 911-bílsins lokið. Ákveðin niðurtalning var augljóslega hafin.

Í minningargrein um (Ferry) Porsche II myndu viðbrögð hans líklega skýrð með framsýni og snilli hins mikla stjórnanda þótt sennilegra sé að tilfinningar gagnvart ,,uppáhaldsbíl hans", sem hann ásamt syninum (Butzi) Porsche III átti mestan þátt í að skapa, hafi mestu ráðið. En í brýnu sló með Ferry og Ernest Fuhrmann, þessum fyrrum vinum og samstarfsmönnum - Ferry beitti úrslitavaldinu; hætt var við að hætta við 911-bílinn; Ernest Fuhrmann tók pokann sinn og Bandaríkjamaðurinn Peter Schutz5 tók við stjórninni. Áframhaldandi þróun 911-bílsins var tryggð.

En af kaldhæðni örlaganna voru það ráðstafanir Ernest Fuhrmann sem björguðu fyrirtækinu: Árið 1975 hafði sala Porsche minnkað í 9.424 bíla4 en 1981 hafði Porsche rétt úr kútnum og selt liðlega 100 þúsund 924-bíla4. Það voru því 924 og 928 bílarnir sem björguðu fjárhag fyrirtækisins, tryggðu framtíð þess og þar með framhaldslíf 911.

,,Niðurskurðargerðin" 911 SC var við lýði 1978-83. Í upphafi þótti sá bíll afturför, ekki síst sá sem ætlaður var fyrir Evrópumarkaðinn (180 hö) og þótti fátæklega búinn. SC-útgáfan fyrir bandaríska markaðinn var betur búin og sérstaklega vel smíðaður bíll, t.d. 204 hö 1981, með loftkælikerfi (AC) og aflbremsum en sá bíll er nú á meðal þeirra notaðra Porsche sem best seljast.

1978 kom 911 Turbo (930) með 3,3 lítra slagrými og millikæli sem jók afköst vélarinnar í 300 hö. Millikælirinn var innfelldur í vindskeiðina (kollustélið). Bíllinn, sem var með 4ra gíra kassa, var 5,4 sek. í hundraðið og hámarkshraðinn 256 km/klst. Enginn raðsmíðaður bíll gat leikið þetta eftir næstu 7 árin enda breyttist bíllinn ekki fyrr en 1990 að undanskildum nógu sterkum 5 gíra kassa í árgerð 1989.

911 Turbo 3.3 Coupe 1982. Margir áttuðu sig ekki á því þegar fyrsti 911 Turbo kom 1975 að Porsche hafði ekki bara bætt afgasþjöppu á vélina og Turbo-límmiða utan á 911-bílinn. Um var að ræða nýjan bíl, nýja hönnun. Gerðin nefnist 930 þótt hann hafi verið markaðsfærður sem 911 Turbo. 930-bíllinn er með breiðari og sterkari undirvagn og aðra og breiðari skel en 911. Þótt útlitið sé einstakt er 930 ekki eins lipur og fjölhæfur bíll og venjulegur 911. Sá nýi 911 Turbo (996 með sídrifi) sem kom á markaðinn árið 2000 er hins vegar í öllum grundvallaratriðum sami bíll og 911 (996) Carrera.

Fjórhjóladrif - sídrif

1989 varð umtalsverð breyting með gerð 964, en sá fyrsti nefndist 911 Carrera 4. Merkilegasta breytingin var að sjálfsögðu sítengda fjórhjóladrifið og í stað snerilfjöðrunar komu gormar að framan og aftan. Þyngdin hafði aukist um heil 250 kg (þar af 100 kg vegna aldrifsins). Aksturseiginleikar (sérkenni) þessa bíls voru í grundvallaratriðum öðru vísi en í hjá öllum fyrri og síðari 911 því þessi Carrera 4 var nær því að teljast undirstýrður! (Undirstýrður bíll hefur tilhneigingu til að snúast um framásinn - framendinn leitar inn í beygjuna). Vélin var 3,6 lítra 250 ha, með flæðisstýrðri soggrein og 2 kertum á hverju brunahólfi. Það lýsir ef til vill enn betur breytingunni á bílnum að fyrsti 911 árið 1964 vóg 995 kg en 1992 vóg 964 Turbo 1470 kg. 1990 kom 911 Carrera 2 (962) með afturhjóladrifi og 4ra gíra Tiptronic kassinn, sem er einkaleyfisvernduð hönnun Porsche, en með honum má velja á milli sjálfskiptingar og handskiptingar. (1997 kom beinskiptur 6 gíra kassi og Tiptronic með 5 gíra).

911 Carrera 4 Coupe 1995 með 3.6 lítra loftkældri vél (993). 911 Carrera 2 Coupe 1994. Þessi 993-bíll með 270 ha vél er kattlipur, fjölhæfur, hraðskreiðari en andskotinn; skemmtilegur og ótrúlega sparneytinn.

Meginbreyting varð 1993 með endurhönnuðum bíl, gerð 993 af 911 Carrera og Carrera 4 og 911 Turbo ári síðar. Auk verulegra útlitsbreytinga var afturfjöðruninni gjörbreytt þannig að hjólastellið, gormar og fjölliða hjólfesting, er á burðargrind sem fest er upp undir botn bílsins á hljóðeinangrandi hátt. (Þessi hjólabúnaður nefnist LSA-afturstell og var upphaflega þróaður fyrir 928 og nefndist þá Weissach-stellið en einn af kostum þess er að vísun afturhjólanna breytist við álag þannig að ákveðin afturhjólastýring eykur rásfestu bílsins og stöðugleika í beygjum). Annað atriði sem ekki má gleymast og er veruleg endurbót sem eykur veggrip og stöðugleika er að snerilstyrkur 993-bílsins var 20% meiri en fyrirrennarans en með auknum snerilstyrk eykst veggrip bíls.

Þegar hér var komið sögu var nánast ekkert eftir af upphaflega 911 nema stíllinn (loftkæld vél aftur í) og Porsche merkið. Sú breyting sem líklega er merkjanlegust eru áhrif nýju afturfjöðrunarinnar á hljóðmyndun. Í 911, til og með árgerð 1992, virkaði gólfstykkið aftan við framstólana sem hljóðgildra og hljóðmagnari. Með breyttri afturfjöðrun varð 993 fyrsti 911-bíllinn með hljómburð þannig að hlusta mátti á tónlist eins og í venjulegum bíl. Auk þess komst nú ferðataska af algengustu stærð í farangursrýmið að framan.

Og af því minnst var á afturhjólastellið. Það, ásamt snerilstyrk bílsins, hefur afgerandi áhrif á veggrip bílsins. Veggrip er þýðingarmeiri mælikvarði á eiginleika og getu sportbíls en hestaflatala, hámarkshraði og snerpa 0-100 km, mæld í sekúndum. Brautartími sportbíls á hringlaga braut segir miklu meira um eiginleika hans og getu en snerpa frá 0-100 ein saman. Því betra og meira sem veggripið er því skemmri verður brautartími bílsins. Þetta er skýringin á því hvers vegna sportbíll með jafnvel 400 ha vél hefur ekki haft roð við 160 ha Porsche 911 á keppnisbraut.

Sítengt fjórhjóladrif er oftast sagt vera þróað af Bretanum Harry Ferguson enda voru Jensen sportbílar, með sídrifsbúnaði frá Ferguson, á markaðinum upp úr 1960. Hins vegar var það Ferdinand Porsche I sem hannaði einn af fyrstu fjórhjóladrifnu kappakstursbílum sögunnar en það var Porsche Cisitalia fyrir ítalska iðnjöfurinn Piero Dusio. Smíði bílsins tafðist vegna stríðsins en Ítalir fengu keypt Porsche I fyrir eina milljón svissneskra franka úr stríðsfangabúðum Frakka 1947 til að ljúka verkefninu. Þessum Cisitalia-bíl var ætlað að slá hraðamet á landi. Vegna stríðsins varð ekkert af því en bíllinn er nú til sýnis í Porsche-safninu í Zuffenhausen.

911 Carrera 2

Einn vinsælasti 911-bíllinn af gerð 993 er 272 ha Carrera 2 Coupe. Í honum sameinast eiginleikar keppnisbíls, sportbíls og fólksbíls sem gera hann jafnframt þægilegan til daglegrar notkunar í þéttbýli. Undirritaður átti þess kost að þenja slíkan bíl árið 1995 í kjörlendi hans, í fjöllunum á milli Nice og Feneyja; - mikil upplifun sem væri efni í sjálfstæða grein. Nefna má að þeir sem höfðu eitthvað í þennan 911 Carrera að gera á þessu svæði (Col du Venice) voru Ferrari 348 og Honda NSX en blaðamenn sem tóku þátt í þessari bílakynningu, sem var haldin í boði dekkjaframleiðandans Pirelli, prófuðu ýmsar aðrar gerðir bíla en Porsche og gátu nú gefið í svo um munaði eftir að hafa þurft að krækja fyrir nautgripi og annan búfénað í austurrísku Ölpunum deginum áður.

911 Targa 3.6 (993). 270-285 hö eftir árgerð. Þessi er af árgerð 1997.

Síðasti 911-bíllinn af 993-gerðinni var 993 Turbo S af ágerð 1998. Með 3,6 lítra slagrými, tvær afgasþjöppur, millikæli, 6 gíra kassa og alla þá rafeindatækni sem vélstýrikerfi frá Bosch hafði upp á að bjóða ásamt tölvustýrðu veggrips- og álagskerfi (PSM) frá Porsche er þessi bíll slíkt tæki að því verður varla með orðum lýst. Vélaraflið er 450 hö, vélartogið er rúmlega 600 Nm en það fletur út kinnarnar á kinnfiskasognum manni við botngjöf; snerpan er innan við 4 sek 0-100 þótt bíllinn vegi 1456 kg. Bremsukerfið er nægilega öflugt til að stöðva einkaþotu í hálfnuðu flugtaki - áður en slegið er af hreyflunum.

Frá 1963 til og með apríl 1998 hafði Porsche smíðað 401.2321 bíla af 911-gerð. Rýmisins vegna verður þessi þróunarsaga ekki rakin frekar hér - verður ef til vill gert seinna. (Fleiri greinar um Porsche 911 eru einnig á þessari vefsíðu; um 928 og 911-vélina og um 911Turbo af nýrri gerðinni (996 frá 2000).

Skýringin: Allt öðru vísi bíll

Auk þess sem þegar hefur verið nefnt eru nokkur atriði sem hafa skapað Porsche 911 sérstöðu umfram aðra sportbíla, atriði sem mætti vekja sérstaka athygli á því þau virðast oft gleymast:

Að undanskildri misheppnaðri tilrauninni með 4ra sílindra 912-bílinn, sem áður var nefnt, er Porsche 911 ekki af mismunandi dýrum eða ,,fínum" gerðum - ,,Deluxe-merki" þekkist ekki hjá Porsche þótt aukabúnaður fáist eftir óskum. Mismunandi gerðir eru sniðnar eftir reglum og tæknilegum kröfum sem gilda í Evrópu og Bandaríkjunum um þátttöku í hinum ýmsu greinum akstursíþrótta - keppnum sem Porsche-eigendur erlendis stunda gjarnan um helgar. Í þessu efni hefur Porsche ekki hvikað frá upphaflegri stefnu sem Ferdinand Piëch markaði þegar hann stjórnaði hönnun keppnisbíla fyrirtækisins á 7. og 8. áratugnum - jafnvel þótt vaxandi hluti kaupenda sé fólk sem hvorki þyrði, gæti né tímdi að taka þátt í aksturskeppni.

911 Carrera 2002 911 Carrera Cabriolet 2002

Tæknileg þróun Porsche 911 hefur alltaf byggst á árangri hans í aksturskeppnum en hann er eini raðsmíðaði sportbíllinn á markaðnum sem er jafnframt keppnisbíll án þess að gera þurfi á honum nokkrar breytingar. Það er lyginni líkast hve mikil átök þessir bílar þola án þess að láta á sjá enda trúa því fáir sem ekki hafa reynt það sjálfir. Með réttu þjónustueftirliti og umhirðu er bilanatíðni mjög lág. Hins vegar er líklega fáa bíla eins auðvelt að eyðileggja með vanþekkingu og fúski - nema ef væri Citroën DS/CX. Því miður hafa alls konar braskarar og bjánar flutt inn notaða og jafnvel tjónaða Porsche enda segir sig sjálft að braskarar eru ekki að leita að bestu eintökunum erlendis: Útjaskaðir Porsche-bílar hafa því ekki orðið til að auka hróður tegundarinnar hérlendis. Með aukinni upplýsingamiðlun og íslensku umboði (Bílabúð Benna) ættu möguleikar slíkra braskara að hafa minnkað á markaðnum.

Smíði og efnisgæði Porsche eru í sérflokki. Porsche 911 hefur alltaf verið mjög dýr bíll, þegar borið er saman við aðra bíla, og meginástæðan fyrir því að hann hefur selst eru gæði, styrkur og ending. Svo vill til að undirritaður á lista yfir söluverð nýrra bíla í Danmörku árið 19666. Þar kemur fram að ódýrasti bíllinn (Trabant) kostaði 9.745 dkr. Nýr Porsche 911 kostaði 100 þús. danskar krónur (meira en 10 sinnum verðið á Trabant). Nýr 265 ha Jaguar E-Type kostaði sama og Porsche 911, Mercedes-Benz 230 SL Roadster var 7% dýrari en Porsche 911. Fá mátti tvo nýja Austin Healey 3000 Mk III fyrir verð eins Porsche 911 og þrjá MGB Roadster !!

Í Bandaríkjunum árið 1966 kostaði nýr 130 ha Porsche 911 um 7.000 dollara1. 280 ha Ferrari 275 GTB/4 kostaði 14.500 dollara (1) (ódýrasti Ferrari-bíllinn). Nýr Chevrolet Corvair Monza Spider (180 ha túrbó) kostaði 2.700 dollara7. 1966 kostaði nýr ríkulega búinn Cadillac Fleetwood 60 Special Brougham7 sama og Porsche 911.

Þessi samanburður á verði segir allt sem þarf. Porsche 911 hefði ekki átt nokkra möguleika á markaðnum nema vegna einstakra gæða og eiginleika (Porsche 911 var t.d. fyrsti bíllinn sem smíðaður var úr galvanhúðuðu stáli). Undirritaður bjó í Svíþjóð á miðjum 7. áratugnum og varð margoft vitni að því þegar ítalskir og breskir sportbílar, með jafnvel tvöfalt vélarafl á við Porsche 911, heltust úr lestinni eftir hálfnaða keppni í brautarkappakstri vegna þess að bremsurnar voru búnar og/eða vélin yfirhitnaði - það gerðist ekki með Porsche sem yfirleitt lauk keppni, kom oft fyrstur í mark og oft á brautarmeti. (Sænskir gárungar sögðu að munurinn á breskum og ítölskum bílum væri sá að breskir bílar sæust ryðga en ítalskir heyrðust ryðga). Annars staðar á vefsíðunni segi ég frá Svíanum Björn Waldegård og makalausum ferli hans í rallakstri á Porsche 911. Enn þann dag í dag sér maður 30 ára gamla Porsche 911 í notkun í Stokkhólmi að sumri til en af jafnaldra fyrrum keppinautum sést varla nokkur - nema þá helst á sýningum eða söfnum. Í auglýsingu frá Porsche segir að gamlir Porsche séu ekki til - einungis nýir eigendur ...

Það gefur augaleið að sölumenn Porsche hafa þurft að hafa mikið fyrir lífinu 1964. Þeir þóttu hins vegar öfundsverðir nokkrum árum síðar. Frá markaðstæknilegu sjónarmiði séð er Porsche 911 skólabókardæmi um hvernig reynsla kaupenda skapar viðvarandi markað fyrir vandaða og dýrari vöru og byggir upp orstír bíls.

Fyrsti Porsche hérlendis

Fyrsti Porsche-bíllinn kom hingað á 6. áratugnum og var af gerðinni 356. Hann átti upphaflega Guðmundur Gíslason fyrrum forstjóri B&L. Sá bíll mun hafa verið seldur til Noregs á 8. áratugnum. Fyrsta 911-bílinn hérlendis var af árgerð 1975. Hann átti Jón S. Halldórsson heitinn sem var áhugamaður um Porsche og þekktur akstursíþróttamaður. Hann keppti í ralli á 911-bílnum ásamt Guðbergi Guðbergssyni akstursíþróttamanni og Porsche-sérfræðingi. Guðbergur átti seinna bílinn um árabil og er sá bíll enn til.

Copyright © Leó M. Jónsson

Heimildir:
1 ,,New Complete Book of Collectible Cars 1930-1980." Richard M. Langworth og Graham Robson. Útg. Beekman House, New York 1987.

2 ,,Hreyfing sem hrífur." (bls. 18) Bók útgefin af Dr. Ing. H.c. F. Porsche AG, Stuttgart 2000. Íslensk þýðing: Leó M. Jónsson. Dreifing: Bílabúð Benna Rvk.

3 ,,Carrera RS. Leichtere Karosserienbau." Bók. Höf. Dr. Thomas Grüber og Dr. Georg Konradsheim. Útg. TAG Verlag GmbH. Vínarborg 1993.

4 ,,The World Guide to Automobiles. The Makers and their Marques." Bók. Höf. Nick Baldwin, G.N. Georgano, Michael Sedgwick og Brian Laban. Útg. Macdonald Orbis. London 1987.

5 ,,Autozine". Vefsíða. The Complete Story og Porsche 911". (Veffang: http://autozine.kyul.net).

6 ,,Bil-AARBOGEN 1966". 19. árgangur. Ritstjórn: Mogens A. Stærmose. Útg. Illustrationsforlaget. Kaupmannahöfn 1965.

7 ,,Standard Catalog of American Cars 1946-1975." Ritstjórn: John Gunnell. Útg. Krause Publications. Wisconsin 1992.

Til baka á aðalsíðu