Porsche 911 GT3 RS

Kappakstursbíll

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Til þess að komast í meistaraflokk í golfi, bruni á skíðum eða listdansi á skautum þarf hæfileika, færni og þjálfun ásamt góðum tækjum. Sama gildir í kappakstri - þar ræður úrslitum hve hæfileikar, færni og þjálfun ökumannsins eru vel samhæfðir tæknilegri getu og gæðum bílsins. Í öllum þessum greinum ráða tækin úrslitum. Þrátt fyrir að flestir myndu viðurkenna þessa staðreynd hefur, af einhverjum orsökum sem ég kann ekki að skýra, aldrei tekist að gera kappakstur á venjulegum bílum eða sportbílum að íþróttagrein hérlendis og því er engin aðstaða til reiðu fyrir slíka keppnisgrein. Og af einhverjum ástæðum, sem ég kann enn verr að skýra, hefur tekist að koma þeirri ímynd inn hjá almenningi að bílaíþróttir, nema helst rallakstur og torfærukeppnir, séu 2. og 3. flokks íþróttagreinar sem séu einkum stundaðar af fábjánum sem skorti flest nema fé. Fyrir bragðið er kappakstur stundaður á götunum sem eykur slysahættu í umferðinni. Og vegna skorts á þeirri þjálfun sem sportbílakappakstur myndi veita venjulegu fólki, sem stundaði hann í tómstundum eins og víða erlendis, eru lakari bílstjórara í umferðinni hér en ella.

Sportbílakappakstur
Erlendis er kappakstur á sport- og keppnisbílum vinsæl íþróttagrein sem stunduð er af fjölda fólks og áhorfendum. Varla fer fram sú keppni í flokki sportbíla, GT-bíla eða forgerða (prototypes) að þar komi ekki Porsche við sögu. Síðastliðinn áratug hefur tegundarkappakstur átt vaxandi vinsældum að fagna, en þá eru allir keppendur á bíl sömu tegundar. Eftir frægan sigur Porsche 911 GT1 í LeMans 1998, sem í mynd götubíls varð sportbílinn 911 GT2, hefur vegur Porsche verið stöðugt vaxandi enda státar það af 28 þúsund skráðum sigrum í keppnum á sl. 60 árum.

Fyrsti Porsche-klúbburinn var stofnaður 1952 af örfáum „sérvitringum’’ sem áttu Porsche 356. Nú starfa 550 Porsche-klúbbar í um 60 löndum og á vegum þeirra keppa þúsundir Porsche-eigenda í alls konar akstursgreinum um hverja einustu helgi. Forkeppnir veita ökumönnum rétt til þátttöku í einhverjum þeirra mörgu kappakstra í Porsche-meistaraflokki sem haldnir eru skipulega í mörgum löndum. Einn þeirra er Porsche Michelin Supercup sem hófst 1993 (12 keppnir árlega) - viðburður sem dregur að um 120 þúsund áhorfendur í hvert skipti. Sá nýjasti er Porsche Sports Cup (frá 2005) þar sem ökumenn á Porsche reyna með sér í ólíkum greinum á borð við þolakstur, spyrnu, ökuleikni o.fl.

Þjálfun, færni og vandað tæki
Hjá Porsche í Þýskalandi er starfræktur ökuskóli þar sem áhugasamir geta fengið þjálfun og tilsögn í kappakstri og ökuleikni á sérstakri keppnisbraut (Weissach-brautin hjá Porsche í Zuffenhausen við Stuttgart). Fólk getur ekið þar sínum eigin Porsche eða Porsche-bíl sem ökuskólinn leggur til og leigir.

Sportbílakappakstur er stundaður jöfnum höndum af atvinnumönnum og sem tómstunda- og áhugamál af konum sem körlum úr öllum atvinnugreinum. Keppnin fer fram á til þess gerðum brautum. Í Þýskalandi og Bretlandi, svo dæmi séu nefnd, er sú borg ekki talin upp á marga fiska sem ekki státar af kappakstursbraut eða nálægð við slíka. Eins og með aðrar skipulagðar akstursíþróttir, sem byggja á þjálfun og færni, er litið á sportbílakappakstur sem sjálfsagðan þátt í að auka öryggi í almennri umferð með þeirri þjálfun sem honum fylgir - og því styrkja t.d. tryggingafélög marga tengundarklúbba með beinu fjárframlagi.

Porsche leggur mikinn metnað í að sjá þessum áhugahópi fyrir bíl sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í kappakstri varðandi tæknilega getu og öryggi. Þar gegnir Porsche 911 lykilhlutverki.

 

911 GT3 RS - Ein af 3 útfærslum
Jafnvel þeim sem vanir eru sportbílum kemur á óvart hve mikill munur er á sportbíl og kappakstursbíl - jafnvel sömu tegundar. Porsche býður keppnismönnum sérstakan keppnisbíl, 911 GT3, í 3 mismunandi útgáfum eftir aðstæðum viðkomandi og því hve þátttakan er mikil, þ.e. frá atvinnumanni til áhugamanns og blöndu af báðu:

- 911 GT3 Cup (997), sem vegur 1120 kg og er með 400 ha vél. Hann hefur vélarafl 357 hö/tonn og er einungis til notkunar sem keppnisbíll. (Sérstök útgáfa af honum fyrir almenna umferð hefur verið 480 ha GT3 RSR sem jafnframt hefur verið notaður í þolaksturskeppnum).

- 911 GT3 RS* (996), sem vegur 1375 kg og er með 415 ha vél og vélarafl 301,8 hö/tonn, er keppnisbíll sem jafnframt er útbúinn fyrir almenna umferð og hentar til daglegrar notkunar, ekki síst ef hún fer fram á keppnisbrautum, eins og þeir orða það dálítið lævíslega hjá Porsche - því maður sest ekki inn í þann bíl eða kemst úr úr honum nema með herkjum - en maður situr hins vegar eins og steyptur undir stýri. (* RS stendur fyrir Rennsport, þ.e. kappakstur á þýsku).

- 911 GT3 (996), sem vegur 1395 kg og er með 415 ha vél og vélarafl 297,5 hö/tonn, er sportbíll sem jafnframt er gerður fyrir kappakstur en er með þeim þægindum sem tíðkast í sportbílum til daglegrar notkunar - og er sem slíkur með þægilegustu hreinræktuðum sportbílum í daglegri notkun.

Porsche hefur lagt talsverða áherslu á að gera RS-bílinn þannig úr garði að hann sé mjög áberandi en hann er fáanlegur svartur, silfurlitur, appelsínurauður eða kálgrænn. GT3 og GT3RS eru um 30 mm lægri frá vegi en 911 Carrera. Til að gera sér betur grein fyrir stærðinni tekur 911 GT3/GT3 RS svipað pláss í bílskúr og BMW 325i (rúma 8 m2).

"Andar létt og eðlilega''
Sameiginlegt með þessum bílum er 3,6 lítra 6 sílindra vatnskæld flöt vél (996-boxarinn). Þessi vél, sem er án forþjöppunar, er að hámarksafli 415 hö við 7600 sn/mín. Hámarkstog er 405 Nm við 5500 sn/mín. Snerpa er 4,2-4,3 sek í hundrað og 8,5-8,7 sek í 160 km/klst. Á hverju brunahólfi eru 4 ventlar knúnir með 2 kambásum (keðja). Innventlarnir eru með þrepalausa stýrða opnun (VarioCam) og soggreinin með stýrt breytilegt flæði. Árangurinn er m.a. sá að þessi 415 ha bíll fer 100 km í blönduðum akstri á 12,8 lítrum af venjulegu bensíni og mengun í úblæstri er með því minnsta sem gerist (CO2 t.d. 307 g/km).

Inngjafarviðbragð skiptir sköpum í brautarkappakstri - öllu máli skiptir að ná vélinni sem fyrst upp á snúning. Og hér er ekkert verið að káka við hlutina - rauða strikið á snúningshraðamælinum í 911 GT3 RS er við 8400 sn/mín. Jafnframt vekur athygli í akstri að þrátt fyrir hve leiftursnöggt viðbragð vélarinnar er við inngjöf er gangurin lúsþýður upp í 8000 snúninga. Og hér er heldur ekkert vesen með lausaganginn - maskínan malar eins og köttur á 900 snúningum.

Ásamt þéttar stikuðum fyrstu 3 gírunum í 6 gíra kassa (handskipting) sem er með áberandi stuttu og ratvísu ílagi, er hröðun RS-bílsins annars eðlis og jafnvel meiri en snerputalan (4,3 sek) gefur til kynna; viðbragðið við inngjöf er miklu svakalegra og áhrifaríkara en maður á að venjast í jafnvel öflugustu sportbílum - og það þarf ekki að hreyfa ökklaliðinn á hægri fæti mikið til að manni skiljist hve mikilvægt er að vera ólaður niður í stól sem geri mann samvaxinn bílnum.


Af kappakstursbíl að vera er innréttingin í 911 GT3 RS boðleg hverjum sem er. Sé bíllinn valinn með Porsche Cup-pakkanum er þessum ökumannsstól skipt út fyrir keppnisstól með 6 punkta belti.

 

Porsche-tækni
Skrifa mætti langa grein um tæknina í 911 GT3 RS eins og reyndar 911-bílnum yfirleitt. Viðbragð vélarinnar og mjúkur gangurinn upp í rúmlega 8000 sn/mín er miklu meira tækniundur en margur gerir sér grein fyrir og er árangur samspils útpældrar tækni sem byggir á meiri reynslu í vélahönnun og vélauppsetningu fyrir sportbíla en nokkur annar bílaframleiðandi getur státað af.

Titaníum stimpilstangir, léttari stimplar, léttari stimpilstangir úr títaníumblöndu, minni massi í ventlabúnaði, breytilegt stýrt flæði inntakslofts í sogrein og 2 dælur sem mynda undirþrýsting í sveifarhúsi þannig að lárétt hreyfing stimplanna verður auðveldari - allt eru þetta lykilatriði varðandi inngjafarviðbragð og snúningsþol. Tveggja hvarfa pústkerfið er með mjög lítið viðnám sem auðveldar flæði bensínblöndu inn í brunahólf og afgassins út úr þeim. Þá er pústhljóðið í GT3 RS er mjög sérstakt og á sér fá eða enga hliðstæðu; talandi drunur!

3 smurdælur
Aftan á vélinni í RS-bílnum er ósamsett gegnheilt svinghjól (léttara) sem eykur inngjafarviðbragð og hámarkssnúning. Til að tryggja fullkomna smurningu vélarinnar á beinni braut sem í löngum beygjum á miklum hraða (flóttaafl) er smurkerfið lokuð hringrás með ytri geymi og sérkæli; tvær smurdælur, hvor um sig knúin af kambási útventla á hvoru heddi auk þriðju smurdælunnar í blokkinni).

Sem keppnisbílar eru 911 GT3 og GT3 RS báðir með undirvagn sem setja má upp fyrir mismunandi keppnisaðstæður; stilla má hjólhalla, hjólvísun, veghæð, mótvægi jafnvægisstanga, verkun dempara auk þess að stilla stöðu og áhrif vindskeiðarinnar aftan á bílnum til að velja það niðurþrýstiafl sem hentar viðkomandi keppni/braut/aðstæðum.

Tölvustýrð fjöðrun
Fjöðrunin er tölvustýrð (PASM = Porsche Active Suspension Management) og með tvenns konar grunnforrit, annars vegar Sport, sem gerir fjöðrunina stinnari og notað er t.d. á sléttri braut með beygjum og hins vegar Normal fyrir auðveldari braut eða venjulegan veg. Breytist undirlag og verði ósléttara skiptir kerfið sjálfvirkt úr Sport í Normal og svo aftur til baka þegar komið er á slétt undirlag. Stýrikerfi fjöðrunarinnar (PASM) tengist vélstýrikerfinu í GT3 RS þannig að sé Sport valið - til að taka kröftuga rispu, en valið er með veltirofa í miðjustokknum, eykst vélartogið um 25 Nm á miðbikinu - og þurfti þó ekki til að gera mann enn breiðleitari við inngjöf.

Heildarþyngd, fjaðrandi þyngd, snerilstyrkur
Höfuðandstæðingar í kappakstri eru ekki keppinautarnir á hinum bílunum heldur þyngdaraflið og loftviðnámið. Færni ökumanna til að glíma við þessa tvo náttúrkrafta er misjafnlega mikil - sumir hafa meiri tilfinningu í skrokknum gagnvart þessum "elementum'' en aðrir - og sumir sjá aldrei ljósið! Til að ökumaður og tæki hafi betur í þessari glímu skipta veggrip og straumlína bíls gríðarlega miklu máli. Til að standast utanaðkomandi krafta á borð við flóttaafl beitir Porsche margvíslegri tækni sem þó snýr öll að grundvallaratriðum:

Hjá GT3 RS er styrkur burðarbúrsins í hámarki jafnframt því sem þyngd bílsins er haldið í lágmarki. Það er gert með notkun léttefna á borð við ál blandað magnesíum og/eða títaníum, með koltrefjastyrktu plast o.fl.

Vélarblokk, hedd, gír- og drifhús, stýrisás, hurðir og húdd eru úr áli. Stýrishólkur er úr magnesíumblöndu og körfustólarnir, sem vega einungis um 10 kg hvor og standast staðlaðar keppnis-öryggisreglur, eru með grind úr koltrefjaplasti. Afturrúðan er úr plexigleri (plasti) í RS en hún er 3 kg léttari en rúða úr öryggisgleri eins og í GT3.

Bæði framvagn og afturstell eru hönnuð með það fyrir augum að halda fjaðrandi þyngd hjóls í lágmarki. Dempari getur haldið léttu hjóli lengur í snertingu við veg en þungu hjóli auk þess sem lóðrétt hreyfing þungd hjóls hefur áhrif á hreyfingar yfirvagns. Í þessu skyni er t.d. afturhjólunum fest á burðarramma sem svo er fest upp í botn bílsins til að hann fjaðri ekki með hjólunum.

Fjöðrun er sjálfstæð á hverju hjóli, McPherson gormaturnar og tölvustýrðir demparar. Mikill snerilstyrkur yfirvagns, en snerilstyrkur er sérfag Porsche, og léttur hjólabúnaður tryggir hámarksveggrip dekkjanna sem eru með sjálfvirkan viðgerðarbúnað tengdan loftdælu (235/35 ZR 19 að framan en 305/30 ZR 19 að aftan).

19" felgurnar úr gegnheilu álblönduðu magnesíum, 8,5" breiðar að framan en 12" að aftan, ásamt sérstökum keppnisdekkjum, hjálpa til við að halda fjarðrandi þungd hjólsins sem minnstri auk þess sem felgurnar eru nógu sterkar til að þola þá fítonskrafta og álag sem fylgja kappakstri.

Í kappakstursbíl skiptir máli að sem minnst hreyfing sé á milli yfirvagns og undirvagns, þ.e. að hjólastellið haldist á sínum stað sama á hverjum djöflinum gengur. Í þessu skyni eru t.d. álfóðringar í stað gúmfóðringa á togstöngum framstellsins. Það skyldi því ekki koma á óvart þótt veg- og boddíhljóð sé snöggt um meira í RS-kappakstursbílnum en í GT3-sportbílnum.

Stýri með tvenns konar niðurfærslu og rautt strik
Eins og í öðrum Porsche 911 er stýrisvélin með tannstöng og vökvaaðstoð. Niðurfærslan er þannig í GT3 RS að hún er meiri þegar ekið er beint af augum og á fáeinum gráðum til hvorrar handar á stýrishjólinu. En um leið og lagt er meira á stýrið er niðurfærslan minni og áhrifin meiri. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að þægilegra er að halda bílnum á beinni stefnu, t.d. þegar ekið er á þjóðvegi (annars myndi bíllinn hafa tilhneigingu til að rása) en stýrissvörun er hins vegar ákveðnari og næmari í kröppum beygjum - þarf lítið að leggja á. Á miklum hraða á keppnisbraut getur skipt sköpum að vita nákvæmlega hver vísun framhjólanna er þegar komið er út úr beygju. Þess vegna snýr áberandi rautt strik á stýrishjólinu í RS-bílnum lóðrétt upp þegar hjólin vísa beint fram.

Bremsubúnaður sem dugar
Í kappakstursbíl ráða bremsurnar einfaldlega úrslitum. Dugi þær ekki út keppnina, hver sem hún er, verður henni varla lokið. Hjóldælurnar eru úr álblöndu; 6 stimpla dælur að framan en 4ra stimpla að aftan. Þvermál stáldiskanna, sem eru með gegnumboraðar kælirásir, er 350 mm. GT3 RS má sérpanta með 380 mm bremsudiskum úr keramískri efnablöndu. Keramik-diskarnir þola meiri hitnun auk þess sem þeir vega 50% minna en stáldiskarnir. Kerfið innifelur 4ra rása ABS (8)-læsivörn.

Gripstýring
Í 911-bílnum liggur vél og drifbúnaður nánast ofan á afturhjólunum, vegur þar nánast salt. Sambyggt drif og gírkassi er framan við afturhjólin en vélin fyrir aftan þau. Sérstök olíudæla ásamt stórum olíukæli smyr gír- og drifbúnað með úðun.

Mismunardrifið í GT3 RS er með stýrðri seiglæsingu (sá búnaður kom upphaflega í 911 Carrera GT). Þessa læsingu nefnir Porsche TC (Traction control), þ.e. gripstýringu til aðgreiningar frá spólvörn (ASR) sem er eins konar öfugt ABS-kerfi. Gripstýringin (TC) sameinar virkni ASR, ABD og MSR (spólvörn, mismunardrifsbremsa og hamlari frá vél). Gripstýringuna má gera óvirka með takka (fyrir þá sem vilja og kunna að nýta lárétta krafta flóttaafls til að nýta yfirstýringareiginleikann til að stýra bílnum).

Stýrða mismunardrifslæsingin kemur í veg fyrir spólun þegar tekið er af stað. Læsingin virkar þannig að meira átak verður á því afturhjólinu sem bíllinn leggst á í beygju (ytra hjólinu), sem auðveldar hröðun út úr beygju. Stýringin virkar hins vegar þannig að læsingin er 28% þegar beygja er tekin með inngjöf en 40% þegar vélin er látin halda við í beygju.

Öryggi - og engar refjar
Í Porsche 911 GT3 og GT3 RS er öryggisbúnaður meiri en í sportbílum. Í framstykkinu er öflugur stálrammi sem beinir kröftum frá rými ökumanns og farþega. Í framstuðaranum eru eins konar krumpupúðar sem taka við minni höggum og auðvelt er að endurnýja. Stýrishólkurinn úr magnesíum getur gengið saman um 100 mm fyrir framan hvalbakinn. Til varnar, framan við hvalbakinn, er svert stálrör sem sveigt er til endanna niður í sílasana og nær inn að dyramiðju. Rörið tengist öflugum stálramma umhverfis framrúðuna.

Innan í hurðunum eru hallandi varnarbitar úr stáli sem ásamt hliðarloftpúðum veita vörn gegn höggi frá hlið (POSIP). Öryggisloftpúðarnir eru 2ja þrepa; útþenslan er ekki jafn kröftug við minni árekstur og er það fyrirkomulag haft til að draga úr óþægindum ökumanns og farþega. GT3 RS er með íboltað veltibúr aftan við framstóla og ýmsan annan sérhæfðan öryggisbúnað svo sem 6 punkta belti fyrir ökumann, slökkvitæki, útbúnað fyrir höfuðrofa, höggvarin rafgeymi o.fl. sem keppnisreglur krefjast (Clubsport-pakki er staðalbúnaður í RS).

Straumlína og fleira
Athygli vekur að GT3 RS er með fullkomna innréttingu eins og í sportbíl, t.d. með stillingar stýrishjóls og stóla, fullkomið miðstöðvarkerfi og annan þægindabúnað. Sé sjálfvirka loftkælikerfinu, sem er staðalbúnaður, sleppt, léttist bíllinn um 20 kg.

Í framstykkinu eru eru 3 kælar fyrir kælivökvann, einn í miðjunni og 2 til hliðanna. Loftopið í svuntunni er fyrir miðkælinn. Efri ristin, inntakið á húddinu leiðir loft í gegnum miðkælinn og út við framrúðuna og yfir bílinn og loftstreymið þrýstir bílnum niður á veginn. Undir framstykkinu er vindskeið sem beinir loftinu út til hliðanna og inn á hliðar bílsins: Í stað þess að fara undir hann og lyfta honum upp á mikilli ferð er loftstreymið nýtt til að gera bílinn stöðugri í rásinni á miklum hraða.

Aftast er tvívængja vindskeið úr koltrefjaplasti sem stilla má fyrir keppni. Afturvindskeiðin er jafnframt búin svokallaðri Gurney-vör sem minnkar sog (drag) fyrir aftan bílinn. Loftinntök í skottlokinu, þ.e. í vélarhlífinni, beina loftstraum inn í bæði inntaksop soggreinar vélarinnar.

GT3 RS er með áberandi meiri sporbreidd að aftan (44 mm) en 911 Carrera. Vindviðnámsstuðull 911 GT3 RS er 0,30 en það mun vera með því lægsta sem gerist. Áberandi Bi-Xenon-ökuljósin hafa tvöfaldan ljósstyrk venjulegra halogenljósa.

Farangursrými er 105 lítrar og rúmar eina sæmilega líkamsræktartuðru eða 2 -3 innkaupapoka. Bensíngeymirinn tekur 90 lítra og er þannig staðsettur að hann er varin af höggvarnarbúnaði framhlutans. Upphaflega kælivökvann þarf aldrei að endurnýja. Smurolíuna á vél á að endurnýja á 2ja ára fresti (eða 20 þús. km.) og bensínsíuna á 78 þúsund km. fresti.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar

Ath. Fleiri greinar um Porsche eru í köflunum BÍLAR og BÍLAPRÓFANIR á aðalsíðu