Af Vefsíðu Leós (www.leoemm.com)
Fjögur atriði sem koma mörgum
bíleiganda
á óvart

Margir sem tekið hafa bíl á leigu hér heima eða í útlöndum og þurft að dæla á hann eldsneyti hafa þurft að stoppa áður en ekið var inn á bensínstöð og fara út úr bílnum til að skoða hvoru megin á bílnum áfyllingin væri til að koma réttu megin að dælunni. Margir vita ekki að þetta er óþarfi því merki í mælaborði flestra bíla (sem jafnvel er ekki nefnt í handbók bílsins) segir til um hvoru megin áfyllingin er utan á bílnum. Við eldsneytismælinn í mælaborðinu er mynd af áfyllingardælu og öðru megin á táknmyndinni er stúturinn og slangan. Ef þú skoðar táknmyndina við eldsneytismælinn í þínum eigin bíl og slangan er hægra megin á henni - máttu reiða þig á að áfyllingin er hægra megin á bílnum. Væri stúturinn og slangan vinstra megin á táknmyndinni máttu bóka að áfyllingin er vinstra megin, þ.e. bílstjóramegin. Þetta þýðir að þú getur héðan í frá ekið hiklaust réttu megin upp að dælu á bensínstöð - á næstum því hvaða evrópskum lánsbíl sem er - en eins og með aðrar reglur eru undantekningar frá þessari en þó líklega fáar, en á meðal þeirra eru SsangYong Kyron og nýi Toyota Hilux - en í þeim skaltu ekki láta koma þér á óvart að eldsneytismælirinn er sömu megin í mælaborðinu og áfyllingin er á bílnum!

 

Annað atriði sem stærstur hluti bíleigenda virðist ekki hafa hugmynd um (og týnir því eða gleymir tanklokinu á bensínstöðvum) er að á nánast öllum bílum með yfirlok er innan á því statíf fyrir tappann/lokið til að geyma það á meðan fyllt er á tankinn. Rauf á tappanum er rennt í þetta klof sem er innan á lokinu.


Þriðja atriðið sem valdið hefur sumum miklum vandræðum eru krókarnir (uglurnar) sem eru í verkfærasetti margra bíla og á að skrúfa í framstuðarann eða aftursturðarann, eftir að lítið lok hefur verið pillað úr, til að binda í ef draga þarf bílinn (t.d. Opel, Skoda, VW og fleiri). Hvernig sem fólk hamast nær það ekki að festa þessum krókum eða uglum því það fær ekki skrúfganginn til að virka. Ástæðan er einfaldlega sú að þessar uglur eiga það sameiginlegt að vera með öfugum skrúfgangi (til að höggið við drátt geti ekki skrúfað þær úr).


Fjórða atriðið er að sumir sem eiga nýlega ameríska bíla/lúxusjeppa/pallbíla fá næstum því hjartaáfall þegar vélarljósið lýsir allt í einu án þess að nokkuð viðist vera að bílnum (100 þús. kr. reikningur dansar fyrir augunum á þeim). Oft er ástæðan sú að fyllt hefur verið á eldsneytisgeyminn með vélina í gangi - en það er bannað í Bandaríkjunum og kostar í mörgum tilfellum verkstæðisheimsókn til að láta "núlla'' vélarljósið út (í sumum bílum hverfur það af sjálfu sér eftir næstu gangsetningu - en það vita ekki allir).Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar